150. löggjafarþing — 101. fundur
 11. maí 2020.
uppbygging og rekstur fráveitna, 1. umræða.
stjfrv., 776. mál (átak í fráveitumálum). — Þskj. 1355.

[18:12]
umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um uppbyggingu og rekstur fráveitna hvað varðar átak í fráveitumálum sveitarfélaga. Meginmarkmið frumvarpsins er að styrkja fráveituframkvæmdir á vegum fráveitna sveitarfélaga til þess að uppfylla lög um uppbyggingu og rekstur fráveitna, lög um stjórn vatnamála og reglugerð um fráveitur og skólp. Frumvarpið er samið í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu að höfðu samráði við fjármála- og efnahagsráðuneytið, samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið, Umhverfisstofnun, Samband íslenskra sveitarfélaga og Samorku.

Í fjáraukalögum fyrir árið 2020, sem samþykkt voru 30. mars sl., er lagt til að veitt verði tæplega 18 milljarða kr. fjárheimild til sérstaks tímabundins fjárfestingarátaks til að vinna gegn samdrætti í hagkerfinu í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru. Eitt af fjárfestingarverkefnunum í fáraukalögum er átak í fráveitumálum í samstarfi ríkis og sveitarfélaga í samræmi við fyrirheit þar að lútandi í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Gert er ráð fyrir að 200 millj. kr. verði veittar til fráveituframkvæmda á árinu 2020.

Í frumvarpinu er lagt til að ríkið styrki fráveituframkvæmdir fráveitna sveitarfélaga á árunum 2020–2030. Lagt er til að sambærilegt fyrirkomulag verði eins og gilti um stuðning við framkvæmdir sveitarfélaga samkvæmt lögum um stuðning við framkvæmdir sveitarfélaga í fráveitumálum, nr. 53/1995. Samkvæmt lögunum gat stuðningur ríkisins numið allt að 200 millj. kr. á ári eftir því sem nánar var kveðið á um í fjárlögum, þó aldrei hærri upphæð en sem nam 20% af staðfestum heildarraunkostnaði styrkhæfra framkvæmda.

Í þessu frumvarpi er ekki gert ráð fyrir að árleg hámarksupphæð verði 200 millj. kr. heldur er gert ráð fyrir að fjárveiting til þessa verkefnis verði ákveðin af Alþingi og miðað verði við fasta fjárhæð í fjármálaáætlun og fjárlögum hverju sinni. Sú upphæð hefur ekki verið ákveðin enn sem komið er.

Samkvæmt skýrslu vinnuhóps stjórnvalda um tillögur að fyrirkomulagi stuðnings ríkisins við sveitarfélög vegna fráveituframkvæmda gæti samanlagður kostnaður við fráveituframkvæmdir sveitarfélaga á næstu tíu árum orðið á bilinu 27,5–39,5 milljarðar. Þar af eru 15–20 milljarðar vegna framkvæmda sem miða að því að fráveitur uppfylli ákvæði reglugerðar um fráveitur og skólp, 2,5 milljarðar vegna hreinsunar ofanvatns, þar með talið örplast, og 10–17 milljarðar vegna endurbóta á núverandi hreinsivirkjum með eins þreps hreinsun skólps.

Ef miðað yrði við að sveitarfélög gætu fengið allt að 20% endurgreiðslu gæti kostnaður ríkisins orðið samtals 5,5–7,9 milljarðar, þar af 3–4 milljarðar vegna framkvæmda sem miða að því að fráveitur uppfylli kröfur, 500 milljónir vegna hreinsunar ofanvatns og 2–3,4 milljarðar vegna endurbóta á núverandi hreinsivirkjum með eins þreps hreinsun skólps. Ef miðað er við að kostnaðurinn dreifist jafnt yfir tíu ára tímabil yrði tilsvarandi árlegur kostnaður ríkisins 300–400 milljónir vegna framkvæmda sem miða að því að fráveitur uppfylli kröfur, 50 milljónir vegna hreinsunar ofanvatns og 200–340 milljónir vegna aukinnar eins þreps hreinsunar skólps eða samtals 550–790 milljónir á ári.

Þá er í frumvarpinu gert ráð fyrir að umhverfis- og auðlindaráðherra verði falið að úthluta fjármununum til fráveitna sveitarfélaga.

Virðulegi forseti. Ég hef hér rakið meginefni þessa frumvarps og legg til að frumvarpinu verði að lokinni 1. umr. vísað til hv. umhverfis- og samgöngunefndar.



[18:16]
Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir framsöguna. Hér er að sjálfsögðu mikilvægt mál á ferðinni, að fara í átak í fráveitumálum landsmanna. Sveitarfélög hafa barist fyrir því síðastliðinn áratug að gerð yrði breyting á lögum um virðisaukaskatt í þá veru að sveitarfélögin fái 100% endurgreiðslu á virðisaukaskatti vegna fráveituframkvæmda. Nú er það svo að nokkrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa einnig lagt fram á Alþingi, í tvígang á yfirstandandi kjörtímabili, þingmannafrumvarp til stuðnings þessum kröfum sveitarfélaganna þess efnis að sveitarfélögin fái undanþágu frá greiðslu virðisaukaskatts vegna fráveituframkvæmda.

