139. löggjafarþing — 52. fundur
 17. desember 2010.
ráðstafanir í ríkisfjármálum, frh. 2. umræðu.
stjfrv., 200. mál (breyting ýmissa laga). — Þskj. 217, nál. 566, 570 og 572, brtt. 567 og 576.

[18:33]
Kristján Þór Júlíusson (S):

Forseti. Við ræðum hér frumvarp um ráðstafanir í ríkisfjármálum og fyrir liggur nefndarálit frá 1. minni hluta skattanefndar. Fulltrúar okkar í þeirri nefnd, hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson og Pétur H. Blöndal, hafa unnið það fyrir hönd sjálfstæðismanna og eins og þingheimur þekkir eru þar ágætir og vel hæfir einstaklingar á ferð í þeim málum sem um ræðir. (Gripið fram í.)

Ég vil nefna í þessari stuttu ræðu að það hefur legið lengi fyrir hver afstaða okkar sjálfstæðismanna til þessara mála er og við höfum boðið upp á aðra leið en þá sem stjórnarmeirihlutinn vill fara til að taka á í fjármálum ríkissjóðs. Hann vill fara leið skattahækkana og niðurskurðar og við höfum haldið því fram að það sé ákveðinn vítahringur sem er mjög hætt við að menn geti fest inni í.

Með því fjárlagafrumvarpi og bandormi sem hér liggur fyrir er að hefjast þriðja hrina skattahækkana þessarar ríkisstjórnar. Í raun má halda því fram að þegar þau áform sem birtast í frumvarpinu eru fullnustuð á árinu 2011 megi gera ráð fyrir að skattbyrði ásamt álögum í tengdum gjöldum frá árinu 2009 þegar þessi ríkisstjórn tók við, hafi aukist um vel á annað hundrað milljarða á þessum tíma og þykir öllum nóg um.

Ég minnist þess frá því að ég var tiltölulega ungur maður að eitt sinn var búin til sú persóna í sjónvarpsþætti um áramót, í áramótaskaupinu svokallaða, sem fékk heitið Skattmann. Ég held að hann sé enn við lýði og hafi gengið mismunandi ljósum logum allt síðan þá. (MÁ: Hver?) Hver? spyr hv. þm. Mörður Árnason. Ég held að við séum nú að endurnýja kynnin við þann ágæta einstakling sem Skattmann er. Hann er þjóðsagnapersóna og þær eru raunar miklu fleiri. Það er líka til lýsing á öðru fyrirbæri í þjóðtrú Íslendinga sem er jólakötturinn og það er margt líkt með jólakettinum og Skattmanni. (Utanrrh.: Svo eru líka til villikettir.) Ég er ekki að ræða um villiketti núna, hæstv. utanríkisráðherra. Mér eru kettir hugleiknir þessa dagana (PHB: Heimiliskettir.) en ég ætlaði að upplýsa hæstv. utanríkisráðherra — sem sumir vilja stundum kalla hefðarkött en ég hef nú allt aðra reynslu af honum en þá. Ég ætla að upplýsa hv. þingmenn um samlíkinguna við jólaköttinn í kveðskap Jóhannesar skálds úr Kötlum en það er undarlega góð samlíking og mikil samsvörun á milli kattarins og þeirra aðferða sem Skattmann beitir, þeirra áhrifa sem hann hefur á afkomu fólks. Ég vil draga það saman í örfáum orðum því að áherslur okkar sjálfstæðismanna hafa komið mjög skýrt fram í umræðu um fjárlög og nú þau frumvörp sem koma fram til breytingar á sköttum. Varðandi Skattmann á hann það sammerkt með jólakettinum í kveðskapnum að fólk vissi ekkert hvaðan hann kom eða hvert hann var að fara. Þó var eitt víst, hann var ýmist uppi í dal eða úti um nes og sveimaði soltinn og grimmur í sárköldum jólasnæ og svo vakti hann í hjörtunum hroll á hverjum bæ.

Þetta er kannski ekki það versta því að í umræðum hefur komið fram, sumir halda því fram, að skatturinn leggist sérstaklega á þá sem betur standa en hér hefur verið upplýst að svo er ekki. Hann leggst í rauninni á alla landsmenn sem greiða skatt og þar lætur nærri að um sé ræða um 200 þús. einstaklinga. Í kvæðinu segir, með leyfi forseta:

Hann lagðist á fátæka fólkið

sem fékk enga nýja spjör

fyrir jólin, og baslaði og bjó

við bágust kjör.

Frá því tók hann ætíð í einu

allan þess jólamat

og át það svo oftast nær sjálft

ef hann gat.

Ég er þeirrar skoðunar að sú stefna sem verið hefur við lýði undanfarin tvö ár og ætlunin er að framlengja, beri í sér sömu áhrif og jólakötturinn getur haft, fyrir atvinnulíf og afkomu landsmanna. Ég er þeirrar skoðunar að nóg sé að gert í þessum efnum.

