146. löggjafarþing — 30. fundur
 22. feb. 2017.
úttekt á starfsemi fjölmiðla utan höfuðborgarsvæðisins og leiðir til að tryggja stöðu þeirra, fyrri umræða.
þáltill. BjG o.fl., 77. mál. — Þskj. 134.

[17:53]
Flm. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um úttekt á starfsemi fjölmiðla utan höfuðborgarsvæðisins og leiðir til að tryggja stöðu þeirra. Að málinu standa ásamt mér hv. þm. Svandís Svavarsdóttir, Rósa Björk Brynjólfsdóttir, Ari Trausti Guðmundsson, Birgitta Jónsdóttir, Smári McCarthy, Einar Brynjólfsson, Elsa Lára Arnardóttir, Eygló Harðardóttir, Oddný G. Harðardóttir, Guðjón S. Brjánsson, Logi Einarsson, Lilja Rafney Magnúsdóttir og Njáll Trausti Friðbertsson.

Tillagan hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að fela mennta- og menningarmálaráðherra að skipa starfshóp sem geri úttekt á starfsemi og stöðu fjölmiðla sem starfræktir eru utan höfuðborgarsvæðisins og leggi fram tillögur sem feli í sér aðferðir og leiðir til að efla og tryggja stöðu landsbyggðarfjölmiðla þannig að þeir fái gegnt lýðræðis-, menningar-, upplýsinga- og fræðsluhlutverki sínu. Mennta- og menningarmálaráðherra sjái starfshópnum fyrir starfsaðstöðu og greiði kostnað við störf hans. Starfshópurinn leggi skýrslu sína og tillögur fram eigi síðar en 1. nóvember 2017.“

Að margra áliti búa fjölmiðlar sem starfræktir eru utan höfuðborgarsvæðisins, við erfið starfsskilyrði sem hamla því á ýmsan hátt að þeir geti rækt hlutverk sitt eins og æskilegt væri. Flutningsmenn þessarar tillögu líta svo á að þar sem frjáls og fjölbreytt fjölmiðlun er meðal þess sem lýðræðissamfélög geta síst án verið sé áríðandi að afla haldbærra upplýsinga um stöðu landsbyggðarfjölmiðla og styrkja rekstrargrundvöll þeirra þar sem þess er þörf og forsendur eru fyrir slíkum stuðningi.

Þingmál af sama toga og fyrirliggjandi þingsályktunartillaga hafa áður verið lögð fyrir Alþingi og bera þess vott að staða fjölmiðla sem starfræktir eru utan höfuðborgarsvæðisins hefur verið ýmsum úr hópi þingmanna hugleikin um nokkurt skeið. En þar sem ekki hefur tekist hingað til að ná samstöðu um að ljúka þessum málum með ráðstöfunum í þágu fjölmiðlunar á landsbyggðinni skal enn á ný gerð atrenna að því að láta kanna stöðu þessara mála og færa þau til betra horfs.

Á 131. löggjafarþingi lagði Dagný Jónsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, ásamt þingmönnum úr röðum allra annarra þingflokka, fram tillögu til þingsályktunar um staðbundna fjölmiðla. Flutningsmaður mælti fyrir málinu og gekk það að svo búnu til menntamálanefndar sem sendi út umsagnarbeiðnir vegna þess snemma í apríl 2005. Sex umsagnir bárust sem lýstu mjög ólíkum skoðunum á málinu. Tillaga Dagnýjar Jónsdóttur og meðflutningsmanna hennar varð ekki útrædd á 131. þingi og var endurflutt á 132. og 133. þingi án þess að koma til lokaafgreiðslu. Birkir Jón Jónsson, þingmaður Framsóknarflokksins, flutti tillögu til þingsályktunar um staðbundna fjölmiðla á 139. löggjafarþingi ásamt samflokksmönnum sínum og þingmönnum úr Samfylkingunni og Vinstri hreyfingunni – grænu framboði. Á þeim tíma bárust átta umsagnir um málið sem allar voru jákvæðar í garð þess en það hlaut þó ekki afgreiðslu menntamálanefndar.

