144. löggjafarþing — 30. fundur
 11. nóvember 2014.
skuldaleiðréttingaraðgerðir.

[13:46]
Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegi forseti. Það vakti athygli mína eins og annarra að ákveðið hefur verið að flýta fjármögnun skuldaleiðréttingaraðgerðanna þannig að 40 milljarðar koma til aðgerðanna á þessu ári, ef ég skil það rétt. Það þýðir í mínum huga að hæstv. fjármálaráðherra og ríkisstjórnin hafa ákveðið að nota þá 20 milljarða sem koma sem arðgreiðslur úr Landsbankanum, úr eignarhluta ríkisins í fjármálakerfinu, inn í ríkissjóð á yfirstandandi ári umyrðalaust í skuldaleiðréttinguna. Það kemur bara þannig út. Það eru 20 milljarðar sem renna þá beint í skuldaleiðréttinguna — ég sé að stjórnarþingmenn kinka hér kolli, þannig að þetta er væntanlega réttur skilningur hjá mér.

Við vorum einu sinni með áform um það í þessum sal að nota þá peninga til að fjárfesta í uppbyggingu í atvinnulífinu, uppbyggingu skapandi greina og græns iðnaðar, nýsköpunar, menntunar, til að fjármagna ýmsar nauðsynlegar byggingar sem þarf að ráðast í, viðhald, og til að greiða niður opinberar skuldir. Sú áætlun hét fjárfestingaáætlun og var meðal annars fjármögnuð af þessu fé.

Mig langar að spyrja hæstv. fjármálaráðherra því að mig langar til að skyggnast inn í hans hugarheim og reyna að skilja hann betur: Datt hæstv. fjármálaráðherra ekkert annað í hug sem æskileg not fyrir þessa peninga en að láta þá streyma beint í skuldaleiðréttinguna, sem er mjög umdeild? Kom aldrei til greina að nota þessa peninga í uppbyggingu í atvinnulífinu? Kom aldrei til greina að nota þessa peninga til að greiða niður opinberar skuldir? Kom ekki til greina að nota peningana í nauðsynlegt viðhald á vegum? Kom ekki til greina að nota peningana til að setja í spítalann og uppbyggingu á honum, til að setja í uppbyggingu í menntakerfinu? Kom ekkert af þessu til greina?



[13:48]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Sú ákvörðun að flýta fjármögnun skuldaleiðréttingarinnar er einskiptisaðgerð og þá er ekki óeðlilegt að menn horfi til einskiptistekna til að standa undir slíku. Þó að erfitt sé að fullyrða um hvaða krónur sem koma í ríkiskassann fari í hvaða verkefni er rétt að bætt staða ríkissjóðs á þessu ári er mikið til komin vegna einskiptistekna. En sú ákvörðun að flýta fjármögnun skuldaleiðréttingarinnar er ákvörðun um að borga færri milljarða í vexti vegna aðgerðarinnar til bankanna og fleiri krónur til þeirra sem eiga að njóta aðgerðarinnar. Það er megininntak þessarar ákvörðunar, að lækka vaxtakostnað aðgerðarinnar, sem hefði kostað um það bil 7 milljarða og hefðu runnið til bankanna, en í stað þess að gera það að nýta þá þá í þessum tilgangi.

Kom til greina að nota fjármunina í annað? Auðvitað erum við að skoða öll þau verkefni sem eru nefnd hér. Við erum að setja yfir 20 milljarða í samgöngumál svo dæmi sé tekið. Það er hollt fyrir menn að staldra aðeins við þegar rætt er um heilbrigðismálin, og kannski sérstaklega Landspítalann, og gæta sín á því að fara ekki fram úr sér í fullyrðingum um það sem þar er að gerast. Þessi ríkisstjórn jók framlög til Landspítalans þannig að framlög til Landspítalans hafa aldrei, aldrei verið hærri en þau eru í dag, aldrei verið hærri. Þau voru skorin niður árið 2010 og árin þar á eftir um 3,5–5 milljarða á hverju ári, en með því sem við bættum inn í fjáraukalögum í fyrra og því sem við settum inn á þetta ár er búið að vinna það allt saman upp og gott betur. Við erum komin fram yfir það, og batnandi hagur ríkissjóðs sem birtist okkur á þessu ári mun að einhverju leyti fylgja okkur inn í næsta ár. Það svigrúm verður notað í þá innviðauppbyggingu sem hv. þingmaður er að spyrja um.