Menn hafa stundum tiltekið einstaka skatta sem þeir vilja fara í gegnum og það er vel hægt. Ég er hins vegar þeirra skoðunar að fulltrúar okkar í efnahags- og skattanefnd ásamt öðrum þingmönnum Sjálfstæðisflokksins hafi komið þeim sjónarmiðum ágætlega á framfæri. Ég ætla að nefna í lok ræðu minnar eitt örstutt dæmi um áhrifin af þeirri skattheimtu og aðferðum sem gleðja stjórnarmeirihlutann svo mjög en það lýtur að skattlagningu áfengis og tóbaks, þ.e. vörugjald á áfengi og tóbak. Það er tvíþætt, annars vegar er um að ræða skattlagningu á heimamarkaði, eins og hv. formaður efnahags- og skattanefndar, Helgi Hjörvar, gat um í framsögu sinni með frumvarpinu, þar sem er 1% lagt á sterkt áfengi, 4% á bjór og léttvín og síðan 7% á tóbak. Hins vegar eru uppi áform um að skattleggja sérstaklega þessar vörutegundir í Fríhöfninni, 10% á áfengi og 40% á tóbak.

Það er augljóst hvaða áhrif það mun hafa. Með þessum skatti flytjum við klárlega þessa verslun úr Fríhöfninni á Íslandi og það mun bíta í skottið á sér. Við erum bara að flytja störf úr landi. Ég held raunar að með þeirri skattlagningu sem við erum búin að sjá staðfesta af stjórnarmeirihlutanum, og ekki síst ef þetta verður að veruleika, færum við neyslumynstrið til, þ.e. út á aðra fleti en það hefur verið á hingað til og ég vara við því. Ég held að þetta sé komið að ákveðnum mörkum. Við sjáum í nýlegri könnun sem gerð var í aldurshópnum 16–24 ára að á milli 40 og 50% þátttakenda vissi um bruggun á landa, 40% þátttakenda í þessum aldurshópi hafði neytt landa. Þá er ótalið það sem við höfum engar upplýsingar um sem er smygl á þessum vörutegundum til landsins. Ég held því að við þurfum, hvort sem okkur líkar það betur eða verr, að taka það með í umræðuna sem fram fer um þessar mundir.

Ég get ekki lokið ræðu minni öðruvísi en að minna hv. þingmenn á hvernig skattfé er ráðstafað. Þó að það sé örlítið brot langar mig að nefna lítið dæmi sem er jólakort til þingmanna sem okkur barst með póstinum í dag eða gær frá fyrirtæki sem enn er ekki stofnað en er á framfæri opinberra aðila og þar með eru nýttar í það skatttekjur. Það er tónlistarhúsið Harpa. (PHB: Ekki í fjárlögunum.) Hún er ekki fjármögnuð. Það er fyrirtæki sem á eftir að fá enn meira fé frá okkur, er ekki tekið til starfa með neinum þeim hætti að það sé farið að skila einhverjum tekjum inn í ríkissjóð og því síður í borgarsjóð. Ég vil nota það sem áminningu til okkar allra um að við eigum og hljótum að gera kröfu til okkar sjálfra um að standa betur að hlutunum en þar var gert. Það nefni ég sérstaklega í því samhengi að við erum enn að ræða framkvæmdir á vegum ríkissjóðs sem við ætlum að setja í svipaðan farveg og þetta verkefni. Ég ætla því að gera þetta annars ágæta jólakort að áminningu til okkar allra.



[18:43]
Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum fyrir næsta ár. Eins og hæstv. fjármálaráðherra sagði þegar hann mælti fyrir þessum bandormi eins og hann kallaði þetta frumvarp, sem ég hef reyndar kallað kyrkislöngu, þá væri þetta bara smáuppsóp af því sem ætti eftir að gera því að menn hefðu jú farið á síðasta ári, eins og við munum öll eftir, í þær tekjuáætlanir og skattahækkanir sem menn töldu og stjórnarmeirihlutinn telur nauðsynlegar til að ná niður halla ríkissjóðs.