Sú sem hér stendur lagði svo fram tillögu til þingsályktunar um svæðisbundna fjölmiðla á 144. löggjafarþingi ásamt fleiri þingmönnum. Hún var efnislega áþekk þeirri sem Dagný Jónsdóttir flutti upphaflega. Tillagan kom ekki til meðferðar á því þingi og ég lagði hana ekki fram í fyrra. Fyrirliggjandi tillaga er af sama toga og þær sem vikið er að hér að framan.

Ég vil líka geta fyrirspurnar Heiðu Kristínar Helgadóttur, þingmanns Bjartrar framtíðar, til mennta- og menningarmálaráðherra á síðasta þingi um fjölmiðlastyrki og svars ráðherra þar sem kemur fram að ítarlegar rannsóknir og greiningar á rekstrarumhverfi fjölmiðla hér á landi séu nauðsynlegur undanfari og grundvöllur styrkveitinga til fjölmiðla í því skyni að stuðla að fjölbreytileika þeirra og vinna gegn samþjöppun eignarhalds á fjölmiðlamarkaði.

Árið 2005, þegar Dagný Jónsdóttir lagði fram þingsályktunartillögu sína um staðbundna fjölmiðla, kom fyrir sjónir almennings viðamikil skýrsla, Skýrsla nefndar menntamálaráðherra um íslenska fjölmiðla, sem var afrakstur nefndarstarfs sem efnt var til í kjölfar þess að forseti Íslands synjaði staðfestingar lögum nr. 48/2000, um breytingu á útvarpslögum, nr. 53/2000, og samkeppnislögum, nr. 8/1993. Aðalefni skýrslunnar felst í umfjöllun um starfsumhverfi fjölmiðla almennt og þýðingu þeirra fyrir lýðræði, frjáls skoðanaskipti, upplýsingagjöf og menningarlega- og stjórnmálalega fjölbreytni, en þar var einnig vikið að þýðingu svæðisbundinna miðla á borð við bæjar- og héraðsfréttablöð og skyldum hins opinbera gagnvart slíkri starfsemi.

Fáum blandast hugur um mikilvægi frjálsrar fjölmiðlunar enda er þekking almennings á umheiminum og skilningur á honum að miklu leyti kominn undir fréttum miðlanna og annarri umfjöllun þeirra. Staðbundnir fjölmiðlar og fjölmiðlar á landsvísu sem starfræktir eru utan höfuðborgarsvæðisins gegna hlutverki við að tryggja nauðsynlega fjölbreytni lýðræðislegrar umræðu og skoðanaskipta þar sem margvísleg sjónarmið njóta sín og verða grundvöllur afstöðu og ákvarðanatöku.

Eigin dagskrárgerð og sjálfstæð ritstjórn og blaðamennska þykja jafnan grundvallarforsendur fyrir stuðningi við starfsemi fjölmiðla og einnig að um sé að tefla miðil sem birtir fjölbreytt ritstjórnarefni en er ekki einungis auglýsingamiðill. Opinber stuðningur við starfsemi fjölmiðla getur farið fram með ýmsum hætti en mikilvægt er að tilhögun stuðningsins sé þannig að hann hafi ekki áhrif á ritstjórnarstefnu viðkomandi miðla. Stuðningur getur falist í dreifingarstyrk og var þeirri leið nokkuð beitt sums staðar erlendis meðan prentmiðlar voru allsráðandi en miklu síður eftir að ljósvakamiðlar tóku forystuna hvað útbreiðslu snertir. Í mörgum tilfellum þykir nú vænlegra að ná markmiðum með styrkveitingu til fjölmiðla með því að styðja við framleiðslu á efni sem viðkomandi fjölmiðill framleiðir og ritstýrir sjálfur enda er það talið til þess fallið að styrkja rekstrarhæfi miðilsins til lengri tíma, stuðla að fjölbreytni, sjálfstæðum vinnubrögðum og óhæði ritstjórnar.

