138. löggjafarþing — 19. fundur
 4. nóvember 2009.
skipun nefndar um fyrirkomulag varðandi leigu á vatns- og jarðhitaréttindum í eigu ríkisins.
fsp. VigH, 96. mál. — Þskj. 98.

[14:21]
Fyrirspyrjandi (Vigdís Hauksdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Þegar lög nr. 58/2008, um breytingu á nokkrum lögum á auðlinda- og orkusviði, voru samþykkt þann 29. maí 2008 kom fram í ákvæði til bráðabirgða að við gildistöku laganna skyldi forsætisráðherra skipa nefnd til að fjalla um fyrirkomulag varðandi leigu á vatns- og jarðhitaréttindum í eigu ríkisins, svokallað auðlindagjald. Skyldi nefndin fjalla um leigugjald, leigutíma, endurnýjun leigusamninga og önnur atriði er lytu að réttindum og skyldum aðila. Þá átti nefndin að meta hvaða aðgerða væri þörf til að tryggja í senn sjálfbæra og hagkvæma nýtingu auðlindanna. Nefndin átti einnig að huga að því með hvaða hætti yrði valið á milli þeirra sem hefðu áhuga á að nýta auðlindirnar og átti nefndin að skila tillögum sínum fyrir 1. júní 2009. Síðast þegar ég vissi var ekki einu sinni búið að skipa í þessa nefnd og þá er nú ekki niðurstaðna að vænta þar sem nefnd hefur ekki verið skipuð og ekki komið saman.

Enn á ný hefur ríkisstjórnin gengið gegn settum lögum hér á Alþingi. Ríkisstjórnin kom með í drögum þeim sem eiga að verða að fjárlögum fyrir jól bara sisona tillögu um að leggja á órökstuddan auðlindaskatt upp á 16 milljarða. Ég minni á að tilgangur þessara laga var að setja reglur um það hvort og hvernig ætti að leggja auðlindagjald á þær auðlindir sem verið er að nota, hver ætti þá að borga þann skatt og hver ætti að taka við honum, sveitarfélögin eða ríkið. Hér ríkir fullkomin óvissa um þetta því að þessi nefnd hefur ekki komið saman og ekki er búið að framfylgja þessu ákvæði samkvæmt lögunum.

Það er engum vafa undirorpið að skynsamleg nýting orkuauðlindanna hefur mikla efnahagslega þýðingu fyrir Ísland og hefur Framsóknarflokkurinn svo sem ekki hafnað því að hér verði teknir upp auðlindaskattar, en þá þarf að ríkja mikil sátt og samkomulag um hvernig eigi að leggja hann á og þýðir ekki að koma inn með hann eins og af himnum ofan eins og nú hefur verið gert.

Þá langar mig til að spyrja hæstv. forsætisráðherra í framhaldi af þessu: Hvað líður skipun þessarar nefndar sem fjalla átti um fyrirkomulag varðandi leigu á vatns- og jarðhitaréttindum í eigu ríkisins, samanber ákvæði til bráðabirgða III í lögum nr. 58/2008? Samkvæmt ákvæðinu átti nefndin að skila tillögum sínum, eins og fram hefur komið, fyrir 1. júní 2009.



[14:23]
forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn. Hv. þingmaður spyr hvað líði skipun nefndar sem fjalla átti um fyrirkomulag varðandi leigu á vatns- og jarðhitaréttindum í eigu ríkisins og vísar til ákvæðis til bráðabirgða III í lögum nr. 58/2008. Því er til að svara að samkvæmt III. bráðabirgðaákvæði í lögum þessum um breytingu á nokkrum lögum á auðlinda- og orkusviði átti þáverandi forsætisráðherra að skipa nefnd til að fjalla um fyrirkomulag varðandi leigu á vatns- og jarðhitaréttindum í eigu ríkisins. Nefndin skyldi í störfum sínum fjalla um leigugjald, leigutíma, endurnýjun leigusamnings og önnur atriði er lúta að réttindum og skyldum aðila. Þá skyldi nefndin meta hvaða aðgerða væri þörf til að tryggja í senn sjálfbæra og hagkvæma nýtingu auðlindanna. Í störfum sínum átti nefndin m.a. að hafa til hliðsjónar reynslu annarra þjóða og huga að því með hvaða hætti yrði valið á milli þeirra sem áhuga hefðu á að nýta auðlindirnar.