[13:50]
Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Ég gef lítið fyrir þetta svar. Það á að spara peninga með því að flýta aðgerðunum. Að mínu viti mundi það spara mesta peninga að fara einfaldlega ekki í þessar aðgerðir og nota peningana í brýnni verkefni. Það kostar mikinn pening að fara ekki í viðhald í vegakerfinu, algjörlega nauðsynlegt viðhald. Það kostar mikinn pening að byggja ekki nýjan spítala. Það kostar mikinn pening að greiða ekki niður opinberar skuldir. Allt þetta kostar peninga og hér er greinilega verið að lýsa forgangsröðun sem ég er algjörlega ósammála.

Ég skal segja núna hvaða grunsemdir vakna í mínum huga gagnvart þeirri aðgerð að flýta skuldaleiðréttingunum. Það hefur alltaf legið fyrir að aflétta á höftum og gera það fljótt og vel. Að aflétta höftum þýðir að gera þarf upp gömlu búin bankanna. Það þýðir að gömlu búin, bú gömlu bankanna munu ekki skila tekjum í bankaskatti. Það hefur alltaf legið fyrir að það er ævintýramennska að gera ráð fyrir tekjum af bankaskatti í fjögur ár. Þegar höftunum verður aflétt mun ríkissjóður ekki njóta þessara tekna frá búunum. (Forseti hringir.) Þess vegna er ríkisstjórnin núna að reyna að flýta fjármögnun á umdeildum skuldaleiðréttingaráformum, millifærslu, sem mest hún má (Forseti hringir.) og með því að ná í peningana annars staðar. (Forseti hringir.) Þetta eru grunsemdir mínar og hæstv. fjármálaráðherra ræður því hvort hann vísar þeim á bug eða ekki.(Gripið fram í.)



[13:51]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Það er einkum tvennt sem hefur vakið athygli mína í dag. Það er annars vegar hversu ótrúlega margir hafa stigið fram í fjölmiðlum og gefið sig að tali við mig og lýst yfir gríðarlega mikilli ánægju með það sem við kynntum í gær og fólk gat kynnt sé í dag hvernig það hefði áhrif á hag þess. Hins vegar hversu ótrúlega miklar krókaleiðir menn eru tilbúnir að fara til að reyna að varpa rýrð á aðgerðir ríkisstjórnarinnar sem hvað sem hver segir munu hafa mjög jákvæð efnahagsleg áhrif þegar á heildina er litið.

Tökum bara eitt einfalt dæmi, að skuldir heimilanna fari niður fyrir 100% af vergri landsframleiðslu, að mönnum sé virkilega sama um að skuldir heimilanna séu yfir 100% af landsframleiðslu, sem hefur aldrei verið áður í sögunni á Íslandi. Það er alvarlegt efnahagslegt merki sem við hljótum að taka alvarlega sama hvar í flokki við stöndum. Við erum að breyta (Forseti hringir.) þeirri staðreynd. Það er til vitnis um sterkari stöðu heimilanna (Forseti hringir.) að kaupmáttur fari vaxandi, skuldastaðan (Forseti hringir.) lækkandi, ráðstöfunartekjurnar vaxi.

Menn hljóta (Forseti hringir.) að sjá ljósið (Forseti hringir.) þegar þeir (Forseti hringir.) kynna sér (Forseti hringir.) heildaráhrif (Forseti hringir.) aðgerðanna.