136. löggjafarþing — 14. fundur
 16. október 2008.
samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, fyrri umræða.
þáltill. ÁÓÁ o.fl., 13. mál. — Þskj. 13.

[13:57]
Flm. (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf):

Frú forseti. Ég mæli fyrir þingsályktunartillögu um lögfestingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, nr. 18 frá 2. nóvember 1992.

Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sem í daglegu tali er nefndur barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna, var samþykktur á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 20. nóvember 1989. Samningurinn öðlaðist gildi 2. september 1990 þegar 20 ríki höfðu fullgilt hann en flest ríki Sameinuðu þjóðanna eru nú aðilar að samningnum.

Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna felur í sér skuldbindandi samkomulag þjóða heims um sérstök réttindi börnum til handa óháð réttindum hinna fullorðnu. Þótt aðildarríkin að samningnum séu skuldbundin til að tryggja börnum þau réttindi sem samningurinn veitir þeim er sú skuldbinding aðeins samkvæmt þjóðarrétti. Vegna svokallaðrar tvíeðliskenningar sem lögð er til grundvallar í lagatúlkun hér á landi þarf að lögfesta alþjóðasamninga ef þeir eiga að hafa bein réttaráhrif hér á landi. Því er ekki hægt að beita barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna með beinum hætti fyrir íslenskum dómstólum eins og lög væru. Flutningsmenn telja hins vegar rétt að slíkur grundvallarsáttmáli verði lögfestur hér á landi með sama hætti og gert var með mannréttindasáttmála Evrópu. Vægi barnasáttmálans yrði þá talsvert meira hér á landi þar sem stjórnvöld og dómstólar landsins yrðu að taka mið af honum við úrlausnir mála sem varða börn og taka mið af honum sem settum lögum. Til fróðleiks má nefna að vinir okkar frá Noregi lögfestu barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna 1. október árið 2003 en sá dagur er alþjóðlegur barnadagur.

Eitt af fyrstu verkum ríkisstjórnar Samfylkingarinnar og Sjálfstæðisflokksins var að samþykkja aðgerðaáætlun til fjögurra ára til að styrkja stöðu barna og ungmenna. Þar segir m.a. að aðgerðir skuli byggjast á rétti barna eins og hann er skilgreindur í barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og að sérstakur samráðshópur skuli yfirfara tilmæli barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna varðandi framkvæmd barnasáttmálans á Íslandi. Hér er lagt til að gengið verði skrefinu lengra og ályktað um lögfestingu barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna fyrir 20. nóvember á næsta ári en þá verða einmitt 20 ár liðin frá því að sáttmálinn var samþykktur á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna.

Barnasáttmálinn felur í sér viðurkenningu á því að börn hafi sjálfstæð réttindi óháð vilja foreldra og forráðamanna. Samningurinn tryggir ekki einungis borgaraleg réttindi heldur einnig félagsleg, menningarleg og efnahagsleg réttindi. Með samningnum skuldbinda aðildarríkin sig til að tryggja börnum ákveðin lágmarksréttindi en vegna skorts á tíma við fyrri umræðu þessa máls mun ég ekki fara nánar yfir hvernig það er í sjálfum barnasáttmálanum en það kemur að sjálfsögðu fram í þingmálinu sjálfu og þar er barnasáttmálinn sömuleiðis fylgiskjal með þingsályktunartillögunni.

Fljótlega eftir undirritun barnasáttmálans af hálfu Íslands var hafist handa við að laga íslenskan rétt að ákvæðum hans og voru gerðar ýmsar réttarbætur í því sambandi. Barnasáttmálinn er hins vegar mjög víðfeðmur og stundum matskenndur. Það getur því verið álitamál hvort viðkomandi ákvæði sáttmálans sé nú þegar að finna í íslenskum lögum eða ekki og einnig getur verið munur á lögunum sjálfum og framkvæmd þeirra. Með þingsályktunartillögunni leggja flutningsmenn til að ríkisstjórn skoði hvort og þá hverju ber að breyta í gildandi löggjöf við lögfestingu sáttmálans. Þá telja flutningsmenn að við lögfestingu barnasáttmálans sé nauðsynlegt að laga texta barnasáttmálans að hefðbundnu lagaformi.

