144. löggjafarþing — 67. fundur.
mannanöfn, 1. umræða.
frv. ÓP o.fl., 389. mál (mannanafnanefnd, ættarnöfn). — Þskj. 523.

[18:40]
Flm. (Óttarr Proppé) (Bf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi um breytingu á lögum um mannanöfn, nr. 45/1996, með síðari breytingum, og undir þau lög heyra mannanafnanefnd, ættarnöfn o.fl. Frumvarpið sem ég mæli fyrir er af sama meiði og frumvarp sem lagt var fram á síðasta þingi en allsherjar- og menntamálanefnd lauk því miður ekki umfjöllun um það. Frumvarpið er í þetta skipti talsvert breytt og það kemur ekki síst til af umræðu um fyrra frumvarpið á síðasta þingi og ákveðnum ábendingum sem bárust í því ferli og breytingarnar sem hafa orðið held ég að séu til mikilla bóta.

Ég ætla að skauta yfir helstu atriðin í frumvarpinu en ef það er lesið þá lítur það út fyrir að vera óttaleg latína enda er þetta meira og minna upptalning á málsgreinum og greinum í lögunum og að mestu leyti verið að leggja til að orðalag og heilu greinarnar falli burt.

Í grunninn er lagt til að reglur um mannanöfn, hvaða nöfn séu lögleg og hverjir megi bera hvaða nöfn, verði færðar mjög í frjálslyndisátt. Hvatinn á bak við tillöguna er ekki síst sú reynsla sem hefur hlotist af núgildandi lögum, þeim málum sem mannanafnanefnd hefur þurft að úrskurða um samkvæmt umboði sínu í lögum og dómum sem hafa fallið þar að lútandi. Það hefur heyrst stundum og er kannski ekki skrýtið, maður heyrir fólk spyrja sig að því, hvort við hér á þingi höfum ekkert betra að ræða um en mannanafnanefnd og það má kannski til sanns vegar færa að sú nefnd og lögin á grundvelli hverra sem hún starfar komi daglegu lífi fæstra við. Það eru fæstir sem upplifa afskipti mannanafnanefndar, skulum við segja, en þeir sem hafa viljað skíra nöfnum eða taka sér nöfn sem ekki eru í samræmi við núgildandi lög hafa aldeilis lent í mikilli baráttu og nefndin í sumum tilfellum ekki gefið þeim leyfi til að heita eða skíra því nafni sem þeir vilja.

Ég vil áður en ég fer yfir punktana árétta að ég tel að það sé eiginlega mannréttindamál að einstaklingar fái að ráða því sjálfir hvað þeir heiti. Nafn sem einstaklingurinn ber er mjög mikilvægt fyrir sjálfsmynd hans. Það getur verið mjög mikilvægt í fjölskyldum eða ættum og mikið tilfinningamál að fá að heita eftir forföður sínum eða kenna sig við stað eða hvað. Í núverandi löggjöf eru það forréttindi sumra að mega nota nöfn sem eru til í svokallaðri mannanafnaskrá sem mannanafnanefnd ber að viðhalda eða bera ættarnafn sem er til í kerfinu, ef svo má segja, en þeir sem eru svo heppnir hafa ákveðin forréttindi umfram aðra.

Mannanafnanefnd er skipuð í dag og hennar hlutverk er fyrst og fremst að fylgja eftir lögunum. Segja má að það séu þrjú aðalatriði varðandi sérnöfnin sem mannanafnanefnd beri að gæta að og ég ætla fyrst að fara aðeins yfir þau, en í þessu frumvarpi er í raun og veru gert ráð fyrir að taka þessi skilyrði öll saman út og gera óþörf og þar af leiðandi verði óþarfi að halda mannanafnaskrá yfir hvaða nöfn samræmast þessum skilyrðum og nefndin sem hefur það hlutverk að samþykkja eða samþykkja ekki nöfn inn á mannanafnaskrá verði óþörf.

