133. löggjafarþing — 93. fundur
 17. mars 2007.
almenn hegningarlög, 2. umræða.
stjfrv., 20. mál (kynferðisbrot). — Þskj. 20, nál. 1151, brtt. 1152 og 1206.

[16:04]
Frsm. allshn. (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á almennum hegningarlögum frá allsherjarnefnd. Hér er um að ræða endurskoðun á kynferðisbrotakafla hegningarlaganna og hefur nefndin fengið á sinn fund fjölmarga aðila eins og sjá má á þskj. 1151 og leitað umsagna mjög víða. Þetta mál lá frammi á fyrra þingi til kynningar og hefur síðan verið til vinnslu í allsherjarnefnd í allan vetur.

Í frumvarpinu eru lagðar til töluverðar breytingar á kynferðisbrotakafla almennra hegningarlaga. Þannig er lagt til að skilgreining á hugtakinu nauðgun verði rýmkuð mjög frá því sem nú er þannig að önnur kynferðisnauðung og misnotkun á bágu andlegu ástandi, sem og það að þolandi geti ekki spornað við verknaðinum eða skilið þýðingu hans teljist nauðgun. Þá er lagt til að lögfestar verði lögmæltar refsiþyngingarástæður fyrir nauðgun, svo sem ungur aldur þolanda, og að lögfest verði almennt ákvæði um refsiábyrgð vegna kynferðislegrar áreitni. Eitt af nýmælum frumvarpsins er tillaga um að refsing fyrir samræði og önnur kynferðismök við barn yngra en 14 ára verði þyngd þannig að refsimörkin verði þau sömu og fyrir nauðgun. Einnig er lagt til að lögfest verði ákvæði um heimild til refsilækkunar eða refsibrottfalls ef sá sem gerist sekur um samræði eða önnur kynferðismök gagnvart barni yngra en 14 ára er sjálfur á svipuðum aldri og þroskastigi og barnið. Síðast en ekki síst eru lagðar til tvær veigamiklar breytingar, annars vegar að fyrningarfrestur kynferðisbrota byrji ekki að líða fyrr en brotaþoli er orðinn 18 ára í stað 14 ára eins og nú er, og hins vegar að áskilnaður hegningarlaga um refsinæmi þess að stunda vændi sér til framfærslu falli niður.

Nefndin fagnar þeim breytingum sem lagðar eru til í frumvarpinu og telur þær horfa til mikilla réttarbóta fyrir þolendur kynferðisbrota. Ég vil nefna hér sérstaklega að það er samdóma álit allra í allsherjarnefnd að þetta frumvarp hafi verið sérstaklega vel undirbúið, greinargerðin mjög ítarleg og ég vil nota þetta tækifæri til að þakka Ragnheiði Bragadóttur sérstaklega fyrir þá samvinnu sem hún hefur haft við nefndina og fyrir hennar störf þar sem innlegg hennar hefur reynst ómetanlegt.

Nefndin ræddi einstök ákvæði frumvarpsins ítarlega á fundum sínum. Þau atriði sem komu til hvað mestrar skoðunar voru fyrningarfrestur kynferðisbrota, refsinæmi vændiskaupa og kynferðislegur lágmarksaldur. Einnig ræddu nefndarmenn um skilgreiningu á hugtakinu nauðgun og hvort samræma ætti 8.–10. gr. frumvarpsins, sem breyta 200., 201. og 202. gr. almennra hegningarlaga um kynferðisbrot gegn börnum, þannig að sama refsing væri fyrir brot gegn öllum framangreindum ákvæðum.

Nefndin ræddi þrjár leiðir varðandi fyrningarreglu 1. mgr. 82. gr. almennra hegningarlaga. Í fyrsta lagi þá leið sem farin er í 1. gr. frumvarpsins að miða fyrningarfrest við þann dag þegar brotaþoli nær 18 ára aldri í stað 14 ára aldurs eins og gert er í gildandi lögum. Þannig mundu alvarlegustu kynferðisbrotin sem tilgreind eru í núgildandi 194.–202. gr. almennra hegningarlaga sem framin eru gegn börnum eigi fyrnast fyrr en að liðnum 15 árum eftir 18. afmælisdag brotaþola, eða þegar hann nær 33 ára aldri. Þetta var fyrsta leiðin sem kom til álita. Í öðru lagi var rætt í nefndinni um þá leið sem umboðsmaður barna lagði til í umsögn sinni en þar var við það miðað að fyrningarfrestur allra kynferðisbrota gegn börnum væri í 15 ár frá 18 ára afmælisdegi þeirra óháð alvarleika brotanna og ég sé að í nefndaráliti hefur þessi 15 ára áskilnaður greinilega fallið niður. Í þriðja lagi var rætt um þá leið sem áður hefur verið lögð til í sérstöku frumvarpi að kynferðisbrot gegn börnum verði öll ófyrnanleg.

Nefndin telur þá leið sem lögð er til í frumvarpinu mikið framfaraskref. Kynferðisbrot gegn börnum eru meðal alvarlegustu glæpa sem framdir eru. Nefndin telur hins vegar ekki rétt að fara þá leið að láta öll kynferðisbrot gegn börnum lúta sama fyrningarfresti með þeim rökum að þótt öll kynferðisbrot gegn börnum séu ógeðfelld eru þau þó misalvarleg. Þrátt fyrir þá meginreglu almennra hegningarlaga að eingöngu brot sem varða hámarksrefsingu geti talist ófyrnanleg telur nefndin rétt að stíga það skref að gera alvarlegustu kynferðisbrot gegn börnum ófyrnanleg. Þolendur brotanna eiga að jafnaði erfitt með að koma fram og greina frá því ofbeldi sem þeir hafa þurft að þola í því skyni að leita sér hjálpar og eru oft ekki færir um það fyrr en mörgum árum eða jafnvel áratugum eftir að ofbeldinu linnir. Jafnvel þótt fyrningin hefjist ekki fyrr en við 18 ára aldur er ekki að mati nefndarinnar með öllu tryggt að komið sé að fullu til móts við þessi sjónarmið. Því leggur nefndin til breytingu þess efnis að sök fyrir brot gegn ákvæðum 194. gr., 1. mgr. 200. gr. og 1. mgr. 201. gr. laganna verði ófyrnanleg. Fyrningarfrestur vegna brota gegn öðrum ákvæðum kynferðisbrotakafla hegningarlaganna byrji hins vegar að líða við 18 ára aldur brotaþola. Með breytingunni er tekið tillit til sérstöðu réttarstöðu barna sem verða fyrir grófu kynferðisofbeldi. Í þessu sambandi bendir nefndin á að á árinu 1997 lagði fyrrverandi umboðsmaður barna það til við þáverandi dómsmálaráðherra að tekið yrði upp ákvæði í almenn hegningarlög um að kynferðisbrot gegn börnum fyrndust ekki. Börn hefðu eðlilega ekki sömu hæfileika til að gera sér grein fyrir aðstæðum eða átta sig á því að um refsivert athæfi hefði verið að ræða þegar þau voru beitt kynferðislegri misnotkun og hefðu oft enga möguleika á að kæra brot innan þess fyrningarfrests sem gilti samkvæmt lögum. Nefndin bendir á að sönnun í kynferðisbrotamálum hefur hingað til verið erfið og verður erfið áfram þrátt fyrir afnám fyrningarfrests á grófustu brotunum gegn börnum. Sönnunarbyrðin verður eftir sem áður í höndum ákæruvaldsins sem metur hvort fram komnar upplýsingar séu nægilegar eða líklegar til sakfellis.

