145. löggjafarþing — 86. fundur
 10. mars 2016.
mótun stefnu til að draga úr notkun á skaðlegum efnum í neysluvörum, fyrri umræða.
þáltill. BP o.fl., 247. mál. — Þskj. 267.

[16:18]
Flm. (Brynhildur Pétursdóttir) (Bf):

Virðulegur forseti. Það er mér mikil ánægja að fá að mæla fyrir þessu máli. Það snýr að því að stjórnvöld, þ.e. umhverfis- og auðlindaráðherra, móti stefnu sem hafi það markmið að draga úr notkun á skaðlegum efnum í neysluvörum og að upplýsa neytendur um tilvist skaðlegra efna og áhrif þessara efna á heilsu og umhverfi. Það eru gríðarmörg efni og efnasambönd í næstum því öllum vörum sem við notum í dag og mörg þeirra efna eru skaðleg. Flest efnanna hafa ekki verið rannsökuð og áhættumetin með tilliti til skaðlegra áhrifa á heilsu fólks eða á umhverfið.

Fram til ársins 1981 komu hin og þessi efni á markað. Þegar ég tala um efni getur það verið plast af öllum gerðum, varnarefni, skordýraeitur, rotvarnarefni, ilmefni, stundum er talað um kemísk efni í því sambandi. Þetta geta líka verið þungmálmar. Þetta eru alls konar efni sem eru sett í vörur til þess að bæta þær á einhvern hátt út frá sjónarhóli framleiðanda, ekki endilega neytenda. Ef ég tek peysuna sem ég er í hafa væntanlega verið notuð varnarefni á bómullarakrana, litarefni í verksmiðjunni og í sumum fötum eru efni til þess að textíllinn eða efnið krumpist ekki. Þessi efni eru ekki saklaus, þau geta haft margvísleg vandamál í för með sér. Þau geta til dæmis haft áhrif á ónæmiskerfið, hormónakerfið, sum eru beinlínis krabbameinsvaldandi og þar fram eftir götunum.

Það sem gerðist og ástæðan fyrir því að við erum komin í ógöngur er að fram til ársins 1981 voru efni sett á markað án þess að þau hefðu verið rannsökuð. Þau voru bara framleidd og voru svo komin í alls konar vörur sem við notum án þess að við vitum hvaða áhrif þau hafa á okkur.

Árið 1981 voru sett lög í Evrópu sem skylduðu framleiðendur til þess að áhættumeta öll ný efni sem komu á markað eftir 1981. Eftir að lögin tóku gildi er talið að um 3 þús. efni hafi komið á markað en það eru um 100 þús. efni á markaði sem ekki hafa verið áhættumetin. Eins og ég sagði geta efnin verið af margvíslegum toga, sum þeirra safnast upp í vefjum manna og dýra. Svo eru það þau sem hafa áhrif á hormónakerfið, sem hafa áhrif á æxlunargetu. Menn hafa áhyggjur af því að aukin ófrjósemi sé að einhverju leyti þeim efnum að kenna. Við notum vörur á hverjum degi sem innihalda slík efni. Það geta verið snyrtivörur og hreinsiefni, matarílát, leikföng og raftæki. Mörg efni eru í raftækjum, fatnaði og því um líku.

Evrópusambandið reyndi að ná utan um málið. Það voru mjög mikilvæg lög sett árið 2007 sem kölluðust REACH (Regulation on Registration, Evaluation, Authorisation and Restriction of Chemicals). Tilgangurinn með lögunum er meðal annars að þau 100 þús. efni sem eru á markaði verði skráð í gagnagrunn. Auk þess þarf að áhættumeta efni sem eru framleidd eða flutt inn á Evrópska efnahagssvæðið nema til séu nægileg gögn til að meta áhættuna. Kostnaður af því á að falla á framleiðanda og innflytjanda. Útbúinn hefur verið listi yfir þau efni sem eru í notkun en þykja sérstaklega hættuleg, „kandídatslisti“ er hann kallaður eða Substances of Very High Concern, svo ég leyfi mér að tala ensku, frú forseti. Þessi efni eru metin sérstaklega og í framhaldinu eru þau annaðhvort bönnuð eða framleiðendum gert skylt að sækja um sérstakt leyfi fyrir notkun þeirra. Á miðju ári 2015 voru 163 efni á listanum.