Ljóst er að í þessu frumvarpi er ekki verið að koma til móts við þá baráttu sveitarfélaganna. Það er í raun og veru verið að fara þvert á vilja þeirra þegar kemur að þeim hugmyndum um að nýta afslátt af virðisaukaskatti í þessar framkvæmdir. Mér finnst þetta bera svolítið vott um það, sem við höfum séð líka í aðgerðapakka ríkisstjórnarinnar, að það vantar þetta samráð við sveitarfélögin. Þess vegna vil ég spyrja hæstv. ráðherra: Nú veit ég að það var nefnd sem lagði þetta til, en hvers vegna var ekki hlustað meira á sveitarfélögin í þessu? Er ekki viðbúið og best í þessu að þau fái að stjórna þessu svolítið sjálf og þá með því að fá þessa endurgreiðslu til baka? Ef hæstv. ráðherra gæti farið aðeins yfir það hvers vegna var ekki horft til þess sem sveitarfélögin hafa mjög svo talað fyrir.



[18:18]
umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Þórarinssyni fyrir andsvarið. Ég er náttúrlega alls ekki sammála því að ekki sé verið að koma á móts við baráttu sveitarfélaganna því að það er einmitt verið að koma á móts við þá baráttu sveitarfélaganna að fá aukinn stuðning við fráveituframkvæmdir, eins og er nú í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarflokkanna. Það var haft samráð við sveitarfélögin. Í fyrsta lagi var vinnuhópur sem ég stofnaði 1. október í fyrra, ef ég man rétt, sem skilaði af sér í kringum áramótin eða í janúar þar sem í sat fulltrúi Sambands íslenskra sveitarfélaga. Einnig var haft samráð við Samband íslenskra sveitarfélaga við samningu þessa frumvarps.

En spurningin er þá kannski: Hvers vegna var þessi leið valin, að fara þá leið að hafa þetta fasta fjárupphæð á ári sem búið er þá að ákveða fyrir árið 2020 en ekki önnur ár? Það var sem sagt niðurstaða hópsins að hentugasta útfærslan fælist í þessu styrkjafyrirkomulagi þar sem það styrkti stefnu um einföldun virðisaukaskattskerfisins, auk þess sem fjárstjórnarvald væri þá óskorað í höndum Alþingis án þess að um væri að ræða sjálfvirkni í útgjaldavexti. En valkostirnir eru, eða voru, að undanþága væri gefin frá virðisaukaskatti sem að mati ríkisskattstjóra væri ekki góð leið. Endurgreiðsla, sem ríkisskattstjóri nefnir að hægt væri að skoða, eða þá auknar fjárveitingar, sem ríkisskattstjóri benti líka á í umfjöllun sinni um frumvarp það sem hv. þingmaður nefndi að nokkrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins hefðu lagt hér fram. Þetta eru í megindráttum ástæðurnar fyrir þessu.



[18:20]
Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Hér er verið að velja styrkjaleið og er kannski svona skammtafyrirkomulag, verið er að skammta þess vegna ákveðnum sveitarfélögum einhverja styrki til að fara í þessar framkvæmdir og þar með er það í raun og veru lagt í hendur ráðherra hvaða sveitarfélög muni fá styrki og hver ekki, í staðinn fyrir að sveitarfélögin gætu stjórnað þessu svolítið sjálf. Við þekkjum það náttúrlega að þegar framkvæmdaþörfin er allt upp í 80 milljarðar þá eru 200 milljónir kr. náttúrlega bara dropi í hafið í styrktarfé. Auk þess spyr maður sig: Ef Alþingi á að fara að ákveða þetta árlega þá sjáum við náttúrlega fram á það, eftir þau gríðarlegu útgjöld sem ríkissjóður þarf að standa fyrir núna í tengslum við veirufaraldurinn, að augljóst er að það þarf að hagræða þegar fram í sækir og ná niður halla ríkissjóðs — er ekki viðbúið, hæstv. ráðherra, að það verði bara sáralítið fé til skiptanna þegar kemur að þessu styrkjafyrirkomulagi sem lagt er upp með í ljósi efnahagsástandsins og því sem fram undan er í þeim efnum, að ná niður halla ríkissjóðs? Þá spyr maður hvort það hefði kannski bara verið, þegar upp er staðið, vænlegri leið að fara þessa virðisaukaskattsleið og þá geti sveitarfélög stjórnað þessu svolítið sjálf.

Fyrir mér lítur það einhvern veginn þannig út að það verði því miður ekki mikið til skiptanna í þessu styrkjakerfi þegar fram líða stundir, það koma kannski 200 milljónir núna og svo vitum við ekki um framhaldið. Vonandi hef ég rangt fyrir mér, en ég vona að Alþingi sjái mikilvægi þess að fara í svona átak sem er svo sannarlega mikilvægt, en sporin hræða svolítið í þeim efnum.



