132. löggjafarþing — 108. fundur
 25. apríl 2006.
athugasemdir um störf þingsins.

frumvörp um Ríkisútvarpið og fjölmiðla.

[13:32]
Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Á fundi menntamálanefndar í morgun, eftir beiðni okkar í minni hluta nefndarinnar, gaf formaður hennar, hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson, út yfirlýsingu, svaraði tilboði okkar um að starfa að ríkisútvarpsmálinu í sumar — og má bæta við að fjölmiðlafrumvarpið nýja kæmi vel inn í það starf. Hann sagði um þetta að hann hafnaði þessu boði okkar. Ég harma það því að þetta var af okkar hálfu hugsað sem sáttaumleitan og leið til þess að gera frumvarpið um Ríkisútvarpið betra. Það byggðist auðvitað á málamiðlunum þar sem enginn fengi allt sitt. En það er ekki meiningin af hálfu formannsins.

Ég bið um það, sérstaklega í ljósi nýrra tíðinda í þessu máli, að ekki bara hann, hv. þingmaður, heldur líka forustumenn stjórnarflokkanna íhugi þetta tilboð upp á nýtt.

Fjölmiðlafrumvarp var kynnt í gær. Sigurður Líndal gerði strax þá athugasemd við það frumvarp að vafi leiki á því hvort reglur í því standist jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar. Sigurður Líndal var á fundi hjá okkur áðan og þá kom í ljós að eftir að hann hafði séð frumvarpið hafði verið bætt inn í það grein, sennilega eftir hádegi í gær, sem er á þá leið að ríkisstjórninni sé óheimilt að eiga hlut í öðrum fyrirtækjum sem gefa út dagblað eða reka útvarpsstöð. Það var athyglisvert að Sigurður sagði að þetta væri vissulega til bóta hvað varðar það vandamál sem hann fengist við en ástæða væri til að fara betur yfir allt þetta samhengi ríkisútvarpslaganna og fjölmiðlalaganna.

Það er líka ástæða til að vekja athygli á því að þessi mikilvæga grein er ekki í lögunum um Ríkisútvarpið, sem hér eru til umræðu milli 2. og 3. umr., heldur í allt öðru frumvarpi sem á að samþykkja eftir á. Ég held því að nú sé komið að því að við hættum þessu rugli og tökum þessi mál saman og vinnum þau í sumar eins og menn.



[13:35]
Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Nú er komið á daginn hvílík endemisvinnubrögð hafa verið viðhöfð af hálfu ríkisstjórnarinnar og hæstv. menntamálaráðherra sérstaklega við vinnslu á frumvarpi um fjölmiðla annars vegar og um Ríkisútvarpið hins vegar. Allar götur frá því að þessi vinna hófst höfum við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði og þá ekki síst fulltrúi okkar í fjölmiðlanefnd menntamálaráðuneytisins lagt ofuráherslu á að þessi mál yrðu unnin í samhengi. Það hefur ekki verið gert og nú eru ýmsar mótsagnir að koma fram. Þær blasa við og ekki er séð fyrir endann á því hvernig þær verða til lykta leiddar.

Fjölmiðlafrumvarpið varð til í því samhengi að Ríkisútvarpið var, og er enn, stofnun á vegum ríkisins. Nú stefnir hins vegar í að Ríkisútvarpið verði hlutafélag, fyrirtæki á markaði og ekki nóg með það, fyrirtæki sem stundar viðskipti og kemur til með að gera það í auknum mæli á komandi árum. Það er ljóst að önnur fyrirtæki á markaði í sams konar rekstri munu reisa kröfur um að jafnræðis verði gætt og þá einnig með skírskotun til þess mikla menningararfs og til þeirrar miklu dagskrár sem Ríkisútvarpið hefur í sínum fórum. Það er þegar farið að reisa kröfur af hálfu annarra fyrirtækja á markaði um aðgang að þessu efni.

Eitt vil ég gagnrýna að lokum, hæstv. forseti. Það er sú leynd sem hefur hvílt yfir fjölmiðlafrumvarpinu. Lagafrumvörp eiga að þola ljósið og þola umræður í þjóðfélaginu.



