133. löggjafarþing — 45. fundur
 8. desember 2006.
fæðingar- og foreldraorlof, 2. umræða.
stjfrv., 428. mál (aðgreining umönnunargreiðslna og fæðingarorlofsgreiðslna). — Þskj. 516, nál. 590.

[12:27]
Frsm. félmn. (Dagný Jónsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Nefndin fjallaði um málið og fékk gesti á sinn fund. Ekki gafst tími til að fá umsagnir um málið en meginmarkmið frumvarpsins er þríþætt.

Meginmarkmið frumvarpsins er þríþætt. Í fyrsta lagi að laga ýmis ákvæði laga um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 95/2000, að því breytta fyrirkomulagi sem felst í yfirtöku Vinnumálastofnunar á rekstri Fæðingarorlofssjóðs sem fram til þessa hefur verið í höndum Tryggingastofnunar. Í öðru lagi að fellt verði úr sömu lögum ákvæði sem girðir fyrir rétt foreldris til umönnunargreiðslna samkvæmt lögum um félagslega aðstoð, nr. 118/1993, hafi það notið greiðslna í fæðingarorlofi vegna sama barns eða sömu fæðingar. Í þriðja lagi gerir frumvarpið ráð fyrir að Vinnumálastofnun verði heimilt að leita umsagnar ótilgreinds aðila við mat á nauðsyn á lengingu fæðingarorlofs og nauðsyn á lengingu á rétti til fæðingarstyrks í stað þess að fela tryggingayfirlækni ákvörðunarvald um þessi efni.

Á fundi nefndarinnar kom fram að Vinnumálastofnun hefur að undanförnu unnið að undirbúningi hinnar nýju starfsemi sem til stendur að verði að mestu rekin á Hvammstanga. Þar munu starfa níu manns en auk þess verða tvö stöðugildi í Reykjavík. Stofnkostnaðurinn er áætlaður 37 millj. kr. en umsýslukostnaður samkvæmt fjárlögum næsta árs er 52 millj. kr. Var það gagnrýnt að síðarnefnda fjárhæðin hefur haldist nær óbreytt frá árinu 2001 þrátt fyrir að í raun sé rekstrarkostnaður meiri sem nemur tugum milljóna. Ítrekað hafi verið bætt úr með heimild í fjáraukalögum.

Nefndin álítur að gætt hafi tregðu hjá fjárveitingavaldinu við að viðurkenna aukin umsvif Fæðingarorlofssjóðs og mælist til þess að við næstu fjárlagagerð verði tekið meira tillit til raunverulegs kostnaðar Vinnumálastofnunar af rekstri sjóðsins.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Pétur H. Blöndal skrifar undir álitið með fyrirvara. Einar Oddur Kristjánsson og Magnús Þór Hafsteinsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins. Ögmundur Jónasson sat fund nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er samþykkur áliti þessu.

Undir nefndarálitið rita Dagný Jónsdóttir, Guðjón Hjörleifsson, Jóhanna Sigurðardóttir, Össur Skarphéðinsson, Helgi Hjörvar, Pétur H. Blöndal, með fyrirvara, og Birkir Jón Jónsson.

Virðulegi forseti. Ég vil að lokum þakka nefndarmönnum kærlega fyrir skjótan framgang þessa máls sem var seint fram komið.



[12:30]
Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég skrifa undir nefndarálitið með fyrirvara vegna þess að ég fékk ekki svör við því hver væri tilgangurinn með umönnunargreiðslum. Ég hef spurt að þessu áður og ég spurði að því aftur hvort þær væru ætlaðar til að bæta fólki tekjutap, foreldrum veikra barna, eða hvort þær væru ætlaðar til að endurgreiða fólki kostnað. Ég hef ekki fengið svör við því og kom fram á fundi nefndarinnar að það hafi ekki verið kannað.

Þetta er mjög mikilvægt í þessu samhengi vegna þess að ef um er að ræða greiðslur vegna tekjutaps, vegna þess að foreldrarnir geta ekki sinnt fullri vinnu vegna umönnunar barnsins, þá ættu þær greiðslur ekki að fara saman því fæðingarorlofsbæturnar eru einmitt til að bæta fólki tekjutap og þá er verið að bæta það á tveim stöðum og úr tveim áttum. Ef um er að ræða kostnað foreldra á þetta ekki við og þá ætti að greiða þessar bætur saman. Mér finnst mikilvægt að þetta liggi fyrir þannig að menn sjái í gegn hvað er verið að bæta.