Neytendur eiga rétt á því að vita hvort vara sem þeir hafa áhuga á að kaupa inniheldur efni á þessum lista, með einhverjum takmörkunum þó, en það er þannig að neytandinn þarf sjálfur að kalla eftir þessum upplýsingum og seljandinn hefur 45 daga til að svara. Í rauninni er neytendum lítill greiði gerður með þessum „rétti“ því að þetta er meira sýndarmennska en eitthvað annað. Fyrir það fyrsta þarf neytandi að vita að þessi listi yfir skaðleg efni er til. Hann þarf að vita að skaðleg efni eru notuð í neysluvörur, það er ekki eitthvað sem allir gera sér grein fyrir, og hann þarf að hafa fyrir því að kalla eftir upplýsingunum og vera þolinmóður í 45 daga meðan hann bíður eftir svari og ekki kaupa vöruna á meðan.

Í sumum löndum hefur verið brugðist við þessu með því að útbúa forrit fyrir snjallsíma eða öpp til að auðvelda neytendum aðgang að þessum upplýsingum. Þá geta þeir skannað strikamerkið á vörunni og séð hvaða skaðlegu efni varan inniheldur og hvort þau eru á listanum. Menn hafa líka sums staðar verið að búa til öpp yfir hormónaraskandi efni, sem menn hafa sérstakar áhyggjur af.

Þessi löggjöf var mikið framfaraskref. Þegar ákveðið var að fara í þetta verk kom meðal annars fram að menn töldu að þetta mundi minnka til að mynda krabbamein, vegna þess að sum þessara efna valda beinlínis krabbameini. Þetta var ekki gert að ástæðulausu. Það sem er sérstakt áhyggjuefni er að þessi efni hafa líka verið notuð í barnavörur og leikföng, í plast í ýmiss konar matarílátum og öðru slíku. Það er ástæða til að fara alveg sérstaklega varlega þegar börn eru annars vegar.

Annars staðar á Norðurlöndum hefur verið gripið til margvíslegra aðgerða, en við höfum verið ótrúlega sofandi gagnvart þessu. Það er einhver umræða af og til, en mér finnst ekki eins og það sé almenn vitneskja hjá neytendum að það sé kannski þess virði að leita að vörum sem innihalda ekki skaðleg efni. Ég skil að vissu leyti að neytendur hugsa sem svo: Af hverju í ósköpunum ættu skaðleg efni að vera leyfð? Eru það ekki stjórnvöld eða aðrir sem tryggja það? En það er ekki þannig, vegna þess að framleiðendur hafa haft sitt fram allt of lengi, þess vegna sitjum við uppi með skaðleg efni og við þurfum að bregðast við því.

Eitt sem við þekkjum á Íslandi, og er norræn samvinna, er umhverfismerkið Svanurinn. Það er vottun sem aðeins þær vörur fá sem eru umhverfisvænstar í sínum flokki og vörur sem innihalda eins lítið af óæskilegum efnum og mögulegt er. Vara sem vottuð er með svansmerkinu uppfyllir mjög strangar kröfur.

Danir hafa haft mikinn áhuga á þessum málum og dönsk stjórnvöld verið í fararbroddi og eru aðgerðir þeirra hreinlega til eftirbreytni. Þeir voru fyrstir þjóða til að banna ákveðnar tegundir þalata, sem eru mýkingarefni í plasti. Þeir bönnuðu efnið bispehnol-A í pelum og matarílátum fyrir börn árið 2010. Ári síðar gerði Evrópusambandið slíkt hið sama. Dönsk stjórnvöld náðu árið 2013 þverpólitískri sátt um að fara í átak gegn skaðlegum efnum í neysluvörum. Fyrir tímabilið 2014–2017 var sett á fót sérstakt ráð sem í sátu meðal annars aðilar frá neytendasamtökum, samtökum í iðnaði og stjórnvöldum og þau veittu dönsku neytendasamtökunum, Forbrugerrådet, 17,5 milljónir danskra króna til að setja á fót verkefnið „Tænk kemi“, sem hefur það markmið að fræða neytendur um innihald þessara efna í ýmsum neysluvörum.

