141. löggjafarþing — 74. fundur
 29. janúar 2013.
skipun rannsóknarnefndar um starfsemi lífeyrissjóða, frh. fyrri umræðu.
þáltill. meiri hl. stjórnsk.- og eftirln., 16. mál. — Þskj. 16.

[16:39]
Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Við höldum hér áfram umræðu um tillögu til þingsályktunar um skipun rannsóknarnefndar um starfsemi lífeyrissjóða og mig langar aðeins til að koma inn í hana.

Í ávarpi mínu við þingsetningu í haust, 11. september sl., sagði ég meðal annars, með leyfi forseta:

„Nú eru starfandi tvær rannsóknarnefndir samkvæmt ályktun Alþingis, um málefni Íbúðalánasjóðs og sparisjóðanna. Þess er að vænta að þær ljúki störfum fyrir eða um næstkomandi áramót. Þó að lögin sem Alþingi setti fyrir rúmu ári um rannsóknarnefndir hafi verið mjög mikilvægur þáttur í því að efla enn frekar eftirlitsvald Alþingis tel ég engu að síður að við alþingismenn verðum að sýna varkárni og ábyrgð við beitingu þessa valds. Við þurfum ekki aðeins að horfa til þess að störf rannsóknarnefnda eru kostnaðarsöm og fyrirhafnarmikil heldur er einnig mikilvægt að spyrja sig hvort starf þeirra standi undir væntingum og skili raunverulegum árangri fyrir samfélagið.

Við megum ekki vera svo uppnumin af rannsóknarnefndum að við förum að líta á þær sem bót allra meina. Skipun nefndanna verður þá aðalmálið en ekki niðurstöðurnar. Förum því varlega í þessum efnum og gætum þess sem er lykilatriðið að fylgja eftir niðurstöðum slíkra nefnda svo þær rykfalli ekki á borðum okkar. Niðurstöður sem ekkert er gert með eru lítils virði.“

Ástæður þessara viðvörunarorða minna voru ærnar. Frá miðju síðasta ári hef ég þurft að gera bráðabirgðaráðstafanir til að tryggja fé til að halda áfram starfsemi þeirra tveggja rannsóknarnefnda sem þá störfuðu og eru enn að störfum. Fyrir lipurð hæstv. fyrrverandi fjármálaráðherra, Oddnýjar Harðardóttur, fékkst greiðsluheimild þótt hvorki væri fé í fjárlögum né fjáraukalögum til að halda starfsemi rannsóknarnefndanna áfram. Við fjárlagagerðina í haust voru enn gerðar bráðabirgðaráðstafanir, fé fékkst í fjáraukalögum 2012 og svo var sett fé til reksturs rannsóknarnefndanna tveggja fram á þetta ár.

Eins og áætlanir eru núna dugar það fé sem ætlað er á árinu 2013 ekki til að ljúka starfi rannsóknarnefndanna um fall sparisjóðanna og um Íbúðalánasjóð. Fjárveitingarnar sem komu til verksins duga ekki til að klára þær rannsóknir sem unnið er að. Þetta þing samþykkti í fyrrahaust að setja á stofn nýja rannsóknarnefnd, þ.e. um einkavæðingu bankanna. Allt gott er með það, mikilvægt mál sem virkilega er ástæða til að skoða og rannsaka, en engir fjármunir eru til svo hægt sé að hefja þá rannsókn. Þó að forseti þingsins færi með tilstilli forsætisnefndar fram á það við meiri hluta fjárlaganefndar að fá fjárveitingar til að hægt væri að hefja það verk og klára þær rannsóknir sem nú standa yfir varð meiri hluti fjárlaganefndar ekki við þeim beiðnum.

Sem betur fer var sagt skýrt í haust að ekki væri hægt að setja rannsóknina á einkavæðingunni á bönkunum af stað fyrr en núverandi rannsóknarnefndir hefðu skilað af sér og heldur ekki fyrr en búið væri að tryggja fé til að standa undir útgjöldum við rannsóknina.

