152. löggjafarþing — 46. fundur.
stjórn fiskveiða, 1. umræða.
frv. EÁ o.fl., 73. mál (frjálsar handfæraveiðar). — Þskj. 73.

[12:54]
Flm. (Eyjólfur Ármannsson) (Flf):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006. Flutningsmenn ásamt mér eru Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Guðmundur Ingi Kristinsson, Inga Sæland, Jakob Frímann Magnússon og Tómas A. Tómasson, öll þingmenn fyrir Flokk fólksins.

Í 1. gr. segir eftirfarandi, þ.e. um lög um stjórn fiskveiða:

„Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða sem orðast svo:

Þrátt fyrir önnur ákvæði þessara laga er öllum þeim íslenskum ríkisborgurum sem hafa tilskilin réttindi til skipstjórnar og vélstjórnar, ef þess er krafist vegna stærðar vélar viðkomandi báts, heimilt að stunda fiskveiðar á eigin bát með fjórum sjálfvirkum handfærarúllum. Báturinn skal vera undir 10 metrum að lengd. Báturinn skal hafa viðurkennt haffæri. Á hverjum bát mega vera tveir menn í áhöfn og er hámarksfjöldi sjálfvirkra rúlla þá fjórar rúllur á bát. Að fimm árum loknum skal skoðuð reynslan af þessum veiðum með tilliti til þess hvort setja eigi viðbótartakmarkanir sem taki eingöngu til veiðisvæða bátanna og fjölda veiðidaga. Veiðar þessara báta eru ekki reiknaðar til aflamarks og hafa ekki áhrif á heildarúthlutun aflamarks til annarra fiskiskipa.“

Í 2. gr. er kveðið á um að lögin skuli þegar öðlast gildi.

Frumvarp þetta var upphaflega lagt fram af Guðjóni Arnari Kristjánssyni, fyrrverandi formanni Frjálslynda flokksins, á 132., 133., 135. og 136. löggjafarþingi. Er það nú endurflutt lítillega breytt.

Guðjón Arnar barðist fyrir því árum saman að almenningur fengi tækifæri til að stunda frjálsar handfæraveiðar. Sú barátta stuðlaði m.a. að því að opnað var á strandveiðar fyrir rúmum áratug. Strandveiðarnar hafa skilað sjávarbyggðum miklu, en strandveiðikerfið er eigi að síður mörgum annmörkum háð. Aðeins má veiða ákveðið marga daga í mánuði og aðeins á ákveðnum vikudögum. Þá er potturinn lítill og klárast reglulega áður en strandveiðitímabilinu lýkur, með þeim afleiðingum að margir ná ekki að fullnýta veiðirétt sinn. Þess má einnig geta að hæstv. sjávarútvegsráðherra er þegar búinn að skerða pottinn, svokallaðan pott sem strandveiðimenn veiða úr, sem var nú lítill fyrir, um 1.500 tonn og var það eitt fyrsta embættisverk ráðherra í embætti þann 23. desember sl.

Flokkur fólksins hefur ávallt stutt frjálsar handfæraveiðar. Mikilvægt er að endurreisa rétt íbúa sjávarbyggðanna til að nýta sjávarauðlindina á þann hátt að fjölskyldur geti lifað af fiskveiðum. Öflug smábátaútgerð hleypir nýju lífi í sjávarbyggðirnar og verður forsenda enn fjölbreyttara atvinnulífs og mannlífs. Það heldur landinu öllu í byggð og er þjóðhagslega hagkvæmt. Frelsi til handfæraveiða er skref til sátta í deilum um sjávarútvegsmál, sem hafa áratugum saman skaðað tiltrú almennings á stjórnkerfið og stjórnmálin.

Það er kominn tími til að við leyfum þessu litla frumvarpi að verða að lögum. Það væri gott skref til sátta fyrir Alþingi Íslendinga í deilu sem staðið hefur yfir áratugum saman, sem hefur varað í áratugi. Má m.a. benda á að gerð var bíómynd fyrir 20 árum sem hét Hafið og kom hún af stað mikilli umræðu um kvótakerfið. Í febrúarmánuði voru svo sýndir frábærir þættir sem heita Verbúðin og sköpuðu mikla umræðu í samfélaginu um það óréttlæti og þau rangindi sem kvótakerfið og stjórn fiskveiða hefur verið áratugum saman, og hvers konar hernaður það er gegn byggðum landsins og hreinlega svik stjórnvalda við almenning í landinu og sérstaklega íbúa landsbyggðarinnar. Af þeim sökum er þetta frumvarp um frjálsar handfæraveiðar lagt fram að nýju með þeim skilyrðum sem þar eru tilgreind.

