145. löggjafarþing — 135. fundur
 18. ágúst 2016.
ákall um uppbyggingu heilbrigðisþjónustu.

[10:33]
Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Ákall um 86 þúsund Íslendinga um að heilbrigðiskerfið verði endurreist og að 11% af vergri landsframleiðslu verði varið til heilbrigðisþjónustu er einstakt. Stjórnmálamenn verða að svara því hvernig skuli ná því markmiði og forgangsraða. Hæstv. heilbrigðisráðherra þekkir það jafn vel og ég að mikil þörf er fyrir uppbyggingu í heilbrigðisþjónustunni um allt land. Slæm staða t.d. á Landspítalanum er með þeim hætti að ástæða er til að hafa áhyggjur af öryggi sjúklinga ef ekki verður bætt úr á næstu árum. Í því ljósi má benda á að ef krafa fólksins gengi eftir um 11% af vergri landsframleiðslu til heilbrigðismála fengi Landspítalinn um 18 milljarða aukningu á ári. Það er gott langtímamarkmið en ekki raunhæft að gera ráð fyrir slíkri hækkun í einu skrefi, en þangað ætti Ísland að stefna.

Þegar fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar var lögð fram 29. apríl sl. var krafa þjóðarinnar um uppbyggingu í heilbrigðisþjónustu öllum orðin ljós. Almenningur hefur fengið nóg og krefst þess að neikvæðri þróun verði snúið við. Áætlun ríkisstjórnarinnar í heilbrigðismálum til næstu fimm ára tekur ekki tillit til þessarar kröfu almennings.

Því spyr ég hæstv. heilbrigðisráðherra: Var tekin ákvörðun um það í ríkisstjórninni að hlusta ekki á þessa kröfu fólksins?



[10:34]
heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Það er mjög einkennilegt að hlusta á hv. þingmann ræða um það að fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar taki ekki tillit til þeirrar kröfu sem uppi er um aukin framlög til heilbrigðisþjónustunnar þegar höfð er í huga sú áhersla sem á þennan málaflokk er lögð í fjármálaáætluninni til ársins 2021. Ég minnist þess ágætlega þegar ég ræddi þetta mál og kynnti málaflokkinn heilbrigðisþjónustu við fjárlaganefnd á sínum tíma þegar fjármálaáætlunin var þar til umræðu, hvaða áherslur þar væru lagðar. Ef við horfum bara á sjúkrahúsþjónustuna, þar eru útgjöldin að vaxa frá árinu 2016 til 2021 úr tæpum 75 milljörðum upp í rúma 90 milljarða kr. Og menn tala um að ekki sé verið að mæta óskum um aukin framlög í sjúkrahúsþjónustuna. Ég kalla þetta vöxt, það getur vel verið að hv. þingmaður hafi allt annan skilning á þessu.

Með sama hætti er gert ráð fyrir í fjármálaáætluninni að raunvöxtur í heilbrigðisþjónustu utan sjúkrahúsa sé 12% á áætlunartímabilinu. Með sama hætti og ég gerði fjárlaganefnd grein fyrir er ráðgert að á áætlunartímabilinu verði byggt yfir fimm ný hjúkrunarheimili. Ég kalla þetta að bæta í þjónustuna. Ég skal vera fyrstur manna til að taka undir með hv. þingmanni að það má vel gera betur á þessu sviði eins og mörgum öðrum, en það er langur vegur frá að ætla að það sé einhver sérstakur vilji hjá stjórnvöldum í þessu landi að hunsa þá miklu áherslu sem almenningur í landinu hefur á þennan málaflokk. Þvert á móti vil ég minna hv. þingmann á að frá fjárlögunum sem hv. þingmaður gekk frá árið 2013 hafa útgjöld til þessa málaflokks verið aukin um hátt í 40 milljarða kr. (Forseti hringir.) Einhverjir hefðu kallað það pening.



[10:37]
Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Staðreyndin er samt sú að til þess að halda í horfinu með sömu þjónustu og viðhaldi á húsnæði þyrfti Landspítalinn 5,3 milljarða til viðbótar á næsta ári. Fjármálaáætlunin gerir eingöngu ráð fyrir 2,3 milljörðum kr., bæði til Landspítalans og Sjúkrahússins á Akureyri, akkúrat þegar þörf Landspítalans er 5,3 milljarðar kr. Ef áætlun ríkisstjórnarinnar verður að veruleika er ljóst að þjónusta Landspítalans og Sjúkrahússins á Akureyri mun dragast saman, en mér heyrist hæstv. heilbrigðisráðherra ánægður með stefnuna og því spyr ég hann: Viðurkennir hæstv. heilbrigðisráðherra ekki að ef fjárframlögin eru látin standa til spítalaþjónustu í landinu fyrir árið 2017 og næstu fimm ára muni (Forseti hringir.) þjónusta sjúkrahúsanna dragast saman?



[10:38]
heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Það er með ólíkindum að hlýða á hv. þingmann, fyrrverandi fjármálaráðherra, tala um fjármálaáætlunina sem hér er lögð fram til fimm ára, sem er tímamótaplagg, eins og hún sé tillaga að fjárlagafrumvarpi ársins fyrir næsta ár. Hún er ekki tillaga að fjárlagafrumvarpi. Það er alveg viðurkennt og það á hv. þingmaður að gera sér grein fyrir sem fjárlaganefndarmaður að mikið svigrúm er í fjármálaáætluninni til að mæta einstökum útgjöldum. Og að ræða það í þessu samhengi að 5,3 milljarða vöntun í Landspítalann í 190 milljarða veltu í heilbrigðismálum ráði og skipti sköpum. Það er bara ekki eðlilegt að ræða þetta út frá þeim samanburði. Ég fullyrði það að samkvæmt áætlunum stjórnvalda, hvort sem það er í fjármálaáætlunin eða grunni að fjárlögum næsta árs, er ekki gert ráð fyrir því að þjónusta Landspítalans eða Sjúkrahússins á Akureyri muni dragast saman. Það er rangt af hv. þingmanni að gefa það til kynna og það er ekki sanngjarnt að ræða (Forseti hringir.) málefni heilbrigðiskerfisins með þeim hætti.