Í Svíþjóð hafa stjórnvöld sett langtímastefnu í umhverfismálum sem nær langt út fyrir kjörtímabil og er mjög áhugaverð. Um hana má lesa um á vef sænskra stjórnvalda. Þeir eru með sex höfuðstefnumál, svo sem loftgæði, hlýnun jarðar, hreint vatn og svo eiturefnalaust umhverfi, eða „giftfri miljö“. Í þeim málaflokki er almenn stefna að auka rannsóknir á skaðlegum eiginleikum efna, bæta upplýsingaflæði til neytenda og stuðla að lagaumhverfi sem verndar umhverfi og fólk. Undir hverju stefnumáli eru sérhæfari undirmarkmið skilgreind. Það eru átta slík í flokknum um eiturefnalaust umhverfi. Eitt undirmarkmið er til dæmis að draga úr áhrifum efnavara á vöxt og þroska barna.

Mér finnst það hvernig Svíar stilla þessu upp til fyrirmyndar, langtímasýn þeirra í öllum málaflokkum sem snúa að umhverfismálum.

Norska þingið samþykkti í janúar árið 2015 þingsályktun um að stjórnvöld skyldu gera aðgerðaáætlun um eiturefnalausan virkan dag, þetta er kannski ekki góð þýðing á „giftfri hverdag“. Í þeirri aðgerðaáætlun er meðal annars gert ráð fyrir auknu eftirliti með skaðlegum efnum í neysluvörum og betri upplýsingum til neytenda. Tekið er fram í greinargerð með þessari tillögu að Danir og Svíar hafi í mörg ár haft stefnu í þessum málum og kominn sé tími til að Norðmenn geri slíkt hið sama, sérstaklega sé mikilvægt að vernda börn gegn þeim fjölmörgu efnum sem þau eru útsett fyrir.

Norðurlandaráð hefur líka kallað eftir árangursríkari stefnu varðandi kemísk efni sem verndar neytendur, og sérstaklega börn, og hvatt til þess að notkun á efnum á fyrrnefndum kandídatslista verði stöðvuð án tafar.

Stjórnvöld á Íslandi virðast aldrei hafa mótað stefnu í þessum málaflokki eða sett fjármagn í sérstakt átak eins og þekkist annars staðar á Norðurlöndum og ekki að sjá að umfjöllun um skaðleg efni í neysluvörum hafi yfir höfuð farið fram á Alþingi nema kannski í tengslum við innleiðingu á EES-tilskipunum. Í ljósi þess að löggjöf um efni og efnavörur verndar ekki neytendur og hefur í of miklum mæli tekið mið af hagsmunum framleiðenda er það ábyrgðarhluti af stjórnvöldum að sjá ekki til þess að neytendum sé tryggð góð upplýsingagjöf. Við vitum að það eru allt of mörg skaðleg efni í umferð sem hafa áhrif á heilsu fólks og umhverfið og það er líka staðfest að mörg þeirra eru heilsuspillandi. Neytendur eiga rétt á þessum upplýsingum og þeir eiga rétt á því að geta tekið meðvitaða ákvörðun þegar þeir kaupa vörur. Það er stjórnvalda að tryggja að svo sé.

Flutningsmenn eru úr öllum flokkum, þingmenn Bjartrar framtíðar og úr öllum hinum flokkunum. Við leggjum til að stjórnvöldum verði gert að móta stefnu um það hvernig megi draga úr notkun á skaðlegum efnum og koma í veg fyrir að þau hafi skaðleg áhrif á fólk og umhverfi. Við leggjum til að horft verði til annarra norrænna ríkja, sem hafa verið í fararbroddi í þessum málaflokki.

Þetta mál gengur væntanlega til umhverfis- og samgöngunefndar. Mér finnst mjög mikilvægt að fá það í umsagnarferli.

Við erum að hugsa um áhrif efnanna á okkur þegar við notum vörurnar, kremin eða hvað það er, fartölvurnar, en það er líka ástæða til að hafa áhyggjur af skaðanum sem þessi efni valda strax við framleiðsluna í þeim löndum þar verið er að framleiða vörurnar og löggjöf er ábótavant. Þar vinnur fólk við að nota efnin, jafnvel ekki í hlífðarbúningi og þar fram eftir götunum og skaðlegum efnum er hleypt út í umhverfið vegna þess að þar er ekki nægilega sterk umhverfislöggjöf. Það eru mörg dæmi þess að verkafólkið sem framleiðir varninginn fyrir okkur veikist vegna starfa sinna. Það er líka ábyrgðarhluti.



