132. löggjafarþing — 97. fundur
 30. mars 2006.
mælingar, mæligrunnar og vigtarmenn, 1. umræða.
stjfrv., 620. mál (heildarlög, EES-reglur). — Þskj. 906.

[15:09]
viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um mælingar, mæligrunna og vigtarmenn sem er 620. mál þingsins. Því er ætlað að leysa af hólmi eldri lög, nr. 100/1992, um vog, mál og faggildingu. Þegar lögin um vog, mál og faggildingu voru sett var stefnt að því að ganga til EES-samningsins en á þeim tíma sem liðinn er hefur fengist reynsla er sýnir að endurskoðunar er þörf og einnig hefur annað lagaumhverfi breyst. Gildandi lög og ný drög sem hér liggja fyrir taka til mælitækja vegna almennra hagsmuna, svo sem réttmætra viðskiptahátta, verndunar umhverfis og heilsu og réttaröryggis.

Þá ber sérstaklega að vekja athygli á að eigi síðar en í lok apríl þessa árs, 2006, ber að innleiða í íslenskan rétt mælitækjatilskipun ESB sem oftast er nefnd MID-tilskipunin. Það er ný aðferðatilskipun sem nær til 10 flokka mælitækja og er gert ráð fyrir efni hennar í þessum frumvarpsdrögum.

Efni þessa frumvarps nær einnig til þátta eins og grunnkrafna til mælitækja, samræmismats og markaðseftirlits sem eru nauðsynlegir til að Ísland geti staðið við skuldbindingar sínar sem aðili að EES-samningnum innan þess heildarkerfis fyrir mælingar, vottanir og prófanir sem mótað hefur verið af ESB og er orðið hluti af aðferðafræði þess til að gera frjálst flæði vöru mögulegt. Aðrir alþjóðasamningar, svo sem um gagnkvæmar viðurkenningar á mælingum, vottunum og prófunum milli ESB og USA, byggjast einnig á þessum sömu þáttum og þess vegna er stöðugt að verða mikilvægara að mælifræðikerfi landsins sé trúverðugt. Frumvarpið nær því eðlilega einnig til undirstöðuþátta þess að mælingar geti verið réttar en þeir undirstöðuþættir eru mælieiningar, mæligrunnar, kvarðanir og rekjanleiki.

Verði frumvarpið að lögum er stefnt að því í fyrsta lagi að tryggja að hér á landi sé notað mælifræðikerfi sem nýtur trausts. Í öðru lagi að stuðla að nægilega nákvæmum og réttum mælingum og í þriðja lagi að vernda hagsmuni neytenda, öryggi viðskiptahátta, réttarvernd, líf og heilsu.

Frumvarpinu er skipt í tíu kafla og þykir rétt að drepa á helstu efnisþætti. Í I. kafla frumvarpsins eru ákvæði um gildissvið, hlutverk og stjórnsýslu Neytendastofu og eru þau nákvæmari en sambærileg ákvæði í núgildandi lögum. Þá eru þar ýmsar nýjar skilgreiningar sem eru nauðsynlegar, m.a. vegna ákvæða Evrópuréttarins.

II. kafli frumvarpsins fjallar um mælieiningar og mæligrunna og er hann að mörgu leyti sambærilegur gildandi ákvæðum í lögum nr. 100/1992, um vog, mál og faggildingu, en ákvæði kaflans eru þó gerð fyllri en gert var við setningu núgildandi laga.

Í III. kafla eru ákvæði um sölu- og markaðssetningu mælitækja sem byggjast á ákvæðum tilskipunarinnar og þeirri meginreglu hennar að ekki megi hindra viðskipti með mælitæki enda uppfylli þau grunnkröfur sem tilskipunin kveður á um.

Í IV. kafla er fjallað um notkun mælitækja og auk þess staðfest sú meginregla sem nú er að finna í lögum nr. 100/1992, um vog, mál og faggildingu, en það er á ábyrgð eigenda mælitækis að þau mælitæki sem hann notar og eru eftirlitsskyld skuli færð til skoðunar eða reglubundinnar löggildingar í samræmi við ákvæði laga.

Í V. kafla er fjallað um hvernig gengið er úr skugga um niðurstöður mælinga og ákvæði um aðferðir til að tryggja rétt magn fyrir forpakkaðar vörur og um eftirlit þannig að heimilt sé að e-merkja þessar forpakkningar sem valfrjálst er fyrir framleiðendur að nýta sér til að skapa aukið traust í viðskiptum og efla samkeppnishæfni á hinum opna markaði EES.

Í VI. kafla frumvarpsins er fjallað um framkvæmd eftirlits og á því byggt að fela einkaaðilum framkvæmd eftirlits í eins miklum mæli og unnt er.