[18:23]
umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Sú upphæð sem var til skiptanna núna í ár, þessar 200 milljónir, er eitthvað sem var svo sem ekki bara gripið úr lofti heldur var einmitt rætt við Samband íslenskra sveitarfélaga um það. Ég held að mjög mikilvægt sé að við getum dreift þessum framkvæmdum á næstu tíu árum með skynsamlegum hætti. Það segir í frumvarpinu á bls. 4–5 að það sé ljóst að mikilvægt sé að reyna eftir fremsta megni að skapa fyrirsjáanleika við úthlutun fjármuna til fráveitna sveitarfélaga og með hliðsjón af áætlunum fráveitna um fyrirhugaðar framkvæmdir væri gert samkomulag um röð og tímasetningu einstakra framkvæmda þannig að þær dreifðust nokkuð jafnt á árunum 2020–2030. Það er þá verkefnið fram undan að kalla eftir því, og þær upplýsingar eru til í grófum dráttum, hvaða framkvæmdir eru tilbúnar og verði tilbúnar á næstu árum, þannig að verkefnið er að ná utan um það.

Aðalmálið er náttúrlega það gleðiefni að við séum að ráðast aftur í það að styðja við fráveitumál sveitarfélaga, að koma fráveitumálum í miklu betra lag en það er í í dag. Hjá mörgum sveitarfélögum vantar upp á að uppfylla lög og reglugerðir og svo er auðvitað sérstaklega ánægjulegt að þarna er gert ráð fyrir að hægt sé að styrkja líka úrbætur við ofanvatnslausnir sem geta komið í veg fyrir að örplastmengun berist í hafið. Ég held því að við séum öll sammála um markmiðið með þessu, að styrkja sveitarfélögin í því að takast á við þessi mikilvægu verkefni.



[18:25]
Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Herra forseti. Við ræðum hér umbætur í fráveitumálum. Eins og allir þingmenn vita er hin almenna staða í fráveitumálum mjög ólík frá einu sveitarfélagi til annars og eins vegna þess að viðtakar, sem frárennslið fer í, eru jú tvenns konar, þ.e. annars vegar sjórinn og hins vegar vötn og ár, þannig hefur það verið, og svo getum við talað um rotþrær sem þriðja möguleikann. Þetta er með ýmsu móti. Hér eru sveitarfélög sem eru með mjög viðkvæma viðtaka eins og t.d. Mývatnssveit þar sem farið hefur verið í stórátak einmitt til að bæta úr því. Önnur sveitarfélög eru með svipaða viðtaka, viðkvæma, og svo eru sveitarfélög þar sem sjór er viðtaki en fráveitumálin eru ekki í lagi. Það er því um býsna auðugan garð að gresja.

Ákall sveitarfélaganna hefur verið uppi allt frá því að þessum stuðningi var kippt úr sambandi vegna hrunsins á sínum tíma. Nú er í fyrsta sinn orðið við því ákalli, af núverandi ríkisstjórn, sem, eins og hæstv. ráðherra kom inn á, hafði sett þetta inn í sinn samstarfssamning. Endurbæturnar snúa að nýlögnum, þær snúa að hreinsibúnaðinum sjálfum og svo auðvitað að ýmiss konar viðhaldi eða endurbótum, endurnýjun lagna og öðru slíku. Þetta er mjög víðtækt og svo má líka benda á að hreinsunin sjálf getur verið fyrsta, annars eða þriðja stigs. Við höfum jú séð að fyrsta stigs hreinsun, sem við köllum, t.d. hér á höfuðborgarsvæðinu, leiðir til þess að gríðarleg vinna er fólgin í því að fjarlægja úr fráveitum plast og annað slíkt sem við neytendur eða íbúar svæðisins setjum í skólplagnir, sem er fráleit iðja hjá mörgum, því miður.

Í frumvarpinu beinum við líka sjónum okkar að örplasti sem er mjög mikilvægt. Þarna er verið að hreinsa það úr ofanvatni sem er tiltölulega auðvelt miðað við að hreinsa örplastið úr frárennslinu sjálfu. Það hefur komið í ljós, við samanburð á örplasti í frárennsli á Íslandi og t.d. í öðrum löndum eins og Svíþjóð, að við erum með margfalt meira af slíku í sjó hér, m.a. út af frárennsli, en sambærilegar þjóðir. Það hefur komið í ljós, eins og ég nefndi nýlega í ræðu, að nánast allan hringinn í kringum landið inniheldur kræklingur örplast, bara svo að minnst sé á það. Þó að við séum ekki að fara út í fokdýra hreinsun á örplasti úr öllu frárennsli í landinu þarf a.m.k. að stíga fyrsta skrefið með ofanvatnið.

