137. löggjafarþing — 17. fundur
 9. júní 2009.
fjármálafyrirtæki, 1. umræða.
stjfrv., 85. mál (sparisjóðir). — Þskj. 97.

[14:28]
viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon) (-):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breyting á lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, með síðari breytingum. Frumvarpið er á þskj. 97 og er 85. mál þingsins.

Um nokkurn tíma hefur verið unnið að endurskoðun á ákvæðum VIII. kafla laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, sem fjallar um sparisjóði. Upphaflega var nefnd sem viðskiptaráðherra skipaði árið 2007 falið að vinna frumvarpsdrög en nefndin var leyst frá störfum áður en hún lauk vinnu sinni og er frumvarp þetta samið af sérfræðingum á vegum viðskiptaráðuneytisins. Ýmis ákvæði frumvarpsins eru þó beinn afrakstur nefndarvinnunnar.

Sparisjóðirnir og fjármálafyrirtæki tengd þeim fóru ekki varhluta af þeim hremmingum sem riðu yfir innlendan fjármálamarkað í fyrrahaust. Eftir fall viðskiptabankanna þriggja fylgdu Sparisjóðabankinn hf. og Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis hf., SPRON, í kjölfarið. Þá hefur verið unnið að því að færa rekstur Sparisjóðs Mýrasýslu undir Nýja Kaupþing banka hf.

Rekstrarafkoma sparisjóða var almennt mjög slæm á árinu 2008. Hjá flestum þeirra varð veruleg rýrnun á eigin fé einkum vegna lækkunar á hlutabréfaverði og gangvirði eignarhluta í félögum. Þá var afkoma af kjarnastarfsemi fyrir skatta neikvæð hjá flestum þeirra. Því er ljóst að staða sparisjóðanna er erfið um þessar mundir og margir þeirra hafa þörf fyrir að auka stofnfé sitt til að styrkja eiginfjárgrundvöll og rekstrarhæfi.

Margir sparisjóðir hafa á síðustu árum hækkað stofnfé sitt mjög mikið og greitt stofnfjáreigendum ríflegan arð og það hefur gengið á varasjóði þeirra. Vegna tapreksturs á síðasta ári er nú svo komið að í mörgum þeirra er varasjóður uppurinn og jafnvel orðinn neikvæður.

Þær meginbreytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu eru þessar:

Gerð er tillaga sem eyða á vafa um félagaform sparisjóðanna. Í frumvarpinu er kveðið á um að stofnfjársparisjóðir séu sjálfseignarstofnanir. Einnig eru eignarréttindi stofnfjáreigenda afmörkuð og er tekið fram að þau takmarkist við bókfært stofnfé og er sérstaklega tiltekið að stofnfjáreigendur eigi enga hlutdeild í óráðstöfuðu eigin fé eða varasjóðum sparisjóðs.

Tengist skilgreiningin á sparisjóði og réttindum stofnfjáreiganda m.a. því að í frumvarpinu er hvorki gert ráð fyrir að stofnaðir verði nýir hlutafélagasparisjóðir né að unnt verði að breyta stofnfjársparisjóðum í hlutafélagasparisjóði. Þeir hlutafélagasparisjóðir sem eru með starfsleyfi við gildistöku laganna, verði frumvarpið að lögum, halda þó rétti sínum til að mega kalla sig sparisjóði.

Í 2. gr. og 3. gr. frumvarpsins er vísað til þess að sparisjóðir setji sér samfélagslegt hlutverk. Ekki er gerð tilraun til þess að skilgreina nánar með hvaða hætti slíkt skuli gert enda aðstæður eða þarfir mismunandi á milli starfssvæða hinna einstöku sparisjóða. Þó má gera ráð fyrir að þau verkefni sem sparisjóðir helst horfa til varði t.d. stuðning við íþrótta- og æskulýðsstarf, menningarviðburði og líknarmál.