Meðal þess sem hefur einkennt þróunina í rekstri fjölmiðla undanfarin ár og áratugi er að eignarhald á fjölmiðlum og efnisveitum hefur færst á færri hendur en áður var. Til hafa orðið risastórar fjölmiðlasamsteypur sem starfa á alþjóðlegum markaði. Deilt er um þessa þróun og áhrif hennar á miðlun upplýsinga og menningarstarfsemi þar sem mörgum þykir gæta einsleitni og telja að það áhrifavald sem í fjölmiðlum býr sé ekki nægilega dreift. Við þær aðstæður verður þýðing staðbundinna miðla, sem eru hluti nærsamfélagsins, sinna því og birta umheiminum viðhorf þess, enn meiri en ella.

Opinberar styrkveitingar til fjölmiðla tíðkast á Norðurlöndum og er jafnan lögð áhersla á að slíkur stuðningur stuðli að fjölbreytni miðlanna og sjálfstæði þeirra. Í Noregi annast Medietilsynet veitingu styrkja til fjölmiðla. Þar er nú að störfum nefnd sem ber heitið Mediemangfoldsutvalget — ég að biðjast afsökunar fyrir fram á norrænni tungu hér. Fjallar hún um það hvernig beita megi opinberum stuðningi til að tryggja sem mesta fjölbreytni á norska fjölmiðlamarkaðnum. Er gert ráð fyrir að nefndin leggi niðurstöður sínar og tillögur fram vorið 2017, þ.e. nú í vor. Í Danmörku sér Medienævnet um úthlutun fjölmiðlastyrkja en í Svíþjóð er það Presstödsnämnden sem gegnir þessu hlutverki.

Í ljósi þeirra miklu breytinga sem átt hafa sér stað á fjölmiðlun og rekstri fjölmiðla á undanförnum árum og áratugum er að vonum að oft og mikið hafi verið fjallað um þennan mikilvæga þátt lýðræðisins á Norðurlöndunum. Hér verða aðeins nefndar fáeinar nýlegar norrænar skýrslur og greinargerðir um breytingar á starfsumhverfi fjölmiðla og gildi opinbers stuðnings við greinina sem hafa mætti til hliðsjónar í því starfi sem unnið verður ef þessi þingsályktunartillaga hlýtur samþykki. Í Noregi kom út árið 2000 skýrslan Pressepolitikk ved et tusenårsskifte. Dagspresseutvalgets instilling og árið 2010 birtist skýrslan Lett å komme til orde, vanskelig å bli hørt — en moderne mediestøtte. Utredning fra et utvalg oppnevnt av Kulturdepartementet den 19. oktober 2009. Avgitt 16. desember 2010. Snýst hún að meginefni til beinlínis um opinberan stuðning við fjölmiðla, eins og heiti hennar gefur raunar til kynna. Árið 2011 birtist í Danmörku ritið Demokratistøtte. Fremtidens offentlige mediestøtte, sem var afrakstur starfs nefndar sem menningarmálaráðherra Dana skipaði í samræmi við víðtækt samkomulag stjórnmálaflokka á danska þjóðþinginu árið 2006 og í Svíþjóð birtist í febrúar 2016 viðamikil greinargerð um stöðu fjölmiðla á markaði, Människorna, medierna & marknaden, þar sem meðal annars er gerð rækileg grein fyrir hlutverki opinbers stuðnings við sænska fjölmiðla.

Þessu til viðbótar skal nefnt að tjáningarfrelsi og fjölbreytt miðlun njóta viðurkenningar og verndar í mannréttindasáttmála Evrópu, samanber 10. gr., og sáttmála Evrópusambandsins um grundvallarréttindi, samanber 11. gr. Af þessum sökum hafa ýmsar stofnanir Evrópusambandsins samþykkt tilmæli til aðildarríkjanna um frjálsa fjölmiðla, starfsemi þeirra og starfsumhverfi. Einnig hefur Evrópusambandið staðið fyrir ýmiss konar verkefnum sem miða að því að tryggja stöðu og starfsemi frjálsra fjölmiðla og stuðla að fjölbreytni þeirra.