En þá eru það þrjú helstu atriðin og það er mikilvægt að taka fram að í frumvarpinu frá fyrra ári var gert ráð fyrir því að enn þá yrði litið til þessara þriggja atriða, sem eru hér nefnd í engri sérstakri röð. Í fyrsta lagi falli nafnið að íslensku máli, að íslenskri málhefð og beygist samkvæmt íslenskri málhefð og það innihaldi ekki stafi sem ekki eru í íslenska stafrófinu. Þá erum við kannski sérstaklega að tala um stafinn c. Í öðru lagi sé nafnið skilgreint sem annaðhvort karlkynsnafn eða kvenkynsnafn og einungis aðilar af viðkomandi kyni megi bera það, þ.e. karlmenn einir megi bera karlkynsnöfn sem svo séu skilgreind og öfugt. Og í þriðja lagi er dálítið merkileg málsgrein sem segir að til að nafn teljist löglegt á Íslandi megi það ekki vera þeim sem nafnið ber til ama. Það verður að teljast ansi sérstök löggjöf og ansi þungur kaleikur hefði maður haldið fyrir nefnd að þurfa að leggja mat á það í sjálfu sér hvaða nöfn séu líkleg til að valda þeim sem þau bera ama og hvaða nöfn séu líkleg til að gera það ekki.

Sá sem hér stendur var skírður Óttarr í höfuðið á afa sínum. Það verður að segjast að þegar ég var ungur var það mjög sjaldgæft nafn og hefði vel getað orðið mér til ama en varð það ekki. Það má vel spyrja: Hefði fengist leyfi til að skíra þessu sérstaka nafni ef afi minn hefði ekki verið skírður áður en mannanafnalög voru sett og ákveðið var að ríkið ætti að átta sig á því hvað væri til ama og hvað ekki? En ég vil gera reikning fyrir því að það sé afskaplega erfitt að dæma fyrir fram, og þá sérstaklega fyrir opinbera nefnd, um hvaða nafn geti orðið einstaklingi til ama. Það getur farið mjög svo eftir einstaklingnum eða einfaldlega eftir tísku. Það hafa komið upp dæmi þar sem tiltölulega meinlaus nöfn sem engum hafa orðið til ama hafa verið notuð á skáldsagnapersónur eða í dægurlögum og orðið eftir það nafnberum þeirra nafna til ama. Reglurnar hafa hingað til ekki boðið upp á það að nöfn séu eftir á skilgreind sem líkleg til að valda ama. Það hefur enginn fengið bréf frá mannanafnanefnd á miðjum aldri um að nú sé nafn hans orðið til ama.

Því er gert ráð fyrir því í frumvarpinu að þessum þremur skilyrðum sé í raun og veru kippt út og það sé ekki hið opinbera sem skilgreini hvaða nöfn séu til ama heldur sé réttur foreldra virtur og ábyrgð þeirra virt, foreldrum sé treyst fyrir því að velja börnum sínum nöfn sem séu líkleg til að valda þeim yndisauka frekar en ama. Við gerum reikning fyrir því að það sé fátt sem foreldrar vandi sig jafn mikið við eins og þegar þeir velja barni sínu nafn sem það er líklegt til að bera til æviloka. Ég held að það sé afskaplega nöpur tilhugsun að gera ráð fyrir því að opinberir aðilar hafi hagsmuni barnsins frekar í heiðri en foreldrarnir þegar kemur að því að velja nafn sem barnið á að heita.

Í umræðunni um frumvarpið á síðasta þingi heyrðust áhyggjur af því að sést hefðu beiðnir til mannanafnanefndar um alls konar furðuleg nöfn þar sem fólk væri kennt við þungarokk eða jafnvel furðulega gamla guði og hindurvitni, en ég vil nú meina að það séu að minnsta kosti einhver dæmi um að slíkar umsóknir til mannanafnanefndar hafi kannski frekar verið gerðar til að mannanafnanefnd hefði eitthvað að gera, þ.e. það hafi að einhverju marki og ekki síður verið gert til þess að reyna á lögin. Í frumvarpinu eins og það var lagt fram í fyrra var gert ráð fyrir því að hægt væri að skjóta svona málum áfram til ráðherra sem mundi þá taka endanlega af skarið um það hvort verið væri að nefna barn til voða eða ekki. En hér er ekki gert ráð fyrir því. Á síðasta þingi kom fram ágæt og rökstudd gagnrýni á þá tilhögun að ráðherra væri eitthvað betur til þess fallinn en nefnd skipuð af ráðherra. Tillöguflytjandi tekur undir þau rök í sjálfu sér og bendir á að barnaverndarlög ættu að vera fullkomlega nægjanleg til að vernda rétt barna, en í barnalögum nr. 76/2003 segir í 1. mgr. 1. gr. að barn eigi rétt á að lifa, þroskast og njóta verndar, umönnunar og annarra réttinda í samræmi við aldur sinn og þroska og án mismununar af nokkru tagi. Óheimilt sé að beita barn hvers kyns ofbeldi eða annarri vanvirðandi háttsemi. Einnig segir í 2. mgr. sömu greinar að það sem barni er fyrir bestu skuli ávallt hafa forgang þegar teknar eru ákvarðanir um málefni þess. Þeir aðilar sem hafa umsjón með vernd barna eigi þannig að hafa næga heimild í lögum til að grípa til viðeigandi ráðstafana og aðstoða foreldra í sínu foreldrahlutverki komi upp aðstæður þar sem barn hefur hlotið nafn sem sannarlega má teljast því til ama.

