152. löggjafarþing — 78. fundur.
landamæri, 1. umræða.
stjfrv., 536. mál. — Þskj. 764.

[20:56]
dómsmálaráðherra (Jón Gunnarsson) (S):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um landamæri. Sérstök lög um landamæri hafa ekki verið sett áður en hugmyndin er þó ekki ný. Á undanförnum árum hafa málefni landamæra tekið örum breytingum og leitt af sér fjölmargar áskoranir, m.a. vegna aukins eftirlits með löglegri umferð um landamæri. Á Schengen-vettvanginum hefur verið lögð áhersla á upplýsingaskipti, nýtingu tækninýjunga og styrkingu landamæraeftirlits, m.a. með því að styrkja fyrirliggjandi upplýsingakerfi Schengen-samstarfsins og kynna ný til sögunnar og efla landamæra- og strandgæslustofnun Evrópu, Frontex. Þróun hér á landi í málefnum landamæra og landamæraeftirlits hefur tekið mið af stefnu Schengen-samstarfsins og þróun þess enda erum við skuldbundin til þess sem þátttakendur í Schengen-samstarfinu.

Megintilgangur frumvarps til laga um landamæri er að tryggja að landamæravarsla sé framkvæmd með öruggum og skilvirkum hætti og til samræmis við lög, reglugerðir og þær alþjóðlegu skuldbindingar sem Ísland hefur undirgengist. Það er bæði hugsað sem þáttur í að tryggja öryggi borgara og samfélags í heild sem og til að treysta löggæslustofnanir. Því er ætlað að skýra ábyrgð, stuðla að samstarfi milli viðeigandi yfirvalda sem fara með málefni tengd landamærum og styðja baráttu gegn glæpum þvert á landamæri, ólöglegum fólksflutningum og ógn við allsherjarreglu og þjóðaröryggi.

Efni frumvarpsins tekur að miklu leyti mið af núgildandi lögum og reglum sem gilda um för einstaklinga yfir landamæri, þá aðallega lögum um útlendinga, reglugerð um för yfir landamæri sem sækja stoð sína til þeirra laga, ásamt reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins um för fólks yfir landamæri, þ.e. Schengen-landamærareglunum. Þessar meginreglur sem gilda um för einstaklinga yfir landamæri hafa verið skilmerkilega teknar saman í frumvarp þetta til hagræðis fyrir einstaklinga sem lögin taka til, verði frumvarpið að lögum, og þeirra yfirvalda og aðila sem starfa á grundvelli þeirra. Má þar nefna ákvæði um ábyrgð og framkvæmd landamæravörslu, skyldur flutningsaðila og reglur um frjálsa för á innri landamærum nema tímabundið eftirlit hafi verið tekið upp um komu- og brottfarareftirlit á ytri landamærum.

Að sama skapi er lagt til að ákveðin ákvæði í lögum um útlendinga taki breytingum eða falli brott. Með tilkomu frumvarps þessa þykir því rétt að mæla fyrir um landamæravörslu og réttindi og skyldur, bæði íslenskra ríkisborgara og útlendinga við för yfir landamæri í sérstökum lögum um landamæri, enda eiga grunnreglurnar almennt við um alla sem ferðast um eða yfir landamærin, hvort sem þeir eru íslenskir eða erlendir ríkisborgarar. Að því sögðu er óheppilegt að slík ákvæði sé eingöngu að finna í lögum um útlendinga.

Með frumvarpinu er ekki síður stefnt að því að styrkja lagastoðina fyrir reglugerð um för yfir landamæri, setja lagastoð fyrir reglugerðir sem ætla má að þurfi að innleiða á grundvelli laganna, m.a. vegna þátttöku Íslands í alþjóðlegu samstarfi, og innleiða ákveðin efnisákvæði Schengen-gerða um ný upplýsingakerfi; svokallað komu- og brottfararkerfi EES annars vegar og ferðaupplýsinga- og ferðaheimildarkerfi hins vegar. Stefnt er á að kerfin verði tekin í notkun á öllu Schengen-svæðinu í lok árs 2022 og um mitt ár 2023. Til að það gangi eftir verða öll aðildarríkin að vera tilbúin samtímis fyrir starfrækslu kerfanna, m.a. með viðeigandi mannafla og þjálfun, tengingu fyrirliggjandi landamæra grunnvirkja við kerfin, réttum hug- og tækjabúnaði og lagaumgjörð. Frumvarp þetta er mikilvægur liður í hinu síðastnefnda, en Ísland er skuldbundið til að innleiða þessar gerðir og þar með kerfin á grundvelli Schengen-samstarfsins.

Virðulegur forseti. Ég mun nú fara nánar yfir hvort kerfi um sig en þau munu hafa í för með sér breytingar á landamæraeftirliti hér á landi. Komu- og brottfararkerfið verður sett upp á öllum ytri landamærum Schengen-svæðisins og mun halda rafræna skráningu um komur og brottfarir ríkisborgara þriðju ríkja sem heimilað hefur verið stutt dvöl á Schengen-svæðinu, þ.e. 90 daga á hverju 180 daga tímabili. Kerfunum er einnig ætlað halda skráningu um þá sem hefur verið frávísað á landamærum.

Í framkvæmd verður það svo að við komu ríkisborgara þriðja ríkis um ytri landamæri munu landamærayfirvöld skrá ákveðnar persónuupplýsingar einstaklingsins ásamt andlitsmynd og eftir atvikum fingraför hans í kerfið. Þá verður einnig haldin sérstök komu- og brottfararskráning um viðkomandi. Breyting verður því á núverandi framkvæmd þar sem takmarkaðar persónu- og lífkennaupplýsingar einstaklinga fást í dag með því að skanna vegabréf viðkomandi og þær bornar saman við tiltekna gagnagrunna eins og Schengen-upplýsingakerfið. Þá er í dag engin skráning haldin um komu og brottför einstaklinga inn og út af svæðinu. Komu- og brottfararkerfið mun þannig koma til með að nútímavæða og einfalda landamæraeftirlit, m.a. með því að koma í stað þeirrar skyldu landamæravarða að stimpla vegabréf. Með kerfinu næst einnig samhæfð yfirsýn allra Schengen-ríkjanna yfir þá sem dvelja á Schengen-svæðinu umfram heimilaða dvöl.

Í frumvarpi því sem ég mæli nú fyrir er kveðið á um ábyrgð ríkislögreglustjóra og starfrækslu íslenska hluta kerfisins hér á landi um þær persónu- og lífkennaupplýsingar sem heimilt er að skrá í kerfið, og um aðgangsheimild tilskilinna yfirvalda að því. Ferðaupplýsinga- og ferðaheimildakerfið er hins vegar kerfi sem gerir þá kröfu til ríkisborgara þriðju ríkja sem ekki eru áritunarskyldir að sækja um ferðaheimild áður en þeir ferðast inn á Schengen-svæðið. Margir þekkja sambærilegt ESTA-kerfi í Bandaríkjunum. Með slíkri umsókn verður betur hægt að meta hvort öryggisáhætta, hætta á ólöglegum fólksflutningum eða aukin faraldurshætta stafi af komu þessara ríkisborgara þriðju ríkja innan Schengen-svæðisins. Ítarleg skoðun á heimild ríkisborgara þriðja ríkis sem er undanþeginn áritun við komu inn á Schengen-svæðið fer aðeins fram á ytri landamærum og leiðir til frávísunar ef heimild fyrir komu er ekki til staðar. Ferðaheimild minnkar þannig líkurnar á því að einstaklingar, sem yrði að öllum líkindum vísað frá við komu, ferðist að ytri landamærum Schengen-svæðisins. Útgefin ferðaheimild mun þó ekki veita sjálfkrafa rétt til komu þar sem endanleg ákvörðun verður enn í höndum landamæravarða á landamærum en þá að undangengnu frumeftirliti ferðaheimildakerfisins.

