132. löggjafarþing — 121. fundur.
hlutafélög, 2. umræða.
stjfrv., 404. mál (opinber hlutafélög). — Þskj. 520, nál. 1086 og 1164, brtt. 1087 og 1165.

[22:33]
Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 2/1995, um hlutafélög, með síðari breytingum (opinber hlutafélög), frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar. Nefndarálitið er að finna á þskj. 1086. Í því kemur fram hvaða gestir heimsóttu nefndina og hvaða umsagnir bárust nefndinni. Einnig er rætt um tilgang frumvarpsins og þess getið að samhliða þessu máli ræddi nefndin annað frumvarp sem fjallar um opinber hlutafélög, 436. mál, og tók að einhverju leyti tillit til efnisatriða þess máls við umfjöllun málsins.

Meiri hluti nefndarinnar leggur til nokkrar breytingar. Ég mun geta tveggja þeirra en vísa að öðru leyti í nefndarálitið.

Í fyrsta lagi er lagt til, í staðinn fyrir að segja að hlutafélagið sé í eigu opinberra aðila, bætist við: Beint eða óbeint. Þá er tekið mið af því að t.d. Landsvirkjun, sem er í eigu tveggja sveitarfélaga og ríkisins alfarið, getur stofnað hlutafélag með einhverju sveitarfélagi. Þá er það óbeint alfarið í eigu opinberra aðila og fellur því undir lögin.

Í tengslum við umfjöllun um aðalfundi, þar sem fulltrúar fjölmiðla mega sækja aðalfund, fór fram ítarleg umræða um hvort ekki væri eðlilegt að kjörnir fulltrúar frá eigendum yrði einnig heimilt að sitja þá fundi. Með hliðsjón af þeim sjónarmiðum sem fram komu er lagt til að kjörnum fulltrúum eigenda, þingmönnum ef ríkið er eigandi og viðkomandi sveitarstjórnarmönnum ef sveitarfélag er eigandi, sé heimilt að sækja aðalfundi með rétt til að bera fram skriflegar fyrirspurnir. Meiri hlutinn telur að með því að leyfa skriflegar fyrirspurnir á aðalfundum verði auðveldara en ella að afla upplýsinga um opinber hlutafélög, sem áður voru opinberar stofnanir og lutu þá sem slík m.a. upplýsingalögum og stjórnsýslulögum. Með þessu nálgast menn þau lög. Að öðru leyti vísa ég til nefndarálitsins hvað þetta varðar.

Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með fyrrnefndum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Hv. þm. Lúðvík Bergvinsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins. Undir nefndarálitið rita auk mín hv. þm. Ísólfur Gylfi Pálmason, Dagný Jónsdóttir, Arnbjörg Sveinsdóttir og Ásta Möller.



[22:36]Útbýting:

[22:36]
Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar um frumvarp til laga um breytingu á lögum um hlutafélög, með síðari breytingum. Hér er um að ræða ákvæði um opinber hlutafélög, þ.e. að taka ákvæði um opinber hlutafélög inn í hlutafélagalögin.

Samhliða umfjöllun um frumvarp viðskiptaráðherra um breytingu á hlutafélagalögum fjallaði nefndin um frumvarp frá þingmönnum Samfylkingarinnar um sama efni. Það frumvarp gengur talsvert lengra í þá átt að auka aðhald kjörinna fulltrúa hvað varðar hlutafélög í eigu ríkis eða sveitarfélaga, bæði með því að veita þeim seturétt á hluthafafundum með fullt málfrelsi sem og skilgreindan rétt til upplýsinga um starfsemi opinberra hlutafélaga. Þessi umfjöllun hafði þau áhrif að 1. minni hluti efnahags- og viðskiptanefndar ákvað að leggja til að inn í frumvarp viðskiptaráðherra komi ákvæði sem veiti eftir atvikum þingmönnum og sveitarstjórnarmönnum ákveðinn en þó mjög afmarkaðan rétt.

Minni hluti nefndarinnar ákvað sem sagt að vinna upp úr frumvarpi þingmanna Samfylkingarinnar breytingartillögur sem við leggjum fram við frumvarp viðskiptaráðherra.

