141. löggjafarþing — 6. fundur.
bókasafnalög, 1. umræða.
stjfrv., 109. mál (heildarlög). — Þskj. 109.

[17:07]
mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til bókasafnalaga en frumvarpið er samið í mennta- og menningarmálaráðuneytinu á grundvelli tillagna nefndar sem þáverandi menntamálaráðherra skipaði þann 24. júní 2003 til að kanna hvort hagkvæmt væri að setja heildarlög sem gætu tekið til allra tegunda bókasafna og skilgreina hlutverk þeirra og stöðu í safnakerfi landsins.

Nefndin lauk störfum 10. október 2006 og skilaði svo af sér frumvarpstillögu sem er stuðst við að verulegu leyti í þessu frumvarpi. Með því er lagt til að sett verði heildarlöggjöf um starfsemi bókasafna sem kemur í stað laga um almenningsbókasöfn, nr. 36/1997, og laga um Blindrabókasafn Íslands, nr. 35/1982, og þá eru í frumvarpinu breytingar á lögum um Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn, nr. 142/2011, sem eru til samræmingar við gjaldtökuheimildir.

Frumvarpinu er ætlað að endurspegla þær breytingar sem hafa orðið á starfsumhverfi bókasafna á liðnum árum sem felast meðal annars í því að bókasöfn hafi í auknum mæli nýtt samskipta- og upplýsingatækni í starfsemi sinni og samstarfi á milli bókasafna. Við þekkjum það til að mynda sem notum bókasöfnin og notum gegnir.is til að leita að bókum og ritum. Hlutverk bókasafna felst í auknum mæli í því að veita notendum milliliðalausa þjónustu en ekki einungis vera safn bóka þangað sem notendur leita. Hvað á ég við með því? Jú, bókasöfn eru ekki eingöngu vörslustaður bóka og rita heldur eru þau líka mjög mikilvægar stofnanir sem veita notendum sínum fræðslu og leiðsögn um lendur veraldarvefsins og hvernig unnt er að leita upplýsinga á þeim vettvangi.

Sameining sveitarfélaga og byggðasamlaga fleiri sveitarfélaga hafa síðan breytt rekstrargrundvelli margra almenningsbókasafna og skólasafna.

Sameiginlegt skráningar- og þjónustukerfi bókasafna, Gegnir, sem ég nefndi hér áðan, hefur verið tekið í notkun. Það skiptist í 13 stjórnunareiningar. Söfnin á höfuðborgarsvæðinu raðast saman eftir safnategundum, en utan höfuðborgarsvæðisins eru allar safnategundir saman í fjórum landshlutaeiningum.

Kominn er landsaðgangur að rafrænum gagnagrunnum og tímaritum með samvinnu allra safnategunda í landinu. Þetta þekkja auðvitað hv. þingmenn, á hvar.is.

Opnaður var nýlega leitarvefur fyrir efni allra bókasafna landsins og ýmissa annarra gagnasafna, og stefnt að því að efla hann enn frekar í framtíðinni. Hann er á léninu leitir.is.

Síðan nefni ég að tekið hafa gildi ný lög um Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn sem við samþykktum í fyrra, lög nr. 142/2011.

Við undirbúning frumvarpsins var höfð hliðsjón af ákvæðum norrænna laga um sama efni, leiðbeinandi reglum Evrópuráðsins um löggjöf á sviði bókasafna og lögum sem Alþingi hefur nýlega sett um safna- og menningarstarfsemi. Ég nefndi áðan lögin um Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn en einnig má nefna safnalögin og lögin um menningarminjar.

Helstu nýmæli í frumvarpinu eru þau að taldar eru upp allar tegundir bókasafna sem eru reknar fyrir opinbert fé og kveðið á um samstarf þeirra og samvinnu og þau séu hluti af bókasafnakerfi landsins.

Með því að fella niður gildandi lög um almenningsbókasöfn er meðal annars horfið frá því að landinu sé skipt í bókasafnsumdæmi og í hverju umdæmi skuli starfandi umdæmissafn. Þess í stað er lögð áhersla á samstarf safna og hugsanlegan samrekstur þar sem slíkt þykir henta.