Í nefndina voru þann 7. janúar 2009 skipuð Karl Axelsson hæstaréttarlögmaður, formaður, Elísabet Sigurðardóttir, lögfræðingur í forsætisráðuneytinu, Friðrik Már Baldursson, prófessor við Háskólann í Reykjavík, Þórunn Pálsdóttir, byggingaverkfræðingur og MBA, Hafsteinn S. Hafsteinsson lögfræðingur, samkvæmt tilnefningu fjármálaráðherra, Lúðvík Bergvinsson, fyrrverandi alþingismaður, samkvæmt tilnefningu iðnaðarráðherra, og Guðlaug Jónsdóttir lögfræðingur, samkvæmt tilnefningu sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Nefndin átti að skila tillögum sínum fyrir 1. júní 2009 eins og fram kom í máli fyrirspyrjanda, en það hefur því miður dregist þar sem skipan nefndarinnar dróst umtalsvert á sínum tíma. Upphaflega var ráðgert að nefndin yrði sett á laggirnar þegar við gildistöku laganna í maí 2008, en það dróst hins vegar eins og ég segi að skipa nefndina af ástæðu sem mér er ekki kunnugt um og því var ekki lokið fyrr en í janúar 2009.

Það hefur verið sameiginlegur skilningur að nefndin þyrfti þó allt að einu að fá það ár til verkefnisins sem upphaflega var ráðgert og við það er miðað. Nefndin fundaði í fyrsta sinn í janúar á þessu ári og hefur síðan haldið 14 formlega fundi. Þess vegna kemur mér á óvart sem fram kom í máli fyrirspyrjanda, að hvorki hefði nefndin verið skipuð né nokkrir fundir haldnir.

Nefndin hefur staðið í viðamikilli gagnaöflun og fengið fjölda gesta á fundi sína. Fyrst og fremst er um að ræða sérfræðinga og fulltrúa hagsmunasamtaka. Grunndrög að lokaskipun nefndarinnar liggja fyrir, en áformað er að nefndin ljúki störfum og skili niðurstöðum sínum nú um áramót. Ég mun ganga mjög ákveðið eftir því að þau tímamörk standist og það er mikilvægt að réttarstaða á þessu sviði, þ.e. að því er varðar réttinn til að hagnýta auðlindir okkar, sé skýr. Á það ekki síst við um vatns- og jarðhitaréttindi sem verða æ dýrmætari og eftirsóknarverðari og við verðum að standa vörð um þessar auðlindir okkar og tryggja að nýting þeirra sé byggð á fullu jafnræði og sé á hverjum tíma gagnsæ. Vissulega ber okkur að nýta auðlindir okkar með skynsamlegum og sjálfbærum hætti, en úthlutun þessara gæða má þó ekki byggjast á skammtímasjónarmiðum.

Ég legg afar ríka áherslu á að við yfirstandandi endurskoðun og útfærslu, þegar niðurstöður nefndarinnar liggja fyrir, verði tryggt að ekki sé unnt að afhenda nýtingarréttinn til einhverra vildarvina eða aðila sem eru tengdir einstökum stjórnmálaflokkum eða sterkum hagsmunaaðilum. Hér erum við í raun að tala um eign þjóðarinnar og eigum að hafa það í huga þegar við mótum þann ramma sem nú er unnið að.