Nú er sem sagt lagt til að enn ein ný rannsóknarnefnd verði sett á laggirnar, rannsókn á starfsemi lífeyrissjóðanna. Hún ætti þá að vera næst í biðröðinni á eftir rannsókninni á einkavæðingunni. Ég held að allir hljóti að sjá að hér þarf að stíga varlega til jarðar.

Eins og kom fram í ávarpsorðum mínum við þingsetninguna gerði ég ráð fyrir því að rannsóknarnefndirnar tvær, um sparisjóðina og Íbúðalánasjóð, mundu ljúka störfum um áramót. Því miður hefur sú von brugðist. Ég veit á þessari stundu ekki hvenær þær skila af sér. Það er þegar ljóst að það verður ekki nú í janúar og ég hef ákveðnar efasemdir um að það takist í febrúar. Mér er þó ljóst að í þeim báðum er unnið af kappi og ég get sagt hér að það er unnið dag og nótt af miklu kappi og eljusemi við að ljúka þessu verki. Málið er hins vegar þess eðlis að mér er ókleift að setja einhvern lokapunkt á þá rannsókn. Nefndirnar verða að hafa visst sjálfræði. Ég hef aðeins getað komið þeim skilaboðum á framfæri að eftir niðurstöðu nefndanna sé beðið með vaxandi óþreyju.

Við munum öll hvernig þetta var með rannsóknarnefnd Alþingis. Tímaplön hennar stóðust ekki. Það var orðið mikið óþol hjá okkur þingmönnum að fá þá skýrslu þó að það sé nú gleymt. Það gleymdist fljótt þegar menn sáu hversu vel var vandað til verka hjá þeirri nefnd.

Ég held að það sé alveg ljóst eins og kom vel fram í umræðunum fyrir jólin um breytingar á lögum um rannsóknarnefndir að við þurfum að læra af þeirri reynslu sem við höfum nú af starfi þriggja rannsóknarnefnda, ekki hvað síst að undirbúa rannsókn vel og gera raunhæfar fjárhags- og tímaáætlanir. Ég mun leggja á það mikla áherslu að sú rannsókn sem Alþingi hefur þegar ákveðið á einkavæðingu bankanna verði vel undirbúin og ekki sett af stað fyrr en fyrir liggja þær áætlanir sem ég hef nefnt.

Ég hef sem sagt varað við því að fara í það núna að samþykkja tillögu um nýja rannsóknarnefnd áður en fyrir liggja betri áætlanir um kostnað og alla tilhögun. Við skulum gera okkur grein fyrir því að hér er um háar fjárhæðir að ræða. Ég get ekki ímyndað mér annað en að svona rannsókn kosti hátt í 100 millj. kr., kannski meira og kannski miklu meira.

Ég vil svo minna á að fyrir liggur nú þegar ítarleg skýrsla um starfsemi lífeyrissjóðanna. Mér er sagt að kostnaðurinn við gerð þeirrar skýrslu hafi verið á bilinu 80–100 milljónir. Og ég spyr: Á ekkert að gera með þá skýrslu?

Það er ekki alveg rétt sem sagt er í greinargerð með þessari tillögu, að þessi skýrsla sé skýrsla lífeyrissjóðanna. Þetta er skýrsla Hrafns Bragasonar, fyrrverandi forseta Hæstaréttar, sem skipaði rannsóknarnefndina með tveim öðrum. Nefndin var vissulega ekki á vegum Alþingis eins og ákveðið var í ályktuninni sem við köllum 63:0, en skiptir það öllu máli? Hrafn Bragason og hans fólk hafði ekki rannsóknarheimildir eins og lögin um rannsóknarnefndirnar segja, en ég hef hvergi séð að hann eða nefndin sem hann var í forustu fyrir hafi kvartað yfir því að hafa ekki fengið umbeðin gögn. Við skulum líka muna að þessi nefnd var ekki útvalin af forustu lífeyrissjóðanna. Hún var skipuð af sáttasemjara ríkisins. Mér finnst mikilvægt að halda þessu öllu til haga því að hér er um mikla peninga að ræða og mjög tímafrekt verkefni.