Ég var vissulega verulega hugsi yfir því, virðulegi forseti, vegna þess að þetta litla sem hæstv. fjármálaráðherra mælti fyrir sem á að skila um 11 milljörðum í ríkissjóð minnkar ráðstöfunartekjur heimilanna um 9 milljarða. Það er bara smotterí, ráðstöfunartekjur heimilanna minnka um 9 milljarða vegna þess frumvarps sem við ræðum hér sem er að áliti hæstv. fjármálaráðherra og stjórnarmeirihlutans smáuppsóp. Því til viðbótar eða í ofanálag hækka skuldir heimilanna um tæpa 3 milljarða. Núna hafa aðgerðir ríkisstjórnarinnar í skattamálum hækkað skuldir heimilanna á árinu 2010 og það sem hún mun gera á árinu 2011 um 18 milljarða, hvorki meira né minna. Þetta eru engar smátölur. Og síðan er ríkisstjórnin að baksa við að koma til móts við heimilin í landinu þannig að fólkið geti séð sér farborða og þá er þetta alltaf gert á móti. Það virðist aldrei vera hugsað í heildarmyndinni hvernig í raun og veru er hægt að hjálpa fjölskyldunum til að sjá fyrir sér sjálfar. Við ræddum um vaxtabætur hér og þær voru afgreiddar í fjárlögunum í gær upp á um 6 milljarða plús 1,9 milljarðar sem var búið að skerða í frumvarpinu, sem var mjög sérkennilegt vegna þess að í fjáraukalögunum voru samþykktir tæpir 2 milljarðar til viðbótar í vaxtabætur vegna þess að þær voru vanáætlaðar. Hvernig stóð á því? Jú, ástæðan fyrir því að bæta þurfti í vaxtabæturnar í fjáraukalögum var sú að ráðstöfunartekjur heimilanna höfðu minnkað og skuldirnar höfðu hækkað. Þetta er akkúrat afleiðing af skattpíningarstefnu ríkisstjórnarinnar, þ.e. annars vegar að hækka skattana og minnka ráðstöfunartekjurnar og hins vegar að auka skuldirnar. Þetta er mjög varhugavert, virðulegi forseti.

Það sem veldur mér vonbrigðum og áhyggjum sérstaklega er að það virðist ekki kvikna á aðvörunarljósunum hjá hæstv. ríkisstjórn og stjórnarmeirihlutanum sem greinilega blasa við. Við erum að sjá tekjuskatt einstaklinga, upp á hann vantar 5,1 milljarð á árinu 2010 þrátt fyrir að atvinnuleysi sé minna en gert var ráð fyrir í frumvarpinu 2010, sem munar einu prósenti. Ég hef verulegar áhyggjur af þessu. Ég tel að skýringin liggi fyrst og fremst í því að fólk er að flytja úr landi sem er afleiðing svona skattstefnu og þetta er oft og tíðum mjög verðmætt fólk sem er að fara úr landi þó að allir séu að sjálfsögðu jafnverðmætir, en þetta er oft fólk sem hefur gríðarlega þekkingu og hefur gengið menntaveginn sem er að flytja úr landi og er mannauður, og af því hef ég verulegar áhyggjur.

Eins held ég líka að sveigjanleikinn sem er í vinnumarkaðnum sé vanmetinn, þ.e. ef verið er að lækka laun um 10% með því hugsanlega að segja upp 10% af starfsmönnunum, og við höfum nú séð mörg dæmi um það, þá eru viðbrögðin á vinnustöðunum oft þau að fólkið í heild vill frekar taka á sig 10% launalækkun til þess að verja störf hinna þannig að ekki þurfi að segja neinum upp. Við sjáum hvað það þýðir, það þýðir að sjálfsögðu að það „blöffar“ atvinnuleysistölurnar að því leyti til að þá missa ekki 10% af fólkinu vinnu heldur lækkar það í launum og skatttekjurnar minnka í reyndinni.

Við höfum hins vegar talað mjög skýrt fyrir því, sjálfstæðismenn, að fara aðra leið, að fara í séreignarsparnaðinn, taka skattinn af honum með eingreiðslu eða einskiptisaðgerð, sem er mjög einföld aðgerð og mun ekki hafa nein áhrif á þá einstaklinga sem greiða skattinn vegna þess að þetta er frestun á skatttekjum. Það þýðir 80 milljarða fyrir ríkissjóð og er ekki síður mikilvægt að sveitarfélögin eiga þar um 40 milljarða, og við höfum talað fyrir því, þingflokkur sjálfstæðismanna, að það verði einmitt notað hjá sveitarfélögunum til að greiða niður skuldir og laga til í rekstri því að ekki er vanþörf á því.

Ég vil líka, virðulegi forseti, minnast aðeins á eitt sem olli mér miklum vonbrigðum í gær þegar greidd voru atkvæði um tillögur okkar sjálfstæðismanna um að það þyrfti að auka við aflaheimildir. Mér er eiginlega alveg óskiljanlegt þegar svigrúm er til þess að bæta við aflaheimildir að það skuli ekki vera gert. Það skapar að sjálfsögðu tekjur og það skapar störf og ef við þurfum ekki á því að halda núna, hvenær þá? Það er alveg hreint með ólíkindum að hafa hlustað hér á marga hv. þingmenn taka undir að þetta sé gert og síðan þegar greidd eru atkvæði um að gera það er sannfæringin ekki meiri en svo að þá bregðast menn og greiða ekki atkvæði með því að fara í slíka aflaaukningu og finna sér alls konar ástæður fyrir því sem er alveg ótrúlegt að hlusta á.