Þannig hafa þingmenn samkvæmt tillögunni einvörðungu rétt til að sitja aðalfundi opinberra hlutafélaga en hafa þar ekki málfrelsi heldur aðeins rétt til að leggja fram skriflegar fyrirspurnir, þ.e. þetta er breytingartillaga frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar. Þetta er vissulega skref í rétta átt en nær þó ansi skammt. Hluthafafundir í hlutafélögum eru ekki síður mikilvægir en aðalfundir og gjarnan til þeirra boðað ef taka þarf mikilvægar ákvarðanir sem varða starfsemi félaganna. Þess vegna er ekki ástæða til að gera greinarmun á aðalfundum og hluthafafundum varðandi aðkomu kjörinna fulltrúa. Aðrar breytingar sem meiri hlutinn hefur lagt til eru flestar til bóta en allar minni háttar. Frumvarpið stendur því eftir sem áður aðeins að takmörkuðu leyti undir þeim tilgangi sem því er ætlað, þ.e. að bæta aðgengi að upplýsingum um hlutafélög í opinberri eigu.

Minni hlutinn leggur til eftirfarandi breytingar á frumvarpinu:

1. Í 1. gr. segir að þá og því aðeins skuli hlutafélag teljast opinbert hlutafélag að það sé að fullu í eigu opinberra aðila, þ.e. 100%. Lögð er til breyting á þessari skilgreiningu þannig að hlutafélag teljist opinbert hlutafélag ef ríkið eða sveitarfélag hefur sömu tengsl við félagið og móðurfélag hefur við dótturfélag. Er þetta í samræmi við þá skilgreiningu sem notuð er í dönsku hlutafélagalögunum. Þetta þýðir í raun að félag telst opinbert hlutafélag ef ríki eða sveitarfélög eiga svo mikinn hluta hlutafjár í félaginu að þau fara með meiri hluta atkvæða. Samkvæmt þessu hefði t.d. Síminn talist opinbert hlutafélag þótt nokkrir einkaaðilar ættu örlítinn hlut í Símanum á sínum tíma. En samkvæmt frumvarpi viðskiptaráðherra og með þeim breytingum sem gerðar verða á því, ef breytingartillögur meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar ná fram að ganga, mundi t.d. fyrirtæki eins Síminn var áður en hann var einkavæddur ekki teljast opinbert hlutafélag.

2. Í 2. gr. er kveðið á um að farið skuli að jafnréttislögum við kjör í stjórn. Lögð er til breyting með það að markmiði að styrkja þetta ákvæði. Hlutfall kynjanna verði sem jafnast og þar sem því verði við komið verði hvort kyn um sig ekki undir 40% stjórnarmanna. Þetta viðmið næst ekki í þriggja manna stjórn en ætti ekki að vera vandkvæðum bundið í fjölmennari stjórnum. Það er mikilvægt, virðulegur forseti, að þessi breyting verði gerð. Hún er í samræmi við, það er rétt að segja frá því, ályktun sem samþykkt var í dag á fjölmennum fundi kvenna á Bifröst, sem kallað er tengslanet. Um 400 konur voru staddar á Bifröst og ræddu þar ýmislegt sem varðar stöðu kvenna í atvinnulífinu. Þær beindu m.a. þeirri áskorun til Alþingis að sett yrðu ákvæði í lög um að hlutur kvenna skyldi vera 40% stjórnarmanna.

3. Í 5. gr. er kveðið á um rétt fjölmiðla til að sækja aðalfund opinberra hlutafélaga. Lögð er til sú breyting að kjörnum fulltrúum á Alþingi og í sveitarstjórnum, eftir því sem við á, verði heimilað að sitja hluthafafundi og taka þar til máls. Þarna er gengið lengra en í breytingartillögu meiri hlutans sem leggur til að kjörnir fulltrúar hafi aðeins heimild til að sækja aðalfundi opinberra hlutafélaga og leggja þar fram skriflegar fyrirspurnir. Þeir mega mæta á aðalfundina, ekki hluthafafundi. Þeir mega ekki taka til máls á aðalfundunum en koma fram með skriflegar fyrirspurnir og leggja fyrir fundinn. En svo er undir hælinn lagt hvort þeim yrði svarað á fundunum.