Frú forseti. Mig langar að minnast á nokkrar lagabreytingar sem hugsanlega þyrfti að gera ef við lögfestum barnasáttmálann. Þetta er ekki tæmandi upptalning af minni hálfu og fleiri hugmyndir um hugsanlegar lagabreytingar eru í sjálfu þingmálinu.

Í fyrsta lagi ber að hafa í huga 3. gr. barnasáttmálans sem tryggir að börn eru sjálfstæðir einstaklingar með eigin réttindi sem ber að virða. Í ársskýrslu umboðsmanns barna frá árinu 2002 var bent á að víða í íslensku samfélagi væru hagsmunir hinna fullorðnu teknir fram yfir hagsmuni ungu kynslóðarinnar og þótt margt hafi áunnist á liðnum árum sé enn langt í land með að tryggja sérhverju barni þann rétt sem því ber. Á það ekki síst við um framkvæmd ýmissa laga, segir umboðsmaður barna. Þá hefur m.a. verið bent á að réttindi samkvæmt 3. gr. barnasáttmálans séu hugsanlega ekki nægilega vel tryggð innan stjórnsýslu ýmissa sveitarfélaga.

Í öðru lagi lýtur 1. mgr. 7. gr. sáttmálans að réttinum til nafns, ríkisfangs og eftir því sem unnt er réttinum til að þekkja foreldra sína og njóta umönnunar þeirra. Hér þarf að hafa í huga rétt barns til að þekkja foreldra sína og hvort það eigi við um sæðisgjafa og kynforeldra ættleiddra barna en á þetta hefur umboðsmaður barna einmitt bent.

Í þriðja lagi eru í 12. og 13. gr. sáttmálans málfrelsi barna hjá stofnunum tryggt. Umboðsmaður barna hefur bent á að íslensk barnalög séu ekki að fullu leyti í samræmi við barnasáttmála hvað þetta varðar. Réttur barnsins samkvæmt barnasáttmálanum er ekki einungis bundinn við persónumálefni heldur nær hann einnig til málefna samfélagsins. Hér hafa verið nefnd dæmi um ákvarðanir sem varða skólastarf, tómstundir, forvarnastarf og jafnvel skipulag íbúðahverfa.

Hjá umboðsmanni barna var nýlega unnin skýrsla um umgengnisrétt og hvernig sjónarmið barna komast að ef úrskurðað er í slíkum málum samkvæmt barnalögum. Helstu niðurstöður skýrslunnar voru á þann veg að ræða þyrfti við börn í mun fleiri tilvikum en nú er gert hjá sýslumannsembættum. Afstaða foreldra réð því í of mörgum tilvikum hvort rætt væri við barn eða ekki.

Í fjórða lagi geta 14. gr. og 29. gr. barnasáttmálans kallað á hugsanlegar breytingar á grunnskólalögum og námskrá, t.d. hvað varðar kennslu um aðrar þjóðir, menningarheima og trú. Barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna hefur gert þetta að umtalsefni, síðast árið 2003, um stöðu nýbúabarna hér á landi.

Í fimmta lagi er einkalíf barns varið í 16. gr. barnasáttmálans. Það ákvæði getur kallað á lagabreytingar í þá áttina að friðhelgi einkalífs barns sé virt í hvívetna. Hér vakna að sjálfsögðu spurningar um sjálfsákvörðunarrétt barna. En þetta lýtur að fjölmörgum lagabálkum sem ég ætla ekki að fara yfir í þessari lotu.

Í sjötta lagi er í 37. gr. sáttmálans fjallað um barn sem svipt er frjálsræði sínu en það ákvæði krefst, að mínu mati, endurskoðunar á lögum um fangelsi en í núgildandi kerfi er hægt að vista börn með fullorðnum í fangelsum Íslands. Þegar Ísland fullgilti barnasáttmálann 1992 var gefin út sérstök yfirlýsing hvað varðar aðskilnað ungra fanga frá hinum eldri. Samkvæmt barnasáttmálanum þarf slíkur aðskilnaður að vera til staðar en við sem þjóð höfum beðist undan því.