Ákvæði um kvenmannsnöfn og karlmannsnöfn er tímaskekkja sem þarf að laga. Þessu til stuðnings er í frumvarpinu bæði vitnað til mála sem hafa komið upp og dóms sem féll í máli þar sem sótt var eftir að fá að nota nafnið Blær sem kvenmannsnafn en það hafði áður hlotið náð sem karlmannsnafn. Ekki síður má nefna þá umræðu og auknu meðvitund sem við höfum um kynskilgreiningu einstaklingsins. Í raun og veru erum við í mannréttindalegu tilliti að stýra frá því að líkamlegt atgervi stýri kynskilgreiningu einstaklingsins heldur geri einstaklingurinn það sjálfur og það að skilgreina hvort viðkomandi einstaklingur sé karlmaður eða kvenmaður og megi þar af leiðandi bara bera karlmanns- eða kvenmannsnafn er ekki í samræmi við þá breyttu hugsun um mannréttindi sem orðin er.

Hann er kannski huglægari, þriðji punkturinn um að nöfn eigi að vera íslensk og falla að íslensku máli. Þar tel ég og við sem leggjum frumvarpið fram að íslensk nafnahefð og íslenskt málkerfi sé varið með neikvæðum íþyngjandi formerkjum í núgildandi lögum. Það er nú svo með tungumál, trúmál og menningarmál að erfitt er að skipa fyrir um í lögum eða með valdboði ofan frá hvernig fólk hegðar sér í daglega lífinu. Það hefur sýnt sig í mörgum hefðum að almenningur hefur oft jafnvel frekar sinnt þjóðlegum og gömlum og góðum hefðum þegar hann hefur hlotið skulum við segja meira úrval. Það var ekki á ósvipuðum tíma og kjúklingur í körfu var borinn fram á Naustinu í Reykjavík sem hugtakið „þorramatur“ varð til og Íslendingar hófu aftur að borða súrmat, ekki af nauðsyn eða fábreytni eins og kannski hafði verið áður fyrr heldur einmitt af ákveðinni virðingu fyrir hefðum. Í dag borðum við alls konar matvæli, ekki vegna þess eins að … (Gripið fram í: Saltkjöt og baunir.) Já, saltkjöt og baunir, takk fyrir, heyrist hér úr hliðarsal, en saltkjöt og baunir er sjaldan borið á borð dags daglega, en einu sinni á ári held ég að langflestir Íslendingar hlaupi til og borði þennan óvenjulega mat, ekki endilega vegna þess að hann sé allt í einu á boðstólum heldur til að viðhalda hefðum.

Það sama má segja um ákveðna hefð sem varð í mannanöfnum á seinni hluta 19. aldar og upphafi 20. aldar í kjölfar aukinnar þjóðerniskenndar á Íslandi og sjálfstæðisbaráttunnar. Þá var mikil og breið bylgja á Íslandi til að endurvekja áhuga á íslensku sögunum, á íslensku máli og ekki síður á íslenskum nöfnum. Á þeim tíma var fullt af góðum og gegnum íslenskum mannanöfnum sem höfðu í raun fallið í gleymsku og kannski að einhverju leyti vikið fyrir alls konar biblíunöfnum sem komu seinna, Alls konar nöfn á borð við Óttar, Sævar og Brynjar höfðu eiginlega ekki verið notuð á Íslandi frá því á víkinga- eða Sturlungaöld. Á þessum tíma var dustað af þeim rykið, þau þóttu þjóðleg, þau vísuðu til íslenskrar menningar og íslenskrar tungu og það var kannski ákveðin lukka að á þeim tíma voru engar reglur sem bönnuðu að þau yrðu tekin upp þó svo að þau hefðu ekki verið notuð áratugum saman.