Ég beitti mér fyrir því að skýrslu Hrafns Bragasonar o.fl. um lífeyrissjóðina yrði vísað til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Ég veit að haldinn var kynningarfundur um málið. Hrafn Bragason og nefndin mætti þar, en ég verð því miður að segja að það eru mér vonbrigði að hafa ekki séð álit frá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd um þessa skýrslu upp á mörg hundruð síður.

Ég vísa aftur í þau orð sem ég viðhafði við þingsetninguna um að við verðum að fara að með gát og stofna ekki til rannsóknarnefnda nema full og brýn þörf sé á og málið undirbúið með fjárveitingu og góðum áætlunum um verkið.

Ég legg því til að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd taki málið til frekari umræðu milli fyrri og síðari umr. Ég óska eftir því að málið fari til nefndar og bið um að yfir þessar athugasemdir mínar verði farið vandlega áður en lengra verður haldið. Það er langt í land með þær rannsóknir sem er búið að samþykkja hér og enginn vilji var til að setja fjármuni í við fjárlagagerðina. Jafnvel komu þar að verki þingmenn sem flytja þessa þingsályktunartillögu sem er frá meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar.



[16:48]
Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil í þessu andsvari þakka hv. þm. Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur, forseta Alþingis, fyrir þetta innlegg í umræðuna um rannsókn á starfsemi lífeyrissjóðanna.

Mig langar að vekja athygli á því að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hefur fjallað um það ítarlega og alloft og tekið það upp í þingsal hversu brýnt er að endurskoða lögin um rannsóknarnefndir strax og jafnvel áður en þeim rannsóknum sem nú standa yfir lýkur. Þetta kemur fram í áliti meiri hluta nefndarinnar um frumvarp til laga um breytingu á lögum um rannsóknarnefndir sem forsætisnefnd lagði inn í þingið fyrir síðustu jól. Í nefndaráliti er vakin sérstök athygli á þessu. Þar segir, með leyfi forseta:

„Á fundi nefndarinnar var einnig fjallað um þörf á endurskoðun laga um rannsóknarnefndir í ljósi þeirrar reynslu sem komin er á framkvæmd þeirra. Nú þegar hafa tvær rannsóknarnefndir verið skipaðar á grundvelli laganna og samþykkt hefur verið að skipa þá þriðju. Meiri hlutinn telur mikilvægt að sú endurskoðun fari fram sem fyrst og að í þeirri vinnu verði litið til þess hvaða reglur gilda um sambærilegar rannsóknarnefndir annars staðar á Norðurlöndunum, sérstaklega í Noregi og Danmörku. Meiri hlutinn beinir þeim tilmælum til forsætisnefndar að hún skipi vinnuhóp sem taki til starfa eigi síðar en 1. febrúar nk. þannig að vinnuhópurinn hafi greiðan aðgang að upplýsingum og reynslu nefndarmanna í þeim nefndum sem nú eru starfandi.“

Ég spyr hv. þm. Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur hvort forsætisnefnd hafi fjallað um erindi og ábendingu meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og hvort við eigum von á því að hafist verði handa við endurskoðun þessara laga meðan hægt er að ganga í smiðju hjá því fólki sem enn er í vinnu við að framfylgja lögunum.



[16:50]
Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Endurskoðun á lögum um rannsóknarnefndir hefur verið á dagskrá hjá þeirri sem hér stendur og hjá forsætisnefndinni. Það hefur ekki verið skipuð nefnd í það, enda kom fram í máli mínu að ég teldi mikilvægt að farið yrði í þá endurskoðun og þá yrði auðvitað leitað í smiðju þeirra sem eru að störfum. Ég geri ráð fyrir að hægt verði að tala við þá þótt þeir hafi lokið störfum, það er mikil reynsla í því. Það er líka mikil reynsla að horfa upp á það að menn séu tilbúnir að samþykkja hverja rannsóknina á fætur annarri en þeir séu ekki tilbúnir að setja fjármuni til verksins. Ég spyr auðvitað í tengslum við það: Hvaða hugur er að baki? Eru menn virkilega að leggja hér til enn eina rannsóknarnefndina án þess að hafa vilja til þess að setja fjármuni í það verk? Fjármunir verða að fylgja máli og hugur til að sjá til þess að þessar rannsóknir geti farið af stað.