Hinn 15. júlí 1998 kom eftirfarandi fram í Morgunblaðinu, með leyfi forseta:

„Umboðsmaður barna telur að barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna sé brotinn með því að ungir fangar sem afplána refsivist eru um þessar mundir ekki aðskildir frá eldri föngum heldur vistaðir á almennum deildum afplánunarfangelsa og njóta þar engrar sérstöðu.“

Flutningsmenn telja því að skoða eigi sérstök úrræði fyrir fanga undir 18 ára aldri og reyndar tel ég að nýta megi þau úrræði fyrir fanga allt að 24 ára aldri og hef ég reyndar lagt fram þingmál þess efnis á fyrri þingum. Í tilmælum barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna sem fylgist með framkvæmd sáttmálans í hinum ýmsu löndum er m.a. farið fram á að tekið verði upp sérstakt réttarfarskerfi í sakamálum ungmenna með alþjóðlegar viðmiðunarkröfur að leiðarljósi. Í barnaverndarlögum kemur m.a. fram að óheimilt er að beita barni innilokun, einangrun eða öðrum slíkum þvingunarráðstöfunum eða agaviðurlögum nema nauðsyn beri til og þá samkvæmt reglugerð sem ráðherra setur að fengnum tillögum Barnaverndarstofu. Enn fremur segir að óheimilt sé að hafa eftirlit með póstsendingum, tölvusamskiptum og símtölum barns nema sérstakar ástæður komi til og þá samkvæmt reglugerð sem ráðherra setur að fengnum tillögum Barnaverndarstofu. Vegna þessa ákvæðis barnaverndarlaga hefur umboðsmaður barna sagt að hann telji nauðsynlegt að í lögum sé kveðið nákvæmlega á um réttarstöðu barna við þessar aðstæður. Hann telur öldungis ófullnægjandi og að það bjóði hættunni heim að kveða á um þvingunarráðstafanir og agaviðurlög í reglugerð sem sett er af framkvæmdarvaldinu.

Umboðsmaður barna segir í ársskýrslu sinni frá árinu 2003 að hann telji að þetta sé hugsanlega brot á 67. gr. stjórnarskrárinnar þar sem segir m.a. að engan megi svipta frelsi nema samkvæmt lögum en ekki í reglugerð, eins og þetta ákvæði barnaverndarlaga kveður á um.

Í sjöunda lagi geta 19. gr. sáttmálans og 34. gr. kallað á heildarendurskoðun á þeim köflum almennra hegningarlaga sem fjalla um ofbeldi. Má þar nefna þá staðreynd að í íslenskri löggjöf er enn ekki að finna neitt lagaákvæði sem tekur á heimilisofbeldi með fullnægjandi og heildstæðu mati. Í þessu sambandi ber þó að fagna þeim réttarbótum sem hafa náðst á undanförnum þingum og vil ég sérstaklega minna á þá staðreynd að þingheimur sameinaðist í því fyrir nokkrum þingum að gera alvarleg kynferðisbrot gegn börnum ófyrnanleg og að því er ég best veit er Ísland eitt, ef ekki eina ríkið í heiminum sem hefur gert þau alvarlegu brot ófyrnanleg.

19. gr. sáttmálans kallar að mati flutningsmanna sömuleiðis á að starfsemi Barnahúss verði tryggð. Barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna telur æskilegt að þær hugmyndir sem Barnahús byggist á verði styrktar. Það er einnig hvatt til að embætti umboðsmanns barna verði tryggt enn betur og þar eru sveitarfélögin hvött til að móta opinbera fjölskyldustefnu.

Í skýrslu sinni frá 2004 benti umboðsmaður barna á nauðsyn á afdráttarlausu ákvæði í barnalögum sem banni foreldrum að beita barn sitt líkamlegu ofbeldi og hvers konar annarri vanvirðandi framkomu. Að mati umboðsmanns þarf slíkt að vera í barnalögum svo þjóðréttarlegar skuldbindingar séu uppfylltar.

Virðulegi forseti. Þó að nokkur ákvæði sáttmálans geti verið matskennd í eðli sínu er hins vegar ljóst að með lögfestingu þessara ákvæða í barnasáttmálanum munu dómstólar landsins gera ríkari kröfur um að þau réttindi barna sem þar er kveðið á um séu virt. Hér getur komið sérstaklega til skoðunar staða langveikra barna, fatlaðra barna, geðsjúkra barna, fátækra barna, barna nýbúa o.s.frv. í íslenskum lögum. Samtökin Barnaheill hafa lengi kallað eftir heildarskoðun á stöðu fátækra barna í íslensku samfélagi og í tilmælum barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna vegna skýrslu Íslands um framkvæmd barnasáttmálans frá árinu 2003, kemur m.a. fram að auka þurfi aðstoð við einstæða foreldra og við fjölskyldur fatlaðra barna á Íslandi.