[13:37]
Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég tek undir þá kröfu og þá áskorun til hv. formanns menntamálanefndar að verða við tilboði okkar um að endurnýja pólitíska sátt um Ríkisútvarpið með því að taka málið úr þinginu, vinna það betur, skoða nákvæmlega og vandvirknislega samspil frumvarpsins um Ríkisútvarpið hf. og hins nýja fjölmiðlafrumvarps sem kynnt var undir kvöld í gær, fjölmiðlafrumvarps sem sprettur upp núna eftir að tvær umræður eru að baki um hið umdeilda ríkisútvarpsfrumvarp og virðist strax varpa ljósi á fjölmarga fleiri annmarka, fjölmarga fleiri galla á því klúðri og pólitíska klastri sem frumvarpið um Ríkisútvarpið hf. er. Með þessari framgöngu er hæstv. menntamálaráðherra og með þessari framgöngu er hv. formaður menntamálanefndar að endurnýja og blása til nýs pólitísks ófriðar um fjölmiðlamálið og þá er óhætt að spyrja: Lærði ríkisstjórnin ekkert af átökunum um fjölmiðlana fyrir tveimur árum sem leiddu til þess afhroðs og þeirrar útreiðar sem ríkisstjórn Davíðs Oddssonar fékk á þeim tíma? Ætla menn að endurtaka ófriðinn? Ætla menn að endurtaka átökin með því að koma með handónýtt frumvarp um Ríkisútvarpið, meingallað mál sem verður að koma út úr þinginu og fara inn í nefnd að nýju og vinna aftur upp á nýtt — ástæða er til að hrósa hv. nefndarformanni fyrir það hvernig sú vinna fer af stað. Um leið vil ég skora á hv. nefndarformann að beita sér fyrir því að málið komi ekki inn aftur, skoðist næstu 3 til 4 mánuðina með frumvarpsdrögum um nýtt frumvarp um fjölmiðla og fjölmiðlalög. Það þarf að skoða vel samspil málanna og koma með boðlega lagasetningu inn á þingið næsta vetur.



[13:39]
Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Frú forseti. Það er rétt að nú um helgina barst mér bréf frá þingmönnum stjórnarandstöðunnar í hv. menntamálanefnd þar sem óskað var eftir því að frumvarpinu um Ríkisútvarpið yrði frestað, stofnuð yrði nefnd til að fara yfir málið og það yrði tekið fyrir aftur næsta haust.

Ég hef sagt alveg frá upphafi þessa máls, og stjórnarflokkarnir hafa verið sammála um þá stefnu, að það er okkar skoðun að það eigi að klára og afgreiða þetta mál á þessu þingi. Sú skoðun hefur ekki breyst. Ég tel heldur ekki að það hafi komið fram nýjar upplýsingar í þessu máli, eins og haldið hefur verið fram, sem leiði til þess að ástæða sé til að (Gripið fram í.) fresta málinu. Ég vil hins vegar taka fram að í bréfi hv. þingmanna stjórnarandstöðunnar hefur verið óskað eftir því að fjölmargir gestir verði kallaðir fyrir nefndina til þess að fara nánar yfir þessi mál og við í meiri hlutanum höfum lagt okkur fram um að kalla alla þessa gesti fyrir nefndina.

Það er rétt að Sigurður Líndal lagaprófessor kom fyrir nefndina nú í morgun til að gera grein fyrir þeim athugasemdum sem fram koma á forsíðu Fréttablaðsins í dag. Það er rétt að taka það fram, úr því að hv. þm. Mörður Árnason gerði það ekki í sinni ræðu, að Sigurður Líndal tók fram að honum hefði ekki verið kunnugt um þá breytingu sem gerð var á fjölmiðlafrumvarpinu þegar þau ummæli voru látin falla. Það kom heldur ekki fram í ræðu hv. þm. Marðar Árnasonar að á þessum fundi var einnig Páll Hreinsson, prófessor í lögfræði við Háskóla Íslands og formaður fjölmiðlanefndarinnar, og hann tók fram að með þeirri breytingu sem hér hefur verið gerð grein fyrir hafi verið skotið undir þann leka sem hugsanlega hafi verið gagnvart jafnræðisákvæði stjórnarskrárinnar.