Þessi fráveitumál öllsömul eru langhlaup, ef við getum orðað það svo, þær langtímaáætlanir sem þarna eru. Þessar 200 milljónir sem menn gera hér að umtalsefni, og segja að sé dropi í hafið, eru því einungis fyrsta skrefið og í samræmi við það sem Samband íslenskra sveitarfélaga hefur talið mögulegt að gera nú í sumar svo að það er ekki marktækt í sjálfu sér. Það sem er marktækt er það hvað Alþingi leggur í þetta í fjárlögum. Þá langar mig að benda á að vaskleiðin, ef við tölum um hana, endurgreiðslu á virðisaukaskatti, sem á að vera leið sveitarfélaga til að ákveða sjálf hvað þau vilja fá í endurgreiðslu, er líka nokkuð sem þarf að ákvarðast í fjármálaáætlun og fjárlögum. Það kemur líka inn á hvers konar ástand sem gerir að verkum að við þurfum að draga saman seglin eða spara, hvort sem það er Covid eða eitthvað annað, þannig að styrkleiðin og vaskleiðin eru mjög keimlíkar leiðir þegar að því kemur hver ákveður fjárhæðirnar og hvernig þær eru fundnar út. Það er auðvitað ekki hægt að hafa ótakmarkaðan opinn tékka á vaskleiðina fremur en ótakmarkaðan opinn tékka á styrki. Ég sé ekki þennan stóra mun á. Mig langar svo að benda á að nákvæmlega þessar aðgerðir, að fara út í fráveituaðgerðir, hvort sem það er á þessu ári eða næsta, er auðvitað ein leiðin til að auka við atvinnu, hækka atvinnustigið, og það er jú eitt markmiðið með aðgerðum í efnahagsmálum næstu ára.

Ég lít á þetta í samhengi við ástandið, og í samhengi við þörf á því að stíga þessi skref í fráveitumálum, og ég legg aftur á það áherslu að þetta er 10–20 ára framkvæmd, einfaldlega vegna þess að fráveitumál eru mikilvæg en þau eru líka flókin og þau eru víða í ólestri. Það er því ekki hægt að líta á þetta á minni skala en einum til tveimur áratugum. Ég býst svo við því að hv. umhverfis- og samgöngunefnd fari mjúkum höndum um málið og það verði, þegar til stykkisins kemur og hér verða atkvæðagreiðslur, og eins í nefndinni, býsna góð samstaða um fráveitumálin.



[18:31]
Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að segja í upphafi að ég styð að sjálfsögðu heils hugar átak í þessum málaflokki sem er afar brýnt og ég held við séum öll sammála um það. Þetta er kannski bara spurning um aðferðafræði þegar kemur að aðkomu ríkisins gagnvart sveitarfélögunum. Við þekkjum það öll að við Íslendingar eigum langt í land með að innleiða skólphreinsun í samræmi við skuldbindingar sem ríkið hefur undirgengist vegna aðildar að Evrópska efnahagssvæðinu. Þetta kemur m.a. fram í vandaðri skýrslu Samtaka iðnaðarins um innviðafjárfestingar frá árinu 2017 þannig að ljóst er að mikil þörf er á úrbótum í þessum málaflokki svo uppfylla megi reglugerðarkröfur. Það er orðið sjálfsagt og eðlilegt í okkar huga að þessi mál séu í lagi. Umhverfisvitund landsmanna hefur náttúrlega vaxið mjög mikið á undanförnum árum og þetta er málaflokkur sem við viljum að sjálfsögðu hafa í lagi eins og aðra umgengni við náttúruna. Ófullnægjandi hreinsun skólps getur haft mikil og slæm áhrif á umhverfið. Sem dæmi má nefna að gera má ráð fyrir að mikið af úrgangi á borð við plast berist með fráveituvatni út í umhverfið, eins og hv. þm. Ari Trausti Guðmundsson kom hér inn á, þar sem er lítil eða engin hreinsun, sérstaklega á landsbyggðinni. Töluverð umræða hefur verið um hugsanlega skaðsemi efna í frárennsli sem hefur eiginlega ekki verið gefinn nægilegur gaumur við skólphreinsun fram að þessu. Þá erum við að tala um örplastið og svo lyfjaleifar eins og nefnt er.

Gera má ráð fyrir því að núna og á næstu misserum verði meira svigrúm hjá verktökum til þess að standa að framkvæmdum með hagkvæmari hætti. Í ljósi efnahagsástandsins er samdráttur í fjárfestingum og verklegum framkvæmdum þannig að auðvitað er þetta kjörið árferði til þess að fara í þetta mikilvæga átak. Einfaldlega vegna þeirrar stöðu sem við erum í vegna veirufaraldursins og þess mikla samdráttar í efnahagslífinu sem honum fylgir þá er þetta kjörinn tími til að fara í átak í fráveitumálum.

Þetta frumvarp er vonbrigði að mínum dómi hvað það varðar. Umhverfisráðherra hefur nú beðið með þetta, held ég, í tvö ár eftir að hann tók við ráðherraembætti, að skipa þennan starfshóp og frumvarpið var ekki á þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar fyrir yfirstandandi löggjafarþing. Ég verð að segja að mér finnst þetta sýna svolítið áhugaleysi hjá hæstv. ráðherra með þetta mál en ég veit þó að hann er áhugasamur um umhverfismál almennt en einhvern veginn virðast þessi fráveitumál oft og tíðum gleymast í þeim efnum. Það er ekki nógu gott að mínu viti og þessi staða er alvarleg. Eins og þær upplýsingar sem Samorka hefur tekið saman sýna þá búa einungis 23% landsmanna við skólphreinsun sem uppfyllir kröfur reglugerðar ef höfuðborgarsvæðið er undanskilið.