Ég vil bæta hér við í fyrsta lagi að slík breyting á lögunum í þessu efni með þeirri viðbót sem nefndin leggur til er veruleg, þ.e. sem sagt bæði verið að hækka viðmiðunaraldur fyrningarfrests úr 14 í 18 ár og upphafstími fyrningarfrests mun því í öllum meginþorra mála hefjast við 18 ára aldurinn. Með því er tekið verulegt tillit til þeirra sjónarmiða sem ég hef áður rakið en því til viðbótar er hér verið að leggja það til að í allra grófustu tilvikunum, í alvarlegustu brotunum verði fyrningarfresturinn felldur niður, þ.e. að slík brot verða ófyrnanleg. Þetta mun mögulega í framkvæmd kalla á einhver tilvik þar sem farið verður fram á rannsókn og athugun með ákærumöguleika í gömlum málum en engu að síður telur nefndin rétt að gera þessa breytingu þrátt fyrir að einhverjir annmarkar kunni að fylgja því í framkvæmd og er vísað til þeirra sjónarmiða og raka sem ég hef þegar vitnað til.

Nefndin tók til sérstakrar umfjöllunar ákvæði 2. gr. frumvarpsins sem rýmkar verulega ákvæði núgildandi 194. gr. almennra hegningarlaga um nauðgun og fellir einnig undir það ólögmæta kynferðisnauðung samkvæmt 195. gr. núgildandi laga og misneytingu samkvæmt 196. gr. þeirra. Nefndin fagnar því að með breytingunni verður minni áhersla lögð á ofbeldisþátt nauðgunar. Nefndin velti því hins vegar fyrir sér hvort það væri nægilega tryggt með þeirri breytingu sem lögð er til í frumvarpinu að sú háttsemi að notfæra sér aðstöðumun, sem hingað til hefði verið heimfærð undir 195. gr. laganna, væri refsiverð, þ.e. hvort hugtakið hótun næði fyllilega yfir það sem í réttarframkvæmd hefði verið talið felast í ólögmætri nauðung og hvort með breytingunum væri í raun verið að þrengja verknaðarlýsingu núgildandi ákvæða. Samkvæmt upplýsingum frá Ragnheiði Bragadóttur prófessor fellur háttsemi undir núgildandi 194. gr. ef beitt er ofbeldi eða hótunum um ofbeldi til að hafa kynmök. Undir núgildandi 195. gr. fellur aðferðin „annars konar ólögmæt nauðung“, þ.e. ef beitt er hótunum um eitthvað annað en ofbeldi til þess að koma fram kynmökum. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að sú háttsemi sem nú fellur undir 195. gr. sem ólögmæt kynferðisnauðung muni eftir samþykkt þess falla undir 194. gr. sem nauðgun. Í stað orðalagsins „ofbeldi eða hótun um ofbeldi“ í núgildandi 194. gr. kemur „ofbeldi eða hótunum“ samkvæmt 2. gr. frumvarpsins og þar undir falla allar hótanir. Þau tilvik sem hingað til hafa verið dæmd sem brot gegn 195. gr. mætti kalla að notfæra sér aðstöðumun. Þó hefur alltaf orðið að felast einhvers konar hótun í því, ella hefðu brotin ekki verið felld undir 195. gr. Í nefndaráliti er vísað til bókar Jónatans Þórmundssonar sem ég ætla ekki að fara yfir. Með hliðsjón af meginreglunni um að refsiákvæði þurfi að vera skýr og til að taka af allan vafa í þessum efnum leggur nefndin engu að síður til þrátt fyrir framangreint að verknaðarlýsing 2. gr. frumvarpsins verði svofelld: „Hver sem hefur samræði eða önnur kynferðismök við mann með því að beita ofbeldi, hótunum eða annars konar ólögmætri nauðung gerist sekur um nauðgun …“

Nefndin fagnar sérstaklega þeirri refsiþyngingarreglu sem lögð er til í 3. gr. frumvarpsins og verður að 195. gr. almennra hegningarlaga. Þar er lagt til að það verði virt til þyngingar refsingar fyrir brot gegn 194. gr. laganna ef þolandi nauðgunar samkvæmt henni er barn yngra en 18 ára, ef ofbeldi geranda er stórfellt og ef brot er framið á sérstaklega sársaukafullan eða meiðandi hátt.

Í 5. gr. frumvarpsins er lögð til breyting á ákvæði 197. gr. almennra hegningarlaga um refsiábyrgð starfsmanna á tilteknum stofnunum vegna samræðis eða annarra kynferðismaka við vistmenn á stofnununum. Nefndin ræddi sérstaklega hvort bæta þyrfti þjónustustofnunum fyrir fatlaða einstaklinga inn í upptalninguna, það að refsivernd ákvæðisins eins og það er sett fram í frumvarpinu einskorðaðist við vistmenn stofnana og tæki því t.d. ekki til andlega fatlaðs fólks sem starfaði daglangt á þjónustustofnunum, og einnig hvort meðferðarstofnanir fyrir áfengis- og vímuefnasjúklinga á vegum einkaaðila gætu fallið undir ákvæði greinarinnar. Nefndin bendir í þessu sambandi á að ákvæðið á fyrst og fremst við stofnanir þar sem menn vistast gegn vilja sínum eða þurfa á sérstakri umönnun að halda. Hvað varðar þær aðstæður þegar fatlað fólk er þjónustuþegar á sólarhringsstofnun eða heimili bendir nefndin á að það býr að vissu marki við aðrar aðstæður en það andlega fatlaða fólk sem getur þó sinnt vinnu að einhverju marki, t.d. á þjónustustofnunum. Refsivernd samkvæmt öðrum ákvæðum hegningarlaga tekur að sjálfsögðu til þess fólks eins og annarra. Að öðru leyti ætla ég að leyfa mér að vísa til nefndarálits varðandi þessa þætti frumvarpsins.

Í 7. gr. frumvarpsins er lagt til að í 199. gr. almennra hegningarlaga verði áskilið að hver sá sem gerist sekur um kynferðislega áreitni skuli sæta fangelsi allt að tveimur árum. Með frumvarpinu er lagt til að skilgreining hugtaksins kynferðisleg áreitni verði rýmkuð þannig að það taki ekki eingöngu til líkamlegrar snertingar eins og verið hefur heldur einnig til einhliða athafna sem fela í sér stöðugt áreiti. Nefndarmenn ræddu í þessu sambandi um refsimörk ákvæðisins sem lagt er til í frumvarpinu og hvort eðlilegt mætti teljast að kynferðisleg áreitni samkvæmt greininni varðaði allt að 2 ára fangelsisrefsingu en brot gegn blygðunarsemi samkvæmt 209. gr. laganna varðaði sektum eða fangelsi allt að 4 árum. Nefndarmenn vörpuðu því fram hvort kynferðisleg áreitni yrði ekki að teljast alvarlegri háttsemi en brot gegn blygðunarsemi á borð við það þegar maður berar sig fyrir öðrum. Með hliðsjón af því að vægustu brot gegn 209. gr. varða 30 daga til 6 mánaða fangelsi eða sektum — hér er um að ræða svokölluð sérrefsimörk sem gilda ef brot er smávægilegt — sem eru vægari en refsimörk 7. gr. frumvarpsins telur nefndin að ekki sé þörf á því að svo komnu máli að breyta refsimörkum 199. gr.