Í frumvarpi þessu er mælt fyrir um skyldu ríkisborgara þriðju ríkja sem falla undir kröfu um ferðaheimild við komu yfir ytri landamæri Íslands, um stofnun landsskrifstofu ferðaheimildakerfisins hér á landi sem öllum aðildarríkjum er skylt að setja á laggirnar og hefur heimild til að veita, synja, afturkalla og/eða ógilda ferðaheimildir, samkvæmt nánari reglum þar um, um kæruheimild vegna slíkra ákvarðana og um ábyrgð og aðgang til skyldra yfirvalda að kerfinu. Þá er einnig mælt fyrir um auknar skyldur flutningsaðila sem flytja farþega um ytri landamæri í tengslum við innleiðingu kerfanna. Eins og með komu- og brottfararkerfið er lagt til að ríkislögreglustjóri beri ábyrgð á íslenska hluta ferðaheimildakerfisins hér á landi og starfrækslu landsskrifstofunnar, en vinna við innleiðingu þessara kerfa sem og rekstrarsamhæfingu þeirra við önnur upplýsingakerfi eins og Schengen-upplýsingakerfið, upplýsingakerfi um vegabréfsáritanir og upplýsingakerfi um fingrafaragrunn fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd hefur átt sér stað um langt skeið og hefur landamæradeild ríkislögreglustjóra verið leiðandi við þá vinnu. Mun þessi breyting og rekstrarsamhæfing kerfanna skipta sköpum við að auka gæði eftirlits innan svæðisins og ekki síður efla sjálfvirknivæðingu landamæraeftirlits.

Virðulegur forseti. Ég hef gert grein fyrir helstu efnisatriðum frumvarpsins og legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar til nefndar og 2. umr.



[21:05]
Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Mig langaði að ræða aðeins um það sem fjallað er um í 10. gr. þessa frumvarps, þ.e. ferðaheimildir til og frá löndum. Ef skoðaðar eru upplýsingar um þá sem sótt hafa um hæli hér á landi á síðastliðnum þremur árum og ef ekki er tekið með í þá útreikninga Úkraínubúarnir sem komið hafa á þessu ári, þá hafa á þessu ári 265 af 455 einstaklingum, eða um 58%, komið frá Venesúela. Í fyrra var það 361 af 872, eða 41%, og 2020 voru þetta 104 af 654, eða 16%. Eins og sjá má af þessum tölum hefur fjöldi einstaklinga sem koma frá Venesúela stóraukist og eru þeir orðnir stór hluti þeirra sem sækja um hæli hér á landi. Það er líka vert að nefna að 95% þeirra Venesúelabúa sem sóttu um vernd í fyrra fengu samþykkta vernd. Nú hefur hæstv. ráðherra talað mikið um að létta á kerfinu. Það hefur komið mér svolítið á óvart að Venesúela er eitt þeirra landa þar sem ekki þarf vegabréfsáritun til Íslands og það hefur verið þannig um árabil. Mig langaði forvitnast varðandi þetta með að gefa út ferðaheimildir og annað: Af hverju er ekki löngu búið að setja kröfu um vegabréfsáritun frá Venesúela til að minnka álagið á Útlendingastofnun?



[21:07]
dómsmálaráðherra (Jón Gunnarsson) (S) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegur forseti. Þetta er ágætisspurning. Það er alveg rétt sem kemur fram hjá hv. þingmanni, það er mikill fjöldi frá Venesúela sem leitar ásjár. Það hefur vakið athygli, alveg sérstaklega. Það er miklu hærra hlutfall hjá okkur hér á Íslandi en t.d. gengur og gerist á Norðurlöndunum þar sem það er jafnvel bara mjög lágt hlutfall. Þetta á sér ákveðnar skýringar sem komu fram í úrskurði úrskurðarnefndar um útlendingamál. Af hverju erum við ekki búin að taka upp vegabréfsáritun frá Venesúela? Ja, við erum hluti af Schengen-svæðinu þannig að vegabréfsáritun er ekki tekin upp í einu landi heldur öllum löndum. Við höfum rætt þetta alveg sérstaklega við yfirvöld á Spáni. Ég hef sjálfur átt samtal við ráðherra um þetta og sendiherra okkar í Brussel hefur fylgt þessu eftir. Við höfum einnig vakið athygli á þessu á Norðurlöndunum. Það vekur athygli landamæravarða, sem er allt í lagi að komi fram, að það er mjög mikið af fólki með nýútgefin vegabréf sem ferðast til landsins. Það hefur vakið athygli í það minnsta. Ástæðan er sú að við erum sem sagt í þessu Schengen-samstarfi. Við getum ekki tekið þetta einhliða upp en við höfum vakið athygli samstarfsþjóða okkar á því að flest af þessu fólki kemur í gegnum Spán. Þess vegna höfum við beint orðum okkar til spænskra yfirvalda.



[21:09]
Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Það er vekur upp ákveðnar spurningar varðandi þessa löggjöf hversu mikið við getum stýrt því sjálf ef slíkar breytingar eru gerðar. Eins langaði mig að spyrja hæstv. ráðherra almennt um þetta frumvarp til laga um landamæri, hvaða áhrif það mun hafa á hælisleitendur sem hingað leita. Mun þetta draga úr komu þeirra hingað? Hefur það engin áhrif? Hvernig sér hæstv. ráðherra að frumvarpið hafi áhrif á það hverjir koma hingað til lands og sækja um alþjóðlega vernd?



[21:10]
dómsmálaráðherra (Jón Gunnarsson) (S) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegur forseti. Það er í sjálfu sér ekki hægt að segja að þetta frumvarp, verði það að lögum, muni hafa einhver sérstök áhrif á þá sem leita hér eftir vernd eða á hælisleitendur. Þetta hefur auðvitað áhrif á öllu Schengen-svæðinu en ekkert meira hér umfram önnur lönd. Þetta er fyrst og fremst innleiðing á nútímatækni í landamæraeftirliti sem er gríðarlega mikilvægt. Stóru málin sem eru hér undir er hversu mikið gildi þetta hefur þegar kemur að samvinnu lögregluyfirvalda í skipulagðri brotastarfsemi sem engin landamæri virðir, í mansalsmálum og slíku. Þetta mun auka mjög á allt öryggi á landamærum okkar. Fæstir lenda í neinum vandræðum í því sambandi, þeir upplifa þetta miklu frekar sem kannski bara öruggari, betri og hraðari þjónustu á landamærum við afgreiðslu. En þetta gefur okkur miklu betri tækifæri í samvinnu við Schengen-þjóðirnar til að vera með markvissara og betra eftirlit og halda utan um skráningu, sem er bara mjög mikilvægt við þær aðstæður sem við búum við í dag.

Hversu mikið við getum ákveðið sjálf? Auðvitað takmarkar þetta samstarf okkur í því að taka algerlega einhliða ákvarðanir þegar kemur að landamæravörslu. Við erum hluti af þessu samstarfi en við njótum gríðarlega mikils. Það er engin spurning þegar maður fer að kafa ofan í þetta og skoða að ávinningurinn af því að vera þátttakendur með öðrum þjóðum í þessu samstarfi er miklu meiri en mögulegar fórnir.