Ég tel rétt að þetta komi fram vegna þeirra ummæla sem hafa fallið um þetta mál.



[13:42]
Einar Már Sigurðarson (Sf):

Frú forseti. Það er rétt að taka undir það sem fram hefur komið áður að það er miður að meiri hluti menntamálanefndar hafi hafnað því sáttatilboði sem fram var lagt. Hins vegar er rétt að hæla hv. þm. Sigurði Kára Kristjánssyni fyrir það að öðru leyti hvernig hann hagar störfum nefndarinnar nú við endurupptöku málsins og kom strax í ljós í morgun að full ástæða var til. Nú þegar hefur t.d. komið fram að mikill misskilningur var á ferðinni varðandi réttindi starfsmanna. Meiri hlutinn hefur haldið því fram að ekki væri verið að skerða réttindin. Það var upplýst mjög greinilega á fundi í morgun að um slíkt er að ræða og ég vona að meiri hlutinn taki það til skoðunar.

En í hádeginu, þegar framhaldsnefndarfundur var haldinn, fengum við loks að sjá fjölmiðlafrumvarpið og þá kemur í ljós að væntanlega síðdegis í gær hefur verið bætt inn í það setningu sem er augljóslega tengd því frumvarpi sem við höfum hér verið að ræða, og augljóslega verið að reyna að bæta fyrir það sem menn hafa ekki viljað að væri í frumvarpinu en er í því. Þannig að það er nú þegar komið fram nýtt atriði, hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson, varðandi málefni Ríkisútvarpsins. Á fundum nefndarinnar hafa nefnilega bæði höfundar frumvarpsins og fulltrúar menntamálaráðuneytisins túlkað 4. gr. frumvarpsins um Ríkisútvarpið hf. á þann hátt að ríkisútvarpinu væri heimilt að stofna fyrirtæki með öðrum. En í fjölmiðlalögunum, með þeirri setningu sem þar hefur verið bætt við, er það ákvæði tekið til baka. Það er því augljóslega full ástæða til þess, eins og kom fram á fundi nefndarinnar í hádeginu, af hálfu þeirra lögfræðinga sem þar komu, að fara sameiginlega yfir frumvarpið um Ríkisútvarpið og fjölmiðlalögin. Það væri full ástæða til þess vegna þess að á því væru snertifletir og mikilvægt að búa þannig um hnúta að ekki yrðu málaferli vegna þess að ekki hefði verið vandað til verka.

Frú forseti. Ég endurtek og ítreka enn á ný að full ástæða er til að menn átti sig á því að við þurfum að vanda til verka. Ég segi það enn og aftur að ég vonaðist til að menn hefðu lært eitthvað af því sem áður hefur gerst en því miður virðist skorta yfirfærslu milli mála.



[13:44]
Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Það verður að segjast eins og er að þau eru ýmis hálmstráin sem hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar grípa til í þessari umræðu. Þegar þetta mál kom í þingið lá fyrir að stjórnarandstaðan setti sig upp á móti því og hefur síðan reynt að finna því ýmislegt til foráttu. Það hefur legið fyrir að stjórnarandstaðan vildi ekki að frumvarpið færi í gegn og nú á þessu stigi málsins kemur stjórnarandstaðan og lætur eins og það sé mikið sáttaboð að bjóða það að ríkisstjórnin dragi málið til baka. Þetta er nú dálítið langsótt verð ég að segja.

