135. löggjafarþing — 87. fundur
 9. apríl 2008.
Ísafjarðarflugvöllur.
fsp. VS, 383. mál. — Þskj. 627.

[14:17]
Fyrirspyrjandi (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég er með fyrirspurn til hæstv. samgönguráðherra sem varðar Ísafjarðarflugvöll. Spurningin er svona, með leyfi forseta:

„Er eitthvað sem stendur í vegi fyrir því að Ísafjarðarflugvöllur fái stöðu alþjóðaflugvallar?“ [Skvaldur.]

Nú var fyrr á árum millilandaflug frá Ísafirði og þá ekki síst til Grænlands [Skvaldur.] og það er fyrst og fremst það sem liggur að baki þessari fyrirspurn. [Truflun úr hliðarsal.] Það er dálítill hávaði, hæstv. forseti, héðan úr hliðarsal. [Skvaldur.] Væri hægt að gera eitthvað í því?

Það er fyrst og fremst flugið [Skvaldur.] til Grænlands sem hér um ræðir. Ég er ekki að velta því fyrir mér hvort stórar farþegaþotur komi til með að lenda á Ísafjarðarflugvelli. Ég þekki ýmsa annmarka sem völlurinn hefur. Hins vegar er þetta mál sem mundi skipta miklu máli vegna þeirrar þjónustu sem Íslendingar og Vestfirðingar gætu veitt Grænlendingum. [Skvaldur.] En þetta er það sem hamlar. Ég geri mér líka grein fyrir því að um beinan útflutning gæti verið að ræða frá Vestfjörðum ef þetta næðist fram sem mundi skipta máli líka.

Eins og allir þekkja hefur starfsemi í kringum sjóstangaveiði fyrir vestan verið að eflast á síðustu árum. Ég hef kynnt mér það að þeir sem standa fyrir þeirri starfsemi hugsa sér þetta kannski ekki endilega sem möguleika eða sem mikilvægan þátt í starfseminni vegna þess að þeirra gestir koma frá mörgum Evrópulöndum. Annað mundi þó skipta þar máli sem ég veit að hæstv. samgönguráðherra er ekki kannski sá rétti til að svara. Það varðar tollskoðun sem væri mikilvægt að gæti farið fram fyrir vestan hjá þeim farþegum sem eru að fara úr landi. En það er mál sem varðar annan ráðherra. Ég ætlast því ekki til að hæstv. samgönguráðherra svari þessu. Ég held að það væri mjög áhugavert að heyra hvað hæstv. ráðherra hefur um þetta mál að segja og hvort hann sjái nokkra möguleika sem gætu gert Vestfirðingum auðveldara að nýta flugvöllinn.



[14:19]
samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir hefur beint til mín svohljóðandi fyrirspurn, með leyfi forseta:

„Er eitthvað sem stendur í vegi fyrir því að Ísafjarðarflugvöllur fái stöðu alþjóðaflugvallar?“

Eins og hv. þingmaður gat um í ræðu sinni má kannski segja að hún skipti því svolítið meira niður þegar hún er að flytja spurninguna fram núna heldur en í spurningunni sjálfri þannig að ég vil segja strax í byrjun varðandi þann þátt sem mest hefur verið rætt um gagnvart Ísafjarðarflugvelli, þ.e. flug Flugfélags Íslands sem hefur verið með flug á Ísafjarðarflugvöll vegna Grænlandsflugs, að þá er mér ánægja að segja frá því að búið er að gefa það leyfi út og Flugfélag Íslands veit að það getur stundað sitt flug, Grænlandsflug, til og frá Ísafjarðarflugvelli á komandi sumri eins og það hefur verið gert hingað til. En eins og hv. þingmaður gat um í ræðu sinni er það svolítið takmarkaðra vegna þess að það eru minni vélar. En við þekkjum það sem þekkjum þessar vélar Flugfélags Íslands, þetta eru sem sagt Twin Otter vélar eða 19 sæta vélar sem Flugfélagið notar. Það er ánægjulegt að segja frá þessu.