[21:12]
Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Herra forseti. Ég vil byrja á því að spyrja hæstv. ráðherra út í það sem stendur varðandi mat á áhrifum á persónuvernd einstaklinga í greinargerðinni. Það þykir ekki ástæða til að leggja mat á áhrif frumvarpsins á persónuvernd einstaklinga enda byggi persónuverndarákvæði frumvarpsins á persónuverndarreglum Evrópusambandsins. Er þetta ekki dálítið ódýrt. Er hægt að segja að vegna þess að þessar greinar séu afritaðar úr einhverju evrópsku regluverki þá þurfi ekki að skoða víxlverkan þeirra við önnur íslensk lög sem mögulega eru ekki til staðar í Evrópureglum? Ég hefði haldið að þegar við erum að endurskoða í heild sinni eða að leggja fram heildarfrumvarp um málaflokk sem snertir á jafn mörgum þáttum persónuverndar og landamæraeftirlit þá hefði nú ráðuneyti persónuverndarmála kannski þurft að leggja á sig alla vega einn snúning til að meta þennan þátt. Mig langar að spyrja ráðherrann hvort hann telji þetta vera til fyrirmyndar.



[21:14]
dómsmálaráðherra (Jón Gunnarsson) (S) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegur forseti. Eins og fram kemur hjá hv. þingmanni er dómsmálaráðuneytið ráðuneyti persónuverndar. Þar eru sérfræðingar á þessu sviði sem lögðu mat á þetta og ég treysti þeim til að meta þetta. Engar athugasemdir hafa komið fram við þetta við vinnslu málsins þannig að ég held að við þurfum ekki að hafa áhyggjur af því að hér sé verið að brjóta einhverjar íslenskar sérreglur um persónuvernd, að hvaða leyti þær stangast á við reglur Evrópusambandsins. Við erum hér auðvitað að vinna þetta á sama grunni og samstarfsþjóðir okkar innan Schengen.



[21:15]
Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Herra forseti. Það komu ekki athugasemdir, segir ráðherrann, við þessa nálgun út frá persónuverndarsjónarmiðum, en ég velti fyrir mér hvort það spili inn í að þetta var sent í samráð 22. desember og samráði lauk 12. janúar. Gæti verið að fólkið sem best þekkir til persónuverndarmála hafi bara misst af þessu? Eitthvert samráð var haft við stofnunina Persónuvernd, en ég ítreka það sem ég sagði hérna áðan að ég held að það sé nokkuð gáskalega farið um regluverkið að halda að við getum tekið persónuverndargreinarnar og sett inn í þessi lög og þar með þurfi ekki að skoða hvernig þær snerta við öðrum greinum annarra laga. Ég hefði haldið að eitthvert heildarmat á áhrifum á persónuvernd þyrfti að fara fram. Ég vænti þess að núna utan jólafrís fáum við kannski einhverjar efnismeiri umsagnir frá fólki sem best þekkir til.

Mig langar aðeins að spyrja hér að tvennu. Annars vegar er bætt inn í lög um útlendinga, inn í 106. gr. þeirra laga, almannaheilbrigði sem ástæðu sem nota má til að brottvísa fólki. Þetta er gert með vísan til orðalags Schengen-reglugerðarinnar. Þarf ekki að skilgreina þetta hugtak? Það er nefnilega ekki gert í lagasafninu. Er hægt að setja inn orð sem hefur jafn mikil réttaráhrif fyrir einstakling án þess að það komi nokkurs staðar fram hvað það þýðir? Hins vegar langar mig að spyrja, vegna þess að hæstv. ráðherra sagði að þetta frumvarp ætti ekki hafa mikil áhrif á fólk á flótta: Hér eru eru lagðar til breytingar; í e-lið 25. gr. laga um frumvarpsins eru lagðar til breytingar á 98. gr. sem snúast beinlínis um brottvísun umsækjenda um alþjóðlega vernd sem hafa fengið synjun, snúast um að herða dálítið tökin á fólkinu í þessari viðkvæmu stöðu. (Forseti hringir.) Er það alls kostar rétt sem kom fram hjá ráðherranum að áhrifin af þessu frumvarpi á fólk á flótta væru hverfandi?



[21:17]
dómsmálaráðherra (Jón Gunnarsson) (S) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegur forseti. Í fyrsta lagi eru persónuverndarreglur okkar ekki frábrugðnar ESB-reglum. En varðandi þessi brottvísunarákvæði var ákveðið að gera breytingar á brottvísunarákvæðum útlendingalaga með frumvarpi þessu til að tryggja að framkvæmd brottvísunar verði í samræmi við brottvísunartilskipunina, samanber tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2008/115/EB. Þar sem erfiðlega hefur gengið að innleiða það ákvæði með útlendingafrumvarpinu var ákveðið að gera það með frumvarpi þessu enda er m.a. það nýmæli í 3. mgr. 14. gr. frumvarpsins að lögregla megi brottvísa útlendingum í ólögmætri dvöl á landamærum og þarf að tryggja að hún geri það til samræmis við brottvísunartilskipunina.



[21:19]
Jóhann Páll Jóhannsson (Sf):
Bráðabirgðaútgáfa.

Herra forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um landamæri, frumvarp sem endurspeglar útlendingastefnu þeirrar ríkisstjórnar sem hér situr við völd. Ég ætla rétt að byrja á því að vekja athygli á gagnrýni sem hefur komið frá Samtökum ferðaþjónustunnar og Ferðamálastofu á 17. gr. frumvarpsins sem lýtur að eftirliti á innri landamærum Schengen. Samtök ferðaþjónustunnar benda á að í frumvarpinu eru lagðar ákveðnar skyldur á flutningsaðila um að ganga úr skugga um að skráður farþegi sé sá sem hann segist vera, hvort sem það er á innri eða ytri landamærum Schengen, og benda á að framkvæmd við innritun og byrðingu farþega á innri landamærum Schengen við eðlilegt ástand fyrir heimsfaraldur megi ekki verða meiri íþyngjandi en það sem tíðkast hefur og hafa áhyggjur af því að orðalagið í 17. gr. sé með þeim hætti að sjálfvirknivæðing á innri landamærum Schengen verði að engu, en myndi þá kalla á frekari mannskap með tilheyrandi töfum og kostnaði. Þetta er eitthvað sem ég held að við hljótum að þurfa að huga að þegar málið kemur til umfjöllunar í allsherjar- og menntamálanefnd. Þetta myndi þá hafa bein áhrif á alþjóðlegt samkeppnisumhverfi landsins, enda starfar íslensk ferðaþjónusta í alþjóðlegu umhverfi og allar reglur sem kalla á frekari mannskap kalla sjálfkrafa á aukinn kostnað.

Annars finn ég mig knúinn til að ræða aðeins málefni sem varða kannski með óbeinum hætti þetta frumvarp en með beinum hætti þá útlendingastefnu sem kristallast í þessu frumvarpi og það eru áform stjórnvalda um að flytja hátt í 300 umsækjendur um alþjóðlega vernd úr landi á næstu dögum. Hér erum við að tala um fólk sem hefur dvalið í lengri tíma á Íslandi, jafnvel fest rætur og eignast vini og tengslanet, eignast börn og þannig mætti lengi telja. Þetta er fólk sem þráir að búa og starfa á Íslandi, taka þátt í samfélaginu, en þetta fólk á að rífa upp með rótum og vísa á götuna í Grikklandi. Þar eru aðstæður flóttafólks ömurlegar, raunar svo slæmar að dómstólar í fleiri en einu Evrópuríki hafa staðfest að endursendingar á flóttafólki þangað brjóti í bága við ákvæði mannréttindasáttmálans og það sem meira er, Mannréttindadómstóll Evrópu hefur dæmt Grikkland brotlegt við 3. gr. mannréttindasáttmálans vegna aðstæðna í móttökukerfi flóttafólks. Þannig að það er ekkert að ástæðulausu sem íslensk stjórnvöld hafa ekki sent flóttafólk á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar til Grikklands í sjö ár.