Eins og hér kemur fram er vert að nota nýjar rannsóknir og kannanir og fara yfir þær þegar, og ég vona að þetta fái loksins einhverja almennilega umfjöllun og afgreiðslu í menntamálanefndinni. Það er svo mikilvægt fyrir lýðræðið að frjálsir fjölmiðlar geti veitt aðhald með faglegri og upplýsandi umfjöllun og fréttaflutningi. Þess vegna held ég að það sé skylda stjórnvalda að sjá til þess að sjálfstæði þeirra sé varið sem og ritstjórnarlegt frelsi. Við þurfum í raun að sjá til þess að rekstrarskilyrði fjölmiðla séu almennt góð því að það er besta vopn okkar í baráttunni við spillinguna.

Með sameiningu sveitarfélaga og fjölgun íbúa á landfræðilega stærri svæðum er mikilvægt að svæðisbundin fjölmiðlun sé almennileg því að það er hlutverk svæðisbundinna fjölmiðla að hlúa að samfélögum sínum. Þeir gegna mikilvægu upplýsingahlutverki gagnvart íbúum sínum varðandi umfjallanir um sveitarstjórnarmálin, gagnvart stofnunum og gagnvart svæðisbundnu lýðræði almennt, atvinnulífinu og fleira, hvaða ákvarðanir eru teknar, og gefa íbúum líka tækifæri á að koma fram með skoðanir sínar, hvort sem það er í blöðum, sjónvarpi eða hvernig svo sem það er.

Við getum ekki horft fram hjá því að dregið hefur úr umfjöllun um landsbyggðina. Eðli málsins samkvæmt eru það meira þeir fjölmiðlar sem starfa hér, þeir fjalla um mál í nærsamfélagi sínu. Hér er þunginn og hér hafa fjölmiðlar úr miklu að moða. En eftir að hafa búið við svæðisfjölmiðla, til dæmis hjá Ríkisútvarpinu, sem var mjög öflugt þegar svæðisútvarpið var á sínum tíma, fann maður fyrir því og finnur fyrir því að þar er önnur nálgun. Þótt Ríkisútvarpið hafi aðeins komið aftur með því að vera með fréttamenn úti á landi er það mjög takmarkað og engan veginn ásættanlegt. Það er líka svo mikilvægt þegar við hugsum um rannsóknarblaðamennsku og annað slíkt, þegar við hugsum um fjölmiðlaflóruna — og ég held því ekki fram að fjölmiðlar hér á höfuðborgarsvæðinu, netfjölmiðlar og aðrir óski eftir stuðningi, ég held því ekki fram að miðlar hér á stórhöfuðborgarsvæðinu þurfi ekki á stuðningi að halda, könnun á því myndi væntanlega leiða í ljós eitthvað slíkt — en umfjöllunin um málefni hinna dreifðu byggða er því miður allt of lítil í hinum landsdekkandi miðlum.

Það er líka mikilvægt varðandi rekstrarskilyrði fjölmiðla á landsbyggðinni að þeir lifa fyrst og síðast á áskriftar- og auglýsingatekjum. Svo þekkjum við hvernig þróunin hefur verið, slíkt hefur dregist saman vegna breyttra miðla, vegna þess að það er meiri flutningur á netinu og svo framvegis. Þess vegna þurfum við að reyna að finna út úr því hvaða leið er best til að styðja við þá þannig að við missum þá ekki í það að vera eingöngu léttmeti eða auglýsingamiðlar í formi dagskráa og annars slíks sem dreift er í öll hús, á meðan blöðin eða sjónvarpsmiðlar og annað slíkt ná til allra. Mér dettur í hug N4 á Akureyri sem þarf að kaupa tengingu af samkeppnisaðila til þess að geta dreift efni sínu. Umhverfið er svolítið brogað.

Á litlu stöðunum eru fjölmiðlarnir mjög oft háðir einhverjum stórum aðilum á svæðinu og umfjöllunin getur orðið erfiðari. Það er óhætt að segja það því að þræðir þessara aðila liggja víða og þess vegna geta tengsl fjölmiðilsins við hagsmunaaðila vakið upp einhverjar spurningar. Þess vegna er mjög mikilvægt að breyta því.