4. Lagt er til að við 8. gr. bætist fimm nýir málsliðir. Þar verði kveðið á um skyldu stjórnar og framkvæmdastjóra í opinberu hlutafélagi til að veita þeim ráðherra eða framkvæmdastjóra sveitarfélags sem fer með eignarhlut hins opinbera aðila í félaginu upplýsingar um starfsemi félagsins, verði eftir því leitað. Rétturinn til upplýsinga verði sambærilegur og kveðið er á um í upplýsingalögum en þó megi undanskilja upplýsingar sem varða samkeppnisrekstur félagsins. Beiðni um upplýsingar skal vera skrifleg.

Rétt er að segja frá því að við drögum heldur úr því sem við lögðum sjálf til í frumvarpi okkar til að reyna að koma til móts við meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar og viðskiptaráðherra. Í frumvarpi þingmanna Samfylkingarinnar er ákvæði svipaðs efnis en það er þó víðtækara því þar er gert ráð fyrir að þingmenn geti kallað eftir upplýsingum frá félagsstjórn og framkvæmdastjóra, þ.e. að þingmenn geti það sjálfir en þurfi ekki að fara í gegnum ráðherra. Hér er farin sú leið að binda réttinn til upplýsinga við ráðherra og framkvæmdastjóra sveitarfélaga. Þingmenn og/eða sveitarstjórnarmenn geta eftir sem áður óskað eftir upplýsingum um opinber hlutafélög með því að leggja fram fyrirspurn til viðkomandi ráðherra eða framkvæmdastjóra á viðeigandi vettvangi. Með þessu fyrirkomulagi ætti hinn formlegi réttur þingmanna til upplýsinga um opinber hlutafélög að vera sambærilegur rétti þeirra til upplýsinga um opinberar stofnanir nema hvað samkeppnisþáttinn varðar.

Undir þetta nefndarálit ritar auk mín Margrét Frímannsdóttir sem var á fundi nefndarinnar þegar málið var afgreitt.

Síðasta breytingartillagan sem ég fjallaði um er mjög mikilvæg. Í henni er skilgreindur réttur þingmanna til að leggja fram fyrirspurnir á þingi til ráðherra og ráðherrann hafi síðan skilgreindan rétt til að fá svör frá framkvæmdastjórum eða stjórnum viðkomandi opinberra hlutafélaga, svör sem væru þá í samræmi við það sem kveðið er á um í upplýsingalögum. Þetta er mikilvægt, virðulegi forseti, vegna þess að æ fleiri opinberum stofnunum hefur verið breytt í hlutafélög. Þegar það er gert eru þessi hlutafélög undanþegin upplýsingalögum og stjórnsýslulögum. Með þessari breytingu eru þau ekki lengur undanþegin upplýsingalögum nema um þætti sem varða samkeppnisrekstur en þá þarf að leita úrskurðar hjá Samkeppnisstofnun um hvort rétt sé að undanskilja þær tilteknu upplýsingar. Þetta er mikilvægt, virðulegi forseti, til að koma í veg fyrir að ríkisvaldið komi opinberum stofnunum í hlutafélagarekstur til að koma þeim undan upplýsingalöggjöfinni, þ.e. koma í veg fyrir að þingmenn fái upplýsingar um ýmislegt sem rétt er að þeir viti um og þeir fengju greiðan aðgang að ef fyrirtækin væru opinber fyrirtæki en ekki hlutafélög.

Þetta er nefndarálit okkar í minni hlutanum, virðulegur forseti, og breytingartillögurnar eru fjórar talsins eins og ég gat um áðan.



[22:45]
Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Hér fer fram umræða um frumvarp til laga um opinber hlutafélög og mér finnst mjög mikilvægt að við ræðum þetta í því pólitíska umhverfi sem við hrærumst í nú um stundir. Frumvarpið er fram komið í og með til að réttlæta einkavæðingu og hlutafélagavæðingu opinberrar starfsemi.