En nú er það svo að Rauði krossinn og fleiri mannréttindasamtök sem og samtök sem starfa í Grikklandi telja raunar að aðstæður fólks með viðurkennda stöðu flóttamanns séu jafnvel enn verri en staða þeirra sem íslensk stjórnvöld hafa ákveðið að senda ekki til Grikklands vegna óboðlegra aðstæðna. Hér er verið að brjóta gegn jafnræði og mismuna fólki með ómálefnalegum hætti. Fólk sem er sent til Grikklands lendir ekki í yfirfullum flóttamannabúðum, eins og oft hefur verið haldið fram. Það hefur ekki einu sinni rétt til þess að setjast að í flóttamannabúðum, það hefur engan rétt til þess að fá aðstoð til að verða sér út um húsnæði. Sú aðstoð stendur afar fáum til boða, hún stendur fólki ekki til boða nema í afar takmarkaðan tíma eftir að verndin er veitt og fólkið sem hér er verið að senda til Grikklands er löngu runnið út á tíma til að nálgast slíka aðstoð. Flest flóttafólk missir réttinn til að nýta sér aðstoðina á meðan það bíður eftir að fá hana. Stór hluti af þessum um 270 manns sem á að endursenda hefur dvalið hér í meira en 12 mánuði og samkvæmt útlendingalögum á flóttafólk rétt á efnismeðferð eftir að hafa dvalið hér lengur en 12 mánuði. En hér nýtur fólk ekki þess réttar vegna þess að það er sakað um tafir, hefur neitað að undirgangast PCR-próf til að liðka fyrir endursendingum. Reyndar virðist vera allur gangur á því hvort fólk sem neitar að gangast undir PCR-próf sé sjálft talið hafa verið valdur að töfum. Í sumum tilfellum hefur fólk fengið efnismeðferð þrátt fyrir að hafa neitað að undirgangast PCR-próf. Þetta virðist öllu heldur velta svolítið á verklagi lögreglu í einstaka málum frekar en athöfnum fólks.

Nú liggur fyrir að höfðað hefur verið dómsmál vegna eins af þessum málum. Það verður flutt þann 13. september næstkomandi og ef málið vinnst þá er það auðvitað fordæmisgefandi fyrir aðra í sömu stöðu, þ.e. umsækjendur um alþjóðlega vernd sem hafa mátt sæta ásökunum um tafir. Ég verð að segja að það er býsna glannalegt, svo ekki sé fastar að orði kveðið, að senda allt þetta fólk úr landi meðan niðurstöðu beðið. Þarna eru íslensk stjórnvöld að taka þá áhættu að framkvæma tugi ef ekki hundruð brottvísana sem síðar kann að koma í ljós að eru ekki lögmætar. Það væri þá ekki í fyrsta skipti. Það hefur gerst margoft að t.d. kærunefnd útlendingamála eða dómstólar hafa komist að þeirri niðurstöðu að brotið hafi verið gegn réttindum flóttafólks, að fólki hafi verið neitað um efnismeðferð t.d. á ómálefnalegum forsendum. Þetta hefur gerst margoft en þá er oftast bara búið að senda fólkið burt og það er ekkert verið að sækja fólkið sérstaklega. Þetta er auðvitað ekki í samræmi við meðalhóf eða góða stjórnsýsluhætti. Hvað er til ráða? Ég held að við verðum að gera þá kröfu að stjórnvöld bregðist við og komi í veg fyrir þessar mestu fjöldabrottvísanir Íslandssögunnar að því er virðist. Dómsmálaráðherra gæti sett reglugerð eða leiðbeinandi tilmæli. Hann gæti skilgreint ástandið vegna heimsfaraldurs sem sérstakar aðstæður þannig að það verði heimilt að taka til efnismeðferðar mál þeirra sem hafa dvalið hérna í lengri tíma en eitt ár vegna ástandsins. Það væri ein leið. Önnur leið væri að hætta endursendingum til Grikklands rétt eins og var gert í Dyflinnarmálum. Það var gert 2015 og aftur árið 2020 þegar ákveðið var að senda fólk ekki til Grikklands vegna óvissunnar í heimsfaraldri. Ráðherra gæti líka haft forgöngu um að breyta lögum eða reglugerðum þannig að fólk með stöðu flóttamanns í Evrópu, fólk sem fengið hefur vernd annars staðar, fengi sambærileg réttindi til atvinnuþátttöku hér á landi og EES-borgarar. Það væri ein leið. Í öllu falli skora ég á ráðherra og ríkisstjórn að bregðast við og koma í veg fyrir þessar fjöldabrottvísanir og sýna mannúð.



[21:29]
Andrés Ingi Jónsson (P):
Bráðabirgðaútgáfa.

Herra forseti. Ég held að ég taki upp þráðinn þar sem hv. þm. Jóhann Páll Jóhannsson lét hann liggja varðandi fólk á flótta og hvernig, ja ekki bara hvernig stefna ríkisstjórnarinnar birtist í frumvarpi til útlendingalaga sem við höfum oft rætt, heldur hvort við ættum að hafa áhyggjur af því að hún birtist líka í þessu frumvarpi sem lætur kannski ekki mikið yfir sér. En hlustum aðeins eftir því sem hæstv. ráðherra sagði í andsvari áðan.

Ég spurði ráðherra út í 25. gr. frumvarpsins þar sem lagðar eru til breytingar á 98. gr. laga um útlendinga sem fjallar einmitt um brottvísun ríkisborgara þriðju ríkja án dvalarleyfis. Þegar ráðherra svaraði því hverju stæði til að ná fram með þessu ákvæði þá sagði hann að þar sem erfiðlega hefði gengið að innleiða þetta ákvæði með útlendingafrumvarpinu hafi verið ákveðið að gera það með þessu frumvarpi. Ráðherrann er sem sagt búinn að átta sig á því að stóra, ljóta útlendingafrumvarpið hans mun væntanlega ekki komast í gegn á þessu þingi frekar en í tíð þeirra þriggja síðustu ráðherra sem hafa gert tilraun til að leggja það fram og klára. Þess vegna pikkar hann út ákveðin atriði sem hægt er að læða með einhverju öðru til að liðka fyrir einhverri framkvæmd sem ég vænti að allsherjar- og menntamálanefnd kafi ofan í hvað felur í sér.

