133. löggjafarþing — 39. fundur
 4. desember 2006.
stuðningur við innrásina í Írak.

[15:11]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég ætlaði einnig að hreyfa sama máli og beina máli mínu til hæstv. forsætisráðherra, formanns Sjálfstæðisflokksins, yfirmanns ríkisstjórnarinnar. Ég vitna til viðtals á fréttavef BBC við Kofi Annan þar sem hann lýsir þeirri skoðun sinni að ástandið í Írak nú sé borgarastyrjöld, þráspurður að því af hálfu fréttamanns, ber það saman við borgarastyrjöldina í Líbanon á sínum tíma og segir að ástandið í Írak nú sé verra en ástandið var þar.

Hann lýsir jafnframt hryggð sinni yfir því að gengið hafi verið fram hjá öryggisráði Sameinuðu þjóðanna á sínum tíma og lýsir þeirri skoðun að með meiri tíma fyrir vopnaeftirlitsmenn og alþjóðlegum aðgerðum hefði mátt komast hjá þessu hörmulega stríði og því ástandi sem nú hefur skapast í Írak þar sem allt hafi gengið eftir sem varað var við. Að lokum lýsir fráfarandi aðalritari Sameinuðu þjóðanna því að hagur almennra borgara í Írak sé verri nú en hann var á tímum harðstjórnar Saddams Husseins.

Ég spyr hæstv. forsætisráðherra hvort hann sé sammála aðalritara Sameinuðu þjóðanna um að í Írak sé borgarastyrjöld og ástandið með þeim hætti sem hann lýsir.

Seinni spurning mín til hæstv. forsætisráðherra er mjög praktísk og varðar hlut sem snýr beint að Íslandi. Það þýðir ekki fyrir hæstv. ríkisstjórn að láta eins og að yfirlýsing sú sem gefin var af hálfu ríkisstjórnarinnar í nafni Íslands á sínum tíma hafi verið án nokkurra skuldbindinga. Staðreyndin er sú að bandarískum stjórnvöldum voru gefin fyrirheit og það samþykkt að þau mættu nota íslenska lofthelgi, lenda á íslenskum flugvöllum, auk þess sem heitið var fjárframlögum til þess sem kallað var uppbygging í Írak að loknu stríði.

Og nú spyr ég hæstv. forsætisráðherra og ég vona að svörin verði ekki í neinni þoku: Stendur samþykki Íslands við því að íslensk lofthelgi og íslenskir flugvellir séu notaðir vegna aðgerða í Írak eða hefur það verið formlega afturkallað? Það er a.m.k. eitthvað sem hægt er að gera og hefur hagnýta þýðingu. Eða er enn þá að þessu leyti óbreyttur stuðningur ríkisstjórnar Íslands við stríðið í Írak sem stendur yfir, borgarastyrjöldina sem þar er og Bandaríkjamenn eru aðilar að?

Ég vil fá svör, já eða nei. Er yfirlýsingin enn að þessu leyti í fullu gildi eða hefur hún verið afturkölluð? Ef ekki, stendur þá til að afturkalla hana?



[15:13]
forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé alveg sama hvað stjórnarandstaðan hér reynir mikið að kenna íslensku ríkisstjórninni um ástandið í Írak, það mun ekki takast. Allt venjulegt fólk, viti bornar manneskjur, sér að það er ekki hægt að láta eins og að það sem gerst hefur í Írak sé okkur hér í þessum sal eða ríkisstjórn Íslands að kenna. En þannig er nú talað. Borgarastyrjöld í Írak, er hún íslensku ríkisstjórninni að kenna?

Til að svara hv. þingmanni vil ég segja að ég tel mig ekki geta fullyrt hvort það ástand sem þar er núna skuli skilgreina sem borgarastyrjöld eða ekki. Hins vegar hafa losnað þarna úr læðingi mikil átök milli trúarhópa og milli annarra aðila í þjóðfélaginu sem náttúrlega hafa blundað undir lengi, eins og allir vita, áratugum og jafnvel öldum saman. Hins vegar er nú búið að koma á lýðræðisskipulagi í Írak. (Gripið fram í.) Þar er núna kosin ríkisstjórn, þar er kosinn forseti og ýmislegt horfir til betri vegar þar í landi þrátt fyrir allt.

