132. löggjafarþing — 109. fundur
 26. apríl 2006.
aðstoðarmenn og ráðgjafar ráðherra.
fsp. JGunn, 517. mál. — Þskj. 754.

[12:02]
Fyrirspyrjandi (Jón Gunnarsson) (Sf):

Herra forseti. Ég legg fram fyrirspurn til hæstv. forsætisráðherra um aðstoðarmenn og ráðgjafa ráðherra. Þessi fyrirspurn er sett fram að gefnu tilefni fyrir margt löngu eða 10. febrúar. Tilefnið sem um ræðir var viðtal sem Þorfinnur Ómarsson átti á fréttastöðinni NFS, 28. janúar á þessu ári, við Þorbjörgu Helgu Vigfúsdóttur. Hún var kynnt til viðtalsins sem ráðgjafi menntamálaráðherra og var spurð hvort svo væri ekki. Hún svaraði: Jú, takk. Þá spurði Þorfinnur: Hvað gerir ráðgjafi menntamálaráðherra?

Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir svaraði, með leyfi forseta:

„Ja, það er góð spurning. Hérna, það er svona meira pólitískt starf heldur en venjulegur fagmaður inni í ráðuneyti. En ég er svona með skólamálin dálítið á minni hendi, sem eru ekki lítil, og er svona að skoða málin áður en ráðherra tekur ákvarðanir og hjálpa henni við ýmsar skoðanir á málum.“

Þorfinnur spyr þá:

„Sumir segja að menntamálaráðherra sé eini ráðherrann sem hafi tvo aðstoðarmenn, ekki bara einn heldur tvo. Þú ert sem sagt númer tvö?“

Þá svarar Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir: „Já, sumir — já, ætli það sé ekki alveg hægt að segja það.“

Með öðrum orðum: Viðmælandi Þorfinns á opinberum vettvangi staðfestir að hún sé ráðin í menntamálaráðuneytið sem pólitískur aðstoðarmaður eða ráðgjafi ráðherra en falli ekki undir hið almenna embættismannakerfi.

Nú minnti mig að í lögum um Stjórnarráð Íslands væru ákvæði sem bönnuðu fleiri en einn aðstoðarmann og þegar ég fór og skoðaði lögin þá segir þar skýrum orðum:

„Ráðherra er heimilt að kveðja sér til aðstoðar, meðan hann gegnir embætti, mann utan ráðuneytis, sem starfi þar sem skrifstofustjóri, enda hverfi hann úr starfi jafnskjótt sem ráðherra, en njóti þá launa þrjá mánuði …“ — o.s.frv.

Það stendur skýrt í lögunum að ráðherra má ráða í ráðuneytið mann, einn mann utan ráðuneytis, sem starfi þar sem aðstoðarmaður ráðherra. Það er hvergi að finna, í lögum um Stjórnarráð Íslands, neina heimild til að fleiri pólitískir aðstoðarmenn eða pólitískir ráðgjafar, sem eru þá persónulegir aðstoðarmenn viðkomandi ráðherra, séu ráðnir í ráðuneytin.

Í þessu sambandi veltir maður fyrir sér, þegar maður horfir utan frá á nýjan upplýsingafulltrúa í forsætisráðuneytinu, sem út á við virðist a.m.k. starfa sem aðstoðarmaður hæstv. forsætisráðherra, skrifar greinar sem slíkur og kemur fram sem slíkur, hvort farið sé að lögum, í ljósi mjög skýrra lagaákvæða. Ég spyr hæstv. ráðherra:

1. Geta ráðherrar ráðið ótakmarkaðan fjölda aðstoðarmanna eða ráðgjafa í fast starf í ráðuneyti sínu? Ef um takmarkanir er að ræða, hverjar eru þær?

2. Hafa einhverjir ráðherrar ráðið til sín aðra starfsmenn en hefðbundinn aðstoðarmann? Ef svo er, um hvaða ráðherra er að ræða, hverjir eru starfsmennirnir og hvaða störfum gegna þeir?