Þegar við afgreiddum fjáraukalögin blasti við okkur minnsta fjárfesting í sögu lýðveldisins, mesti samdráttur í fjárfestingu í sögu lýðveldisins. Hvers vegna skyldi það vera? Það er vegna þess að fyrirtækin hafa ekki neitt bolmagn til þess að fara í neinar fjárfestingar. Hvað þýðir það þegar menn setja á eins og t.d. tryggingagjaldið, sem er náttúrlega bara skattur á atvinnu og það vita allir. Mér finnst það grátbroslegt og háalvarlegt mál, virðulegi forseti, vegna þess að þegar tryggingagjaldið var hækkað til að greiða fyrir atvinnuleysið sem varð í kjölfar efnahagshrunsins brugðust einmitt fyrirtækin og samtök þeirra þannig við að þau gerðu ekki alvarlegar athugasemdir við að tryggingagjaldið yrði hækkað til að standa undir atvinnuleysisbótunum. Síðan þegar atvinnuleysið er minna en reiknað var með er mér algjörlega óskiljanlegt af hverju það er þá ekki greitt til baka, því að eins og þetta er í dag renna upp undir 3 milljarðar í ríkissjóð af í raun og veru ofteknu tryggingagjaldi sem væri mun skynsamlegra að nýta til að byggja upp atvinnu og skapa störf, til að fyrirtækin geti farið að fjárfesta. Hún er alveg hreint með ólíkindum sú ákvörðun ríkisstjórnarinnar að vera með undirstöðuatvinnuveginn, sjávarútveginn, í uppnámi vegna stefnuleysis og gera sér ekki grein fyrir því að undirstöðuatvinnuvegur þjóðarinnar er ekki í neinum fjárfestingum út af óvissu um framtíðina, fyrir utan hvaða áhrif það hefur á markaðsmálin að nú geta menn ekki lofað samningum eins langt fram í tímann og fengið hærra verð fyrir afurðirnar. Nei, allt skal gert til þess að koma að einhverjum pólitískum hugmyndasigrum og það er allt réttlætt með hruninu, alveg sama hvort það eru skattpíningarnar eða annað, það er allt út af hruninu, það er réttlætt með því.

Af því að ég var að ræða um tryggingagjaldið, virðulegi forseti, eru það náttúrlega mikil afrek sem ríkisstjórnin hælir sér af og hún telur sér trú um að séu afrek, og ég ætla ekki að gera lítið úr því sem hefur náðst í bata á hallanum á ríkissjóði, ég ætla ekki að gera lítið úr því, en mig langar að rifja aðeins upp hvernig það er gert. Nú hefur ríkisstjórnin og stjórnarmeirihlutinn tekið þá ákvörðun að láta sveitarfélögin fara í niðurskurðinn eins og er verið að vera að gera um allt land. Ríkið hirðir síðan um 3 milljarða af sveitarfélögunum í ríkissjóð og menn gorta sig svo af því að það gangi rosalega vel og þeir séu að ná hér miklum árangri. En það væri kannski sanngjarnt að skoða það í ljósi þess hvernig þetta er gert. Að taka núna af sveitarfélögunum í landinu 3 milljarða inn í ríkissjóð er ekki afrek að mínu mati, það er til háborinnar skammar. Og að það skuli ekki hafa verið klárað við lokaafgreiðslu fjárlaganna að rétta af a.m.k. seinni hluta hækkunarinnar á tryggingagjaldinu sem var í byrjun árs 2010, það var víst nógu mikið högg fyrir sveitarfélögin að fá fyrri hækkunina, nei, það er ekki gert.

Bara til að rifja það upp, virðulegi forseti, þá brugðust sveitarfélögin, flestöll, mjög hratt við efnahagshruninu árið 2008 og fóru í mjög massífan niðurskurð strax á árinu 2009 við mikla erfiðleika og við miklar mótbárur frá íbúunum eins og gefur að skilja, þetta voru ekki vinsælar ákvarðanir, ekki frekar en það sem stjórnarmeirihlutinn þarf að verja á þessum tímum. Þetta var þurrkað út með einu pennastriki í júnímánuði, allt sem sveitarfélögin voru búin að hagræða með fyrri hækkun tryggingagjaldsins var tekið frá sveitarfélögunum og fært inn í ríkissjóð. Þetta er mjög óréttlátt. Við verðum að gera okkur grein fyrir því að staða sveitarfélaganna margra hverra, ekki allra, er mjög bágborin um þessar mundir. Það liggur líka fyrir að á næsta ári munu tekjur sveitarfélaganna rýrna um 7 milljarða. Og nú er svo komið, virðulegi forseti, að mörg sveitarfélög, og það kom fram á fundi fjárlaganefndar, munu eftir að þau þurfa að standa skil á tryggingagjaldi til ríkissjóðs þurfa að fara nánast inn í grunnþjónustuna til að mæta niðurskurðinum. Það gerist með þeim hætti að það verður hætt við að niðurgreiða skólamáltíðir, það verður tekið af leikskólunum af því að þeir eru ekki lögbundnir, það verður … (PHB: Og sérkennslan.) Já, sérkennslan, segir hv. þm. Pétur H. Blöndal, alveg rétt ábending, tónlistarskólarnir og þar fram eftir götunum. Þannig að það er mikið hrós.