Ég hefði gjarnan viljað, þar sem hv. þm. Álfheiður Ingadóttir situr í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, að sú nefnd skilaði áliti eftir að hafa farið yfir stóra og mikla skýrslu Hrafns Bragasonar sem vísað var til nefndarinnar. Ég spyr: Er væntanlegt álit frá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd um þá miklu skýrslu sem unnin var undir forustu Hrafns Bragasonar?



[16:52]
Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég sé að það er nauðsynlegt að koma hingað upp í ræðu í framhaldi af þessum orðum hv. þm. Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur. Ég vil vekja athygli á því að í þeirri tillögu til þingsályktunar sem við erum að ræða er farið yfir þá úttekt sem samþykkt var hjá Landssamtökum lífeyrissjóða 24. júní 2010, Úttekt á fjárfestingarstefnu, ákvarðanatöku og lagalegu umhverfi lífeyrissjóðanna í aðdraganda bankahrunsins 2008. Farið er yfir hvernig nefndin var skipuð, hvernig henni var falið að vinna, hvaða afmörkun var á því verkefni sem henni var falið og enn fremur kemur fram hvaða takmarkanir voru á því sem nefndin gat safnað af upplýsingum. Ákveðin vonbrigði komu fram strax og niðurstöður þessarar úttektar lágu fyrir. Í greinargerð með þessari þingsályktunartillögu er vakin athygli á því á bls. 2 að þessi nefnd hafði ekki valdheimildir til að krefjast þess að gögn, upplýsingar eða skýringar kæmu fram líkt og gengið hefur verið frá í lögum um rannsóknarnefndir. Eftirlitsstofnanir með lífeyrissjóðunum gátu borið fyrir sig þagnarskyldu í ríkum mæli. Það var ekki hægt að kveðja fólk til skýrslutöku ef það vildi ekki gefa skýrslu. Nefndin gat heldur ekki gert rannsóknir á starfsstað.

Ég mun koma að því í ræðu minni hér á eftir að sú úttekt sem þarna fór fram var góðra gjalda verð og nauðsynleg og lífeyrissjóðirnir voru ánægðir með hana, en hún uppfyllir því miður ekki þær kröfur sem Alþingi gerði þegar samþykkt var að fara skyldi fram rannsókn á lífeyrissjóðunum.



[16:54]
Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef litlu við þetta að bæta. Þetta er alveg í takt við það sem ég sagði í ræðu minni. Það giltu ekki sömu reglur um þessa rannsókn og um rannsóknarnefndir Alþingis. Ég varð ekki vör við það að þeir sem leiddu rannsóknina kvörtuðu yfir því að þeir hefðu ekki fengið allar þær upplýsingar sem þeir þurftu á að halda. Sömuleiðis fékk ég ekki svar við því hvort nefndarmenn ætluðu að skila áliti eftir að hafa farið yfir þessa skýrslu frá lífeyrissjóðunum. Það getur vel verið að það þurfi að skoða eitthvað betur sem ekki kemur þar fram, en ég hef ekki orðið vör við það að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hafi farið yfir og gefið álit á þeirri vinnu og þeirri skýrslu sem vísað var til hennar um rannsókn á lífeyrissjóðunum sem Hrafn Bragason leiddi. Ég spurði: Er slíkt álit væntanlegt frá nefndinni áður en menn ganga lengra í þessum efnum?



[16:55]
Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir hefur með réttu hvatt til þess að við þingmenn sýnum varkárni og ábyrgð þegar við tökum ákvarðanir um skipun rannsóknarnefnda og horfum þá sérstaklega til þess að erfitt er að áætla fyrir fram hvaða stefnu slíkar rannsóknir geta tekið. Þær geta verið mjög umfangsmiklar og rannsóknin sjálf getur leitt til aukins umfangs eftir því sem henni vindur fram. Það hefur sýnt sig að erfitt er að áætla umfang hvað varðar tíma og eins kostnað við þær rannsóknir sem nú þegar hefur verið hrundið af stað á grunni laga um rannsóknarnefndir Alþingis.