Umhverfismál á að nálgast á grundvelli almannasjónarmiða um vernd og umhverfisgæði en ekki sem einhverja uppsprettu skattstofna, ef svo má að orði komast. Ríkisvaldið á að hvetja sveitarfélögin til að vinna á þessum nærumhverfisvanda, standa myndarlega við bakið á þeim svo þau geti uppfyllt þessar lagalegu skyldur sínar ásamt því að hvetja þau sérstaklega til þess að auka hreinsun skólps svo draga megi úr mengun vatns og sjávar. Auk þess bara vegna þess að öll okkar matvælaframleiðsla á upphaf sitt og endi, eins og t.d. þegar kemur að sjávarútveginum og landbúnaðinum, og það er bara mjög mikilvægt að þessir hlutir séu í góðu lagi, sérstaklega ef við stefnum í átak á innlendri matvælaframleiðslu. Þá er þetta þáttur sem þarf að vera í lagi.

Rökstuðningurinn fyrir þessari leið hvað fjármögnun varðar af hálfu ráðherra er sá að það styður við stefnu um einföldun virðisaukaskattskerfisins, auk þess sem fjárstjórnarvald er þá óskorað í höndum Alþingis án þess að um sjálfvirkni í útgjaldavexti verði að ræða. Ég hef að sjálfsögðu verið talsmaður þess að Alþingi sinni sínu fjárstjórnarvaldi án afskipta fjárveitingavaldsins. En því miður höfum við horft upp á annað í þessum fjáraukalögum sem við höfum verið að vinna núna í fjárlaganefnd. Það er alveg augljóst að fjárveitingavaldið og fjármálaráðuneytið hefur verið að skipta sér af fjárstjórnarvaldi Alþingis og það er mjög slæmt og gott að heyra það sett fram í þessari greinargerð með þessu frumvarpi að það beri að virða það og efla. Þannig að það er svolítill tvískinnungur í þessu, finnst mér, hvað þá hluti varðar. En það gefur augaleið að allar aðgerðir sem miða að því að breyta ekki neinu munu ekki breyta neinu og því mun sú leið sjálfkrafa í raun og veru styðja við stefnuna um einföldun virðisaukaskattskerfisins. Þetta er leið sem sveitarfélögin hafa barist fyrir og þess vegna kemur manni svolítið á óvart að hún skyldi ekki hafa verið valin.

En nánar að þessu skammtakerfi, sem ég vil kalla, vegna þess að nú á að fara að skammta peninga til sveitarfélaganna og það þarf þá að velja sveitarfélögin úr og það er úr takmörkuðu fé að velja. Umsækjendum er gert að sækja um styrki rafrænt og skulu umsókninni fylgja greinargóðar upplýsingar um framkvæmdina og kostnað og skilyrði fyrir fjárstuðningi er að framkvæmdin sé áfangi í heildarlausn á fráveitumálum sveitarfélags í samræmi við samþykkta áætlun. Síðan er gert ráð fyrir að fráveitur sveitarfélaga leggi fram áætlun þar sem gerð er nánari grein fyrir fyrirhuguðum framkvæmdum og áætluðum kostnaði. Þá er gert ráð fyrir að ráðherra setji að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga og Samorku nánari ákvæði um framkvæmdina í reglugerð.

Eins og ég sagði áðan hafa sveitarfélögin síðastliðinn áratug barist fyrir því að gerð yrði breyting á lögum um virðisaukaskatt í þá veru að þau fái 100% endurgreiðslu á virðisaukaskatti vegna fráveituframkvæmda. Nokkrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa einnig í tvígang, eins og ég nefndi hér í andsvari við hæstv. ráðherra, lagt á yfirstandandi kjörtímabili fram þingmannafrumvörp til stuðnings kröfu sveitarfélaganna, þess efnis að sveitarfélögin fengju þá undanþágu frá greiðslu virðisaukaskatts af fráveituframkvæmdum. Það er nokkuð ljóst að samkvæmt þessu frumvarpi hefur Sjálfstæðisflokkurinn þurft að beygja sig undir vald Vinstri grænna innan ríkisstjórnarinnar þegar augljóst er að það hefur ekki verið hlustað á þennan málflutning Sjálfstæðisflokksins í þinginu varðandi endurgreiðslu af virðisaukaskatti til fráveituframkvæmda. Það er í mínum huga nokkuð ljóst að ráðherra er að fara þvert gegn vilja þeirra þingmanna sem hafa lagt þessi frumvörp fram og sveitarfélaganna, að stórum hluta a.m.k., með því að velja leið styrkta- og skammtafyrirkomulags þar sem í raun og veru er undir hans hæl lagt hvort og hvaða sveitarfélög fái styrk til nauðsynlegra fráveituframkvæmda. Enn og aftur vil ég ítreka það að ég styð þetta átak. Þetta er mikilvægt átak og þetta er rétt árferði til þess að fara í það á næstu misserum en þörfin er gríðarlega mikil og þetta er bara spurning um aðferðafræðina.