Þarna vísaði ráðherrann til þess að nauðsyn þess að fá þetta ákvæði í lög væri m.a. 3. mgr. 14. gr. þessa frumvarps. Sú málsgrein snýst um það að við eftirlit með för fólks úr landi sé lögreglu heimilt að vísa ríkisborgara þriðja ríkis úr landi og banna honum endurkomu. Þannig að þegar einhver er að fara úr landi þá geti lögreglan vísað honum úr landi. Í greinargerð er þetta útskýrt með því að Schengen-fólkið segi að það sé mikil nauðsyn á þessu og ég efast ekki um að því fólki þyki það. En ég vænti þess að hv. allsherjar- og menntamálanefnd skoði þetta vel vegna þess að þetta er — já svona fyrir mig sem ekki hef unnið við landamæravörslu þá er þetta dálítið kúnstugt. Þarna er fólk að fara frá landi og lögreglan vill hafa heimild til að sparka svo rækilega á eftir því að viðkomandi geti ekki komið aftur til Schengen-svæðisins í ákveðinn árafjölda. Svona ákvörðun hefur alveg gríðarlegar afleiðingar fyrir einstaklinga. Schengen-svæðið er stórt og það er eftirsótt að komast þangað og það er búið að reisa alveg gríðarlega háa múra umhverfis svæðið þannig að það sé erfitt fyrir fólk frá þriðju ríkjum að fá hingað vegabréfsáritanir eða dvalarleyfi og hér á að sparka fólki aðeins fastar yfir virkismúrinn þegar það er á leiðinni út ef það dvelur ólöglega á Schengen-svæðinu, stendur í þessari 3. mgr. 14. gr. frumvarpsins.

Þarna vandast málið náttúrlega og ýmsar viðvörunarbjöllur fara í gang vegna þess að hæstv. ráðherra talar ítrekað eins og hælisleitendur séu í ólöglegri dvöl, að eftir ákveðinn tímapunkt þegar stofnanir ráðherrans eru búnar að komast að því að þær vilji losna við viðkomandi sem sækir um vernd þá sé viðkomandi ólöglegur. Ætli þetta ákvæði myndi ná yfir eitthvað af því fólki? Við hefðum kannski fengið betri rýni á því frá sérfræðingum ef þetta frumvarp, þetta umfangsmikla og áhrifamikla frumvarp hefði ekki verið sett í samráð í jólafríinu. Það var kannski með ráðum gert hjá ráðherranum að passa upp á það að gagnrýnisraddirnar sem trufla hann svo oft heyrðust síður. En það hefur þá alla vega ekki haft þau áhrif að þingið loki augum fyrir því sem mögulega getur fylgt þessu máli. Ég held að það sé sérstök ástæða til þess að skoða þetta frumvarp í samhengi við útlendingafrumvarp hæstv. ráðherra, sjá hvernig þessi mál verka saman.

En talandi um samverkan þá má ég til með að nefna það sem ég ræddi við hæstv. ráðherra í andsvörum áðan, að ráðuneytið hafi ekki talið ástæðu til að leggja mat á áhrif á persónuvernd einstaklinga. Við hæstv. ráðherra. vorum dálítið að tala í kross, ég held við höfum ekki alveg skilið hvor annan. Hann benti mér aftur og aftur á það sem stendur í greinargerðinni, að ráðuneytið hafi ákveðið þetta vegna þess að persónuverndarákvæði frumvarpsins byggi á persónuverndarreglum Evrópusambandsins. Síðan sagði hann í andsvari að persónuverndarreglur Íslands væru ekki frábrugðnar ESB-reglum. En það er ekki það sem ég var að reyna að benda á, og ég vona að allsherjar- og menntamálanefnd skoði þetta líka rækilega, vegna þess að þó að við tökum persónuverndarákvæði beint úr reglum Evrópusambandsins inn í þetta frumvarp þá þurfum við að meta áhrifin á persónuvernd einstaklinga sem þessi lög hafa bein áhrif á og það mat byggir á verkan þessara laga á öll hin lögin í íslenska lagasafninu sem þau kunna að snerta. Þó að það sé fullt samræmi á milli persónuverndarákvæðanna hérna og þeirra sem Evrópusambandið leggur til þá getur vel verið að vegna einhverra víxlverkandi áhrifa á milli eldri laga í lagasafni íslenska ríkisins geti persónuverndaráhrifin verið ófyrirséð og neikvæð. Þetta hefði ég haldið að væri eitt af þeim lykilatriðum sem þyrfti að skoða í ráðuneytinu, sérstaklega svona skömmu eftir að lög um persónuvernd voru innleidd. Við erum enn þá í innleiðingarfasa á því regluverki öllu, sem er eðlilegt. Þetta var umfangsmikið regluverk og róttæk breyting á þeirri nálgun sem við þurfum að viðhafa þegar kemur að persónuupplýsingum einstaklinga. Þess vegna er ekkert óeðlilegt, jafnvel þótt verið sé að leggja fram frumvörp með óbreyttum efnisatriðum frá gildandi lögum, að láta mat fara fram meira að segja á þeim ákvæðum út frá áhrifum á persónuvernd, vegna þess að lög sem voru samþykkt hér í þingsal fyrir 10 eða 20 eða 30 árum, þó að ekki hafi reynt á það hvort þau hefðu slæm áhrif á persónuvernd þá gæti vel verið að þau uppfylli ekki þau skilyrði sem við gerum til slíkra laga.

Nú er ég að reyna að muna, herra forseti, hvaða frumvarp það var aftur sem við vorum að ræða hér bara fyrr í mánuðinum sem svona háttar til um, ég held að ég muni það ekki, en í það minnsta þarf að skoða rækilega hvernig þetta frumvarp hefur áhrif á a.m.k. þá lagabálka sem breytt er samhliða því að setja ný lög um landamæri. Þar eru það lög um útlendinga fyrst og fremst. Það eru dálítið viðamiklar breytingar á lögum um útlendinga. Þetta er í stafliðum, ég kann ekki alveg að telja þá en þetta nær niður í l-lið. Ætli l sé ekki svona í kringum 10. sæti í stafrófinu? Og þarna undir eru ákvæði sem mér sýnast að mestu leyti snúast um brottvísun fólks af landinu. Það er verið að snerta á 98. gr. útlendingalaga varðandi það, það er verið að snerta á 106. gr. laganna. Jú, líka 101. gr. Það eru viðamiklar breytingar á útlendingalögum sem er laumað hér með sem breytingum á öðrum lögum. Svo við tökum bara eitt dæmi er hér bætt inn almannaheilbrigði sem einni af brottvísunarástæðum 106. gr. útlendingalaga. Þetta er til samræmis við Schengen-reglugerðina og þetta er til samræmis við einhver ákvæði í útlendingalögum. En það sem gæti breyst með 106. gr. útlendingalaga og með þessu er að nú fer þetta að ná til nýs hóps, nú fer þetta að ná til einstaklinga utan Schengen-svæðisins. Hvað er almannaheilbrigði? Það er ekki skilgreint í íslenskum lögum en í Schengen-reglugerðinni er það skilgreint sem grunur um smitbera sjúkdóms sem er skilgreindur á einhverjum lista hjá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni eða grunur um eitthvert sníkjudýr. Þetta eru sem sagt einhverjir sjúkdómar og einhverjar pöddur sem fólk getur borið með sér. En það verður kannski dálítið erfitt að framfylgja svona ákvæði gagnvart einstaklingum nema með því að fara að setja upp, eins og við upplifðum svo sem í kórónuveirufaraldrinum, einhverjar skimunarstöðvar á landamærum og meina fólki aðgengi nema að það fari í gegnum þær. Þótt yfirlýstur tilgangur þessarar viðbótar sé væntanlega að tryggja lýðheilsu, tryggja almannaheilbrigði, þá þýðir þetta líka í reynd að stjórnvöld geta sett dálítið harðan landamæramúr utan um landið. Ef allir einstaklingar utan Schengen-svæðisins þurfa að sýna fram á að vera ekki smitberar út frá einhverri upptalningu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar þá rætist kannski draumur þeirra sem vilja geta snúið frá öllum umsækjendum um alþjóðlega vernd á Keflavíkurvelli.

