143. löggjafarþing — 56. fundur
 27. janúar 2014.
sérstök umræða.

upplýsingar um hælisleitendur.

[15:43]
Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Því miður verður seint sagt að framkoma okkar við fólk sem kemur hingað og biðst hælis hafi verið til fyrirmyndar, heldur einmitt í hina áttina. Þá er auðvitað ekki verið að tala um það fólk sem kemur hingað í boði okkar sem flóttamenn. Fyrir það fólk reynum við að gera okkar besta. En það er ekki framkoman við það fólk sem hér er til umræðu heldur þau hin sem koma hingað óboðin og í flestum tilfellum óttaslegin og hrjáð og biðja hér um hæli, (Gripið fram í: Hvað er það kallað?) fólk sem í almennu tali er kallað hælisleitendur.

Þessu fólki fjölgar stöðugt. Árið 2011 leituðu 75 einstaklingar hælis hér en árið 2013 var fjöldinn orðinn 172. Eðli máls samkvæmt framvísa hælisleitendur fölsuðum skilríkjum af því að þeir eiga ekki önnur. Þeir eru þá gjarnan handteknir og settir í fangelsi. Fulltrúar Flóttamannahjálpar Sameinuðu þjóðanna hafa gagnrýnt okkur vegna þessa. Auðvitað getur verið misjafn sauður í mörgu fé sem ferðast á fölsuðu vegabréfi en í samningnum um réttarstöðu flóttamanna sem Ísland fullgilti árið 1952 er sérstaklega tilgreint að ef vafi leiki á ástæðu til flótta eða sannleiksgildi frásagna eigi hælisleitandinn að njóta vafans. Sú regla gildir ekki hér.

Að sama skapi hefur verið gagnrýnt að afgreiðsla mála þeirra sem óskað hafa hér hælis taki langan tíma. Átak var gert á síðasta ári til að Útlendingastofnun gæti hraðað afgreiðslu mála og hefur það borið árangur. Útlendingastofnun afgreiddi 183 mál á síðasta ári á móti 46 málum árið 2011 og 63 málum árið 2012. Það er fagnaðarefni.

Um áramótin síðustu var 131 hælisleitandi með mál sín til meðferðar og þar af leiðandi 55 hjá Útlendingastofnun. Mál hinna 76 voru annaðhvort í meðferð hjá innanríkisráðuneyti eða þeir biðu flutnings úr landi. Það er líka fagnaðarefni að lagt hefur verið fram sérstakt frumvarp um sérstaka úrskurðarnefnd í málefnum útlendinga og þar með hælisleitenda. Loks er fagnaðarefni að í innanríkisráðuneytinu hefur verið lögð áhersla á vinnu við þennan málaflokk og ítarlegs frumvarps er að vænta í febrúar að sögn hæstv. innanríkisráðherra. En góður og fagur ásetningur er ekki nóg ef á sama tíma er komið fram við hælisleitendur með þeim hætti að ekki sé hægt að kalla það annað en fantaskap.

Fyrri part desember mætti hæstv. innanríkisráðherra á fund stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar vegna þess máls sem nefnt hefur verið lekinn úr innanríkisráðuneytinu, en þá hafði tveim fréttamiðlum borist í tölvupósti nokkuð sem kallað var óformlegt minnisblað úr innanríkisráðuneytinu þar sem fram komu persónuupplýsingar um einstaklinga og alveg sérstaklega einn sem flytja átti úr landi samkvæmt úrskurði ráðuneytisins. Þegar nánar var skoðað kom í ljós að flest af því sem fram kom í þessu minnisblaði átti ekki við rök að styðjast, það voru ósannindi og þess vegna ærumeiðandi. En það skiptir engu máli. Það er höfuðatriði í málinu að þessar upplýsingar áttu ekki að fara frá ráðuneytinu um þetta fólk, hvort sem þær voru sannar eða ósannar.

Í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd sagðist hæstv. ráðherra hafa gert athugun í ráðuneytinu og ljóst væri að þetta minnisblað væri ekki þaðan. Enn fremur kom fram á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar að margir hefðu þessar upplýsingar og þær gætu komið víðs vegar að.