Af því að hér í þessari umræðu hefur örlítið verið vikið að fjölmiðlafrumvarpinu, sem hæstv. menntamálaráðherra kynnti í gær, þá er rétt að það komi fram að í því frumvarpi er ekki neitt sem á að hafa áhrif á framgang málsins varðandi Ríkisútvarpið. Það eru engin efnisatriði, sem mér er kunnugt um, í fjölmiðlafrumvarpinu sem hafa valdið sérstökum efniságreiningi milli stjórnmálaflokkanna og það er rétt að það komi fram að þó að frumvarpið væri fyrst kynnt í gær þá hefur það auðvitað verið unnið í víðtæku samráði stjórnmálaflokkanna á hinu háa Alþingi. Það er byggt á skýrslu sem samstaða var um meðal flokka á síðastliðnu vori. Það á því ekki beinlínis vel við að tala um einhverja sérstaka leynd í þessu eins og hv. þm. Ögmundur Jónasson gerði. Þetta ferli hefur þvert á móti byggst á miklu og víðtæku samráði og miklu meira samráði en venja er til í sambandi við mál sem lögð eru fram á hinu háa Alþingi.

Við höfum vitað frá upphafi að það var ágreiningur milli stjórnar og stjórnarandstöðu út af RÚV. Við höfum hins vegar lagt mikið á okkur til að ná samstöðu um fjölmiðlafrumvarpið. Það er ekkert nýtt sem fram hefur komið núna sem gefur mönnum tilefni til að krefjast einhverrar sérstakrar breytingar á málsmeðferð varðandi RÚV í tengslum við þetta fjölmiðlafrumvarp. Ég fæ ekki betur séð en sú breyting sem bættist við í fjölmiðlafrumvarpið í gær sé einmitt til þess fallin að koma til móts við sjónarmið sem komið hafa fram af hálfu stjórnarandstöðunnar.



[13:47]
Ísólfur Gylfi Pálmason (F):

Herra forseti. Eins og fram hefur komið hér í umræðunni hefur menntamálanefnd setið á fundi í morgun og við höfum fengið mjög margar og fjölbreytilegar upplýsingar. Fyrir það ber að þakka og ég tel að formaður nefndarinnar hafi haldið mjög vel á spilunum.

Við veltum mjög fyrir okkur ýmsum þáttum í þessum frumvörpum tveimur, en við erum í raun og veru bæði að fjalla um frumvarp um útvarp og fjölmiðla, og við veltum fyrir okkur rekstrarformi. Ég minni á það að árið 1991 tók til starfa nýr þjóðleikhússtjóri sem gerði miklar tiltektir í Þjóðleikhúsinu, rak ríkisstarfsmenn sem þar höfðu unnið í langan tíma sem áttu eftir stutt í að fá lífeyri og annað slíkt. Þetta gerði hann í raun og veru með býsna köldu blóði og við erum að velta fyrir okkur hvort eitthvað breytist við að þetta verði hlutafélag. Ég segi: Það fer eftir því hvernig farið er með valdið. Rekstrarformið skiptir kannski ekki höfuðmáli, það fer eftir hvernig farið er með valdið, hvernig er á málum haldið.

Hér er auðvitað um mjög viðkvæm mál að ræða. Við höfum líka verið að ræða um þau menningarverðmæti sem í útvarpinu eru. Það eru gríðarlega mikil menningarverðmæti þar, mikil saga að baki og okkur ber að gæta þeirra menningarverðmæta. Þess vegna þurfum við að fara okkur hægt og örugglega, við þurfum að velta þessum hlutum fyrir okkur eins vel og mögulegt er og alls ekki að ana að neinu. Eins og ég segi, þetta fer eftir því hvernig farið er með valdið, rekstrarformið skiptir ekki öllu máli.



[13:48]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil bara þakka fyrir þessa umræðu. Mér hefur fundist hún vera mjög góð og það sem mér finnst standa hér upp úr, og ég held að allir sem hafa komið að þessu máli séu sammála um er að vinnubrögðin eru til fyrirmyndar. Það kom mjög berlega fram hjá hv. þm. Björgvini G. Sigurðssyni og Einari Má Sigurðarsyni að hér hafa menn vandað til verksins og unnið þetta mjög skipulega og vel innan menntamálanefndar. Það er akkúrat það sem við gerum hér á þinginu, þó svo að við deilum um hluti þá reynum við að vinna skipulega og vel. Það er ekkert að því, virðulegi forseti, þó að málefnaleg sjónarmið komist að í máli eins og þessu. Það er bara vel að menn séu að fara hér vel yfir mál og það er bara gott að það er samstaða innan þingsins að þannig sé haldið á málum. Það liggur alveg fyrir, virðulegi forseti, að hér er pólitískur ágreiningur á ferðinni eins og í svo mörgum málum.