[16:31]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég vil leiðrétta svolítið sem ég sagði í gær. Ég fékk póst frá ræðulesara sem benti mér á að ég hefði farið með fleipur í gær í sambandi við tölur þar sem ég komst að þeirri niðurstöðu, að því er virðist, að 100 milljónir sinnum 10 væru 120 milljónir sem er augljóslega ekki rétt.

Það sem ég ætlaði að segja og virðist hafa ruglast á í glósum mínum, ég reiknaði þetta út á sínum tíma, er að þingmaður kostar 10–12 milljónir á ári og það sinnum 10 er augljóslega 100–120 milljónir á ári. Þetta er hér með leiðrétt. Í samræmi við inntak ræðu minnar í gær og niðurstöðu er lýðræðið alls ekki dýrt.



[16:32]
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Mig langar að taka þátt í þessari umræðu. Mér finnst afar gott mál að móta stefnu til að draga úr notkun á skaðlegum efnum í neysluvörum. Ég velti því fyrir mér að beiðnin er löngu komin fram og beðið er um að skila stefnunni á vorþingi 2016, ég held að það sé nokkuð ljóst að það gangi ekki eftir. Það er mikið að gera og það er kannski spurning fyrir flutningsmenn og frummælanda að reyna að finna út aðra dagsetningu þannig að málið verði alla vega ekki saltað á þeirri forsendu.

Margt áhugavert kom fram. Við gerum okkur kannski fæst grein fyrir því hve mörg efni eru í umhverfi okkar, kemísk efni og annars konar efni, sem hafa bein áhrif á okkur. Það er sláandi að 3 þúsund efni skuli komin á markað eftir að lög voru sett sem standast ekki áhættumat, og að 100 þúsund efni séu á markaði nú þegar sem ekki hafa verið áhættumetin. Eins og framsögumaður rakti safnast efnin upp í vefjum manna og dýra og geta valdið skertri æxlunarfærni, eru bæði ofnæmisvaldandi og krabbameinsvaldandi, svo að eitthvað sé talið upp, fyrir utan umhverfisskaðann sem af þeim hlýst.

Ég tek undir það sem þingmaðurinn sagði hér áðan. Ofnæmisviðbrögð eru jafnvel ekki höfð til hliðsjónar þegar mat fer fram á aukaefnum í mat, það er ekki einn af áhættuþáttunum sem metinn er. Við erum orðin upplýstari og meðvitaðri um það hvað við látum ofan í okkur, teljum okkur hugsa um heilsuna með því að borða hollan mat og velja betur þar. Á sama tíma, eins og ræðumaður sagði í lok ræðu sinnar, erum við að smyrja á okkur alls konar efnum sem smjúga inn í húðina í formi snyrti- og hreinlætisvara án þess að velta því fyrir okkur hvort þau eru skaðleg eða ekki. Þetta smýgur inn í húðina og sest að í líkamanum. Það var afar áhugaverður og góður punktur sem þingmaðurinn kom inn á varðandi vinnuaðstæður þess fólks úti í hinum stóra heimi sem framleiðir flest af því sem við erum að nota.

Ég tek undir það sjónarmið sem varðar rétt neytenda, hvort varan inniheldur það sem hér er talað um sem kandídatslista, þ.e. sérlega hættuleg efni. Þegar maður veltir því fyrir sér er verulega mörgu ábótavant í þessu. Kannski erum við bara svona lélegir neytendur að við gerum ekki þessar kröfur. Við getum til dæmis nefnt skyndibita, gríðarlega mikið af aukaefnum er í mat sem að stóru leyti er innfluttur og við neytum fyrir vikið óhollari matar.

