144. löggjafarþing — 30. fundur,  11. nóv. 2014.

skuldaleiðréttingaraðgerðir.

[13:48]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Sú ákvörðun að flýta fjármögnun skuldaleiðréttingarinnar er einskiptisaðgerð og þá er ekki óeðlilegt að menn horfi til einskiptistekna til að standa undir slíku. Þó að erfitt sé að fullyrða um hvaða krónur sem koma í ríkiskassann fari í hvaða verkefni er rétt að bætt staða ríkissjóðs á þessu ári er mikið til komin vegna einskiptistekna. En sú ákvörðun að flýta fjármögnun skuldaleiðréttingarinnar er ákvörðun um að borga færri milljarða í vexti vegna aðgerðarinnar til bankanna og fleiri krónur til þeirra sem eiga að njóta aðgerðarinnar. Það er megininntak þessarar ákvörðunar, að lækka vaxtakostnað aðgerðarinnar, sem hefði kostað um það bil 7 milljarða og hefðu runnið til bankanna, en í stað þess að gera það að nýta þá þá í þessum tilgangi.

Kom til greina að nota fjármunina í annað? Auðvitað erum við að skoða öll þau verkefni sem eru nefnd hér. Við erum að setja yfir 20 milljarða í samgöngumál svo dæmi sé tekið. Það er hollt fyrir menn að staldra aðeins við þegar rætt er um heilbrigðismálin, og kannski sérstaklega Landspítalann, og gæta sín á því að fara ekki fram úr sér í fullyrðingum um það sem þar er að gerast. Þessi ríkisstjórn jók framlög til Landspítalans þannig að framlög til Landspítalans hafa aldrei, aldrei verið hærri en þau eru í dag, aldrei verið hærri. Þau voru skorin niður árið 2010 og árin þar á eftir um 3,5–5 milljarða á hverju ári, en með því sem við bættum inn í fjáraukalögum í fyrra og því sem við settum inn á þetta ár er búið að vinna það allt saman upp og gott betur. Við erum komin fram yfir það, og batnandi hagur ríkissjóðs sem birtist okkur á þessu ári mun að einhverju leyti fylgja okkur inn í næsta ár. Það svigrúm verður notað í þá innviðauppbyggingu sem hv. þingmaður er að spyrja um.