144. löggjafarþing — 97. fundur
 28. apríl 2015.
Samgöngustofa og loftferðir, 1. umræða.
stjfrv., 674. mál (gjaldskrárheimildir og EES-reglur). — Þskj. 1144.

[21:57]
innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um Samgöngustofu, stjórnsýslustofnun samgöngumála, nr. 119/2012, og lögum um loftferðir, nr. 60/1998, með síðari breytingum.

Frumvarpið felur í sér annars vegar breytingar sem heimila ráðherra að innleiða reglugerðir er varða Flugöryggisstofnun Evrópu og Siglingaöryggisstofnun Evrópu og teknar hafa verið upp í EES-samninginn og hins vegar að tekin verði upp að nýju gjaldtökuákvæði um útgáfu lofthæfisskírteina til útflutnings og um fyrstu útgáfu lofthæfisskírteina vegna loftfara sem ekki eru vélknúin.

Þá er jafnframt að finna í frumvarpinu heimild til handa ráðherra til að mæla fyrir um greiðslu kostnaðar vegna starfa samræmingarstjóra á flugvöllum með samræmdan afgreiðslutíma.

Þær gjaldtökuheimildir sem er að finna í frumvarpinu var áður að finna í lögum um Flugmálastjórn Íslands sem felld voru úr gildi með gildistöku laga nr. 119/2012, um Samgöngustofu.

Samgöngustofa sendi ráðuneytinu erindi þar sem bent var á að heimildin hefði verið felld út og óskað eftir því að ráðuneytið beitti sér fyrir að heimildinni yrði komið fyrir að nýju í lögum. Umræddar gjaldtökur eru ekki reglubundnar og eiga sér eingöngu stað að beiðni gjaldanda, annaðhvort við nýskráningu loftfars sem ekki er vélknúið eða útfellingu loftfars svo sem vegna sölu eða við skil að loknum leigutíma.

Ákvæði er snúa að Flugöryggisstofnun Evrópu og Siglingaöryggisstofnunar Evrópu fela í sér að sambærilegar heimildir séu til staðar vegna þessara stofnana sem Ísland er aðili að gegnum EES-samninginn. Þannig ber ráðherra nú að innleiða reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins er varðar stofnun Flugöryggisstofnunar Evrópu. Á grundvelli stofngerða stofnananna er framkvæmdastjórn Evrópusambandsins falið að setja reglugerðir um ákveðin verkefni stofnananna og þarf að innleiða þær hér á landi.

Ákvæði frumvarpsins sem snertir heimild ráðherra til að mæla fyrir um skiptingu kostnaðar vegna verkefna samræmingarstjóra er ætlað að renna styrkari stoðum undir núgildandi framkvæmd, en gerðar voru breytingar á skipan samræmingarstjóra á Keflavíkurflugvelli eftir að athugasemdir bárust frá Eftirlitsstofnun EFTA um að sjálfstæði hans væri ekki nægjanlega tryggt. Ákvæðið felur því ekki í sér neinar breytingar frá núgildandi fyrirkomulagi.

Við gerð frumvarpsins var haft samráð við Samgöngustofu að því er varðar gjaldtökuheimildir. Þá var frumvarpið kynnt á vef ráðuneytisins og tveggja vikna frestur var veittur til athugasemda. Engar athugasemdir voru gerðar við frumvarpið.

Ég hef nú gert grein fyrir helstu efnisatriðum frumvarpsins og vísa að öðru leyti til athugasemda þeirra sem fylgja frumvarpinu.

Hæstv. forseti. Ég legg til að frumvarpinu verði vísað til hæstv. umhverfis- og samgöngunefndar og 2. umr.



[21:59]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Að sjálfsögðu er þessi gjaldtökulagfæring sjálfsagt mál. Það hefur tekist svona til þegar þetta var skrúfað saman í sameiningunni að heimildir að þessu leyti hafa fallið niður.