Ef við vitum ekki hvaða efni eru skaðleg, þá getum við ekki varað okkur. Það er kannski það fyrsta. Eins og hv. þingmaður benti á, og kemur fram í greinargerðinni, eru lögin kannski ómöguleg eins og þau eru. Ef þú hefur 45 daga til að svara þá er neytandinn löngu hættur að hafa áhuga á því sem hann vildi vita. Maður bíður ekki beinlínis í 45 daga eftir því að kaupa tiltekna vöru til þess eins að fá að vita innihald hennar þó að það geti átt við í einhvern tíma. Mér fannst það mjög áhugavert að í Evrópu hefur sums staðar verið brugðist við með því að útbúa snjallsímaapp eða forrit fyrir slíkt. Það er eitt af því sem nútíminn kallar á. Ég held að stór hluti landsmanna sé með síma sem getur skannað strikamerki vöru og annað slíkt. Mér finnst það afar áhugaverð nálgun og ég velti því fyrir mér af hverju við getum ekki tekið það upp. Er eitthvað sem hamlar slíkri aðlögun? Eða þyrftum við að vera með eitthvað séríslenskt í því samhengi? Ég er ekki viss um það. Við erum að flytja inn mikið af vörum. En við gætum þurft að laga það að því sem er framleitt á Íslandi.

Það sem stendur konum næst í því sem hér er rakið eru ekki bara auknar líkur á krabbameini og sykursýki, heldur það sem kemur fram í skýrslu Alþjóðasamtaka kvensjúkdóma- og fæðingarlækna, sem kom út í október síðastliðnum, um að hið mikla magn eiturefna sem mannkynið kemst í snertingu við geti valdið aukinni ófrjósemi, fyrir utan það að valda milljónum dauðsfalla á hverju ári og hafa samfélagslegan kostnað í för með sér.

Það er líka gott það sem þingmaðurinn nefndi sem lið í átaki hjá dönsku neytendasamtökunum, þ.e. að fræða neytendur um hvernig þeir geta forðast skaðleg efni, og þar er líka verið að vísa í snjallsímaforrit. Hér eru forrit búin til daginn út og daginn inn, þetta er ein leið sem við gætum farið til að reyna að upplýsa fólk. Auðvitað byggist það á gríðarlegu upplýsingaflæði, þ.e. það þarf að safna saman gagnagrunni til að hægt sé að vinna úr þessu. En að því gerðu held ég að það sé það sem gæti orðið árangursríkast í því að ná árangri.

Í Umhverfisfréttum er Aðalbjörg Birna Guttormsdóttir, líf-, umhverfis- og auðlindafræðingur, með pistil. Þar kemur fram að heilsubrestur sem má rekja til áhrifa efna á hormónastarfsemi kosti heilbrigðiskerfi Evrópusambandsins 173 milljarða bandaríkjadollara. Við hljótum að staldra við og hugsa með okkur hvort við getum gert eitthvað. Og ber okkur ekki skylda til að gera eitthvað? Ég held að það sé þannig. Þetta er reyndar fyrsta rannsóknin sem gerð hefur verið til að meta slíkan kostnað og var henni stýrt af aðstoðarprófessor við New York University School of Medicine. Þar er verið að tala um efni í okkar daglegu neysluvörum, eins og þingmaðurinn kom inn á varðandi bisphenol sem er meðal annars að finna í plastvörum og pelum, innan í niðursuðudósum og á búðarkassakvittunum. Mér fannst það áhugavert. Það er ekki bara í pelum og snuðum, það er í málningarvörum og búðarkassakvittunum, miklu víðar en við teljum.

Mér finnst til ótrúlega mikils að vinna. Hér er einungis verið að tala um áætlun, en ég trúi því og treysti að ráðherra sjái sér fært að verða við þessari þingsályktunartillögu, sérstaklega þar sem hún er þverpólitísk. Það er augljóslega áhugi fyrir því í öllum flokkum að þetta verði rannsakað, enda viljum við öll stuðla að auknu heilbrigði og aukinni vitund neytenda.

Frú forseti. Ég ætla að láta þetta duga í bili, en mér finnst málið mjög áhugavert.



