150. löggjafarþing — 101. fundur,  11. maí 2020.

uppbygging og rekstur fráveitna.

776. mál
[18:20]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Hér er verið að velja styrkjaleið og er kannski svona skammtafyrirkomulag, verið er að skammta þess vegna ákveðnum sveitarfélögum einhverja styrki til að fara í þessar framkvæmdir og þar með er það í raun og veru lagt í hendur ráðherra hvaða sveitarfélög muni fá styrki og hver ekki, í staðinn fyrir að sveitarfélögin gætu stjórnað þessu svolítið sjálf. Við þekkjum það náttúrlega að þegar framkvæmdaþörfin er allt upp í 80 milljarðar þá eru 200 milljónir kr. náttúrlega bara dropi í hafið í styrktarfé. Auk þess spyr maður sig: Ef Alþingi á að fara að ákveða þetta árlega þá sjáum við náttúrlega fram á það, eftir þau gríðarlegu útgjöld sem ríkissjóður þarf að standa fyrir núna í tengslum við veirufaraldurinn, að augljóst er að það þarf að hagræða þegar fram í sækir og ná niður halla ríkissjóðs — er ekki viðbúið, hæstv. ráðherra, að það verði bara sáralítið fé til skiptanna þegar kemur að þessu styrkjafyrirkomulagi sem lagt er upp með í ljósi efnahagsástandsins og því sem fram undan er í þeim efnum, að ná niður halla ríkissjóðs? Þá spyr maður hvort það hefði kannski bara verið, þegar upp er staðið, vænlegri leið að fara þessa virðisaukaskattsleið og þá geti sveitarfélög stjórnað þessu svolítið sjálf.

Fyrir mér lítur það einhvern veginn þannig út að það verði því miður ekki mikið til skiptanna í þessu styrkjakerfi þegar fram líða stundir, það koma kannski 200 milljónir núna og svo vitum við ekki um framhaldið. Vonandi hef ég rangt fyrir mér, en ég vona að Alþingi sjái mikilvægi þess að fara í svona átak sem er svo sannarlega mikilvægt, en sporin hræða svolítið í þeim efnum.