Þess má geta að handfæraveiðar hafa verið stundaðar á Íslandi frá landnámi og Íslendingar voru árhundruðum saman bændur sem stunduðu sjávarútveg úr verum. Lög Íslands bera þess merki. Í Jónsbók, sem var löggilt árið 1282, segir í öðrum kapítula, með leyfi forseta: „Allir menn eigu at veiða fyrir utan netlög at ósekju.“

Þetta hefur verið grundvallarregla í íslenskum rétti árhundruðum saman og er enn, þ.e. að allir menn og konur eigi rétt á veiði fyrir utan netlög án takmarkana. Landsmenn sóttu í hafalmenninga utan netlaga eftir föngum án takmarkana af hálfu stjórnvalda uns sett voru lög á ofanverðri 19. öld sem veittu heimild til að takmarka og banna notkun einstakra veiðarfæra á tilteknum svæðum. Í kjölfarið komu heimildir til að friða einstök svæði fyrir veiðum. Síðar voru lögleidd ákvæði um að einstakar veiðar skyldu háðar leyfi sjávarútvegsráðherra. Jafnt og þétt jukust síðan takmarkanir og skerðingar sem komið var á í fiskveiðum.

Með útfærslu landhelginnar í 200 sjómílur árið 1975 sköpuðust síðan forsendur fyrir tiltölulega fullkominni stjórnun. Sama ár birti Hafrannsóknastofnun skýrslu þar sem fram kom að þorskstofninn væri ofveiddur og takmarka þyrfti veiðar verulega. Með lögum nr. 81/1976, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, fékk ráðherra heimild til að ákveða hámark þess afla sem veiða mátti af hverri fisktegund á tilteknu tímabili og á árinu 1977 voru í fyrsta sinn, á grundvelli tillagna Hafrannsóknastofnunar, innleiddar almennar takmarkanir á þorskveiðum. Þessi aðferð við fiskveiðistjórnun byggðist fyrst og fremst á sóknartakmörkunum, var kölluð skrapdagakerfi og var óbreytt við lýði fram til ársins 1983. Þá þótti sýnt að með kerfinu næðust engan veginn þau markmið sem stefnt var að til að afstýra ofveiði. Þá hafði fiskveiðiflotinn stækkað verulega með tilheyrandi ofveiði úr stofnum sem sættu engum takmörkunum og er þetta aðdragandinn að kvótakerfinu í dag.

Markmiðið með kvótakerfinu, hin málefnalegu rök fyrir kvótakerfinu, eru þau að draga úr ofveiði eins og hér hefur verið rakið. Það hefur öll löggjöf gert frá því að Jónsbókarákvæðið var sett árið 1282, þ.e. að takmarka veiðar ef um ofveiði er að ræða. Það eru einu málefnalegu rökin fyrir að takmarka aðgang að auðlindinni. Önnur rök eru ekki fyrir hendi. Það að gefa handfæraveiðar frjálsar mun ekki leiða til þess að fiskstofnum verði ógnað við Ísland. Málefnalegu rökin, sem ég hef rakið hér, eru ekki fyrir hendi. Það er ekki hægt að eyða fiskstofnum á Íslandi með öngli og á krókaveiðum, það er bara ekki hægt. Þó að landsmenn myndu reyna eins og þeir gætu myndi það aldrei nokkurn tímann takast og þess vegna á að gefa handfæraveiðar frjálsar.

Undan ströndum Íslands eru ein gjöfulustu fiskimið í heimi. Þá auðlind hafa Íslendingar nýtt frá því að land byggðist. Íbúar sjávarbyggðanna eiga tilkall til fiskimiðanna undan ströndum landsins. Frá landnámi hefur byggð þar byggst á fiskveiðum og landbúnaði. Nýjar atvinnugreinar, fiskeldi og ferðaþjónusta, eru árstíðabundin aukabúgrein. Takmarkanir stjórnvalda á veiðum íbúanna undan ströndum sjávarbyggðanna eru skerðing á búseturétti þeirra og eru það rök fyrir frjálsum handfæraveiðum. Takmarkanir á atvinnufrelsi þurfa að byggjast á sterkum rökum og ekki ganga lengra en nauðsyn krefur. Aflahámark sem takmarkar fiskveiðar á eingöngu að ná til þeirra veiða sem ógna fiskstofnum, ekki til veiða sem ógna þeim ekki. Handfæraveiðar ógna ekki fiskstofnum eins og áður sagði.