Mig langar því að spyrja hæstv. ráðherra: Hvaða upplýsingum er almennt safnað um hælisleitendur og hverjir gera það? Hefur ráðherra látið fara fram athugun á því hverjir gætu hafa lekið minnisblaðinu eða komið því til þessara fréttamiðla í þessu tiltekna tilviki? Kom það frá einhverjum stofnunum sem heyra undir ráðherrann? Það væri ekki óeðlilegt, sýnist mér, að hún hefði látið athuga það enda alvarlegt að innanríkisráðuneytinu sé kennt um. Ef málið verður ekki upplýst munu stjórnvöld liggja undir grun um að reyna að kasta rýrð á hælisleitandann sem flytja átti úr landi, en miðað við aðstæður hans var það afar harkaleg aðgerð.

Virðulegi forseti. Þetta er ekki bara alvarlegt mál fyrir ráðuneytið, þetta er alvarlegt mál fyrir okkur öll. Það er alvarlegt mál ef þeir sem hingað leita geta ekki treyst því að þeir sem bera ábyrgð fyrir okkur öll fara ekki að þeim reglum sem við viljum að gildi um okkur öll og líka þá sem koma hingað til lands, boðnir eða óboðnir.



[15:48]
innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir að taka upp þessa umræðu á Alþingi. Líkt og þingmaðurinn nefndi ítrekað er margt að gerast í þessum málaflokki á Íslandi og þess vegna nauðsynlegt að hér fari reglulega fram umræða um þau mikilvægu og ört fjölgandi mál sem tengjast hælisleitendum á Íslandi. Ég held að við höfum öll það markmið og þann metnað að gera vel í þeim málaflokki.

Mörg þau viðfangsefni sem tengjast þessum málaflokki eru ný fyrir íslenskt samfélag, alveg ný, og þurfa að vera í stöðugri endurskoðun. Því fagna ég tækifærinu til að ræða fyrirkomulag þessara mála, eins og við höfum reyndar oft gert á hinu háa Alþingi.

Hv. þingmaður spyr hvaða upplýsingum sé safnað um hælisleitendur. Því er til að svara að í fyrsta lagi eru fengnar upplýsingar um skilríki og fingraför, í þeim tilvikum þar sem skilríki eru til staðar og fingraför hafa ekki verið afmáð. Þá eru fengnar upplýsingar í skýrslutöku hjá lögreglu og Útlendingastofnun auk upplýsinga um hælisumsóknina sjálfa, svo sem greinargerð frá talsmönnum og önnur gögn sem hælisleitandinn sjálfur leggur fram.

Í öðru lagi spurði hv. þingmaður hverjir safni eða varðveiti fyrrgreindar upplýsingar. Það gera Útlendingastofnun, ríkislögreglustjóri, einstaka embætti lögreglustjóra, félagsþjónustan víða um land, lögmenn hælisleitenda og eftir atvikum sálfræðingar og læknar. Innanríkisráðuneytið fær umrædd gögn en aðeins þegar úrskurðir Útlendingastofnunar eru kærðir til ráðuneytisins, annars ekki.

Hvað varðar hins vegar úrskurði ráðuneytisins sjálfs eru þeir sendir til ríkislögreglustjóra, Útlendingastofnunar, Rauða krossins sem og lögmanns viðkomandi hælisleitenda. Hvað varðar aðgang að umræddum gögnum hafa starfsmenn framangreindra stofnana aðgang að þeim sem og lögmenn hælisleitenda. Að þessu sögðu er ljóst að allir framangreindir aðilar geta búið yfir ýmsum upplýsingum um hælisleitendur, þó mismiklum eftir aðkomu þeirra að málum.

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður spyr hvort ástæða sé til að ætla að trúnaðarupplýsingar berist víðar en vera skyldi og séu jafnvel misnotaðar. Í því sambandi ítreka ég þau umhugsunarefni sem ég hef áður nefnt úr þessum ræðustóli og gildir í raun um alla stjórnsýsluna okkar og þær trúnaðarupplýsingar sem þar er að finna. Í fyrsta lagi verðum við stöðugt að spyrja okkur hvort eitthvað í fyrirkomulaginu bendi til þess að skýrum verklagsreglum um meðferð gagna sé ekki fylgt. Í öðru lagi hvort kerfin sem utan um þessar upplýsingar halda séu nægilega vel varin og utanaðkomandi aðilar geti ekki með ólögmætum hætti nálgast umræddar upplýsingar. Hvað báða þessa þætti varðar er íslensk stjórnsýsla talin vel varin.