Í skýrslu Barnaheilla frá árinu 2002 til barnaverndarnefndar Sameinuðu þjóðanna kom einnig fram að styrkja þyrfti meðferðarúrræði fyrir unga kynferðisafbrotamenn. Einnig þyrfti að styrkja þær stofnanir sem sjá sérstaklega um unga afbrotamenn og unga þolendur.

Í áttunda lagi lýtur 18. gr. sáttmálans m.a. að því að virða þá meginreglu að foreldrar beri sameiginlega ábyrgð á að ala upp barn og koma því til þroska. Þetta ákvæði getur kallað á ýmsar breytingar á lögum á sviði sifjaréttar. Umboðsmaður barna hefur hvatt til að hjón og sambúðarfólk með börn undir 18 ára aldri verði skyldað til að leita ráðgjafar áður en til skilnaðar eða sambúðarslita kemur. Umboðsmaður telur það umdeilt hvort börn geti leitað ráðgjafar í slíkum tilfellum án samþykkis foreldra og það sé því í andstöðu við barnasáttmálann að réttur barna til tjáningar í málum af þessu tagi ráðist af vilja foreldra.

Að lokum, virðulegi forseti, má nefna að í niðurstöðum barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna vegna skýrslu Íslands um framkvæmd sáttmálans frá árinu 2003 eru íslensk stjórnvöld hvött til að auka upplýsingagjöf um barnasáttmálann og framkvæmd hans og standa að varanlegri og kerfisbundinni fræðslu um mannréttindi handa öllum sem starfa fyrir börn og með börnum.

Hæstv. forseti. Ég legg til að málinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til síðari umr. og hv. allsherjarnefndar.



[14:10]
Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég fagna þeirri þingsályktunartillögu sem hér liggur fyrir um að samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins verði lögfestur en eins og hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson tók fram eru 20 ár liðin frá því að sá sáttmáli var samþykktur á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna.

Mér finnst við Íslendingar hafa ákveðnu hlutverki að gegna að lögfesta þennan sáttmála, ekki síst því hlutverki að vera fordæmisgefandi fyrir aðrar þjóðir. Því eins og við vitum verða börn oft illa úti í þeim ríkjum þar sem erfiðleikar steðja að og á ég sérstaklega við fátæk svæði og stríðshrjáð svæði þar sem börnum er jafnvel beitt í hernaði eða börn eru hreinlega þrælkuð og því held ég að það skipti miklu að land eins og okkar land, norrænt ríki með styrkar undirstöður, sýni hér gott fordæmi.

Það eru fjögur atriði sem mig langar að nefna sérstaklega í því samhengi. Í fyrsta lagi er í sáttmálanum kveðið á um jöfn tækifæri og jafnræði barna sem ég held að sé mjög mikilvægt fyrir samfélag sem okkar, að við veitum börnum sömu tækifæri til menntunar. Um það er kveðið á í 28. gr. sáttmálans þar sem lögð er gríðarleg áhersla á menntun. Það telst til grundvallarréttinda barna að njóta góðrar menntunar, til að þau geti komist til manns.

Annað sem mig langar að nefna sérstaklega er aðgangur barna að heilbrigðisþjónustu. Við Íslendingar höfum verið svo heppnir að geta státað af minnsta ungbarnadauða í heimi og mæðraeftirlit er til mikillar fyrirmyndar. Þetta þurfum við að horfa á og setja okkur markmið hvað varðar heilbrigðisþjónustu fyrir börn og þetta er líka rætt í sáttmálanum. Ég held að þetta sé líka grundvallaratriði í því að koma börnum til manns og setja um leið gott fordæmi.

