150. löggjafarþing — 101. fundur,  11. maí 2020.

uppbygging og rekstur fráveitna.

776. mál
[18:12]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um uppbyggingu og rekstur fráveitna hvað varðar átak í fráveitumálum sveitarfélaga. Meginmarkmið frumvarpsins er að styrkja fráveituframkvæmdir á vegum fráveitna sveitarfélaga til þess að uppfylla lög um uppbyggingu og rekstur fráveitna, lög um stjórn vatnamála og reglugerð um fráveitur og skólp. Frumvarpið er samið í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu að höfðu samráði við fjármála- og efnahagsráðuneytið, samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið, Umhverfisstofnun, Samband íslenskra sveitarfélaga og Samorku.

Í fjáraukalögum fyrir árið 2020, sem samþykkt voru 30. mars sl., er lagt til að veitt verði tæplega 18 milljarða kr. fjárheimild til sérstaks tímabundins fjárfestingarátaks til að vinna gegn samdrætti í hagkerfinu í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru. Eitt af fjárfestingarverkefnunum í fáraukalögum er átak í fráveitumálum í samstarfi ríkis og sveitarfélaga í samræmi við fyrirheit þar að lútandi í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Gert er ráð fyrir að 200 millj. kr. verði veittar til fráveituframkvæmda á árinu 2020.

Í frumvarpinu er lagt til að ríkið styrki fráveituframkvæmdir fráveitna sveitarfélaga á árunum 2020–2030. Lagt er til að sambærilegt fyrirkomulag verði eins og gilti um stuðning við framkvæmdir sveitarfélaga samkvæmt lögum um stuðning við framkvæmdir sveitarfélaga í fráveitumálum, nr. 53/1995. Samkvæmt lögunum gat stuðningur ríkisins numið allt að 200 millj. kr. á ári eftir því sem nánar var kveðið á um í fjárlögum, þó aldrei hærri upphæð en sem nam 20% af staðfestum heildarraunkostnaði styrkhæfra framkvæmda.

Í þessu frumvarpi er ekki gert ráð fyrir að árleg hámarksupphæð verði 200 millj. kr. heldur er gert ráð fyrir að fjárveiting til þessa verkefnis verði ákveðin af Alþingi og miðað verði við fasta fjárhæð í fjármálaáætlun og fjárlögum hverju sinni. Sú upphæð hefur ekki verið ákveðin enn sem komið er.

Samkvæmt skýrslu vinnuhóps stjórnvalda um tillögur að fyrirkomulagi stuðnings ríkisins við sveitarfélög vegna fráveituframkvæmda gæti samanlagður kostnaður við fráveituframkvæmdir sveitarfélaga á næstu tíu árum orðið á bilinu 27,5–39,5 milljarðar. Þar af eru 15–20 milljarðar vegna framkvæmda sem miða að því að fráveitur uppfylli ákvæði reglugerðar um fráveitur og skólp, 2,5 milljarðar vegna hreinsunar ofanvatns, þar með talið örplast, og 10–17 milljarðar vegna endurbóta á núverandi hreinsivirkjum með eins þreps hreinsun skólps.

Ef miðað yrði við að sveitarfélög gætu fengið allt að 20% endurgreiðslu gæti kostnaður ríkisins orðið samtals 5,5–7,9 milljarðar, þar af 3–4 milljarðar vegna framkvæmda sem miða að því að fráveitur uppfylli kröfur, 500 milljónir vegna hreinsunar ofanvatns og 2–3,4 milljarðar vegna endurbóta á núverandi hreinsivirkjum með eins þreps hreinsun skólps. Ef miðað er við að kostnaðurinn dreifist jafnt yfir tíu ára tímabil yrði tilsvarandi árlegur kostnaður ríkisins 300–400 milljónir vegna framkvæmda sem miða að því að fráveitur uppfylli kröfur, 50 milljónir vegna hreinsunar ofanvatns og 200–340 milljónir vegna aukinnar eins þreps hreinsunar skólps eða samtals 550–790 milljónir á ári.

Þá er í frumvarpinu gert ráð fyrir að umhverfis- og auðlindaráðherra verði falið að úthluta fjármununum til fráveitna sveitarfélaga.

Virðulegi forseti. Ég hef hér rakið meginefni þessa frumvarps og legg til að frumvarpinu verði að lokinni 1. umr. vísað til hv. umhverfis- og samgöngunefndar.