Ef umönnunarbætur eru hins vegar til að standa undir kostnaði þá veltir maður þeirri spurningu upp hvort göt séu einhvers staðar í velferðarkerfinu þannig að fólk lendi í þvílíkum kostnaði við það ef börn verða veik, að til þess þurfi mánaðarlegar greiðslur að þessari fjárhæð sem er allt upp í 93 þús. kr. á mánuði. Maður veltir fyrir sér hvort ekki þyrfti að skoða það hvort eitthvað sé að, hvort fólk þurfi að borga fyrir spítalavist eða þurfi að borga kostnað hér og þar og hvort sjúkrakortin sem veitt eru dugi ekki til að takmarka þann kostnað o.s.frv. Þetta finnst mér mjög mikilvægt.

Það kemur ekki fram í nefndaráliti en ég ræddi það í nefndinni hvort ekki hefði verið eðlilegt að bjóða út rekstur Fæðingarorlofssjóðs. Það er einmitt dæmigert verkefni sem á mjög vel heima í höndum einstaklinga og ég er nærri viss um að það hefði mátt lækka kostnaðinn með útboði og þá hefðu opinberir aðilar getað boðið líka í, Tryggingastofnun sem og aðrir.



[12:32]
Jóhanna Sigurðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Þetta mál er á góðri leið í gegnum þingið og að hluta til er í því mikið réttlætismál sem við í Samfylkingunni höfum lengi barist fyrir, þ.e. að umönnunargreiðslur séu samrýmanlegar fæðingarorlofsgreiðslum. Við höfum fært fyrir því rök í mörg ár og flutt tillögur sem hafa verið felldar og nú loksins eru þessi réttlætisrök og sjónarmið viðurkennd sem við höfum sett fram og því ber að fagna.

Ég hefði viljað fá lengri tíma til að fjalla um málið í félagsmálanefnd almennt út af þeim annmörkum sem eru komnir á fæðingarorlofslöggjöfina en ég vildi ekki verða til þess að tefja málið í nefnd, svo mikla áherslu legg ég á framkvæmd þess að það ákvæði sem ég fyrr nefndi nái fram að ganga. En ég hlýt að treysta því sem fram kom í máli hæstv. ráðherra við 1. umr. málsins og reyndar var aðeins komið inn á það í meðferðinni í félagsmálanefnd, að fæðingarorlofslöggjöfin yrði tekin til skoðunar og þeir gallar og annmarkar sem þar hafa komið fram, sérstaklega varðandi breytt viðmiðunartímabil sem mjög er gagnrýnt í samfélaginu af því að þetta skerðir verulega fæðingarorlofsgreiðslur. Vegna þess að verið er að taka einatt mið af þriggja ára gömlum tekjum hjá þeim sem fara í fæðingarorlofið þannig að greiðslurnar eru þegar upp er staðið engin 80% af launum eins og lögin kveða á um, heldur er þetta komið niður í 70%, sem um var getið í nefndarálitinu fyrir þremur árum þegar þessu viðmiðunartímabili var breytt. Það hefur allt gengið eftir sem við höfum sagt í því efni og því er nauðsynlegt að taka þessa löggjöf til endurskoðunar og eins það ákvæði sem ekki var tekið til skoðunar, sem þó hafði verið lofað fyrir 2–3 árum og snertir rétt öryrkja sem fara í fæðingarorlof, þ.e. að lífeyrisgreiðslur þeirra skerðist ekki. Ég treysti því að málið verði tekið til skoðunar. Það var full ástæða til að setja það í nefndarálitið sem framsögumaður nefndarinnar mælti fyrir, með leyfi forseta:

„Nefndin álítur að gætt hafi tregðu hjá fjárveitingavaldinu við að viðurkenna aukin umsvif fæðingarorlofssjóðs og mælist til þess að við næstu fjárlagagerð verði tekið meira tillit til raunverulegs kostnaðar Vinnumálastofnunar af rekstri sjóðsins.“

Það er ástæða til að hrósa formanni nefndarinnar fyrir að setja þessa gagnrýni í nefndarálit meiri hlutans en þetta er sannleikanum samkvæmt sem hér er sagt. Hitt er annað mál að í frumvarpinu er verið að flytja með formlegum hætti framkvæmdina á fæðingarorlofi frá Tryggingastofnun og til Vinnumálastofnunar, sem ég er ekki alsátt við og hefði viljað ræða frekar og maður heyrir það raunverulega á fulltrúum Tryggingastofnunar að þeir eru ekki alls kostar sáttir við þá breytingu. Ég held að tilgangurinn hafi verið fyrst og fremst sá að flytja þessa starfsemi út á land, til Hvammstanga, ef ég skil málið rétt. Þar munu níu starfsmenn fá vinnu við það verkefni úti á landi. Það er sjónarmið út af fyrir sig og auðvitað er það jákvætt og ég styð það ef hægt er að flytja verkefni út á land en það má ekki verða á kostnað framkvæmdarinnar og verkefnisins sjálfs sem ég held að hafi verið mjög vel fyrir séð í Tryggingastofnun ríkisins og ég hef ekki heyrt nein sannfærandi rök fyrir því að flytja þetta yfir á Vinnumálastofnun sem er yfirhlaðin verkefnum.

