144. löggjafarþing — 29. fundur.
starfsemi Aflsins og fleiri samtaka.

[10:40]
Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Mig langar að beina fyrirspurn til hæstv. ráðherra velferðarmála sem varðar Aflið á Akureyri. Það eru samtök gegn kynferðis- og heimilisofbeldi sem hafa verið starfandi frá árinu 2002. Samtökin bjóða upp á símavakt allan sólarhringinn og þjónusta í rauninni miklu stærra svæði en einungis Akureyri og eru í góðu samstarfi við félagsþjónustuna, lögregluna og aðra sem að málum koma.

Þessi samtök hafa verið að fá um 2,5 milljónir frá ríkinu en sambærileg samtök á höfuðborgarsvæðinu, sem eru nú síst ofalin af því fé sem þau fá, fá 140 milljónir. Mér reiknast til að ef við miðum við höfðatölu ætti Aflið að fá um 18 milljónir. Það segir sig sjálft að fyrir 2,5 milljónir er þetta mikið til vinna í sjálfboðavinnu. Nú er staðan orðin þannig að það er ekki alveg ljóst hvort samtökin geta starfað áfram í núverandi mynd.

Hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir spurði hæstv. ráðherra út í þessi mál fyrir skömmu en ég varð ekki endilega miklu nær. Mig langar því til að ítreka spurninguna um hvort þeim samtökum verði tryggt eðlilegt fjármagn á næsta ári og einnig Sólstöfum á Vestfjörðum, sem hafa einnig verið að reyna að sinna svipaðri þjónustu.

Mér finnst það megi ekki vera þannig að nálægðin við stjórnsýsluna skeri úr um það hversu vel samtökum gangi að tryggja sér fjármagn, en það er pínulítið tilfinningin sem maður hefur. Mig langar því að spyrja hæstv. ráðherra hvort hún muni tryggja það að þessi samtök geti starfað áfram og veitt þá mjög mikilvægu þjónustu sem þau gera á Norðurlandi.



[10:42]
félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn. Þegar ég fékk hana síðast útskýrði ég einmitt í því tilviki að Aflið skyldi óska eftir að sækja um þá fjármuni sem við hefðum þegar úthlutað til þessa málefnis. Ég hef ekki upplýsingar um hvort Aflið hafi gert það en ég reikna fastlega með því.

Við höfum líka farið yfir það hvað við getum gert til að aðstoða Aflið enn frekar. Ég bendi á að brátt rennur út umsagnarfrestur um félagsstyrki vegna gömlu safnliðanna, þann 10. nóvember, og ég hvet Aflið og önnur frjáls félagasamtök til að sækja endilega um þá.

Við höfum líka farið yfir hvað við getum gert almennt sem snýr að ofbeldismálum og ekki hvað síst hvernig við getum mælt barnaverndarstarfið hringinn í kringum landið. Ég tel að starf Aflsins og annarra frjálsra félagasamtaka sé einmitt mjög mikilvægt hvað þetta varðar.

Ég hef líka lagt áherslu á að þau stóru og öflugu frjálsu félagasamtök sem eru starfandi á höfuðborgarsvæðinu sinni öllu landinu og ég reikna fastlega líka með því. Ég veit að bæði Stígamót og Kvennaathvarfið hafa gert það og tel að möguleikar eigi að vera á að efla það enn frekar.



[10:44]
Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir greinargóð svör.

Mig langar að koma inn á annað mál sem hefur aðeins verið til umræðu. Það er þjónusta sem Barnaverndarstofa veitir á höfuðborgarsvæðinu, en hefur sagt upp samningi við t.d. Akureyrarbæ um PMTO-meðferð. Ég veit ekki til þess að nein úrræði séu í boði á Austurlandi eða á Vestfjörðum. Þótt ég sé enginn talsmaður þess að Barnaverndarstofa verði flutt til Akureyrar þætti mér samt eðlilegt að slíkar stofnanir sinni öllu landinu vel. Ég er reyndar talsmaður þess að mikilvægar stofnanir hafi útibú á landsbyggðinni, ég held að það væri mjög gott.

Ég mundi vilja spyrja hæstv. ráðherra hvernig hún sæi fyrir sér að við gætum tryggt þjónustu eins og PMTO og fleiri úrræði, sem eru í boði á höfuðborgarsvæðinu, á landsbyggðinni.



[10:45]
félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Herra forseti. Ég þakka enn á ný fyrir spurninguna. Það er gott að finna að þingmaðurinn hefur áhuga á þessu.

Við höfum einmitt falið Barnaverndarstofu að koma með tillögu til okkar um hvernig við getum tryggt að sú þjónusta sem Barnaverndarstofa hefur verið að byggja upp sem lykilúrræði, svokallað MST, verði í boði á öllu landinu. Nú er starfar MST-teymi aðeins í 100 kílómetra radíus frá höfuðborginni og ég tel að sé algerlega óásættanlegt að við bjóðum ekki upp á sambærilega þjónustu alls staðar. Hins vegar hafa komið fram ábendingar um að hugsanlega þurfi að skoða aðrar leiðir sem snúa að þeim börnum sem búa við mestan vanda og það er þáttur sem ég hef lagt áherslu á að verði skoðaður sérstaklega.

Ég vil líka taka fram að það er engin vinna í gangi á mínum vegum um að flytja Barnaverndarstofu til Akureyrar. Hins vegar er nefnd starfandi sem á að koma með tillögur um nýja stjórnsýslustofnun sem mun þá hugsanlega sinna hluta af þeim verkefnum sem Barnaverndarstofa fer með núna. (Forseti hringir.) Ég vil að lokum benda á hversu mikilvæg sveitarfélögin eru í því sambandi því að þau bera ábyrgð á barnaverndarstarfi.