Nefndin ræddi um ákvæði 8., 9. og 10. gr. frumvarpsins sem breyta refsilágmörkum 200., 201. og 202. gr. almennra hegningarlaga. Samkvæmt upplýsingum frá embætti ríkissaksóknara er alltaf ákært fyrir það brot sem telst vera alvarlegast þegar um kynferðisbrot gegn börnum er að ræða. Því mun það ekki valda vandkvæðum í framkvæmd þótt refsiramminn í 202. gr. sé að einhverju leyti annar en fyrir brot gegn 200. og 201. gr. eins og segir í nefndaráliti.

Með hliðsjón af ábendingu frá ríkissaksóknara leggur nefndin til breytingu á ákvæði 9. gr. frumvarpsins sem breytir 201. gr. almennra hegningarlaga þannig að tryggt verði að hún taki til aðstæðna á borð við þær þegar stjúpafi brýtur gegn stjúpbarnabarni sínu. Þessi breyting er einkum lögð til með hliðsjón af því hversu fjölbreytt fjölskyldumynstur getur orðið eins og samfélagið hefur þróast að þessu leytinu til. Er því lögð til breyting í samræmi við þetta.

Nefndin ræddi svokallaðan kynferðislegan lágmarksaldur eða lögaldur sérstaklega. Skv. 202. gr. núgildandi hegningarlaga er hann 14 ár. Það kom hins vegar fram í umsögnum og máli gesta sem komu fyrir nefndina að almennt teldu menn 14 ár of lágan aldur í þessu sambandi. Svo ungt barn væri ekki fært til að ákveða sjálft hvort það hefði mök við lögráða einstakling eða ekki. Sá sem eldri væri hlyti að nota sér þann aðstöðumun sem fælist í auknum þroska og lífsreynslu, a.m.k. væri veruleg hætta á því. Þá vísaði Barnaverndarstofa til nýrrar rannsóknar sem sýndi að ungt fólk á Íslandi byrjaði seinna að lifa kynlífi en áður hefði verið talið og að meira en helmingur svarenda í rannsókninni vildi hækka kynferðislegan lágmarksaldur, einkum stúlkur. Barnaverndarstofa taldi að þetta mætti túlka sem ósk stúlkna um frekari vernd í þessum efnum. Nefndin tekur undir þessi sjónarmið og bendir jafnframt á að 15 ár eru algengt aldursviðmið í íslenskri löggjöf. Sakhæfisaldur er 15 ár, barn öðlast stöðu aðila í barnaverndarmáli 15 ára og í vinnulöggjöfinni er eitt meginviðmiðið varðandi vinnu barna 15 ár. Íslensk löggjöf sker sig í raun úr í þessum efnum, en víðast erlendis, t.d. á annars staðar á Norðurlöndum, er kynferðislegur lágmarksaldur miðaður við 15 eða 16 ár. Með hliðsjón af framangreindu leggur nefndin til breytingu á ákvæði 10. gr. frumvarpsins sem breytir 202. gr. almennra hegningarlaga þess efnis að kynferðislegur lágmarksaldur verði framvegis miðaður við 15 ár í stað 14 ár eins og verið hefur. Tillögur lágu fyrir nefndinni um að færa viðmiðunarmörk þessi upp í allt að 16 ár en niðurstaðan er sú að stíga þetta skref að þessu sinni.

Í 12. gr. frumvarpsins er ákvæði 206. gr. almennra hegningarlaga sem fjallar um vændi breytt á þann veg að það að stunda vændi sér til framfærslu er gert refsilaust. Eftir stendur áskilnaður um að sá sem hefur atvinnu eða viðurværi sitt af vændi annarra skuli sæta fangelsi allt að 4 árum. Nefndin fagnar þessari breytingu og telur eðlilegt að stíga það skref að gera sölu á vændi refsilausa. Vændi er ein birtingarmynd kynferðisofbeldis og þeir sem það stunda gera það að jafnaði af neyð. Miklar umræður spunnust meðal nefndarmanna um það með hvaða hætti taka ætti á vændi í hegningarlögum og gerðu sumir nefndarmanna fyrirvara við stuðning sinn við málið vegna þeirrar leiðar sem hér er farin. Að öðru leyti leyfi ég mér að vísa til rökstuðnings fyrir breytingartillögunni eins og hann birtist í nefndarálitinu.

Við meðferð málsins barst nefndinni áskorun um að álykta um þörfina á því að dómstólar nýttu þann refsiramma sem fyrir hendi væri í nauðgunarmálum betur. Þetta sjónarmið fékk allnokkurn hljómgrunn í nefndinni og hjá mörgum gestum. Undanfarið hefur gætt tilhneigingar hjá dómstólum að þyngja refsingar í þessum málum og nefndin fagnar þeirri þróun. Um þetta atriði vil ég kannski segja að lokum að auðvitað er alltaf matsatriði hvora leiðina á að fara þegar verið er að senda þau skilaboð til dómstóla að menn vilji sjá þyngri refsingar, sérstaklega þegar dómstólar þiggja ekki að nýta refsirammann nema að mjög takmörkuðu leyti þá er um tvær leiðir að velja, þ.e. annars vegar að setja lágmarksrefsingu við viðkomandi brotum og hins vegar að hækka refsirammann, hækka hámarksrefsinguna og senda með því mjög skýr skilaboð um að þinginu þyki refsingar í viðkomandi málaflokki vera of vægar og að meginstefnu til er valið að fara þá leið. Þetta er ekki eina málið sem er dæmi um þetta því að við höfum á þinginu jafnframt verið að þyngja refsingar við brotum gegn opinberum starfsmönnum, þ.e. þeim sem hafa valdbeitingarheimild, lögreglumönnum og öðrum í svipaðri stöðu og ég tel að þetta sé mun skynsamlegri leið en ég legg engu að síður áherslu á það að með þessu máli er verið að senda mjög skýr skilaboð til dómstólanna um að það skuli taka harðar á brotum af þessu tagi, enda ber þingmálið það allt mjög skýrlega með sér.

Ég hef gert grein fyrir öllum helstu efnisatriðum þessa máls og tek það að lokum fram að nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem ég hef gert grein fyrir og liggja frammi á þskj. 1154.

Málið var afgreitt í fjarveru Sigurjóns Þórðarsonar og Guðjón Ólafur Jónsson gerði fyrirvara um stuðning sinn við nefndarálit þetta. Aðrir nefndarmenn styðja málið. Kolbrún Halldórsdóttir sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er samþykk álitinu með fyrirvara.



[16:25]
Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Frú forseti. Hér er verið að ræða breytingu á almennum hegningarlögum og eins og komið hefur fram hefur talsverð vinna verið lögð í þetta mál innan allsherjarnefndar þar sem vinnan hófst í raun í fyrra.