Hvað annað varðar sem kemur fram í spurningunni, sem er stærsti hlutinn, um alþjóðaflugvöll, þá er það að segja að aðstæður sem hamla því að Ísafjarðarflugvöllur verði alþjóðaflugvöllur eru fyrst og fremst tvær, annars vegar þær sem lúta að landfræðilegum aðstæðum og koma niður á öryggi og hins vegar kostnaðarlegar. Til skýringar er rétt í upphafi að gera grein fyrir því að flugvöllum á Íslandi er skipt í þrjá flokka. Í I. flokki eru stærstu áætlunarflugvellir, þar á meðal alþjóðaflugvellir, þ.e. í Keflavík, Reykjavík, á Akureyri og Egilsstöðum. Í II. flokki eru vellir sem lúta að mestu sömu reglum og í I. flokki að undanskildu því að ekki eru gerðar kröfur um öryggisstjórnunarkerfi. Í III. flokki eru skráðir lendingarstaðir, en til þeirra eru gerðar minni kröfur.

Ísafjarðarflugvöllur er í dag í III. flokki, þ.e. skráður sem lendingarstaður. Í samræmi við flugvallarreglugerð þarf að færa flugvöll upp í flokk eitt eigi hann að vera alþjóðaflugvöllur. Við það þarf að uppfylla ríkari kröfur um öryggissvæði, rekstur verður að vera umfangsmeiri meðal annars vegna aukins fjölda starfsmanna og þjálfunar þeirra og vegna gæða og öryggismála auk þess sem skírteinisgjöld verða hærri. Kröfur til flugverndar eru mun meiri á flugvöllum sem teljast alþjóðlegir flugvellir. Flugvallaryfirvöld þurfa að tryggja skimun farþega og farangurs þeirra, bæði handfarangurs og farangurs í lest. Þá þarf að tryggja aðskilnað skimaðra og óskimaða farþega, þ.e. farþega í millilandaflugi annars vegar og farþega í innanlandsflugi hins vegar. Einnig þarf að tryggja að starfsmenn með tiltæka vottun komist um öryggissvæði en aðrir ekki. Að lokum þarf að tryggja landamæravörslu og tolleftirlit. Vegna þessara atriða þarf að leggja í fjárfestingar í mannvirkjum auk þess sem fjölga þarf í starfsliði bæði á umræddum flugvelli og miðlægt hjá flugvalla- og flugleiðsögusviði Flugstoða ohf.

Vegna landslags í kringum Ísafjarðarflugvöll uppfyllir hann ekki þá staðla sem krafist er til stærðar öryggissvæða umhverfis flugbraut. Ísland er skuldbundið til að innleiða kröfur Alþjóðaflugmálastofnunar, ICAO, en samkvæmt reglugerð um flugvelli er heimilt að veita undanþágu frá þessari kröfu en þó því aðeins að til komi ráðstafanir sem tryggja fullt öryggi og slíkar ráðstafanir séu tilkynntar Alþjóðaflugmálastofnuninni ef um alþjóðlegan flugvöll er að ræða. Slíkt hefur ekki verið formlega metið en til þess þarf að gera flugfræðilegar rannsóknir sem síðan eru notaðar til að gera tillögur um fyrirkomulag. Ljóst er að í tilfelli Ísafjarðarflugvallar þyrfti í öllu falli að gera kröfu um sérstaka þjálfun flugmanna og flug um völlinn takmarkaðist eðlilega við afkastagetu loftfara. Þetta á reyndar við um innanlandsflug í flutningaflugi í dag.

Á landinu í dag eru fjórir millilandaflugvellir eins og áður sagði sem fram að þessu hafa þjónað þessum þörfum. Þess hefur verið gætt að þeir myndi eina heild, uppfylli alþjóðlegar kröfur um millilandaflug, geti þjónað sem varaflugvellir fyrir slíkt flug og geti þjónað flutningaflugi með þotum. Engu að síður er mikilvægt að hægt sé að fljúga einstök millilandaflug til og frá stöðum eins og Ísafirði en einnig Hornafirði og Vestmannaeyjum. Rétt er því að athuga hvort það verði ekki best gert með því að færa þessa flugvelli upp í flokk II og að sérstakar flugverndarráðstafanir verði viðhafðar í tengslum við hvert flug og að miðað verði áfram við þær vélar sem þegar geta athafnað sig á þessum völlum.