Felld eru út ákvæði um bókasöfn í sjúkrahúsum, dvalarheimilum aldraðra og fangahúsum. Ekki þykir ástæða til að kveða sérstaklega á um þjónustu í slíkum stofnunum í lögum sem þessum, m.a. í ljósi breytinga sem orðið hafa á skipulagi og starfsemi slíkra stofnana, auknum möguleikum til afþreyingar og ég hef líka nefnt hér þær miklu og hröðu tæknibreytingar sem hafa orðið í samfélaginu og breytt hlutverki bókasafna. Þau eru ekki aðeins bókasöfn heldur upplýsingastofnanir í orðsins fyllstu merkingu. En ég vil þó minna á síðari málslið 2. mgr. 7. gr. þar sem stendur, með leyfi forseta:

„Allir landsmenn skulu eiga kost á að njóta þjónustu almenningsbókasafna.“

Hann á að tryggja að allir eigi þennan kost hvort sem þeir dvelja á slíkum stofnunum eða eru annars staðar staddir í lífinu.

Það er nýmæli að lagt er til að stofnað verði bókasafnaráð sem skuli vera ráðherra og stjórnvöldum til ráðgjafar, og vinni meðal annars að stefnumótun um starfsemi bókasafna, setji reglur um söfnun og úrvinnslu tölfræðilegra upplýsinga um bókasöfn, setji reglur um úthlutanir úr bókasafnasjóði og veiti umsögn um umsóknir um styrki úr sjóðnum og sinni loks öðrum verkefnum sem ráðherra kann að fela ráðinu. Ráðgjafarnefnd um málefni almenningsbókasafna verður lögð af og verkefni hennar flytjast til bókasafnaráðs.

Rétt er líka að vekja athygli á þeim nýmælum að lög um Blindrabókasafn Íslands eru felld inn í þessi lög og öll ákvæði um starfsemi þess einfölduð. Jafnframt er nafni þess safns breytt, m.a. með vísan til aukins hlutverks þess við að veita öðrum þjóðfélagshópum en blindum nauðsynlega þjónustu. Settur verði á fót samráðshópur skipaður af fulltrúum helstu notendahópa í stað stjórnar samkvæmt eldri lögum. Þetta tengist auðvitað því að Blindrabókasafnið þjónustar ekki einungis blinda heldur ekki síður lesblinda lesendur og til að mynda þá sem daprast hefur sjón með aldrinum og ég nefni þá eldri borgara sérstaklega.

Það er lagt til að stofnaður verði bókasafnasjóður sem hafi það að markmiði að efla starfsemi bókasafna með því að styrkja rannsóknir og þróunar- og samstarfsverkefni í greininni. Ekki hafa verið sett sérstök ákvæði um það hversu stór sá sjóður eigi að vera, en ég vek athygli á því að ekki er gert ráð fyrir neinum fjármunum í þann sjóð samkvæmt umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytis. Ég lít svo á að það sé mikilvægt að við getum byggt þennan sjóð upp hægt og bítandi því hann er að mínu viti mjög mikilvægur við eflingu bókasafnastarfs í landinu.

Loks nefni ég skýra heimild til gjaldtöku vegna útlána, þjónustu, dagsekta og bóta og kannski er ástæða þess að þetta er lagt til sú, eins og hv. þingmönnum er vel kunnugt, að við ræddum talsvert sektarheimildir á síðasta þingi, ef mig misminnir ekki. Ætlunin með þessu er að þessar heimildir séu samræmdar þannig að öll bókasöfn starfi á sama grunni.