Um áratuga skeið og ekki hvað síst á síðustu tíu, fimmtán árum hafa verið sett margvísleg lög um opinbera starfsemi til að tryggja upplýsingaskyldu, jafnræði, réttindi starfsfólks og ráðstöfun fjármuna sem frá almenningi eru komnir, enda stofnanirnar í eigu almennings. Þetta hefur ýmsum þótt vera til trafala og talað um að það þurfi að búa þessari starfsemi sveigjanlegri umgjörð og færa hana undan þessum stífu reglum og þess vegna komi fram þetta frumvarp um hlutafélög.

Þær reglur sem hér er verið að leggja til eru í öllum atriðum rýrari en þau lög og þær reglur sem opinber starfsemi býr við. Ég spyr: Hvers vegna í ósköpunum að gera þetta? Hvers vegna í ósköpunum að kosta því til að rýra réttindi starfsfólks í opinberum stofnunum og fyrirtækjum og koma síðan með einhvers konar kattarþvott af því tagi sem hér liggur fyrir?

Með hliðsjón af þessari pólitísku, félagslegu umgjörð munum við ekki styðja frumvarpið. Við munum ekki taka þátt í þeim kattarþvotti, við munum ekki gera það. Þetta er tilraun ríkisstjórnarinnar til að réttlæta einkavæðingu og hlutafélagavæðingu opinberrar starfsemi.

Hægt er að fara margar leiðir vilji menn auka á sveigjanleika opinberra stofnana. Ég nefni t.d. starfsemi sem nú stendur til að gera að hlutafélagi, þ.e. Flugmálastjórn, flugmálaeftirlitið í landinu og rekstur flugvallanna. Til stendur að gera hann að hlutafélagi til að gera hann sveigjanlegri.

Nefnd sem sett var á laggirnar á sínum tíma af hæstv. samgönguráðherra komst að þeirri niðurstöðu að hægt væri að fara fjórar leiðir. Ein leiðin væri vissulega að hlutafélagavæða starfsemina. Síðan var talað um að gera starfsemina að B-hluta stofnun, nokkuð sem mundi ná þeim markmiðum sem menn kváðu nauðsynlegt að ná. Þá leið má fara í ýmsum tilvikum og ég vek athygli á því að sú stofnun sem hefur verið til umræðu í þinginu á undanförnum vikum og mánuðum, Ríkisútvarpið, er B-hluta stofnun sem býr við umtalsverðan sveigjanleika.

Þessar tillögur snúa m.a. að því að fulltrúar ríkis og sveitarfélaga fái leyfi til að sækja fundi, aðalfundi eða hluthafafund, og bera fram skriflegar fyrirspurnir. Þakka skyldi. Verið er að færa þessar stofnanir undan eftirliti og forsjá sveitarfélaga og ríkis nema hvað fulltrúarnir mega koma inn og bera fram skriflegar fyrirspurnir. Þvílíkt og annað eins.

Vissulega hefur verið hreyft hugmyndum um það á Alþingi, m.a. af þingmönnum úr mínum flokki, að hyggja beri að því að setja löggjöf um hlutafélög í opinberri eign. Ég tel hins vegar að við þær aðstæður sem við búum við núna og með hliðsjón af þeirri starfsemi sem verið er að færa út á markaðstorgið sé þetta hreinlega ekki tímabært. Við eigum í sameiningu að standa vörð um þessa starfsemi, þau lög og þau réttindi sem Alþingi hefur sett í samráði, samvinnu og samningum við stéttarfélög starfsmanna. Þess vegna munum við ekki taka þátt í þessum kattarþvotti af hálfu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Við munum ekki styðja þær tillögur sem hér liggja fyrir.



[22:51]
Jónína Bjartmarz (F):

Frú forseti. Við erum að ræða frumvarp til laga um breytingu á lögum um hlutafélög, þ.e. um opinber hlutafélög og sérreglur sem gilda um þau. Ég ætla stuttlega einungis að fjalla um 2. gr. frumvarpsins.

