145. löggjafarþing — 122. fundur
 31. maí 2016.
Félagsmálaskóli alþýðu.

[14:03]
Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Með lögum frá árinu 1989 var Félagsmálaskóli alþýðu stofnaður. Hann er starfræktur af Alþýðusambandi Íslands, BSRB og Menningar- og fræðslusambandi alþýðu. Þeir síðastnefndu fara með rekstur á málefnum skólans. Hlutverk hans er að auka þekkingu talsmanna stéttarfélaga og efla þá í starfi til þess að þeir séu betur í stakk búnir til að vinna að bættum lífskjörum launafólks. Nú hefur mjög færst í aukana á undanförnum árum alls konar símenntun og endurmenntun og það er allt til hins góða. Svo virðist í töflu sem ég er með hérna fyrir framan mig að fjárveitingar til þessa skóla hafi lækkað með árunum. Það vekur athygli mína að í gær var útbýtt í þinginu frumvarpi til laga, flutningsmenn eru hv. þingmenn Guðlaugur Þór Þórðarson og Vigdís Hauksdóttir, um að fella niður þennan skóla. Þetta gerist á sama tíma og verið er að loka fyrir nemendur 25 ára og eldri inn í framhaldsskóla. Þá geta menn ímyndað sér að þeir sem ekki komast lengur þangað og eiga ekki peninga til að fara í einkarekna skóla vildu gjarnan sækja námskeið eða fræðslu einmitt í gegnum stéttarfélög sín. Mig langar að spyrja hæstv. félagsmálaráðherra: Hvernig líst henni á þá tillögu flokkssystur sinnar og hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar að lög um Félagsmálaskóla alþýðu, nr. 60/1989, falli brott?



[14:06]
félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrirspurnina. Ég er ekki sammála því að rétt sé að loka Félagsmálaskóla alþýðu. Við höfum einmitt lagt aukna fjármuni í ýmiss konar samstarf sem snýr að aðilum vinnumarkaðarins. Við höfum m.a. kostað undirbúning að miklum fundum sem snúa að SALEK-samkomulaginu og sett ákveðna fjármuni í innleiðingu á vinnumarkaðsstefnunni. Ég hef lagt mikla áherslu á það í samtölum við aðila vinnumarkaðarins að þegar við gerum breytingar skuli gera þær í góðu samtali og samráði við þá. Það hefur ekki alltaf gengið eftir, ekki heldur í ráðherratíð minni. Ég held hins vegar að ef á að gera þessar breytingar þurfi að gera þær í samráði við viðkomandi.



[14:07]
Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Það gleður mig að heyra svar hæstv. ráðherrans um að hún sé andvíg þessari tillögu. Hún orðar það svo að ef gera á slíkar breytingar eigi að gera þær í samvinnu við aðila vinnumarkaðarins eða stéttarfélögin. Mér þætti vænt um ef hún staðfesti að þetta komi ekki til greina af hennar hálfu og að hún vilji frekar auka stuðning við það kerfi sem er í gangi, ekki síst í ljósi þess að hæstv. menntamálaráðherrann þrengir að skólagöngu eldra fólks sem gæti haft áhuga á að nota slík tækifæri.



[14:08]
félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður óskar eftir að ég sé skýrari. Ég hef verið ráðherra í þrjú ár. Ég hef ekki lagt til að gera breytingar á Félagsmálaskóla alþýðu á þeim tíma. Ég hef ekki lagt fram frumvarp um að fella þau lög úr gildi. Við undirbúning fjárlagagerðar gerum við ráð fyrir að þessir fjármunir fari áfram þangað. Ég er hins vegar með eitt atkvæði af 63. Ég ítreka að við höfum lagt mjög mikla áherslu á að bæta samtalið við aðila vinnumarkaðarins. Það leiddi til þess að við gátum gert kjarasamninga til fjögurra ára í vor sem er undirstaða fyrir annan stöðugleika í efnahagslífinu. Þar var m.a. samið um að setja aukna fjármuni á vegum menntamálaráðherra í starfsmenntun. Ég ítreka það sem ég sagði að ég tel að breytingar sem við gerum hvað þetta varðar þurfi að vera í samráði við aðila vinnumarkaðarins.