Í frumvarpinu er lagt til að hin almennu ákvæði laganna, t.d. um meðferð eignarhluta, skuli gilda um sparisjóði með sama hætti og þau gilda um önnur fjármálafyrirtæki. Af þessu leiðir að ákvæði um takmörkun á sölu og innlausn stofnfjár eru felld brott og gera tillögur frumvarpsins ráð fyrir að stofnfjáreigendur, sem vilja af einhverjum orsökum afsetja stofnfjárbréf sín, beri ábyrgð á sölunni og að viðskipti með stofnfjárbréf lúti almennum reglum um viðskipti með eignarhluti í fjármálafyrirtækjum sem er að finna í lögunum. Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, hefur gert athugasemdir við það að þær takmarkanir sem væru á viðskiptum með stofnfé stönguðust á við ákvæði samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Er brugðist við athugasemdum ESA með þessum tillögum.

Í frumvarpinu er lagt til að aflétt verði þeim hömlum sem verið hafa á útboðsgengi útgefinna stofnfjárhluta en þess í stað sett lágmarksverð sem er nafnverð stofnfjár. Hafa hömlur gildandi laga stuðlað að ógagnsæi varðandi eðlilegt verð stofnfjárhluta og því að verðmæti hlutanna umfram uppreiknað nafnverð hefur eingöngu komið til góða eftirmarkaði, þ.e. stofnfjáreigendum, en ekki útgefanda, þ.e. viðkomandi sparisjóði.

Eitt af markmiðum þeirra breytinga sem lagðar eru til á ákvæðum kaflans er að auðvelda sparisjóðum að sækja sér nýtt stofnfé, m.a. á grundvelli laga nr. 125/2008, með því að geta lækkað núverandi stofnfé til að mæta taprekstri síðustu ára og með þeim hætti jafnað varasjóð sparisjóðsins. Með þeirri aðgerð eru núverandi stofnfjáreigendur að taka á sig tap sparisjóðsins að því leyti sem það kann að vera umfram varasjóð.

Í gildandi lögum er ekki talin vera fyrir hendi heimild til að lækka stofnfé. Miðað við þá stöðu sem nokkrir sparisjóðir eru í, þ.e. að bókfært stofnfé er hærra en eigið fé og varasjóðir því neikvæðir, er nauðsynlegt að fyrir hendi séu ákvæði sem rétt geta af slíkan halla. Að öðrum kosti er ólíklegt að nýir aðilar fáist til að leggja slíkum sparisjóðum til aukið eigið fé. Með ákvæðinu er einnig tekinn af vafi um að ríkið fái hlutdeild í samræmi við það framlag sem það leggur í sparisjóði á grundvelli 2. gr. laga nr. 125/2008.

Í frumvarpinu er lagt til að ákvæði um endurmat stofnfjár til hækkunar verði einfölduð og þrengd, sem og heimildir til arðgreiðslna. Gera tillögur frumvarpsins ráð fyrir því að aðeins verði heimilt að greiða arð þegar hagnaður hefur verið af rekstri sparisjóðs í fimm ár. Samkvæmt gildandi lögum er heimilt að greiða arð þótt taprekstur hafi verið á sjóðnum.

Verði tillögur frumvarpsins að lögum verður sparisjóðum heimilt að ráðstafa þeim hagnaði sem renna má til stofnfjáreigenda með tvennum hætti, annars vegar með því að hækka stofnfé, þ.e. með því að greiða inn á stofnfjárreikning stofnfjáreigenda og hækka þannig nafnverð stofnfjár, og hins vegar með beinni arðgreiðslu.

Þá er lögð til sú meginregla að 50% hagnaðar verði læstur inni í sparisjóði sem varasjóður til að mæta hugsanlegu tapi í framtíðinni. Vissulega kunna hömlur þessar að draga úr áhuga aðila á því að setja fé í sparisjóði, en þeim er ætlað að þjóna því markmiði að byggja upp varasjóði í sparisjóðum. Án styrkingar innan frá er vandséð hvernig sparisjóðir eigi að geta starfað áfram. Allflestir starfandi sparisjóðir munu þurfa á framlagi úr ríkissjóði að halda til að geta haldið áfram starfsemi sinni og er því ekki óeðlilegt að slíkar starfstakmarkanir séu í gildi á meðan verið er að styrkja grunn þeirra.