Ég vil taka undir það sem hér hefur komið fram að mikilvægt er að nýta mjög vel þann mannafla og það húsnæði sem þegar er til reiðu við þær rannsóknir sem nú fara fram, annars vegar á starfsemi Íbúðalánasjóðs og hins vegar á starfsemi sparisjóðanna. Þess vegna höfum við sem erum í hv. stjórnskipunar-og eftirlitsnefnd lagt mikla áherslu á það að rannsóknin á einkavæðingu bankanna færi ekki af stað fyrr en annarri af þeim tveimur rannsóknum sem nú standa yfir væri lokið, eins og kom fram í máli hv. þingmanns. Markmiðið var nefnilega ekki að þenja út þá starfsstöð eða þann mannskap sem nú þegar er í vinnu, heldur að nýta það sem fyrir er. Svo umfangsmiklar rannsóknir eins og nú hafa verið í gangi, þessar tvær — það er ekki tillaga nefndarinnar og hefur aldrei verið tillaga nefndarinnar eða þingmanna hér að bæta verulega í og hafa fleiri umfangsmiklar rannsóknir í gangi í senn, það er ekki svo.

Annað sem ég vil taka undir í orðum hv. þingmanns er þegar þingmaðurinn segir að niðurstöður sem ekkert er gert með hafi engin áhrif. Við höfum hér fyrir framan okkur verkefni sem vísað var til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar af forsætisnefnd og þinginu, sumsé „að hafa eftirlit með framkvæmd ályktunar Alþingis frá 28. september 2010 um viðbrögð Alþingis við skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis“. Þetta er sú ályktun sem við tölum venjulega um hér í nokkrum galskap sem 63:0. Með þeirri þingsályktun var meðal annars samþykkt að ráðist yrði í sjálfstæða og óháða rannsókn á vegum Alþingis á starfsemi lífeyrissjóða á Íslandi frá setningu laga um skyldutryggingar lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða sem var á árinu 1997 og síðar eins og segir í tillögunni „til ársloka 2011“. Þegar nefnd þingsins, eins og hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, er falið jafnumfangsmikið verkefni og það að hafa eftirlit með því hvernig gengur að framfylgja þessum mikilvægu ákvörðunum Alþingis frá því í september 2010 þá er ekki hægt að setja ofan í við nefndina að hún sinni því verkefni sínu. Ef hún gerir það hins vegar ekki er hún að gera akkúrat það sem hv. þingmaður nefndi, þá er hún að gera ekkert með niðurstöður fyrri rannsóknarnefnda, þingmannanefndar og samþykkt Alþingis, þ.e. ályktun Alþingis frá 28. september 2010.

Ég er ekki komin í þennan ræðustól til að þrátta við hv. þingmann eða aðra um það hvernig viðkomandi aðilar, sem var falið af hálfu lífeyrissjóðanna að fara yfir tiltekna hluti í starfsemi þeirra, skiluðu af sér. Það hefur verið gagnrýnt að þeir sem almennt er talið að þurfi að sæta rannsókn geti ekki komið sér undan slíkri rannsókn með því að ákveða sjálfir að þeir skuli teknir til rannsóknar á eigin vegum og afmarka þannig bæði verksvið rannsóknarinnar og setja slíka rannsókn af stað án rannsóknarheimilda. Það kemur fram í greinargerð með þingsályktunartillögunni að umfjöllun stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar leiddi berlega í ljós að niðurstöður nefndar Landssamtaka lífeyrissjóðanna staðfestu einmitt að tilefni væri að mati nefndarinnar til að ráðist yrði í sjálfstæða og óháða rannsókn á vegum Alþingis vegna þess að í þeirri úttekt, því að það var úttekt sem var gerð á starfsemi lífeyrissjóðanna, var ekki tekið til athugunar ýmislegt sem upp er talið í þeim forsendum sem lágu til grundvallar því að Alþingi samþykkti að farið skyldi í rannsókn á starfsemi lífeyrissjóðanna. Það er enginn áfellisdómur fólginn í því hvað varðar starfsemi þessarar nefndar, nefndarmannanna sem slíkra eða niðurstöðunnar. Málið er bara að þessi úttekt lýtur allt öðrum lögmálum en eiginleg rannsókn gerir. Rannsókn á grunni laga um rannsóknarnefndir Alþingis er allt annað mál.