Við undirbúning frumvarpsins var leitað eftir samráði við forstöðumenn helstu bókasafna og annarra safna, Samband íslenskra sveitarfélaga, ráðgjafarnefnd um málefni almenningsbókasafna og Upplýsingu, Félagi bókasafns- og upplýsingafræða. Drög að frumvarpinu voru kynnt í opnu samráðsferli á vef mennta- og menningarmálaráðuneytisins í nóvember 2011 og bárust mjög margar gagnlegar ábendingar um efni frumvarpsins, m.a. frá þeim aðilum sem ég hef hér nefnt og líka frá faghópi bókasafnsfræðinga á framhaldsskólastigi og Landskerfi bókasafna hf. Við endanlega gerð frumvarpsins eins og það er núna lagt fyrir Alþingi hefur verið tekið tillit til ýmissa af þessum ábendingum.

Hæstv. forseti. Verði þetta frumvarp að lögum má gera ráð fyrir auknu samstarfi bókasafna og nokkrum breytingum á því hvernig þjónustan er hugsuð sem ég tel, eftir að hafa skoðað þessi mál, að sé í raun eðlileg þróun á breyttu hlutverki bókasafna. Þau eru ekki einungis bókasöfn heldur lykilstofnanir í því að gera almenningi kleift að nálgast upplýsingar með alls kyns hætti, hvort sem það er í gegnum hefðbundnar bækur eða á tæknivæddari hátt. Eins og áður er sagt er lagt til að starfsemi Blindrabókasafns Íslands falli inn í heildarlög um bókasöfn og lagarammi um starfsemi þess einfaldaður og um leið er safninu gert kleift að veita öðrum þjóðfélagshópum en blindum nauðsynlega þjónustu. Síðan er lögð til samræming gjaldtökuheimilda eins og ég nefndi áðan.

Ég vona, virðulegi forseti, að í ljósi þess að ég fæ að mæla fyrir þessu máli svo snemma fái hv. allsherjar- og menntamálanefnd góðan tíma til að fara yfir málið. Það hefur verið lengi í undirbúningi og fyrst og fremst er ætlunin sú að skapa góðan og vandaðan lagaramma um þessa mjög svo mikilvægu starfsemi í samfélaginu.

Ég vænti þess að málinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. allsherjar- og menntamálanefndar.



[17:15]
Skúli Helgason (Sf):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér frumvarp til bókasafnalaga. Ég vil byrja á að fagna því að frumvarp þetta sé fram komið og þakka hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra fyrir að tryggja það að þetta mál komi fyrir þingið. Ég geri mér vonir um að við náum, eins og við höfum gert í hv. allsherjar- og menntamálanefnd á liðnum missirum, góðri samstöðu um að tryggja framgang málsins. Það er mikilvægt að fram sé komið frumvarp að eins konar rammalöggjöf um opinber bókasöfn í landinu, hvort sem þau eru rekin af ríki eða sveitarfélögum, og eitt mikilvægasta markmið frumvarpsins er einmitt það að tryggja að samvinna þeirra á milli geti aukist, sem er afar mikilvægt.

Ekki er laust við að hugurinn reiki aftur til tíunda áratugarins þegar tókst loksins eftir áratugabaráttu að opna Þjóðarbókhlöðuna á Melunum. Þá voru ýmsir með áhyggjur, háskólamenn, stúdentar við Háskólann og fleiri, af fátæklegum bókakosti Þjóðarbókhlöðunnar sem ætti að sinna öllu landinu, en óhætt er að segja að sá tími sem síðan hefur liðið endurspegli í raun og veru algjöra byltingu í starfsumhverfi bæði þess safns og reyndar upplýsingamiðlunar í landinu. Hin rafræna upplýsingamiðlun hefur gert það að verkum að það er í einhverjum skilningi álitamál hvort bókasafn yfir höfuð er réttmætt heiti yfir þá starfsemi sem fer fram í þeim stofnunum á 21. öldinni, stofnunum sem eru, eins og hæstv. ráðherra benti réttilega á, ekki síst þjónustustofnanir við þá sem vilja styrkja sinn fræðilega grundvöll við nemendur, fræðimenn og almenning í landinu.