Mig langar líka að rifja það upp, virðulegi forseti, sem gerðist þegar við vorum að ræða fjáraukalögin núna. Þar komu fram skekkjur í svokölluðum bótaflokkum, þ.e. til ellilífeyrisþega og öryrkja. Þar voru tilfærslur upp á 4 milljarða sem ríkisstjórnin hefur væntanlega gert ráð fyrir að hefðu minni áhrif, aðgerðir sem ríkisstjórnin fór í á árinu 2009, en þær ráðstafanir sem reiknað var með út af allri þeirri flækju sem þar er, og við teljum mjög mikilvægt og nauðsynlegt að menn skoði í heild sinni, skerða hjá ellilífeyrisþegum og öryrkjum 4 milljörðum meira en ráð var fyrir gert. En til þess að vera sanngjarn og halda öllu til haga var ég mjög ánægður með að meiri hluti fjárlaganefndar lagði fram tillögu um að bæta upp þessa bótaflokka um 2,3% á næsta ári sem eru um 350 milljónir á árinu 2011. Það var skref í rétta átt en það var þó bara hænufet.

Þessu til viðbótar, þegar við tölum um árangur ríkisstjórnarinnar í skattpíningarstefnunni, samdi ríkisstjórnin við stóriðjufyrirtækin á síðasta ári og tók af þeim 3,6 milljarða í fyrir fram greidda skatta fyrir árin 2011, 2012 og 2013, þ.e. það er verið að greiða skatta fyrir framtíðina, fyrir árin 2011, 2012 og 2013. Það mun að sjálfsögðu þurfa að greiðast til baka þegar þessu kjörtímabili lýkur, og ég vona innilega, virðulegi forseti, að ríkisstjórnin lifi ekki allt kjörtímabilið, að hún verði hætt áður til hagsældar fyrir þjóðina í heild, en þetta er eigi að síður þannig að þá þarf að standa skil á þessu. Það er einn hluti af því sem við sjáum hér.

Og þessu til viðbótar hafa menn alltaf verið að tala um að árangurinn hafi farið fram út björtustu vonum miðað við þær forsendur sem voru gefnar. Þá er rétt að rifja upp að þegar menn voru að setja sér forsendur strax í kjölfar efnahagshrunsins 2008 voru menn kannski ekki með þetta alveg á hreinu eins og gefur að skilja og voru frekar að giska í þeim óróleika sem var þá. Það er ekki þar með sagt, þó svo að þær ágiskanir hafi verið með þeim hætti, að það endurspegli endilega þann mikla árangur sem ríkisstjórnin hefur náð. Því til viðbótar hafa allar hagvaxtarspár verið niður á við eftir að ríkisstjórnin tók við. Enda er ekki um það deilt að þessi hæstv. ríkisstjórn hefur ekki skapað nein störf eða liðkað til fyrir því að það verði gert nema kannski á síðustu dögum þar sem menn eru að samþykkja frumvörp eftir að búið var að beita töngum á annan stjórnarflokkinn til að koma því í gegn. Það verður að viðurkennast, virðulegi forseti, að það hafa kannski verið aðgerðir Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar sem hafa orðið til þess að ákveðinn flokkur hér hefur þurft að bakka með ýmislegt sem hefur orðið til þess að menn hafa komið miklum þjóðþrifaverkum af stað eða það horfir til þess.

Virðulegi forseti. Ég ætla svo sannarlega að vona — það eru nefnilega mjög miklar efasemdir, mikil hætta á því á næsta ári að tekjuhlið fjárlagafrumvarpsins, sem við erum að sjálfsögðu að ræða hér að hluta til, sé mjög veik. Við erum með 37 milljarða halla á fjárlögunum fyrir árið 2011 og ef Icesave-samningunum lýkur eru það um 23 milljarðar og þá eru við komin í 60 milljarða. Gangi síðan eftir spá Evrópusambandsins um 0,7% hagvöxt mun það þýða um 25–27 milljarða minni tekjur fyrir ríkissjóð. Þá erum við komin upp í 85–90 milljarða í halla á ríkissjóði á næsta ári og það er grafalvarlegt mál. En auðvitað vona ég svo sannarlega að það reynist ekki rétt sem Evrópusambandið spáir en ég verð þó að rifja upp að hér eru margir hv. þingmenn sem taka allt sem heilagan sannleika sem kemur frá Evrópusambandinu. Maður átti því kannski von á að sumir hv. þingmenn og hæstv. ráðherrar mundu hugsanlega flytja breytingartillögur til að aðlaga fjárlagafrumvarpið að þeirri efnahagsspá sem framkvæmdastjórn Evrópusambandsins gerði.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu frekar. Ég er búinn að fara yfir það sem mér finnst skipta mestu máli og vona svo sannarlega og innilega að þetta gangi eftir sem upp er lagt með á næsta ári.