[14:27]
Fyrirspyrjandi (Vigdís Hauksdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Svo virðist sem ég hafi haft rangar upplýsingar undir höndum og ber mér þá að biðjast afsökunar á því þar sem nefndin hefur verið skipuð, og var hún skipuð samkvæmt upplýsingum frá hæstv. forsætisráðherra 7. janúar 2009. Hér er greinilega misskilningur á ferðinni og ég hef fengið rangar upplýsingar. Það er ánægjulegt að nefndin hafi komið saman 14 sinnum og að unnið sé í þessum málum því að það kemur mörgum á óvart að í fjárlagafrumvarpi skuli vera komið fram með auðlindaskatta þar sem þessi nefnd hefur ekki skilað tillögum sínum.

Vil ég þá í framhaldinu spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort ekki sé rétt að bíða með þá auðlindaskatta sem nú liggja fyrir fram á næsta ár þar til nefndin hefur lokið störfum. Hún átti að ljúka störfum 1. júní 2009, á þessu ári, en virðist hafa fengið svigrúm hjá hæstv. forsætisráðherra til að ljúka störfum því að forsætisráðuneytið hefur með störf þessarar nefndar að gera. Er ekki rétt að leyfa nefndinni að klára þessi mál í friði og meta þetta á sínum eigin faglegu forsendum? Eins og fram kemur er í nefndinni greinilega úrvalsfólk sem hefur mikla þekkingu til þess að taka á þessum málum. Er ekki hæstv. ríkisstjórn að fara fram úr sér með því að leggja til að nú verði lagðir á auðlindaskattar fyrir árið 2010 þar sem lítil heimild er fyrir því nokkurs staðar í lögum, gæti orðið fordæmisgefandi til framtíðar þegar á að leggja á auðlindaskatt og auðlindagjöld? Er ekki rétt að draga til baka auðlindagjald það sem nú er gert ráð fyrir og fresta þeirri skattlagningu í a.m.k. eitt ár með þessum rökum þannig að þessi nefnd hafi starfsfrið og gangi óbundin til þeirrar niðurstöðu sem hún kemur til með að komast að?



[14:29]
forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég ítreka að ég tel það ákvæði sem hér er spurt um til bráðabirgða — skipun þessarar nefndar og það að fá niðurstöðuna í þetta verkefni er afar mikilvægt. Ég taldi það svo mikilvægt að fyrr á þessu ári lét ég hafa samband við formann nefndarinnar og spyrja hvort ekki væri hægt að flýta niðurstöðu hennar. Eins og ég sagði var seinkun á skipan hennar sem varð ekki fyrr en í byrjun þessa árs. Það var einróma niðurstaða nefndarinnar að hún þyrfti þetta heila ár sem henni var upphaflega ætlað til að ljúka störfum. Ég geri út af fyrir sig ekki athugasemdir við það vegna þess að þetta er mikið og stórt starf sem þessi nefnd hefur með höndum og mikilvægt að hún hafi það svigrúm og þann tíma sem hún þarf til að klára þessa vinnu. Ég tel að hún sé að vinna hér mikið og gott starf, hefur haldið 14 fundi og ég mun ýta mjög á eftir því að tímaáætlunin standist um næstkomandi áramót og að nefndin skili niðurstöðu.

Út af fyrirspurn hv. þingmanns um það hvort ekki sé þá ástæða til þess, af því að nefndin hafi ekki lokið störfum, að fresta því að leggja á auðlindaskatta er ég ekki sammála því að það sé tilefni til að bíða eftir starfi nefndarinnar. Áður hafa verið lagðir á auðlindaskattar og við erum bara í þeirri aðstöðu að við þurfum að nýta það svigrúm sem við höfum til að ná niður hinum mikla halla sem er á ríkissjóði og þá getum við bara ekki undanskilið umhverfis-, orku- eða auðlindagjöld. Ef við gerðum það þyrftum við að leggja miklu meiri skatta á einstaklinga eða fyrirtæki í formi tryggingagjalds þannig að ég tel ekki ástæðu til að bíða eftir því að starfi nefndarinnar ljúki. Æskilegt hefði verið að niðurstaða nefndarinnar lægi fyrir en ég ítreka að ég tel mikilvægt að hún skili á þeim tíma sem hún áformar, þ.e. um næstkomandi áramót.