Í frumvarpinu eru heilmiklar réttarbætur og ég held að ástæða sé til að draga þær sérstaklega fram og fagna þeim. Það fyrsta sem ég vil nefna er það stóra skref sem öll allsherjarnefndin leggur til að verði tekið og það er sú leið að afnema fyrningarfrest í alvarlegum kynferðisbrotum gegn börnum.

Ég vil lýsa sérstakri ánægju minni með þá þverpóliltísku samstöðu sem myndaðist í nefndinni um að taka þetta skref. Ég held að það væri farsælt ef við tækjum fleiri skref í þá átt að gera þennan málaflokk þverpólitískan. Ég vil leyfa mér að kalla þennan dag afskaplega stóran. Ég held að þetta séu ein þýðingarmestu lögin sem samþykkt munu verða á yfirstandandi þingi því að þau taka til mikilvægustu hagsmuna hvers einstaklings sem er eigin heilsa og rétturinn til að ná fram rétti sínum og upplifa réttlæti.

Ég lagði fyrst fram frumvarp um að afnema fyrningarfrest í kynferðisafbrotum gegn börnum fyrir fjórum árum. Þetta var fyrsta þingmál mitt á þinginu. Safnast hafa 23 þúsund undirskriftir til stuðnings frumvarpinu og fjöldi hagsmunaaðila hefur lýst yfir stuðningi við málið. Má þar nefna umboðsmann barna, Barnaverndarstofu, barnaverndarnefnd Reykjavíkur, stjórn Barnaheilla, Samtök um kvennaathvarf, Mannréttindaskrifstofu Íslands og nánast hverja einustu kvennahreyfingu í landinu. Það ber sérstaklega að þakka þessum aðilum og þeim einstaklingum sem barist hafa fyrir þeim réttarbótum sem við sjáum í frumvarpinu.

Það er mjög mikilvægt að þetta frumvarp taki tillit til þeirrar sérstöðu sem kynferðisafbrot gegn börnum hafa. Við vitum að einstaklingar sem verða fyrir barðinu á barnaníðingum sækja sér aðstoð og rétt sinn seint á lífsleiðinni. Samkvæmt tölfræði Stígamóta eru 40% þeirra sem leita til Stígamóta eldri en 30 ára en samkvæmt núgildandi lögum eru öll kynferðisafbrot gegn börnum fyrnd þegar einstaklingurinn er orðinn 29 ára.

Upprunalega frumvarpið gerði ráð fyrir fjögurra ára lengingu sem þýddi að þessi brot mundu fyrnast við 33 ára aldur þolandans en nú hefur náðst þverpólitísk samstaða innan nefndarinnar um að afnema fyrninguna í alvarlegustu brotunum sem lúta að börnum. Í því felast þau skilaboð að við viljum ekki láta barnaníðinga njóta þess aðstöðumunar sem þeir hafa gagnvart börnum hvað þetta varðar. Ef við höfum fyrningu í þessum málaflokki er enn hætta á að við upplifum það að sjá sýknu vegna kynferðisofbeldis gegn börnum. Það er því mjög stórt skref sem hér er verið að taka en í því sambandi ber að minnast að nú þegar eru til ófyrnanleg brot í íslenskri löggjöf. Má þar nefna mannrán, ítrekuð rán, landráð, manndráp o.s.frv. Það er mjög ánægjulegt að alvarleg kynferðisafbrot gegn börnum séu nú komin í flokk ófyrnanlegra brota. Ég held að hver einasti þingmaður geti fagnað þessari niðurstöðu en ég held að almenningur fagni henni sömuleiðis og ekki síst þeir einstaklingar sem hafa verið beittir kynferðislegu ofbeldi. Ég held að hagsmunahópar þessa málaflokks hvort sem það er Blátt áfram, Stígamót, Kvennaathvarfið, Femínistafélag Íslands eða önnur hafi líka ástæðu til að fagna. En ég vil líka nefna þá einstaklinga sem hafa komið fram í þessari umræðu og sagt sína sögu. Margir hverjir hafa lent í fyrningu. Ég held að þáttur þeirra til að ná fram þeim réttarbótum sem við erum að ná hér í dag skipti alveg gríðarlega miklu máli. Við skulum hafa það í huga að það þarf ótrúlegt hugrekki til að koma fram með sína sögu eftir að hafa verið beittur kynferðislegu ofbeldi.

Ég held að með því skrefi sem hér er verið að taka hafi réttarvernd barna í þessu þjóðfélagi verið stórlega aukin. Það er ótrúlega mikilvægt að einstaklingur sem beittur hefur verið kynferðislegu ofbeldi fái ekki þau skilaboð frá kerfinu að hann geti ekki leitað réttar síns vegna þess að tímafrestur sé runninn út. Þegar þetta frumvarp er orðið að lögum munu þessir einstaklingar ekki búa við þá stöðu, þannig að enn og aftur fagna ég þeirri breytingu sem hér er lögð fram og þeirri þverpólitísku samstöðu sem hefur náðst.

Það er líka margt annað ánægjulegt í þessu frumvarpi svo sem breytingar á nauðgunarákvæðinu. Við erum í raun og veru að sameina þrjú nauðgunarákvæði í eitt. Margir hafa talað fyrir þessu og bent á þann galla í lögum að það telst t.d. ekki nauðgun ef einstaklingi sem er þroskaheftur eða rænulaus er nauðgað. Hér verður breyting á og það er afskaplega mikilvægt. Það er líka mjög mikilvægt að benda á að sú leið sem hér er farin dregur úr vægi verknaðaraðferðarinnar. Bent hefur verið á það í umræðunni að við ættum að draga úr vægi hennar því að verndarhagsmunirnir séu í aðalhlutverki. Nauðgun er brot gegn kynfrelsi og það þarf að setja í öndvegi. Hins vegar er sú leið sem hér er farin til batnaðar og mun bæta þetta umhverfi til muna að mínu mati.

Það er líka ánægjulegt að meiri hluti allsherjarnefndar hefur bætt við sem hluta á skilgreiningu á nauðgun hugtakinu „ólögmæt nauðung“. Þetta er m.a. það sem ríkissaksóknari benti á að þyrfti helst að bæta inn í ljósi þess að það þyrfti að vera alveg tryggt að það næði yfir þá verknaði sem nauðganir eru.

Varðandi vændishluta hefur ekki náðst samkomulag um að lögfesta sænsku leiðina. Við höfum ítrekað talað fyrir því að hana beri að fara og við munum halda áfram að berjast fyrir henni. Þegar minnst er á sænsku leiðina komumst við ekki hjá því og er fullkomlega rétt að minnast á baráttu hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur fyrir þeirri leið. Hún hefur staðið mjög framarlega í ýmsum réttarbótum hvað þetta varðar og ég veit að barátta hennar fyrir því að lögfesta sænsku leiðina heldur áfram. Í þessu samhengi má einnig nefna önnur baráttumál sem hún hefur dregið fram á yfirstandandi þingi eins og svokallaða austurríska leið o.s.frv. og ég hlakka til að verða samferða henni í þeirri baráttu.

Allsherjarnefnd leggur til hækkun á kynferðislegum lágmarksaldri. Þetta er mikilvægt skref. Við erum að hækka hann úr 14 árum í 15. Danir eru með 15 ára viðmið, Svíar með 15, Bretar með 16 þannig við erum að nálgast hin Norðurlöndin hvað þetta varðar. Þessi breyting mun sömuleiðis hafa mjög praktíska breytingu samkvæmt því fólki sem starfar á þessu sviði.

