139. löggjafarþing — 144. fundur
 8. júní 2011.
flutningur skattskyldrar starfsemi úr landi.
fsp. SDG, 833. mál. — Þskj. 1501.

[16:16]
Fyrirspyrjandi (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Við ræddum um skattamál og ýmsar afleiðingar skattstefnu ríkisstjórnarinnar. Eitt af því sem ég rakti áðan var hvernig stöðugar hækkanir og viðvarandi óvissa um hvert stefnir með skattkerfið fælir fjárfesta hugsanlega burtu. En það gerir meira en það. Það beinlínis hrekur fyrirtæki úr landi og jafnvel fólk í sumum tilvikum, það eru mörg dæmi um það. Nokkrir endurskoðendur hafa bent á að þau fyrirtæki sem hafa aðstöðu til séu mikið að velta fyrir sér og sum búin að láta verða af því að flytja starfsemi sína úr landi. Það á einnig við um hina ýmsu einstaklinga sem forða sér úr landi undan skattstefnu ríkisstjórnarinnar á sama hátt og Íslendingar forðuðu sér frá Noregi á sínum tíma og byggðu Ísland. Nú hefur þessi þróun snúist við. Einn ágætur norskur þingmaður benti mér á á ráðstefnu í Noregi að það væri til umræðu í þinginu þar að loksins væri straumurinn búinn að snúast og Íslendingar flyttust nú aftur til Noregs vegna þess að skattar væru orðnir óhagstæðari hér en þar.

Fyrst við erum komin í umræðu um Norðurlöndin, en ríkisstjórninni eru Norðurlöndin hugleikin og kallar sig stundum norrænu velferðarstjórnina, held ég að ríkisstjórnin mætti taka sér Svíþjóð til fyrirmyndar. Þar hafa menn snúið af þeirri braut skattahækkana sem var viðvarandi í landinu um tveggja eða þriggja áratuga skeið og minnast nú 8. áratugarins og þess 9. með hryllingi, enda hafa þeir séð að skynsamlegri og ábyrgari skattstefna hefur skilað sér í bættum lífsgæðum allra. Hér á landi er þróunin hins vegar öfug. Það hefur leitt til þess að fyrirtæki hafa flutt skattskylda starfsemi sína úr landi. Reyndar var umhverfið það stöðugt og hagstætt hér að erlend fyrirtæki sáu ástæðu til að skrá starfsemi sína hér sérstaklega til þess að borga skatta á Íslandi. Þessi fyrirtæki eru núna farin og með þeim milljarðar króna af skatttekjum ríkissjóðs.

Því spyr ég hæstv. fjármálaráðherra: Hversu mörg fyrirtæki hafa flutt skattskylda starfsemi sína úr landi að öllu leyti eða að hluta frá árinu 2007? Hversu háar voru skattgreiðslur fyrirtækja sem nú hafa flutt skattskylda starfsemi úr landi árið 2007?



[16:19]
fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Ég mun örugglega gleðja hv. þingmenn enn meir með svari mínu við þessari spurningu því að vandinn er sá að upplýsingar um það sem hv. þingmaður biður um liggja ekki fyrir hjá embætti ríkisskattstjóra. Ástæðan er sú að félögum sem í hlut eiga er slitið og ástæða slitanna ekki skráð sérstaklega heldur er bara um að ræða slit á félagi sem hverfur þar með af skrá. Eins getur verið að félög sem eru áfram starfandi hér á landi stofni dótturfélög eða útibú erlendis og þá gildir það sama, hvorki er um skráningu á ástæðum slitanna að ræða né þess sérstaklega getið af hvaða ástæðum íslensk félög eða fyrirtæki kjósa að stofna dótturfélög eða útibú erlendis. Það eru ekki til sundurgreinanleg gögn sem svara þessari spurningu sem slíkri, þó að viðfangsefnið sé vissulega áhugavert.

Almennt gildir um stöðu mála á þessu herrans ári að skattumhverfi fyrirtækja hér á landi er með því hagstæðasta sem þekkist innan OECD. Það eru einfaldlega staðreyndir sem nægar vísbendingar og rök og talnagögn sýna, samanber skýrslur OECD þegar samanburðarhæf gögn eru notuð. Fyrir utan Írland, sem er með nokkra sérstöðu í þessum efnum, sérstaklega hvað varðar lágt skattþrep á tekjuskatt lögaðila, að vísu segjast þeir á móti ekki hafa neinar frádráttarheimildir, þá er það í einhverjum mæli Lúxemborg og kannski Sviss sem eru í vissum tilvikum með lægri skatta en Ísland innan OECD-fjölskyldunnar. Hvað sem hver segir er veruleiki dagsins sá að skattumhverfi fyrirtækja er hér enn með því hagstæðasta sem finnst innan OECD.

