143. löggjafarþing — 49. fundur
 14. janúar 2014.
átak til atvinnuuppbyggingar í Austur-Húnavatnssýslu, síðari umræða.
þáltill. EKG o.fl., 107. mál. — Þskj. 110, nál. 341.

[18:45]
Frsm. atvinnuvn. (Haraldur Benediktsson) (S):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti atvinnuveganefndar um tillögu til þingsályktunar um átak stjórnvalda og sveitarfélaga í Austur-Húnavatnssýslu til atvinnuuppbyggingar.

Nefndin hefur fjallað um málið og bárust henni umsagnir frá Byggðastofnun, Bændasamtökum Íslands, Landsvirkjun og Samtökum ferðaþjónustunnar.

Í tillögunni er lagt til að stjórnvöld og sveitarfélög komi á átaki til að efla atvinnulíf og skapa ný störf á Norðurlandi vestra með nýtingu raforku frá Blönduvirkjun. Einnig á að efla samkeppnishæfni svæðisins og undirbúa það fyrir uppbyggingu. Jafnframt verði unnið að markaðssetningu þess sem iðnaðarkosts, svo sem fyrir gagnaver.

Í greinargerð með tillögunni er bent á að á Norðurlandi vestra hafi störfum og íbúum fækkað mjög undanfarin ár. Samkvæmt upplýsingum Byggðastofnunar hefur íbúum fækkað um tæplega 1.000 milli áranna 1997 og 2010 en sú tala jafngildir um það bil íbúafjölda Blönduóss árið 2011 sem var þá um 880. Einnig kemur fram í greinargerðinni að sveitarfélög nyrðra hafi unnið að því að byggja upp gagnaver á Blönduósi. Staðhættir fela í sér mikla kosti fyrir gagnaver, svo sem nálægð við virkjun og umhverfisvæna og græna orku, þar séu góðar raforku- og ljósleiðaratengingar og náttúruvá sé lítil. Auk þess er bent á að byggingarland sé gott, lóð sé tilgreind í aðalskipulagi Blönduósbæjar, almenn og sértæk þjónusta sé til staðar innan 50 kílómetra frá lóðinni og alþjóðaflugvöllur innan 150 kílómetra.

Umsagnaraðilar taka jákvætt í efni tillögunnar en einnig er í umsögnum hnykkt á því að þörf sé á uppbyggingu atvinnulífs víðar á landinu og að margvísleg tækifæri á ýmsum svæðum verði að nýta.

Kristján L. Möller var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt óbreytt.

Undir nefndarálitið skrifa allir nefndarmenn, hv. þingmenn Jón Gunnarsson, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Ásmundur Friðriksson, Björt Ólafsdóttir, Páll Jóhann Pálsson, Þorsteinn Sæmundsson, Þórunn Egilsdóttir og Haraldur Benediktsson.



[18:48]
Sigrún Magnúsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Það hefði verið eftirsóknarvert og spennandi að gera könnun meðal þingmanna um hvað kæmi fyrst upp í huga þeirra þegar Húnavatnssýslur eru nefndar.

Nýlega fengum við í hendur rit um stöðugreiningu 2013 varðandi byggðaþróun sem er fylgirit með stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2014–2017, sem við munum ræða næstu daga hér á Alþingi. Margar gagnlegar upplýsingar koma fram þar um stöðu mála á landinu almennt og skýrslan segir mér að við megum engan tíma missa varðandi Austur-Húnavatnssýslu ef hún á ekki að detta niður í skilgreininguna brothætt byggð. Það er erfiðara að grípa í taumana þegar byggðarlag er komið niður í þá skilgreiningu.

Ég býst við að ýmsir forvígismenn Húnvetninga fyrri tíma mundu snúa sér við í gröfum sínum ef þeir fréttu að byggðarlag þeirra stæði í slíkum sporum. Eitt einkenni brothættrar byggðar er mikil fólksfækkun og svo sannarlega hefur orðið talsvert mikil fækkun íbúa í Austur-Húnavatnssýslu.

