142. löggjafarþing — 21. fundur.
stjórnarskipunarlög, frh. 2. umræðu.
frv. ÁPÁ o.fl., 5. mál (tímabundið ákvæði um breytingu á stjórnarskrá). — Þskj. 5, nál. 64 og 65.

ATKVÆÐAGREIÐSLA

[19:01]

[18:53]
Árni Páll Árnason (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við fáum nú nýtt tækifæri til að halda áfram með vinnu við breytingar á stjórnarskrá. Það er okkur mikilvægt og það er mikilvægt að nýta þetta tækifæri og gera það vel. Fyrir liggur vilji formanna flokkanna til að halda áfram með vinnu við stjórnarskrárumbætur á forsendum þar sem tekið er mið af nýlegri þróun og þar á meðal tillögum stjórnlagaráðs og niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslu í haust.

Við höfum tækifæri núna til að halda áfram þeirri vinnu, finna henni nýjan og góðan farveg og efla samstöðu hér á Alþingi Íslendinga um réttu leiðina áfram varðandi stjórnarskrárumbætur fyrir okkur öll.



[18:54]
Katrín Jakobsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það er mín einlæga von að Alþingi samþykki þá breytingu sem hér er lögð til á stjórnarskrá og staðfesti þar með samþykkt þá sem gerð var á síðasta Alþingi. Með þessari samþykkt opnum við glugga að því að unnt verði að gera breytingar á stjórnarskrá á því kjörtímabili sem nú fer í hönd án þess að þær verði gerðar í tímapressu undir lok kjörtímabilsins. Ég vona svo sannarlega að þær breytingar verði gerðar í sem mesti sátt bæði hér í þessum sal en líka við samfélagið allt. Ég vona einlæglega að þetta frumvarp verði samþykkt og þessi breyting gangi í gegn þannig að við höfum bráðabirgðaákvæði til að breyta stjórnarskránni á annan hátt en verið hefur með aðkomu þings og þjóðar.



[18:55]
Vigdís Hauksdóttir (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það er ekkert sem rökstyður það að setja þetta breytingarákvæði inn í stjórnarskrána, sem er til bráðabirgða til næstu fjögurra ára. Það eina sem gæti rökstutt það að setja þetta breytingarákvæði inn er að eitthvert mál þyrfti hraðferð inn í stjórnarskrána til að vernda mannréttindi eða annað slíkt. Það er ekki fyrirsjáanlegt og ekki hefur verið rætt hvað það gæti verið. Það er því afar undarlegt að verið sé að biðja um stuðning um breytingar á stjórnarskránni þegar einungis 25 þingmenn greiddu umræddu frumvarpi atkvæði á síðasta þingi.

Það mál sem liggur fyrir þinginu eru eftirhreytur af árásum Samfylkingar og Vinstri grænna (Gripið fram í.) sem staðið var fyrir á síðasta kjörtímabili. Ég segi því nei, virðulegi forseti.



[18:56]
Birgitta Jónsdóttir (P) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Ég er hér eins og oft áður í togstreitu. Þessi leið, með sínum háu þröskuldum, er mér erfið út af því að ég óttast að það sé þröskuldur á lýðræðisumbætur. Aftur á móti er þetta að sama skapi bráðabirgðaákvæði sem gæti hjálpað til við stjórnarskrárbreytingar. Ég ætla því að sitja hjá.

Við píratar munum ráðfæra okkur við baklandið okkar á eftir út af því að það lá ekki fyrir fyrr en í dag, þetta samkomulag á milli formannanna. Við ætlum þar af leiðandi ekki að standa í vegi fyrir að málið fari áfram í 3. umr. og í lokaatkvæðagreiðslu.



[18:57]
Róbert Marshall (Bf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Með þessari breytingu er opnað á þann möguleika að gerðar séu breytingar á stjórnarskránni á kjörtímabilinu en satt best að segja hefur það á undanförnum árum reynst pólitíkinni afar erfitt að takast á við stjórnarskrárbreytingar í aðdraganda kosninga.

Með þessu opnast tækifæri til að taka málið úr þeim átakafarvegi sem einkennt hefur það og þetta gefur okkur von um að við getum haldið þeirri vinnu áfram sem staðið hefur nær óslitið frá 2005 í umbótum að stjórnarskránni. Það er mikil vinna sem liggur að baki, margt sem hægt er að taka tillit til en málið hefur þokast töluvert langt áfram. Það er mikilvægt að það renni ekki út í sandinn og menn geti haldið áfram þessari vinnu og mögulega náð, í samstöðu hér á þinginu, einhverjum breytingum fram á stjórnarskránni sem hugsanlega væri hægt að senda í þjóðaratkvæðagreiðslu meðfram sveitarstjórnarkosningum 2014. Það væri mjög ánægjulegt.