Mér heyrist reyndar hv. þingmaður vera orðinn býsna mikill frjálshyggjumaður í skattamálum þegar hann talar á þessum nótum og mærir sérstaklega hægri stjórnina í Svíþjóð — gott og vel — en Svíar eiga langt í land með að ná niður í íslensk hlutföll í þessum efnum eins og kunnugt er.

Það er alveg ljóst að Ísland þarf að vera vel samkeppnisfært í þessum efnum. Við þurfum jafnvel að reikna með því að bjóða ívið hagstæðara umhverfi að þessu leyti vegna þess að ýmislegt annað vinnur heldur á móti okkur í samkeppninni eða samanburðinum. Það er heldur ekki á dagskrá að endurvekja gamla drauma um Ísland sem eitthvert skattaskjól, einhverja skattasmugu. Það verður a.m.k. ekki meðan sá sem hér talar hefur eitthvað um þessi mál að segja. Sem betur fer hafa orðið mikil veðrabrigði í alþjóðasamfélaginu hvað varðar að vinna gegn skaðlegri skattasamkeppni og loka skattaskjólum. Nú er verið að gera mikið af samningum, upplýsingaskiptasamningum og samstarfssamningum til að ná utan um þau mál. Meira að segja Bandaríkin, sem ekki voru á þeim buxunum lengi vel, eru nú í fararbroddi þess að taka á skaðlegri skattasamkeppni eins og það er kallað, eða á skandinavísku „skadelig skattekonkurrence“ sem mikið var á dagskrá Norðurlandaráðs hér á árum áður. Það er virkilega ánægjulegt að menn sjái nú að það er engum til framdráttar að menn undirbjóði hverjir aðra því að þegar það er komið út í ógöngur hefur það mjög skaðleg áhrif, samanber þann feluleik sem þá fer í gang um að flytja hagnað milli skattasvæða og koma honum fyrir og undan skatti á aflandssvæðum. Það er þróun sem þarf að sporna gegn því að það grefur undan heilbrigðri tekjuöflun og réttlæti. Það er engin sanngirni af neinum toga í því að sum fyrirtæki og sumir einstaklingar standi skil á öllum gjöldum sínum, en séu svo í samkeppni við aðra sem gera það ekki.

Hv. þingmenn verða líka að hafa í huga að það eru sanngirnisþættir í þessum efnum í allar áttir. Það versta við óheilbrigða samkeppni á því sviði sem grefur undan eðlilegum skattskilum er ósanngirnin sem í henni er fólgin gagnvart þeim sem standa skil á öllu sínu. Miðað við núverandi stefnu tekur Ísland fullan þátt í viðleitni alþjóðasamfélagsins til að loka skattaskjólum og sækja upplýsingar milli landa þegar slíkt er á döfinni.



[16:25]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Mér finnst vera stór munur á því þegar hæstv. ráðherra hefur ekki upplýsingarnar og því þegar hann nennir ekki eða telur það pólitískt klókt að svara þeim ekki. Það er nákvæmlega það sem gerðist í fyrra svarinu.

Það er mjög gott að pólitísk samstaða skuli vera komin um að við séum í samkeppni um fólk og fyrirtæki og þurfum þess vegna að vera með hagstætt skattumhverfi.

Ég kannast ekki við að menn hafi haft mikinn áhuga á að hafa hér skattaskjól eða skattasmugu. Við unnum hins vegar mikið að því að einfalda skattkerfið og lækka skatta til að halda í okkar fólk því að eins og hv. fyrirspyrjandi fór yfir er mikið um að fólk flytji eða fari með fyrirtæki til annarra landa. Við ættum að ræða hvort við ættum ekki að kanna það sérstaklega þannig að við hefðum haldbærar upplýsingar um ástæðu (Forseti hringir.) búferlaflutninga. Ég held að við séum ósammála um margt, en ég held að við séum sammála um að við viljum halda fólki og fyrirtækjum hér.



[16:26]
Fyrirspyrjandi (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Já, ég held að það væri mjög æskilegt að fjármálaráðuneytið kannaði þetta og aflaði upplýsinga um flótta fólks og fyrirtækja frá landinu undan skattstefnu stjórnvalda. Endurskoðunarfyrirtæki hafa ágætisyfirsýn yfir þetta. Ég er alveg viss um að þau gætu aðstoðað fjármálaráðuneytið við að gera athugun á þessu og áhrifum þess.