[19:00]Útbýting:

[19:00]
Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla að leggja nokkur orð í belg um það frumvarp sem er til umfjöllunar, frumvarp til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum, úr því að ég gat því miður ekki af óviðráðanlegum ástæðum tekið þátt í 2. umr. um þetta mál (HHj: 1. umr.) — 1. umr., afsakið, leiðréttir hv. þm. Helgi Hjörvar mig, þegar það var hér til umfjöllunar en fylgdist ágætlega með umræðunni og sá nokkuð vel stefnur og strauma hjá hv. þingmönnum hvað varðar sjónarmið sem lúta að efni þessa frumvarps og reyndar annarra frumvarpa í þeim bandormum sem liggja fyrir.

Það má í rauninni segja að himinn og haf hafi verið á milli annars vegar talsmanna ríkisstjórnarflokkanna og hins vegar fulltrúa okkar sjálfstæðismanna sem tóku þátt í umræðunni. Það sést á frumvörpunum og því frumvarpi sem hér er til umfjöllunar að eitt kunna vinstri menn ákaflega vel og það er að hækka skatta. Það hefur í gegnum söguna aldrei vafist mikið fyrir þeim að ráðast í skattahækkanir, bæði gagnvart fólki og ekki síður fyrirtækjum, og þá munar ekki um það þegar þetta frumvarp er annars vegar. Mér telst til við lauslega skoðun á frumvarpinu og þeim gögnum sem fyrir liggja í þinginu að með því sé verið að leggja til að skattar á fólk og fyrirtæki verði hækkaðir í kringum 10 milljarða kr. — 10 milljarða kr. skattahækkun er það sem boðað er í frumvarpinu. Þá veltir maður fyrir sér: Hvernig dettur þeim mönnum sem mæla fyrir þessu frumvarpi í hug að leggja slíkt til? Það er ekki eins og allt gangi vel hjá heimilum í landinu og það er heldur ekki eins og fyrirtæki landsins séu á grænni grein. Þá geta menn að mínu mati ekki látið eins og mikið sé til skiptanna.

Staðreyndin er sú að á síðasta kjörtímabili hækkaði hæstv. núverandi ríkisstjórn skatta á einstaklinga og fyrirtæki í stórum stíl og nú stefnir allt í að hæstv. fjármálaráðherra Steingrímur J. Sigfússon muni marka sér þann sess í stjórnmálasögunni að verða sá fjármálaráðherra sem hefur gengið hvað lengst í skattahækkunum, a.m.k. sl. áratugi.

Ég hefði talið, eins og félagar mínir úr Sjálfstæðisflokknum sem hafa fjallað um þessi mál, að það hefði verið skynsamlegri stefna af hálfu ríkisstjórnarinnar við þær erfiðu aðstæður sem nú eru uppi í efnahagslífinu að reyna frekar að létta undir með fólki og fyrirtækjunum til þess að keyra neysluna og hjól atvinnulífsins í gang á nýjan leik. En það er auðvitað ekki þannig, það á að þjarma enn frekar að fólkinu í landinu og fyrirtækjum sem þó berjast i bökkum. Ég held að það hafi verið hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson sem lýsti því svo ágætlega þegar hann var að fjalla um frumvarpið sem við ræðum og setti það í samhengi við önnur frumvörp frá hæstv. ríkisstjórn sem varða skattlagningu og gjaldtöku á fólk og fyrirtæki í landinu að þegar saman kæmu tveir bandormar, eins og þeir sem eru á dagskrá í dag, yrði til kyrkislanga. Það er auðvitað það sem hér er á ferðinni. Með þeim ráðstöfunum í ríkisfjármálum sem þessi frumvörp mæla fyrir um, ef þau ná fram að ganga, hafa þau auðvitað kyrkingaráhrif á fólkið í landinu, ráðstöfunartekjur þess og kaupmátt, og sömuleiðis á fyrirtækin. Í mínum huga er alveg ljóst að sú stefna sem hér er fylgt, stefna skattahækkunar og í raun skattpíningar, er kolröng við þær aðstæður sem nú eru uppi.