Í janúar á þessu ári kom út skýrsla á vegum umhverfisráðuneytisins sem ber heitið fyrirkomulag stuðnings ríkisins við sveitarfélög vegna fráveituframkvæmda og þar er að finna tillögur þessa vinnuhóps. Í skýrslunni kemur jafnframt fram að í mati á fráveitumálum sem gert var árið 2017 komi fram að til að koma ástandi fráveitumála í viðeigandi horf þurfi 50–80 milljarða kr. fjárfestingu. Þetta er gríðarlega há upphæð og þessar 200 milljónir sem er rætt um hér eru, eins og ég sagði fyrr, bara dropi í hafið í þeim efnum. Þess vegna óttast maður að það verði ekki úr neinu að spila í þessu fyrirhugaða styrkjakerfi á komandi misserum og árum vegna þess, eins og ég nefndi fyrr í andsvari, að nú þarf ríkissjóður svo sannarlega að huga að því hvernig eigi að greiða niður þann mikla halla sem stefnir í að verði vegna útgjalda sem eru tengd kórónuveirufaraldrinum. Verið er að tala um tölur eins og 250 milljarða kr. halla á ríkissjóði og hann gæti jafnvel orðið enn þá meiri. Þá einhvern veginn óttast maður að það verði skorið niður í ýmsum sjóðum og öðru slíku og þetta verði eitt af þeim atriðum sem gætu orðið fyrir því að fjárveitingar yrðu skornar niður. Að sjálfsögðu vona ég að svo verði ekki.

Ef hin leiðin hefði verið valin hefði það náttúrlega í för með sér tekjumissi fyrir ríkissjóð í formi eftirgjafar af virðisaukaskatti, en það gæti þó gert það að verkum að sveitarfélögin fari kannski fremur í framkvæmdir. Það þýðir að þá þarf að ráða verktaka og hönnuði og allt sem því fylgir og þá kemur á móti innkoma í ríkissjóð, þá koma þeir aðilar til með að greiða virðisaukaskatt af þeirri vinnu og þá á ég sérstaklega við hvað laun varðar, t.d. til starfsmanna o.s.frv., og það skilar sér í auknum skatttekjum til ríkissjóðs. Þetta er því eitthvað sem horfir öðruvísi við en þegar ríkissjóður er bara að skammta ákveðið fé í framkvæmd með þessum hætti. Þannig að ég vil bara hvetja til þess að lokum, herra forseti, að þetta fái góða umræðu í nefndinni og menn spyrji nauðsynlegra spurninga í því samhengi, fái gesti á fund nefndarinnar frá sveitarfélögunum, fái sveitarstjórnarmenn á landsbyggðinni á fundi nefndarinnar og hlusti á þá sem standa þessu næst og þurfa að fara í slíkar framkvæmdir eða hafa lengi hugsað sér það og voru e.t.v. að vonast eftir því að virðisaukaskattsleiðin yrði farin.

Að fá sjónarmið þessara aðila er ákaflega mikilvægt í þessari vinnu vegna þess, eins og ég sagði áðan, að það ber allt of mikið á því að ríkisstjórnin hafi of lítið samráð við sveitarfélögin. Það sáum við og höfum séð í vinnunni við fjáraukalögin og þessa aðgerðapakka ríkisstjórnarinnar, þá hafa sveitarfélögin sem komu á fund fjárlaganefndar kvartað sérstaklega yfir því að það skuli ekki hafa verið haft nægilegt samráð við þau í þeim tillögum sem ríkisstjórnin leggur síðan til og við höfum verið að vinna innan nefndarinnar. Þetta er mjög bagalegt vegna þess að sveitarfélögin eru náttúrlega ákaflega mikilvæg í því sem fram undan er, bæði í þeim efnahagsaðgerðum sem við þurfum að fara í og sveitarfélögin þurfa að standa straum af ýmsum útgjöldum vegna veirufaraldursins. Þau hafa auk þess orðið fyrir miklum tekjumissi þannig að það er mjög mikilvægt að það sé haft víðtækt og gott samráð við þau á öllum stigum málefna er varða sveitarfélögin (Forseti hringir.) og þetta er eitt af þeim stóru málum. Ég vona svo sannarlega að nefndin átti sig á því.



[18:46]
Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á lögum um uppbyggingu og rekstur fráveitna. Hér er komið að mínum dómi mjög mikilvægt mál, mikilvæg tillaga að umgjörð um samstarf ríkis og sveitarfélaga um úrbætur í fráveitumálum og komin fram lausn sem hefur kannski vafist dálítið fyrir stjórnvöldum síðustu árin að finna.