Landsdekkandi miðlar, t.d. hér á höfuðborgarsvæðinu, hvort sem þeir eru í einkaeigu eða Ríkisútvarpið, hafa takmarkað rými, getu og áhuga á að sinna dreifðu byggðunum. Þess vegna fréttum við allt of lítið af mörgu góðu sem er að gerast nema í gegnum — ég er t.d. áskrifandi að allflestum héraðsfréttamiðlum í mínu kjördæmi til þess að fylgjast með. Þessar fréttir birtast oft hvergi annars staðar. Ég held að við þurfum að reyna að finna út úr því hvort við getum með einhverjum hætti tryggt stöðu þeirra þannig að umræðan verði málefnaleg og þeir geti verið óháðir einhverjum stórum aðilum á sínu svæði. Þess vegna þurfum við sem kjörnir fulltrúar að (Forseti hringir.) að styðja við svæðismiðlana en ekki horfa aðgerðalaus upp á að þeir deyi og þjónustan sem þeir þó veita hverfi.



[18:08]
Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. og flutningsmanni Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur fyrir hennar framlag hér áðan. Ég sem gamall fjölmiðlahundur, ef ég má nota það orð, hef auðvitað töluverðan áhuga á þessu og ekki dregur úr mér þegar gamli Skagfirðingurinn kemur upp. Ég held að það sé rétt mat hjá flutningsmönnum að staðbundnir fjölmiðlar gegni eins og aðrir fjölmiðlar mikilvægu hlutverki. Ég hygg hins vegar að hugmyndir mínar um það hvernig best sé að standa að því að styrkja og standa vörð og búa til þann grunn sem þarf til að reka slíka fjölmiðla séu kannski pínulítið frábrugðnar flutningsmönnum, eða að minnsta kosti framsögumanni.

Þess vegna vil ég beina eftirfarandi spurningum til hv. þingmanns: Er það réttur skilningur hjá mér, eða svona tilfinning, að hv. þingmaður telji að það sé sérstakt hlutverk ríkisins að styrkja með beinum hætti svæðisbundna fjölmiðlun, sem að vísu er kannski orðið úrelt hugtak miðað við þá framþróun sem er að verða í fjölmiðlaheiminum vegna þess að fjölmiðlar eru kannski ekki lengur staðbundnir þótt þeir sérhæfi sig í fréttum af ákveðnum svæðum? Er það þannig að hv. flutningsmaður telur að það eigi að vera þannig að ríkið styrki með beinum hætti á fjárlögum, með fjárveitingum, rekstur slíkra fjölmiðla? Og ef svo er: Hvernig sér hv. þingmaður það fyrir sér að það sé gert og hvaða kröfur eru þá gerðar til viðkomandi fjölmiðils? Og svo framvegis.

Og annað sem ég (Forseti hringir.) kannski kem þá að í seinna andsvari mínu kemur að því hvernig ruðningsáhrif Ríkisútvarpsins eru á íslenskum fjölmiðlamarkaði og hvaða áhrif Ríkisútvarpið hefur á þróun og stöðu staðbundinna fjölmiðla.



[18:11]
Flm. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Það eru kannski, skulum við segja til að byrja með: Hópnum er auðvitað falið að finna út hvaða leiðir eru bestar. Ég ætla ekki fyrir fram að gefa mér að beinir styrkir eða eitthvað annað slíkt séu best til þess fallnir að styðja við fjölmiðla. Þó, þær skýrslur sem ég vísa hér í, koma meðal annars inn á slíka styrki. Þess vegna vil ég ekki útiloka þá heldur. Ég hef trú á að það geti skipt máli fyrir lýðræðið að ríkið komi að því að styrkja.

