138. löggjafarþing — 50. fundur
 18. desember 2009.
atvinnuleysistryggingar o.fl., frh. 3. umræðu.
stjfrv., 273. mál (aukið eftirlit og þrengri reglur). — Þskj. 479.

ATKVÆÐAGREIÐSLA

[11:52]

[11:44]
Jón Gunnarsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég vil halda til haga sömu athugasemdum og ég fór með áðan varðandi samskipti ríkisvaldsins við þá aðila sem að málinu koma. Ég vil lesa úr umsögn Alþýðusambands Íslands, þar sem segir, með leyfi forseta:

„Atvinnuleysistryggingar eru einn af hornsteinum réttindakerfis launafólks. Atvinnuleysistryggingum var upphaflega komið á fyrir baráttu verkalýðshreyfingarinnar …“

Af þeirri braut var vikið nú við undirbúning breytinga á þessum lögum þegar farið er yfir samskipti ríkisvaldsins við Alþýðusambandið.

Í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga kemur fram, virðulegi forseti, að nýlegt samkomulag sem var gert 1. október 2009, svokallaður vegvísir, sem gert var milli ríkisvaldsins og Sambands íslenskra sveitarfélaga, að í því voru öll ákvæði brotin núna í meðferð málsins. Blekið er vart þornað á þeim samningum sem ríkisvaldið er að gera við hagsmunasamtök í landinu (Forseti hringir.) þegar það samkomulag er brotið. Við segjum nei.



Frv.  samþ. með 20:11 atkv. og sögðu

  já:  APS,  ÁI,  ÁPÁ,  ÁÞS,  ÁsmD,  ÁRJ,  GuðbH,  GStein,  JBjarn,  KJak,  LMós,  MSch,  OH,  RM,  SER,  SII,  SJS,  ÞBack,  ÖJ,  ÖS.
nei:  ÁsbÓ,  BirgJ,  BjarnB,  EKG,  GÞÞ,  IllG,  JónG,  MT,  PHB,  REÁ,  RR.
2 þm. (SIJ,  VigH) greiddu ekki atkv.
30 þm. (ArndS,  ÁJ,  BÁ,  BJJ,  BjörgvS,  BVG,  EyH,  GLG,  GBS,  HHj,  HöskÞ,  JóhS,  JRG,  KaJúl,  KÞJ,  KLM,  LRM,  ÓÞ,  ÓN,  SDG,  SF,  SVÓ,  SSv,  TÞH,  UBK,  VBj,  ÞKG,  ÞSa,  ÞSveinb,  ÞrB) fjarstaddir.
5 þm. gerðu svofellda grein fyrir atkvæði sínu:

[11:45]
Anna Pála Sverrisdóttir (Sf):

Herra forseti. Þetta er ekki sérstaklega ánægjulegt mál sem við afgreiðum nú en ég ætla engu að síður að segja já. Góð vinna hefur farið fram í félagsmálaráðuneytinu og sérstaklega góð líka í félags- og tryggingamálanefnd.

Það sem ég árétta hér, og hef nokkrar áhyggjur af, er framfærsla atvinnulausra námsmanna yfir sumarið. Námsmenn þurfa líka að lifa á sumrin, þeir hafa fyrir börnum að sjá o.s.frv. Námsmenn munu ekki lengur geta sótt sér atvinnuleysisbætur og það er mjög vel rökstyðjanlegt að það sé ekki kerfi sem þeir eigi að vera hluti af. Hins vegar þarf að finna viðunandi lausn fyrir námsmenn og hún þarf að vera komin fyrir næsta sumar.



[11:47]
Birgitta Jónsdóttir (Hr):

Herra forseti. Þetta frumvarp er að mörgu leyti meingallað. Ég hef verið í sambandi við fólk sem hefur starfað sem einyrkjar, eða það sett sig í samband við mig, og mér er sagt að þau bráðabirgðalög sem sett voru til að tryggja að þetta fólk gæti fengið atvinnuleysisbætur en þó borgað tryggingagjald verði afnumin og því gert að gera fyrirtækin sín gjaldþrota ellegar fái það engar bætur.

Við þurfum ekki á enn einni gjaldþrotahrinunni að halda. Það hryggir mig að heyra að þetta hafi verið tekið í burtu. (Gripið fram í.) Þetta er ekki rétt. Var ekki tekið burt bráðabirgðaákvæðið sem Jóhanna setti á í fyrra? (Gripið fram í: Jú.) Jú, það er víst rétt. Ég segi nei.