Annað einkenni er mikið brottfall kvenna en Húnvetningum er ekki alls varnað því þeim helst nokkuð betur á konum en víðast annars staðar á landsbyggðinni. Hins vegar getur skýringin verið sú að konurnar séu fluttar í burtu frá þeim og það skekkir auðvitað alla tölfræði. Vonandi er það þó ekki skýringin. Við vitum að konur eru meira í aðhlynningarstörfum og það hefur fækkað talsvert starfsfólki, bæði á sjúkrahúsinu á Blönduósi og einnig á Sauðárkróki.

Ýmsar staðreyndir tala sínu máli um hvernig staðan er í þessu byggðarlagi. Útsvarstekjur eru þær næstlægstu á landinu í Norðurlandi vestra og hafa haldist óbreyttar í sjö ár. Það er ekki mikið um að Húnvetningar fari í háskólanám og er það hlutfall einnig hvað lægst þar á landinu, en konurnar eru þó sýnu hlynntari námi en karlarnir þótt karlar skori reyndar nokkuð hátt þegar kemur að iðnmenntun. Það er einn alvarlegur hlutur er enn og það er nýskráning hlutafélaga og einkahlutafélaga en það er einnig hvað lægst á Norðurlandi vestra sem segir okkur að aðgerða er þörf í atvinnumálum.

Svo ég komi að einhverju jákvæðu verð ég að nefna að greiðslumark varðandi sauðfé er gott í Húnavatnssýslum og það er hvað hæst í Húnaþingi vestra á landinu. Hvað er það sem einkennir Húnavatnssýslur? Að mínu mati er það gras og víðerni og vissulega á að nýta sér það. Gras og grasnytjar eru að vísu ekki lengur taldar til sérstakra auðæfa eða taldar skapa mikla möguleika til hagsældar. Reyndar voru berglög og víðerni Húnavatnssýslu þess valdandi að þaðan komu helstu læknar þessa lands við dögun nýrrar aldar. Það er kannski von að fólk verði undrandi á því að ég skuli nefna að berglög hafi þarna áhrif á en þannig háttar til að berglög halla til landsins en ekki til sjávar þannig að vatn helst uppi á heiðalöndunum. Þar sem vatn er er gróður og þar sem er gróður er unnt að hafa skepnur. Húnvetningar lifðu mikið á sauðfé g seldu það jafnvel á fæti til Bretlands og fyrir það fengu þeir greitt með gulli og gátu því sent syni sína til náms erlendis. Þannig er komin skýringin á því að helstu og færustu læknar okkar voru af húnvetnsku kyni.

Ég legg það því fram í þetta púkk um atvinnuuppbyggingu í Austur-Húnavatnssýslu að skilgreina betur sérstöðu héraðsins, gróðurmikil og flott heiðalönd. Þá sérstöðu er unnt að nýta, bæði hvað varðar aukningu í landbúnaðarframleiðslu svo og margvíslega ferðamennsku.

Víðerni heiðanna er engu líkt. Þessi háslétta Íslands er stórkostleg að náttúrufegurð sem gefa ætti sem flestum tækifæri að njóta, hvort sem er gangandi, ríðandi eða akandi. Möguleikar eru óendanlegir til nýtingar varðandi ferðaþjónustu. En gleymum ekki að húnvetnskir bændur urðu að fórna heilmiklu af hinu frábæra gróðurlandi á Auðkúluheiði þegar Blönduvirkjun var gerð. Íbúar héraðsins voru sannfærðir um að orka eða afl virkjunar væri hagkvæm og gagnleg fyrir nærumhverfið. Blönduvirkjun væri ákjósanleg til eflingar atvinnu í héraði og möguleikar á mun fjölbreyttari störfum sköpuðust með komu Blönduvirkjunar. En hingað til hefur ekki verið staðið við þetta loforð, hingað til hefur orka Blönduvirkjunar ekki verið nýtt til hagsbóta fyrir Austur-Húnvetninga, því miður. Eins og ég rakti hér að framan hefði það verið hið eina rétta strax í lok síðustu aldar til að hnignunin hefði ekki haldið áfram.