Rætt hefur verið um að mannanafnalög og reglurnar sem takmarka leyfi til að nota ættarnöfn og skylda flesta til að nota kenninöfnin, þ.e. að kenna sig til föður eða móður, hafi þann tilgang að vernda íslenska menningu, þetta sé íslensk menning sem verði að vernda með lögum. Að sama skapi vil ég fullyrða að það að hafa val um að bera ættarnafn eða kenninafn auki líkurnar á því að foreldrar sýni þá ábyrgð að velta því fyrir sér hvort þau vilji að börn sín hafi kenninafn og viðhalda þannig þeirri frábæru, sérstöku og einstöku íslensku hefð eða nota ættarnafn, en lendi ekki í því eins og núna stundum að fólk noti ættarnafn ekki síst til að viðhalda nafninu innan fjölskyldunnar, viðhalda þeim forréttindum innan fjölskyldunnar fyrir komandi kynslóðir.

En þá kemur að lokaatriðinu sem mig langar að tala um í frumvarpinu og það er að hér er gerð tillaga um að reglum um ættarnöfn sé kippt úr sambandi ef svo má segja. Lög um mannanöfn hafa gilt á Íslandi frá árinu 1914 og upphaflega var í þeim lögum tekið upp gjald á þá sem hugðust taka upp ný ættarnöfn. Árið 1925 var lögunum breytt þannig að ný ættarnöfn voru eftir það bönnuð með lögum, önnur en þau sem fyrir voru, þ.e. þeir sem höfðu tekið sér upp ættarnafn fyrir 1925 máttu bera það áfram og máttu síðan skila ættarnafni sínu áfram til sinna afkomenda. Sá þingmaður sem hér stendur heitir einu af þessum ættarnöfnum, Proppé, sem er löglegt í mínu tilviki vegna þess að ég kem í karllegg af forföður mínum sem fékk að heita þessu nafni fyrir 1925. Hefði einhver af mínum forfeðrum í millitíðinni hætt að nota nafnið þá hefði ég ekki mátt taka það upp. Hefði faðir minn verið af öðru kyni og ekki borið nafnið þá hefði ég ekki mátt taka það upp o.s.frv.

Þarna árið 1925 er auðvitað strax brotið jafnræði á Íslendingum. Þeir sem voru svo heppnir að bera ættarnöfn fengu að gera það áfram en aðrir ekki. Síðan má segja að enn hafi verið aukið á ójafnræðið árið 1996 þegar lögunum var breytt á þann sjálfsagða hátt að erlendir ríkisborgarar sem fengu íslenskt ríkisfang fengu að halda sínu ættarnafni þó svo að það væri ekki til á Íslandi fyrir. Það eru náttúrlega fullkomlega sjálfsögð mannréttindi fyrir þá einstaklinga, en þá eru þessir aðilar í raun og veru orðnir þeir einu sem mega koma með nýtt ættarnafn til Íslands og það jafnvel þótt að það sé ekki í samræmi við íslenska málhefð. Hér er gert ráð fyrir því, fyrst og fremst í nafni jafnræðis, að þessar takmarkanir verði teknar af og að hverjum sem er sé í raun og veru heimilt að taka upp það ættarnafn sem hann kjósi. Þetta er gert með fullri meðvitund um það að einhverjum kynni að detta í hug að breyta nafni sínu og taka upp furðulegt ættarnafn. Þetta er gert í fullri meðvitund um það að einhverjum kynni að koma í hug að nefna eða skíra barn sitt nýstárlegu eða furðulegu ættarnafni, en miðað við reynsluna af ættarnöfnum og þar á meðal mörgum ansi sérstökum og skrýtnum ættarnöfnum sem hafa komist undir radarinn, annaðhvort fyrir 1925 eða eftir 1996, fáum við sem stöndum fyrir frumvarpinu ekki séð að það sé á neitt hátt hættulegt eða neikvætt heldur þvert á móti geti orðið bókstaflega til yndisauka fyrir þá sem bera nöfnin og okkur hin sem fáum að spreyta okkur á skemmtilegum ættarnöfnum. Sjálfur hef ég stundum gantast með það að þótt ég heiti því skrýtna nafni Óttarr Proppé þá hafi ég einnig leyfi til að heita Ólafur Ólafsson, verandi skírður Óttarr Ólafur og eigandi föður sem heitir Ólafur. Verandi ekki fæddur Popp þá má ég því miður ekki taka upp ættarnafnið Popp en það er löglegt nafn á Íslandi. Væri ég nógu heppinn til að vera af Popp-ætt, þá héti ég Óttar Popp og nafnið Stáli er löglegt á Íslandi þannig að það væri þá löglegt að heita Stáli Popp. Ég man ekki hvort nafnið Svampur er löglegt á Íslandi en væntanlega væri ekkert ólöglegt eða neitt sem segði að ég mætti ekki heita Svampur Sveins. Þá má spyrja sig hvort það sé endilega til ama og hvort það gæti hreinlega ekki orðið þjóðlífinu til góðs að hér stæði þingmaðurinn Svampur Sveins eða Stáli Popp.