Flugstöðvar ohf. hafa lagt mat á stofnkostnað. Heildarkostnaður við alla þessa þrjá flugvelli yrði u.þ.b. 1 milljarður króna. Þar af yrði stofnkostnaður vegna flugverndar við Ísafjörð rúmar 40 millj. kr. miðað við fullar flugverndarráðstafanir. Miðað við takmarkaðar flugverndarráðstafanir yrði heildarstofnkostnaður á þessum stöðum um 910 millj. kr. og þar af stofnkostnaður vegna flugverndar á Ísafjarðarflugvelli 7,4 millj. kr. Árlegur rekstrarkostnaður yrði, miðað við fullar flugverndarráðstafanir, (Forseti hringir.) rúmar 48,5 millj. kr. Þar af yrði árlegur rekstrarkostnaður á Ísafirði rúmar 16 millj. kr. Miðað við takmarkaðar flugverndarráðstafanir yrði heildarrekstrarkostnaður tæpar 36 millj. kr. og árlegur rekstrarkostnaður á Ísafirði rúmar 11,9 millj. kr.



[14:25]
Fyrirspyrjandi (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég verð að segja að þetta voru það miklar upplýsingar á skömmum tíma að ég er í svolitlum erfiðleikum með að meta þetta allt saman sem kom fram hjá hæstv. ráðherra. Engu að síður er mjög mikilvægt að það skyldi koma fram og skiptir máli upp á framtíðarvinnu í þessu. Miðað við það sem kom fram fannst mér tónninn vera sá að líkur væru á að þarna yrði bætt úr að einhverju leyti þó enginn sé að tala um að fara alla leið og fara upp í það að vera þarna með sambærilegan völl við bestu velli á landinu. Við vitum að landslagið setur okkur skorður hvað það varðar.

En það var líka gott að heyra að búið er að gefa út leyfi sem varðar Flugfélag Íslands og flug þess félags til Grænlands því ég held og trúi því að það sé starfsemi sem geti haldið áfram að þróast og eigi endilega að halda áfram að þróast, geti skipt okkur máli og geti líka orðið mjög mikilvægt fyrir Grænlendinga.

Ég þakka hæstv. samgönguráðherra fyrir þessi svör og trúi því að hann muni halda áfram að beita sér í þessu máli þannig að það verði Vestfirðingum til framdráttar.



[14:26]
samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Virðulegi forseti. Það er rétt sem hv. þingmaður sagði. Svarið var stórt og ítarlegt enda spurningin mikilvæg, um millilandaflug á Ísafjarðarflugvelli. Þess vegna var þetta dálítið ítarlegt svar þó ég hafi lent í smátímakreppu með það. En ég vona að það hafi komist til skila.

Ég þakka hv. þingmanni fyrir að taka þetta mál upp og þá líka af því að ég get sagt frá því á Alþingi að þetta flug sem hér er rætt um, þ.e. Grænlandsflug Flugfélags Íslands, að búið sé að tryggja að það geti verið áfram þetta sumar alla vega eins og undanfarin sumur. Þetta höfum við tilkynnt Flugfélagi Íslands þannig að þeir hafa getað gert viðeigandi ráðstafanir hvað starfsemi þeirra varðar í sumar. Eins og við vitum sem þekkjum til aðstæðna á Ísafirði þá lagði bæjarstjórn Ísafjarðar, Fjórðungssamband Vestfirðinga og fleiri mikla áherslu á þetta og það hefur verið unnið af fullum krafti í samgönguráðuneytinu og stofnunum þess við að fá þessa undanþágu eða það sem leiddi til þessarar tilkynningar um að Flugfélag Íslands geti haldið þessu flugi áfram.

Ég ítreka það, virðulegi forseti, að ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn.