144. löggjafarþing — 30. fundur,  11. nóv. 2014.

skuldaleiðréttingaraðgerðir.

[13:50]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Ég gef lítið fyrir þetta svar. Það á að spara peninga með því að flýta aðgerðunum. Að mínu viti mundi það spara mesta peninga að fara einfaldlega ekki í þessar aðgerðir og nota peningana í brýnni verkefni. Það kostar mikinn pening að fara ekki í viðhald í vegakerfinu, algjörlega nauðsynlegt viðhald. Það kostar mikinn pening að byggja ekki nýjan spítala. Það kostar mikinn pening að greiða ekki niður opinberar skuldir. Allt þetta kostar peninga og hér er greinilega verið að lýsa forgangsröðun sem ég er algjörlega ósammála.

Ég skal segja núna hvaða grunsemdir vakna í mínum huga gagnvart þeirri aðgerð að flýta skuldaleiðréttingunum. Það hefur alltaf legið fyrir að aflétta á höftum og gera það fljótt og vel. Að aflétta höftum þýðir að gera þarf upp gömlu búin bankanna. Það þýðir að gömlu búin, bú gömlu bankanna munu ekki skila tekjum í bankaskatti. Það hefur alltaf legið fyrir að það er ævintýramennska að gera ráð fyrir tekjum af bankaskatti í fjögur ár. Þegar höftunum verður aflétt mun ríkissjóður ekki njóta þessara tekna frá búunum. (Forseti hringir.) Þess vegna er ríkisstjórnin núna að reyna að flýta fjármögnun á umdeildum skuldaleiðréttingaráformum, millifærslu, sem mest hún má (Forseti hringir.) og með því að ná í peningana annars staðar. (Forseti hringir.) Þetta eru grunsemdir mínar og hæstv. fjármálaráðherra ræður því hvort hann vísar þeim á bug eða ekki.(Gripið fram í.)