152. löggjafarþing — 46. fundur,  3. mars 2022.

stjórn fiskveiða.

73. mál
[13:16]
Horfa

Flm. (Eyjólfur Ármannsson) (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir seinna andsvar sitt. Hvernig mæla menn árangur? Þorskveiðin var 220.000 tonn 1984. Í dag held ég að hún sé 220.417 tonn. Það er 471 tonna árangur. Ef þú stendur í stað er það enginn árangur, það bara er það ekki. Við erum reyndar farin að tala um kerfi sem er ekki strandveiðikerfið, svo það liggi alveg fyrir. Í strandveiðikerfinu, ef það er mikill fiskur þá er væntanlega mikil veiði. Veiðihæfni öngla er bara þannig að það er ekki alltaf sem bitið er á. Ef þú hendir öngli eða króki út í Faxaflóa er ekkert víst að þú sért farin að stunda handfæraveiðar þar. Það er ekki víst að fiskurinn bíti á. Ég sá einhvers staðar að það væri 0,6% veiðihæfni, eða hvort það var 0,06%. Það þyrftu nokkur hundruð fiskar að synda fram hjá áður en bitið væri á. Sá sem veiðir með trolli sópar þessu öllu upp. Hann myndi taka alla 1.000 fiskana. Veiðihæfnin er bara allt öðruvísi með öngli. Það að allir fiskar bíti á hvern þann öngul sem fer ofan í hafið þannig að allir fiskar deyi og við útrýmum fiskstofnunum er bara ekki að fara að gerast. Það mun aldrei gerast, aldrei nokkurn tímann.

Varðandi stærðina þá erum við með 10 metra af því það er stærðin sem er verið að nota í dag. Við vorum að hugsa um 12 metra. En þú ferð ekki á 20 metra skip með fjórar rúllur. Það bara gerist ekki. Það er ekki þannig. Það komast fjórar rúllur á bát, á þessum 10 metra skipum, allt að 10 metrum. Það má alveg opna fyrir það að hafa 12 metra eða stærri báta, það er alveg sjálfsagt mál, en þú ferð ekki að setja fjórar rúllur á risaskip. Það gerist ekki. Þetta frumvarp á að gefa tækifæri fyrir landsbyggðina, tækifæri fyrir sjávarbyggðir. Það er alveg sjálfsagt mál ef hv. þingmaður (Forseti hringir.) er á móti frjálsum strandveiðum að hún segi það bara. Það sama með Vinstri græna, sama með sjávarútvegsráðherra. En í guðanna bænum verið ekki að fara í kosningabaráttu og segja að það eigi að efla strandveiðar, (Forseti hringir.) efla byggð í landinu, efla sjávarbyggðir (Forseti hringir.) og gera svo allt annað þegar komið er inn í þennan sal.

(Forseti (JSkúl): Forseti minnir ræðumenn á að virða ræðutíma.)