En af því hæstv. fjármálaráðherra gaf í skyn að skattar væru enn þá miklu hærri í Svíþjóð en á Íslandi, vekur það athygli að mörg þessara fyrirtækja flytja einmitt til Svíþjóðar, fara þangað með starfsemi sína að hluta eða í heild. Þá hlýtur maður að spyrja: Hvað er það sem hrekur þau í burtu héðan? Er það stefna ríkisstjórnarinnar að einhverju öðru leyti? Mér skilst að yfirleitt gefi menn helst upp ástæðuna um hækkandi skatta en ekki síður óvissuna um skattstefnuna.

Það var rétt sem hæstv. fjármálaráðherra sagði um mikilvægi þess að við séum samkeppnishæf, en nýtt mat á samkeppnishæfni Íslands sýnir að við færumst áfram niður listann og erum komin niður í 31. sæti í samkeppnishæfni þjóða af 59 löndum, að mig minnir, eftir að hafa verið í 4. sæti. Sérstaklega erum við lágt skráð hvað varðar liði er snúa að efnahagsstefnu stjórnvalda. Þar erum við í sumum tilvikum í eða við botnsætið. Ef hæstv. fjármálaráðherra er alvara með það að við þurfum að huga að því að landið sé samkeppnishæft á sviði efnahagsmála og hafi möguleika á því að laða til sín eða halda fyrirtækjum og fólki þá virðist þurfa að gera töluverðar úrbætur á.



[16:29]
fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Ég hef ekki neinar tölur um það að héðan hafi orðið mikill brottflutningur fyrirtækja og allra síst af skattalegum ástæðum. Mörg fyrirtæki hafa lent í erfiðleikum og mörg hætt starfsemi og enn önnur eru í fjárhagslegri endurskipulagningu eins og gengur. Hér skráðu félög sig sérstaklega meðan við lýði var tilraun til að heimila aflandsfélögum að skrá hér starfsemi nánast skattfrjálst en þeirri tilraun lauk heldur snautlega með því m.a. að það fyrirkomulag var allt saman dæmt ólöglegt af ESA.

Sem betur fer hefur dregið verulega úr brottflutningi einstaklinga. Við erum mun nær því að ná jöfnuði nú milli mánaða þegar það er skoðað en var á hinu óhagstæða ári 2009. Það er alveg rétt að þróunin í þeim efnum var nokkuð alvarleg á árinu 2009, en sem betur fer dró verulegar úr því í fyrra og er mun minni ójöfnuður í fólksflutningum til og frá landinu núna.

Það er alveg rétt að í þessum mælingum á samkeppnishæfni skorum við ekki hátt á sviði efnahagsstjórnar. Nema hvað — skyldi geta verið að það sé vegna þess að hér varð eitt stykki allsherjarhrun? Auðvitað lækkar trúverðugleikinn við það og þeirra stjórnvalda sem stýra í landi þar sem slíkt gerðist. Að sjálfsögðu er það fyrst og fremst hrunið sem hér varð sem hefur sett okkur langt niður á þann lista. Verkefni okkar núna er að vinna okkur upp hann og við erum lögð af stað þá leið. Trúverðugleiki landsins á sviði efnahagsmála er að aukast eins og ég veit að hv. þingmaður hlýtur að gleðjast mjög yfir. Við fáum núna mun jákvæðari umsagnir, t.d. í starfsmannaskýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem kom út í gær og ég hvet hv. þingmann til að lesa, í þeirri skýrslu sem mun koma frá OECD og verður gerð opinber eftir eina til tvær vikur, það vill svo til að fjármálaráðuneytið fær að sjá hana í drögum, og víðar að berst rökstuðningur og vísbendingar um að trúverðugleiki okkar sé á uppleið, sem betur fer, enda mátti hann við því eins og hann var leikinn haustið 2008.

Á Íslandi er áhættuálagið t.d. komið niður fyrir það sem það var nokkurn tímann á árinu 2008. Það er komið niður á slóðir þar sem það var í lok árs 2007, eða í um 200 punkta, án þess að það sé heilagur mælikvarði en það segir væntanlega einhverja sögu. Það er greinilegt að tiltrú manna á því að við séum að ná hér tökum á efnahagsmálunum er að aukast og ytra umhverfið er að átta sig á því að mikill árangur hefur náðst í þeim efnum. Það veit ég að gleður hv. þm. Sigmund Davíð Gunnlaugsson mjög.