Það getur verið, og ég held að við eigum að vera bara tilbúin að ræða ýmsar leiðir, þetta geta verið einhvers konar styrkveitingar, til dæmis til rannsóknarblaðamennsku. Þetta getur verið eitthvað í skattalegu umhverfi til dæmis. Ég lýsi mig reiðubúna til að skoða hvaða aðferð sem er til þess að styðja við þetta. Þess vegna hef ég verið að horfa sérstaklega á landshlutamiðlana vegna þess að margir landshlutarnir verða út undan í opinberri umræðu. Ég hygg að það sé rétt hjá hv. þingmanni að við erum kannski ekki alveg sammála í nálgun á þessu. En það var í efnahags- og viðskiptanefnd, held ég bara í fyrra, verið að ræða skattalega stöðu streymiþjónustu vegna kvikmynda á Íslandi, sjónvarpsefni og tónlist, þar sem var verið að tala um að færa það á milli þrepa. Eitthvað slíkt gæti til dæmis komið til greina. Ég held að við eigum að vera opin fyrir því. Ég trúi því nú að þingmaðurinn telji að eins og hann sagði sé lýðræðisleg umræða ekki dekkuð með þeim hætti í dag sem hún þyrfti að vera gagnvart öllum íbúum landsins. Við erum að starfrækja úti um allar koppagrundir alls konar miðla. Ég held eins og ég sagði í minni framsögu að þeir lifi ekki nema að fá einhvers konar stuðning (Forseti hringir.) og styrki, oft þá af aðilum í samfélaginu sem eru ráðandi og þræðirnir liggja víða.



[18:14]
Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég ætla að halda áfram. Ég ætla nú bara að benda á: Er ekki eitthvað pínulítið öfugsnúið hjá okkur hér í þessum þingsal að leggja áherslu á það að tryggja frjálsa og óháða fjölmiðlun annars vegar, og þar erum við sammála, en hins vegar síðan ætlast til þess að þessir sömu fjölmiðlar séu fjárhagslega háðir einhverjum opinberum aðilum um afkomu og rekstur? Er ekki spurningin miklu fremur: Hvernig getum við tryggt að fjölmiðlar séu frjálsir og óháðir og rekstrargrunnur þeirra þannig að hann sé heilbrigður og hægt að reka þá án þess að ríkisvaldið komi þar að? Þar er ein hugmynd sem við gætum kannski velt fyrir okkur. Hún er sú: Er ekki rétt að veita borgurum, skattgreiðendum, raunverulegt frelsi í því að velja sér fjölmiðil? Er ekki rétt að við breytum aðeins þeirri nálgun sem er við fjármögnun Ríkisútvarpsins þannig að á hverju ári þegar við skilum okkar skattframtali veljum við hvert útvarpsgjaldið sem lagt er á og fjárveitingarvaldið, Alþingi, tekur ákvörðun um á hverju ári hversu hátt skuli vera, hvert það skuli renna? Þannig að íbúar í Ólafsfirði taki þá ákvörðun um það hvort þeir ætli að verja sínu útvarpsgjaldi til ríkisútvarpsins eða til staðbundins fjölmiðils? Eða Dalvíkingar, hvort þeir vilji fremur tryggja það að Norðurslóð komi út að hluta, að hluti af útvarpsgjaldinu eða allt útvarpsgjaldið renni þá til útgáfu þessa ágæta blaðs? (Forseti hringir.) Og annarra staðbundinna fjölmiðla? Mér finnst þetta vera eitthvað sem við ættum þá að ræða um og getum þá rætt um það hversu heilbrigt umhverfi almennt er búið að búa til hér fyrir fjölmiðla og hversu óheilbrigt það er, þ.e. óheilbrigt en ekki heilbrigt.



[18:16]
Flm. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Við verðum seint sammála um þetta. Það held ég sé alveg ljóst. (ÓBK: Það getur ekki verið.) Segðu. Það getur ekki verið, nei. Auðvitað höfum við talað mikið fyrir RÚV og allt það. Að sjálfsögðu styð ég það að RÚV verði með þeim hætti sem það er í dag og ég vil efla RÚV. Ég hef hins vegar alveg verið opin fyrir því að RÚV fari af auglýsingamarkaði. En það þýðir þá auðvitað að við þurfum að vera tilbúin til að leggja aukna fjármuni í Ríkisútvarpið af hálfu ríkisins. Það veit ég að við munum ekki alveg ná saman um. Við þurfum auðvitað bara að fá fram einhverjar greiningar á stöðunni. Það er númer eitt, tvö og þrjú. Á þessu rekstrarumhverfi. Hvernig það er. Og svo getum við auðvitað metið hvert fyrir sig hversu heilbrigt eða óheilbrigt við teljum það vera. Þannig að ég held að það að setja það upp þannig að viðkomandi sé háður ríkinu, fjárlögum eða einhverju slíku, það má vel vera. En þá getum við líka sagt eins og ég nefndi t.d. skattkerfið. Ef þetta er fært niður í lægra þrepið er það bara afgreitt mál einu sinni, til dæmis. Það er ein leið sem þýðir ekki að viðkomandi sé háður ríkinu í sjálfu sér nema næsta ríkisstjórn ákveði svo að færa það á milli þrepa aftur. Þannig að það eru margar leiðir til út úr þessu.