Því hefur oft verið haldið fram að um sé að ræða vinnumarkaðstengt mál og það sé ástæðan fyrir flutningi til Vinnumálastofnunar. Ég hygg að það sé fyrst og fremst það að fjölga störfum úti á landi frekar en hitt að þetta sé vinnumarkaðstengt málefni og þess vegna eigi það heima í Vinnumálastofnun því að mörg verkefni sem eru á sviði almannatrygginga og félagsmálaráðuneytisins eru vinnumarkaðstengd verkefni sem Tryggingastofnun hefur.

Ég sé ekki ástæðu, forseti, til að ræða þetta mál frekar. Ég gerði það við 1. umr. en fagna mjög að við séum að sjá núna í höfn að umönnunargreiðslur séu viðurkenndar samhliða fæðingarorlofi. Þetta er viðbótarkostnaður sem fólk lendir í sem þarf að sjá um fatlað barn og það hefur verið viðurkennt í mörg ár eða í langan tíma, slíkar umönnunargreiðslur. Ef ég man rétt voru þær settar í tíð minni sem félagsmálaráðherra. Þetta eru greiðslur í fimm flokkum eftir umönnunarþyngd og fötlun barnsins. Greiðslurnar hafa komið mörgum mjög til góða og er mikið réttlætismál og réttlætismál líka viðurkenna að hægt sé að greiða þær samhliða fæðingarorlofsgreiðslum sem eru eðlisólíkar greiðslur.



[12:39]
Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Eins og hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir sagði er á ferðinni mikið réttlætismál. Þetta er eitt af þeim málum sem stjórnarandstaðan gerði samkomulag við ríkisstjórnina um að hraða för í gegnum þingið. Það höfum við gert, veittum því afbrigði á sínum tíma til að það kæmist strax á dagskrá og greiddum fyrir för þess í gegnum hv. félagsmálanefnd.

Hluti af þessu máli felur í sér færslu á umsýslu Fæðingarorlofssjóðs frá Tryggingastofnun ríkisins yfir til Vinnumálastofnunar. Það kom vel fram á fundi félagsmálanefndar að þar er um að ræða aðgerð sem beinlínis er byggðaaðgerð. Verið er að flytja þetta verk út á land, til Hvammstanga, til að skapa þar níu störf. Það er mín tilfinning að umdeilanlegt sé að gera slíkt, nema ærnar ástæður séu til. Ég er ekki að leggjast gegn því, en ég spyr án þess að ætlast beinlínis til svars: Leiddi þetta til þess að níu störf hurfu hjá Tryggingastofnun? Hugsanlega leiddi þetta til þess að einhver fækkun varð þar. En í öllu falli er ljóst að leggja þurfti í drjúgan stofnkostnað sem hleypur á tugum milljóna kr. við að byggja upp tölvukerfi. Þar var ekki hægt að beita beinni yfirfærslu kerfa. Stofnkostnaðurinn við þetta er því töluverður. Rekstrarkostnaður ríkisins í heild mun að öllum líkindum aukast. Þarna er því dágott dæmi um hvernig ríkið bólgnar út.

Ég hef oft sagt að það er vel í það leggjandi fyrir ríkið að seilast nokkuð langt til að ýta undir störf á landsbyggðinni. Þetta verkefni er þó líkast til dæmi um verk sem mætti skilgreina undir það sem við í Samfylkingunni höfum kallað störf án staðsetningar og obbann af þessu væri sennilega hægt að vinna með nútímatækni eiginlega hvar sem er. Þannig held ég að í framtíðinni, þegar koma upp ný verkefni hjá hinu opinbera, eigi að reyna að vista verk. Ég er þeirrar skoðunar að fara eigi yfir öll störf ríkisins og skilgreina þau sem hægt er að vinna án tillits til staðsetningar með nútímatækni og nota síðan veltuna innan starfsmannamengis ríkisstofnana til að koma með þeim hætti störfum út úr bákninu.