Ég hef dálitlar áhyggjur af þessu, herra forseti, og ég veit að félagar mínir í allsherjar- og menntamálanefnd munu skoða þessi atriði vel og vandlega, skoða sérstaklega það sem snýr að brottvísunum, hvort verið sé að ganga of langt í að liðka það ferli fyrir stjórnvöldum og það sem snýr að því að geta búið til einhverja nýja þröskulda, hærri þröskulda fyrir fólk sem leitar ásjár hjá íslenskum stjórnvöldum og sækir um alþjóðlega vernd. Af því að það væri óskaplega leiðinlegt ef ráðherrann væri með þessu frumvarpi, eins og hann sagði í andsvari, að innleiða ákvæði með frumvarpi til laga um landamæri vegna þess að það hefur gengið erfiðlega að gera það í útlendingafrumvarpinu. Það er alla vega ekki mjög heiðarleg leið til að þrengja réttindi útlendinga, að lauma þeirri breytingu með þessu frumvarpi.



[21:44]
Logi Einarsson (Sf) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Herra forseti. Þetta var afskaplega athyglisverð ræða. Hv. þm. Andrés Ingi Jónsson er nú kannski sá meðal okkar sem mest hefur fjallað um og sett sig berst inn í útlendingamálin og -lögin og sat, ef ég man rétt, í allsherjar- og menntamálanefnd á síðasta kjörtímabili. Þess vegna langar mig að heyra, sem þá örlítið veganesti inn í þá nefnd sem ég sit í núna, hvort hann trúir því sem mér fannst hann gefa í skyn, að þarna væri verið hreinlega að nýta sér einhverjar hraðleið með strangari kröfur og einhverjar glufur til þess að torvelda fólki sem sækir hingað, auðvitað úr öllum heimsálfum úr alveg ólýsanlegri neyð, til okkar sem höfum ekki bara frelsi og lífsgæði heldur erum núna um þessar mundir að tala um að okkur vanti svo mikið fólk til starfa, að það sé hreinlega verið að nefna að nýta ferðina til að reyna að stemma stigu við því sem hæstv. dómsmálaráðherra talar um, of mikilli ásókn hingað til lands.



[21:46]
Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Herra forseti. Hvort ég trúi því að hér sé ráðherra að nýta sér hraðleið til að koma breytingum í gegn? Ja, það er náttúrlega það sem hann sagði berum orðum varðandi ákveðna þætti. Hann sagði að þar sem erfiðlega hefði gengið að innleiða ákvæði brottvísunartilskipunar Evrópusambandsins í gegnum útlendingafrumvarpið þá hefði verið ákveðið að gera það með þessu frumvarpi. Brottvísunartilskipunin er ekkert óskaplega góð. Hún er, eins og annað sem snertir flóttafólk og evrópskt regluverk, afsprengi málamiðlana í kolvitlausar áttir innan Evrópu og er eitthvað sem við ættum ekki að innleiða í blindni heldur reyna að gera betur ef við viljum standa með mannúðinni. Hún er samt kannski ekki stóra vandamálið í þessu heldur hvort verið er að nýta þetta frumvarp til að gera aðrar breytingar með sömu formerkjum. Ráðherrann er búinn að viðurkenna að hann ætli að „lauma“ brottvísununartilskipuninni með þessu frumvarpi. En hvað með allt hitt? Er verið að lauma fleiru með? Áður en þessi umræða byrjaði hefði ég varla trúað því. En eftir að ráðherrann sagði: Jú, heyrðu, við ætlum að nýta ferðina til að gera þessa breytingu varðandi brottvísunartilskipunina, þá er ég, því miður, herra forseti, farinn að trúa því að það gæti eiginlega hvað sem er leynst í þessu frumvarpi. Það er nokkuð efnismikið. Því fylgja ekki mjög ítarlegar umsagnir úr fyrra samráðsstigi á vegum ríkisstjórnarinnar. Þannig að ég vona bara að allsherjar- og menntamálanefnd fái þær efnisríku umsagnir frá sérfræðingum úti í bæ inn í þetta frumvarp sem við þurfum til að fullvissa okkur um að ekki sé verið að lauma fleiru með.



[21:48]
Logi Einarsson (Sf) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Herra forseti. Já, ég get alla vega fullvissað hv. þingmann um að þessi ræða gaf mér a.m.k. tilefni til að sannfærast um að við þyrftum að vanda okkur sérstaklega við þetta og fá inn gesti og umsagnir sem geta leitt þetta í ljós. En ég verð að viðurkenna að þó að það hafi verið áhugaverður punktur áttaði mig ekki alveg á áhyggjum hv. þingmanns á þessari klausu um að ekki hafi verið talin ástæða til að nýta persónuverndarsjónarmiðin vegna þess að það væri í rauninni samkvæmt persónuvernd ekki þörf á því. En það er býsna áhugavert og ég bið hv. þingmann um að skýra það aðeins betur út fyrir mér. Ég velti því hreinlega fyrir mér þegar ég hlustaði á ræðurnar hvort viðhorf hæstv. ráðherra væri það að þessi söfnun á upplýsingum, sem fyrst og fremst verður um fólk utan gildissvæðis evrópskrar persónuverndar, að honum þætti það veigaminna, að við gætum með öðrum orðum leyft okkur að fara dálítið frjálslega með það og safna upplýsingum um fólk sem ekki nýtur þeirrar persónuverndar og löggjafar sem við þrátt fyrir allt gerum, eða er það misskilningur hjá mér?



[21:50]
Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Herra forseti. Ég fæ kannski að byrja á því að nefna annað dæmi um eitthvað sem gæti verið að laumast með, sem er þessi breyting á 106. gr. laga um útlendinga, þar sem verið er að bæta því inn að það megi frávísa við komu til landsins á grundvelli almannaheilbrigðis. Vegna þess að 106. gr. er dálítið massíf, hún snýst um að það sé heimilt að vísa útlendingi frá landi við komuna til landsins eða allt að sjö sólarhringum frá komu ef hann tikkar í ákveðin box. Og þarna er verið að bæta við einu boxi í viðbót. Þó að það sé gert með vísan til Schengen-reglugerðar þá hlýtur allsherjar- og menntamálanefnd að þurfa að staldra við og skoða hvort þetta uppfylli meðalhóf eða ekki eða hvort þetta bjóði upp á einhverja misnotkun.

Varðandi mat á persónuverndaráhrifum þá held ég að það geti tvímælalaust spilað inn í að fólkið sem þessi löggjöf nær til — ja, ráðherrann eða stjórnvöld eða hver það er sem ákveður þetta lítur kannski ekki á viðkomandi sem umbjóðendur sína í sama mæli og íslenska ríkisborgara. Og þó að þetta sé kannski óþarfa smámunasemi eða að fólki kunni að finnast það, þá er þetta bara ein af þeim kröfum sem við þurfum að gera til vandaðrar lagasetningar.

Af því að hv. þingmaður er svo hrifinn af myndlíkingum og húsasmíðum þá er þetta dálítið eins og við værum að skipta um karma í glugga og ætluðum síðan að mála þá og vildum sleppa við að ryksuga bara af því að við gengum svo vel um. En við sleppum því samt ekkert af því að það geta verið sagagnir hérna úti um allt. Við tökum bara ekki sénsinn.



