139. löggjafarþing — 104. fundur
 31. mars 2011.
úrskurður kærunefndar jafnréttismála.

[10:52]
Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Fyrir viku komst kærunefnd jafnréttismála að niðurstöðu í kærumáli vegna ráðningar skrifstofustjóra í forsætisráðuneytinu. Niðurstaðan varð sú að forsætisráðherra hefði brotið í bága við jafnréttislög við þá ráðningu. Fréttir bárust af því í gær að kærandinn í því máli hefði átt fund með forsætisráðuneytinu um úrlausn mála en lítið hefði komið fram á þeim fundi. Þar á meðal segir kærandi í samtölum við fjölmiðla að ekki hafi verið um að ræða neitt útspil eða neitt tilboð af hálfu forsætisráðuneytisins til að bregðast við því broti sem um ræðir.

Nú er það svo að jafnréttislögin eru skýr um það að niðurstaða kærunefndar jafnréttismála er endanleg og bindandi. Ég vildi því spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort hún teldi ekki að forsætisráðuneytið og forsætisráðherra hefðu frumkvæðisskyldu í því máli að koma með eitthvert útspil til að bæta kæranda það tjón sem orðið hefur í málinu eða hvort hæstv. forsætisráðherra teldi að viðkomandi einstaklingur þurfi að sækja rétt sinn með skaðabótamáli fyrir dómstólum.



[10:54]
forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Það er rétt, sem hv. þingmaður segir, að forsætisráðuneytið hefur haft þetta mál til meðferðar frá því að úrskurður kærunefndar lá fyrir. Það er líka rétt að kærandi var boðaður til fundar í forsætisráðuneytinu í gær til að fara yfir stöðuna og hvað það væri sem forsætisráðuneytið hefði gert frá þeim tíma að úrskurðurinn féll.

Það er nú einu sinni svo að í svona máli er nauðsynlegt að forsætisráðuneytið leiti niðurstöðu eða álits hjá ríkislögmanni sem hefur verið með málið til skoðunar á umliðnum dögum. Ég hef ekki séð niðurstöðu hans að því er þetta mál áhrærir og ég held að sé það fyrsta að fara yfir álit ríkislögmanns í þessu efni. Í annan stað hefur verið skipuð nefnd, sem er náttúrlega óbeint tengd þessu, sem á að bera saman þá niðurstöðu og þær forsendur sem lágu til grundvallar hjá kærunefnd jafnréttismála og þá niðurstöðu sem lá til grundvallar þeirri ákvörðun sem var tekin um skipun í þetta embætti frá þeim sem um það mál fjölluðu, meðal annars mannauðsstjóra. Það er alveg ljóst að þarna eru mjög mismunandi forsendur lagðar til grundvallar annars vegar hjá kærunefnd og hins vegar hjá þeirri matsnefnd sem fór yfir þetta. Við erum að láta skoða það sérstaklega til að læra af þessum dómi og hvort ástæða sé til að breyta í stjórnsýslunni vegna ráðningarmála út frá þeim forsendum.

Ég vænti þess að niðurstaða geti legið fyrir fljótlega hvaða stefnu þetta mál mun taka. Það er alveg rétt að úrskurður kærunefndar er bindandi nema málið fari fyrir dómstóla og engin ákvörðun hefur verið tekin um það. (Forseti hringir.) Ég hef ekki myndað mér neina skoðun á því og mun ekki gera fyrr en álit ríkislögmanns liggur fyrir.



[10:56]
Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Það sem hæstv. forsætisráðherra segir snertir kannski tvö mál sem í sjálfu sér er hægt að skilja að. Annars vegar er það niðurstaða í því einstaka máli sem snýr að þessari tilteknu ráðningu sem hefur verið metin, af til þess bærum aðila, í bága við eða sem brot á ákvæðum jafnréttislaga. Hvernig ráðuneytið ætlar að bregðast við því — þar leitar hæstv. forsætisráðherra lögfræðilegrar ráðgjafar og er í sjálfu sér ekki hægt að gera athugasemdir við það. Það er hins vegar um að gera að það gerist hratt þannig að réttarstaðan skýrist í þeim efnum.

Ég vil hins vegar spyrja hæstv. forsætisráðherra nánar um það hvað hún á við með þessari nefnd sem á að fara yfir þessa úrskurði. Nú er ljóst að svoleiðis nefnd mun hvorki geta breytt niðurstöðu kærunefndar jafnréttismála né komist að einhverri annarri niðurstöðu efnislega. (Forseti hringir.) Er hæstv. forsætisráðherra fyrst og fremst að tala um að nefndin eigi að fjalla um það hvort efna eigi til einhverra lagabreytinga á þessu sviði?



[10:57]
forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Það er vissulega rétt að þessi nefnd breytir ekki neinu í þeim úrskurði sem kærunefnd kvað upp, það er alveg ljóst. Ég held að það sé ljóst að þetta er mjög sérstakt mál sem er tilefni til að stjórnsýslan læri af og að leitað sé skýringa á þeim mismunandi forsendum sem kærunefnd byggði á og síðan þessi mannauðsráðgjafi og það fólk sem var honum til aðstoðar sem var gjörólíkt mat — og ég er mjög hugsi yfir því hvaða forsendur eru lagðar til grundvallar.

Ef eitthvert vit á að vera í hlutunum þá verða að vera lagðar sömu forsendur til grundvallar hjá þeim sem ráða í störf í stjórnsýslunni og hjá úrskurðaraðilum eins og kærunefnd. Nefndin á að fara yfir þetta, það er þriggja manna nefnd sem fer yfir þetta. Ég vona að hún geti unnið fljótt og vel og skilað mér niðurstöðu á kannski viku til hálfum mánuði. Hún á að koma með ábendingar um það sem hægt er að læra af þessu (Forseti hringir.) og það sem betur má fara. Það er auðvitað ekki hægt að útiloka lagabreytingar í því skyni til að samræma það mat (Forseti hringir.) sem viðhaft er í stjórnsýslunni og hjá úrskurðarnefndum af þessu tagi.