Ég tek líka undir það sem ég held að hv. þm. Pétur Blöndal hafi sagt við umræðuna, hvort ekki hafi verið hægt að bjóða þessi verk út. Ég held að það hefði vel getað svarað kostnaði og ríkið ætti að velta slíku fyrir sér. Það ekki síst mundi ýta undir landsbyggðina því hún mundi örugglega taka slíkum tækifærum fagnandi og það hefði hagsbætur í för með sér til ýmissa verka.

Ég vil hins vegar vekja eftirtekt á því að rekstur sjóðsins mun kosta ríflega 70 millj. kr. á ári, 75 jafnvel. Það kom glöggt fram hjá fulltrúa Vinnumálastofnunar á fundi félagsmálanefndar að 30 millj. kr. vantar upp á fjárveitingu ríkisins til að hægt sé að segja að ríkið hafi gefið það tannfé með flutningnum sem nauðsynlegt er. Það liggur fyrir að margvíslegum verkefnum hefur verið hlaðið á Vinnumálastofnun á síðustu árum og alveg ljóst að hún á fullt í fangi með þau og treður marvaðann hvað fjárhag sinn varðar. Ég læt þá ósk uppi að vonandi nær stofnunin að rísa undir þessu nýja verki. Ég er þess fullviss og veit það af reynslunni að hún býr yfir ákaflega góðu starfsfólki sem sinnir verkefnum sínum vel.

Fyrst ríkið er á annað borð að flytja verk með þessum hætti milli stofnana og út á landsbyggðina, finnst mér eigi að síður að lágmarkið hefði verið að því hefðu fylgt fjármunir sem tryggðu að verkinu væri sinnt alveg til fullnustu þannig að hvergi væri slegið af því góða verklagi sem var á þessum málum hjá Tryggingastofnun undir tryggri og öruggri forustu fyrrum kollega okkar, Karls Steinars Guðnasonar, sem hér var alþingismaður með miklum sóma.



[12:44]
Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Aðeins um að verkefni á vegum Fæðingarorlofssjóðs yrðu unnin á Hvammstanga. Mér finnst það í sjálfu sér ekki eiga að vera gagnrýnisvert og ég hygg að mörgum hafi þótt Tryggingastofnun ríkisins, sem þetta verkefni hefur verið vistað hjá, vera býsna miðlæg í störfum sínum. Hún hefur byggst nánast alfarið upp í Reykjavík og verkefni á vegum Tryggingastofnunar ríkisins hafa lítið þróast út í það að vaxa úti á landi þrátt fyrir stefnumörkun og yfirlýsingu stjórnvalda í aðra átt. Ég hef alltaf orðið hvað vonsviknastur yfir því að stjórnvöld koma með digrar yfirlýsingar um eflingu opinberrar þjónustu, flutning og uppbyggingu á opinberri þjónustu á landsvísu og það verði flutt út á land en síðan hefur eftirfylgnin alltaf verið með þveröfugum hætti. Mér finnst það ekki vera sérstaklega gagnrýnisvert að þetta sé gert. Reyndar er ekki kveðið á um þetta í lögunum heldur er þetta ráðherraákvæði þannig að næsti ráðherra getur í sjálfu sér kippt þessu burt. Ég vil gjarnan að svona lagað verði bundið í lögum til að tryggja að starfsemi sé byggð upp og ekki væri verið að rokka með hana eins og hv. þingmaður kom réttilega inn á með tilheyrandi stofnkostnaði o.s.frv. Nú eru hugmyndir um t.d. að Byggðastofnun verði ef til vill flutt frá Sauðárkróki en búið er að leggja í ærna fyrirhöfn að byggja hana þar upp. Ég spyr því hv. þingmann hvort í þeirri almennu stefnu um að byggja störf upp, almenn þjónustustörf, úti á landi, hvort það sé í sjálfu sér ekki góðra gjalda vert og gott mál.



[12:46]
Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég og hv. þm. Jón Bjarnason erum nú sammála um meira en bara um Hólaskóla einan. Svarið við spurningu hans er já. Ég tel að það sé góðra gjalda vert að reyna að byggja upp þá starfsemi sem ríkið er að setja á fót úti á landi.

Ég held sérstaklega að þjónustustarf af þessum toga þar sem verið er að vinna með upplýsingar og vinna úr þeim og skrá eins og í þessu tilviki, einstaklinga, tekjur og reikna út hvaða bætur þeim ber, sé tilvalið að vista með þeim hætti annars staðar en á því sem hv. þingmaður kallar miðlægar stofnanir.

Nú er það svo að tæknin hefur gjörbreytt umhverfi og það á ekki að þurfa að hafa störf hneppt saman innan einnar stofnunar. Stofnun getur starfað á mjög mörgum stöðum á landinu án þess að það skorti nokkuð upp á verkstjórn og eftirlit með góðu verklagi.