Loks vil ég draga fram að verið er að þyngja refsingar fyrir kynferðisafbrot gegn börnum til muna og í fyrsta skipti erum við að setja lágmarksrefsingu fyrir kynferðisafbrot gegn börnum. Við erum að samræma refsingar fyrir kynferðislega misnotkun á börnum og refsingar fyrir nauðgun. Samkvæmt núgildandi lögum er hámarksrefsing fyrir kynferðislega misnotkun á barni 12 ár en fyrir nauðgun á fullorðnum einstaklingi frá einu ári upp í 16. Það er sérstaklega ánægjulegt að í þessu frumvarpi er tekið það skref að samræma þarna á milli þannig að þetta mun án efa hafa þær jákvæðu afleiðingar að við munum sjá réttlátari dóma fyrir kynferðisafbrot gegn börnum.

Ég vil einnig draga fram að lagabreytingar eru ekki allt. Við þurfum að hafa hugann við félagsleg úrræði. Við þurfum að huga að fræðslu fyrir heilbrigðisstarfsfólk, kennara og börnin sjálf. Allar stéttir og hagsmunaaðilar þurfa að standa saman til að ná tökum á þessum vanda, ná tökum á því ofbeldi sem því miður viðgengst í samfélagi okkar eins og öllum öðrum samfélögum.

Að lokum vil ég segja að ég tel þetta mjög góðan dag því að allir eru sammála í þessum sal að ég tel um þær góðu réttarbætur sem hér er verið að lögfesta og ég held að við munum öll hér inni halda áfram að berjast gegn kynbundnu ofbeldi. Ég vil kalla þennan dag dag réttlætis og ég er mjög stoltur af því skrefi sem þjóðþingið mun taka hér í dag.



[16:33]
Frsm. allshn. (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir hans góðu orð í tengslum við málið og jafnframt vil ég nota tækifærið og þakka nefndarmönnum í allsherjarnefnd fyrir mjög gott samstarf. Það skal segjast alveg eins og er að þetta var langviðamesta málið sem við höfðum til umfjöllunar í nefndinni í vetur og skyldi engan undra þegar fyrir nefndinni liggur þetta 50 síðna frumvarp.

Ég vil ítreka aftur þakkir mínar til Ragnheiðar Bragadóttur sem aðstoðaði nefndina við að greina einstök lögfræðileg álitaefni sem tengjast þeim breytingum sem frumvarpið felur í sér. Ragnheiður kom einnig, eins og ég gat um áðan, okkur til aðstoðar við að greina ábendingar umsagnaraðila. Þetta hefur verið heilmikil vinna sem hefur m.a. byggst á góðu samstarfi við hana en ekki síður í nefndinni.

Ég vil geta þess jafnframt að fyrir nefndinni lágu ýmis önnur mál sem eiga ýmist beina eða óbeina skörun við það mál sem hér er til umfjöllunar og þá ýmist kynferðisbrotakaflann beint eða óbeint eða önnur ákvæði hegningarlaganna með einum eða öðrum hætti.

Ég vil geta þess að í tengslum við afgreiðslu málsins varð nefndin sammála um það að frumvarp sem lá fyrir þinginu um breytingu á lögum um meðferð opinberra mála og almennum hegningarlögum, svokallað brottvísunar- og heimsóknarbannsmál sem oft er kennt við hina austurrísku leið, yrði tekið til umfjöllunar í nefndinni. Nefndin varð ásátt um það í tengslum við afgreiðslu þess máls sem við fjöllum um að beina því til ríkisstjórnarinnar að kanna hvort rétt væri að fara þá leið að íslenskum lögum. Jafnframt varð nefndin sammála um það að annað þingmál sem fjallar um Evrópuráðssamninginn um fórnarlamba- og vitnavernd yrði sent til ríkisstjórnar til frekari skoðunar. Það mál snýst um að fullgilda þann samning og taka til skoðunar með hvaða hætti það verður best gert að íslenskum lögum. Í því tiltekna frumvarpi er í sama efni gengið ívið lengra en samningurinn áskilur og það fer þá til skoðunar á vettvangi ríkisstjórnarinnar með hvaða hætti heppilegast þykir að innleiða þann samning. Þetta eru sem sagt í heildina gríðarlega umfangsmikil og stór mál. Við höfum jafnframt afgreitt út úr nefndinni frumvarp sem fjallar um aðgerðir gegn mansali.

Ég vil segja að bæði hjá einstökum þingmönnum á hinu háa Alþingi og ekki síður fyrir frumkvæði dómsmálaráðuneytisins er búin að fara fram gríðarlega mikil skoðun og vinna í þeim málaflokkum sem undir ráðuneytið heyra. Við höfum verið með mörg mikilvæg framfaramál til skoðunar á kjörtímabilinu og mér finnst það mikið fagnaðarefni að við skulum hafa náð saman um þær breytingar sem er að finna í frumvarpinu.

Ég ítreka það sem fram kom í fyrra máli mínu að auðvitað eru efnisatriði í málinu sem menn þekkja sem fylgst hafa með frumvarpinu sem flokkarnir hafa ekki verið að fullu einhuga um. Ég get nefnt til að mynda fyrningar kynferðisbrota og auðvitað ekki síður það hvernig við eigum að taka á vændismálum. Menn þekkja það sem fylgst hafa með þeirri umræðu að það hafa bæði legið frammi þingmál um að fara hina svokölluðu sænsku leið og jafnframt hefur dómsmálaráðherra sett á laggirnar sérstaka nefnd til að skoða það hvaða aðgerðum við ættum helst að beita til þess að berjast gegn vændi. Það var gert á kjörtímabilinu og sú nefnd skilaði af sér. Eftir alla þessa umræðu kom frumvarpið með þeim tillögum sem þar er að finna og eins og ég gat um áðan er greinargerðin með málinu sérstaklega ítarleg. Þegar við skoðum til að mynda vændiskaflann í frumvarpinu eru dregnir fram í umræðuna allir helstu kostir og gallar þess að fara þá leið sem hér er valin. Jafnframt eru kostir og gallar sænsku leiðarinnar teknir til umfjöllunar. Allt er þetta vegið og metið og í frumvarpinu er lögð til ákveðin leið sem nefndin afgreiddi frá sér með þeim hætti sem nú liggur fyrir í nefndarálitinu. Ekki eru allir e.t.v. á eitt sáttir en í þeim tilgangi að koma málinu í heild sinni áfram tókst samkomulag í nefndinni sem ég tel að sé afskaplega mikilvægt.



[16:39]
Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Vissulega má taka undir það að það sé ákveðinn áfangasigur þegar málið var afgreitt frá nefndinni með þeim breytingartillögum sem við það hafa verið gerðar og með þeim ákvæðum sem horfa til framfara. Það var ekki sársaukalaust að ná því samkomulagi sem hv. þm. Bjarni Benediktsson sagði frá í ræðu sinni því eins og glöggir áhugamenn um þingstörf hafa tekið eftir hefur breytingartillaga minni hlutans, sem dreift var á þskj. 1206, verið dregin til baka, en hluti af þeirri breytingartillögu var breytingartillaga sem á rætur sínar að rekja til vændisfrumvarpsins svokallaða, þ.e. breytingartillaga sem gerir ráð fyrir því að sá sem lætur af hendi eða heitir greiðslu eða öðrum ávinningi fyrir vændi skuli sæta sektum eða fangelsi, allt að einu ári. Sú tillaga hefur nú verið dregin til baka en í staðinn náðist samkomulag um að setja inn breytingartillögu sameiginlega frá allri nefndinni um það að fyrningarfresturinn í allra alvarlegustu málunum, ofbeldismálum gegn börnum, félli niður. Því ber að fagna.