[21:52]
Guðbrandur Einarsson (V):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegur forseti. Sú umræða sem hefur átt sér stað hérna í þinginu í dag um málefni flóttafólks og innflytjenda hefur vakið athygli mína í það minnsta. Maður veltir fyrir sér framlagningu þessa útlendingafrumvarps, sem rætt hefur verið hér, í fjórða sinn og síðan framlagningu þessa frumvarps um landamæri, hvort þetta sé tilviljun að þetta sé að gerast á sama tíma. Einhvern veginn finnst mér þetta leiða hvort annað og ég upplifi sjálfur prívat og persónulega harðari tón í þessum málaflokki en hefur verið oft áður, þó svo að stefna Íslendinga hvað varðar innflytjendur hafi oft og tíðum verið æðisérkennileg. En það þarf að taka fyrir þessa stefnu alla og málaflokk útlendingamála heildrænt. Þær fréttir sem maður hefur verið að lesa um í fjölmiðlum um þessar fjöldabrottvísanir vekja auðvitað ugg í brjósti manns.

Það má svo sem velta þessu fyrir sér í samhengi við þá stöðu sem við upplifum í heiminum í dag. Við erum að upplifa stríð í Evrópu, við erum að upplifa veðurhamfarir og uppskerubrest. Við sjáum pólitískan og efnahagslegan stöðugleika víða. Við erum að sjá hamfarir, hreinlega veðurhamfarir, og í morgun heyrðum við fréttir um að það eru 100 milljónir manna flótta. Á síðustu mánuðum hefur flóttafólki fjölgað um 10 milljónir. Þetta er um 1% allra jarðarbúa. Staðan er í raun og veru sú að allur þessi gífurlegi fjöldi er — það eru bara 13 ríki í heiminum sem eru fjölmennari en allur sá fjöldi sem er á flótta. Maður spyr þá við þær aðstæður: Þurfum við ekki að gera meira frekar en minna? Eigum við að senda fólk heim eða út í óvissu á sama tíma og við sjáum þessa hluti gerast? Eigum við fylgja einhverri ómannúðlegri sjálfstýringu og beita fyrir okkur valdaleysi hvað þetta varðar? Við eigum einmitt fyrst og fremst að sýna samkennd og hjálpa fólki af því að það á bara skilið, rétt eins og við sjálf, aðstoð frá þeim sem geta hjálpað.

Það eru auðvitað grundvallarsjónarmið í mannlegu samfélagi að við reynum að veita aðstoð þar sem við getum veitt hana. Ég fæ ekki séð annað en að nýbúar sem hingað flutt hafi auðgað íslenskt mannlíf og auðgað fjölbreytni íslensks mannlífs og auðgað íslenskt samfélag, alveg burt séð frá því með hvaða hætti fólk hefur komið til landsins, hvort sem það hefur komið sem flóttafólk eða loftslagsflóttafólk eða bara fólk sem leitar hingað vegna þess að það er að leita að betri aðstæðum og betri lífskjörum fyrir sig og sína. Ég get ekki séð að það sé einhver glæpur fólginn í því að vilja bæta aðstæður sinna nánustu, fjölskyldu sinnar, barna sinna. Við skulum ekki gleyma því að stór hluti af Skandinavíu og Íslandi fór til Ameríku á sínum tíma til að leita betri kjara af því að þau kjör sem til staðar voru í þeirra samfélagi voru of slæm til þess að fólk gæti lifað sómasamlegu lífi. Þannig eru aðstæður víða. Það er verið að skammast yfir því að fólk frá Albaníu leiti hingað. En af hverju leitar það hingað? Af því að það lifir ekki ásættanlegu lífi í sínu landi. Að stilla fólki þannig upp að það eigi ekkert að koma hingað af því að það sé ekki verið að drepa í heimalandinu, það sé ekki verið að skjóta á það — ef hér væri allt á hliðinni og börnin okkar fengju ekki að borða, þá myndum við sjálf leita til annarra landa eftir aðstæðum sem væru þannig að fólkið okkar myndi geta lifað af. En það er ekki bara það að við séum að taka við fólki og það verði baggi á samfélaginu okkar; okkur vantar fólk, Ísland vantar fólk. Við erum allt of fámenn. Við þyrftum að vera a.m.k. milljón til þess að reka þá samfélagslegu innviði sem við viljum reka í þessu samfélagi. Okkur vantar fólk í tæknigreinar og okkur vantar fólk í byggingariðnað, okkur vantar fólk í ferðaþjónustu, okkur vantar fólk í veitingageirann, okkur vantar fólk í heilbrigðisgeirann. Það er alls staðar skortur á starfsfólki og það er alls staðar skortur á hæfileikum. Þess vegna á maður erfitt með að horfa upp á og skilja að verið sé að meina fólki þátttöku í íslensku samfélagi. Það er ekkert verið að tala um það endilega að þetta verði bara allt galopið. Við hljótum að setja einhvers staðar einhver mörk, en þau mörk sem verið er að setja núna finnast mér vera að mörgu leyti grimm. Ég styð og ég skil að það þurfi að búa til einhverja aðgerðaáætlun utan um þennan málaflokk en sú aðgerðaáætlun ætti að mótast af mennsku, að við höfum samúð með fólki sem á við erfiðleika að stríða og við tökum á móti því með opinn faðminn.

Það er ekkert að því að byggja upp samfélag sem er fjölþjóðlegt. Ég þekki það bara úr mínu sveitarfélagi þar sem eru töluð á milli 40 og 50 tungumála og hlutfall erlendra íbúa er fjórðungur af heildarfjölda samfélagsins okkar og ég fæ ekki betur séð en að það hafi bara gert samfélaginu gott. Við sjáum ungmenni sem hafa dvalið þar og farið inn í skólakerfið okkar og þau skara fram úr á, ekki bara einu sviði heldur á mörgum sviðum. Fullt af krökkum skara fram úr í íþróttum, í menningarlífinu, í tónlistinni, þannig að ég get ekki annað séð en að við ættum að fagna fjölbreytileikanum. Yfirskrift Reykjanesbæjar er Í krafti fjölbreytileikans, vegna þess að við skiljum það í mínu sveitarfélagi að það er kraftur í fjölbreytileikanum. Ef við berjumst gegn því að fjölbreytnin verði meiri erum við að mínu mati á rangri vegferð. Það er heimóttarskapur að gera slíkt.

Ég verð bara að taka undir það sem hér hefur verið sagt: Það á ekki að viðgangast að senda fólk til baka í aðstæður sem standast ekki þær kröfur sem við gerum sjálf til eðlilegs lífs. Í dag sá ég myndir frá Grikklandi inni á Facebook og það var ekki falleg sjón; að senda fólk út á götu í Grikklandi er í mínum huga bara níðingsverk. Það getur enginn róið árabát til Íslands. Þú þarft að hafa viðkomu einhvers staðar. Þú kemst ekki allar leið á árabát. Við vitum um hundruð þúsunda manna sem hafa drukknað á Miðjarðarhafinu og þú leggur ekki á þig slíkt ferðalag nema vegna þess að þú átt við vanda að stríða. Þú ert tilbúinn til þess að „offra“ lífi þínu, barnanna þinna, af því að aðstæður í heimalandi þínu eru slíkar að þú getur ekki lifað og þú tekur þennan séns til að koma fjölskyldunni í skjól. En því miður komast ekki allir í skjól. Þannig að ég vil bara leggja það að þessari ríkisstjórn að hér verði unnið af góðmennsku og mannúð til að sinna þessum hópi sem nú þegar er farinn að upplifa erfiðar og skelfilegar aðstæður í landinu sínu. Við eigum ekki að mismuna fólki eftir því hvaðan það kemur. Það á bara ekkert að líða það að hvítir, kristnir menn séu meira velkomnir en blökkumenn frá Afríku eða einhver frá Írak. Ég vil hvetja stjórnvöld, ríkisstjórnina til að beita mannúð í þessu. Við eigum ekki að nota reglugerðir eða tilskipanir, sem að mörgu leyti eru úreltar og lönd eru farin að endurskoða og vilja breyta, til að réttlæta það að fólki sé vísað úr landi. Höfum góðmennskuna að leiðarljósi.



