144. löggjafarþing — 138. fundur
 29. júní 2015.
ummæli ráðherra um hótanir kröfuhafa.

[10:11]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég er á skyldum slóðum en þó aðeins út frá öðru. Hæstv. forsætisráðherra upplýsir það óaðspurður í framhjáhlaupi í viðtali við DV um helgina að sér hafi verið hótað, honum og/eða landinu hafi verið hótað í tengslum við vinnu til undirbúnings afnámi gjaldeyrishafta. Nú stendur svo merkilega á að á sama tíma erum við með frumvörp til skoðunar þar sem annað gengur út á að greiða götu þess að kröfuhafar, sem þarf ekki mikið hugmyndaflug til að láta sér detta í hug að hafi staðið fyrir eða staðið á bak við þessar hótanir, geti gert nauðasamninga og allt bendir til að þeir velji þá leið og telji hana mun hagstæðari en að greiða skattinn.

Mér finnst eiginlega nauðsynlegt að hæstv. forsætisráðherra fái að minnsta kosti tækifæri til að upplýsa Alþingi betur um þetta mál. Almennt á að taka það alvarlega ef mönnum er hótað, ég tala nú ekki um ef forsætisráðherra lands eða landi er hótað.

Ég vil því leyfa mér að spyrja hæstv. forsætisráðherra: Er eða var eitthvað þarna á ferðinni sem hæstv. forsætisráðherra vill upplýsa Alþingi um? Er eða var eitthvað þarna á ferðinni sem þingið þarf að vita af eða að minnsta kosti efnahags- og viðskiptanefnd vegna vinnu sinnar við afnám gjaldeyrishafta? Hefur hæstv. forsætisráðherra kært þessar hótanir eða hyggst hann gera það? Hefur hæstv. forsætisráðherra upplýst lögregluna um þessar hótanir eða hyggst hann gera það?

Mér finnst erfitt að búa við að hafa engar aðrar upplýsingar en þessar óljósu fréttir úr viðtalinu í DV en af einhverjum ástæðum valdi hæstv. forsætisráðherra að setja þetta í loftið, hafði að því frumkvæði. Eins og ég las viðtalið barst honum ekki bein spurning um það heldur skaut því að og mér finnst þess vegna lágmark að hann geri Alþingi grein fyrir því hvað þarna var á ferðinni. Ef þetta er af því tagi eða svo viðkvæmt að hann telji sig ekki geta upplýst um það opinberlega væri fróðlegt að vita hvort hann ætlar að leita annarra leiða, svo sem eins og að kæra þetta til lögreglu.



[10:13]
forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég hef alloft lýst ýmsu í framgöngu kröfuhafa, þessara vogunarsjóða sem þarna er einkum um að ræða, og þeim aðferðum sem þeir beita til að verja hagsmuni sína. Ég fagna því sérstaklega að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon skuli nú loks taka þessa umræðu alvarlega. Það hefði mátt gera það svo sannarlega miklu fyrr. Hótanir af ýmsu tagi hafa legið í loftinu, ekki bara í þessu máli heldur sáu jafnvel stjórnmálamenn um það að bera okkur hótanir í tengslum við deilur um Icesave-málið þar sem því var haldið fram af sumum stjórnmálamönnum og ýmsum álitsgjöfum að það færi illa fyrir Íslandi á allan mögulegan hátt ef við létum ekki undan þrýstingi um að taka á okkur Icesave-kröfurnar. Svipaða umræðu hefur verið reynt að setja af stað í tengslum við þetta mál í fjölmiðlum og í umræðu annars staðar, en við höfum ekki í þessu máli, frekar en í Icesave-málinu, látið slíka tilburði hafa nokkur einustu áhrif á okkur, enda væri það algjörlega óásættanlegt fyrir sjálfstæða þjóð að láta slíkar aðferðir hafa einhver áhrif á ákvörðunartöku.



[10:15]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég var í sjálfu sér ekki að spyrja um Icesave en hæstv. forsætisráðherra man greinilega eftir því. Ég hóf ekki máls á þessu hér til þess að forsætisráðherra geti komið því enn einu sinni á framfæri við þjóðina að hann væri hetja sem léti ekki kúga sig eða hóta sér. Það vitum við auðvitað öll, hann er búinn að segja það svo oft sjálfur að það liggur alveg fyrir opinberlega.

Ég var að reyna að lýsa aðeins inn í það hvort eitthvað hefði gerst sem mögulega ætti erindi inn í skoðun Alþingis á þessum málum. Það vill svo til að við erum að fjalla um frumvörp sem eru gagngert til þess að greiða götu þess að samningar þessara aðila gangi í gegn sem að vísu má ekki kalla samninga því að það er eitthvað viðkvæmt, en það er nú þannig og það er meira að segja verið að leggja til við okkur breytingar á þessum frumvörpum til að gera það enn líklegra að samningsniðurstaðan sem liggur fyrir gagnvart lykilkröfuhöfum stóru búanna geti greiðlega gengið í gegn hér fyrir áramót. Væri þá ekki ástæða til að vita það að minnsta kosti ef þeir aðilar hafa að undanförnu (Forseti hringir.) staðið fyrir svona hlutum? Það kunna að vera efasemdir um að þessi nauðasamningaleið sé nægjanleg til að taka þennan vanda út úr hagkerfinu og þá fara menn að leita skýringa og spurningar vakna um hvers vegna hún var engu að síður valin en ekki skatturinn. (Forseti hringir.) Ég held að forsætisráðherra verði að gera aðeins betur en þetta.



[10:16]
forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Skelfing er þetta nú aumt. Voðalega er nú lágt lagst þegar dregnar eru fram svona langsóttar tilraunir til að gera það tortryggilegt sem hv. þingmaður, eins og allir aðrir í þessum sal, fagnaði fyrir fáeinum vikum en sér núna væntanlega eitthvert tækifæri í því að búa til tortryggni um þetta mál eins og allt annað. Hv. þingmaður þarf ekkert að fullyrða um það að ég haldi því fram að ég sé einhver hetja eða hafi gert hitt og þetta. Ef ég ætlaði að læra slíkt af einhverjum þá mundi ég líta til viðtala við hv. þm. Steingrím J. Sigfússon á síðasta kjörtímabili. Þar skorti ekki lýsingarnar á eigin ágæti.

Hvað varðar hins vegar þá niðurstöðu sem hér um ræðir er ekkert að því að tala um samninga. Önnur af þessum leiðum er samningaleið, nauðasamningaleiðin, en ríkið á ekki beina aðkomu að þeim nauðasamningum. Þetta hlýtur hv. þingmaður að þekkja. En uppfylli þessir nauðasamningar þau skilyrði sem stjórnvöld setja, einhliða skilyrði, óumsemjanleg þá leyfir það afléttingu hafta (Forseti hringir.) en eingöngu ef skilyrðin eru uppfyllt, skilyrðin sem eiga að tryggja öryggi efnahagslegs stöðugleika á Íslandi.