141. löggjafarþing — 92. fundur
 8. mars 2013.
afgreiðsla stjórnarskrármálsins.

[10:33]
Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég spyr hæstv. forsætisráðherra um afstöðu hennar til þeirrar niðurstöðu formanna ríkisstjórnarflokkanna að reyna ekki úr því sem komið er að ljúka afgreiðslu stjórnarskrárfrumvarpsins á þingi en fara þess í stað aðra leið eins og birtist í þingmálum sem hér voru til umræðu á miðvikudaginn.



[10:34]
forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Í langan tíma, í nær fjögur ár, hefur verið reynt að koma fram breytingum á stjórnarskránni á hv. Alþingi. Stjórnarandstaðan, Sjálfstæðisflokkur ekki síst og Framsóknarflokkur, hefur gert sitt ýtrasta til að koma í veg fyrir að það mál nái (VigH: Þetta er rangt.) fram að ganga með ýmsum hætti, málþófi o.fl. Því til sönnunar vil ég segja að á þessu kjörtímabili hefur verið talað í 150–160 klukkustundir í stjórnarskrármálinu. Það segir sína sögu.

Ég hef stutt allar mögulegar færar leiðir til að stjórnarskrá byggð á grunni stjórnlagaráðs yrði að veruleika og næði fram að ganga í samræmi við þjóðarvilja. Ég tel að það sé og hefði verið bæði málefnalega og tæknilega hægt að klára málið ef minni hlutinn hefði ekki beitt þessu málþófsofbeldi sem hann hefur gert ítrekað í stjórnarskrármálinu. Málið hefur verið vel unnið og faglega og fengið mikla umfjöllun í nefnd og nú liggur fyrir heildstæð tillaga að stjórnarskrá frá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd sem á þakkir skildar fyrir það hve vel hún hefur staðið að þessu máli.

Þó er ljóst og það er mat formannanna að tímans vegna sé ekki hægt að ná fram heildstæðri stjórnarskrá á þessu kjörtímabili. Þeir hafa því lagt fram tillögu um að þannig verði staðið að verki að stjórnarskrármálið verði tekið upp á næsta kjörtímabili í heild sinni og unnið þar í samræmi við tillögur stjórnlagaráðs. Úr því sem komið er styð ég þessar tilraunir formannanna en legg auðvitað áherslu á það, eins og minn formaður hefur gert, að við sameinumst um að reyna að ná í gegn auðlindaákvæðinu og ákvæði um beina lýðræðið áður en þingi verður slitið. Ég trúi því ekki fyrr en á reynir að (Forseti hringir.) þingmenn Framsóknarflokksins séu ekki tilbúnir í það. Það er í samræmi við málflutning þeirra og tillögur á landsfundi.



[10:36]
Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Þeir þrír sem mynda minni hlutann í níu manna stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hafa afskaplega litlu ráðið um það á hvaða hraða og með hvaða verklagi þetta mál hefur verið unnið síðustu missirin. Dagsetningar eins og þingfrestunardagsetning og kosningadagsetning hafa legið fyrir alllengi þannig að ef hæstv. forsætisráðherra hefur áhyggjur af því að málið hafi komið seint inn í þingið til afgreiðslu og annað þarf að ræða við einhverja aðra en okkur sem sitjum í minni hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar.

Varðandi efnisatriði málsins er það jafnumdeilt og áður og ástæðulaust að þrefa um það. Hins vegar veiti ég því athygli að hæstv. forsætisráðherra nefnir hér tvö ákvæði til viðbótar við þau sem getið er um í fyrirliggjandi þingmálum. Formenn ríkisstjórnarflokkanna lögðu fram frumvarp um breytingu á einni tiltekinni grein stjórnarskrárinnar, breytingarákvæðinu sjálfu, en minntust í því sambandi ekkert á þau ákvæði sem hæstv. forsætisráðherra nefndi í ræðu sinni.



[10:37]
forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að ýmislegt hefur orðið til þess á þessu kjörtímabili að tefja framgang stjórnarskrármálsins. Við lögðum áherslu á að þjóðaratkvæðagreiðslan gæti farið fram miklu fyrr en hún gerði, t.d. í tengslum við kjör forseta. Stjórnarandstaðan vildi ekki fara þá leið þannig að stjórnarandstaðan hefur lagt sitt af mörkum til að tefja þetta mál eins og ég hef sagt, ekki bara með málþófi heldur líka að því er varðar efnisatriði málsins og þjóðaratkvæðagreiðsluna.

Formaður flokksins hefur sagt skýrt og skorinort að hann telji mikilvægt að auðlindaákvæðið nái fram að ganga á þessu kjörtímabili. Þetta er mál sem við höfum verið með á borðinu í mörg ár. Árið 2009 var ítarlega farið fram með það að ná fram auðlindaákvæðinu, og það var stutt af framsóknarmönnum, og við leggjum áherslu á að ná að minnsta kosti því fram. Það skiptir verulegu máli og ég er sannfærð um að það er meirihlutavilji fyrir því að ná því máli fram áður en við ljúkum þingi. Á það mun alveg örugglega reyna.