Ég er þeirrar skoðunar, þó að einhverjum kunni að finnast að mikilvægi bókasafna í hefðbundnum skilningi fari kannski þverrandi með tilkomu netsins, að mikilvægi þeirra muni þvert á móti aukast í framtíðinni og kannski ekki síst í samhengi við kröfurnar um aukna áherslu á einstaklingsmiðað nám í skólakerfinu, nám sem miðist við þarfir, hæfileika og áhugasvið hvers nemanda. Ég tel að það sé frumforsenda fyrir því að við náum að auka útbreiðslu þeirra vinnubragða í skólakerfinu að bókasöfn séu öflug úti um allt land og að þau verði enn mikilvægari auðlind fyrir nemendur sem vilja finna verkefnum sínum og rannsóknum traustan og víðtækan fræðilegan grundvöll.

Það er full ástæða til að vekja athygli á því jöfnunarhlutverki bókasafna sem kemur fram í 6. gr. frumvarpsins, að þeim er ætlað að jafna aðgengi að menningu og þekkingu, og í því skyni er lykilatriði að forustusafn eins og Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn hafi víðtæka samvinnu við bókasöfn úti um allt land.

Þarna eru gamlir kunningjar eins og ákvæði um gjaldtökuheimildir sem við fórum vel yfir í menntamálanefnd á sínum tíma í frumvarpi um Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn og eðlilegt og sjálfsagt að styrkja lagalegan grundvöll gjaldtökuheimilda eins og þarna er gert. Það er sömuleiðis fagnaðarefni að ákvæði laga um Blindrabókasafnið séu felld inn í þessi lög og Hljóðbókasafni Íslands gert hátt undir höfði, því að ekki er hægt að ofmeta mikilvægi þess safns fyrir blinda, daufblinda, eldri borgara og aðra sem nýta sér kröftuga starfsemi og blómlega sem fer fram í því ágæta safni.

Ég ítreka þakkir mínar til hæstv. ráðherra mennta- og menningarmála fyrir að leggja þetta frumvarp fram og vonast til góðrar samvinnu í allsherjar- og menntamálanefnd um frekari meðferð þess.



[17:20]
Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir framsögu hennar að frumvarpi til bókasafnalaga.

Mig langar að fjalla örlítið um frumvarp þetta, tel að ýmislegt í því sé af hinu góða en annað ekki. Þegar talað er um gildissvið í 2. gr. þá eru sum almenningsbókasöfn nefnd, og ég vænti þess að undir þau falli þá hin svokölluðu héraðsbókasöfn, þau falli að því sem heitir almenningsbókasöfn, vegna þess að héraðsbókasafn er einfaldlega til og það fellur væntanlega þá undir þetta orð, almenningsbókasafn.

Í 7. gr. stendur: „Öllum sveitarfélögum er skylt að standa að slíkri þjónustu í samræmi við þessi lög.“ Hins vegar tel ég mig hafa lesið annars staðar í þeirri grein að það sé líka heimilt fyrir sveitarfélög að koma sér saman um að reka slík söfn. Í því sveitarfélagi sem ég bý í þá er það samrekið með hluta af Kjósverjum og gekk undir nafninu Héraðsbókasafn vegna þess að fleiri en eitt sveitarfélag stóðu að því safni. Ég geri því ráð fyrir að við séum ekki að víkja neitt frá þeim reglum.

Mig langar að spyrja um 8. gr. Af hverju telur ráðherra ástæðu til að setja sérstaka stjórn fyrir almenningsbókasöfnin? Hver er í raun og veru tilgangurinn þegar bókasöfnin eru rekin af sveitarstjórnum? Við erum búin að leggja niður stjórnir í heilsugæslu og öðru þess háttar eins og var, nema í Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, en annars staðar voru slíkar stjórnir lagðar af. Mig langar því að spyrja hæstv. ráðherra af hverju hún telur þetta nauðsynlegt og hvort ekki sé eðlilegt eða fullnægjandi að sveitarstjórnin sjálf sé stjórn yfir þessari stofnun sinni eins og öðrum stofnunum. Við erum ekki með skólastjórnir, við erum ekki með grunnskólastjórnir þó að við séum með formlegt skipulag. Ég velti fyrir mér hvort þetta þurfi sérstaklega. Ég verð að segja að mér finnst þetta eiginlega algjör óþarfi og sums staðar vart hægt að koma slíku við öðruvísi en að einstaklingar sitji jafnvel hringinn í kringum borðið.

