143. löggjafarþing — 22. fundur
 14. nóvember 2013.
hækkun skráningargjalda í háskólum.

[10:55]
Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Hæstv. menntamálaráðherra hefur áður verið spurður um hækkun skráningargjalda á nemendur í opinberum háskólum í þessum sal en samkvæmt fjárlagafrumvarpi á að hækka þau úr 60 þús. kr. í 75 þús. kr. Nýlega, þ.e. fyrir árið 2012, voru þau hækkuð úr 45 þús. kr. í 60 þús. kr. og höfðu þá verið óbreytt frá árinu 2005 og því voru nokkuð skýrar verðlagsforsendur á bak við þá hækkun. Sú hækkun sem þá varð skilaði sér óskipt til skólanna.

Þegar hæstv. ráðherra var spurður út í þessa hækkun við 1. umr. fjárlaga kom fram í máli hans að skólarnir hefðu óskað eftir hækkuninni og fært rök fyrir auknum kostnaði sem skráningargjöldunum er ætlað að mæta. Þegar nánar er rýnt í fjárlagafrumvarpið kemur hins vegar fram að þessi rök falla um sjálf sig því að hækkunin skilar sér hreint ekki til skólanna sjálfra. Sem dæmi má nefna Háskóla Íslands þar sem flestir stunda nám. Þar ætti hækkunin að skila um það bil 180 milljónum til skólans en samkvæmt frumvarpinu eykst útgjaldaheimild háskólans ekki um þá fjárhæð heldur einungis um 39,2 milljónir. Afganginn tekur ríkissjóður. Hér er því ekki um neitt annað að ræða en dulda skattlagningu á námsmenn, virðulegur forseti. Ótrúlegt að sjá slíkt frá ríkisstjórn sem boðar almennt skattalækkanir nema hún sé fyrst og fremst, eins og dæmin kannski sanna, að hugsa um stóru aðilana í þeim efnum. Hún fer síðan fjallabaksleið til að skattleggja námsmenn sem svo sannarlega teljast ekki til tekjuhæstu eða burðugustu hópanna í samfélaginu.

Ég vil því spyrja hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra hvort hann hyggist beita sér fyrir því að þetta verði með einhverjum hætti leiðrétt við vinnslu fjárlaga eða hvort hann álíti að þetta sé eðlileg ráðstöfun eins og hann leggur málið upp og hafði áður svarað hér við 1. umr. um fjárlögin.



[10:57]
mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrirspyrjanda, hv. þingmanni, fyrir spurninguna og gefa mér tækifæri til að leiðrétta þetta mál. Það er rétt sem fram kom í máli fyrirspyrjanda, skráningargjöldin hafa verið hækkuð og er það gert að fengnum tillögum háskólanna sjálfra, þ.e. hinna opinberu háskóla. Ég tel rétt að menntamálaráðherra á hverjum tíma samþykki þá tillögu sem kemur frá skólunum sé hún rökstudd með þeim hætti sem gert var og að það þurfi alveg sérstakan rökstuðning til að hafna slíkri tillögu.

Hvað varðar framsetninguna í fjárlögum sem hv. þingmaður nefnir er hér dregin upp nokkuð villandi mynd. Það sem hér er á ferðinni er einfaldlega það að háskólinn fái þarna heimild til að auka tekjur sínar. Að skólunum var beint niðurskurðar- eða aðhaldskröfu upp á 1,5%. Hið bókhaldslega eins og það birtist þýðir að þar með er líka um leið dregið úr aðhaldskröfunni þannig að nettóstaðan bætist sem því nemur, en upphaflega var gerð aðhaldskrafa til skólanna.

Skólarnir fá um leið tækifæri til að auka tekjur sínar með þessum hætti og fyrir því eru málefnaleg rök. Það er tekið saman í fjárlagafrumvarpinu og niðurstaðan er sú að aðhaldskrafan minnkar sem nemur þessum auknu tekjum. Það er það sem skiptir máli fyrir skólann. Hér er því ekki um að ræða einhvers konar dulbúna skattheimtu á nemendur, þetta er eðlilegt gjald og gjaldtaka sem á sér málefnalegan bakgrunn. Það gerir skólunum auðveldara fyrir að mæta þeirri aðhaldskröfu sem að þeim er beint.

Það sem hv. þingmaður er að vísa til er raunverulega bókhaldslegt atriði í fjárlögunum en breytir engu hvað varðar heildarniðurstöðu gagnvart skólunum.



[10:59]
Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Það er sjálfsagt hægt að fara í alls konar bókhaldsleiki með mál af þessum toga. Kjarni málsins er engu að síður sá að það kom fram í svari ráðherra við 1. umr. að háskólarnir hefðu farið fram á þessa hækkun og hann hefði talið rökstuðninginn vera góðan og gildan og eðlilegt að fallast á hann. Rökstuðningur háskólanna var að þeir þyrftu þessa hækkun til sín. Þess vegna, ef rökstuðningurinn er að mati ráðherrans eðlilegur, skrifar hann upp á að háskólarnir þurfi þetta fjármagn til sín en það sem hann er í raun að gera, burt séð frá öllum bókhaldsbrellum, er að láta stúdentana borga fyrir niðurskurðinn. Það er það sem stendur eftir.

Námsmannafélögin hafa vakið athygli á þessu máli, herra forseti, gagnvart efnahags- og viðskiptanefnd sem er með einhvern hluta fjárlagadæmisins til umfjöllunar. Og ég ætla rétt að vona að sú nefnd fari þá rækilega í gegnum þessar bókhaldsbrellur sem hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra er að reyna að útskýra fyrir okkur hér í dag í þessu sambandi.



[11:00]
mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Grundvöllur þess misskilnings sem hér er uppi er sá að þessi kostnaður er raunverulegur, honum þarf að mæta. Það var þess vegna sem háskólum var heimilað að taka til sín þessar tekjur og þar af leiðandi þurfa þeir ekki að taka aðra peninga sem þeir fá frá ríkissjóði til að standa undir þessum kostnaði. Það er mergur málsins.

Virðulegi forseti. Hér er ekki um neinar bókhaldsbrellur að ræða. Það er einfaldlega uppsetningin í fjárlögunum sem virðist þvælast fyrir hv. þingmanni. Niðurstaða málsins er sú að háskólarnir eru betur settir núna eftir þetta en áður vegna þess að aðhaldskrafan sem að þeim er stefnt minnkar. Það er mergur málsins.

Með öðrum orðum, (Gripið fram í.) kostnaðurinn er raunverulegur og hann fellur til. Háskólarnir geta innheimt þetta gjald til að mæta honum og þurfa því ekki að nota aðra fjármuni sem þeir fá úr ríkissjóði til þess og þar af leiðandi er staða þeirra betri sem því nemur en áður. Annars hefði að þeim verið stefnt sömu niðurskurðarkröfu, þ.e. 1,5%, eins og upp var lagt með en þeim var gert auðveldara að mæta þessu með þessum hætti.