Annars vegar gilda um meðferð trúnaðargagna mjög ákveðnar verklagsreglur, bæði hjá ráðuneytum og undirstofnunum. Rétt er í því sambandi að minna til dæmis á að innanríkisráðuneytið eitt og sér fær til umsagnar og afgreiðslu yfir 5 þúsund mál á ári. Stór hluti þeirra mála inniheldur trúnaðargögn og miðað við reynsluna má fullyrða að starfsmenn fylgi ýtrustu verklagsreglum, virði trúnað og sinni störfum sínum af mikilli vandvirkni og trúmennsku.

Hins vegar, varðandi vernd umræddra upplýsinga gegn því að óviðkomandi geti með ólögmætum hætti nálgast þær, er talið að varnirnar séu fullnægjandi. Ljóst er þó að miðað við þá þekkingu, upplýsingar og fréttir sem við fáum daglega um aðgengi að rafrænum gögnum að íslensk stjórnsýsla þarf að tryggja stöðuga vakt og eftirlit hvað þetta varðar, ekki síst með hliðsjón af persónuvernd.

Virðulegur forseti. Þingmaður spyr einnig um fréttir þess efnis að trúnaðargögn um einstaka hælisleitendur hafi verið afhent úr innanríkisráðuneytinu til óviðkomandi aðila. Til að svara því ítreka ég það sem ég hef áður sagt um þetta mál. Ráðuneytið hefur með margvíslegum hætti kannað hvort trúnaðargögn hafi verið send úr ráðuneytinu til óviðkomandi aðila. Í framhaldi af kvörtun lögmanns hælisleitanda var það gert með samtölum við starfsmenn, skoðun á gagnagrunni ráðuneytisins, samanburði á þeim gögnum sem til eru í ráðuneytinu og um hefur verið fjallað í fjölmiðlum samhliða því sem rekstrarfélag Stjórnarráðsins gerði sjálfstæða athugun á því hvort ætla mætti að tölvutæk trúnaðargögn vegna málsins hefðu farið úr ráðuneytinu.

Niðurstaða þessara athugana er að ekkert í gögnum ráðuneytisins bendi til þess að trúnaðargögn hafi verið send til aðila sem ekki eiga rétt á þeim lögum samkvæmt. Frá þessu hefur ráðuneytið ítrekað greint í svörum sínum til lögmanna hælisleitenda, í svörum til fjölmiðla og ítrekuðum yfirlýsingum á heimasíðu ráðuneytisins. Þrátt fyrir það eru áfram fluttar fréttir af meintum leka úr ráðuneytinu og jafnvel án þess að orðið „meintur“ sé notað. Þótt nú hafi í kjölfar kæru lögmanns hælisleitanda verið óskað eftir frekari upplýsingum um málið hjá ríkissaksóknara, sem þá mætti ætla að tryggði að þeir sem harðast hafa gengið fram í þessu máli gætu verið vissir um að málið verði ekki aðeins skoðað hjá ráðuneyti og Stjórnarráði heldur einnig hjá þeim þriðja aðila sem fer með slík mál, er áfram haldið að vega að heiðri og trúmennsku þeirra sem í ráðuneytinu starfa.

Ég harma það og ég get fullvissað þingheim um (Forseti hringir.) að ráðuneytið vinnur vel og öflugt að þessum málum. Ég get einnig tryggt það að komi í ljós að eitthvað þurfi að bæta í verklagi Stjórnarráðsins eða innanríkisráðuneytisins og undirstofnunum (Forseti hringir.) hvað þetta varðar verður það gert. En ég vona að við getum átt hér góðar og málefnalegar umræður um þessi mál.



[15:54]
Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur fyrir þessa þörfu umræðu. Mér fannst hæstv. ráðherra svo sem ekki svara því sem hún hefur verið spurð um að undanförnu og vekur það töluverða athygli í þessu máli. Mér finnst hæstv. innanríkisráðherra verði að svara hvers vegna rekstrarfélag Stjórnarráðsins, sem sér almennt um skráningar á atvinnuleyfum og fasteignum, er látið athuga jafnalvarlegt mál ráðuneytisins og hér er til umfjöllunar. Með hvaða hætti fór sú athugun fram? Með ýmsum hætti segir hæstv. ráðherra, en það virðist alla vega ekki vera eðlilegt að Stjórnarráðið athugi sig sjálft að mínu viti.