Ég tek undir með hv. þingmanni að það er önugt, svo notað sé hófsamt orðalag, að ekki skuli vera hægt að áætla betur hvert umfang rannsókna af þessu tagi er. Það er ein af ástæðunum fyrir að mjög mikilvægt er að fara í endurskoðun á lögunum. Þetta er alsiða í löndunum í kringum okkur. Menn hafa þar mikla reynslu, til að mynda í Noregi. Það er eðlilegt ef við lítum til þess hvernig það er gert þar, sem er á annan veg en hér á landi. Það er gert með svipuðum hætti og var lagt upp með þegar frumvarp um rannsóknarnefndir var lagt fyrir Alþingi á sínum tíma. Því var breytt verulega í meðförum þingsins.

Ég get tekið undir orð hv. þingmanns að það sé vont að geta ekki fengið á fjárlögum fyrir fram fjárveitingar til að sinna starfsemi sem þessari, einstaka rannsóknum á tilteknum afmörkuðum efnum, en þegar ekki er hægt að leggja upp með ítarlega áætlun er það að nokkru leyti skiljanlegt. Ég vil taka fram að þrátt fyrir allt fengust fjárveitingar á síðasta ári með fjárauka til að loka árinu 2012. Meðan við erum ekki komin með betri ramma hvað varðar umfang þessara rannsókna og hvernig þær ganga fyrir sig er líklegt að aftur verði að grípa til þess að leysa slík útgjöld með framlögum í fjáraukalögum. Til þess eru fjáraukalögin auðvitað ætluð, þau eru ætluð til þess ef upp koma útgjöld sem eru óvænt eða ekki hefur verið hægt að áætla fyrir. Fjáraukalögin eru engu minni lög en fjárlögin, þau eru bara á öðrum tíma og öðrum forsendum.

Ég ítreka að tillaga meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar er í fullu samræmi við tillögur þingmannanefndarinnar, í fullu samræmi við niðurstöður rannsóknarnefndar Alþingis, í fullu samræmi við samþykkt Alþingis frá 28. september 2010 og að mínu mati er mikilvægt að eftir slíku sé farið.

Hv. þingmaður hefur óskað eftir því að málið fari til nefndar á milli fyrru og síðari umr. sem er mjög óvanalegt þegar um er að ræða tillögu frá nefndinni sjálfri, meiri hluta hennar eins og hér er, en það er sjálfsagt og eðlilegt og venja að verða við því.

Ég vil að lokum segja að það gildir alveg eins um þessa tillögu og um tillöguna um rannsókn á einkavæðingu bankanna að hér er ekki verið að tala um að demba inn einn, tveir og þrír rannsókn sem setur úr skorðum allt verklag eða fjárveitingar sem til ráðstöfunar eru í slík verk. Það má meðal annars sjá af því að hér er talað um að skila eigi niðurstöðum í nóvember á þessu ári. Það er líka tekið fram að við þessa rannsókn muni niðurstöður úttektar lífeyrissjóðanna koma að gagni. Við væntum þess sem sagt að umfang rannsóknarinnar verði minna að því leyti sem því nemur.