Atvinnulíf er grundvöllur allrar byggðar og á landsbyggðinni eru fiskveiðar og landbúnaður grundvöllur byggðarinnar. Ferðaþjónusta er vissulega góð aukabúgrein en hún er árstíðabundin eins og áður sagði. Þetta tengist líka atriði sem lýtur að jöfnum búsetuskilyrðum í landinu og er grundvallarréttur allra landsmanna. Val á búsetu á landsbyggðinni á ekki að vera val um skerta þjónustu eða skert búsetuskilyrði eða lífsgæði. Skerðing á rétti til handfæraveiða er slík skerðing, er skerðing á lífsgæðum. Sagt er að leiðin til heljar sé vörðuð góðum áformum. Kvótakerfið, sem komið var á til bráðabirgða árið 1984, er slík varða fyrir margar sjávarbyggðir. Aflamark í þorski var þá lækkað í 220.000 tonn til að byggja þorskstofninn upp en það eru sömu veiðiheimildir og í dag. Árangurinn er enginn. Það er enginn árangur af núverandi kvótakerfi. Tölurnar sanna það. Örfáir útgerðarmenn náðu með tímanum til sín mestum hluta aflamarksins og skeyttu litlu um sjávarbyggðirnar. Kvótakerfið er óbreytt og sjávarbyggðum heldur áfram að hnigna og íbúum fækkar. Sú þróun mun halda áfram verði nýtingarréttur sjávarbyggðanna ekki viðurkenndur. Það er viðurkenning á atvinnufrelsi og búseturétti í landinu. Mikilvægt er að endurreisa rétt íbúa sjávarbyggðanna til að nýta sjávarauðlindina á þann hátt að fjölskyldur geti lifað af fiskveiðum. Öflug smábátaútgerð mun hleypa nýju lífi í sjávarbyggðirnar og verða forsenda enn fjölbreyttara atvinnulífs og mannlífs. Það heldur landinu öllu í byggð og er þjóðhagslega hagkvæmt.

Flokkur fólksins berst þess vegna fyrir því að íbúar sjávarbyggðanna og þjóðin fái að njóta auðlinda sinna. Við viljum nýtingarstefnu um fiskimiðin þar sem auðlindin er sameign þjóðarinnar en ekki einkaeign fárra útvalinna. Við beitum okkur fyrir því með þessu frumvarpi að íbúar sjávarbyggðanna njóti þessa aukna réttar sem er svo sjálfsagður og er grundvöllur búsetu. Þetta er sannarlega skref til sátta í sjávarútvegsmálum eins og áður hefur verið bent á.

Strandveiðar, sem komið var á fyrir um áratug, hafa reynst vel fyrir hinar dreifðu sjávarbyggðir þó að litlar séu. Strandveiðar valda minnstu raski í hafrýminu, hafa minnsta kolefnissporið og hámarka verðmæti aflans. Smábátaútgerð hefur spornað gegn samþjöppun og komið í veg fyrir að fjölbreyttur sjávarútvegur legðist af á landsbyggðinni. En með áframhaldandi stefnu stjórnvalda mun það ekki verða. Það er alveg ljóst að núverandi kerfi strandveiða — það er einfaldlega ekki nógu mikil umsetning, ekki nógu miklar tekjur af þessu, fjölskyldur í landinu geta ekki lifað af slíkum veiðum á ársgrundvelli. Við sjáum þetta líka í fjárfestingu í bátum sem er nánast engin. Þetta eru litlir bátar og það er engin endurnýjun í bátaflotanum. Aðgengi að þessum veiðum er takmarkað við 48 daga á ári, 12 daga mánaðarins, og það er ljóst að ekki er aðgangur fyrir ungt fólk sem vill fara í útgerð og það mun væntanlega flytja til Noregs. Ég get tekið sem dæmi að í tímaritinu Fisk og Kyst í Noregi er fjallað um stóraukinn hóp ungs fólks sem sækir í þessa atvinnugrein. Það er eitthvað annað en á Íslandi. Í Noregi er því tekið fagnandi. Það er vegna þess að stuðlað hefur verið að því að fá aukna endurnýjun, að nýjar kynslóðir geti tekið þátt í fiskveiðum og byggt lífsviðurværi sitt á strandveiðum. Það er það sem Ísland á að gera og það er markmið þessa frumvarps.

Baráttan fyrir frjálsum strandveiðum er réttindabarátta, barátta fyrir atvinnufrelsi og búseturétti. Þær takmarkanir sem eru á atvinnufrelsi mega ekki ganga lengra en nauðsyn krefur og það að takmarka strandveiðar og hafa þær ekki frjálsar — ég vil meina að það sé ómálefnaleg takmörkun á atvinnufrelsi sem stenst nánast ekki stjórnarskrá. Af hverju er það? Jú, það er vegna þess að veiðar á handfæri ógna ekki fiskstofnum við landið. Þær gera það ekki. Ef einhver ætlar að koma upp í pontu og halda því fram þá verði honum að góðu. Það væri mjög fróðlegt að heyra viðkomandi færa rök fyrir því að veiðar á öngul, veiðar á krók, ógni fiskstofnum á einum gjöfulustu fiskimiðum í heimi. Ég skora þá á hinn sama að prófa að stunda þær veiðar. Þetta er erfið vinna og þarf mikla þrautseigju og mikið úthald, oft í erfiðum veðrum, þetta er ekki fyrir hvern sem er, þetta eru veiðar sem byggjast á hæfileika einstaklinganna og engu öðru.