Það er veruleg hagkvæmni fólgin í því að nýta orku sem næst virkjunarstað og komast þannig hjá löngum og dýrum flutningaleiðum með raforkuna. Nú verðum við að gera þá kröfu að ríkisstjórn taki höndum saman með heimamönnum og finni fjárfesta og fyrirtæki sem geta orðið að burðarási í þessu samfélagi. Forustumenn sveitarfélaga nyrðra hafa um árabil unnið með innlendum og erlendum aðilum að uppbyggingu gagnavers á Blönduósi. Heimamenn hafa lagt mikið á sig til að kynna möguleika varðandi slíkt fyrirtæki.

Erlendir úttektaraðilar völdu Blönduós líka sem einn besta kost fyrir gagnaver hér á landi. Já, ég segi það. Yfirvöld heima hafa unnið mikið og gott starf til að kynna staðhætti fyrir fjárfestum og fyrirtækið Morgan Stanley valdi Blönduós sem áhugaverðan stað fyrir gagnaver og að þeirra mati er Blönduós ein besta staðsetning fyrir gagnaver á Íslandi. Kostirnir eru nálægðin við Blönduvirkjun, góðar rafmagns- og ljósleiðaratengingar, byggingarsvæðið er í eigu sveitarfélagsins og það er komið á aðalskipulag Blönduósbæjar, engin náttúruvá eða lítil og svæðið er utan við helstu eldgosa- og jarðskjálftasvæða landsins. Það er sannarlega ómetanlegt að Blönduósbær á um 128 hektara lands sem talið er að þurfi undir stórt gagnaver og það þarf því ekki að fara í neina samninga við landeigendur eins og víða í öðrum sveitarfélögum.

Svo er oft kalt á þessum mel ofan og sunnan við Blönduós og þar blæs stundum nöpur norðanátt. Norðanáttin er bölvuð en svo merkilegt sem það er þá er kuldinn kostur fyrir gagnaver.

Frummælandi minntist á að alþjóðlegur flugvöllur væri í 150 kílómetra fjarlægð en það er líka lítill flugvöllur við hliðina, þarna rétt hjá. Það er ekkert langt síðan hann var í notkun og sannarlega væri hægt að efla hann og gera betur úr garði.

Þá vil ég nefna að Blönduós er ekki einangrað sveitarfélag eða afskekkt né í útjaðri einhvers svæðis. Greiðar samgöngur eru til staðarins og þar í kringum. Eitt sem skipulagsfræðingar telja sérstaklega eftirsóknarvert við skipulag byggða og varðandi atvinnumöguleika yfirleitt er greið umferð svæðisins og ekki síst þegar unnt er að mynda hringakstur, en þannig háttar til þarna að það er stutt á milli þéttbýlisstaðanna Skagastrandar og Blönduóss og með tilkomu Þverárhlíðarvegarins er komin hringakstursleið um byggðakjarnana fjóra, Blönduós, Skagaströnd, Sauðárkrók og Varmahlíð. Öflugt fyrirtæki, sama á hvaða þéttbýlisstaðnum það væri, mundi í raun örva alla þessa staði svo og mannlífið.

Einnig ættu þessar greiðu samgöngur um lokkandi héruð að gera ferðamennsku eftirsóknarverða í auknum mæli Svo er saga þarna við hvert fótmál, saga sem þyrfti að gera miklu betri skil. Fáir gera sér til dæmis grein fyrir því að elsta mannvirki á Íslandi er í Húnavatnssýslum, Borgarvirki.

Í mínum huga kæmi líka til greina að nýta orku Blönduvirkjunar heima í héraði til matvælaframleiðslu. Heimurinn kallar á meiri mat. Eins og ég hef lýst að framan eru Húnavatnssýslur einstök matarframleiðsluhéruð og slíka sérstöðu ber að nýta, en heimamenn hafa lagt vinnu í undirbúning og uppbyggingu gagnavers og treyst á að slíkt fyrirtæki yrði burðarás samfélagsins. Við eigum að styðja þá í þeirri viðleitni, enda kostir, eins og hér hefur verið talað um, fyrir það fyrirtæki mjög góðir.