Ráðuneytið og rekstrarfélagið hafa fullyrt að trúnaðargögn umrædds máls hafi einungis farið til þeirra sem rétt eiga á þeim. Hvernig má það vera að Morgunblaðið og fleiri segist hafa minnisblað um málið hjá sér? Telur ráðherra þá að fullyrðing Morgunblaðsins sé röng? Ef blaðið hefur undir höndum þetta minnisblað, hvernig stenst það á við þá fullyrðingu ráðuneytisins að það geti staðfest að trúnaðargögnin hafi einungis farið til þeirra sem rétt áttu á þeim? Hvers vegna hefur ráðuneytið þá ekki farið fram á leiðréttingu frá blaðinu? Hér er um trúverðugleika hæstv. ráðherra og ráðuneytis að ræða.

Það vaknar líka spurning um hvort algengt sé að ráðuneytið láti semja minnisblöð um tiltekna hælisleitendur og ástarmál þeirra, eins og hér virðist hafa verið gert, þar sem nafngreindir aðilar koma fram. Ekkert hefur komið fram enn þá sem bendir til þess, eins og hér var rakið í upphafi, að ávirðingarnar sem bornar eru á Tony eigi sér stoð í raunveruleikanum. Fullyrðingar úr minnisblaðinu hafa ratað í nígeríska fjölmiðla og hann óttast að þær verði notaðar gegn honum þar. Kemur til greina að endurskoða hælisumsókn hans á þeirri forsendu?

Lögmaður hans hefur líka staðfest að skjólstæðingur sinn hafi verið fluttur úr landi um miðja nótt án hans vitneskju. Er algengt að slíkt sé gert og eru það eðlileg vinnubrögð að mati ráðherrans? Og síðast en ekki síst, (Forseti hringir.) hafa þeir aðilar sem hér um ræðir, bæði Tony, Evelyn og íslenska stúlkan sem nafngreind voru, verið beðin afsökunar á trúnaðarbrestinum (Forseti hringir.) með formlegum hætti?



[15:56]
Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Það mál sem hér er til umræðu er auðvitað alvarlegt og það felur í sér mjög alvarlegar ávirðingar á hendur innanríkisráðuneytinu. Ég verð að taka undir með þeim þingmönnum sem tekið hafa til máls að það hlýtur að vera hagsmunamál Stjórnarráðsins og samfélagsins alls að málið sé rannsakað. Þá er auðvitað ekki nógu langt gengið þegar fram fer einhvers konar innanhússkönnun sem leiðir og bendir til þess að umræddar upplýsingar hafi ekki verið sendar úr ráðuneytinu, eins og hæstv. ráðherra komst að orði.

Ég veit ekki betur samkvæmt minni þekkingu en að starfsmenn innanríkisráðuneytisins sinni einmitt starfi sínu af mjög mikilli trúmennsku og séu mjög vandaðir embættismenn. Ég held að það væri mjög mikilvægt fyrir ráðuneytið og þennan málaflokk allan að ráðuneytið sé hreinsað af þeim ávirðingum sem hér um ræðir. Að því leyti vil ég hvetja hæstv. ráðherra, sem ég veit að hefur góðar meiningar í þessum málaflokki, til að láta framkvæma eins ítarlega, óháða og sjálfstæða rannsókn á þessu máli og mögulegt er, þannig að allur vafi sé hreinsaður. Í því þarf í sjálfu sér ekki að felast nein ásökun eða nein meining önnur en sú að trúverðugleiki og traust er algjört lykilatriði þegar kemur að samskiptum almennings og hælisleitenda við hið opinbera á Íslandi.



[15:59]
Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka málshefjanda, hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur, fyrir að hefja þessa umræðu um málefni hælisleitenda og hæstv. ráðherra Hönnu Birnu Kristjánsdóttur fyrir skýr svör.

Eins og kunnugt er mælti hæstv. innanríkisráðherra nýlega fyrir frumvarpi um breytingu á lögum nr. 96/2002, um útlendinga. Innanríkisráðherra hefur með því frumvarpi markað fyrstu sporin á leið ríkisstjórnarinnar til að auka gæði og einfalda til muna móttöku og meðferð umsókna hælisleitenda til að gera ferlið mannúðlegra og sinna þeim betur sem á vernd þurfa að halda. Vandaðri vinnubrögð á öllum sviðum í þessu ferli eru okkur mikilvæg. Það er í þá átt sem mér finnst þessi umræða vera að leiða okkur til.