[16:42]
Jóhanna María Sigmundsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Brynhildi Pétursdóttur fyrir að mæla fyrir þessu máli og meðflutningsmönnum hennar. Ég fagna þessari þingsályktunartillögu mjög. Það var í febrúar á síðasta ári sem ég lagði fram fyrirspurn til umhverfis- og auðlindaráðherra um notkun þalata og voru nú margir sem slógu því upp í grín, sérstaklega eftir að ég skrifaði grein þar sem ég stiklaði á stóru í málinu. Það voru ekki síst fjölmiðlar sem endurspegluðu svolítið tepruskap sinn þegar þeir einblíndu meira á að þessi efni væru notuð við gerð kynlífsleikfanga en alvarleika málsins sem er afleiðingar þessara efna.

Mig langar einmitt að koma inn á það sem kom fram í svari umhverfis- og auðlindaráðherra við fyrirspurn minni og tengist í raun þessari þingsályktunartillögu, en það er að skaðsemi þalata hefur verið þekkt um áratugaskeið. Þó svo að við horfum kannski fyrst og fremst á notkun þalata í hlutum þá er ekki gerð krafa um innihaldslýsingu eða hættumerkingar á hlutum og þá er neytandanum í raun ekki gefið val um hvort hann vilji taka áhættuna á því að nota vöruna eða ekki. Neytandinn getur hins vegar kallað eftir upplýsingum eins og komið er inn á þingsályktunartillögunni og hefur seljandinn 45 daga frest til þess að gefa þær upp. Það er einmitt komið inn á það í svarinu að eina leiðin til að hafa eftirlit með þessu sé að efnagreina vöruna til að sannreyna hvort hún innihaldi þalöt, en að slíkar greiningar séu mjög kostnaðarsamar og þess vegna hafi ekki verið ráðist í þær hér á landi. Þetta tel ég vera mjög alvarlegt, sér í lagi vegna þess að hlutur netverslunar á markaðnum fer sívaxandi við þau lönd þar sem talið er að notkun sé meiri á ódýrari efnum sem ekki hafa farið í gegnum eins miklar prófanir og rannsóknir. Þó svo að Umhverfisstofnun fylgist með tilkynningum um ólöglegar vörur á evrópskum markaði og niðurstöðum og markaðskönnunum í nágrannalöndum okkar, þá er ekki endilega þar með sagt að þær komi frá nákvæmlega sömu aðilum og verið er að versla við í gegnum netverslun.

Síðan langar mig að koma inn á það sem kemur fram í greinargerðinni með ályktuninni og tek heils hugar undir það að í löggjöf á þessu sviði hefur allt of mikið verið horft á hagsmuni framleiðenda, miklu meira en hagsmuni almennings og neytenda. Ég mundi telja eins og kom fram í svari hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra við fyrirspurn minni að æskilegt væri að Umhverfisstofnun mundi alla vega öðru hverju láta efnagreina vörur til að ganga úr skugga um að þær uppfylltu kröfur sem til þeirra eru gerðar. Ég tel að við séum svolítið að kasta þeim möguleika á glæ með því að ákveða bara að þetta sé allt of kostnaðarsamt. Við höfum ekki einu sinni athugað hvort við getum gert einhverjar stikkprufur, hvað það mundi kosta okkur.

Skaðsemi ákveðinna þalata er þekkt, þau geta t.d. haft áhrif á frjósemi manna. Þá eru fóstur og nýfædd börn viðkvæmust fyrir þessum efnum, en þau hafa fundist í naghringjum, snuðum, pelum, brjóstapumpum og fleiru sem notað er í kringum börnin og við umönnun ungbarna. Þá kom upp umræða fyrir nokkrum árum um þessi skaðlegu efni og notkun þeirra í plastflöskum, brúsum, einnota plastglösum og svo framvegis. Ég tel því að þetta sé ekki málefni til þess að gera lítið úr eða reyna að gantast með. Þessi efni eru þrávirk og safnast upp í líkama okkar.

Varðandi 45 daga frest framleiðandans til að svara því hvort varan geti verið skaðleg þá finnst mér í rauninni óboðlegt að neytandinn þurfi annaðhvort að ákveða að kaupa vöruna og bíða þá í von og óvon um að heyra hvort hún geti valdið honum einhverjum skaða, eða að sleppa því að kaupa vöruna og reyna að leita eitthvert annað eða fara í flóknara ferli, allt til þess að spara nokkra aura í rannsóknarvinnu fyrir fram. Við erum í rauninni að ýta þessu á undan okkur, rannsóknarvinnan fer ekki fram fyrr en eftir á og bara ef sóst er eftir því.