Þessi barátta fyrir jöfnum búseturétti og rétti íbúa sjávarbyggðanna á landsbyggðinni mun halda áfram. Þetta frumvarp hér er bara lítið skref í þá átt. Byggð í landinu — þetta er spurning um það hvort við ætlum að byggja þetta land allt eða eingöngu hér á höfuðborgarsvæðinu, að það verði líka byggt í dreifðum byggðum eins og á Vestfjörðum, Austfjörðum og í kringum allt land. Þetta er spurning um að fólk fái að standa á eigin fótum en ekki þiggja alla ölmusu frá höfuðborgarsvæðinu eða Reykjavík, þar sem verið er að kría út einstaka störf, opinber störf, og reyna að redda einhverju hingað og þangað. Þetta er spurning um að setja völdin aftur til fólksins, aftur heim í hérað, og þessi réttur verður einungis tryggður með eflingu strandveiða.

Ég vísa þessu máli til hv. atvinnuveganefndar og vænti þess að það fái góða meðferð og verði samþykkt sem lög frá Alþingi síðar á þessu þingi.



[13:10]
Halla Signý Kristjánsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Eyjólfi Ármannssyni fyrir flutning frumvarpsins. Það eru margar spurningar sem vakna og eiginlega fleiri en ég kem fyrir hérna á þessum tveimur mínútum. Eins og segir hérna í greinargerðinni var frumvarpið upphaflega lagt fram af Guðjóni heitnum Arnari Kristjánssyni. Hans barátta leiddi til og stuðlaði að því að opnað var á strandveiðar fyrir rúmum áratug síðan. Í fyrsta lagi langar mig að spyrja: Hafa flutningsmenn eitthvað skoðað áhrif frumvarpsins á það frábæra kerfi sem ég styð innilega, strandveiðarnar? Flutningsmaður talar um að þetta frumvarp verði til þess að hægt verði að vera með útgerð sem fjölskylda getur stundað. Hér á að fara á bát sem er ekki meira en 10 metrar. Í umhverfis- og samgöngunefnd er ég framsögumaður frumvarps um áhafnir skipa sem fjallar mikið um öryggi sjómanna. Það væri fróðlegt að heyra hvernig það öryggi er tryggt í þessu.

Síðan langar mig að spyrja: Ógnar strandveiðifyrirkomulagið fiskstofnunum? Svo langar mig líka að spyrja hvernig flutningsmenn hugsa sér að reka þetta kerfi samhliða strandveiðikerfinu án þess að það verði takmarkanir á aflaheimildum.



[13:12]
Flm. (Eyjólfur Ármannsson) (Flf) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég hef verið að rannsaka uppruna núverandi strandveiðikerfis og verið að reyna að finna skjölin sem liggja á bak við. Ég hef meira að segja lesið lögfræðiálit sem kom í kjölfar þess og laut að áliti mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna. Þegar Ísland var dæmt sagði mannréttindanefndin að núverandi fiskveiðistjórnarkerfi væri brot á jafnræðisreglu mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Hv. þingmaður minnist á 10 metra. Við höfðum 10 metra inni, ekki undir 10 metrum. Í gamla frumvarpinu voru það 30 brúttórúmlestir. Við megum ekki rugla því saman við 30 tonn, þetta er annað hugtak. Þetta er spurning um 10 metra eða jafnvel 12, 10 metrar ættu að vera nóg. Varðandi öryggi segir í lögunum að báturinn skuli hafa viðurkennd haffæri. Smábátarnir í dag eru yfirleitt undir 10 metrum. Hvað varðar haffæri og öryggismál þá er það að sjálfsögðu tryggt. Þetta yrðu að vera skip sem eru með viðurkennd haffærisskírteini þannig að öryggið ætti alveg fyrir hendi í núverandi kerfi.

Varðandi núverandi kerfi, 48 daga kerfið, sé ég fyrir mér að með því að gefa strandveiðar algerlega frjálsar myndi núverandi kerfi leggjast af með tíð og tíma. Ég tel reyndar að það myndi leggjast af með það sama. Það er alger óþarfi að hafa 48 daga þegar við erum búin að gefa frjálsar strandveiðar. Strandveiðikerfið í dag byggist á frelsi, það byggist á því að einstaklingarnir sjálfir fái sér bát og þetta ætti að vera þannig að þeir ættu að eiga bátana sjálfir. Stórútgerðin getur ekki farið að kaupa 50 báta og farið að gera menn út. Það er grundvallaratriði. Þetta ógnar ekki fiskstofnum en þetta kemur í staðinn fyrir núverandi kerfi.