En rétt svo ég ljúki máli mínu, þá vil ég vitna í greinargerðina með frumvarpinu:

„Nafn er nátengt sjálfsmynd og sjálfsvitund fólks og varðar fyrst og fremst einkahagi og persónurétt fremur en hagsmuni alls almennings. Í ársbyrjun 2013 féll dómur í Héraðsdómi Reykjavíkur í máli ungrar stúlku, Blævar Bjarkardóttur, gegn íslenska ríkinu. Í niðurstöðu dómsins segir:

„Samkvæmt 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar, samanber 9. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995, á sérhver maður rétt til friðhelgi einkalífs síns, fjölskyldu, heimilis og bréfaskipta. Í íslenskum rétti hefur verið talið að réttur manns til nafns falli undir ákvæði 1. mgr. 71. gr. enda séu þar um mikilvæg persónuleg réttindi hvers einstaklings að ræða. Þá hefur Mannréttindadómstóll Evrópu viðurkennt í dómaframkvæmd að rétturinn til nafns falli undir 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu en 1. mgr. þess ákvæðis er efnislega samhljóða 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar.““

Enn fremur segir þar, með leyfi forseta:

„Það er mat dómsins að réttur stefnanda til að bera nafnið Blær sé ríkari en hagsmunir samfélagsins af því að hafna kröfunni en auk þess hefur stefndi ekki fært fram haldbær rök fyrir því að réttindi annarra verði fyrir borð borin verði krafa stefnanda viðurkennd.“

Þær breytingar sem lagðar eru til með frumvarpi þessu eru í anda niðurstöðu þessa dóms og í anda þess hagsmunir einstaklinga af því að fá að heita nafninu sínu eru ríkari en hagsmunir samfélagsins af því að fólk fái ekki að heita nafninu sínu.

Ég hef lokið máli mínu.



[19:08]
Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil nota þetta tækifæri til að lýsa eindregnum stuðningi við þá afstöðu sem að baki málinu liggur, þá að það sé sjálfsagður og eðlilegur réttur hvers manns að fá að ráða því sjálfur hvað hann heiti, og að sú hugmynd að hið opinbera gefi út einhverjar skrár um hvað sé leyfilegt í því efni séu sannarlega barn síns tíma og fullkomlega úreltar árið 2015. Og einnig að það sé einhver nefnd fróðari manna en maður sjálfur er sem eigi að ákveða hvort og hvað maður má heita.