Til að allt gangi upp varðandi atvinnuuppbyggingu í Austur-Húnavatnssýslu þarf að sameina krafta ríkisstjórnar, Landsvirkjunar og heimamanna. Hefjumst handa. Aðstæður leyfa ekki bið eða drátt á slíkri ákvörðun.



[18:58]
Elsa Lára Arnardóttir (F):

Virðulegur forseti. Hér ræðum við tillögu til þingsályktunar um átak stjórnvalda og sveitarfélaga í Austur-Húnavatnssýslu til atvinnuuppbyggingar. Mikilvægt er að mínu mati að koma á samstilltu átaki stjórnvalda og sveitarfélaga á Norðurlandi vestra, og þar með Austur-Húnavatnssýslu, um eflingu atvinnulífs og sköpun nýrra starfa á svæðinu, m.a. með nýtingu raforku sem framleidd er í Blönduvirkjun.

Eins og segir í tillögu til þingsályktunar er markmiðið með átakinu að efla samkeppnishæfi svæðisins og undirbúa það fyrir þá uppbyggingu sem fylgir orkunýtingu Blönduvirkjunar og jafnframt að vinna að markaðssetningu svæðisins sem iðnaðarkosts, svo sem fyrir gagnaver.

Það er staðreynd, eins og fram kemur í tillögunni sem hér um ræðir, að miklar breytingar hafa orðið á atvinnuháttum á Norðurlandi vestra á undanförnum árum. Því miður hefur sú breyting ekki verið til góða þegar á heildina er litið. Fækkun starfa, m.a. í sjávarútvegi og landbúnaði, hefur haft þau áhrif að fólksfækkun hefur orðið á svæðinu. Það er nefnilega þannig, eins og við vitum öll, að á bak við einstakling sem missir vinnuna er oft fjölskylda. Þegar atvinnumissir verður og enga atvinnu er að fá á svæðinu er eini kosturinn í stöðunni að flytja í burtu. Þessi einstaklingur flytur í burtu og tekur fjölskyldu sína með sér. Það getur haft áhrif á ýmsa þætti, eins og verslun og þjónustu.

Þessa dagana og vikurnar berast ekki góðar fréttir af svæðinu, því miður. Við höfum fengið fréttir af uppsögnum sjómanna og nú vofir yfir að fleiri sjómenn gætu misst vinnuna þar sem togari á svæðinu er kominn á sölu. Því miður eru fleiri fyrirtæki að hætta og segja upp starfsfólki. Það er slæmt að horfa upp á það. Þess vegna er nauðsynlegt að þessi tillaga nái fram að ganga og að komið verði á samstilltu átaki stjórnvalda og sveitarfélaga. Við sem þingmenn verðum að horfast í augu við hver staðan er. Standa þarf vörð um opinber störf úti á landi og spyrna fótum við því að störf fari af landsbyggðinni til Reykjavíkur.

Ég fór í fundaferð um Norðurland vestra um síðustu helgi og er óhætt að segja að það er áhyggjutónn í fólki á svæðinu. Ég skil það mætavel. Það er ekki gaman að horfa á eftir einstaklingum og fjölskyldum sem vilja búa á svæðinu en vantar atvinnu og þegar atvinnuna vantar verður fólk að fara. En Norðurland vestra býr yfir miklum atvinnumöguleikum og með því að nýta m.a. orku Blönduvirkjunar til atvinnuuppbyggingar geta skapast mörg störf á svæðinu, sem væri til bóta sama um hvaða starf er að ræða, hvað sem er. Það gæti verið orkufrekur iðnaður, eins og talað er um í tillögunni. Ef sú yrði raunin mundu eflaust spretta upp ýmis atvinnutækifæri í kringum iðnaðinn og þjónustu við hann.

Virðulegur forseti. Ég vona að þessi tillaga til þingsályktunar komist í gengum þingið til að styrkja svæðið.