Það sem vakti athygli mína voru þessar víðtæku reglugerðarheimildir, að hér virðist vera um að ræða að innleiða mikið regluverk á sviði Siglingaöryggisstofnunar Evrópu og síðan aftur á sviði Flugöryggisstofnunar Evrópu. Mér leikur forvitni á að vita: Eru þetta fullnægjandi innleiðingarheimildir að þessu leyti til og er það alveg klárt að reglugerðir dugi til þess að gera þetta? Nú hefur sumt í þessum flugstofnunum til dæmis verið snúið gagnvart framsali valds og annað í þeim dúr. Ég reikna með að ekkert slíkt sé hér á ferðinni úr því menn telja að þetta sé hægt að gera með einfaldri heimild til reglusetningar. Og þá kannski líka: Eru þetta þá tilskipanir sem búnar eru að fara sinn feril í gegnum utanríkismálanefnd og þær hafi sem sagt verið blessaðar á grundvelli ákvarðana í sameiginlegu EES-nefndinni og allt þar fram eftir götunum?



[22:01]
innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er alveg rétt og við þekkjum það að gríðarlega mikið alþjóðlegt regluverk er hvað varðar loftferðir og slíka flutninga. Það eru engar reglugerðir um að ræða þarna sem varða stjórnskipulega fyrirvara. Það þyrfti ávallt að fara fram með allt öðrum hætti, að því er sérstaklega gætt fyrir fram. Og þegar þarf að aflétta stjórnskipulegum fyrirvara eða fara þarf með reglurnar í gegnum breytingar á lögum þá er það að sjálfsögðu gert. Þessar reglur eru þess eðlis að óhætt er að fara með þær með þessum hætti, það hef ég verið fullvissuð um og skil alveg eindregið þannig að svo sé. Þær hafa nú þegar hlotið meðferð á viðeigandi stöðum.

En ég tel hins vegar, af því að umtalsverðar reglur berast okkur stöðugt frá hinu alþjóðlega umhverfi hvað varðar öryggi í flugi, að mikilvægt sé fyrir okkur að hafa gætur á því hvað við erum að innleiða á hverjum tíma og við reynum að vanda okkur alveg sérstaklega vel við það.



[22:02]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Mér er fullkunnugt um að það er mikið regluverk sem oft tengist þessum málum, bæði siglingaöryggismálum og flugöryggismálum. Ég er ekki að mæla með því og væri sjálfsagt að æra óstöðugan að allar tæknilegar reglur í þessum efnum væru, ég tala nú ekki um settar í lög, hvað þá að fjalla með viðamiklum hætti um einhverjar tæknilegar breytingar sem kunna að verða á þessu frá einum mánuði eða ári til annars.

En það sem ég staldraði engu að síður við og vil hafa nefnt hér, ég tek orð ráðherra fullgild, er að hér er auðvitað um mjög opna heimild að ræða. Það er í raun og veru sagt: „Ráðherra er einnig heimilt að setja reglugerð um innleiðingu EES-gerða sem varða verkefni á sviði Siglingaöryggisstofnunar Evrópu og stofnuninni hafa verið falin á grundvelli stofngerða hennar, …“ Þetta er almenn heimild til þess að innleiða tilskipanir sem varða verkefni á þessu sviði. Hið sama gildir í raun um Flugöryggisstofnunina. Hér segir: „Ráðherra er heimilt að setja reglugerð sem felur í sér innleiðingu EES-gerða sem varða verkefni á sviði Flugöryggisstofnunar Evrópu …“ — sem væntanlega er opin heimild inn í framtíðina, að þau verkefni sem þeirri stofnun verða falin, er ráðherra heimilt að innleiða eða heimilt er að taka þau upp og innleiða í okkar rétt á grundvelli þessara reglugerðarheimilda.



[22:04]
innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er reyndar almennt þeirrar skoðunar að fara eigi gætilega í reglugerðarheimildir og hafa þær ekki of opnar. Ég get að því leyti til tekið undir með hv. þingmanni að ástæða er til að fara sérstaklega varlega í því að veita of opnar reglugerðarheimildir. Ég held að þetta kalli hreinlega á það að nefndin skoði það rækilega í málsmeðferð sinni hvort þarna sé ekki passlega langt gengið eða hvort þurfi að gera bætur á þessu ákvæði. Ég treysti nefndinni fyllilega til að gera það og fara rækilega yfir það.

Ég held við ættum reyndar að hugleiða það líka þegar við erum að taka inn þetta mikla regluverk að utan, sem í þessu tilviki skipta öryggissjónarmiðin verulega miklu máli, að við séum ávallt að hugsa það að við séum að taka þetta á réttan hátt inn í okkar rétt og ekki heldur framselja vald, hvort sem er til framkvæmdarvalds eða annars, með einhverjum óvarlegum hætti. Það mundi maður alls ekki vilja sjá.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til um.- og samgn.