[13:14]
Halla Signý Kristjánsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Þetta ætti að koma í stað núverandi strandveiðikerfis. Á síðasta ári voru veidd um 11.000 tonn og við erum með ráðgjöf upp á 220.000 tonn, eins og hv. þingmaður kom inn á og fullyrti að enginn árangur hefði orðið af kvótakerfinu sem var sett á fyrir 40 árum. Þá langar mig að spyrja hv. þingmann: Hvernig liti dæmið út núna hefðu ekki verið settar á þær takmarkanir fyrir 40 árum, ef ráðgjöfin væri enn þá 220.000 tonn? Hefði kvótinn ekki verið settur á 1983, hvernig liti fiskstofninn út núna, ef enginn árangur hefur orðið af kvótakerfinu, sem við getum tekið aðra umræðu um? Það eru þá komnar tvær spurningar um þetta.

Síðan finnst mér mjög undarlegt að ekki sé verið að horfa á að við eflum frekar strandveiðarnar sem hafa skilað sjávarbyggðum miklu og eru mjög mikilvægar fyrir byggðir landsins. Í strandveiðikerfinu eru stærri bátar, þar er hægt að notast við stærri báta, öruggari báta, og ef við færum að horfa til minni báta erum við náttúrlega farin að ógna svolítið örygginu. Við erum að tala um að 9 metra bátur með tveimur mönnum geti gert út allt árið um kring. Þá finnst mér vanta inn í þetta að við horfum svolítið til þess hvað þetta þýðir, af því að við höfum núverandi kerfi, við höfum þessa ráðgjöf og höfum ákveðið kvótakerfi, þá skil ég ekki hvernig er hægt að afmarka þessa veiðar ef við ætlum að hleypa þeim frjálsum allt árið um kring.



[13:16]
Flm. (Eyjólfur Ármannsson) (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir seinna andsvar sitt. Hvernig mæla menn árangur? Þorskveiðin var 220.000 tonn 1984. Í dag held ég að hún sé 220.417 tonn. Það er 471 tonna árangur. Ef þú stendur í stað er það enginn árangur, það bara er það ekki. Við erum reyndar farin að tala um kerfi sem er ekki strandveiðikerfið, svo það liggi alveg fyrir. Í strandveiðikerfinu, ef það er mikill fiskur þá er væntanlega mikil veiði. Veiðihæfni öngla er bara þannig að það er ekki alltaf sem bitið er á. Ef þú hendir öngli eða króki út í Faxaflóa er ekkert víst að þú sért farin að stunda handfæraveiðar þar. Það er ekki víst að fiskurinn bíti á. Ég sá einhvers staðar að það væri 0,6% veiðihæfni, eða hvort það var 0,06%. Það þyrftu nokkur hundruð fiskar að synda fram hjá áður en bitið væri á. Sá sem veiðir með trolli sópar þessu öllu upp. Hann myndi taka alla 1.000 fiskana. Veiðihæfnin er bara allt öðruvísi með öngli. Það að allir fiskar bíti á hvern þann öngul sem fer ofan í hafið þannig að allir fiskar deyi og við útrýmum fiskstofnunum er bara ekki að fara að gerast. Það mun aldrei gerast, aldrei nokkurn tímann.

Varðandi stærðina þá erum við með 10 metra af því það er stærðin sem er verið að nota í dag. Við vorum að hugsa um 12 metra. En þú ferð ekki á 20 metra skip með fjórar rúllur. Það bara gerist ekki. Það er ekki þannig. Það komast fjórar rúllur á bát, á þessum 10 metra skipum, allt að 10 metrum. Það má alveg opna fyrir það að hafa 12 metra eða stærri báta, það er alveg sjálfsagt mál, en þú ferð ekki að setja fjórar rúllur á risaskip. Það gerist ekki. Þetta frumvarp á að gefa tækifæri fyrir landsbyggðina, tækifæri fyrir sjávarbyggðir. Það er alveg sjálfsagt mál ef hv. þingmaður (Forseti hringir.) er á móti frjálsum strandveiðum að hún segi það bara. Það sama með Vinstri græna, sama með sjávarútvegsráðherra. En í guðanna bænum verið ekki að fara í kosningabaráttu og segja að það eigi að efla strandveiðar, (Forseti hringir.) efla byggð í landinu, efla sjávarbyggðir (Forseti hringir.) og gera svo allt annað þegar komið er inn í þennan sal.

(Forseti (JSkúl): Forseti minnir ræðumenn á að virða ræðutíma.)



