153. löggjafarþing — 9. fundur
 27. september 2022.
aðgerðir vegna fjölgunar umsækjenda um alþjóðlega vernd.

[14:12]
Guðbrandur Einarsson (V):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegur forseti. Embætti ríkislögreglustjóra gaf út fréttatilkynningu þann 16. september síðastliðinn um að embættið hefði hækkað viðbúnaðarstig á landamærum á hættustig vegna yfirálags til þess að tryggja örugga móttöku á þeim mikla fjölda fólks sem sækir um alþjóðlega vernd á Íslandi. Þar segir enn fremur:

„Embættið reiknar með að umsækjendum um alþjóðlega vernd muni fjölga hlutfallslega meira á síðustu mánuðum ársins en á sama tíma eru búsetuúrræði þegar nánast fullnýtt. Hækkun á viðbúnaðarstigi er liður í að bregðast við þessari stöðu. […] Samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum frá Vinnumálastofnun þá eru búsetuúrræði sem nýtt eru sem skammtímaúrræði að nálgast fulla nýtingu. Langtímaúrræði sem rekin eru af Fjölmenningarsetri og sveitarfélögum eru jafnframt nánast fullnýtt.

Þennan dag, þegar lýst var yfir hættuástandi á landamærum, var staðan þannig að 2.718 einstaklingar höfðu leitað eftir að fá stöðu flóttamanns hér á landi. Þar af voru 1.646 einstaklingar frá Úkraínu. En á þeim tíu dögum sem eru liðnir frá því að þessu hættuástandi var lýst yfir hefur flóttamönnum sem hingað hafa leitað fjölgað talsvert og eru nú 2.879 og hefur þeim því fjölgað um 161 einstakling á þessum tíu dögum. Ég vil því spyrja hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra um stöðuna: Hvernig hefur verið brugðist við henni? Hvað hefur verið gert eftir að búið var að lýsa yfir hættuástandi? Hafa viðræður við sveitarfélög, um að þau taki á sig aukna ábyrgð í þessum málaflokki, skilað einhverjum árangri?



[14:14]
félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg):
Bráðabirgðaútgáfa.

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góða fyrirspurn. Ég vil kannski byrja á því að minna þingheim á að í febrúar eða mars var tekin sú pólitíska ákvörðun að opna landið fyrir stríðshrjáðu fólki frá Úkraínu. Ég hef ekki heyrt neina pólitíska hreyfingu mæla gegn þeirri ákvörðun. Ég held að það sé mikilvægt að við munum það þegar við horfum til þeirra áskorana sem við stöndum frammi fyrir núna. Stærsta áskorunin sem við stöndum frammi fyrir, þegar kemur að móttöku flóttafólks, er húsnæði. Það þarf ekki að koma neinum á óvart. Það er í hverju einasta sveitarfélagi hér á Íslandi, held ég að óhætt sé að fullyrða, sem við erum að takast á við þau mál og við værum að því þó svo að ekki væri um að ræða þann aukna fjölda sem hingað er að koma. Frá því að hættustigi var lýst yfir á landamærunum, og ekki bara frá því þá heldur fyrir þann tíma líka, höfum við að sjálfsögðu verið að vinna í því að fjölga herbergjum og íbúðum og húsnæði til að geta tekið á móti þessum aukna fjölda fólks. Það má kannski skipta þessu í tvennt. Það er í fyrsta lagi þegar fólk kemur hingað til landsins og þarf á húsnæði að halda þangað til það fær vernd og síðan eftir að það fær vernd og það er orðið á ábyrgð sveitarfélaganna, líkt og ég ræddi í andsvari mínu við hv. þm. Bergþór Ólason. Staðan er í stuttu máli sú að við getum enn komið fólki fyrir án þess að þurfa að grípa til aðgerða eins og að opna fjöldahjálparstöð eða eitthvað slíkt, sem vissulega er eitthvað sem við verðum að vera viðbúin að geta gert ef allt húsnæði er á þrotum.



[14:16]
Guðbrandur Einarsson (V):
Bráðabirgðaútgáfa.

Herra forseti. Ég er ágætlega meðvitaður um að við vorum sammála um að taka á móti öllum þeim sem leita hingað til lands frá Úkraínu en ég vil á sama tíma ekki gleyma þeim sem koma frá öðrum löndum og þurfa á aðstoð að halda. Við eigum að taka vel á móti fólki sem er í neyð. En hv. þingmaður nefndi hér áðan grein í Morgunblaðinu þar sem tvö sveitarfélög voru að býsnast yfir erfiðri stöðu. Ég veit ekki til þess að annað þessara sveitarfélaga hafi nokkuð tekið þátt í að sinna þessum málaflokki svo nokkru nemi. Mig langar bara að fá fram aðeins nánar frá hæstv. ráðherra: Hvernig standa málin á Ásbrú þegar kemur að því að vista þar fólk án þjónustusamnings? Ég hef fregnir af því að það hefur verið óskað eftir skólavist í Háaleitisskóla vegna barns sem dvelur á Garðvangi í Garði og ég get ekki séð annað en að það sé ætlunin að flytja fleiri uppi á Ásbrú þar sem nú þegar dvelja, held ég, a.m.k. á fimmta hundrað einstaklingar utan samnings.



[14:18]
félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg):
Bráðabirgðaútgáfa.

Hæstv. forseti. Ég held kannski að eftir þessa umræðu hér í dag hafi komið ágætlega fram að sveitarfélögin í landinu eru að vissu leyti, vegna þess aukna álags sem um er að ræða, farin að benda hvert á annað, sem ég skil mjög vel, og ég skil sérstaklega þau sveitarfélög sem hafa staðið fremst í brúnni, þ.e. Reykjavík, Reykjanesbæ og Hafnarfjörð, þar sem staðan er langerfiðust. Ég hef fundað með öllum þessum sveitarfélögum til að reyna að finna lausnir og það má ekki gleyma því að á borðinu liggur samningur um samræmda móttöku fyrir sveitarfélögin í landinu sem við erum að fá fleiri sveitarfélög til að taka þátt í, til að létta á álaginu þannig að við heyrum vonandi færri sögur eins og þær sem hv. þingmenn hafa komið inn á hér í dag. Ég legg gríðarlega mikla áherslu á að sveitarfélögin í landinu, og ekki bara þau sveitarfélög sem hingað til hafa tekið þátt í (Forseti hringir.) samræmdri móttöku flóttafólks heldur önnur sveitarfélög, komi inn í þetta verkefni.