Varðandi seinni spurninguna, varðandi lendingarleyfi og yfirflug hér, engin sérstök ákvörðun hefur verið tekin um að afturkalla það, eftir því sem ég best veit. Bandaríkjamenn og aðrar þjóðir sem við erum í bandalagi við hafa yfirleitt greiðan aðgang ef þær þurfa að koma hér við þannig að sú ákvörðun hefur, eftir því sem ég best veit, ekki verið afturkölluð frekar en fjárveitingin upp á 300 millj. sem búið er að veita í endurreisnar- og uppbyggingarstarf í Írak og hefur komið þar að góðum notum eftir því sem ég hef heyrt.



[15:15]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir svörin. Það eru nýjar fréttir í málinu, sem ríkisstjórnin kemst ekki undan, að atbeini Íslands við styrjaldarreksturinn í Írak stendur enn að þessu leyti, að í gildi er samþykki ríkisstjórnarinnar við því að íslensk lofthelgi og íslenskir flugvellir séu notaðir til þessara aðgerða.

Hvað er þá orðið um endurskoðun Framsóknarflokksins sem fer með utanríkisráðuneytið? Það eru innstæðulaus orð ef ekkert hefur breyst. Engin afsökunarbeiðni. Engin viðleitni til að fá okkur tekin af listanum sem hæstv. utanríkisráðherra reynir alltaf að segja að sé ekki til. Það sem hefur raunverulegt gildi og felur í sér raunverulega aðild Íslands að þessum aðgerðum, þ.e. heimildin til að nota hér lofthelgi og flugvöll, er enn í gildi.

Atbeini ríkisstjórnarinnar að styrjaldarrekstrinum í Írak er sem sagt enn við lýði og hæstv. forsætisráðherra gat engu (Forseti hringir.) um það svarað hvort til stæði að endurskoða það.



[15:16]
forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Þessi atbeini er ekki meiri eða merkilegri en svo að mér er ekki kunnugt um að ein einasta flugvél hafi komið hér við í þessum tilgangi. Aðrar leiðir hafa verið farnar í því skyni þannig að þetta hefur sem sagt engu máli skipt.

Það væri gaman að fá það fram hjá hv. þingmanni — ég man ekki hvernig hann greiddi atkvæði um þá fjárveitingu — var hann kannski líka á móti því að við verðum 300 millj. kr. til uppbyggingarstarfs í Írak í kjölfar átakanna þar? Var þingmaðurinn líka á móti því? Vill hann ekki að við leggjum okkar af mörkum með þeim hætti á þessum átakasvæðum?



[15:17]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Það stendur ekki á okkur að leggja til að Ísland verji myndarlegum fjármunum til uppbyggingar og hjálpar á svæðum þar sem þörf er fyrir slíkt þegar aðstæður til þess hafa skapast. En það fer enn þá lítið fyrir uppbyggingunni í Írak og Afganistan. Þannig hafa málin þróast í þessum tveimur löndum sem Bandaríkjaher og stuðningsmenn hans hafa ráðist inn í að undanförnu.

Varðandi hins vegar atbeina Íslands reyndi víst á hann. Það vita allir að umferð um Keflavíkurflugvöll jókst verulega. Það vita allir að þar lentu flutningavélar með miður geðslegan farm sem settur var sérstakur öryggisvörður um. Það hefur verið umferð sem tengist aðgerðunum í Írak allt til þessa, það ég best veit. Það er t.d. almannarómur að flutningaflugvélar með klasasprengjur og jafnvel önnur miður geðsleg vopn hafi lent á Keflavíkurflugvelli. Þó svo væri ekki, og jafnvel þó að ekki reyndi á þetta með beinum hætti, hefur stuðningurinn grundvallargildi. Þetta er spurning um prinsippafstöðu Íslands. Viljum við áfram ljá atbeina okkar við þetta ólögmæta árásarstríð sem var brot á alþjóðalögum og hefur haft allar (Forseti hringir.) þessar hörmungar í för með sér?



[15:18]
forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Það sem hefur grundvallargildi í þessu er sú ákvörðun Alþingis, þessarar stofnunar hér, að verja 300 millj. kr. af almannafé, í fyrsta lagi 100 millj. til neyðar- og mannúðaraðstoðar í gegnum Rauða krossinn og fleiri stofnanir og síðan 200 millj. til beinnar uppbyggingar í kjölfar átakanna þarna. 92 millj. runnu í stoðtækjaverkefni í landinu í samstarfi við fyrirtækið Össur og þar höfum við sérþekkingu.

Það er alveg út í hött að gera lítið úr þeirri fjárveitingu eða gera lítið úr því að Íslendingar hafi getað látið gott af sér leiða með þessum hætti í þessu stríðshrjáða landi. (Gripið fram í.)