En ég held að við getum verið sammála um að í ljósi þeirra aðstæðna sem við höfum upplifað núna undanfarin ár þurfum við að styðja og styrkja bæði rannsóknarblaðamennsku almennt og landsbyggðarfjölmiðlana þannig að við heyrum raddir allra alls staðar, eins mögulegt og það er. Það er líka dapurlegt fyrir þá sem hafa verið að reyna að sinna þessari þjónustu að sjá mál eins og þetta lagt fram enn eina ferðina, þó í vissulega breyttri útfærslu núna, því þetta snýr að sjónvarpi líka, ekki bara blöðum eða neti, ef það nær ekki enn fram að ganga, (Forseti hringir.) ef vilji þingsins er ekki til þess að styðja öfluga lýðræðislega umræðu úti um allt land.



[18:19]
Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Frú forseti. Við ræðum þessa ágætu þingsályktunartillögu um úttekt á starfsemi fjölmiðla utan höfuðborgarsvæðisins. Ég tel mjög brýnt að fá þessa tillögu afgreidda. Við samþykktum tillögu á síðasta þingi frá fyrrverandi menntamálaráðherra um að skipaður yrði starfshópur til að kanna og bæta möguleika einkarekinna fjölmiðla, en mér finnst sú tillaga ekki beint ná yfir það sem kemur fram í þessari tillögu þar sem vissulega er verið að horfa á einkarekna fjölmiðla en samt við mjög sérstakar aðstæður vítt og breitt um landið. Í dag er staða margra þessara fjölmiðla, héraðsfréttablaðanna og líka þeirra sem eru með fjölmiðlun sína á netinu og í blaðaformi, mjög erfið. Ég heyri hjá sumum að það sé bara spurning um mánuði hvað menn haldi út í raun og veru. Það yrði sjónarsviptir að þeim fjölmiðlum úr flórunni. Því að þeir eru vissulega mikilvægir, bæði fyrir viðkomandi svæði og líka fyrir fólk á höfuðborgarsvæðinu sem hefur aðgengi að þeim netmiðlum, er kannski að fylgjast með fréttum af sinni gömlu heimabyggð og sjá hvað er að gerast á því svæði. Það er bara hollt og gott að allir landsmenn geti farið inn á landsbyggðarfjölmiðla á netinu eða verið í áskrift til þess að kynna sér hvað margt er gott að gerast úti á landi, geti kynnt sér umræðuna og hvernig andinn er, hvort sem er menningin á viðkomandi svæði eða pólitíkin eða hvað sem er, uppákomur sem kannski komast ekki í stóru fjölmiðlana en eru samt merkilegar í því tilliti að þær eru mikilvægar og uppbyggilegar fyrir viðkomandi svæði.

Landsbyggðarfjölmiðlar styrkja líka ímynd íbúa á viðkomandi svæði. Þeir endurspegla bæjarlífið og lífið í sveitunum og það sem er að gerast og styrkja sjálfsmynd svæðisins sem ég tel líka mjög mikilvægt og þarft. Þess vegna væri mikill sjónarsviptir að þeim fjölmiðlum sökum þess að mjög erfitt er að halda þessum fjölmiðlum úti. Margt hefur komið til. Dreifingarkostnaður og það að dreifa viðkomandi blaði frítt. Sumir hafa reynt það og byggja bara á auglýsingum en hafa samt verið með blað en ekki bara einhverjar auglýsingar og sjónvarpsdagskrár eins og sumir eru með í því formi. Það er allt annar handleggur. En menn geta ekki endalaust verið að hanga sitt hvorum megin við línuna, að vera í tapi, og menn geta ekki lengi rekið slíka fjölmiðla ef taprekstur er á þeim.