[19:01]
Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég er einn af þeim sem eru með á þessari þingsályktunartillögu og treysti á að hún fái vandaða umfjöllun og verði samþykkt, sem allt stefnir svo sem í.

Það er búið að flytja hér afar góðar ræður þar sem farið hefur verið yfir stöðuna á þessu svæði og ég tek heils hugar undir það sem hér hefur komið fram að það eru mörg teikn á lofti sem kalla fram viðvörunarorð, það er hætta á ferðum. Veruleg fólksfækkun hefur orðið á þessu svæði og þó að þetta sé ekki eina svæðið á landinu þar sem það hefur gerst — við höfum horft upp á það sama á Vestfjörðum, á þessu svæði á Norðurlandi vestra og á norðausturhorninu — er sérstök ástæða til að fara yfir hvaða breytingar hafa valdið þessari miklu fækkun.

Það er svolítið merkilegt að skoða tölurnar sem fylgja með tillögunni. Það verður veruleg fækkun frá 1997 til 2007. Síðan kemur stopp í þetta þangað til að árið 2011 fara tölurnar aftur að síga verulega niður á við. Það sem er forvitnilegt að skoða er að á sama tíma og hér varð veruleg uppsveifla í landinu og menn töluðu um mikinn hagvöxt var þetta eitt af þeim svæðum sem urðu algjörlega út undan. Þetta svæði naut ekki neins af þeirri uppsveiflu sem var í samfélaginu á þeim tíma. Það hafa orðið gríðarlegar breytingar í sýslunni þegar við skoðum stöðu landbúnaðar, svo sem í aukinni tækni og breytingum á öllum þáttum þar. Það sama gildir um sjávarútveginn. Nú síðast hefur það bitnað á þjónustunni og þar eru áfram teikn á lofti vegna þess að nú er verið að tala um að sameina heilbrigðisstofnanir á Norðurlandi. Það er full ástæða til að hafa áhyggjur af t.d. Heilbrigðisstofnuninni Blönduósi í þeirri sameiningu og raunar Sauðárkróki líka, þannig að ég hef sjálfur beðið um að þar verði farið varlega. Þó að ég hafi komið að því og þurft að taka erfiðar ákvarðanir hvað þetta svæði varðar þá gerði ég mér strax ljóst að m.a. á Blönduósi yrði ekki gengið verulega langt í niðurskurði, einfaldlega vegna þess að þá væru menn komnir að því að leggja niður mjög merka stofnun sem þar er.

Það sem kemur líka fram og er undirliggjandi í allri þingsályktunartillögunni er sérstaða þessa svæðis. Hér er valið að fara í öflugt orkuframleiðslufyrirtæki, þ.e. Blönduvirkjun, og nær öll sú orka er flutt í burtu með verulegu orkutapi. Eins og hv. þm. Sigrún Magnúsdóttir vakti athygli á í ágætri ræðu er eftir miklu að slægjast að reyna að nýta orkuna sem næst framleiðslunni svo við töpum ekki í flutningi á orku á milli svæða. Þess vegna hafa menn horft til gagnavers. Það er búið að vinna ákveðna grunnvinnu í því að skapa forsendur fyrir gagnaver. Því miður hefur orðið bakslag, við áttum von á því að hér mundu koma gagnaver og þá kæmi Blönduós sterklega inn í myndina en því miður hafa ekki risið mörg gagnaver á Íslandi og óljóst um framhaldið. En þarna var búið að skapa umhverfi sem átti að vera mjög hagstætt fyrir gagnaver þannig að það kæmi til Íslands. Það var líka búið að leggja fjármagn í að reyna að tryggja tengingar á milli Íslands og Ameríku og Evrópu, þ.e. með sæstreng til flutnings orku og nauðsynlegum nettengingum.