Í 2. gr. er gert ráð fyrir breytingu á 63. gr. laganna sem hljóðar þannig, með leyfi forseta:

„Við kjör í stjórn opinbers hlutafélags skal gæta sérstaklega að lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.“

Af því tilefni fletti ég upp, frú forseti, í jafnréttislögunum og velti því fyrir mér hvað það væri í þeirri löggjöf sem ætti að gæta sérstaklega að við kjör í stjórn opinbers hlutafélags. Eftir greininni má ætla að hugsunin sé sú að tryggja með einhverju móti að konur og karlar skipist sem jafnast í stjórnir slíkra félaga. Þegar maður skoðar nánar þau lög sem skal gæta sérstaklega að ber maður fyrst niður í markmiðsgrein jafnréttislaganna þar sem segir að markmiðið sé að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla. Það segir jafnframt að allir einstaklingar skuli eiga jafna möguleika og er talið upp í liðum a–g hvaða markmiðum eigi að ná.

Í b-lið segir að vinna eigi að jöfnum áhrifum kvenna og karla við ákvarðanatöku og stefnumótun í samfélaginu og í d-lið er talað um að bæta sérstaklega stöðu kvenna og auka möguleika þeirra í samfélaginu.

Mér finnst í rauninni, frú forseti, þessi tilvísun í 2. gr. frumvarpsins ekki hafa neitt efnislegt innihald, sama hvar ég ber niður í umræddri jafnréttislöggjöf. Ef maður skoðar markmiðsgreinina og síðan þetta eins og það er orðað get ég ekki séð að það sé efnisinnihald í 2. gr. frumvarpsins.

Síðan er líka fróðlegt að skoða IV. kafla laganna sem fjallar um bann við mismunun á grundvelli kynferðis þar sem segir að hvers konar mismunun eftir kynferði, hvort heldur er bein eða óbein, sé óheimil. En síðan segir í 2. mgr. 22. gr. að heimilar séu sérstakar tímabundnar aðgerðir til að bæta stöðu kvenna og líka að aðrar aðgerðir til að auka möguleika kvenna eða karla sérstaklega til að koma á jafnrétti og jafnri stöðu kynjanna gangi heldur ekki gegn lögunum.

Ég tel að þetta eigi við í þessu tilviki. Þetta eru lög sem Alþingi hefur sett sér sem hafa þetta markmið og þetta eru grunnlögin um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna. Því tel ég að í annarri löggjöf sem Alþingi hefur tök á að ná þessum markmiðum fyrir sitt leyti, þó að það sé einungis bundið við hlutafélög sem eru opinber, annaðhvort í eigu ríkis eða sveitarfélaga, þá sé óhjákvæmilegt annað — ef Alþingi ætlar að vera sjálfu sér samkvæmt — en að kveða sterkar að orði en gert er í 2. gr. frumvarpsins.

Þegar þetta er haft á orði, að kveða eigi sterkar að orði að þessu leyti, heyrir maður gjarnan að pólitísk sannfæring sumra stjórnmálamanna sé sú að þetta sé rangt á þeirri forsendu að rangt sé að konur skipi stjórnir til jafns við karla eingöngu út á kynferði sitt. Þessu ætla ég að leyfa mér að mótmæla vegna þess að í þessu felst að það séu ekki jafnmargar hæfar konur og karlar í samfélaginu til að skipa stjórnir. Ef maður gefur sér hins vegar að jafnmargar hæfar konur séu og karlar, þá standast þessi rök heldur ekki af því að þá er það ekki kynferðið sem ræður heldur hæfnin sem er jöfn.

Ákveðin nefnd, frú forseti, hefur fjallað sérstaklega um þetta, svokölluð tækifærisnefnd sem hv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra setti á fót á síðasta ári. Ég tek fram að við skulum ekki rugla saman annars vegar hlutafélögum í einkaeigu, einkageiranum, og hins vegar opinberum hlutafélögum, en það eru bara þau sem við erum að tala um núna. Þessi tiltekna nefnd lagði ekki til, ekki nefndin sem heild, að setja neinn kvóta eða neina slíka lögbundna reglu um einkageirann en hún fjallaði ekki sérstaklega um opinbera geirann. Þar tel ég, með vísan til jafnréttislaganna sem Alþingi hefur sett, óhjákvæmilegt að Alþingi fylgi jafnréttislögum og kveði sterkar að orði um opinber hlutafélög.