Eins og ég segi, það samkomulag var knúið fram með vilja meiri hluta nefndarinnar. Ég er ekki alls kostar sátt við þessar málalyktir, hefði kosið að tillagan sem gerir kaup á vændi refsivert fengi að ganga til atkvæða en hafði ekki stuðning fyrir því sjónarmiði mínu í nefndinni. Það verður því að bíða betri tíma að sú tillaga komi til afgreiðslu en ég er algerlega sannfærð um að fylgi við þá tillögu hefur aukist verulega á þeim árum sem ég hef flutt hana hér og á þeim tíma sem kvennasamtök á Íslandi hafa barist fyrir því að þessi leið yrði farin. Við höfum í fórum okkar áskorun til alþingismanna frá 14 kvennahreyfingum á Íslandi sem skora á okkur að hvetja til þess að þessi leið verði farin, þ.e. að ábyrgðin af vændinu sé sett á herðar þeim sem ber ábyrgðina, á herðar þeim sem býr til eftirspurnina, á herðar kúnnanum sem kaupir vændiskonuna. Þetta er mannréttindamál í mínum huga. Mér finnst rétt að benda fólki á að veruleikinn sem við horfum á í vændismálum á Íslandi er fréttaefni á síðum blaðanna í dag.

Krónikan, nýtt vikutímarit, er með stóra og mikla úttekt á vændi á Íslandi. Hún segir það skipulagt og hún segir það útbreitt og það er athyglisvert þegar málið er skoðað að þau rök sem við höfum fært fram, sem höfum verið að berjast fyrir hinni sænsku leið, þ.e. að ekki sé unnt að gera neinn greinarmun á vændi annars vegar og mansali hins vegar, eru algerlega staðfest í úttekt blaðsins. Aldrei verður dregin nein vitræn lína á milli vændis og mansals. Þess vegna er það svo að vilji þingmenn á Alþingi Íslendinga og ríkisstjórnin í alvöru berjast gegn mansali, eins og menn segja í orði kveðnu, þá verða menn að leggja til atlögu við vændið. Til þess er til ákveðin aðferð sem hefur reynst öflug í Svíþjóð og tregðan við að innleiða hana hér er mér áhyggjuefni. Ég lýsi yfir því að baráttan fyrir því að hún nái fram að ganga er ekki búin, henni er ekki lokið, ekki á meðan við lesum um það að á Íslandi starfi klúbbar sem þyki með því allra harðasta í vændisheiminum í dag og vitað sé til þess að kynlífsathafnir séu teknar upp á myndbönd og oftar en ekki séu fíkniefni höfð þar um hönd. Einn viðmælandi Krónikunnar, sem þekkir til þessa heims, segir að stundum sé stofnað til klúbbanna í kringum eina eða tvær vændiskonur, oftast erlendar, sem komi hingað til lands í stuttan tíma í senn og þá í boði þess sem heldur utan um rekstur klúbbsins. Reglulega komi svo nýjar vændiskonur og er þá boðað til nýrrar samkomu klúbbmeðlima.

Hæstv. forseti. Ef þetta er ekki mansal þá má ég hundur heita. Hér er lýst mansali í miðbæ Reykjavíkurborgar. Við sem höfum tök á því að reisa lagaskorður við því að þetta haldi áfram hlaupum undan sem gungur værum. Það er mjög miður. En eins og ég segi, baráttunni er ekki lokið. Vændisheimurinn á Íslandi — ég veit ekki hvort ég á að segja að hann hafi fengið byr undir báða vængi, það er kannski ekki rétt eða gott að nota það hugtak — fer vaxandi, hætturnar í honum aukast, hann verður viðbjóðslegri með hverjum deginum sem líður og ábyrgðin á því að skyggnast inn í þennan heim og uppræta það sem þar fer fram er á okkar herðum.

Hæstv. forseti. Ég viðurkenni og tek undir að málið hefur verið nokkuð vel unnið í nefndinni, og ekki bara nokkuð vel, það hefur tekið langan tíma og hefur verið afar vel unnið í nefndinni. Þó að ég sé ekki sátt við hv. formann allsherjarnefndar akkúrat núna á lokasprettinum hef ég verið mjög sátt við vinnuna og vinnulagið í nefndinni sem hefur verið vandað. Mjög vel hefur verið farið ofan í hvert einasta atriði sem hefur valdið hugarangri eða áhyggjum og tilefni hefur verið til að skoða vel. Þess vegna vil ég líka meina að tilefni sé til langrar umræðu og lýsi því yfir að mér sýnist óviðunandi að við þingmenn, sem erum kosin lýðræðislegri kosningu til að standa vörð um ákveðnar hugsjónir og ákveðin sjónarmið, skulum æ ofan í æ vera rekin inn í þá kró að geta ekki talað um okkar hjartans mál með eðlilegum hætti vegna þess að hv. meiri hluti á Alþingi kýs að láta megnið af málunum bíða til síðustu tveggja daganna og gubba þeim svo hér í gegn í afar óvandaðri vinnu. Þetta er ekki líðandi og skömm að því að svona skuli gerast ár eftir ár eftir ár. Ég lít svo á að við eigum að fá notið okkar lýðræðislega réttar til að ræða þau mál sem okkur liggja á hjarta en eins og ég segi, hér verð ég að stytta mál mitt mjög í ljósi þess sem liggur fyrir með samningi um að þinghaldi skuli ljúka í dag.

Ég fagna þeirri rýmkun sem verið er að leggja til í frumvarpinu, sérstaklega varðandi 2. mgr. 2. gr., þ.e. að það skuli einnig teljast nauðgun og varða við sömu refsingu og mælt er fyrir um í 1. mgr. greinarinnar að notfæra sér geðsjúkdóm eða aðra andlega fötlun manns til að hafa við hann samræði eða kynferðismök eða ef þannig er ástatt um hann að öðru leyti að hann getur ekki spornað við verknaðinum eða skilið þýðingu hans. Þetta er gríðarleg bót.

Ég þakka sömuleiðis fyrir og fagna því að fyrningarfresturinn í alvarlegustu brotunum gegn börnum skuli vera afnuminn og að þau brot fyrnist ekki. Ég fagna hækkuðum lögaldri og tek undir það sem hv. þm. Bjarni Benediktsson sagði í máli sínu þegar hann skýrði þá breytingu. Ég fagna því að fellt skuli niður refsinæmi þess að stunda vændi sér til framfærslu. Þó tel ég að með því að gera það einhliða og innleiða ekki um leið ábyrgð kaupandans séum við að skapa okkur ákveðna hættu. Ég held að úr því að refsinæmi fyrir vændi liggur nú hvergi, hvorki hjá þeim sem selur sig né hjá þeim sem kaupir, heldur eingöngu hjá millilið ef um millilið er að ræða, séum við að skapa ákveðna hættu á því að erfitt verði að leiða til lykta fyrir dómi mál af því tagi þar sem hvorugur aðilinn er að baka sér sök.

