145. löggjafarþing — 96. fundur.
skattaskjól.

[14:39]
Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Mig langar að beina fyrirspurn til hæstv. forsætisráðherra sem sagði áðan að það væri mikilvægt að Ísland tæki forustu meðal jafningja og sýndi frumkvæði í baráttunni gegn skattaskjólum. Ég tek undir það í ljósi þess að við virðumst hafa haft ákveðna forustu í hina áttina ef marka má þann fjölda Íslendinga sem eru tengdir aflandsfélögum í skattaskjólum. Ég fagna því að hæstv. forsætisráðherra vilji að við tökum forustu í hina áttina.

Ég tel mjög mikilvægt að sá tími sem við höfum fram að kosningum verði nýttur til að takast á við þessi mál. Breytingar hafa verið gerðar og við höfum rætt það talsvert og minnt á að hér voru auðvitað innleiddar CFC-reglur 2009 sem hafa skipt miklu máli. Það voru gerðir upplýsingaskiptasamningar. Það er hægt að stíga skref í áttina að því beinlínis að banna eignir í skattaskjólum og ég held að það sé möguleiki sem við eigum að skoða í ljósi þess að við í þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs höfum lagt fram tillögu um að Alþingi beiti sér fyrir því að látin verði fara fram rannsókn á fjölda og starfsemi félaga sem tengjast íslenskum aðilum, einstaklingum og lögaðilum sem eru í skattaskjólum sem skilgreind hafa verið af OECD og íslenskum stjórnvöldum, þ.e. að Alþingi taki málið upp á sína arma í ljósi þess að málið hefur eiginlega borist inn á þing í gegnum þá kjörnu fulltrúa sem hafa haft tengsl við aflandsfélög, að við látum þessa rannsókn annars vegar fara fram og hins vegar að sett verði á laggirnar sérstakt rannsóknarteymi undir forustu skattrannsóknarstjóra með aðkomu ríkisskattstjóra og hugsanlega fleiri aðila til að fara yfir umfang málsins. Það sem ég held að skipti verulegu máli hér, herra forseti, er að fá allar upplýsingar upp á borðið. Við vitum að sá leki sem nú hefur verið í fjölmiðlum tengist einni lögfræðistofu og einum banka og vitum í sjálfu sér að umfangið gæti verið meira og að það gæti verið að við höfum bara séð toppinn á ísjakanum.

Ég spyr hæstv. ráðherra hvort hann sé sammála okkur (Forseti hringir.) um mikilvægi slíkrar rannsóknar og hvort hann sé reiðubúinn að skoða það að við ljúkum afgreiðslu slíks máls á þinginu.



[14:41]
forsætisráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég get tekið undir með hv. þingmanni um mikilvægi þess að við tökum þessa forustu, m.a. vegna þess fjölda fyrirtækja sem hér hefur átt hlut að máli. Það hefur komið í ljós, kom í það minnsta fram í máli ríkisskattstjóra í gær að hann teldi að þessi fjöldi hefði komið til á árunum fyrir 2008 og að fá félög hefðu verið stofnuð síðan. Við þurfum að fara yfir alla þessa lagabálka, hvaða tækifæri við höfum. Ég ítreka það sem ég sagði áðan, ég vil ekki útiloka neitt í þeim efnum hvað sé skynsamlegast til að gera það. Ég held að það sé gott frumkvæði sem hefur komið frá formanni efnahags- og viðskiptanefndar þingsins um að halda opinn fund með ráðuneytinu, ríkisskattstjóra, skattrannsóknarstjóra og Fjármálaeftirlitinu. Ég held að þingnefndir séu eðlilegasti vettvangurinn til að opna á slíka umræðu og auka gegnsæið, koma upplýsingum til almennings og upplýsingum inn í þingið.

Ég held líka að í áframhaldinu sé eðlilegast að þingnefndir hafi eftirlit með störfum þessara stofnana. Ég tel að við þurfum að gera allt sem í okkar valdi stendur til að tryggja að þessar stofnanir okkar hafi úr nægum efnivið að vinna, þ.e. að þær hafi bæði fjármagn og mannafla til þess. Við þurfum að fara yfir það hvort skynsamlegast sé að setja sérstakan samstarfshóp á laggirnar milli þessara aðila eða hvort hægt sé að fela þeim verkefnin með mismunandi hætti eins og verið hefur hingað til. Ég held hins vegar að það væri umhugsunarefni hvort þingið ætti að fara í skattrannsóknir á einstökum einstaklingum eða fyrirtækjum. Ég teldi að það yrði miklu betri og lýðræðislegri (Forseti hringir.) bragur á því að láta stofnanir samfélagsins um það. Þetta er eitt af því sem við þurfum að ræða hér í framhaldinu.



[14:43]
Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Tillagan snýst ekki um að þingmenn standi að þessari rannsókn heldur einstaklingar með sérþekkingu á málum. Þingnefndir hafa mörgum málum að sinna, eins og við öll vitum sem hér störfum, m.a. afgreiðslu þingmála. Ég tel erfitt að leggja á herðar þingnefnda þá ábyrgð að annast eftirlit með slíkum málum sem við sjáum að er mjög umfangsmikið.

Ég hvet hæstv. ráðherra til að skoða vel tillöguna sem snýst um að þingið taki málið í sínar hendur en fái til þess sérfróðra aðila, ekki þingmenn, til að skoða slíka rannsókn. Þar með værum við að feta í fótspor Breta og Frakka sem einmitt hafa tekið þessi mál og sýnt þau viðbrögð að það sé mjög mikilvægt að þing á hverjum stað taki ábyrgð og það fari fram sérstök rannsókn á málunum.

Ég hvet hæstv. forsætisráðherra, í ljósi þess vilja sem hann hefur lýst hér að við tökum þessi mál föstum tökum, að skoða þessa hugmynd af fullri alvöru. Ég tel ekki að þingnefndir Alþingis hafi þær aðstæður (Forseti hringir.) að geta sinnt þessu hlutverki fullkomlega þó að auðvitað sé það meðal margs annars á þeirra borðum. Síðan tek ég undir með hæstv. ráðherra um að það er mikilvægt að stofnanir fái þær fjárheimildir sem þarf til að geta sinnt sínu lögbundna hlutverki.



[14:45]
forsætisráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég ítreka það sem ég hef svo sem sagt áður í þessari umræðu, það er mikilvægt að við tökum höndum saman um að skoða þessi mál gaumgæfilega, horfum til annarra þjóða sem virðast margar hverjar taka á þessum málum líka þar sem um alþjóðlegt vandamál er að ræða eins og við höfum rætt hér áður í þessari umræðu.

Mér finnst ekki nein tillaga útilokuð fyrir fram. Ég held að það sé rétt að við skoðum þær allar. Mikilvægast er að átta sig á umfanginu, hvernig staðan er og hvaða verkefni þarf að vinna. Svo held ég að í framhaldinu þurfi að skipa þannig til verka að tryggt sé að málin séu skoðuð til hlítar og öll rannsökuð eins og lög gera ráð fyrir.

Ég vil líka nota þetta tækifæri, eins og ég hef gert áður, til að hvetja þá aðila sem hafa ekki skilað sínu til samfélagsins til að gera hreint fyrir sínum dyrum. Ég tel það mjög mikilvægt tækifæri og ég held að það sé mikið ákall um það í samfélaginu að allir greiði (Forseti hringir.) til samfélagsins sem sanngjarnt er.