Þrátt fyrir að sú nefnd, tækifærisnefndin, hafi ekki sérstaklega lagt þetta til þá setur hún á nokkrum síðum í ágætri skýrslu sinni — og ég tek fram að sú sem hér stendur var ein af þeim sem skipuðu þá nefnd — það sem kallast innlegg í umræðuna. Þar er m.a. að finna viðurkenningu á því að af öllum þjóðum heims standa Norðmenn sig best, af þeim sem settu kvóta, nota bene ekki bara um opinber hlutafélög heldur um öll norsk fyrirtæki. Þetta er eftirtektarverð staðreynd henni hefur ekki mikið verið haldið á lofti. Jafnframt segir að talsverð samstaða virðist vera hérlendis um að kvótaleiðin sé hvorki vænleg né áhugaverð. Og síðan er tekið fram að Noregur hafði náð mestum árangri með því að setja kvóta.

Frú forseti. Í skýrslunni segir m.a., með leyfi forseta:

„Viðmælendur ræddu talsvert um mikilvægi þess að lífeyrissjóðir og opinberi geirinn gengju á undan með góðu fordæmi. Á meðan staðan hjá þessum aðilum væri ekki betri en raun ber vitni væri ekki hægt að setja pressu á einkageirann.“

Síðan segir áfram, með leyfi forseta:

„Þó svo að óþarft sé að deila um gildi og mikilvægi þess að fjölga konum í stjórnum lífeyrissjóða og hjá hinu opinbera þá var það einnig skoðun margra viðmælenda að viðskiptalífið ætti að taka frumkvæðið í þessum efnum og órökrétt að bíða eftir opinberum stofnunum.“

Afstaða nefndarinnar, sem ekki vildi setja í lög kvóta um fyrirtæki almennt, var þó sú — a.m.k. hluta þeirra viðmælenda sem nefndin vísar til — að eðlilegt væri að opinberi geirinn tæki frumkvæðið og væri öðrum fordæmi að þessu leyti.

Margt annað fróðlegt kemur fram í skýrslunni og ég ætla að árétta það enn og aftur að nefndin fjallaði ekki sérstaklega um konur eða fjölgun kvenna í opinberum hlutafélögum heldur var það einkageirinn sem hún var að fjalla um en það gilda allt önnur sjónarmið í rauninni um þetta. Ég er þeirrar skoðunar, frú forseti, og ákvað að gera bara þessa einu grein að umtalsefni í umræðunni, að óeðlilegt sé anað en að við kveðum sterkar að orði í 2. gr. frumvarpsins. Ég er hins vegar ekki þeirrar skoðunar að óhjákvæmilegt sé að kveða á um einhvers konar kvóta. Það hafa margir sett sig gegn því að talað sé um kvóta í þessu sambandi og í raun ekki hægt að tala um kvóta þegar fólk er annars vegar. En ég tel óhjákvæmilegt annað en að breyta ákvæðinu og að það hafi efnislegt innihald og hljóði eitthvað í þá veru að það sé tryggt að hlutur kvenna og karla sé eins jafn og oddatala stjórnarmanna leyfir.

Ég vildi, frú forseti, gera grein fyrir þessari afstöðu minni í umræðunni. Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta en geri ráð fyrir að á milli 2. og 3. umr. muni ég leggja fram breytingartillögu sem að þessu lýtur.



[22:59]
Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Eins og kom fram í máli hv. þm. Ögmundar Jónassonar í ræðu hans áðan mun Vinstri hreyfingin – grænt framboð ekki styðja þetta frumvarp. En ég vil leyfa mér að taka undir orð hv. þm. Jónínu Bjartmarz um allt sem hún sagði varðandi 2. gr. frumvarpsins. Ég bendi á að helmingur þjóðarinnar eru konur, jafnhæfar körlum, og það er mikilvægt fyrir hvert fyrirtæki, hvort sem það er í opinberri eigu eða á hinum frjálsa markaði, að gæta jafnréttis varðandi stöðu karla og kvenna í stjórnum til að fá fram mismunandi sjónarmið og til að styrkja stöðu hvers fyrirtækis. Ég tek undir orð hv. þm. Jónínu Bjartmarz þótt ég taki ekki undir frumvarpið að öðru leyti.



[23:01]
Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég fagna því að hv. þm. Jónína Bjartmarz skuli taka undir þau sjónarmið sem minni hluti efnahags- og viðskiptanefndar setur fram í nefndaráliti sínu um þennan þátt málsins, þ.e. að það sé ekki nógu skýrt kveðið á um það í frumvarpinu eins og það kemur frá viðskiptaráðherra hvernig tryggja eigi sem jafnastan hlut kvenna og karla í stjórnum opinberra hlutafélaga.

Ég vil minna á að eins og jafnréttislögin eru þá er það í sjálfu sér skylda fyrirtækja að grípa til aðgerða til að jafna hlut kvenna og karla. Menn gleyma oft þeirri frumkvæðisskyldu sem fyrirtækin hafa í þá veru að leggja sitt af mörkum til að auka hlut kvenna í stjórnum fyrirtækja og jafna hlut kvenna og karla til launa, valda og áhrifa í fyrirtækjum. Það er mikilvægt að þetta sé haft í huga og að a.m.k. ríkið gangi á undan með góðu fordæmi og sýni hvað það getur gert til þess að gera hlutinn sem jafnastan.

Eins og ég sagði var samþykkt á fjölmennum fundi kvenna á Bifröst í dag að skora á Alþingi að beita sér fyrir löggjöf þess efnis að hlutur kvenna eða annars hvors kynsins í stjórnum fyrirtækja sé ekki undir 40%. Ástæðan fyrir því að þetta var samþykkt í dag er sú að fyrir allnokkru, kannski um ári síðan, sagðist viðskiptaráðherra ætla að beita sér fyrir því að hlutur kvenna mundi aukast í stjórnum fyrirtækja á markaði og skoraði á fyrirtækin að grípa til aðgerða til að auka hlut kvenna.

Síðan þetta var hefur hlutur kvenna minnkað í stærstu fyrirtækjunum. Ég held að hann hafi verið 6% en sé kominn niður í 4%. Það nær auðvitað ekki nokkurri átt að hlutur kvenna skuli ekki vera meiri en þetta. Þegar fólk talar gegn því að þetta sé bundið í lög á þeirri forsendu að þar með sé annaðhvort verið að úthluta konum stjórnarsætum á grundvelli kynferðis eða á þeirri forsendu að þetta sé íþyngjandi fyrir fyrirtækin, þá mótmæli ég því harðlega. Það getur ekki verið íþyngjandi fyrir fyrirtæki að fá hæfar konur í stjórnir fyrirtækjanna.

Það er beinlínis rangt að tala um það þegar hæfar konur setjast í stjórnir fyrirtækja, þó að það sé á grundvelli lagasetningar, að þær geri það bara vegna þess að þær séu konur og séu á einhverjum kvótum. Það má líta svo á að þau 96% karla sem sitja í stjórnum þessara stærstu fyrirtækja sitji þar í raun á grundvelli karlakvóta sem er í gildi þótt hann sé ekki lögfestur. Hann er menningarbundinn, hann er bundinn hefðarrétti og hann er bundinn hugarfari þó að hann sé ekki lögfestur. Því má halda fram með rökum að þeir sitji í rauninni á grundvelli kynjakvóta í stjórnunum ef menn vilja yfirleitt tala um þessi mál undir þeim formerkjum.

