135. löggjafarþing — 78. fundur
 12. mars 2008.
embætti umboðsmanns aldraðra.
fsp. BJJ, 396. mál. — Þskj. 640.

[14:24]
Fyrirspyrjandi (Birkir Jón Jónsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég beini fyrirspurn til hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra um það hvort ráðherrann hyggist beita sér fyrir stofnun embættis umboðsmanns aldraðra. Ef svo er, hvenær má búast við að af því verði?

Fyrirspurn mín er tilkomin út af því að í aðdraganda síðustu kosninga voru málefni aldraðra mjög til umræðu hjá íslenskum stjórnmálaflokkum enda voru menn almennt sammála um að þar mætti bæta verulega úr í ýmsum mikilvægum málaflokkum. Samfylkingin setti það á oddinn í kosningabaráttu sinni að stofnað yrði embætti umboðsmanns aldraðra og fleiri frambjóðendur annarra flokka mæltu einnig svo fyrir um. Sá málflutningur hlaut mikinn stuðning sérstaklega úr röðum eldri borgara. Núna þegar málaflokkur aldraðra er í raun kominn yfir til Samfylkingarinnar og hæstv. ráðherra Jóhönnu Sigurðardóttur, fannst mér vert að spyrja hæstv. ráðherra út í það hvenær eða hvort hún hyggist beita sér fyrir stofnun þessa embættis, því að að mínu mati væri rétt að feta þá braut að aldraðir hefðu umboðsmann eða talsmann í samfélaginu. Til er talsmaður neytenda og talsmaður barna og ég tel að aldraðir þurfi opinberan talsmann sem fylgist með málefnalegum hætti með réttindum og kjörum þeirra, því að eins og ég sagði áðan er það endalaust úrlausnarefni stjórnmálanna að bæta kjör og kannski ekki síst réttindi þessa þjóðfélagshóps. Við getum til að mynda horft til húsnæðismála þessa hóps, til lífeyrismála og tryggingamála og svo mætti áfram nefna.

Spurningin er stutt og laggóð: Hyggst hæstv. ráðherra beita sér fyrir því á næstunni að embætti umboðsmanns aldraðra verði stofnað í íslenskri stjórnsýslu?



[14:26]
félags- og tryggingamálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að taka þetta mál upp. Ég tel að málefni aldraðra og lífeyrisþega almennt sé einn mikilvægasti málaflokkur sem stjórnvöld hafa til umfjöllunar og aldrei sé of oft fjallað um þetta mál í sölum þingsins.

Ég er þeirrar skoðunar að upplýsingagjöf sé eitt af því sem bæta þarf verulega að því er varðar málefni aldraðra, bæði hvað varðar þjónustu við lífeyrisþega og aldraða almennt hvernig sem aðstæður þeirra kunna að vera. Ég hef hug að á efla upplýsingaþjónustu við aldraða og mun m.a. annars óska eftir samvinnu við hagsmunasamtök eldri borgara í því efni en ég tel að við eigum að skoða allar hugsanlegar leiðir í því sambandi.

Ég geri mér grein fyrir að það hefur verið nokkuð umdeilt, bæði meðal stjórnmálaflokka sem eiga fulltrúa á Alþingi og annarra, hvort setja eigi á fót embætti um afmarkaða málaflokka eða styrkja embætti umboðsmanns Alþingis enn frekar. Meðal annars hefur verið rætt um embætti umboðsmanns sjúklinga, umboðsmanns aldraðra, auk umboðsmanns barna sem nú er komin ágætisreynsla á.

Umboðsmannsembætti um heim allan eru nokkuð mismunandi enda þótt flest þeirra séu byggð á sama grunni. Ég hef kynnt mér þróun þessara embætta í öðrum löndum og tel m.a. athyglisvert embætti umboðsmanns gagnvart jafnréttismálum og hvers kyns mismunun sem sett hefur verið á fót í Noregi. Það embætti er að vissu leyti hliðstætt Jafnréttisstofu hér á landi en þó með víðtækari skírskotun. Í Svíþjóð hefur jafnframt verið sett á fót sérstakt embætti umboðsmanns gegn mismunun, svo sem gagnvart innflytjendum, og þar er umboðsmaður jafnréttismála og umboðsmaður neytenda. Í mörgum öðrum löndum, svo sem í Bretlandi, eru fjölmargar skrifstofur umboðsmanna gagnvart mismunandi sviðum, svo sem sveitarfélögum, samgöngumálum, neytendamálum, lífeyrismálum og fleiri sviðum.

Varðandi spurningu hv. þingmanns þá vil ég halda því til haga að ég stóð að því með samflokksmönnum mínum í Samfylkingunni að setja það fram sem eina af fjölmörgum tillögum í stefnumörkun í þágu aldraðra að stofnað yrði embætti umboðsmanns aldraðra. En stofnun umboðsmanns aldraðra er ekki í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar og því þarf að ræða það á milli stjórnarflokkanna ef stofna á embætti umboðsmanns aldraðra.

Ég tel líka mikilvægt að við förum heildstætt yfir þessi mál hér á landi og hvernig þeim sé best fyrir komið í stjórnskipulagi okkar og samfélagi. Við eigum að tryggja að staðinn sé vörður um jafnræði ólíkra þjóðfélagshópa og skoða af fullri alvöru hvort stofnun umboðsmanns aldraðra stuðli að því og að því mun ég huga. Ég tel eðlilegt að farið verði yfir reynslu annarra þjóða af embættum sem fjalla um afmörkuð svið eins og t.d. um lífeyrismál. Þau mál eru afar flókin og umfangsmikil og við verðum að tryggja að kerfið sé skiljanlegt og aðgengilegt og byggt á jafnræðissjónarmiðum.



[14:30]
Ásta Möller (S):

Virðulegi forseti. Ég verð að viðurkenna að ég hef verið á báðum áttum í gegnum tíðina varðandi hugmyndir um stofnun umboðsmanns aldraðra og í mínum huga er stofnun embættis tiltekinna hópa einungis réttlætanleg þegar um er að ræða hópa sem ekki hafa möguleika á að verja hagsmuni sína sjálfir.

Eldri borgarar mynda sterkan hagsmunahóp. Þeir eru undir merkjum frjálsra félagasamtaka og þau hafa reynst fullfær um að koma sjónarmiðum sínum og hagsmunum á framfæri og berjast fyrir sameiginlegum hagsmunum síns hóps. Þeir hafa jafnvel fengið stuðning frá stjórnvöldum í einhverjum mæli til að halda uppi starfsemi sinni. Ég tel mikilvægt að styðja við bak slíkra félagasamtaka að veita einstaklingsbundna aðstoð, upplýsingagjöf og ráðgjöf. Jafnvel að finna málum farveg til umboðsmanns Alþingis þegar málin varða samskipti við stjórnvöld eða reka mál gagnvart dómstólum er varða rétt manna sem geta verið fordæmisgefandi fyrir fleiri. Mín reynsla er sú að ég tel það vera mun farsælli leið að styðja við bak frjálsra félagasamtaka (Forseti hringir.) til þess að vinna að hagsmunamálum eldri borgara heldur en að stofna embætti umboðsmanns aldraðra.



[14:31]
Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Mig langar að bæta inn í þessa umræðu. Að mínu mati eiga öll sömu rökin og hv. þm Birkir Jón Jónsson nefndi fyrir stofnun embættis umboðsmanns aldraðra, líka við um öryrkja. Ég tek undir það með hæstv. ráðherra að nauðsynlegt sé að taka heildstætt á þessum málum. Þess vegna held ég að það sé nauðsynlegt að stofna embætti umboðsmanns aldraðra en þá eigum við að taka víðar á þessum málaflokki og hafa alla lífeyrisþega þar inni. Við þurfum að bæta öryrkjum þar við því að þeir þurfa ekki síður á umboðsmanni að halda.



[14:32]
Ellert B. Schram (Sf):

Herra forseti. Ég vil aðeins taka þátt í þessari umræðu af því að málið er mér skylt. Ég hef verið stuðningsmaður þess — var það í kosningabaráttunni í fyrra — um að stofnað yrði sérstakt embætti umboðsmanns eldri borgara. Ég hef verið að veikjast í þeirri skoðun minni og tek að mörgu leyti undir það sem komið hefur fram hjá hv. þm. Ástu Möller og hæstv. ráðherra og jafnframt undir það sem kom fram hjá síðasta ræðumanni. Vitnað er til þess að það er verið að gera kröfu um að stofna til embættis umboðsmanns fyrir eldri borgara, fyrir öryrkja, fyrir konur o.s.frv. og við höfum umboðsmann Alþingis. Ég held að þessi mál eigi vel heima þar — fyrir utan náttúrlega sterk hagsmunasamtök viðkomandi flokka og fólks úti í þjóðfélaginu.

Að síðustu vil ég taka fram að ég tel þessum málum vera vel borgið því að við erum nú þegar komin með umboðsmann aldraðra í stól félagsmálaráðherra.



[14:33]
Fyrirspyrjandi (Birkir Jón Jónsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra veitt svör sem og þeim hv. þingmönnum sem tóku þátt í þessari umræðu. Það virðist vera orðin þó nokkur stefnubreyting hjá Samfylkingunni í málefnum þegar kemur að umboðsmanni aldraðra því að þetta var eitt af höfuðstefnumálum flokksins í stefnumálum síðustu kosninga og alger breyting sem hefur átt sér stað á einungis níu mánuðum. Eins og heyra mátti á málflutningi hv. þm. Ástu Möller er greinilega takmarkaður áhugi innan Sjálfstæðisflokksins á því að stofna þetta embætti.

Ég tek undir með þeim þingmönnum sem segja: Við skulum setja þessi mál í samhengi. Ég ætla að benda á að undir forustu okkar framsóknarmanna var stofnað embætti umboðsmanns neytenda. Sá umboðsmaður hefur unnið mjög gott starf. Hann hefur komið með mjög margar og þarfar ábendingar handa stjórnvöldum um úrbætur er snerta neytendamál. Eru þá hv. þingmenn að tala um að leggja eigi niður starf umboðsmanns neytenda ef menn ætla að fylgja þessu prinsippi almennt eftir? Nú er það svo að neytendur, rétt eins og eldri borgarar, hafa sín samtök og sína talsmenn sem eru Neytendasamtökin sem eru mjög öflug samtök. Ég lýsi því yfir miklum vonbrigðum með það að mér heyrist að það verði því miður ekkert af því sem ákveðnir stjórnmálaflokkar lofuðu í aðdraganda síðustu kosninga, að embætti umboðsmanns aldraðra verði sett á fót. Ég vil benda á það að í nýlegu frumvarpi sem við höfum haft með höndum í félags- og tryggingamálanefnd þingsins er verið að bæta hag aldraðra um 3,4 milljarða sem er hið besta mál. Það er verið að bæta kjör margra hópa. Einn hópur er þó útundan í því. Það er sá hópur aldraðra sem hefur engar lífeyristekjur en heldur ekki neinn maka þannig að engar tekjur koma þaðan heldur. Það er verið að setja 3,4 milljarða í málaflokkinn en ekki tekið á kjörum þeirra (Forseti hringir.) sem hvað verst standa í þessum hópum, (Forseti hringir.) því miður. Ég er alveg viss um að embætti umboðsmanns aldraðra hefði komið með mjög kröftuga umsögn hvað varðar þennan hóp (Forseti hringir.) sem þarfnast svo sárlega kjarabóta.



[14:36]
félags- og tryggingamálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Eins og heyra má af þeim umræðum sem hér hafa farið fram þá eru skiptar skoðanir um hvort stofna eigi til embættis umboðsmanns aldraðra. Það er auðvitað ekki rétt sem hv. þingmaður sagði að hann er hér og nú búinn að fullyrða að ekkert verði af þessu. Það var ekki hægt að lesa það út úr orðum mínum hér áðan. (Gripið fram í.) Já, ég er að tala sem félags- og tryggingamálaráðherra og ég segi að ég hef ekki afskrifað eitt eða neitt í því. Ég hef talið fram þá vankanta sem á þessu geta verið og hér hefur verið nefnt að þá yrði líka kallað eftir umboðsmanni fatlaðra. Ég er sannfærð um að það getur einnig orðið þannig að ég hef sagt að það væri mikilvægt að skoða þessi mál heildstætt og það er það sem ég ætla mér að gera. Ég tel t.d. að rétt væri að skoða hvort ekki væri rétt að leita álits samstarfsnefndar um málefni aldraðra sem á að vera stjórnvöldum til ráðgjafar í þessum málum. Það má vera að ég geri það og að ég taki þetta upp við hagsmunasamtökin og ræði þetta mál áfram. Ég er sannarlega ekki búin að afskrifa það þó að það séu ákveðnar leiðir sem ég vil skoða í þessu sambandi áður en ég tek þetta mál upp í ríkisstjórn. En ég vil líka segja það, af því að hv. þingmaður fullyrðir að ekkert sé gert að því er varðar kjör þeirra verst settu, að sú fullyrðing er auðvitað alröng. Þegar er byrjað að taka á kjörum þeirra verst settu í því frumvarpi sem er til meðferðar nú á Alþingi. Það verður gert enn frekar í þeirri heildarendurskoðun sem nú fer fram á almannatryggingalöggjöfinni og vonandi sér dagsins ljós í lok þessa árs.