Réttarvernd kynfrelsis er ekki tryggð, virðulegi forseti, með lögunum og það finnst mér vera mesta áhyggjuefnið. Ég talaði fyrir því í nefndinni að við skoðuðum ofan í kjölinn greinar og tillögur sem komið hafa fram frá hæstaréttarlögmanninum Atla Gíslasyni, varaþingmanni Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, sem hefur skrifað nokkuð margar og efnismiklar greinar um kynfrelsi og hefur stutt mál sitt afar góðum rökum. Hann telur að þar sem við séum í 1. mgr. 194. gr. að leggja svona mikla áherslu á verknaðaraðferðina sé verið að gera of lítið úr varanlegum andlegum afleiðingum nauðgana, þær skipti minna máli fyrir vikið. Atli Gíslason segir í grein sem hann skrifar í Morgunblaðið þann 19. febrúar 2006, með leyfi forseta:

„Er efnisleg breyting hvað verknaðaraðferðina varðar næsta lítil frá gildandi nauðgunarákvæði. Er það reyndar staðfest í efnismikilli greinargerð með frumvarpinu þar sem meðal annars er tekið fram að eldri dómar í nauðgunarmálum hafi áfram fordæmisgildi varðandi refsinæmi háttseminnar. Það vekur athygli að í greinargerðinni er engu að síður staðhæft að með frumvarpinu sé dregið úr núgildandi áherslu á verknaðaraðferðir og megináhersla lögð á að með nauðgun fari fram kynmök án samþykkis.“

Hæstv. forseti. Það væri tilefni til að fara betur ofan í rökstuðning og röksemdafærslu Atla Gíslasonar varðandi þessa þætti. Hann rekur í greininni tilmæli ráðherranefndar Evrópuráðsins frá 3. maí 2002 um varnir gegn ofbeldi sem beinist gegn konum en þar er mælst til þess að hvers kyns kynferðisleg háttsemi gagnvart konu sem ekki er samþykk henni skuli verða refsiverð og einnig þótt þolandinn berjist ekki á móti. Sú regla er lögfest í ýmsum engilsaxneskum ríkjum, svo sem á Englandi og Írlandi. Í ljósi þessara tilmæla og grunnhugsunar að baki mannréttindaákvæðinu um friðhelgi einkalífs telur Atli Gíslason að frumvarp dómsmálaráðherra fullnægi ekki þeim skuldbindingum ríkisins að tryggja friðhelgi kvenna til líkama og sálarlífs, að kynferðislegur sjálfsákvörðunarréttur þeirra verði virtur í reynd.

Ég verð að segja, hæstv. forseti, að ég reyndi að fá gesti nefndarinnar til að ræða rök Atla Gíslasonar og okkar Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í þessu tiltekna máli. Ég fann það mjög fljótt að bæði dómskerfið, refsiréttarnefnd, laganefnd Lögmannafélagsins og fleiri sem um þetta atriði voru spurð voru ekki komin það langt í umræðunni, eða ekki búin að opna það mikið á röksemdafærsluna sem að baki liggur, að ég teldi umhverfið sem á að starfa eftir þessum lögum vera orðið nægilega þroskað til þess að taka við breytingu af því tagi sem ég hefði viljað leggja hér til til þess að réttarvernd kynfrelsis yrði tryggð með þessum lögum. Ég stend því að frumvarpinu og breytingunni á 194. gr. laganna þó að ég hefði viljað fara öðruvísi að og ganga þar lengra til móts við þær hugmyndir sem Atli Gíslason hefur kynnt og lagt fram. Sem sagt, ég tel mikilvægt að við höldum áfram að vinna að því að réttarvernd kynfrelsis verði leidd í lög á Íslandi.

Undir það tekur fjöldi umsagnaraðila. Ég nefni sem dæmi umsögn frá UNIFEM á Ísland þar sem því er fagnað að minni krafa skuli gerð á ofbeldisþætti nauðgunar með því að nú hafi „hótun“ komið í stað „hótun um ofbeldi“. UNIFEM telur þó æskilegra að skilyrða ekki nauðgunarhugtakið á þann hátt sem hér er gert. Nauðgunarhugtakið sé enn tengt við verknaðinn, þ.e. ofbeldi eða hótun. Orðið nauðgun ætti ekki að þurfa að skilgreina frekar, samanber orðið þjófnaður eða orðið vændi sem standi sannarlega ein og sér án frekari skilgreiningar í núgildandi löggjöf.

Þetta var tilvitnun í umsögn UNIFEM á Íslandi sem send var okkur nefndinni meðan við fjölluðum um málið.

Hæstv. forseti. Í lok máls míns langar mig aðeins til að fara örfáum fleiri orðum um það sem ég tel að heyri til okkar friðar varðandi baráttuna gegn mansali sem við höfum tekið þátt í í orði kveðnu, baráttu sem ríkisstjórnir Norðurlandanna hafa háð á þessum vettvangi. Á vettvangi Norðurlandaráðs hefur það aftur og aftur komið fram, og verið undirstrikað í samþykktum Norðurlandaráðs, að það sem skortir fyrst og fremst hjá ríkisstjórnum Norðurlandanna í þessum efnum séu í sjálfu sér ekki alþjóðlegir samningar því þeir eru til staðar. Öll þessi ríki hafa fullgilt þá eða öllu heldur flest því ekki höfum við fullgilt Palermo-samninginn enn eins og kom í ljós í máli hv. þm. Bjarna Benediktssonar áðan. Það sem skortir til að við getum borið höfuðið hátt, allar Norðurlandaþjóðirnar, í þessum efnum er fjármagn og pólitískur vilji, segja samþykktir og ábendingar frá Norðurlandaráði aftur og aftur. Ríkisstjórnir Norðurlandanna hafa reynt að standa upp og reka af sér þetta slyðruorð. Ríkisstjórnir Danmerkur, Noregs, Finnlands og ég held Svíþjóðar líka hafa allar gefið út aðgerðaráætlanir gegn mansali og ég veit að Danir eru a.m.k. komnir með áætlun nr. tvö í gildi en í dönsku áætluninni, sem gilt hefur frá 2003–2006, voru lagðar á ári hverju á þessu þriggja ára tímabili 10 millj. danskar krónur í baráttuna gegn mansali.