Um langt skeið hafa sparisjóðir haft með sér ýmiss konar samvinnu, t.d. um tölvuvinnslu, markaðssetningu og námskeiðahald svo og ákvarðanir um vexti og gjaldskrárliði. Þessi samvinna hefur auðveldað minni sparisjóðum þátttöku í samkeppni á fjármálamarkaði. Samkeppniseftirlitið hefur samstarf sparisjóðanna til skoðunar og má búast við því að þrengt verði að möguleikum þeirra til samstarfs nema til komi sérstök ákvæði í lögum sem heimili þeim samstarfið. Í frumvarpinu er gerð tillaga um heimildir sparisjóða til samstarfs og er við það miðað að þær heimildir raski ekki eðlilegri samkeppni á markaði.

Aðrar breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu eru ýmist til einföldunar eða til komnar vegna þeirra meginbreytinga sem voru tilefni frumvarpsins. Vísast til athugasemda með frumvarpinu varðandi umfjöllun um þær.

Virðulegi forseti. Að lokinni þessari umræðu er lagt til að frumvarpinu verði vísað til 2. umr. og hv. viðskiptanefndar.



[14:36]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Undanfarin ár eða áratugi hafa sparisjóðirnir flestir skilað neikvæðum hagnaði af rekstri, þ.e. rekstrarafgangur hefur verið neikvæður. Þeir hafa hins vegar haldið uppi jákvæðum afgangi með því að þau hlutabréf sem þeir áttu, aðallega í Kaupþingi og Existu, hafa hækkað umtalsvert og þannig sýndu þeir hagnað ár eftir ár þrátt fyrir tap af rekstri. Ég spyr hæstv. ráðherra hvort það sé eðlilegt að Fjármálaeftirlitið heimili sparisjóðum að fjárfesta svo mikið í áhættusömum eignum. Svo kemur í ljós að þegar þær eignir hrynja hrynja sparisjóðirnir, líka það göfuga fé sem er geymt í þessum sjóðum sem enginn á.

Svo er spurningin um það sem ég hef margoft bent á og hef þess vegna haft miklar efasemdir um þetta form: Ef hæstv. ráðherra ætti bílinn minn en ég mætti ætíð keyra hann, alla tíð, og nota hann að öllu leyti, hver er þá munurinn á því að ég eigi hann sjálfur? Þetta er einmitt sem gerist með það fé sem enginn á en einhver stýrir. Það eru völdin yfir fjármagninu sem gera sparisjóðina eftirsóknarverða og ekki síður eftir þá breytingu sem hér er verið að gera. Það verður enn áhugaverðara að stýra þessu fé þannig að ég spyr hæstv. ráðherra hvort hann hafi hugleitt hvernig fari með þetta. Mér finnst þessar breytingar eiginlega færa sparisjóðinn nær hlutafé, ef eitthvað er.

Það sem mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra líka um er hvort hann hafi hugleitt að takmarka fjárfestingar sparisjóðanna í t.d. öðrum fjarskyldum rekstri sem ekki virðist hafa verið nein takmörkun á hingað til og ekki heldur héðan í frá.



[14:38]
viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon) (-) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta eru ágætar spurningar eins og við var að búast og snerta reyndar kannski grunnhugmyndina á bak við sparisjóði. Því er vert að þingið og hv. viðskiptanefnd velti þessu fyrir sér eins og reyndar ráðherra hefur gert. Ég er á því, og tek undir það með þingmanninum, að sumar af fjárfestingum sparisjóðanna á liðnum árum hafa vissulega staðið undir hagnaði til skamms tíma en orka nú mjög tvímælis í ljósi reynslunnar. Það hlýtur að koma mjög alvarlega til skoðunar, og er reyndar alveg bráðnauðsynlegt, að Fjármálaeftirlitið og hugsanlega ráðuneytið eða löggjafinn fari yfir þau mál eins og fjárfestingarheimildir ýmissa annarra aðila, t.d. vátryggingafélaga sem við vorum að ræða í þessum sal í gær, og skoði sérstaklega hvort rétt sé að setja nánari skorður við þeim eða nánari reglur um þær. Það er hins vegar ekki gert í frumvarpinu.