[12:06]
forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Herra forseti. Samkvæmt 14. gr. laga um Stjórnarráð Íslands, nr. 73/1969, eins og hv. fyrirspyrjandi tók fram, er ráðherra „heimilt að kveðja sér til aðstoðar, meðan hann gegnir embætti, mann utan ráðuneytis, sem starfi þar sem skrifstofustjóri, enda hverfi hann úr starfi jafnskjótt sem ráðherra, en njóti þá launa þrjá mánuði, hafi hann ekki áður verið ríkisstarfsmaður, en ella eigi hann rétt á að hverfa til fyrra starfs síns eða annars starfs eigi lakara að föstum launum í þjónustu ríkisins.“

Þetta ákvæði hefur verið túlkað svo að það veiti heimild til að ráða einn aðstoðarmann í hvert ráðuneyti. Þá er ráðherrum heimilt að ráða til sín ráðgjafa á afmörkuðum sviðum til að sinna tímabundnum verkefnum enda standi fjárheimildir til þess.

Með bréfi dagsettu 15. febrúar síðastliðinn óskaði forsætisráðuneytið eftir upplýsingum frá öðrum ráðuneytum um starfsmenn sem ráðnir hefðu verið með slíkum hætti. Í svörum ráðuneytanna kom fram að í flestum tilvikum er ekki um að ræða neina aðra aðstoðarmenn ráðherra en þá sem getið er um í 14. gr. laga um Stjórnarráð Íslands.

Það er hins vegar rétt að nú starfa upplýsingafulltrúar í tveimur ráðuneytum, þ.e. í forsætisráðuneytinu og í samgönguráðuneytinu, þ.e. upplýsingafulltrúar sem hafa verið ráðnir til tímabundinna verkefna. Upplýsingafulltrúar hafa starfað á þessum grundvelli í öðrum ráðuneytum.

Síðan er það rétt að í menntamálaráðuneytinu er nú starfandi ráðgjafi í menntamálum sem einnig starfar tímabundið. Þetta er staða þessara mála, hæstv. forseti.



[12:08]
Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Ég gæti trúað hæstv. forsætisráðherra fyrir því að ég tel ekki vanþörf á að bæta við einum eða tveimur ráðgjöfum í menntamálaráðuneytið. En auðvitað verða menn að fara eftir lögum.

Ég er þeirrar skoðunar að það eigi að breyta þessum lögum. Ég tel að sérhver ráðherra sem kemur nýr inn í ráðuneyti eigi að eiga kost á að ráða með sér nokkra pólitíska aðstoðarmenn. Ég tel t.d. að í stórum ráðuneytum eins og menntamálaráðuneytinu og heilbrigðisráðuneytinu eigi menn að fá að taka inn með sér þrjá pólitíska aðstoðarmenn. Ég tel að það sé ekki vanþörf á að hafa slíkan starfskraft til að aðstoða ráðherrann við að koma málum í framkvæmd, sem hann hefur sagt að hann vilji berjast fyrir.

Hins vegar tel ég að ráðuneytisstjórar hafi á síðustu árum orðið fullpólitískir. Þeir eru farnir að gegna starfi pólitísks ráðgjafa, finnst mér stundum. Það á ekki að vera og á að gera þá sjálfstæðari og sterkari en þeir eru í dag.



[12:09]
Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir þessa fyrirspurn. Það er alltaf áhugavert fyrir okkur óbreytta þingmenn að velta þessum hlutum fyrir okkur. Þá vitum við hvað við eigum að gera þegar við verðum ráðherrar.

Ég hef svolítið fylgst með þessu. Ég velti því t.d. fyrir mér um daginn þegar aðstoðarmaður hæstv. forsætisráðherra, sem hér hefur verið til svara, skrifaði mikla skammargrein um stjórnarandstöðuna hvort það væri tilhlýðilegt að opinberir embættismenn sinntu slíkum ritstörfum undir fullum starfstitli sem upplýsingafulltrúar forsætisráðuneytisins. Af þeim orsökum spurði ég um laun og önnur ráðningarkjör þessa meinta upplýsingafulltrúa og hverjir hefðu gegnt þeirri stöðu undanfarin tíu ár. Ég hef því miður ekki enn fengið svar við þeirri fyrirspurn.