Í öðru lagi vil ég spyrja hæstv. ráðherra um 14. gr. Nú starfa almenningsbókasöfnin í það minnsta við og undir stjórn sveitarfélaga en eiga jafnframt árlega að láta ráðuneytinu í té skýrslu um fjármál sín og starfsemi í samræmi við lög og reglur. Mig langar að spyrja: Af hverju? Hver er tilgangurinn í raun og veru með þeirri upplýsingasöfnun ráðuneytisins og hvað hyggst ráðuneytið gera með slíkar upplýsingar? Samhliða í 18. gr. er engin skylda af hálfu sveitarstjórnar til að leggja fram ákveðið fé til bókasafna heldur er það undir og í ákvörðunarvaldi hverrar sveitarstjórnar fyrir sig. Fyrirspurn mín er: Hvað ætlar ráðuneytið að gera við þessar árlegu tölfræðilegu upplýsingar frá bókasöfnum, almenningsbókasöfnum og bókasöfnum almennt vítt og breitt um landið?

Mig langar einnig að spyrja hæstv. ráðherra um Hljóðbókasafnið. Ég fagna í sjálfu sér þeirri breytingu sem verið er að gera þar og tel hana til bóta. En mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort með því að setja þetta með þessum hætti sé jafnhliða gert ráð fyrir því að þeir sem einhverra hluta vegna, ekki endilega þeir sem ekki geta lesið venjulegar bækur, geta það ekki vegna sjónskerðingar, hvort lesblindum einstaklingum innan skólakerfisins verði almennt veittur aðgangur að Hljóðbókasafni Íslands á sama hátt og kannski öðrum þeim sem hingað til hafa notið þess að sækja sér spólur í Blindrabókasafnið. Og þá hvort almenningsbókasöfn, sem hugsanlega hafa samskipti við Hljóðbókasafn Íslands, geti með einhverjum hætti sett slíkt inn í samninga á milli annars vegar Hljóðbókasafnsins og svo almenningsbókasafna hins vegar. Ég held að þetta geti skipt máli fyrir þann sem á í erfiðleikum með lestur að það sé tryggt að hann geti haft aðgang að slíkum bókum, jafnt kennslubókum á grunnskólastigi og framhaldsskólastigi og öðru þess háttar.

Aftur langar mig að víkja að einu atriði, ég gleymdi því aðeins áðan. Ég hélt að við værum, en það kann að vera rangminni, yfir höfuð að hverfa svolítið frá þessum stjórnum. Eða er það rangt? Er það rangminni að fara ætti frá þessum stjórnum?

Hér stendur á bls. 15 í athugasemdum um 8. gr.:

„Skal stjórn almenningsbókasafns vera málsvari safnsins í samræmi við almennt hlutverk stjórna stofnana sem reknar eru í þágu almennings.“

Við ætlum að skipa stjórn safns sem sveitarstjórnir skipa sem jafnframt úthluta fjármunum til safnsins og svo á sú stjórn að standa vörð um safnið. Þetta eru kannski frekar vangaveltur, virðulegur forseti, en athugasemdir um stjórnir almenningsbókasafna.

Svo geri ég ráð fyrir eins og hæstv. ráðherra kom inn á í 19. gr. um þær gjaldtökuheimildir sem þarna er verið að ræða að það sé samræmt við álit umboðsmanns Alþingis sem fram kom og við þekkjum sem sátum í þáverandi menntamálanefnd. Og þá sé þessi grein væntanlega líka undanskilin, eins og sagt er um nemendur í grunn- og framhaldsskóla, að í skólasöfnum þar sé ekki hægt að innheimta sektir af nemendum. En nú geta nemendur jafnt í grunnskóla sem og framhaldsskóla sótt sér bækur og aðra tækni, upplýsingatækni og upplýsingar á hinum almennu almenningsbókasöfnum. Gildir það þá jafnhliða að það sé ekki hægt að sekta ef þeir aðilar á þeim aldri breyta ekki rétt, ef við getum orðað það svo?