Við skulum vona að þessi vinna haldi áfram. Það hefur verið gripið til myndarlegra úrræða á þessu svæði, við skulum ekki gera lítið úr því, og þar eru myndarlegar stofnanir svo sem eins og innheimtumiðstöð á Blönduósi og þangað væri hægt að færa fleiri verkefni. Það hafa verið ýmsar hugmyndir uppi um það, m.a. fyrir Lánasjóð íslenskra námsmanna, og væri hægt að nýta sér þá öflugu þjónustu sem þar er nú þegar. Ég hvet þá stjórnarliða sem hér eru að skoða líka Vinnumálastofnun og þá sem koma að málum hennar. Það varð gríðarleg fjölgun og uppbygging í tengslum við Vinnumálastofnun á Skagaströnd og þó að maður óski þess ekki að þurfa að hafa stóra Vinnumálastofnun vegna atvinnuleysis þá verðum við að passa okkur á því að þegar samdrátturinn verður verði sá hluti ekki eingöngu skorinn niður, heldur alveg jafnt í Reykjavík og jafnvel frekar vegna þess að það er hægt að stýra því af viðkomandi ráðherra og í samráði við Vinnumálastofnun. Ég treysti á að það verði gert vegna þess að stofnanir eins og þær tvær sem ég hef nefnt skipta gríðarlega miklu máli fyrir þessi svæði.

Sama gildir um þær tillögur sem væntanlegar eru um lögregluna, hvernig þar verði byggt upp, það sem gefið verður til baka. Og ég treysti líka á að í þessum hugmyndum um sameiningar stofnana í heilbrigðisþjónustu á Norðurlandi verði reynt að ná samstöðu um að ganga alls ekki lengra á Blönduósi.

Þetta er varnarbarátta en þarf að breytast í sóknarbaráttu. Þessi tillaga gengur út á að reyna að sameina aðila í baráttunni fyrir byggð á þessu svæði. Það sem er forvitnilegt og kom líka í ræðu hjá hv. þm. Sigrúnu Magnúsdóttur og hefur alltaf undrað mann er að þetta svæði skuli ekki vera sterkara miðað við samgöngurnar. Það er þrátt fyrir allt í alfaraleið, það er á milli höfuðborgarsvæðisins og Norðurlands, sem sagt Akureyrarsvæðisins. Og núna þegar við sjáum fram á að það geti orðið sóknarfæri í landbúnaði hljóta menn að horfa til svæðis eins og þessa.

Ég hef stundum gagnrýnt heimamenn fyrir það að þeir hafi ekki verið nógu farsælir í því að standa saman á þessu svæði, vestur- og austursýslan og sveitarfélögin á þessu svæði. Það er eitt af því sem hlýtur að koma inn í umræðuna, hvort það muni styrkja þetta svæði að menn sameini sveitarfélög enn frekar. Og auðvitað verður breyting líka við það að hitaveitan kemur inn á Skagaströnd, þar koma ný tækifæri. En á móti kemur það sem hv. þingmaður sem hér talaði á undan, hv. þm. Elsa Lára Arnardóttir, bendir á, að nú er í rauninni að klárast það ferli sem varð þegar útgerðarfyrirtækin sameinuðust á þessu svæði eða Fisk Seafood í Skagafirði yfirtók útgerðina á Skagaströnd. Nú er verið að leggja frystitogaranum eða breyta honum, leggja honum að mér skilst, og þar er verið að fækka mörgum af þeim sem hafa m.a. stundað vinnu frá Skagaströnd, ef ég veit rétt. Það er nánast orðinn lítill hópur sem fer þarna á milli í fiskvinnslunni. Við sjáum því að þessar sterku greinar sem halda uppi íslensku samfélagi, landbúnaður og fiskvinnsla, sem hefðu átt að vera sterkar á þessu svæði hafa koðnað niður í Húnavatnssýslum.

Við skulum vona að þessi tillaga leiði til þess að menn nái áttum — við erum með Byggðastofnun þarna rétt hinum megin við Þverárfjallið, þ.e. í Skagafirði — og þetta verkefni verði unnið af fullri alvöru og menn geri allt sem hægt er til þess að varðveita og styrkja byggð í Austur-Húnavatnssýslu.