148. löggjafarþing — 33. fundur
 5. mars 2018.
sjúkraflutningar.
fsp. GBr, 237. mál. — Þskj. 333.

[17:00]
Fyrirspyrjandi (Guðjón S. Brjánsson) (Sf):

Herra forseti. Sjúkraflutningar eru mikilvægur hlekkur í heilbrigðisþjónustu landsmanna. Það er af sem áður var. Þær kröfur sem gerðar voru til áhafna sjúkrabifreiða voru að þar væru fyrst og fremst liprir ökumenn, sérstaklega á öðru hundraðinu. Nútímasjúkrabifreiðar eru í raun vel útbúin bráðasjúkrarými á hjólum, sem kallar á færni þeirra sem um véla. Sjúkraflutningamenn eru fagmenntaðir og vel þjálfaðir einstaklingar sem hafa skýrt skilgreinda verkferla um borð.

Þessi málaflokkur hefur verið talsvert til umræðu að undanförnu, skipulag þjónustunnar, hverjir eiga að annast þjónustuna og hvernig og hvar sjúkrabifreiðar eiga að vera staðsettar og fleira. Rauði kross Íslands hefur verið merkisberi sjúkraflutninga frá því að þessi þjónusta komst á legg og hefur verið þeim dýrmætt verkefni. Þeir hafa rækt það af mikilli alúð. Fyrirkomulagið er nú þannig að allar sjúkrabifreiðar í landinu eru eign Rauða kross Íslands, en umsýsla er að öðru leyti á vegum heilbrigðisþjónustunnar, heilsugæslustöðva víðast hvar úti um landið.

Ég hef því óskað eftir því við hæstv. ráðherra að hún svari nokkrum spurningum varðandi þessa mikilvægu þjónustu.

Fyrsta spurningin er þessi: Hyggst ráðherra ganga til samninga við Rauða kross Íslands sem hefur verið samningslaus um þennan rekstur í tvö og hálft ár, eða eru menn að velta fyrir sér einhverri annarri leið og þá hvaða leið? Mér skilst að enn sé verið að þæfa málið og það sé ekki afgreitt.

Í öðru lagi: Hafi ráðherra í hyggju að semja við RKÍ, til hve langs tíma verður samið?

Í þriðja lagi: Munu nýir samningar fela í sér áherslubreytingar, svo sem fjölgun eða fækkun sjúkrabifreiða, og breytingar á staðsetningu þeirra á landsbyggðinni?

Það málefni var töluvert á dagskrá heilbrigðisyfirvalda fyrir allnokkrum misserum. Þá átti að fækka sjúkrabifreiðum talsvert um landið.

Í fjórða lagi: Hvernig horfir skipulag sjúkraflutninga til langs tíma við ráðherra?

Geta má síðustu umræðu um aðkomu björgunarsveita og fyrstu viðbragðsaðila á landsbyggðinni, sem er raunhæft í nokkrum tilvikum.

Og að síðustu: Hafa allir þættir þessarar þjónustu verið metnir, þeir sem lúta að gæðum þjónustunnar og kostnaði við rekstur, viðhald og þróun?



[17:03]
heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurningarnar sem lúta að sjúkraflutningamálum. Ég held að þessi málaflokkur sé tilefni í sérstaka umræðu. Þó að það sé kannski ekki alveg eftir bókinni að ég óski eftir sérstakri umræðu við hv. þingmann þá væri kannski gott að við ættum slíkt samtal.

Hv. þingmaður spyr fyrst um það hvort til standi að ganga til samninga við Rauða kross Íslands, sem hefur verið samningslaus eins og kemur fram í fyrirspurn hv. þingmanns. Því er til að svara að að undanförnu hefur verið unnið að því að koma á samningi við Rauða krossinn á Íslandi um útvegun og rekstur bifreiða og tækjabúnaðar til sjúkraflutninga. Miklu máli skiptir að sú vinna klárist eins hratt og mögulegt er. Það er mín von að sú vinna fari fram í góðu samráði við Rauða krossinn.

Í öðru lagi spyr hv. þingmaður um það hvort sú sem hér stendur hafi í hyggju að semja við Rauða kross Íslands og þá til hve langs tíma verði samið. Því er til að svara að stefnt er að þriggja ára samningi við Rauða krossinn og vonast ég til þess að sátt náist fljótlega um gerð slíks samnings. Að þeim tíma loknum mun ráðuneytið taka við verkefninu. Ég tel nauðsynlegt að færa verkefnið til ráðuneytisins svo að við höfum óbundnar hendur við að móta framkvæmd sjúkraflutninga til framtíðar í samræmi við stefnumörkun sem sett hefur verið fram, auk þess sem það er mín eindregna afstaða, og ég held að við séum öll sammála um það, að öflugir sjúkraflutningar eru hluti af heilbrigðiskerfinu.

Í þriðja lagi spyr hv. þingmaður hvort nýir samningar muni fela í sér áherslubreytingar, svo sem fjölgun eða fækkun sjúkrabifreiða og breytingar á staðsetningu þeirra á landsbyggðinni. Mitt svar er það að við samningsgerð hefur verið lögð áhersla á að styrkja sjúkrabílaflotann eins og kostur er. Við ákvarðanir um kaup sjúkrabíla og búnaðar í nýjum samningi er meðal annars byggt á ráðgjöf frá fagráði í sjúkraflutningum og sjónarmiðum sjúkraflutningaaðila. Í kröfulýsingu við samningsdrög, sem nú liggja fyrir, er miðað við að fjölga sjúkrabílum umtalsvert og að auka hlutfall stórra bíla, en sjúkraflutningsaðilar lögðu mikla áherslu á að auka hlut stórra bíla. Þá er stefnt að því að keyptur verði í tilraunaskyni sjúkrabíll með svokölluðum yfirbyggðum kassa sem er stærri sjúkrabíll sem er útbúinn til að sinna flóknari sjúkratilfellum en almennir sjúkrabílar, en sjúkraflutningsaðilar á höfuðborgarsvæðinu lögðu áherslu á að bæta slíkum bíl í flotann. Einnig er stefnt að eflingu tækjabúnaðar í bílunum til að auka öryggi sjúklinga og auðvelda störf sjúkraflutningamanna. Varðandi staðsetningu bíla skal tekið fram að kröfulýsing tiltekur fjölda bíla á hverju landsvæði en ekki staðsetningu bíla að öðru leyti. Af því leiðir að mögulegt er að færa bíla til innan svæða eins og best er talið þjóna þörfum hvers svæðis á hverjum tíma.

Hv. þingmaður spyr einnig um það hvernig skipulag sjúkraflutninga horfi til langs tíma við þeirri sem hér stendur. Því er til að svara að að því er stefnt að hefja sem fyrst vinnu við að móta heildstæða stefnu í sjúkraflutningum til framtíðar, en yfir stendur sérstök stefnumótun hvað varðar sjúkraflugið. Sjúkraflutningar eru ein af meginstoðum heilbrigðiskerfisins og oft fyrsti snertipunktur við það. Stefnt er að því að komið verði á sjúkraflutningum sem tryggi öllum landsmönnum tímanlegt viðbragð á vettvangi, veitt af vel þjálfuðum fagaðilum og aðgengi að bestu heilbrigðisþjónustu innan skilgreindra tímamarka.

Nú þegar er fyrirkomulag sjúkraflugs í skoðun innan ráðuneytisins eins og fram hefur komið. Þegar niðurstaða liggur fyrir hvað sjúkraflugið varðar verður ráðist í vinnu við stefnumótun vegna sjúkraflutninga almennt. Það er hægt að gleðja þingheim með því að starfshópur um sjúkraflug mun skila niðurstöðum um miðjan mars, þannig að það er alveg á næstu dögum.

Loks spyr hv. þingmaður hvort allir þættir þessarar þjónustu hafi verið metnir, bæði þeir sem lúta að gæðum þjónustunnar og kostnaði við rekstur, viðhald og þróun. Við þessari spurningu er svarið það að ekki hefur farið fram formlegt mat á þáttum sem spurt er um vegna samnings við Rauða krossinn, um útvegun og rekstur sjúkrabíla, en við samningsgerð um kaup á sjúkrabílum og búnaði er leitast við að tryggja gæði og gott verð eins og kostur er. Bílarnir eru til að mynda alltaf keyptir á grundvelli útboða og í samræmi við alþjóðlega staðla.

Virðulegur forseti. Ég vona að mér hafi lánast að svara spurningum hv. þingmanns um þennan málaflokk. Hann fylgir væntanlega einhverjum af spurningum eftir hér í seinni spurningu.



[17:08]
Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Ég vil einnig þakka fyrir þessa mikilvægu umræðu. Ég vil bara segja í upphafi að svör hæstv. ráðherra blása manni smá von í brjóst um að þessi málaflokkur sé að fá aukna athygli innan heilbrigðiskerfisins. En mikilvægi þessa málaflokks sem utanspítalaþjónusta eða sjúkraflutningar eru eykst dag frá degi. Sú þróun á sér stað að læknar og heilbrigðisstarfsfólk verður alltaf sérhæfðara og sérhæfðara og þjappar sér saman á færri staði og það verður erfiðara að manna landsbyggðina á sama tíma og þeir sem sinna utanspítalaþjónustunni verða alltaf færari og færari með betri tæki og geta sinnt sínu starfi miklu betur.

Ég tek undir að það er mikilvægt að horfa á þessa þjónustu heildstætt og gera um þetta áætlun og hafa sjúkraflugið, sjúkraþyrlur og sjúkrabíla allt saman undir og skoða hvernig þetta spilar sem best saman. Það þarf líka að tryggja menntun í þessum málaflokki og skoða hvernig hægt er að tengja við fjarheilbrigðisþjónustu og gera þetta á sem hagkvæmastan hátt fyrir alla.



[17:09]
Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka málshefjanda kærlega fyrir að vekja máls á þessu mikilvæga máli. Ég tek undir með hæstv. ráðherra að hér er efni í sérstaka umræðu og hana jafnvel tvöfalda eða þrefalda.

Ég tek undir með hv. þm. Vilhjálmi Árnasyni að yfirferð hæstv. ráðherra vekur mér von í brjóst að hér sé verið að veita þessum málaflokki aukna athygli og jafnvel komi þar inn aukning eða styrking. Við þekkjum það víða úti um land að dregið hefur verið úr þjónustu við íbúana og í mínu kjördæmi, sem er Norðausturkjördæmi, vil ég nefna sérstaklega Ólafsfjörð. Þar er búið að taka sjúkrabílinn af staðnum, fólk upplifir minna öryggi og skerta þjónustu og það er alls ekki gott þegar sú staða kemur upp. Þetta er raunin á fleiri stöðum þar sem er farið að tala um að draga úr þessari þjónustu, þannig að ég kalla eftir því að fá að vita hvernig staðan í þeim málum er.



[17:10]
Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Hér ræðum við sjúkraflutninga sem eru mikilvægur liður í heilbrigðisþjónustunni. Ég tek heils hugar undir það sem fram hefur komið í umræðunni um að mikilvægt sé að horfa á heilbrigðisþjónustuna sem heild og gera heildstæða áætlun um sjúkraflutninga í ljósi skipulags heilbrigðisþjónustu.

Mig langar líka að leggja áherslu á að þegar er tekin ákvörðun um fjölgun eða fækkun sjúkrabíla og sjúkraflutningafólks þar með, að einnig sé horft á áhrifin á aðra þætti, eins og almannavarnir, áhrif á slökkvilið, þegar menntaðir sjúkraflutningamenn hverfa út úr samfélögum, og áhrif á aðrar viðbragðsáætlanir sem kann að vera unnið eftir í fyrstu viðbrögðum (Forseti hringir.) við slysum eða náttúruvá.



[17:12]
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Það er að mörgu að hyggja þegar við fjöllum um sjúkraflutninga og sjúkrabíla. Sú fyrirspurn sem hér er undir er auðvitað töluvert umfangsmikil og snýr að þessum mikilvægu málum.

Við höfum auðvitað rætt við ráðherra um stöðuna í Ólafsfirði, í Fjallabyggð, og höfum lýst óánægju okkar með niðurstöðu Heilbrigðisstofnunar Norðurlands í því máli. Það hefur verið afskaplega illa að því staðið af hálfu heilbrigðisstofnunarinnar. Núna loksins eftir mikinn eftirgang og eftirrekstur á að halda fund að mér skilst, opinn íbúafund, vegna málsins sem verður nú að segjast eins og er að er frekar seint í rassinn gripið. Fólk upplifir það auðvitað að það hafi ekki áhrif á ákvarðanatökur þegar slíkt er viðhaft.