[17:05]
Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að þetta mál skuli vera komið á dagskrá þingsins. Ég er meðflutningsmaður að þingsályktunartillögu um skipun rannsóknarnefndar um starfsemi lífeyrissjóðanna. Það kemur m.a. til vegna þess að málið var lagt fyrir á síðasta þingi. Þegar það fór fyrir þingið var hægt að koma að breytingum varðandi lengd rannsóknarinnar. Upphaflega tillagan gekk út á það að rannsaka árabilið 2003–2009, en mér fannst það ekki nóg því að það var akkúrat sami tími og lífeyrissjóðsskýrslan sjálf náði yfir. Ég taldi að rannsaka þyrfti starfsemi lífeyrissjóðanna allt frá setningu laga sem tóku gildi á árinu 1998, lög nr. 129/1997, um starfsemi lífeyrissjóðanna. Samkvæmt þeim lögum fengu lífeyrissjóðirnir nýjar heimildir til fjárfestinga í aðdraganda einkavæðingar bankanna hinnar fyrri. Þarna voru lífeyrissjóðirnir farnir á hinn svokallaða gráa markað áður en hlutabréfamarkaðurinn varð alvörumarkaður hér á landi. Ég tel því að rannsóknin verði að hefjast þar sem breytingin var gerð á lögunum því að þá voru gerðar umtalsverðar breytingar varðandi fjárfestingarstefnu lífeyrissjóðanna. Það stendur í tillögunum. Vegna þess að boðað er að málið fari aftur inn í nefnd tel ég að við ættum að leggja fram breytingartillögu við þingsályktunartillöguna varðandi lengd rannsóknarinnar í þessa átt. Samkvæmt tillögunni stendur að rannsóknin eigi að ná til ársloka 2011 en ég tel að við eigum að setja inn breytingartillögu, að hún eigi að ná til ársloka 2012 því að á síðasta ári var gengið frá hinum svokölluðu afleiðusamningum lífeyrissjóðanna. Þar var landað enn einni glæsilegu niðurstöðunni að mati stjórnenda lífeyrissjóðanna þegar lífeyrissjóðirnir þurftu að borga upp á milli 50 og 60 milljarða, sem er raunverulega tapað fé sjóðfélaga.

Virðulegi forseti. Ég minni á að lífeyrissjóðirnir töpuðu a.m.k. 500 milljörðum — 500 milljörðum — í hruninu og það er mikið fé. Ég tel að sú upphæð sé ekki öll komin fram því að ég hef fengið ábendingar um að eftir hrunið hafi verið dreift tapi sem er ósýnilegt á ársuppgjör sjóðanna 2009, 2010, 2011 og svo 2012. Þannig er hægt að fara með það og minnka áfallið sem lífeyrissjóðsþegar urðu fyrir, bæði andlega og peningalega í hruninu.

Það er mikil ábyrgð að fara fyrir lífeyrissjóði. Það er mikil ábyrgð að sitja í stjórn lífeyrissjóðs. Það er mikil ábyrgð að reka lífeyrissjóð. Þess vegna vil ég að einnig verði rannsakað hversu mikið fer í rekstrarkostnað hjá lífeyrissjóðunum. Þegar ég gerði úttekt á starfsemi lífeyrissjóðanna 2007 var rekstrarkostnaður almenna kerfisins 3 milljarðar — 3.000 milljónir. Það þarf marga til þess að greiða í lífeyrissjóð þar til hann fer að hafa burði til þess að sýna ávöxtun þegar rekstrarkostnaðurinn er svona mikill. Kannski stafar það af því að lífeyrissjóðirnir eru svo margir. Þess vegna held ég að fara þurfi í heildarendurskoðun á því til að tryggja réttindi sjóðfélaga til framtíðar, að fækka lífeyrissjóðunum og gera upp hið svokallaða hrun er snýr að sjóðunum.

Ég tek undir orð sem komu fram í umræðu í dag í málinu, enginn getur staðið fyrir rannsókn á sjálfum sér. Fram kom í máli hv. þm. Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur að líklega hefði rannsóknin sem lífeyrissjóðirnir fóru sjálfir af stað með raunverulega kostað 80–100 milljónir. Þar er enn verið að eyða fé lífeyrissjóðanna, því að lífeyrissjóðirnir greiddu þessa rannsókn sjálfir. Ég hef farið yfir þá skýrslu. Margt gott er í þeirri skýrslu sem varpar ljósi hér á eitthvað af því sem gerðist hér, en að mínu mati stendur kaflinn upp úr sem er samantekt um tengda aðila. Viðurkennt var á þeim fundi sem þessir aðilar boðuðu til hjá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd að ákvæði vantaði í lög um lífeyrissjóði, þ.e. skilgreiningu á því að lífeyrissjóðirnir mættu ekki hver fyrir sig kaupa hlutabréf í félögum tengdra aðila. Þær upplýsingar eru mjög sláandi.