VII. kafli frumvarpsins geymir ákvæði um löggilta vigtarmenn. Í VIII. kafla er ákvæði um faggilta kvörðunarþjónustu. Í IX. kafla er fjallað um eftirlitsgjald sem ætlað er að standa undir þeim stjórnsýslukostnaði sem fylgir framkvæmd með ákvæðum þessa frumvarps og við ákvörðun á fjárhæð gjaldsins hefur verið byggt á kostnaðargreiningu og því eftirliti sem nauðsynlegt er að starfrækja. Í X. kafla er fjallað um fagráð atvinnulífsins og Neytendastofu en það er nýmæli. Mikilvægt er að tryggt sé að samstarf eigi sér stað milli Neytendastofu og ýmissa aðila í atvinnulífinu sem hafa verulega hagsmuni af því að þekkja og hagnýta sér mælifræði í starfsemi sinni og einnig er mikilvægt að hafa samráð við fulltrúa neytenda.

Í XI. kafla frumvarpsins eru ákvæði um viðurlög.

Að svo stöddu tel ég ekki ástæðu til að rekja efni einstakra greina frumvarpsins nánar. Ég vil þó taka fram að unnið hefur verið að þessu frumvarpi um langan tíma og hefur verið litið til lagaframkvæmda nágrannalanda við þá vinnu sem og reynslu Löggildingarstofu á árum áður. Við gerð frumvarpsins var haft náið samstarf við sérfræðinga á Neytendastofu og einnig fulltrúa úr atvinnulífinu, Samtök atvinnulífsins, Samtök iðnaðarins, Samtök verslunar og þjónustu og Fiskistofu. Þá var náið samráð haft við fjármálaráðuneyti og ráðgjafarnefnd um opinberar eftirlitsreglur. Þeim voru send drög að frumvarpinu í samræmi við ákvæði laga.

Í svarbréfi ráðgjafarnefndarinnar, dags. 17. febr. sl., kemur m.a. fram að nefndin telur að markmið væntanlegra laga samræmist fyrirkomulagi sambærilegra málaflokka í nágrannalöndunum og reglum settum á alþjóðavettvangi þar um.

Hæstv. forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til 2. umr. og hv. efnahags- og viðskiptanefndar.



[15:16]
Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Nú þekki ég ekki nógu vel til þessa máls til að geta metið það í heild sinni en ég velti því svolítið fyrir mér vegna þess að hér er talað um mælingar, mæligrunna og vigtarmenn að þá finnst mér einhvern veginn að það vanti aðeins upp á að maður geti áttað sig á því hvenær uppi er krafan um að nýta sér þessa mælitækni og hvort þetta krossast við aðrar reglur hvað þetta varðar. Ég bendi sérstaklega á reglugerð sjávarútvegsráðherra um vigtun sjávarafla. Þar er verið að fjalla um sömu hlutina, en þar eru á ferðinni aðferðir við mælingar sem eru af allt öðru tagi en hér er talað um. Þar er vissulega talað um vigtun líka en einnig er verið að tala um að meta afla og nota viðmiðanir til að meta heildarniðurstöðuna, t.d. í fullvinnsluskipum. Þetta — vegna þess að hæstv. ráðherra er viðskiptaráðherra líka — hefur margoft orðið að ágreiningsefni milli aðila í sjávarútvegi. Ég varpa fram þeirri spurningu til hæstv. ráðherra hvort nægilega vel sé frá því gengið og ég tel að nefndin þurfi að skoða það að í umfjöllun um mæligrunna, vigtarmenn og mælingar sé leið fyrir þá sem telja að ekki sé nægilega vel að málum staðið hvað varðar mælingar. Ég nefni aftur þetta dæmi um fullvinnsluskipin og ætla að halda mig við það

Það er löngu komin fram tækni til að vigta allan afla úti á sjó ef menn vilja nýta sér hana og til eru vogir sem eru löggiltar sem mundu henta alveg ágætlega til þess. Það hefur verið prófað og reynt og allt í góðu lagi með það. Samt halda menn sig við mælingar úti í hafi sem eru með þeim hætti að allur unninn afli er vigtaður eftir á og síðan eftir tilteknum útreikningsreglum fundið út hver aflinn upp úr sjó hafi verið.