Margt er hér til bóta og skynsamlega að verki staðið og það er í samræmi við það sem ráðherra hafði kynnt áður um þau frumvörp sem sú nefnd er skilaði af sér einhvern tíma á árinu 2004 (Gripið fram í: 2006.) eða 2006, að tillögur voru að frumvarpi til bókasafnalaga, tillögur að frumvarpi til laga um almenningsbókasöfn og tillögur að frumvarpi til laga um Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn. Við erum búin að afgreiða tvö og þrjú og þá kemur þetta hér sem enn eitt frumvarpið til laga um bókasöfn. Mig langar að biðja hæstv. ráðherra, ef hún tæki til máls að nýju, að svara kannski einhverjum af þeim vangaveltum sem ég hef hér velt upp.

Virðulegur forseti. Ég hef lokið máli mínu.



[17:30]
mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmönnum sem hér hafa rætt málið og reikna með því, eins og ég sagði áðan, að hv. allsherjar- og menntamálanefnd fari síðan vel yfir efnisatriði málsins.

Hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir beindi til mín nokkrum spurningum, m.a. um héraðsbókasöfn. Rétt er að nokkur sveitarfélög geta, eins og fram kemur í frumvarpinu, sameinast um rekstur bókasafna og kallað þau héraðsbókasöfn. Þau heyra undir þessi lög rétt eins og önnur almenningsbókasöfn.

Hvað varðar fjárframlög og upplýsingar um þau til bókasafna þá kemur fram í 18. gr. að framlögin skuli ákveðin í árlegri fjárhagsáætlun sérhvers sveitarfélags og að þau skuli svo ákveðin innan stofnana í ítarlegum fjárhagsáætlunum. Hv. þingmaður nefndi upplýsingaöflun ráðuneytisins sem hún vísar til í … (Gripið fram í: 14. gr.) — já, einmitt, 14. gr., tölfræðilegar upplýsingar. Ég var að leita að þessari grein. Þakka þér fyrir, hv. þingmaður.

Á undanförnum árum höfum við orðið vör við, ekki bara í bókasafnamálum heldur öllum þeim málum sem undir ráðuneytið heyra, að ítarlegar tölfræðilegar upplýsingar skipta okkur gríðarlegu máli sem stefnumótandi aðila í máli viðkomandi stofnana. Nokkuð hefur skort á að tölfræðilegar upplýsingar hafi verið í lagi hvað varðar bókasöfn. Það er ástæðan fyrir því að þetta er lagt til. Við höfum verið með tölur frá sérfræðisöfnum en minna frá til að mynda almenningsbókasöfnum. Sérfræðisöfnin hafa skilað til Hagstofunnar en almenningsbókasöfnin hafa skilað til okkar. Þetta hefur verið með ýmsum hætti milli ólíkra tegunda bókasafna. Okkur finnst mikilvægt að þessar upplýsingar liggi fyrir. Þetta snýst ekki endilega um eftirlit ráðuneytisins heldur hreinlega að almenningur hafi aðgang að tölfræðilegum upplýsingum um bókasafnamál. Núna eru ekki fullnægjandi upplýsingar fyrir hendi hjá Hagstofunni. Ég lít svo á að þetta sé mjög mikilvægt til að stjórnvöld á hverjum tíma, sveitarstjórnir og þeir sem fara með völd í mennta- og menningarmálaráðuneytinu, geti tekið ákvarðanir sem byggjast á gögnum. Um það snýst þessi grein en ekki um upplýsingasöfnun í öðrum tilgangi en þeim að hægt sé að taka ákvarðanir byggðar á gögnum.