Mér fannst svörin óljós sem fram hafa komið varðandi ýmislegt í því máli, það á sérstaklega við um viðbragðsáætlun vegna ganga, mér fannst það ekki vera alveg á hreinu. Ég vona svo sannarlega að það verði fulltrúi frá ráðuneytinu á þessum fundi sem geti þá svarað spurningum heimamanna sem heilbrigðisstofnunin hefur ekki svör við.



[17:13]
Fyrirspyrjandi (Guðjón S. Brjánsson) (Sf):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin sem voru giska skýr. Ráðuneytið ætlar að taka þessa þjónustu til sín eftir þrjú ár án þess að hafa gert á því úttekt hvort það sé hagkvæmara, hvort þjónustan verði betri, skýrari eða greinarbetri, með því laginu. Það verður ekki öðruvísi skilið en svo að óánægja sé með þjónustu Rauða krossins í gegnum 60 ára tímabil. Eða hvað?

Því miður er hætta á því að út um land verði þessi áframhaldandi grisjun til þess að enn erfiðara verði að manna bílana og fleiri verkefni flytjist yfir á herðar björgunarsveita. Er það stefna ráðherra að björgunarsveitirnar muni annast sjúkraflutninga í ríkara mæli úti á landi? Verða þá gerðir samningar við björgunarsveitirnar til þess að annast þann þátt? Þetta er ekkert lítið mál því að Rauði krossinn á allan þennan bílaflota. Í þeim bílaflota eru mikil verðmæti fólgin; hann kostar vel á annan milljarð króna eins og staðan er núna. Það veldur vonbrigðum að ekki skuli liggja fyrir hagkvæmnisúttekt á því áður en það skref er stigið að færa þetta yfir til ráðuneytisins.



[17:15]
heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmönnum sem tekið hafa þátt í þessari umræðu. Ég vil byrja á því að svara hv. fyrirspyrjanda, Guðjóni Brjánssyni varðandi vangaveltur hans hér í lokin.

Það er nokkuð háðskur undirtónn hjá honum, að hér hafi verið tekin ákvörðun um að færa þjónustuna til ráðuneytisins án þess að nokkuð lægi fyrir, nokkur stefnumörkun, hagkvæmnisrök eða neitt því um líkt.

Ég vil biðja hv. þingmann um að sýna sanngirni í þeim efnum að ekki liggi slík úttekt fyrir á þeim vikum sem liðnar eru frá því að sú sem hér stendur tók við embætti. Ég vil minna hann á að uppleggið í spurningu hans er að benda á hið augljósa, að staðan var sú að það voru engir samningar í gangi í þessu máli, þ.e. Rauði krossinn bjó við það að engir samningar voru í stöðunni.

Ég taldi það liggja algjörlega fyrir að rétt væri að ganga hið fyrsta til samninga við Rauða krossinn og nýta svo þessi þrjú ár til þess að greina verkefnið með skýrum hætti. Að það lægi fyrir, bæði gagnvart heilbrigðisþjónustunni og Rauða krossinum, hver væru markmið stjórnvalda í þessu máli.

Ég hefði haldið að öllu jöfnu að við, ég og hv. þingmaður, værum sammála um að sjúkraflutningar ættu að vera partur af hinu opinbera heilbrigðiskerfi. Það kemur mér á óvart ef svo er ekki.

Hér benda hv. þingmenn á þá þætti sem lúta að einstökum ákvörðunum úti um land, þá sérstaklega á norðaustursvæðinu. Ég vil taka undir þær áhyggjur að það er mikilvægt að öryggi sé ekki fyrir borð borið og að heimamenn upplifi að það séu bæði fjárhagsleg og fagleg rök sem liggi að baki sérhverri ákvörðun.

Einnig vil ég taka undir sjónarmið sem fram komu hjá hv. þm. Vilhjálmi Árnasyni um mikilvægi þess að tvinna saman utanspítalaþjónustuna og fjarheilbrigðisþjónustuna með það að markmiði að tryggja bættan aðgang (Forseti hringir.) almennings að heilbrigðiskerfinu óháð búsetu.