Ég tel, virðulegur forseti, að það væri skref í rétta átt ef Alþingi samþykkti í dag eða á morgun að láta þessa 40% reglu að minnsta kosti gilda um sín fyrirtæki, sín opinberu hlutafélög þar sem það getur ráðið för. Ég held að hin opinberu hlutafélög mundu ekki skaðast af því, það væri ekki íþyngjandi fyrir þau. Það væri hvorki konum né körlum til nokkurrar vansæmdar þótt slíkt væri fest í lög.

Þess vegna beini ég því til hv. þm. Jónínu Bjartmarz að styðja einfaldlega þessa breytingartillögu frá minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar í stað þess að flytja um þetta einhverja sérstaka breytingartillögu, en í 2. tölul. breytingartillögu frá minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar segir svo, með leyfi forseta:

„Í opinberum hlutafélögum þar sem fulltrúar íslenska ríkisins eða sveitarfélaga, eins eða fleiri, skipa meiri hluta stjórnarmanna skal hlutfall kynja í stjórn vera sem jafnast og þar sem því verður við komið skal hvort kyn um sig ekki vera undir 40% stjórnarmanna.“

Ég skora, virðulegur forseti, á konur hér í þinginu að styðja þessa breytingartillögu og karla raunar líka, vegna þess að þetta er auðvitað mál sem þá varðar ekki síður en konur. Þeir sem eru framsæknir og framfarasinnaðir í þeirra hópi eiga að sjálfsögðu að styðja slíkar breytingartillögur.



[23:06]
Jónína Bjartmarz (F) (andsvar):

Frú forseti. Það er í tilefni af orðum hv. þm. Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur sem ég kem hér upp aftur en ég ætla ekki að draga þessa umræðu á langinn. Ég gerði grein fyrir því í ræðu minni áðan hver afstaða mín væri til þessa máls eins og ég hafði gert í efnahags- og viðskiptanefnd. Hins vegar háttaði þannig til þegar málið var afgreitt úr nefndinni að ég stend ekki að málinu.

Ég er sátt við það og mun styðja frumvarpið að öðru leyti en því er varðar sérstaklega þessu einu grein. Ég taldi mig gera þokkalega grein fyrir því áðan að mér finnst í sjálfu sér ekki eðlilegt að við séum að tala um kvóta í þessu samhengi heldur að það sé tryggt að hlutur kvenna og karla sé eins jafn og hægt er miðað við oddatölur stjórnarmanna. Þá erum við að tala um að í fimm manna stjórn væru ýmist tvær eða þrjár konur o.s.frv.

Mér finnst einhvern veginn að kvótaumræða eigi ekki rétt á sér þegar fólk er annars vegar. Við getum talað um mjólkurkvóta o.s.frv. Meginmálið er að þetta sé eins jafnt og hægt er að koma því við miðað við oddatölu stjórnarmanna. Áskorun hv. þingmanns mun ég ekki taka vegna þess að ég boðaði jafnframt að ég mundi leggja fram breytingartillögu við frumvarpið sem sneri einungis að þessu eina ákvæði.



[23:08]
Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég ætla enn og aftur að skora á hv. þm. Jónínu Bjartmarz að styðja þessa breytingartillögu. Hún þarf auðvitað ekkert að styðja aðrar breytingartillögur og getur eftir sem áður stutt frumvarpið eins og það kemur fyrir. En hér liggur fyrir breytingartillaga og ég skora á þingmanninn að samþykkja hana. Talandi um kvóta þá eru auðvitað margvíslegir kvótar sem varða mannfólkið í gildi. Það má auðvitað alveg tala um að það sé ákveðinn kvóti í gildi varðandi fæðingarorlofið. Í fæðingarorlofslögunum er sagt hvernig það orlof skuli skiptast milli kvenna og karla, hver hlutur karla í því er og hver hlutur kvenna. Kvóti er því víða í löggjöf okkar af því að við viljum tryggja að kynin skipti með sér gæðum með einhverjum tilteknum hætti og að annað kynið fari ekki halloka gagnvart hinu.

Ég tel að það sé kominn tími til að við skoðum þetta alvarlega með fyrirtækin og stjórnir fyrirtækja og prófum þetta a.m.k. í hinum opinberu hlutafélögum þar sem við höfum tök á málinu.