Þessi umræða staðfestir að vinnubrögð varðandi frumvarpið um Ríkisútvarpið hafa verið til fyrirmyndar. Á sama hátt held ég að við getum ekki komist að annarri niðurstöðu þegar við tölum um frumvarpið um fjölmiðlalögin en að þar hefur nú verið gert eitthvað sem menn hafa oft kallað eftir sem er samráð og samvinna milli ólíkra flokka innan þingsins. Ég held að það sé rétt að taka það fram og menn eigi að hafa það hugfast og ræða það eins og það er að á bak við þessa frumvarpsvinnu liggur vinna nefndar þar sem komu að aðilar frá öllum stjórnmálaflokkum þingsins. Ef einhver mál hafa verið unnin vel og lengi, tekin mikil umræða bæði innan þings og utan, þá eru það þessi tvö mál. Það er ekkert að því, virðulegi forseti, að okkur greini á um efnisatriði. Þess vegna erum við nú í stjórnmálum, við erum ekki í sama flokki. En ég held að það séu engin efnisleg rök og allir sjái það, það eru engin efnisleg rök önnur en þau að klára þessi mál núna og halda áfram þeirri góðu vinnu sem hafin er og allir eru sammála um sem hér hafa rætt málið undir þessum lið, virðulegi forseti.



[13:51]
Dagný Jónsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Við í menntamálanefnd erum þessa dagana að fjalla um frumvarp um Ríkisútvarpið hf. Það var samþykkt að taka málið inn aftur milli 2. og 3. umr. og eftir að það lá fyrir sendu hv. þingmenn minni hlutans beiðni til formanns nefndarinnar og þeir lögðu m.a. til átta atriði sem þeir vonuðust til að tekið yrði tillit til.

Á fundi í morgun tilkynnti formaður menntamálanefndar að hann féllist á sjö atriði af þessum átta og rökstuddi þá ákvörðun sína. Mér þykir formaður nefndarinnar, hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson, hafa tekið mjög vel í beiðni stjórnarandstöðunnar og við áttum ágætisfund í morgun. Við skulum líka halda því til haga að við erum ekki formlega að ræða nýtt fjölmiðlafrumvarp í nefndinni. Það hefur ekki fengið afgreiðslu hér í þingsal. En þrátt fyrir það komu gestir í morgun inn á fund þar sem ákveðinn misskilningur var leiðréttur og ég tel að það hafi verið mjög til bóta. En við skulum halda því alveg aðskildu að þetta eru tvö mál og annað málið er statt hjá hv. menntamálanefnd.

Ég held því að upphlaup eins og núna sé óþarft og ég vona að nefndin fái nú frið til þess að vinna málið áfram og á réttum stað, þ.e. í hv. menntamálanefnd. Þingmenn hafa komið hér upp og hrósað formanni nefndarinnar fyrir góð vinnubrögð og ég held að við sem sitjum í nefndinni eigum bara að halda áfram að vinna að málinu þar, því eins og komið hefur fram eru menn að vinna skipulega og vel í menntamálanefnd.



[13:53]
Atli Gíslason (Vg):

Frú forseti. Ég hef nú fundað í nefndum frá klukkan hálfníu í morgun til að verða hálftvö. Það voru kvöldfundir í gær, það eru fundir alla daga og það er verið að dengja inn nýjum frumvörpum fyrir þingið. Ég hef þann hátt á að lesa fyrir tíma, hef alltaf gert og starfa þannig sem lögmaður, en mér er gert ókleift að starfa þannig hér á þingi. Við þessar aðstæður verða lagasetningar mistök, það er óhjákvæmilegt. Og þau kunna að verða í ríkisútvarpsfrumvarpinu.