Síðan eru þau atriði sem mér hafa verið mjög hugleikin og það er lýðræði barna, að börn hafi rétt til að tjá skoðanir sínar og taka þátt í að móta umhverfi sitt. Við Íslendingar megum kannski standa okkur betur í því að koma á nemendalýðræði innan skólakerfisins. Um það var nokkuð rætt þegar frumvörp menntamálaráðherra sem hér lágu fyrir síðasta þingi voru til umræðu, að auka mætti hlut nemendalýðræðis í skólunum. Ég held að þetta sé lykilatriði í því að tryggja hér lýðræðissamfélag, þ.e. að ala börnin upp í lýðræði. Hér var líka rætt um kennslu í mannréttindum handa þeim sem vinna með börnum og ég held að það hafi gefið mjög góða raun þar sem það hefur verið iðkað, þ.e. að fræða börn um mannréttindi og um lýðræði, kenna þeim á lýðræðissamfélagið sem við búum í og að iðka þetta lýðræði. Rannsóknir frá Norðurlöndunum, sem hafa verið mjög framarlega á þessu sviði, sýna að það er mjög góður bragur á þeim skólum þar sem nemendur taka virkan þátt í því að móta skólaumhverfið, skólasamfélagið og skólastefnuna.

Eins og getið er um í greinargerð með tillögunni hefur umboðsmaður bent á að börn séu allt of sjaldan spurð þegar verið er að taka mikilvægar ákvarðanir um mál sem þau varða. Það geta verið önnur mál en þau sem flutningsmaður tillögunnar fór yfir, þ.e. mál sem tengjast fjölskyldu þeirra, það geta líka verið dagleg mál í nánasta umhverfi. Það hefur stundum gleymst þegar skólar eru hannaðir og skólalóðir, að spyrja börn álits sem þó eiga að eyða dagvinnutíma sínum þar. Þetta þarf að koma inn á öllum stigum hvort sem verið er að ræða um umhverfi barna á heimilum þeirra eða í starfi því flest börn eyða átta til níu klukkustundum utan heimilis síns á dag.

Fjórða atriðið sem mig langar sérstaklega til að nefna er sjálfstæði barna sem einstaklinga. Það er umhugsunarefni af því að við lifum í samfélagi sem býður upp á mun meiri eftirlitsmöguleika en áður þekktust. Nú er hægt að hafa eftirlit með því hvort börnin neyta skólamáltíða, í hverja þau hringja, hvernig lífi þeirra vindur fram og við þurfum auðvitað alltaf að hafa það í huga með slíkum tækniframförum sem hafa gert allt þetta eftirlit mögulegt, að tryggja sjálfstæði barnanna, að þau eigi sinn rétt á einkalífi óháð þessu. Mig langar bara að nefna eitt dæmi sem hefur víða komið upp en það er þegar settar hafa verið upp eftirlitsmyndavélar í skólum og jafnvel inni á heimavistum þar sem börn undir 18 ára aldri dveljast og jafnvel án þess að ráðgast við nemendurna í heimavistunum. Þetta er auðvitað þeirra heimili og staður fyrir einkalíf og því held ég að við þurfum einmitt að hafa þetta í huga, að þarna erum við að tala um einkalíf þessara barna og það skiptir máli að spyrja um skoðanir þeirra.

Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu frekar en ítreka það að ég tel þetta framfaraskref og fagna þeirri þingsályktunartillögu sem hér liggur fyrir og vonast til að hún fái afgreiðslu.



[14:15]
Guðmundur Magnússon (Vg):

Herra forseti. Ég vil styðja þetta frumvarp sérstaklega og minna um leið á að nýlega skrifuðum við undir samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fólks með fötlun. Þar er kafli um fötluð börn en þau eru einstaklega brothættur hópur og það hefur sýnt sig að líklega er hvergi eins mikið um kynferðislegt ofbeldi og gegn þeim.



[14:16]
Flm. (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf):

Herra forseti. Ég vil þakka þingmönnum örstutt fyrir góðar undirtektir. Ég vil líka taka undir það sem síðasti ræðumaður gat um að sérstaklega þurfi að huga að fötluðum börnum og í barnasáttmálanum eru þau forgangshópur þegar kemur að vernd gegn ofbeldi. Þetta er mjög góð ábending og ég vona að ef þetta mál fer í gegn — sem ég vona að gerist, sérstaklega í ljósi þess vilja hæstv. forseta að afgreiða hér fleiri þingmannamál — muni einstök börn verða sérstaklega til skoðunar.

Enn og aftur þakka ég góðar undirtektir. Ég vona að við einhendum okkur í að vinna málið vel, sem og önnur góð mál í allsherjarnefnd.



Till. gengur til síðari umr. 

Till. gengur til allshn.