152. löggjafarþing — 26. fundur,  25. jan. 2022.

skerðing í strandveiðum.

[14:23]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Bara svo að við höldum staðreyndum til haga þá er úthlutunin í ár yfir tíu ára meðaltali. Það er rangt að tala um að hér sé einhver stefnubreyting á ferð. Þetta er afleiðing af því að veiðiráðgjöf í þorski var lækkuð um tæp 40.000 tonn. Það er staðreynd. Og til að taka þetta allt saman og setja í samhengi hafa síðustu 12 ár 3,4% af aflamarki í þorski runnið til strandveiða að meðaltali. Í ár er hlutfallið 3,8%. Almenn skerðing á aflaheimildum hefur áhrif á alla, á allt kerfið. Það er ekki rétt að halda því fram að verið sé að skerða strandveiðarnar sérstaklega heldur er veiðiráðgjöf í þorski minni og því minna til skiptanna.

Virðulegi forseti. Strandveiðarnar fá hins vegar hærra hlutfall en að meðaltali síðustu 12 ár og það er staðreynd. Við höfðum væntingar til þess að skiptimarkaður loðnu hefði gefið meira síðast en búist var við og því varð að bregðast við stöðunni eins og hún lítur út. En það er rétt að halda því til haga að skiptimarkaðir í nokkrum öðrum tegundum eiga eftir að eiga sér stað, eins og hér hefur áður verið rakið, og þannig mun líklega skapast svigrúm til að bæta inn í strandveiðipottinn. En að halda því fram að stefnubreyting hafi orðið og að halda því fram að hér sé um lægra hlutfall að ræða til strandveiða en áður hefur verið er einfaldlega rangt. Og ég bið hv. þingmann að halda sig við staðreyndir í fyrirspurnum sínum.