Þegar maður blaðar í frumvarpinu rekur maður augun í ýmislegt eins og þær forsendur sem talsmenn þess gefa sér. Talsmenn ríkisstjórnarinnar og þeir sem koma að málum með hæstv. fjármálaráðherra virðast bara gera ráð fyrir því að þegar skattar eru hækkaðir þá aukist tekjur ríkissjóðs „no matter what“, eins og sagt er — ég biðst afsökunar á þessari enskuslettu, virðulegi forseti. Það er eins og menn sitji fyrir framan tölvuna með excel-skjal og sjái tekjur ríkissjóðs hækka eftir því sem skattprósentan verður hærri án þess að taka með inn í reikninginn að þegar skattar eru hækkaðir bregðast auðvitað þeir sem þurfa að greiða skattana við. Ef skattar á eldsneyti eru hækkaðir óheyrilega (Gripið fram í: Eða vín.) — eða brennivínið eða hvað það er sem lagt er til — hefur það auðvitað þau áhrif að bíleigandinn keyrir minna. Mér sýnist höfundar þessa frumvarps ekki hafa tekið þann þátt málsins inn í reikninginn. Þetta er eins og skákmaður sem situr við taflborðið og hreyfir hvítu mennina en gerir ekki ráð fyrir því að neinn sé að tefla á móti honum til að færa þá svörtu. Það er mikill galli á frumvarpinu að mínu mati og forsendum þess að ekki sé gert ráð fyrir því að hærri skattar hafi áhrif á tekjuöflunina.

Það er fleira í frumvarpinu sem er að sínu leyti sárgrætilegt að mínu mati. Ég sagði það einhvern tíma hér í umræðu um skattamál að skattstefnu núverandi ríkisstjórnar mætti lýsa svo að þeir skattar sem fyrir eru væru hækkaðir, nýir síðan fundnir upp og dauðir skattar sem búið væri að afnema gengju aftur. Það má segja um hinn svokallaða auðlegðarskatt sem lagt er til að verði lagður á og mér sýnist að hann eigi að skila ríkissjóði 1.500 millj. kr. í auknar tekjur, 1,5 milljörðum kr., ef ég skil frumvarpið rétt. Þetta er gamli eignarskatturinn sem nú hefur verið gefið nafnið auðlegðarskattur til þess að láta skattheimtuna líta betur út, reyna að sannfæra almenning um að (Gripið fram í.) norræna velferðarstjórnin gangi ekki að öðrum en þeim með breiðu bökin. (Gripið fram í: Formueskat.) „Formueskat“ er hér kallað fram í, einmitt. Ætli það sé ekki danska heitið á þessum auðlegðarskatti en þetta er auðvitað ekkert annað en eignarskattur og snýr ekki eingöngu að breiðu bökunum, ríka fólkinu, sem hæstv. ríkisstjórn segist ætla að skattleggja með þessum hætti.

Hér hefur verið farið yfir að tíundin gamla er elsti skattur Íslandssögunnar og honum var komið á fyrir — ætli það séu ekki að verða í kringum þúsund ár síðan tíundin var hér lögð á? Hún fékk síðar annað nafn, eignarskattur. Eignarskattur er að mínu mati einhver sá ósanngjarnasti skattur sem innheimtur hefur verið af hálfu stjórnvalda og úr því að hann leggst á eignir en ekki tekjur er hann í rauninni ígildi eignaupptöku. Þar fyrir utan leggst hann ekki bara á auðmenn landsins heldur hefur reynslan sýnt að þessi skattur hefur í gegnum tíðina komið sérstaklega illa niður á eldra fólki, gamla fólkinu, sem hefur lágar tekjur en er með ævisparnað sinn bundinn í eignum og þá í fasteignum. Það er þetta fólk sem þarf að standa undir eignarskattinum sem er í frumvarpinu kallaður auðlegðarskattur.

Við sjálfstæðismenn lögðum okkur mikið fram við að lækka þennan eignarskatt þegar við vorum í ríkisstjórn og á endanum tókst okkur að afnema hann, leggja hann niður. En því miður snýr hann núna aftur eins og afturganga og norræna velferðarstjórnin svokallaða áætlar að hann muni skila 1,5 milljörðum kr. í ríkiskassann. Það sama má segja um erfðafjárskattinn. Við gerðum verulegar breytingar á erfðafjárskattinum þegar við sjálfstæðismenn vorum við völd. Erfðafjárskatturinn hafði lengi verið geysilega hár en við lækkuðum hann verulega og áhrifin voru þau að hann fór skyndilega að skila miklu hærri tekjum inn í ríkissjóð en hann hafði gert áður þótt prósentan væri lægri.

Fjölmargt annað mætti nefna hér í tengslum við þetta frumvarp. Verið er að hækka áfengis- og tóbaksgjald og vörugjald á áfengi og tóbak. Frumvarpið mælir fyrir um kolefnisgjald. Ég fæ ekki betur séð en að bensíngjald, olíugjald og kílómetragjald verði hækkað og svo mætti lengi telja. Allt þetta kemur auðvitað illa fyrir kaupmátt og ráðstöfunartekjur heimilanna í landinu. En þessir skattar og þessi gjöld hafa ekkert annað en lamandi áhrif á atvinnustarfsemi í landinu.