Eins og fram hefur komið hefur orðið sú breyting á síðustu árum að fjölgun umsókna hælisleitenda hefur verið mjög mikil og þar af leiðandi hefur kostnaður margfaldast. Ástæður fyrir því eru fjölbreyttar, m.a. liggja þær í breyttum reglum og því að ákveðnir aðilar hafa fundið út að hér sé heppilegt að leita hælis fyrir þá sem hafa hag af því að afgreiðsla umsókna taki langan tíma. Ástandið hefur því bitnað á þeim sem eru raunverulegir hælisleitendur og fá stöðu flóttamanns eftir að úrskurðað hefur verið í þeirra málum. Þannig tefur þetta ástand fyrir því að flóttamenn sem hér fá hæli geti byrjað nýtt líf í nýju landi. Þessu þurfum við að breyta og þessu erum við að bregðast við.

Á hinn bóginn hefði ég velt fyrir mér hvort úrskurðir í þessum málum séu á einhvern hátt frábrugðnir dómum. Í löndunum í kringum okkur eru úrskurðir (Forseti hringir.)opinberir eins og dómar, eftir að þeir hafa verið kveðnir upp.



[16:01]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir þessa umræðu, hún er mjög mikilvæg. Mér finnst sérstaklega mikilvægt að við skoðum alla þessa umræðu í mun víðara samhengi því eins og komið hefur fram þá eru mun fleiri hælisleitendur hér en áður. Ég vil minna á það að í sögunni eru ýmis lönd sem hafa farið sérstaklega illa með útlendinga og önnur sem hafa verið talin hlutlaus í hinum ýmsu deilum en þegar betur er að gáð hafa þau ekki verið svo hlutlaus vegna þess að þau eru einfaldlega mjög dugleg í því að hafna hælisleitendum og hindra að fólk komi inn í landið. Ég óttast verulega að sú viðhorfsbreyting sé að eiga sér stað að við eigum einhvern veginn að reyna að stoppa fólkið frekar en að reyna að gera betur í viðbrögðum okkar í þessum málum.

Sem dæmi þá setjum við í fangelsi fólk sem kemur hingað inn á fölsuðum skilríkjum, fólk sem er bara að reyna að lifa — í alvöru talað, fólk sem vill bara lifa. Við tökum við því og við setjum það í fangelsi. Þetta er það sem við gerum í dag á Íslandi. Ég vil minna á hvernig fólk fordæmir Sviss fyrir vinnubrögð þar á sínum tíma.

En aðeins um þetta lekamál úr innanríkisráðuneytinu. Það sem gerir það mál erfitt og tortryggilegt eru viðbrögð hæstv. innanríkisráðherra. Það getur vel verið að þetta hafi ekki komið úr innanríkisráðuneytinu, það er í það minnsta alveg hugsanlegt. En viðbrögðin eru einhvern veginn þannig að það er sagt eitthvað á borð við: Þetta var ekki ráðuneytið mitt, þetta vorum ekki við, það bendir ekkert til þess.

Það á að fara fram rannsókn á þessu, sérstaklega vegna þess að málið er hápólitískt, óhjákvæmilega. Þegar upp kemur gagnrýni á störf hjá innanríkisráðuneytinu og það sem hefði kannski verið heppilegur leki en reynist ekki svo heppilegur þegar allt kemur til alls og þetta eru persónugögn þá þarf að gera ítarlegri rannsókn. Ég get ekki tekið undir það að varnir séu fullnægjandi eins og talið er. Því miður lýkur tíma mínum hér og ég get ekki rætt tæknilegu atriðin með fullnægjandi hætti (Forseti hringir.)en ég fullyrði að varnirnar eru ekki fullnægjandi.



[16:03]
Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég hef ekkert að fela, segir hæstv. innanríkisráðherra. Úr því að hæstv. innanríkisráðherra hefur ekkert að fela þá á hæstv. innanríkisráðherra ekki að fela neitt. Hæstv. innanríkisráðherra á að geta svarað því hvort þetta minnisblað er úr ráðuneytinu eða undirstofnunum þess. Það er ekki nóg fyrir hæstv. innanríkisráðherra að láta ráðuneytið rannsaka ráðuneytið, að láta rekstrarfélag Stjórnarráðsins rannsaka Stjórnarráðið. Það er ekki nóg. Það er ekki nóg fyrir almenning í landinu og starfsmenn ráðherra og hælisleitendur og áhugamenn um þessi efni að áleitnum spurningum sé svarað með ásökunum um árás á heiður og trúmennsku eða með fullyrðingum um róg og ofsóknir.