Eins og kemur fram í greinargerðinni með tillögunni á eftir að rannsaka þúsundir efna. Það eru nú sumir sem segja að ef þú þekkir ekki tvö eða fleiri efni í matvælunum þínum þá ættir þú kannski að sneiða hjá þeim. Þá spyr ég: Hvað með öll þessi skaðlegu efni sem er að finna t.d. í plastílátunum sem við geymum matvæli okkar í? Eigum við ekki rétt á að fá að vita hvað er að finna í þeim? Það er ákveðin hætta sem fólki stafar af þessum efnum í neysluvörunni og meira að segja neysluvörum sem við nýtum á hverjum einasta degi. Það eru jú greinanlegir sjúkdómar eins og hefur verið komið inn á í síðustu ræðum, krabbamein, ofnæmi og ófrjósemi. En hvað með alla þá sjúkdóma og einkenni sem við tengjum efnin ekki við eða finnast ekki við einfaldar rannsóknir, en við förum kannski frekar í einfaldar en flóknar rannsóknir? Veldur þessi sparnaður þá kannski því að einhverjir einstaklingar í samfélaginu lifa við skert lífsgæði á einhvern hátt vegna óafvitandi nálægðar við þessi efni eða neyslu á þeim? Sá kostnaður kemur þá bara í bakið á ríkinu síðar meir. Við ættum frekar að leggjast í rannsóknir sem ég tel mjög mikilvægar.

Við tölum oft um það í þessum ræðustól að við eigum að styðja við mannréttindi. En á sama tíma erum við farin að panta meira í gegnum vefverslanir af vörum frá löndum sem eru ekki eins þróuð og við, þar sem er minna eftirlit, bæði með mannskap og því hvaða efni er verið að nota, og umhverfisvernd er lítil. Það er lágmarkskostnaður í framleiðslunni, notuð eru kemísk efni og verri efni og ódýrari í stað þeirra sem búið er að prófa enda er kostnaðurinn við náttúrulegu og vottuðu efnin svo mikill við það eftirlit sem þarf.

Svo vil ég taka undir það að aðrar Norðurlandaþjóðir og löndin í kringum okkur hafa staðið sig mjög vel í þessum málum. Ég sat í Norðurlandaráði í tvö ár þar sem var oft rætt um þessi málefni og ekki bara á sviði umhverfisnefndar heldur einnig hjá velferðarnefnd þar sem menn gerðu sér fyllilega grein fyrir þeim áhrifum sem þessi efni geta haft. Það er alveg orðið tímabært fyrir okkur að ganga til verks. Danir hafa verið mjög framarlega á þessu sviði og farið í átak gegn skaðlegum efnum í neysluvörum. Það er spurning hvort við getum horft til þeirra, ég er mjög hrifin af þeirri stefnu sem þeir tóku þó svo að stjórnvöld annars staðar á Norðurlöndum hafi einnig sett sér mjög góð markmið í þessum málum.

Það kemur fram í greinargerðinni að ekki er að sjá að umfjöllun um skaðleg efni í neysluvörum hafi farið fram á Alþingi, en það er ekkert skrýtið, ég veit af eigin reynslu að þegar það er gert þá er gert lítið úr því. Einstaklingar eru í rauninni látnir sitja uppi með að málið þykir ekki krassandi út frá þeim þætti að við erum að reyna að vara fólk við og að reyna að fá stjórnvöld með okkur og reyna að sameinast um að hugsa um hag neytendanna, heldur er einblínt meira á það að þessi efni séu í vörum sem fólk álítur að eigi ekki að minnast á upphátt.

Í lok ræðu minnar vil ég taka heils hugar undir þessa tillögu um að stjórnvöld móti stefnu og reyni að draga úr notkun á skaðlegum efnum í neysluvörum og komi í veg fyrir þau skaðlegu áhrif sem þau geta haft. Ég tek einnig undir með hv. þm. Bjarkeyju Gunnarsdóttur sem benti áðan á þann kostnað sem efnin geta valdið. Það er okkar stjórnvalda að reyna að finna leið til þess að stuðla að heilbrigði borgaranna, en einnig að kasta ekki á glæ þeim tækifærum sem við höfum til að koma í veg fyrir þann kostnað sem getur lagst á síðar, við eigum frekar að fara í fyrirbyggjandi aðgerðir.