[18:58]
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Síðastliðið vor sat ég hjá í atkvæðagreiðslu um frumvarp þetta. Undirritað hefur verið samkomulag af formönnum allra flokka hér á Alþingi, að frátöldum Pírötum, um að halda áfram vinnu að nýrri stjórnarskrá sem meðal annars verði byggð á grundvelli vinnu stjórnlagaráðs og þjóðaratkvæðagreiðslunnar sem fór fram 20. október sl. Í ljósi þess að brýnt er að við setjum okkur nýja stjórnarskrá mun ég greiða frumvarpinu atkvæði mitt til að stuðla að því. Ég tel eftir sem áður að þröskuldurinn sé of hár en ákvæðið er tímabundið og í ljósi þess treysti ég mér til að styðja það.



[18:59]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Nú kemur til afgreiðslu á þessu þingi mál sem var afgreitt á síðasta þingi með tiltölulega litlum stuðningi þingsins, þ.e. einungis með 25 atkvæðum. Við þá atkvæðagreiðslu ákvað ég að sitja hjá og greindi frá því að ég teldi grundvallaratriði að til þess að þessi breyting gæti tekið gildi þyrfti að liggja fyrir samkomulag um það, sem ég hefði trú á, hvernig standa ætti að vinnu við breytingar á stjórnarskránni í framhaldinu. Undanfarnir dagar hafa verið nýttir til að ná sameiginlegum grundvelli um skipun níu manna nefndar sem fær það verkefni á kjörtímabilinu og við það fyrirkomulag er ég sáttur.

Ég ætla að greiða atkvæði með þessari breytingu í þeirri trú að þingmenn allra flokka leggi sitt af mörkum til að láta af þeim átökum sem voru einkennandi á síðasta kjörtímabili um (Forseti hringir.) breytingar á stjórnarskránni og sætti sig við að breytingar á henni á að gera í sem ríkastri sátt. (Forseti hringir.) Það endurspeglast í ákvæðum þessa frumvarps og ég hef trú á því að þingið rísi undir væntingum þjóðarinnar um að vinna þetta mál í sem mestri samstöðu þannig að þegar verkinu er lokið muni öll þjóðin fylkja sér að baki niðurstöðu.



 1. gr. samþ. með 35:6 atkv. og sögðu

  já:  ÁPÁ,  ÁÞS,  ÁsF,  BÁ,  BjG,  BjarnB,  BjÓ,  BSB,  BP,  BN,  ElH,  FrH,  GuðbH,  GÞÞ,  HarB,  HHj,  HöskÞ,  IllG,  JónG,  KJak,  KaJúl,  KÞJ,  KLM,  LRM,  PVB,  PJP,  RR,  RM,  SII,  SJS,  SSv,  ValG,  VilB,  WÞÞ,  ÖJ.
nei:  ÁsmD,  GBS,  JMS,  KG,  VigH,  ÞorS.
7 þm. (BirgJ,  HHG,  JÞÓ,  LínS,  SilG,  UBK,  ÞM) greiddu ekki atkv.
15 þm. (EKG,  ELA,  EyH,  HBK,  HE,  OH,  PHB,  REÁ,  SDG,  SigrM,  SIJ,  VBj,  VilÁ,  ÞórE,  ÖS) fjarstaddir.

 2. gr. samþ. með 35:7 atkv. og sögðu

  já:  ÁPÁ,  ÁÞS,  ÁsF,  BÁ,  BjG,  BjarnB,  BjÓ,  BSB,  BP,  BN,  ElH,  FrH,  GuðbH,  GÞÞ,  HarB,  HHj,  HöskÞ,  IllG,  JónG,  KJak,  KaJúl,  KÞJ,  KLM,  LRM,  PVB,  PJP,  RR,  RM,  SII,  SJS,  SSv,  ValG,  VilB,  WÞÞ,  ÖJ.
nei:  ÁsmD,  GBS,  JMS,  KG,  SigrM,  VigH,  ÞorS.
7 þm. (BirgJ,  HHG,  JÞÓ,  LínS,  SilG,  UBK,  ÞM) greiddu ekki atkv.
14 þm. (EKG,  ELA,  EyH,  HBK,  HE,  OH,  PHB,  REÁ,  SDG,  SIJ,  VBj,  VilÁ,  ÞórE,  ÖS) fjarstaddir.

Fyrirsögn samþ. án atkvgr.

Frumvarpið gengur til 3. umr.