[13:19]
Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Hér erum við að flytja mjög þarft mál sem ég hef stutt liggur við síðan ég man eftir mér. Hef ég kynnst strandveiðum? Já, fyrsta skiptið sem ég fór á sjó til veiða var á árabát í Álftafirði, sex, sjö ára gamall. Þá fórum við út og veiddum fisk sem var síðan hengdur upp í hjall og þurrkaður og búinn til harðfiskur. Ég man enn og mun alltaf muna þegar ég fékk steinbít að borða í fjörunni í Álftafirði. Ég var unglingur, 14, 15 ára, þegar ég fór á handfærabát sem gerði út héðan frá Reykjavík á sumrin og við fórum að Snæfellsnesi, undir jökul, og veiddum þar. Þar voru ekki neinar rafmagnsrúllur, það voru bara venjulegar handfærarúllur, og það veiddist virkilega vel yfirleitt. Þetta var góður sumarpeningur sem við fengum.

Eftir að hafa kynnst þessum málum get ég sagt að þetta frumvarp Flokks fólksins er, eins og flutningsmaður, hv. þm. Eyjólfur Ármannsson, kom svo vel að áðan, gjörsamlega frábært. Við erum ekki að gera neitt annað en að gefa öllum byggðum kringum landið tækifæri, tækifæri sem hefur kerfisbundið verið drepið niður af fjármálaöflum sem hafa sölsað undir sig næstum því allan kvótann, stórfyrirtæki sem eru orðin gífurlega sterk fjárhagslega vegna þess að þau hafa fengið ótrúlegt magn kvóta sem þau geta nýtt sér til að græða á tá og fingri.

Eins og komið hefur fram er árangurinn af þessu stórkostlega fiskveiðikerfi sem allir eru að hæla einhver 400 tonn á 40 árum, af þessum 220.000 tonnum. Ef við tökum bara 10% af þessum 220.000 eru það 22.000 tonn. Ég efast um að þótt við myndum gefa frjálsar handfæraveiðar yrði það niðurstaðan og þótt það yrði niðurstaðan væri það algerlega ásættanlegt vegna þess að það myndi gefa þvílíkt líf í þær byggðir við landið sem hafa nú þegar misst frá sér allan kvótann. Hann hefur verið seldur burtu og fólkið skilið eftir án þess að eiga nokkra möguleika á að róa til sjávar og bjarga sér. Við erum ekki að tala um nein ósköp. Þetta er 10 metra bátar með fjórar rúllur og þessar tvær rafmagnsrúllur á mann. Við ættum því á mjög einfaldan hátt að geta stutt frumvarpið.

Ef við tökum núverandi strandveiðikerfi er það að mörgu leyti gott en líka að mörgu leyti meingallað. Það er þessi 48 daga regla og þessi furðulega regla um að það megi ekki fara út nema á ákveðnum dögum. Hvaða fíflagangur er það á Íslandi að segja við einhvern að hann megi ekki fara út þegar það er blankalogn og besta veðrið til að fara að veiða: Nei, þú mátt það ekki, það er ekki réttur dagur?

Ég held að þeir sem bjuggu til þetta kerfi séu sama liðið og kom að byggingu almannatryggingakerfisins, sem er meingallað kerfi, fáránlega uppbyggt og búið til í algjörri heimsku, eins og einhver hafi fengið þá hugmynd að reyna að klekkja á fólki, bregða fæti fyrir fólk og reyna að plata það. Þetta kerfi er að mörgu leyti líka byggt þannig upp, sem er algerlega óskiljanlegt. Það er óskiljanlegt að einhver skuli reyna að verja þetta í stað þess að setjast strax niður og reyna að breyta því og koma kerfinu í þannig horf að það sé sátt um það, sérstaklega sátt meðal þjóðarinnar því að þjóðin er svo sannarlega ekki sátt við núverandi fiskveiðikerfi. Ég held að það sé enginn sáttur við þetta kerfi nema þeir sem græða á tá og fingri, þeir eru auðvitað alsælir: Bara frábært, við skulum berjast með kjafti og klóm, nota alla okkar fjármuni til að berjast fyrir því að halda kerfinu eins óbreyttu og hægt er. Það að fullyrða að frjálsar handfæraveiðar með fjórum rúllum rústi kerfinu, hverjum dettur svona fíflagangur í hug? Jú, áróðursmönnunum sem vilja ekki gefa eftir. Á sama tíma erum við með handfæraveiðar sem eru vistvænar, umhverfisvænustu veiðarnar. Af hverju er rækjustofninn hruninn? Af hverju er humarstofninn hruninn? Jú, af því að við erum búin að draga og við erum búin að eyðileggja botninn með trolli. Trollið er eitt versta veiðarfæri sem við getum verið að djöflast með. Við eyðileggjum botnana alveg kerfisbundið á stórum svæðum. En við höldum þessu áfram. Það er allt í lagi að hafa það. En vistvænt kerfi sem eyðileggur ekki neitt, þar sem aflinn kemur í land og fer 90% á markað — nei. Það er allt of skynsamlegt fyrir ríkisstjórnina og þá sem styðja þetta gamla úrelta kerfi sem stór hluti þjóðarinnar vill ekki sjá. Það eru, eins og ég segi, aðeins þessi fáeinu prósent sem eiga þetta allt og geta grætt á tá og fingri af þessu kerfi sem styðja það.