Ég hef raunar verið stuðningsmaður málsins frá því það var fyrst tekið upp á Alþingi. Ég hygg að það hafi verið á kjörtímabilinu 2003–2007 sem Björn Ingi Hrafnsson, þá varaþingmaður en nú kunnur fjölmiðlakóngur, flutti mál samkynja um að leggja af þessa löggjöf en það náði því miður ekki fram að ganga frekar en þetta mál nú ítrekað hefur og er þó löngu kominn tími til þess að hætta, ég vil leyfa mér að segja þessari vitleysu. Auðvitað voru það metnaðarfullar hugmyndir aldamótakynslóðar í upphafi 20. aldarinnar að standa vörð um íslenska menningu og séríslenskar hefðir og annað slíkt sem urðu til þess að hér var á þessu þingi sett löggjöf fyrir meira en 100 árum, árið 1914, um það hvernig þessum málum ætti að vera skipað. En framkvæmdin á þessu hefur auðvitað líka verið með þeim hætti að það er löngu síðan orðið þannig að engin leið er að skilja hvers vegna eitthvað var leyft og eitthvað annað var bannað. Röksemdirnar sem menn í góðri trú lögðu af stað með einhvern tíma í upphafi síðustu aldar eru einhvern veginn löngu orðnar mótsagnakenndar og rökstuðningur fyrir samþykktum jafnt sem synjunum orðinn illskiljanlegur oft og einatt fyrir utan það að hitt er sjálfsagt að hver einstaklingur ráði sjálfur nafni sínu. Það kann að þurfa að setja því einhverjar takmarkanir hversu oft maður getur ráðið nafni sínu á ævinni. Það kunna að vera einhverjir samfélagslegir hagsmunir fyrir því að menn geti ekki ótakmarkað oft skipt um auðkenni í tíma og ótíma eins og nafn manns er, en í meginatriðum hljóti maður að ráða sínu nafni. Mér þykir málið hafa tekið framförum frá því að það var flutt síðast í því að ónefni eru eftirlátin sem eðlilegt er barnaverndaryfirvöldum. Þær áhyggjur sem margir hafa af góðum hug haft fyrir ófæddum börnum sem kynnu að vera skírð ónefnum af foreldrum sínum, þeim á auðvitað ekki að mæta í einhverri sérstakri mannanafnalöggjöf. Ef foreldrar skíra börn sín ónefnum þá er það náttúrlega bara mál sem varðar við barnavernd eins og framsögumaður fór ágætlega yfir hér.

En ég skora á þá nefnd sem málið fær til umfjöllunar að láta sér ekki nægja að senda það út til umsagnar. Þetta er fyrir löngu síðan orðið til vansa fyrir löggjafarþingið að banna fólki að heita það sem það vill heita af engum skiljanlegum ástæðum og ekki aðeins í því tilfelli sem framsögumaðurinn vísaði til heldur í svo fjölmörgum tilfellum algerlega óþolandi afskipti yfirvalda af friðhelgi einkalífs fólks og atriðum sem eiga að vera í höndum hvers og eins en ekki ríkisins.



[19:12]
Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Ég vildi aðeins koma hingað upp og lýsa yfir eindregnum stuðningi við frumvarpið. Ég vona að það nái fram að ganga og vísa til þess að ég hef verið ein af þeim Íslendingum sem hafa þurft að glíma við mannanafnanefnd út af nafni sem ég ákvað að gefa syni mínum. Það náðist í gegn en það var langur slagur, algerlega fáránlegur. Ég hef heyrt af mörgum fullorðnum sem hafa viljað samræma nafn sitt við það til dæmis ef þeir hafa gifst eða verið búsettir erlendis. Þegar fólk er fullorðið finnst mér að sjálfsákvörðunarréttur þess hvað það heitir eigi að vera í forgrunni. Ég vona bara heitt og innilega, miðað við hverjir eru á málinu en það er fólk úr öllum flokkum, sýnist mér, eða nánast öllum flokkum, að ekkert verði því til fyrirstöðu að málið verði klárað og afgreitt í vor.



[19:13]
Flm. (Óttarr Proppé) (Bf):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka þeim þingmönnum sem tóku þátt í umræðunni fyrir hlý orð og hvatningarorð gagnvart frumvarpinu og ég tek undir óskir þeirra um að frumvarpið fái góða ferð í gegnum þingið.

Ég vildi rétt koma hingað upp, af því að ég gleymdi því í spenningnum áðan, og taka það fram að flutningsmenn eru úr mörgum flokkum eins og hér segir. Og það sem meira er að eftir að frumvarpið var lagt fram og prentað upp hafa komið að máli fleiri þingmenn sem hafa séð eftir því að hafa ekki fengið að vera á málinu. Ég tel því að ríkur stuðningur sé fyrir málinu úr öllum áttum hér á þinginu og hafi ég gleymt að bjóða einhverjum þingmönnum á málið bið ég þá afsökunar hér með.

Ég gleymdi því líka í fyrri ræðu minni að mælast til að málinu verði vísað til allsherjar- og menntamálanefndar á sama hátt og var gert í fyrra og ég geri það hér með.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til allsh.- og menntmn.