Með þessu vil ég ekki segja að menn hafi ekki málfrelsi þótt þeir séu embættismenn, alls ekki. En mér finnst að þeir ættu frekar að tjá sig sem prívatpersónur en ekki sem embættismenn.

Virðulegi forseti. Þetta eru hlutir sem alltaf er gaman að velta fyrir sér.



[12:10]
Kristinn H. Gunnarsson (F):

Virðulegi forseti. Ég tel ekki ástæðu til að amast við því að ráðherrar hafi með sér inn í ráðuneytin pólitíska aðstoðarmenn. En auðvitað verður slíkt að byggjast á skýrri lagaheimild og því að menn haldi sig við hana ellegar sæki um breytingar til þingsins á heimildinni.

Ég held að fyllsta ástæða sé til að draga fram og leggja áherslu á er að ráðherrar haldi sig við aðgreiningu á pólitískum aðstoðarmönnum annars vegar og embættismönnum hins vegar. Mér finnst það ekki góð þróun að þrír síðustu ráðuneytisstjórar hafa verið ráðnir án auglýsingar. Ráðning á þeim hefur borið meiri keim af því að ráðherrann sem átti í hlut hafi verið að ráða sér pólitískan aðstoðarmann en ekki embættismann. Þarna finnst mér menn farnir að blanda hlutum saman sem er ekki æskilegt. Það má út af fyrir sig ræða það að ráðuneytisstjórar fylgi ráðherrum en við höfum ekki það kerfi. Það ber að virða það.



[12:12]
Fyrirspyrjandi (Jón Gunnarsson) (Sf):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir svörin og þeim hv. þingmönnum sem tekið hafa þátt í umræðunni.

Svör hæstv. forsætisráðherra voru skýr. Það er heimild til að ráða einn aðstoðarmann með hverjum ráðherra inn í ráðuneyti. Því hlýtur að liggja ljóst fyrir að sá starfsmaður sem var kveikjan að fyrirspurninni hefur einfaldlega misskilið til hvers var verið að ráða hann og vinnur þá vonandi samkvæmt því en ekki sem aðstoðarmaður ráðherra, eins og starfsmaðurinn virðist hafa litið á sig.

Hæstv. ráðherra talar um heimildir til að ráða ráðgjafa til að sinna tímabundnum störfum. Spurningin er: Þarf ekki að skerpa á þeirri heimild? Þarf ekki að skerpa rammann í kringum það þannig að bæði starfsmennirnir sem ráðnir eru og ráðherra viti að um tímabundna skammtímaráðningu er að ræða í ákveðin föst verkefni? Þarf ráðherra ekki að ráða eftir ákveðnum reglum en ekki að ráða inn fólk sem heldur að það sé orðið persónulegir aðstoðarmenn númer tvö eða þrjú eða fjögur?

Ég get alveg tekið undir að full þörf geti verið á því að ráða inn fleiri pólitíska aðstoðarmenn með ráðherra þegar hann tekur við ráðuneyti. En þá er mjög mikilvægt að þeir pólitískt ráðnu ráðgjafar, persónulegir ráðgjafar ráðherrans, víki á sama tíma og ráðherrann og allir viti hvaða hlutverki þeir gegna í ráðuneytinu. Það gengur ekki að fólk, sem á undir ráðuneyti að sækja og telur sig vera að tala jafnvel við opinberan starfsmann, óvilhalla opinbera starfsmenn, sé að ræða beint við pólitíska ráðgjafa eða aðstoðarmenn hæstv. ráðherra án þess að hafa hugmynd um það.

Ég legg áherslu á það í lokin að mikilvægt er að setja reglur um pólitískar ráðningar í ráðuneytin, gegnsæjar, opnar og allir viti um hvað þær fjalla, bæði þeir sem verið er að ráða og eins hinir sem ráða.