Ég er þeirrar skoðunar að þegar ég og hv. þm. Jón Bjarnason hugsanlega verðum hér í stjórnarmeirihluta að loknum kosningum þá eigi t.d. að fara yfir þau störf sem innt eru af höndum af hálfu ríkisins og kanna hvert þeirra væri hægt að skilgreina þannig að þau hafi enga sérstaka staðsetningu og síðan eigi að nota starfsmannaveltuna en ekki uppsagnir til þess að kanna hvort hægt sé að koma tiltölulega viðamiklum einingum fyrir annars staðar en innan þessara stofnana. Ég held að það mundi líka hjálpa landsbyggðinni mjög.

Ég tel reyndar að það ætti ekkert að reyna endilega að koma þeim með þeim hætti út á landsbyggðina heldur ætti að skilgreina þau sem störf án staðsetningar og þá gætu sveitarfélög, fyrirtæki og einstaklingar eftir atvikum sóst eftir því að vinna þau störf.

Að öðru leyti gleður það mig að í nefndarálitinu er einmitt tekið undir það sjónarmið sem ég var með hér uppi áðan um (Forseti hringir.) gætt hefði of mikillar tregðu hjá fjárveitingavaldinu til að tryggja þessa nýju starfsemi sem nú er flutt (Forseti hringir.) á Hvammstanga.



[12:48]
Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek undir orð hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar, að einmitt með tækninni á að vera ástæðulaust að byggja upp svona þjónustustörf í einhverjum einum, stórum, miðlægum kjarna. Það er þá mikið keppikefli einmitt að fjarskiptatæknin eflist, gagnaflutningakerfið eflist út um land þannig að slík störf geti verið unnin sem víðast.

Það er eitt svona í lokin. Ég vil að það verði hugað að því að með þessu sé ekki verið að keyra launin niður. Að menn séu ekki að flytja störf út á land til þess að því fólki sem þar ræðst til starfa séu greidd lægri laun en fólki í hliðstæðum störfum áður inni í miðlægri stofnun í Reykjavík.

Ég vil bara vara við þessu því ég upplifði sterka tilhneigingu í þessa veruna. Fólk sem fær störf úti á landi og fagnar því, hvort sem það er á Hvammstanga, Blönduósi, Skagaströnd eða á öðrum stöðum, þá er það mikilvægt að launin haldist hin sömu, þ.e. að ekki sé verið að fara með störf út á land til að lækka launakostnaðinn. Ég er ekkert að segja að það sé í þessu tilviki. Þetta eru bara mín varnaðarorð.

En það er sjálfsagt að fagna því að fundinn sé farvegur fyrir verkefnaflutning út á land eins og hér er verið að leggja til í nefndarálitinu og ég er sammála hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni hvað áherslur í þeim efnum varðar.



[12:50]
Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Aðeins örfá orð um þetta frumvarp sem ég er samþykkur. En ég vil í fyrsta lagi geta þess að ég hafði ákveðnar efasemdir um flutning á þessum verkefnum frá Tryggingastofnun yfir til Vinnumálastofnunar. Þeim var prýðilega sinnt í Tryggingastofnun að mínu mati.

Hins vegar kom í ljós að undirbúningur undir þennan flutning var mjög vel á veg kominn enda stendur hann fyrir dyrum innan fárra vikna þannig að þar verður ekki aftur snúið og vona ég að vel takist til í starfseminni og á ekkert nema góðar óskir til þeirra sem koma til með að sinna þessum verkum.

Ég vil mótmæla þeim hugmyndum sem fram komu hjá hv. þm. Pétri H. Blöndal að æskilegt sé að bjóða út starfsemi af þessu tagi. Í því þótti mér felast ákveðið vantraust, ef ekki vanvirðing, í garð þeirra sem hafa sinnt þessum verkefnum. Ég held sannast sagna að þetta yrði miklu dýrara með þessu móti, að minnsta kosti þegar fram í sækti.

Ég ætla ekki að fjölyrða um þetta frumvarp en fagna því sérstaklega hvernig þar er tekið á atriðum sem varða umönnunargreiðslur. En fram til þessa hafa greiðslur í fæðingarorlofi og réttur til umönnunargreiðslna ekki farið saman, þ.e. þeir foreldrar sem hafa átt rétt á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði hafa ekki á sama tíma átt þennan rétt varðandi umönnunargreiðslurnar. Nú er þetta fært til betri vegar og er það sérstakt fagnaðarefni.