[16:51]
Flm. (Brynhildur Pétursdóttir) (Bf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka góðar umræður um þessa tillögu. Mér finnst þetta alveg ótrúlega mikilvægt mál. Ég var seinni en ég ætlaði mér að leggja það fram, en ég vildi leggja mikla vinnu í greinargerðina og hafa hana góða og ítarlega. Ég vann við þessi mál m.a. hjá Neytendasamtökunum þannig að ég þekki þetta. Til dæmis var það þannig að Neytendasamtökin sendu áskorun á þáverandi matvælaráðherra sem fór með þennan málaflokk um að banna BPA í pelum, að bíða ekki eftir innleiðingu á einhverri EES-tilskipun heldur bara vera á undan. Það var gert.

Ég man eftir því þegar hv. þingmaður var með sína góðu fyrirspurn til umhverfisráðherra og hvernig var í rauninni snúið út úr henni í fjölmiðlum. Það fannst mér sýna skilningsleysi á mikilvægi þessa málaflokks. Það er auðvitað þess vegna sem við erum svolítið eftir á. Annars staðar á Norðurlöndunum hafa stjórnvöld og þeir sem móta stefnu sýnt þessum málum skilning og verið í fararbroddi. Þar með eru þau skilaboð send út til almennings að þetta skipti máli. Neytendasamtök þar eru líka mjög sterk og ýmiss konar umhverfissamtök sem hafa barist fyrir þessu. Við erum svona tíu, fimmtán árum á eftir, mundi ég segja. En ég held að nú sé kannski rétti tíminn til að fara í þetta. Ég er ekkert viss um að þessi þingsályktunartillaga hefði fengið hljómgrunn fyrir tíu árum, það hefði bara verið hlegið að henni.

Ég vil þakka fyrir umræðuna. Varðandi tillögugreinina og dagsetningar þá fel ég nefndinni að skoða það, hún má breyta því eins og hana lystir. Mér finnst mikilvægt að koma málinu í umsagnarferli. Ég á allt eins von á að þurfa að endurflytja það í haust vegna þess að við erum komin það langt, en mér finnst mjög mikilvægt að það fari í umsagnarferli og við komum því þannig af stað. Ég er rosalega þakklát fyrir þverpólitískan stuðning í málinu. Ég held að við séum alveg sammála og við ættum bara að koma þessu í gegn.



[16:53]
Jóhanna María Sigmundsdóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég geri mér grein fyrir því að þetta var kannski ekki ætlað sem andsvar, en ég vil samt taka undir með flutningsmanninum og segja að það skilar sér greinilega í gegn að hv. þingmaður lagði mikla vinnu í greinargerðina. Það er svolítið sorglegt að hugsa til þess að áður hafi verið send áskorun á stjórnvöld um að fara að gera eitthvað í málunum og við erum ekki komin lengra en það að við erum loksins núna hætt að hlæja að þessu og farin að leggja eitthvað til málanna. Það er líka góður punktur að vera ekki alltaf að bíða eftir EES-reglugerðum. Af hverju getum við ekki bara tekið skrefið eins og nágrannalöndin og tekið þá ákvörðun að við ætlum að vera framarlega í þessum málum, við ætlum að vera skrefi á undan og við ætlum að byrgja brunninn?

Svo vil ég taka undir það að núna gæti einmitt verið rétti tíminn, því við sjáum að neytendur eru orðnir miklu upplýstari. Neytendur hafa fleiri tækifæri í dag til þess að afla sér upplýsinga um vörur. Ef einhver pantar sér vörur utan frá er ótrúlega mikið af upplýsingum að finna á internetinu til að sjá hvað er í þeim. Vonandi getum við komið þessu máli lengra og ég hvet nefndina til þess að reyna af fremsta megni að vinna hratt þannig að við komumst áfram með það og þurfum ekki enn og aftur að mæla fyrir því á nýju þingi.



Till. gengur til síðari umr. 

Till. gengur til um.- og samgn.