Ég hef farið yfir það hér á þingi og sömuleiðis í greinum, bæði á heimasíðu minni og í dagblöðum, að ég furða mig á viðbrögðum ríkisstjórnarinnar við tilraunum íslenskra fyrirtækja til að auka umsvif sín sem skapa um leið störf fyrir fólkið í landinu og auknar tekjur fyrir þjóðarbúið. Þannig horfir málið við mér. Í hvert skipti sem glittir í atvinnusköpun á Íslandi virðist grípa um sig einhvers konar uppnám innan ríkisstjórnarinnar og maður gengur undir manns hönd til að koma í veg fyrir uppbyggingu og verðmætasköpun. Nægir þar að nefna atvinnuuppbyggingu og verðmætasköpun sem tengist gagnaverum. Þess sér líka stað í frumvarpinu varðandi áfengis- og tóbaksgjald og vörugjald á áfengi og tóbak. Mér sýnist hv. efnahags- og skattanefnd gera tillögu til breytinga á þeim þætti frumvarpsins að endurskoða auknar álögur á verslun í komuverslunum fríhafna. Það var ekki þannig í upphafi. Áform voru uppi um að leggja aukna skatta á Flugstöð Leifs Eiríkssonar á Keflavíkurflugvelli og þá sérstaklega á Fríhöfnina. Við það hefði Fríhöfnin misst sérstöðu sína. Uppi voru áform um að ná þeim tekjum sem fyrirhugaðar voru í gegn með þessari gjaldtöku eða skattheimtu með öðrum hætti og þá með því að hækka flugfargjöld eða hækka gjöld á komufarþega til landsins. Það gerði það að verkum að forsvarsmenn flugfélaganna hér sáu fram á að draga mundi úr eftirspurn erlendra ferðamanna til landsins vegna þess að þeir koma ekki hingað til að greiða hærri gjöld og skatta heldur sækjast þeir eftir öðru.

Sú tillögugerð sem birtist í frumvarpinu skapaði, a.m.k. þegar frumvarpið var lagt fram, þá hættu að t.d. fyrirtækið Icelandair var með hugmyndir um að hætta við að ráða í 200 ný störf innan félagsins sem hafði verið áformað að ráðast í vegna mikillar aukningar í áætlunarflugi og fjölgunar ferðamanna til Íslands. Hefði þessi skattlagning náð fram að ganga hefðu þessi 200 störf auk annarra afleiddra starfa á flugvellinum, svo sem hjá IGS, hjá fólki sem starfar við landamæravörslu og alla þjónustu á flugvellinum, verið í hættu eingöngu vegna þess að menn sátu fyrir framan tölvuskjáinn í fjármálaráðuneytinu með eitthvert excel-skjal og reiknuðu sig þannig upp að með því að leggja aukinn skatt á Fríhöfnina á Keflavíkurflugvelli væri hægt að kreista auknar tekjur upp á 1,5 milljarða kr. eða svo út úr flugvellinum og inn í ríkissjóð. Menn tóku ekki eftir afleiddum og afleitum áhrifum slíkrar skattlagningar.

Þetta eru ýmis atriði og dæmi sem ég vildi nefna í þessari umræðu. Ég vil hins vegar vekja athygli á því sem fram kemur í nefndaráliti 1. minni hluta hv. efnahags- og skattanefndar sem hv. þingmenn Tryggvi Þór Herbertsson og Pétur H. Blöndal rita undir. Þar fylgir með sem fylgiskjal tillaga til þingsályktunar um aðgerðir til að stuðla að sátt við heimilin, verja velferð með ábyrgum ríkisfjármálum, efla atvinnulífið og fjölga störfum. Þingsályktunartillagan felur í sér þær efnahagstillögur Sjálfstæðisflokksins sem voru lagðar hér fram í haust. Þar kemur fram stefnumörkun sem er allt annars eðlis en sú skattahækkunar- og, ég leyfi mér að segja, skattpíningarstefna sem sitjandi ríkisstjórn fylgir. Tillagan gengur út á að efla hér og auka hagvöxt, auka umsvifin í hagkerfinu, ýta undir neyslu og framleiðslu verðmæta til þess að koma bæði heimilum og fyrirtækjum í landinu á lappir á ný. Það er vonandi að við frekari vinnslu þessa máls eða í framtíðinni verði litið til þeirra sjónarmiða sem þar koma fram í auknum mæli en þau njóta því miður ekki mikils fylgis meðal ríkisstjórnarflokkanna eins og þetta ágæta frumvarp sýnir sem mælir fyrir um að lagðir (Forseti hringir.) verði nýir skattar á (Forseti hringir.) fyrirtækin og fólkið í landinu upp á 10 milljarða kr. Það mun ég ekki samþykkja.