Ég bendi hins vegar á að það er vel þekkt að það er mjög áhættusöm uppskrift ef menn geta náð því að stýra fé annarra, eiga þess kost að hætta því í áhætturekstri og eiga jafnvel kost á því að njóta afrakstursins ef vel gengur en að skellurinn lendi á öðrum ef illa gengur. Það er erfitt að girða fullkomlega fyrir það með lögum en þær skorður sem settar eru með arðgreiðslum út úr sparisjóðum í þessu frumvarpi eru í raun og veru viðbrögð við þessari hættu. Þótt þau geti ekki alveg komið í veg fyrir hana eiga þau að draga úr henni.



[14:40]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Jafnvel þó að í umræddum bíl mínum sem hæstv. ráðherra á yrðu settar kvaðir um að ekki mætti borga út arð eða annað slíkt breytti það engu fyrir mig. Bíllinn yrði bara kraftmeiri með aldrinum, bíllinn sem fengi allan arðinn, og það yrði enn meira gaman að stýra honum. Það er ákveðinn vandi sem fylgir því að menn fari með fé sem enginn á, sjálfseignarstofnun.

Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra til viðbótar: Getur verið að Fjármálaeftirlitið hafi bakað ríkissjóði skaðabótaábyrgð með því að hafa ekki stöðvað fjárfestingar sparisjóðanna í áhættusömum hlutabréfum sem Fjármálaeftirlitið vissi mjög vel af? Svo hrynja sparisjóðirnir. Ég nefni t.d. SPRON. Getur verið að einhver stofnfjáreigandi í SPRON eða öðrum sparisjóði sem ekki var hlutafélag eigi kröfu á ríkið vegna þess að ógætilega var farið með þetta fé sem enginn á?



[14:41]
viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon) (-) (andsvar):

Virðulegi forseti. Aftur kemur hv. þingmaður með áhugaverðar grundvallarspurningar sem væri gaman að gefa sér betri tíma til að skoða en hér er hægt. Ég ætla ekki að reyna að skera úr um það hér hvort eftirlitsstofnanir hafi hugsanlega brugðist og jafnvel það illa að hægt sé að óska eftir skaðabótum frá þeim. Það er ekki hlutverk viðskiptaráðherra að skera úr um það. Það væri auðvitað dómstóla að skera úr um það ef réttarágreiningur kæmi upp um skaðabætur eða annað slíkt.

Hitt veit ég og við vitum öll að það er verið að skoða þessi mál á ýmsum vettvangi, sérstaklega hjá rannsóknarnefnd Alþingis sem væntanlega fjallar ekki um skaðabætur en fjallar í víðara samhengi um ábyrgð á því sem fór úrskeiðis síðustu ár. Þá verður væntanlega m.a. vikið sérstaklega að því, eiginlega óhjákvæmilega, hvernig eftirlitsstofnanir stóðu sig og þá verður hægt að draga ályktanir af því um ábyrgð þeirra og hvernig við getum betur komið málum fyrir í framtíðinni til að eiga ekki á hættu að lenda í sambærilegri stöðu eftir einhver ár eða áratugi.



[14:43]
Magnús Orri Schram (Sf):

Frú forseti. Sem varaformaður viðskiptanefndar þakka ég viðskiptaráðherra fyrir þetta frumvarp sem nú er á leið til nefndar. Það er mikilvægur liður í því endurreisnarstarfi sem fram undan er og enn eitt stóra málið sem kemur inn á borð viðskiptanefndar, kannski þá við rústabjörgun ef svo mætti að orði komast sem við öll erum í. Sparisjóðirnir gegna mikilvægu hlutverki í bankakerfinu hér á landi, hvort sem við erum að tala um á Stór-Reykjavíkursvæðinu eða úti um land. Ég vona að nefndinni lánist að vinna þetta mál vel, markvisst og á góðum hraða.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til viðskn.