[22:05]
Logi Einarsson (Sf) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Guðbrandi Einarssyni fyrir ágætisræðu. Hann fjallaði töluvert mikið um samspilið milli þessa frumvarps og útlendingalaga og þeirrar umræðu sem á sér stað núna um brottvikningu. Mig langar að spyrja hann tveggja stuttra spurninga í sitthvoru andsvarinu, ég ætla þá að gefa honum tíma til að svara. Hann talaði um það þegar verið er að mismuna hópum og það er auðvitað hryllilegt ef slíkt er praktíserað. Nú sjáum við að íslensk stjórnvöld hafa komið mjög myndarlega að málum varðandi flóttamenn frá Úkraínu og aðstoð vegna hörmulegs stríðs þar. Einnig er talað um að aðstoða Moldóvu, sem er nágrannaríki Úkraínu og er að bugast vegna mikils straums flóttamanna beint yfir landamærin, af því að eins og hv. þingmaður talaði um þá rær maður ekki á bát frá Miðausturlöndum til Íslands. Grikkland hefur raunar í mörg ár kvartað yfir því og óskað eftir aðstoð vegna mikils álags þar vegna þess að landfræðilega liggur Grikkland þannig að fólk sækir þangað.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann telji ekki að vera ákveðinn tvískinnung í því að við skulum við ekki einmitt líta til stöðunnar í Grikklandi og segja: Jú, við þurfum við að taka meiri ábyrgð alveg eins og við gerum, sem betur fer, gagnvart Moldóvu og flóttamönnum frá Úkraínu?



[22:07]
Guðbrandur Einarsson (V) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Jú, mér finnst gæta ákveðins tvískinnungs í þessum málaflokki, ekki bara hjá okkur heldur í Evrópu allri. Það er eins og allt fari á hliðina við það að flóttamenn komi til Evrópu, en flestir flóttamenn eru bara annars staðar en í Evrópu. Við höfum verið að gagnrýna Tyrkland fyrir mannréttindabrot en það er stór fjöldi flóttamanna í Tyrklandi. Evrópa hefur verið að gagnrýna Tyrki fyrir mannréttindabrot en Tyrkir taka á móti flóttafólki. Líbía, eitt fátækasta ríkið, tekur á móti fullt af flóttamönnum. Þannig að jú, við ríka fólkið í Evrópu — það gætir ákveðins tvískinnungs í þessu. Það eru komnir einhverjir 1.500 flóttamenn til Íslands á þessu ári, 1.000 frá Úkraínu og við höfum tekið þeim opnum örmum, sem er bara virðingarvert, og við eigum að gera það. En á sama tíma eru þá einhverjir aðrir, 500 manns, sem við vitum ekkert um, við vitum ekkert hvar þeir eru. Dvelja þeir í blokk uppi í Ásbrú, allir saman? Ég upplifi ástandið stundum þannig að verið sé að reka rollur í rétt: Mönnum er hrúgað saman frá sitthvoru landinu, tala ekki sama tungumálið, en við vitum ekki neitt. Hvar eru þessir 500? Fá þeir fá sama búnað og flóttamennirnir frá Úkraínu?



[22:09]
Logi Einarsson (Sf) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Seinni, herra forseti. Hv. þingmaður benti réttilega á áðan að flóttamenn í heiminum í dag eru 100 milljónir, áætlað, miklu meira en nokkurn tímann áður í mannkynssögunni. Þingmaðurinn sagði að þetta væri um 1% jarðarbúa. Til að setja þetta nú í samhengi við Jesú Krist er þetta helmingur af þess fjölda jarðarbúa sem var uppi þegar hann fæddist. Þannig að ég er alveg sammála hv. þingmanni um að auðvitað á Ísland við þessar aðstæður að gera meira en minna og opna faðminn og nýta sér það stórkostlega sem fjölmenningin hefur fært okkur á Íslandi; allt frá mat og menningu, til tónlistar og annarra hluta.

Í óundirbúnum umræðum við hæstv. forsætisráðherra í dag spurði ég hana hvort hún myndi beita sér fyrir því að þetta fólk sem hér hefur fest rætur, starfar og hefur jafnvel stofnað fjölskyldur og sem nú á að vísa til Grikklands, fái að vera hér áfram. Hæstv. ráðherra sagði að hún ætlaði að skoða hvað önnur Evrópulönd ætluðu að gera. Er hv. þingmaður sammála mér um það að hæstv. forsætisráðherra ætti upp á sitt eindæmi að geta sannfærst um að staðan í Grikklandi er óboðleg? Þar er ekki hægt að bjóða fólki upp á öryggi. Þar geta stjórnvöld ekki meira. Hæstv. ráðherra gæti leitað til Rauða krossins og annarra alþjóðastofnana til að sannfæra sig um þetta. Er hv. þingmaður sammála mér um að hæstv. forsætisráðherra sé að drepa málum óþarflega á dreif með því að segjast ætla núna í einhvern leiðangur til Evrópu til að heyra hvað þau ætli að gera í staðinn fyrir bara að Íslendingar taki ábyrgð í málinu?



[22:11]
Guðbrandur Einarsson (V) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegur forseti. Ég myndi að sjálfsögðu fagna því ef hæstv. forsætisráðherra myndi bara sýna ákveðna djörfung í þessu máli og taka frumkvæði. Það þarf ekki alltaf að leita leiðsagnar í góðum málum einhvers staðar annars staðar. Ef við erum þannig innréttuð að við viljum standa með fólki getum við bara gert það sjálf. Við þurfum ekkert að leita eftir einhverju áliti frá Svíþjóð, Noregi eða Danmörku, við gerum þetta bara á okkar forsendum. Staðan er auðvitað sú að hér hefur fólk dvalið síðan 2019, kannski í þrjú ár. Hér eru lítil börn búin að vera í skóla, eignast fullt af vinum, búin að læra íslensku. Hér er um mæður búnar að eignast börn á Íslandi. Þetta er hópur sem á að fara að vísa úr landi. Ég skil ekki hvernig stendur á því að við ætlum bara yfir höfuð að gera þetta, að við séum að taka hóp sem er búinn — ja, að við heyrum engin vandamál. Þetta er hópur sem er búinn að vera í aðlögun hérna á Íslandi, samlagast íslensku samfélagi og gengur það bara ágætlega. Að við séum að vísa fólki út í einhverja óvissu er óboðlegt. Eða eins og hv. þm. Sigmar Guðmundsson sagði í dag: Viljum við senda fólk í aðstæður sem við viljum ekki sjálf vera í? Af hverju erum við að bjóða öðru fólki það sem við sjálf erum ekki tilbúin fara í, að upplifa? Ég myndi vissulega vilja að hæstv. forsætisráðherra gerði einhverjar þær ráðstafanir sem yrðu til þess að þessi hópur fengi að dvelja hér áfram eins og hann hefur gert undangengin tvö eða þrjú ár og aðlagast íslensku samfélagi bara mjög vel.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til allsh.- og menntmn.