Málið er ekki flókið. Við eigum að sjá til þess í eitt skipti fyrir öll að taka afstöðu með landsbyggðinni, tökum afstöðu með litlu þorpunum í kringum landið þar sem var blómleg veiði, þar sem fólk gat með góðu móti siglt út, örstutt, bara nokkur hundruð metra, til að komast í gjöful fiskimið og dregið ferskan fisk að landi, farið vistvænustu leiðina beint heim. En því miður hefur það sýnt sig hjá ríkisstjórn eftir ríkisstjórn að það er ekki til nein heilbrigð skynsemi. Þeir munu setja undir sig hausinn. Þeir munu halda áfram að verja arfavitlaust kerfi sem segir að sjómenn megi ekki veiða nema ákveðna daga í viku, sama hvernig viðrar þá bara verða þeir að gjöra svo vel og sleppa því að veiða. Ef maður horfir á þetta þá stuðlar það frekar að því að menn séu að fara út í viðsjárverðu veðri sem getur skapað hættu. Að þeir skulu ekki fá að velja sjálfir eftir skynsemi, þótt þeir hafi 48 daga í kerfinu. Við hljótum að treysta sjómönnum. Þeirra er öryggið, líf þeirra er undir, þannig að við ættum alveg að geta treyst þeim. Bara þetta sýnir hversu arfavitlaust kerfið er og hversu vitlaust kerfi er verið að verja hér.



[13:28]
Flm. (Eyjólfur Ármannsson) (Flf):

Virðulegi forseti. Eins og kom fram í máli hv. þm. Guðmundar Inga Kristinssonar og ég benti á í framsögu minni er hér um mjög umhverfisvænar veiðar að ræða. Það er lítið kolefnisspor, mjög lítið. Af hverju er það? Jú, það er siglt á litlum bát út á miðin, slökkt á vélunum og rafmagnsrúllur settar í gang. Sjálf veiðin skilur ekki eftir sig kolefnisspor. Rúllurnar eru rafmagnsrúllur og svo þegar búið er að veiða er siglt í land aftur. Það er ekki hægt að finna umhverfisvænni veiðar þannig að ríkisstjórn sem vill vera best í heimi í loftslagsmálum þegar kemur að kolefnisspori, ætti að gefa þessar veiðar frjálsar. Annað stenst einfaldlega ekki skoðun út frá umhverfissjónarmiðum.

Byggðasjónarmiðin eru alveg skýr og þau eru að búseturéttur á landsbyggðinni, í sjávarbyggðunum byggist á því að geta sótt á miðin utan netlaga. Jónsbókarákvæðið frá 1282 er alveg skýrt hvað það varðar. Ég fór yfir sögu takmarkana á veiðum hér áðan. Þær byggjast allar á því að það er verið friða einstök svæði fyrir veiðum, og þá er ég að tala um togveiðar, þær byggjast allar á því að þorskstofninn sé ofveiddur og það þurfi takmarka þorskveiðar og afstýra ofveiði. Það er ekki hægt að ofveiða þorskstofninn við Ísland, fiskstofna við Ísland með krókaveiðum. Það er ekki hægt. Það að einstaklingar fái fjórar sjálfvirkar rúllur, handfærarúllur, á bát og ætli að stunda veiðar með því frjálst, í krafti atvinnufrelsis síns, mun ekki ógna fiskstofnum.