Hvað varðar stjórnir almenningsbókasafna, sem hv. þingmaður spyr um, þá er í gildandi lögum gert ráð fyrir ákveðnum ákvæðum og við höldum því inni. Við héldum líka inni stjórn í lögunum um Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn. Hv. þingmaður spurði hvort ekki væri verið að hverfa almennt frá stjórnum í stofnunum. Það er alveg rétt, það hefur vissulega verið ákveðin tilhneiging. Mér hefur þótt mikilvægt, og það mun til að mynda koma fram í lögum um sviðslistir þar sem lagt er til að þjóðleikhúsráð verði áfram, að hafa það sem við getum kallað ráðgefandi stjórnir til að taka að sér faglega ráðgjöf fyrir viðkomandi forstöðumann. Það breytir engu um ábyrgð forstöðumannsins heldur er stjórninni ætlað það hlutverk að vera til ráðgjafar og skapa faglegan samráðsvettvang fyrir viðkomandi forstöðumann. Það hefur ekki verið stefna mín að fækka stjórnum, en mér finnst hins vegar mikilvægt að hlutverk þeirra sé vel skilgreint og að forstöðumenn hafi faglegan samráðsvettang, sem ég held að hverjum forstöðumanni sé mjög mikilvægt.

Hljóðbókasafn er nefnt hér. Það er mjög mikilvægt. Eins og kemur fram í frumvarpinu þá fær Blindrabókasafnið þetta nýja heiti til að skerpa á hlutverki þess. En með frumvarpinu er líka lögð áhersla á samstarf safna. Þar með ætti að vera auðveldara fyrir þá hópa sem vilja nýta sér þjónustu Hljóðbókasafnsins að nýta sér hana, m.a. með millisafnaláni í gegnum almenningsbókasafn sitt eða skólabókasafn, eins og hv. þingmaður nefnir. Það hefur orðið hljóðlát bylting hjá skólabókasöfnum þessa lands með Gegni og í gegnum leitir.is. Við erum búin að búa til ofboðslega flott upplýsingakerfi sem ég held að við eigum að taka okkur til fyrirmyndar þegar kemur að öðrum þáttum menningararfsins um hvernig við getum haft þá aðgengilega. Ég held að stafrænt aðgengi að menningararfinum sé sameiginlegt áhugamál þeirra hv. þingmanna sem eru staddir í salnum. Samstarfið er því þegar orðið. Það má kannski segja að við séum að lögfesta, ef þetta frumvarp verður að lögum, þá stefnu sem við höfum þegar tekið í gegnum stofnanir okkar í þeim málum.

Svarið er tvímælalaust játandi. Það er einmitt ætlunin að notendur geti nýtt sér þjónustu á milli safna óháð því hvar þeir eru í sveit settir.

Varðandi gjaldtökuheimildir er vísað í skólabókasöfn sérstaklega, að þar sé ekki beitt sektum. Þar ganga ákvæði grunnskólalaga framar þessum lögum. Ef um er að ræða dæmi þar sem almenningsbókasafn veitir grunnskóla þjónustu sína samkvæmt sérstökum samningi þar að lútandi því að lögum samkvæmt reka grunnskólar bókasöfn, þeir geta þó samið við almenningsbókasafn um þá þjónustu, þá reikna ég með, en tel þó rétt að nefndin skoði það nákvæmlega, að sú túlkun gildi að veiti almenningsbókasafn þessa þjónustu gildi lagaheimild í grunnskólalögunum um sektarheimildir.

Ég tel að þetta hafi svarað nokkurn veginn spurningum hv. þingmanns.

Hv. þm. Skúli Helgason kom líka með margar góðar athugasemdir sem ég veit að eiga eftir að nýtast við áframhaldandi vinnu hv. allsherjar- og menntamálanefndar. Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta að sinni. Ég veit að eftir þá vinnu sem á undan er gengin og hefur tekið nokkur ár og eftir það samráð sem hefur verið haft að talsverð eftirvænting ríkir hjá bókasafns- og upplýsingafræðingum og þeim sem starfa á bókasöfnum og þessum þekkingarveitum eins og þær eru kallaðar í frumvarpinu sem ég tel að sé réttnefni. Ég veit að það er eftirvænting eftir því að þetta frumvarp verði að lögum, eftir því hefur verið beðið, og ég vona að vinna hv. allsherjar- og menntamálanefndar við málið gangi vel.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til allsh.- og menntmn.