Þeir sem hafa í höndum, eins og ég, það minnisblað sem hér á að vera um að ræða, sjá að það er bæði að efni, stíl og áferð komið úr — eða a.m.k. búið til á þann hátt að það sé komið úr — ráðuneyti eða undirstofnun ráðuneytis. Það er algjörlega augljóst fyrir þann sem hefur í nokkrar vikur kynnst kansellískjölum og veit hvers konar minnisblöð þar eru búin til. Ef þetta minnisblað er ekki búið til í innanríkisráðuneytinu eða einhverri af helstu undirstofnunum þess er þetta ákaflega góð fölsun, en hverjum er í hag að falsa svona mál?

Þetta eru áleitnar spurningar og erfiðar og mín ráð til innanríkisráðherra eru þau að reyna ekki að svæfa málið, reyna ekki að grafa það, það er það hættulegasta, heldur reyna að leggja öll spilin á borðið, láta rannsaka málið og segja okkur hvernig á því stendur.



[16:05]
Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Í það minnsta það mál sem hér er til umræðu og varðar hælisleitendur hefur þegar verið kært, til ríkissaksóknara og til lögreglu, ef ég fer rétt með. Það hlýtur því eðli málsins samkvæmt að fara fram rannsókn á því hvaðan minnisblaðið kom og hver afhenti það. Sú rannsókn hlýtur að vera farin í það ferli sem slík mál eiga að fara í.

En það verð ég að segja, virðulegur forseti, að mér finnst vart við hæfi þegar mál eru komin í þann farveg að við ræðum þau hér og nafngreinum skjólstæðingana sem hlut eiga að máli úr ræðustól Alþingis. Hins vegar er algjörlega ljóst að við þurfum að gera breytingar í málefnum hælisleitenda og það hefur hæstv. innanríkisráðherra gert, hún hefur lagt fram frumvarp til breytinga á því ferli sem þegar er viðhaft. Það er óþolandi fyrir þann sem sækir hér um hæli að þurfa að bíða mánuðum saman eftir því að fá að vita hvort eða hvenær mál hans verður tekið fyrir. Við hljótum að geta tekið upp verkferla eins og hér hefur verið bent á að eru í Noregi, að menn fái að vita innan 48 klukkustunda hvort mál þeirra verður tekið til skoðunar eður ei. Þeir þurfa þá ekki að bíða í það minnsta í sex eða átta vikur eftir því svari.

Virðulegur forseti. Af því að við ræðum hér minnisblað sem kemur einhvers staðar frá og ég get hvorki svarið fyrir að það hafi ekki farið úr innanríkisráðuneytinu né öðrum stofnunum, ég hef ekki hugmynd um það, þá vakti furðu mína, frú forseti, og ég verð að nefna það, að hér skyldi hv. málshefjandi vitna í umræður og orð hæstv. ráðherra innan stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Þar hélt ég að ríkti trúnaður.



[16:08]
Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Umræðan sem hér fer fram um upplýsingasöfnun um hælisleitendur, varðveislu og notkun slíkra upplýsinga er bæði þörf og brýn. Umræðan er þörf og fram hafa komið ásakanir um að misfarið hafi verið með persónuupplýsingar tiltekins hælisleitanda. Ég vil ekki taka afstöðu til þess máls að svo stöddu. Mér finnst rétt að það verði rannsakað áfram og spurning hvort það eigi ekki best heima í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. En þetta vekur athygli á því hversu mikilvægt er að öll umræða og meðferð mála í málefnum hælisleitenda sé vönduð og stjórnsýslan sé í lagi.

Því miður höfum við nýverið séð dæmi um að gáleysislega hafi verið farið með upplýsingar um einstaklinga hér á landi hjá ákveðnu símafyrirtæki. Slíkir atburðir valda að sjálfsögðu trúnaðarbresti auk þess tjóns sem einstaklingar verða fyrir. Í nútímasamfélagi er upplýsingum safnað mikið saman og hætt er við því að hægt sé að misnota þær og misfara með. Í slíkri upplýsingasöfnun, hvort sem er hjá stjórnvöldum eða öðrum, er gerð mikil krafa um heiðarleika og trúverðugleika og að vel sé staðið að verki, en hvers kyns hugsanleg brot eða misferli leiða til vantrausts, þá til stjórnvalda í þessu tilfelli ef þau meintu brot gegn hælisleitanda eru veruleiki sem ég ætla ekki að fullyrða.

Mér finnst að fá þurfi botn í þetta mál allra vegna og eftir það sem á undan er gengið á hæstv. innanríkisráðherra það erfiða verkefni fyrir höndum að fá botn í þetta mál hennar vegna og okkar allra.