Rökin fyrir strandveiðunum eru alveg skýr. En rökin fyrir því að takmarka þær eru ekki málefnaleg, þau byggjast ekki á vernd fiskstofna, svo það sé alveg skýrt. Það sem hefur gerst með kvótakerfinu er að það er orðið til eins konar kerfi sem snýst um að verja kerfið. Það er það sem þetta snýst allt orðið um. Ég tók þátt í umræðum um kvótasetningu á sandkola og sæbjúgum og ef maður les greinargerðina fjallar hún ekkert um friðun eða vernd sandkola. Nei, nei, hún fjallar um að það gekk svolítið illa í veiðinni hjá fyrirtækjunum. Þess vegna átti að kvótasetja það. Það voru rökin. Það voru rökin sem voru sett á blað. Það var ekkert sett á blað í greinargerðinni, og ég skora á alla að lesa þá greinargerð, um að sandkoli væri í hættu. Við getum líka tekið grásleppuna. Það var umræða um hana á síðasta þingi skilst mér, áður en ég kom til starfa á Alþingi. Það hefur ekkert verið vandamál núna með grásleppuna en samt er krafa um að kvótasetja hana. Það getur vel verið að það séu ákveðin vandamál varðandi lagnir og annað slíkt. Þær eru m.a. í netlögum sem lúta að eignarrétti einstaklinga. En þetta snýst orðið mikið um að verja núverandi kerfi. Það að gefa bara 12 veiðidaga í mánuði, 48 daga á ári til að veiða, sem klárast oft strax, mjög fljótlega á veiðitímabilinu og áður en því lýkur, er einfaldlega engan veginn nægjanlegt, engan veginn. Það er allt of lítið frelsi og fjölskyldur í dag geta ekki lifað á þessum veiðum á ársgrundvelli. Það er ekki hægt. Meira að segja Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi líta ekki á þetta sem alvöruatvinnugrein. Það hefur komið fram í umsögn þeirra. Ef maður skoðar tölurnar, fjárfestingar í greininni, þá er verið að halda þessu úti sem einhverjum bita til að friða fólk. Ég held því fram að þetta sé bara blekking.

Ég ber mikla virðingu fyrir strandveiðimönnum í núverandi kerfi. Það er bara ekki nógu mikið frelsi, það er ekki nógu mikið atvinnufrelsi, það eru ekki nógu miklar tekjur. Þeir eiga að fá að veiða allan ársins hring. Ég hef fengið upplýsingar hjá mönnum sem eru í strandveiðum og þeir eru að leigja kvóta á 330 kr. kílóið, selja síðan á 365 kr. kílóið og fá 35 kall. Það er kannski aðeins meira út af ýsu og öðru slíku sem kemur að landi. En það eru líka leiguliðar í strandveiðunum sem eru að kaupa sér kvóta til að reyna að bjarga sér. Það að það séu leiguliðar í strandveiðikerfinu á þessum veiðum er algjört hneyksli. Það á að gefa þetta frjálst. Það myndi gera gríðarlega mikið gagn fyrir sjávarbyggðirnar. Þeir sem styðja þetta frumvarp styðja sjávarbyggðirnar. Þeir sem eru á móti þessu frumvarpi eru á móti sjávarbyggðunum. Það er algerlega kristaltært. Út á það gengur þetta og ekkert annað. Einhverjir þingmenn hafi komið upp í andsvör og haldið öðru fram en það er einfaldlega ekki rétt. Hræsnin í kringum þetta kvótakerfi er algerlega með ólíkindum og það skal enginn efast um réttmæti þeirrar gagnrýni sem hefur komið fram, réttmæti þeirrar umfjöllunar sem kom í kjölfar Verbúðarinnar og réttmæti þeirrar gagnrýni sem kom í kjölfar kvikmyndarinnar Hafsins sem kom út fyrir 21 ári. Þessi mynd var frumsýnd árið 2001. Núna er aftur verið að fjalla um þetta tímabil og þá á grundvelli eins konar sagnfræði. Verbúðin er frábærir þættir og þeir sýna svart á hvítu hvað var í gangi. Þeir sem voru næst lagasetningarvaldinu, þeir sem voru næst pólitíkinni, næst Alþingi Íslendinga, högnuðust á þessu og um það snýst þetta. Kvótakerfið snýst um að búa til verðmæti úr kvótanum, framseljanlegum kvóta, það er hægt að veðsetja hann. Löggjafinn, lagasetningarvaldið er að búa til verðmæti sem eru óháð veiðunum sjálfum.

Hérna er lítið frumvarp sem er ætlað að virða þau sjálfsögðu mannréttindi að allir eigi rétt á veiði utan netlaga með handfærarúllum, með frjálsum veiðum. Það eru engin takmörk sem eiga að vera á þessu nema stærð bátsins og svo loftslag og veðurfar sem hefur mikil áhrif og takmarkar veiðarnar. Þetta er erfið vinna, mjög erfið vinna, og hún er ekki öllum fær. Það eru ekki allir sem eru með veiðieðli í sér og hafa getu til að stunda þessar veiðar. Ég bendi aftur á að í Noregi er miklu betra aðgengi fyrir ungt fólk að veiðum og mikil fjölgun á ungu fólki í veiðum. Ungt fólk á Íslandi mun fara til Noregs til að stunda veiðar og það flytur líka af landi brott af öðrum orsökum. Þetta er eina vonin fyrir sjávarbyggðirnar og landsbyggðina, að gefa þessar veiðar frjálsar svo að við getum fengið rétt okkar til baka.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til atvinnuvn.