Meginmarkmið frumvarpsins er að styrkja fráveituframkvæmdir á vegum fráveitna sveitarfélaga til að uppfylla lög um uppbyggingu og rekstur fráveitna, lög um stjórn vatnamála og reglugerð um fráveitur og skólp. Lagt er til að í tíu ár verði veitt framlag úr ríkissjóði til fráveituframkvæmda á vegum fráveitna sveitarfélaga og fyrirkomulagið verði sambærilegt við þann stuðning sem var til staðar samkvæmt lögum um stuðning við framkvæmdir sveitarfélaga í fráveitumálum, nr. 53/1995. Ég trúi því að allar sveitarstjórnir landsins í rauninni hafi beðið eftir framhaldinu frá því að sá stuðningur rann út því að fráveitur skipta náttúrlega sveitarfélögin og hvert samfélag mjög miklu máli. Vel gerðar fráveitur, í samræmi við lög og reglur, eru ákveðin trygging fyrir hreinleika umhverfisins til lands og sjávar, fyrir íbúa og gesti hvers samfélags, en líka fyrir hreinleika þeirrar framleiðslu sem fer fram í samfélögunum og matvælaframleiðslunni ekki síst.

Þetta mál hefur verið lengi til umræðu og náttúrlega verið töluvert samráð. Það er komið inn á það í greinargerðinni með frumvarpinu að starfshópur, sem umhverfis- og auðlindaráðherra skipaði 1. október 2019, hefur unnið að þessu. Ég átta mig ekki alveg á því af lestri greinargerðarinnar hvert samspil endanlegu tillagnanna er við vinnu starfshópsins og hvort það hafi verið einhverjar tillögur að útfærslum þar, því að það kemur fram að ekki hafi verið hefðbundið samráð við framlagningu frumvarpsins. Þess vegna er ég svolítið forvitin að vita hvað hafi falist í samráðinu sem var búið að eiga sér stað í kannski eitt og hálft ár, tvö ár.

Hér er farið yfir hvað er styrkhæft. Það verði framkvæmdir við sniðræsi og safnkerfi, hreinsivirki, dælustöðvar og útrásir. Það sem er nýtt er að hönnunarkostnaður, rannsóknakostnaður og byggingarkostnaðurinn verður líka styrkhæfur. Ég held að það sé mjög mikilvægt af því að ég veit að það olli allmörgum minni sveitarfélögum ákveðnum höfuðverk, á fyrra tímabili þessa stuðnings samkvæmt eldri lögum, að menn höfðu ekki nógu traustan grunn að byggja á varðandi aðstæður í hverjum firði eða viðtaka, sem geta verið ár eða vötn, og þarf virkilega að leggja í rannsóknir til að átta sig á því hvað viðtaki fráveitunnar ber og hvaða áhrif fráveitan hefur á viðtakann sem er til staðar. Ég held líka að styrkurinn til rannsókna geri lausnirnar sem verður farið í markvissari og geti líka leitt til nýsköpunar, nýrra leiða í lausnum. Ég held að það sé einmitt mjög mikilvægt að í þessu verkefni verður ekki horft of þröngt á framkvæmdir þannig að það sé rými til að fara nýjar leiðir ef rannsóknir sýna fram á að það sé skynsamlegt. Þannig geti orðið til nýjar lausnir í hönnun fráveitna.

Fyrri ræðumenn hafa komið inn á að hluti af þessu átaki er að vinna gegn örplastmengun í hafinu. Það er líka gert ráð fyrir að hliðsjón verði höfð af aðgerðaáætlun í tengslum við vatnaáætlun vegna stjórnar vatnamála sem ég held að sé líka mjög mikilvægt í þessu samhengi.

Aðeins um framkvæmdina. Það á að auglýsa eftir umsóknum árlega en auðvitað væri það frekar ómarkvisst að það væri bara horft á hvert ár fyrir sig af því að þetta eru allt langtímaverkefni eins og hér hefur komið fram. Þess vegna er gert ráð fyrir að sveitarfélag leggi fram áætlun um fyrirhugaðar framkvæmdir og kostnað til lengri tíma og þannig verði mögulegt að forgangsraða og tímasetja einstakar framkvæmdir til þess að skapa fyrirsjáanleika fyrir hvert og eitt sveitarfélag á þessu árabili, 2020–2030.

Að lokum vil ég ítreka að ég tel þetta vera afskaplega mikilvægt mál sem ég hlakka til að fjalla um í umhverfis- og samgöngunefnd. Samstarf ríkis og sveitarfélaga um uppbyggingu og rekstur fráveitna er á stefnuskrá Framsóknarflokksins og er hluti af stefnu ríkisstjórnarinnar þannig að við erum að stíga hér mikilvægt skref sem fellur að áætlunum bæði ríkis og sveitarfélaga og stefnu stjórnmálaflokka og er jafnframt viðspyrna gegn Covid.



[18:54]
umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þingmönnum fyrir umræðuna hér í dag sem mér finnst góð og sérstaklega vegna þess að það er greinilegt að við erum öll sammála um það stóra umhverfismál sem er til umfjöllunar og snýst um að bæta úr fráveitumálum hjá sveitarfélögum.