Ég vil taka það skýrt fram að það er greinilegt samspil á milli fjölmiðlafrumvarpsins — sem vel að merkja er vel unnið — og ríkisútvarpsfrumvarpsins, sem er því miður ekki vel unnið, það er hægt að vinna það miklu betur. Það eru atriði í þessu frumvarpi sem valda mér miklum áhyggjum.

Í fyrsta lagi menningararfleifðin, sem er metin á núll og hægt er að ráðstafa af einum manni, útvarpsstjóra. Ég sætti mig aldrei við það.

Í öðru lagi eru áhöld uppi um það hvort stjórnarskrárvarin eignarréttindi starfsmanna séu varin, að það sé ekki verið að skerða þau. Þá á ég við biðlaunaréttinn og þá á ég við lífeyrisréttindi þeirra. Hér hafa menn þungar áhyggjur af lífeyrisréttindum þingmanna, sem eru tíu, en þetta varðar hundruð manna.

Í þriðja lagi eru höfundarréttarvandamálin óleyst.

Í fjórða lagi stangast 1. mgr. 4. gr. frumvarps um Ríkisútvarp hf. á við breytinguna sem var gerð á fjölmiðlafrumvarpinu í síðustu stigum. Það þarf að skýra þær saman, þær eru ekki ljósar, þær kalla á lögskýringu. Það er algjörlega óviðunandi líka. Ég vil ekkert standa í því að samþykkja lög hér á Alþingi sem kalla síðar á deilur fyrir dómstólum. Ef við getum tryggt að málin séu þannig leyst að ekki komi til ágreinings þá eigum við að gera það og frumvarpið um Ríkisútvarpið kallar á þá vinnu.



[13:55]
Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Það sem hefur gerst í þessu máli er að í frumvarpi að öðrum lögum, fjölmiðlafrumvarpinu, hafa verið sett ákvæði um Ríkisútvarpið, mjög mikilvæg ákvæði um starfsemi Ríkisútvarpsins og skipulag þess sem ekki er að finna í því frumvarpi sem nú er í þeirri óvenjulegu stöðu að vera í nefnd á milli 2. og 3. umr. að kröfu stjórnarandstöðunnar, rökstuddri kröfu stjórnarandstöðunnar. Þetta gerist þvert á þær túlkanir sem hafa komið frá fulltrúum menntamálaráðherra sem kallaðir hafa verið fyrir nefndina, sem einmitt töldu að 4. greinin í því frumvarpi sem fyrir liggur, veitti Ríkisútvarpinu heimild til þátttöku í öðrum hlutafélögum sem nú á að banna í fjölmiðlafrumvarpinu.

Ég ætla ekki að hafa skoðanir á þessu máli hér en mér finnst furðulegt að standa uppi sem þingmaður í menntamálanefnd og fá þetta svona á mig úr sama ráðuneytinu frá sama hæstv. ráðherranum sem aldrei þessu vant er ekki staddur hér á þinginu. Og það gerist fleira. Það koma í ljós — vissulega styrkist sumt, vissulega var gott að fá fulltrúa Ríkisendurskoðunar, Sigurð Þórðarson, á fund okkar í dag, djarfan og kátan og ákafan hjörs í þrá, eins og sumir segja — en það hefur líka komið í ljós eins og hv. þm. Atli Gíslason sagði að það er túlkunaratriði hvort selja má menningararfinn í söfnum Ríkisútvarpsins og einn af höfundum frumvarpsins sagði að sennilega væri það svo að samþykktri breytingartillögu meiri hlutans nú að efnið mætti nota í samkeppnisverkefnum.

Við vitum hvað kemur út úr þessu. Það koma málaferli, bæði hér innan lands og við Evrópu og það verður áfram ófriður um málið. Það er greinilega það sem stjórnarmeirihlutinn stefnir að, að vera hér með næstu tíu, tuttugu árin allt í ófriði um Ríkisútvarpið, sennilega til þess að sölumönnunum Sigurði Kára Kristjánssyni og Birgi Ármannssyni hv. þingmönnum takist að lokum að eyðileggja Ríkisútvarpið.