Þess vegna er sú skýrsla, sem þessir menn gerðu og sem farið hefur verið yfir hér, mjög gott innlegg í rannsóknina sem fara á fram þegar búið verður að samþykkja þetta mál. Sú vinna er ekki alveg unnin fyrir gýg. Þess vegna styð ég að hún verði notuð sem hliðarafurð við rannsóknina því að þar eru miklar upplýsingar. Þar er t.d. farið yfir sögu lífeyrissjóðakerfisins alls og þróun í lagasetningu hér á landi o.s.frv. Það er því mjög gott að hafa það til hliðsjónar.

Ég tek líka undir það sem fram kom í máli hv. þm. Álfheiðar Ingadóttur að nefndina vantaði rannsóknarheimildir. Nefndin hafði ekki heimildir fyrir því að benda á brot í starfi, brotalamir eða að framdir hefðu verið refsiverðir verknaðir o.s.frv. En með þessari tillögu, þar sem er raunverulega verið að framfylgja stefnu þingsins sjálfs, er lagt til að rannsóknarnefndin fái mjög víðtækar heimildir.

Mig langar að benda á fyrningarfrest. Ég vil að málinu verði hraðað í gegnum þingið. Það eru ekki margir þingdagar eftir. Það er nauðsynlegt að þingið samþykki að rannsókn sem þessi fari fram á lífeyrissjóðunum. Ég hef skilning á því sjónarmiði að það er bagalegt og náttúrlega óþolandi að Alþingi sjálfu, sem fer með fjárveitingavald landsins, skuli vera neitað af nefndarmönnum í fjárlaganefnd um fé til rannsóknarinnar. Raunverulega er ekki séð til þess að skaffað sé fjármagn á móti til þessara rannsókna. Það gengur ekki til lengdar en ég veit að hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir hefur lagt í mikla vinnu við að afla fjár hjá ríkisvaldinu fyrir þeim rannsóknum sem eru nú þegar í gangi og eru í pípunum.

Ég minni á að Alþingi á að vera sjálfstæð stofnun. Alþingi ber að fara í þær rannsóknir sem samþykktar eru í þinginu. Þess vegna verður að tryggja fjármagn til þessara rannsókna.

Úr því að búið er að fara yfir það lítillega að breyta þurfi lögunum um rannsóknarnefndir Alþingis vil ég stinga því inn í umræðuna að ég tel mikilvægt að það þurfi aukinn meiri hluta þingmanna til þess að samþykkja rannsókn til að slíkt sé ekki notað í pólitískum tilgangi, í pólitískum skollaleik. Rannsókn um starfsemi lífeyrissjóðanna á að fara algjörlega mótatkvæðalaust í gegnum þingið, vegna þess að við þingmenn höfum nú þegar samþykkt að rannsóknin skuli fara fram. Þetta er einungis forsmekkurinn að því að rannsóknarnefnd sé sett á fót. Ég tel að þegar málið hefur farið í gegnum þingið sé þingið búið að virkja málið. Þá þarf ekki að ræða það frekar, þá liggur heimild fyrir því að fara í rannsókn á starfsemi lífeyrissjóðanna. Svo í framhaldinu, með nýrri ríkisstjórn eftir næstu kosningar, verður hægt að finna fjármagn til að setja nefndina á laggirnar.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa þetta lengra enda er tími minn á þrotum. Ég fagna því að málið sé loksins komið aftur fyrir þingið því að það var orðið fullburða á síðasta þingi. Einhvern veginn týndist það þó fyrir þinglok. Þess vegna er nauðsynlegt að gera þá breytingu að taka árið 2012 inn í rannsóknina vegna uppgjörs á afleiðusamningum og koma þessari rannsókn af stað, því að um er að ræða stóran þátt í bankahruninu á Íslandi. Það verður að rannsaka því að almenningur veit að hér er mikið í húfi. Við verðum að fá að vita það hvað gerðist í lífeyrissjóðunum í aðdraganda hrunsins.



Till. gengur til síðari umr. 

Till. gengur til stjórnsk.- og eftirln.