[11:48]
Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ef þetta frumvarp verður að lögum er enn þá frekar hallað á tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Vegna kostnaðarauka sveitarfélaganna er áætlað að um 400 millj. kr. verði færðar frá sveitarfélögunum og til ríkisins. Hæstv. ríkisstjórn hefur svo sem áður fært tekjur frá sveitarfélögunum yfir til ríkisins og ég minni á að þegar tryggingagjaldið var hækkað 1. júlí færði ríkisvaldið 2 milljarða kr. frá sveitarfélögunum og því finnst mér mjög dapurlegt að menn skuli enn og aftur endurtaka það. Einnig árétta ég að umsagnarfrestur við gerð þessa frumvarps hjá hagsmunaaðilum var einungis þrír dagar. Ég tel vinnubrögðin við þetta frumvarp alls ekki nægilega góð og hvet hæstv. ríkisstjórn til að breyta þessu háttalagi hér eftir og láta kostnaðarreikna öll frumvörp þannig að það liggi alveg fyrir hversu miklar tekjur eru færðar frá sveitarfélögum til ríkisins. Ég segi nei.



[11:49]
Guðmundur Steingrímsson (F):

Herra forseti. Um leið og ég lýsi yfir stuðningi mínum við þetta mál vil ég líka segja að það er mjög mikilvægt að farið verði í aðgerðir til að koma í veg fyrir að námsmenn verði í stórum stíl framfærslulausir á sumrin. Ég tek hins vegar undir það meginsjónarmið að námsmenn eiga að sækja framfærslu sína til námsmannakerfisins eða til vinnumarkaðarins en ekki til Atvinnuleysistryggingasjóðs í námshléum.

Svo er líka mikilvæg forsenda stuðnings míns að í meðförum nefndarinnar var ákvæðum breytt þannig að eftir breytingar lenda ekki þessar miklu fjárhæðir á sveitarfélögunum eins og aðrir hv. þingmenn halda að frumvarpið feli í sér. Því hefur verið breytt.

Önnur mikilvæg forsenda stuðnings míns er að með þessu er auðvitað verið að skapa svigrúm til að fara í viðamiklar vinnumarkaðsaðgerðir (Forseti hringir.) fyrir ungt fólk, upp á 750 millj. kr. er gert ráð fyrir í fylgigögnum þessa frumvarps, (Forseti hringir.) og það er forsenda þess að ég styð málið.



[11:50]
félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Mál þetta hefur verið unnið í mjög mikilli samvinnu við hagsmunaaðila (Gripið fram í: Rangt.) og síendurteknir fundir farið fram (Gripið fram í: Rangt.) með þeim um þetta mál. (Gripið fram í: Þetta er rangt. … ljúga.) og — (Forseti hringir.) Get ég fengið að flytja hér atkvæðaskýringu án frammíkalla? (Gripið fram í: … hann segi ekki satt.) (BÁ: Þú hefur nú ekki einkarétt á …)

(Forseti (ÁÞS): Forseti biður (Gripið fram í.) hv. þingmenn að gefa ráðherranum tækifæri til að gera grein fyrir atkvæði sínu. )

Virðulegi forseti. Það voru haldnir ítrekaðir fundir með hagsmunaaðilum um þetta mál og líka með sveitarfélögunum. Við meðferð málsins í þinginu höfum við brugðist við öllum athugasemdum sem geta leitt til viðbótarkostnaðar fyrir sveitarfélögin. Það eina sem eftir stendur er sumarframfærsla námsmanna sem skuldbinding liggur fyrir um að fara yfir með okkur og sveitarfélögunum í framhaldinu. Hér eru engar breytingar gerðar á rétti einyrkja til atvinnuleysisbóta. Þar á eru engar breytingar gerðar. (Forseti hringir.) Það er sett hámark á þann tíma sem sjálfstætt starfandi einstaklingar (Forseti hringir.) geta haldið virðisaukaskattsnúmeri sínu opnu (BirgJ: Tveir mánuðir.) og haldið rekstri — þrír mánuðir — (Gripið fram í.) (Forseti hringir.) opnum samhliða því að vera á bótum. Það er það eina sem er gert. Þetta snertir (Forseti hringir.) með engum hætti rétt einstaklinga til atvinnuleysisbóta.