[16:10]
Sigurjón Kjærnested (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka málsflytjanda fyrir umræðuna og hæstv. ráðherra Hönnu Birnu Kristjánsdóttur fyrir skýr svör.

Í fyrsta lagi varðandi þær ásakanir um að trúnaðargögnum hafi verið lekið frá innanríkisráðuneytinu þá hefur ekkert komið fram sem í alvöru sýnir fram á eða bendir til að svo hafi verið. Mér er því óskiljanlegt hversu vel þessi umræða endist og í raun er það til marks um að stjórnarandstaðan er að leita sér að einhverju að tala um.

Í öðru lagi er annar mikilvægur punktur í umræðunni sem mig langar að koma inn á: Af hverju eru gögnin trúnaðargögn? Á Norðurlöndunum eru niðurstöður í málefnum hælisleitenda opinberar á sama hátt og niðurstöður í dómsmálum. Það er mun gegnsærra, mun betra fyrirkomulag og í raun mun eðlilegra á margan hátt.

Í þriðja lagi vildi ég koma inn á áherslu ríkisstjórnarinnar vegna breytinga á lögum um útlendinga. Þær eru í rauninni ekki flóknar og algjörlega til bóta og ættu ekki að vera umdeildar. Það er verið að fara norsku leiðina þegar kemur að móttöku og seinna aðlögun allra innflytjenda þar sem þeir eru á margan hátt til fyrirmyndar. Það á að auka gæði, stytta tímann og einfalda til muna móttöku og meðferð hælisleitenda. Þetta eru góðar breytingar sem ég vona að allir styðji.

Að síðustu vildi ég koma inn á hvernig hagsmuna innflytjenda er gætt almennt, vegna þess að erum að tala um hluta af þeim, við erum að tala um hælisleitendur. Hér á Íslandi eru ekki starfandi nein heildarhagsmunasamtök innflytjenda. Ég vil nota þennan vettvang og þessa umræðu til að hvetja til þess að slík samtök verði stofnuð þar sem þau geta gegnt mikilvægu hlutverki við að vernda hagsmuni allra innflytjenda og þeirra sem vilja gerast innflytjendur á Íslandi, hælisleitenda sem annarra.



[16:12]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að taka undir síðustu orð hv. þingmanns Sigurjóns Kjærnesteds um að það væri fínt að fá hagsmunasamtök fyrir innflytjendur og sérstaklega hælisleitendur því að það vantar hér á Íslandi. Hér er víða pottur brotinn.

Hvað varðar spurningu hv. þingmanns um það hvers vegna þetta eru trúnaðargögn er svarið í raun og veru einfalt. Þetta varðar friðhelgi einkalífsins, þetta varðar persónuleg gögn. Það er munur á gegnsæi hins opinbera og friðhelgi einkalífs þegnanna og fólks almennt, þess vegna heita þau jú mannréttindi en ekki ríkisréttindi. Þetta er ástæðan fyrir því. Sömuleiðis vil ég benda á að í meðferð trúnaðargagna í dómsmálum er ekkert klippt og skorið, það er ekkert fullkomin sátt um að þau eigi einfaldlega öll að vera opinber, síður en svo.

Hvað varðar 48 klukkustunda regluna og aðferðir Norðmanna almennt hef ég enn og aftur áhyggjur af því að verið sé að ýta vandanum burt yfir á einhvern annan sem síðan ýtir vandanum eitthvert annað. Þetta er ekki mannúðleg leið að mínu mati. Þó að hún leysi vissulega vandann með biðlistana og stytti þá ættum við leysa þann vanda með því að gefa í gagnvart Útlendingastofnun. Útlendingastofnun vantar fjármagn, ekki bara til þess að afgreiða hælisumsóknir heldur bara umsóknir almennt. Þetta er mjög fjársvelt stofnun eins og þær margar. Eins og komið hefur fram er þetta málaflokkur sem er sífellt að stækka og þarf sífellt meiri athygli og það er við hæfi að gefa í með öðrum leiðum en þeim að vera fljótari að ýta fólki burt. En það verður væntanlega niðurstaðan vegna þess að vandinn er sá að við höfum ekki tækifæri til að fara yfir allar þessar umsóknir.

Það sem eftir stendur er þetta: Það verður rannsókn á málinu sem ríkislögreglustjóri mun væntanlega ljúka. Hún er sprottin af kæru, hún er vegna kæru sem kemur frá skjólstæðingi, sem ég ætla að kalla fórnarlambið. Hvers vegna kemur hún ekki frá hæstv. innanríkisráðuneyti? Hvers vegna er það ekki innanríkisráðuneytið sem er hneykslað og segir: Við þurfum að gera opinbera rannsókn á þessum málum? Þannig ætti það að vera. (Forseti hringir.) Það eru viðbrögðin við málinu sem gera þetta ljótt.