Það sem ég er að velta fyrir mér er þetta: Þarf ekki að vera alveg ljóst að það sé óvilhallt ráð sem fari yfir það hvenær má nýta sér slíkar aðferðir og hvenær eigi að vera fyrirmæli bókstaflega um það að nota löggilt mælitæki til að mæla þetta en ekki einhvers konar ágiskanir í formi að vísu reynslutalna, og ég efast ekki um þær? En það hefur mjög oft og er alltaf verið að takast á um hvort þetta séu sanngjarnar leikreglur. Þeir sem vinna fisk í landi hafa margoft bent á að þeir mundu gjarnan vilja fá að vera í sömu stöðu og fullvinnsluskipin, þ.e. að vigta afurðirnar eftir á. Þá væru þeir komnir í samkeppnisaðstöðu við fullvinnsluskipin. En mér finnst þetta eiga erindi í umræðuna og ég spyr hæstv. ráðherra hvort ekki sé ástæða til að menn fari yfir það hvenær á að nýta þessi mælitæki og leggja þá af aðrar mæliaðferðir eins og ég lýsti áðan.

Ég vil beina þessu til hæstv. ráðherra og eins til nefndarinnar að þetta verði skoðað. Að öðru leyti ætla ég ekki að ræða um þetta mál. Mér sýnist í fljótu bragði að þetta sé allt saman eðlilegt og gott að menn fái skýrar reglur um þessi efni en mér finnst vanta að þær séu skýrari um hvenær eigi að nota mælitækin.



[15:20]
viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tel að þetta sé mál sem sé alveg ástæða til að fjalla um en hvort það nákvæmlega varðar þetta frumvarp skal ég ekki segja um. Ég held að þarna sé kannski kominn hluti af stefnu í fiskveiðistjórn og öðru slíku sem hv. þingmaður bryddar á. En auðvitað er mikilvægt að það séu reglur sem gilda um það hvernig við komumst að niðurstöðu um að þau tæki sem notuð eru til hvers konar mælinga séu rétt. Það er ekki bara mikilvægt vegna viðskipta almennt heldur er þetta náttúrlega líka hluti af tilskipunum sem við verðum að innleiða.

Það sem hv. þm. nefnir er umræðuefni sem er svo sem ekki nýtt af nálinni heldur hlutir sem oft eru til umfjöllunar og varðar það að kannski má tala um að ágiskanir séu notaðar við útreikninga sem þó eru byggðar að sjálfsögðu á reynslu. En mér finnst ekki óeðlilegt að þetta sé eitt af því sem skoðað verði í nefndinni og get ég eiginlega ekkert sagt nákvæmara um það en þetta.



[15:22]
Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér finnst þetta í sjálfu sér ekki hafa svo mikið að gera með fiskveiðistefnuna sjálfa. Það er eiginlega meira samkeppnisumhverfið sem deilt hefur verið um. Það er líka umhugsunarefni vegna þess hvaða hlutverk þetta ráð sem er nefnt í lagafrumvarpinu á að hafa þegar maður les 41. gr. þeirrar reglugerðar sem ég vitna í um vigtun sjávarafla en þar stendur, með leyfi forseta:

„Sérstök samráðsnefnd, skipuð einum fulltrúa tilnefndum af Hafnasambandi sveitarfélaga, einum tilnefndum af Fiskistofu og einum tilnefndum af samgönguráðherra, auk formanns sem skipaður er af sjávarútvegsráðherra án tilnefningar skal fjalla um álita- og ágreiningsmál varðandi vigtun afla.“

Ég tel að það ætti að skoða hvort ekki eigi að vera betra samræmi í því sem hið opinbera er að gera hvað þessa hluti varðar þannig að það sé ein heildarregla sem menn fari eftir. Auðvitað þarf séraðferðir í sjávarútveginum og allt það. Ég er ekki að halda öðru fram. Ég held því hins vegar fram að þegar tæknin hefur gert það kleift að ganga skýrt frá því að afli sé veginn á svipuðu stigi hjá þeim aðilum sem eru að keppa í greininni, þá eigi að taka þá tækni upp og ekki eigi að mismuna aðilum með þeim hætti sem þeir telja sér mismunað, vegna þess að sumir í fiskvinnslunni þurfi ekki að vigta afurðir sínar fyrr en eftir á en aðrir gera það þegar fiskinum er landað óunnum. Ég spyr þess vegna: Vantar ekki að hægt sé að snúa sér til þessa ráðs með að úrskurða um hvenær skuli taka upp nýja tækni?



[15:24]
viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hef kannski ekki svo miklu við þetta að bæta en vil þó ítreka að ég tel að þetta sé eitt af því sem sé alveg ástæða til að fara yfir í nefndinni og skil vel hvað hv. þingmaður er að tala um og hvað það er sem hann hefur áhyggjur af í þessu sambandi. Auðvitað fleygir tækninni fram og ýmislegt er mögulegt í dag sem ekki var mögulegt fyrir örfáum árum.

Í þessu afmarkaða máli sem hv. þingmaður kemur inn á er náttúrlega best að allt sé gert á þann hátt að það sé hafið yfir gagnrýni. Þetta er eitt af því sem er ekki hafið yfir gagnrýni og því tel ég að nefndin muni skoða þetta mál sérstaklega.