Ég spyr hæstv. dómsmálaráðherra, Björn Bjarnason, í fyrirspurnatíma á Alþingi Íslendinga fyrir skemmstu, hvort við ætlum ekki að fara að gera einhverja aðgerðaráætlun í þessum efnum. Þann 24. janúar 2006 svarar hann fyrirspurnum mínum á þann hátt að hann hafi sem ráðherra frekar látið verkin tala en sitja við að semja áætlanir. Hann tiltekur þau verk sem hann er stoltastur af í þessum efnum og telur að hann sé að vinna í þágu baráttunnar gegn mansali en það eru breytingarnar á lögreglulögunum og upptaka greiningardeilda og annarra slíkra þátta. Ég vil leyfa mér að gagnrýna hvernig hæstv. dómsmálaráðherra hefur staðið að þessum málum, hversu linur hann hefur verið í að fylgja fordæmi Norðurlandaþjóða. Hann segir í umræðum við mig á þinginu 24. janúar að hann telji mikilvægara að kröftum ráðuneytisins verði varið til að vinna að slíkum umbótamálum frekar en að setjast niður og semja einhverjar áætlanir. Hann segir að ef hann ætti að setjast niður og semja áætlanir í staðinn fyrir að beita sér fyrir því sem hann hefur gert á þessu sviði væri ástandið ekki eins gott og raun ber vitni. Ég vil þá benda hæstv. ráðherra á að skoða Krónikuna og lesa sér til um alvarleika þess sem er að gerast í miðbæ Reykjavíkurborgar í skjóli nætur.

Hæstv. forseti. Liðið hefur á tíma minn og þingmenn eru farnir að ókyrrast vegna þess að hér á að vera atkvæðagreiðsla kl. 5. Ég vil að lokum taka fram að ég hefði viljað að málinu hefði lyktað öðruvísi en því er að lykta. Ég harma að ekki skyldi hafa náðst samkomulag um að setja breytingartillögu okkar minni hluta allsherjarnefndar í atkvæðagreiðslu á þinginu til að kanna hversu mikið fylgi er við þá tillögu. En ég sit uppi með það. Ég sit uppi með þann harm í brjósti. Ég hef einnig tekið þá ákvörðun að halda áfram að berjast fyrir þessum málum á þessum vettvangi sem öðrum hér eftir sem hingað til.



[16:57]
Frsm. allshn. (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Einungis örstutt athugasemd. Ég ætla ekki að fara í mikla umræðu um vændismálin en í tilefni af því að hv. þingmaður lét þess getið að refsinæmið vegna vændis lægi í raun og veru hvergi þá hlýt ég að þurfa að benda sérstaklega á 12. gr. frumvarpsins sem tekur á vændismálunum en þó ekki með þeim hætti sem hv. þingmanni þóknast best. Í samhengi við þá blaðagrein sem hv. þingmaður tók til sem dæmi um vændi sem ætti sér stað á Íslandi þá er tilvitnaðri lagagrein, 12. gr. frumvarpsins, sérstaklega beint gegn slíkri milligöngu um vændi í raun og veru. Jafnframt er ákvæði frumvarpsins um bann gegn opinberri auglýsingu ætlað að taka á bæði kaupanda- og seljendahliðinni. Þannig skiptir það ekki máli hvar auglýsing birtist og hvort hún stafar frá þeim sem býður fram vændið, sækist eftir vændinu eða hefur milligöngu um birtingu vændisins. Allt er þetta refsivert. Ég vek athygli á þessu í tilefni af orðum hv. þingmanns um að hvergi sé tekið á refsinæmi vændis í frumvarpinu.



[16:58]
Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Refsinæmið hvílir á milliliðnum eins og kom fram í máli hv. þingmanns. Það hvílir ekki á kaupandanum og það hvílir ekki á seljandanum. Ég er afar sátt við að þeir og þær sem leiðast út í vændi skuli ekki þurfa að sitja undir því að íslensk lög telji að þau fari með sök að lögum. Það er bráðnauðsynleg réttarbót og henni fagnaði ég í ræðu minni. En ég tel brýnt að í staðinn verði refsinæmið sett á herðar þess sem kaupir, þess sem býr til eftirspurnina, því það eru ekki alltaf milliliðir. Sannleikurinn er sá að það eru karlarnir sem í krafti stöðu sinnar og peninga hafa val en ekki þeir eða þær sem leiðast út í vændi og ábyrgðin á að vera á herðum þess sterka, þess sem hefur valið til að kaupa ekki aðgang að líkama annars fólks. Það er þetta sem ég gagnrýni.



[16:59]
Frsm. allshn. (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Örstutt athugasemd af þessu tilefni. Ég veit að við hv. þingmaður verðum seint sammála einmitt um þetta en ég vek athygli á því að sænska leiðin, sú leið sem hv. þingmaður vill að verði farin hér á landi, er tekin til rækilegrar skoðunar í þessu þingmáli. Það er ekki eins og skautað hafi verið fram hjá þeim álitaefnum sem hún hefur rakið í máli sínu en niðurstaðan í frumvarpinu er sú að nauðsynlegt sé að gera frekari rannsóknir á vændi áður en lagabreyting í samræmi við það sem gert er í Svíþjóð verður innleidd á Íslandi. Það kemur líka fram í frumvarpinu, og ég vil taka undir það sem þar segir, að önnur úrræði eru til og væntanlega mun áhrifaríkari til að draga úr vændi en að refsa kaupendum þess. Það er kjarni málsins. Spurningin sem við stöndum frammi fyrir þegar við ræðum um sænsku leiðina er fyrst og fremst þessi: Er sú breyting á lögum, að gera kaupin refsiverð, betri en aðrar leiðir sem við getum mögulega farið til að draga úr vændi?



[17:01]
Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er sammála hv. þingmanni að þetta er spurningin sem við stöndum frammi fyrir og ég veit að við erum ósammála um hana. En ég finn samt sem áður, eins og ég sagði í ræðu minni, á öllum mínum beinum að fylgi við umrædda aðferð er þó að aukast.

Ég er sannfærð um að við eigum eftir að koma til fylgis við þessa leið, (RG: Breytum þessu í næstu ríkisstjórn.) Breytum þessu í næstu ríkisstjórn, segir hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir og ég tek náttúrlega undir það.

Auðvitað er ég sammála hv. þingmanni að það hefur ekki verið skautað fram hjá röksemdafærslunni. Við tókum umræðuna um þetta í fyrra og við tókum hana aftur núna í vetur. Við höfum farið í gegnum það aftur og aftur í nefndinni hver rökin eru með og hver rökin eru á móti. Því sem ég andmæli hins vegar hér er að ekki skuli vera sá dugur í hv. þingmönnum, meiri hluta allsherjarnefndar, að senda þessa tillögu hingað inn í Alþingi og leyfa þingheimi að greiða um hana atkvæði. Það er það sem við ættum að fá að gera hér.

Varðandi síðan hitt sem ég vil kalla skinhelgisákvæði meiri hlutans, þ.e. að bannað er að auglýsa blíðu sína. Það er bannað að auglýsa vændi. Við horfum á að það grasserar vændi í Reykjavík, hérna handan við Austurvöllinn. Við lesum um það í Krónikunni, góða úttekt á málinu, og það eina sem við höfum til málanna að leggja er: Það má ekki auglýsa. Mér finnst þetta ekki nógu gott. Við erum ekki nægilega ábyrg þegar við getum ekki tekið betur á málunum en þetta.



[17:02]
Valdimar L. Friðriksson (Fl):

Herra forseti. Ég vil lýsa yfir ánægju með frumvarpið og sérstaklega breytingartillögurnar og þakka hv. allsherjarnefnd fyrir. Til að stytta mál mitt þá lýsi ég yfir stuðningi við ræðu hv. þm. Ágústs Ólafs Ágústssonar.



[17:03]Útbýting:

[17:03]
Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Með þessu frumvarpi á að vera bannað að auglýsa vændi. Ég spyr: Er ekki bannað að auglýsa bjór?