Ég ætla að koma örlítið inn á mismunandi leiðir sem hægt er að fara í að fjármagna þetta og ég kom aðeins inn á í andsvari og fyrri ræðu minni. Það snýr að því hvaða leið er valin. Það er vissulega ein leið að kveða á um undanþágu frá virðisaukaskatti eða endurgreiðslu virðisaukaskatts eða fara þá leið sem hér er valin. Einn kostur þess að fara styrkjaleiðina er að geta farið yfir 20%, sem var nefnt í inngangsræðu minni, í stuðningi til að mynda við minni sveitarfélög eða sveitarfélög þar sem hlutfallslega fáir íbúar eru á bak við dýrar framkvæmdir, t.d. þar sem um viðkvæma viðtaka er að ræða. Það þarf líka að líta til þess að ef farin væri virðisaukaskattsleiðin þá yrði náttúrlega tekjumissir fyrir ríkissjóð og við erum auðvitað að byggja þetta styrkjafyrirkomulag á einhverju sem við þekkjum ágætlega úr fortíðinni.

Aðeins um það sem var nefnt varðandi meint áhugaleysi þess sem hér stendur um fráveitumál þá vil ég nú bera blak af sjálfum mér því að það er alls ekki raunin. Ég tók hins vegar talsverðan tíma í undirbúningsvinnu, það er ekkert leyndarmál. Sú undirbúningsvinna fólst m.a. í því að skoða örplastmálin, þ.e. láta fara fram ítarlega úttekt á því eftir hvaða leiðum örplast berst til sjávar þannig að byggja megi á slíkri úttekt hvers konar aðgerðir sé skynsamlegast að ráðast í. Það gerði ég líka hvað varðar lyfjaleifar. Þar var líka gerð rannsókn eða úttekt og síðan úttekt á möguleikum á að nýta seyru. Ég held að það sé til marks um góða stjórnsýslu og skipulag og framsýni að nýta sér það að skoða hlutina fyrst áður en ráðist er í að vinna þá. Ég nefni þetta sérstaklega vegna þess að það er gríðarlega mikilvægt að við ráðumst ekki bara í fráveituframkvæmdir til að uppfylla núgildandi lög og reglugerðir heldur líka til þess að horfa til framtíðar þar sem öll örplastmengun skiptir meira máli og þar sem það að nýta úrgang eins og seyru skiptir meira máli inn í framtíðina í takt við hringrásarhagkerfið.

Hv. þm. Birgir Þórarinsson nefndi að ekkert hefði gerst í tíu ár í þessum málum þrátt fyrir ákall sveitarfélaga og ég tek bara undir það en bendi hv. þingmanni jafnframt á það að meint áhugaleysi þess sem hér stendur er ekki meira en svo að hér er málið fram komið. Ég held að við munum báðir gleðjast yfir því og veit ég að við gerum það.

Aðeins um samráð sem hér var nefnt. Hv. þm. Líneik Anna Sævarsdóttir spurði hvert samspilið væri á milli þess vinnuhóps sem skipaður var og síðan frumvarpsins. Það er í grundvallaratriðum að frumvarpið byggir á starfi vinnuhópsins. Vinnuhópurinn var skipaður af fulltrúum umhverfisráðuneytis, fjármálaráðuneytis, sveitarstjórnarráðuneytisins og Sambands íslenskra sveitarfélaga og þær tillögur sem lagðar eru fram byggja á þeirri vinnu.

Ég vil líka taka undir með hv. þm. Líneik Önnu Sævarsdóttur um mikilvægi þess að styrkveitingar geti jafnframt náð til nauðsynlegrar undirbúningsvinnu og hönnunarkostnaðar sem kemur sér sérstaklega vel fyrir minni sveitarfélög sem eiga kannski erfiðara með að yfirstíga slíkan kostnað. Auðvitað er þetta hugsað þannig að þegar til úthlutunar kemur þá sé hægt að horfa til lengri tíma og heildstætt á fráveitumál á landinu öllu yfir tíu ára tímabil og skipta framkvæmdunum niður með þeim hætti. En ég veit að hv. umhverfis- og samgöngunefnd mun að sjálfsögðu taka þetta mál til góðrar skoðunar. Hvað sem líður mismunandi skoðunum um útfærslur erum við öll sammála um markmiðin með þessu. Við erum sammála um að þetta átak er löngu tímabært, við erum sammála um að þetta mun efla framkvæmdir, þetta mun efla atvinnustigið og verða til þess að við uppfyllum betur þær kröfur sem gerðar eru til umhverfismála á Íslandi. Það er auðvitað afskaplega mikilvægt og þar vil ég sérstaklega nefna, enn og aftur, að við erum ekki bara að horfa þröngt á að uppfylla núverandi reglugerðir heldur líka að horfa til þess að geta tekist á við örplast og geta nýtt seyru betur en gert er í dag.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til um.- og samgn.