141. löggjafarþing — 40. fundur
 22. nóvember 2012.
húsaleigubætur til námsmanna.

[10:59]
Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Mig langar að gera að umtalsefni húsaleigubótakerfið og hef þá í huga nemendur sem stunda nám í framhaldsskóla í hinum dreifðu byggðum landsins. Það vill þannig til að heimavistarbúar í dreifbýli fá engar húsaleigubætur ef þeir eru svo óheppnir að eiga lögheimili í sama sveitarfélagi og skólinn sem þeir stunda nám í er til húsa. Jöfnunarstyrkur til framhaldsskólanema miðast við fjarlægð frá skóla en húsaleigubótakerfi styðst hins vegar ekki við neina slíka fjarlægðarstiku. Í því kerfi eru línur dregnar um sveitarfélög og þá er ekki gott að eiga heima í stóru sveitarfélagi.

Nýlegt dæmi er um nemanda úr Fljótsdalshéraði sem er eitt víðfeðmasta sveitarfélag landsins. Þar er fjarlægð á milli heimilis og skóla um 50 km og samgöngur svo sannarlega ekki alltaf góðar. Ég held að við getum verið sammála um það að nemi sem þarf að ferðast slíka vegalengd á hverjum degi vilji fremur búa á heimavist en að keyra fram og til baka á hverjum einasta degi. Þessi nemandi fær ekki húsaleigubætur eins og herbergisfélaginn þó að álíka langt sé á milli heimila þeirra og skólans þá sitja þeir ekki við sama borð. Af því að annar er nefnilega svo óheppinn að eiga lögheimili í Fljótsdalshéraði þar sem menntaskólinn er, hann fær ekki húsaleigubæturnar því hann er ekki með aðsetur í skólanum þar sem það má ekki flytja aðsetur innan sveitarfélags, samkvæmt lagatúlkun Þjóðskrár.

Þetta er ekkert einsdæmi því að eftir sameiningu sveitarfélaga búa margir foreldrar og nemendur við enn meiri fjárhagslegan ójöfnuð vegna þess að húsaleigulögin hafa ekki fylgt eftir breyttu landslagi. Þetta er auðvitað mismunun og má velta því fyrir sér líka hvort þetta sé ekki brot á jafnræðisreglu. Á sama tíma og verið er að hvetja nemendur til að stunda nám í heimabyggð þá getur þetta ekki farið saman og ég veit að þetta er gríðarlega mikilvægt mál fyrir frekar stóran hóp.

Mig langar því að spyrja hæstv. velferðarráðherra hvort til standi að breyta húsaleigulögunum, þannig að gert sé ráð fyrir þeirri breytingu sem hefur átt sér stað við sameiningu sveitarfélaga og yrði til að jafna þann aðstöðumun sem ég hef hér gert grein fyrir.



[11:02]
velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Varðandi spurningu hv. þingmanns þá er málið statt þannig að það er verið að koma fram með lagafrumvarp, vonandi strax eftir áramótin, um húsnæðisbætur í stað húsaleigu- og vaxtabóta, að vísu með innleiðingu á löngum tíma. Gert er ráð fyrir að það komi reglugerð sem fjallar um húsaleigubætur á næsta ári, þá á ég við með hefðbundnum hætti nema með hækkuðum greiðslum. Það er gert ráð fyrir hátt í milljarði í aukningu á húsaleigubótum til þess að reyna að koma til móts við þá aðila sem þar eru.

Samtímis hefur verið í endurskoðun lagaumhverfi sérstaklega fyrir húsnæðissamvinnufélög og leigufélög og við erum komin með tillögur frá undirhópi sem vann að því máli. Ég verð að viðurkenna að mér er ekki alveg kunnugt um hvort akkúrat þetta mál hefur komið þar inn undir, en ég kannast við málið. Þetta er mál sem hefur komið upp í Fljótsdalshéraði eins og hv. þingmaður nefndi og eins í Skagafirði og víðar en auðvitað er það vandmeðfarið af því að það eru sveitarfélögin sem borga og sjá um framkvæmdina á húsaleigubótum. Það er auðvitað vandmeðfarið hvar mörkin eiga að vera, hvort það eigi að miða við ákveðinn kílómetrafjölda eða hvort það eigi að miða við samgöngur, almenningssamgöngur og svo framvegis.

Ég held að það sé sjálfsagt að skoða þetta mál. Það hefur verið flutt þingmál um þetta, ef ég veit rétt, eða að minnsta kosti vakin athygli á því af þingmönnum. Þannig að okkur er ekkert að vanbúnaði að fara yfir með sveitarfélögunum hvort við getum breytt þessari framkvæmd. Ef húsnæðisbæturnar verða að lögum þegar þar að kemur þá fer þessi málaflokkur alfarið yfir til ríkisins, það er almennu húsaleigubæturnar en sérstöku húsaleigubæturnar verða hjá sveitarfélögum.

Þannig að svar mitt er að það er ekki búið að gera neitt í þessu að svo stöddu, að því sem mér er kunnugt um, en það er sjálfsagt að taka málið upp í tengslum við þá spurningu sem hér kom fram.



[11:04]
Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Það er rétt að í þessu dæmi sem ég tók hér áðan var það sveitarfélagið sem synjaði foreldrunum og námsmanninum um húsaleigubæturnar og ég veit að þau hafa kært þessa synjun til velferðarráðuneytisins eða úrskurðarnefndar félagsþjónustu- og húsnæðismála.

Það er alveg ljóst að fjölskyldur sem þurfa að senda eitt eða fleiri börn um langan veg í skóla bera af því mikinn kostnað og það er því mikilvægt að þetta verði inni í hinum nýju lögum, að mínu viti, þar sem sérstaklega er tekið á þessu og ég vona auðvitað að samband sveitarfélaganna leggi á það áherslu með ráðuneytinu, af því að við stöndum auðvitað fyrir jafnrétti til náms og grundvallaratriði í því er þessi hluti af velferðarþjónustunni okkar.



[11:05]
velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Það er í sjálfu sér ekki miklu við þetta að bæta. Ég er sammála hv. þingmanni um það að það þarf að fara yfir þetta mál og skoða með hvaða hætti er hægt að leysa það. Við deilum áhyggjum af því að víða er kostnaður verulegur við það að sækja nám og þess vegna hafa menn líka unnið að því skipulega að reyna að bæta framhaldsnám sem næst hverri byggð, það er reyna að dreifa því um landið með framhaldsdeildum eins og núna síðast á Hvammstanga.

Ég held að þetta sé mjög mikilvægt því það er alveg rétt sem hv. þingmaður segir að jafnrétti til náms er ein af mikilvægustu forsendum fyrir byggð á hinum ýmsu stöðum. Það er líka rétt að það er gríðarlegur kostnaður af því þegar fólk þarf að færa sig til, jafnvel þó að það sé innan sveitarfélags og þá skiptir auðvitað miklu máli að menn njóti réttinda eins og húsaleigubóta. En það geta verið vandkvæði á því að finna hvar mörkin eru en það á ekki að fæla okkur frá því að málið sé skoðað.