140. löggjafarþing — 58. fundur.
yfirlýsing viðskiptaþings og fundur með forsvarsmönnum sveitarfélaga.

[10:34]
Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Nú fáum við fréttir af viðskiptaþingi sem haldið er árlega og koma margar athyglisverðar fréttir af því þingi. Hæstv. forsætisráðherra sá sér ekki fært að sitja þingið. En mig langar að spyrja hæstv. ráðherra. hvort hún hafi ekki áhyggjur af því viðhorfi sem fram kom í könnun sem gerð var í kringum viðskiptaþingið þar sem um 80% fólks í atvinnulífinu kvörtuðu yfir og lýstu í raun vantrausti á stjórnvöld. Er það ekki áhyggjuefni þegar stjórnvöld eru svo fjarlæg svo stórum þætti í íslensku samfélagi sem atvinnulífið er? Þarf forsætisráðherra ekki að bæta þarna úr og efla samskipti sín við atvinnulífið til að fyrirtækin í landinu hafi traust á stjórnvöldum til skemmri og lengri tíma?

Mig langar að leggja aðra spurningu fyrir hæstv. forsætisráðherra og hún varðar seinagang við svörun úr ráðuneytinu. Um miðjan nóvember sendu Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra bréf til hæstv. forsætisráðherra þar sem óskað var eftir fundi með ráðherranum til að ræða grafalvarlega stöðu þess svæðis sem samtökin starfa á. Forsætisráðherra hefur ekki séð sér fært að svara bréfinu eða verða við beiðni þeirra um fund. Mér er kunnugt um að ráðuneytið bauð stjórn SSV að funda með embættismönnum ráðuneytisins en um það var alls ekki beðið. Beðið var um fund með forsætisráðherra til að leggja þunga áherslu á alvarleika málsins. Það verður að segjast alveg eins og er, frú forseti, að það hljómar mjög undarlega ef forsætisráðherra hefur ekki haft færi á því frá því í nóvember að hitta forsvarsmenn eða stjórnendur þessara samtaka þar sem svo mikið liggur við, (Forseti hringir.) þ.e. hagur þessa landshluta.



[10:36]
forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Mér finnst það athyglisvert, af því að viðskiptaþing er nefnt hér, að það skuli vera ein aðalfréttin af því þingi að sú sem hér stendur hafi ekki getað mætt á það þing. Ég hef mætt á þrjú viðskiptaþing og hef leitast við að mæta þar þegar ég hef mögulega getað en í þetta skipti gat ég það ekki. En ég tek eftir því að það vakti mikla athygli, og ég er auðvitað mjög ánægð með það og djúpt snortin og hrærð yfir því, að mín hafi verið saknað á þessu þingi. Mogginn saknaði mín það mikið að hann birti nokkra kafla úr ræðum mínum af fyrri viðskiptaþingum til upprifjunar. Ég held að það hafi verið ágætt vegna þess að mjög margt gott kom fram í þeim ræðum sem snertir það sem hv. þingmaður nefndi, þ.e. atvinnulífið.

Það vill svo til að einmitt núna, þegar atvinnulífið talar niður til stjórnvalda, eins og hv. þingmaður nefndi — ég held þó að það hafi ekki verið svo hátt hlutfall eins og hv. þingmaður nefndi — er staðan sú að hagvöxtur á Íslandi er hvað mestur í þeim löndum sem við berum okkur saman við. Ég held að það ætti að teljast nokkuð gott. Það er mikil hreyfing á ýmsum þáttum í atvinnulífinu, eins og fjárfestingarsamningum sem eru í gangi bæði fyrir norðan og sunnan. Ég hef farið yfir það hér að ýmislegt er í gangi sem gerir okkur bjartsýn á að við getum náð því sem við ætluðum okkur í kjarasamningum, að fjárfesting aukist um 20% á árinu 2014. Hún hefur þegar hækkað verulega og mun á þessu ári vera um 16%. Það er mjög margt jákvætt að gerast í atvinnulífinu sem ég hefði gjarnan viljað hafa tækifæri til að ræða á viðskiptaþingi en því miður komst ég ekki þangað. Það hefði þó verið full ástæða til að rifja upp þann (Forseti hringir.) gang sem er í atvinnulífinu núna.



[10:38]
Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég botna bara ekkert í þessu meinta svari hæstv. ráðherra því að þar var ekki gerð tilraun til að svara þeim spurningum sem ég spurði hæstv. ráðherra um. Hefur hæstv. forsætisráðherra ekki áhyggjur af því að atvinnulífið treysti ekki ríkisstjórninni? Svo segir hæstv. ráðherra að atvinnulífið tali niður til ríkisstjórnarinnar. En hvernig hefur ríkisstjórnin og hæstv. ráðherra talað til atvinnulífsins, til dæmis um sjávarútveginn, svo eitthvað sé nefnt? Þetta er með ólíkindum. Ég spyr hæstv. ráðherra hvort hún hafi ekki áhyggjur af því, hvort ekki þurfi að bæta þarna úr.

Ég ítreka seinni spurninguna og einfalda hana: Hyggst forsætisráðherra verða við beiðni Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra og eiga með þeim fund, og þá hvenær?



[10:39]
forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég get sagt það alveg skýrt að mér finnst að atvinnulífið hafi á margan hátt vegið mjög ómaklega að þessari ríkisstjórn. Ég fór yfir það í máli mínu áðan (VigH: Ástæðan …) í hvaða stöðu atvinnulífið er. Við þurfum auðvitað að gera enn betur í þeim málum og erum að því og við munum vinna að því eins og hægt er með atvinnulífinu. Ég tel að mjög margt hafi verið gert hér og að í raun sé hvergi eins mikill gangur í þeim löndum sem við berum okkur saman við og hér á landi að því er hagvöxt varðar og það hlýtur að skipta máli.

Varðandi Norðurland vestra og fund sem óskað hefur verið eftir með mér hefur þeim verið boðið til fundar við embættismenn í ráðuneytinu sem átti að vera fyrsti fundurinn með þessum aðilum og síðan hefði ég komið inn í málið á síðari stigum. En boðað hefur verið til fundar núna á næstu dögum með forsvarsmönnum sveitarfélaga um allt land á vegum forsætisráðuneytisins þar sem við ætlum að fara yfir þann góða gang sem er í áætlun okkar, 20/20 Sóknaráætlun fyrir Ísland, sem sveitarfélögin eru mjög ánægð með. Ég mun sannarlega mæta á þann fund (Forseti hringir.) og vona að forsvarsmenn á Norðurlandi vestra verði líka á þeim fundi.