[16:14]
Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Ég vil taka undir síðustu orð síðasta ræðumanns, að mér finnst það ekki svar við því sem við ræðum hér að nú sé málið í lögreglurannsókn. Ég hefði viljað að hægt hefði verið að skýra þetta eitthvað betur fyrir okkur hér.

Hæstv. ráðherra fór vel yfir starfsferla og verkferla og hverjir fái upplýsingar og telur að allt sé þetta í lagi, en það er ljóst, virðulegi forseti, að þetta er ekki í lagi. Þarna fara upplýsingar einhvers staðar út úr kerfinu og það er mjög alvarlegt. Hæstv. ráðherra, sem vinnur mjög vel á mörgum sviðum, eins og ég hóf inngang minn á, hún vinnur virkilega að þessum málum, en það er ekki nóg ef það er brotalöm af þessu tagi einhvers staðar í kerfinu.

Hæstv. ráðherra fer svolítið í það far að segja að samt sem áður haldi fólk áfram að beina spjótum sínum að henni og níðast — ekki níðast, hún notar ekki það orð — og saka embættismenn og starfsmenn innanríkisráðuneytisins og hvað það sé ljótt. Hvernig leið hælisleitandanum þegar honum birtist þetta? Hvernig líður fólki sem sér þetta minnisblað um sig? Það hefur ekki stöðu embættismanns, það er óvarið. Það er okkar og það er ráðherrans að komast að því: Hvernig gat þetta gerst?



[16:16]
innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég veit ekki hversu oft ég þarf að segja það hér og annars staðar, og ég held að hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir, talandi um trúnað, ætti að læra að virða hann sjálf. Ég hvet hana til þess að kynna sér þingsköpin áður en menn fara hér mikinn og vitna í samtöl á nefndarfundum.

Ég hvet líka hv. þm. Mörð Árnason sem hefur umrætt minnisblað undir höndum, hann hefur upplýst það hér, til að upplýsa þingheim um það hvaðan hann fékk minnisblaðið, vegna þess að minnisblaðið sem hefur verið í gangi á ýmsum fjölmiðlum og hér og þar er ekki sambærilegt við nein gögn í ráðuneytinu. Ég hvet hv. þingmann endilega til þess að koma með gagnið.

Svo vitna menn aftur og aftur í niðurstöður í minnisblöðum, sem eiga að vera minnisblöð úr innanríkisráðuneytinu, og fara mikinn í því. Við erum búin að gera það sem við getum, ráðuneytið er búið að gera það sem það getur til þess að skoða málið með því að kanna það hjá starfsmönnum, með því að fara í gegnum tölvupósta o.s.frv. Nú er málið í kæruferli. Það er hinn löglegi, eðlilegi farvegur. En áfram halda menn að tala um málið, áfram halda menn að bera fram ásakanir í garð fólks sem kemur að því. Eigum við ekki að bíða eftir niðurstöðunni áður en við fellum slíka dóma?

Það hefur á engan hátt staðið á ráðuneytinu að skoða málið. Og já, það læðist að manni sá grunur, þegar það er alveg sama á hvaða vettvangi er upplýst um málið, sama hversu oft er upplýst um það og það sé komið í kæruferli og menn halda samt áfram með ásakanirnar, að málið snúist um eitthvað allt annað en trúnaðarupplýsingar gagnvart hælisleitendum. Það snúist um pólitík, það snúist um að koma í veg fyrir að ráðuneytið geti með trúverðugum hætti unnið að þessum mikilvægu málefnum og það snúist um að koma í veg fyrir að sá ráðherra sem hér stendur geti innleitt breytingar sem sannarlega er ágreiningur um. Já, það læðist að manni sá grunur að málið snúist um það.

Það hefur ekki staðið á innanríkisráðuneytinu, starfsmönnum þess eða embættismönnum að kanna málið. En ég hvet hv. þingmenn, sem upplýsa það hér eins og ekkert sé eðlilegra (Forseti hringir.) að þeir séu með umrætt minnisblað, að tilkynna hvaðan þeir fengu það, vegna þess að (Forseti hringir.)innanríkisráðuneytið getur ekki fundið þess stað að það hafi farið úr ráðuneytinu.(Gripið fram í.)