145. löggjafarþing — 66. fundur
 25. janúar 2016.
heilbrigðiskerfið.

[15:21]
Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Hæstv. forsætisráðherra kom með yfirlýsingu á facebooksíðu sinni fyrr í dag sem andsvar við undirskriftalista Kára Stefánssonar sem heitir Endurreisn, en nú hafa um 44.000 Íslendingar skrifað undir áskorun til ríkisstjórnarinnar um að verja 11% af vergri landsframleiðslu til heilbrigðismála.

Með leyfi forseta, vísa ég í orð hæstv. forsætisráðherra:

„Ég er sammála þeim sem telja mikilvægt að auka framlög til heilbrigðismála. Það höfum við gert á undanförnum árum og það þurfum við og eigum að gera áfram. Að mæla heilbrigðisþjónustu aðeins út frá ákveðnu hlutfalli af landsframleiðslu er hins vegar vafasöm leið. Landið sem er með hæsta hlutfall landsframleiðslu til heilbrigðismála er Túvalú (18,5%) og í öðru sæti eru Bandaríkin með 17,1 (World Bank 2013). […] Við þurfum að halda áfram að auka verðmætasköpun í landinu og setja meira í heilbrigðismál og almannatryggingar. Þannig þurfum við að forgangsraða hvort sem hlutfall af VLF verður hærra eða lægra en til dæmis í Síerra Leóne.“

Ég vil taka fram að það er ánægjulegt að sjá hve hæstv. forsætisráðherra er vel að sér í tölfræði. Ég hef tekið eftir því að stundum vísar hæstv. forsætisráðherra í tölfræði frá OECD og stundum frá öðrum alþjóðastofnunum, núna síðast í tölfræði World Bank. Því langar mig að spyrja: Hvernig velur hæstv. ráðherra hvaða tölfræði er réttast að vitna í? Hvernig hyggst forsætisráðherra stuðla að aukinni verðmætasköpun í landinu? Og hvernig hyggst ráðherrann tryggja bráðaviðbrögð við því neyðarástandi sem nú ríkir í heilbrigðiskerfi landsmanna?



[15:22]
forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að lesa skýrt og skilmerkilega upp þessa færslu sem er þó ekki andsvar eins og hv. þingmaður lýsti því heldur eins og þeir heyrðu sem hlýddu á lesturinn miklu frekar jákvæð ábending um mikilvægi þess að menn hugi að réttum atriðum þegar þeir vinna saman að því að efla heilbrigðisþjónustu á Íslandi.

Hvernig hyggjumst við bregðast við stöðu mála í heilbrigðismálum? spurði hv. þingmaður. Við erum að því eins og ég lýsti því hér áðan með gríðarlega mikilli aukningu fjárveitinga til heilbrigðismála á sama tíma og við erum að passa okkur á því að reka ekki ríkið með halla og auka ekki á skuldir ríkisins þannig að við getum jafnt og þétt til langrar framtíðar haldið áfram að bæta í heilbrigðismálin.

Hvernig ætlum við að auka verðmætasköpun í landinu? Það gerum við meðal annars með því að reka arðbærar atvinnugreinar, atvinnugreinar sem virka og skila tekjum í þjóðarbúið eins og sjávarútveg, með því að halda áfram uppbyggingu nýrra greina. Þess vegna er alveg sérlega ánægjulegt að sjá að menn eru að uppgötva að áherslur ríkisstjórnarinnar varðandi nýsköpun eru byrjaðar að skila sér í fjölgun starfa í þeirri grein, stofnun nýrra fyrirtækja og mikilli nýsköpunarsókn sem við munum eflaust finna jákvæð áhrif af á næstu árum.

Svo skiptir auðvitað miklu máli að fjárfesta áfram í menntun. Slík fjárfesting skilar sér margfalt til baka eftir því sem fram líða stundir. Þess vegna hefur hæstv. menntamálaráðherra lagt kapp á það að börn og ungmenni fái þá fræðslu sem þau þurfa á að halda til þess að vera samkeppnishæf við ungmenni annarra landa og geta byggt upp verðmætasköpun á Íslandi til framtíðar.



[15:24]
Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Ég spurði hæstv. forsætisráðherra hvernig hann hygðist tryggja bráðaviðbrögð við neyðarástandi sem nú ríkir í heilbrigðiskerfi landsmanna og ég fékk ekki nein svör við því. Ég er alveg sammála og get alveg tekið undir allt það sem kom fram í ræðu ráðherrans um þær áherslur sem hann nefndi, en það kom ekki neitt svar við spurningu minni. Því óska ég eftir að í síðari ræðu svari hæstv. ráðherra mér.

Síðan langar mig að spyrja af hverju hæstv. ráðherra hugnast illa að ákveðnu hlutfalli landsframleiðslu verði varið í þennan málaflokk. Hvaða aðrar leiðir væru góðar sem mælikvarði til að tryggja að við hefðum hér heilbrigðiskerfi fyrir alla sem þurfa á því að halda þegar þeir þurfa á því að halda?



[15:25]
forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég gleymdi líka að svara spurningunni um val á tölfræði þó að hún væri nokkuð sérkennileg. OECD eru samtök afmarkaðs hóps ríkja, en heimsbankinn World Bank heldur hins vegar utan um upplýsingar um hagstærðir hjá öllum ríkjum heims. Ég hef ekki ástæðu til þess að ætla að tölfræði World Banks sé eitthvað verri en tölfræði OECD og geri ekki ráð fyrir að hv. þingmaður hafi hana heldur.

Hvað varðar svo bráðavandann í heilbrigðisþjónustunni, sem hv. þingmaður lýsir svo, þá höfum við einmitt verið að bregðast við honum eins og ég lýsti hér áðan, m.a. með því að auka núna á þessu ári framlög til heilbrigðismála á milli ára um meira en 10%. Það er fáheyrt, virðulegur forseti, en það gerum við vegna þess að við teljum vera þörf fyrir það.

Aftur að spurningunni um verðmætasköpunina og matið á landsframleiðslu þá helst einmitt þetta tvennt í hendur. (Forseti hringir.) Virðulegur forseti, ef landsframleiðslan minnkaði (Forseti hringir.) en framlög til heilbrigðismála héldust óbreytt (Forseti hringir.) gætu menn með því sagt að það væri verið að bæta stöðu heilbrigðisþjónustunnar.