Ég kynnti mér þessi mál varðandi það sem stendur mér nærri í því kjördæmi sem ég bý í og er þingmaður fyrir. Með leyfi forseta langar mig aðeins að koma inn á umsögn sem ritstjóri Skessuhorns, Magnús Magnússon, lét mig hafa sem hann sendi inn í þennan starfshóp um einkarekna fjölmiðla, og með leyfi hans að reifa hugmyndir um hvað gæti komið til varðandi það að styrkja landsbyggðarfjölmiðla heilt yfir og ætla að stikla á stóru í þeim efnum.

Hann nefnir hér:

„Ríkið styrki með beinum hætti útgáfu fjölmiðla á landsbyggðinni sem hafa þrjá eða fleiri starfsmenn í ritstjórn, a.m.k. fimm stöðugildi alls. Horft verði til stuðnings Norðmanna sem veitt hafa byggðastyrki til þess að fjölmiðlar geti rækt skyldur sínar við landsbyggðina.“

Hann nefnir að Byggðastofnun verði falið að halda utan um slíkt byggðasystem hér á landi og landsbyggðinni verði skipt upp í sjö svæði og tryggt að öll svæði hafi fjölmiðla sem uppfylli þetta.

Svo er það dreifingaraðilinn, Íslandspóstur. Hann nefnir að tryggja þurfi í gjaldskrá Íslandspósts að gjald fyrir dreifingu merktra blaða til áskrifenda fari aldrei yfir tvöfalt verð sambærilegra blaðasendinga í svokölluðum fjölpósti. Nú er það svo að hvert eintak af áskriftarblaði kostar tíu sinnum meira í dreifingu en dreifing á sambærilegu blaði í fjölpósti. Þetta er auðvitað gífurlegur mismunur og íþyngjandi fyrir þá aðila sem standa í að halda úti slíkum miðli. Menn telji að þetta sé bara hrein og klár mismunun. Fríblöð á Íslandi séu frekar veikburða en með gjaldskrá sinni sé fyrirtæki eins og Íslandspóstur að vega að lífsmöguleikum blaða sem selja áskriftir og ættu af þeim sökum að vera einhvers megnug. Ritstjóri tekur þann pól í hæðina að það sé ekki hlutverk Íslandspósts að veikja grundvöll fyrir þessum fréttamiðlum á landsbyggðinni. Ég get alveg tekið undir það. Ég tel að Íslandspóstur megi alveg endurskoða þetta gagnvart þeim aðilum. Ég veit að hann hefur gert það að einhverju leyti í gegnum tíðina en betur má ef duga skal.

Hann nefnir hér einnig í umsögninni að hátt hlutfall af kostnaði við rekstur lítilla fjölmiðla sé tryggingagjaldið sem ríkið leggur á laun í öllum fyrirtækjum. Horfa megi til þess að lækka það. Svo er eitt sem er umhugsunarvert, því að framsögumaður nefndi að sum þessara blaða og fjölmiðla séu mjög háðir einu stóru fyrirtæki í viðkomandi kjördæmi. Stór fyrirtæki eru auðvitað ekki slæm í sjálfu sér en það er ekki gott að vera háður einhverju einu stóru fyrirtæki með auglýsingum í hverju blaði vikulega til þess að hafa burði til að halda útgáfunni gangandi. Það er ekki gott og kannski ekki mjög gæfulegt til framtíðar.

En hann nefnir í umsögninni að það þurfi sem dæmi að skylda opinberar stofnanir, eins og ríkisskattstjóra eða ráðuneyti, heilbrigðisstofnanir og skóla og aðrar opinberar stofnanir, til að auglýsa í staðarmiðlum til að ná til allra landsmanna. Ég tek hjartanlega undir þetta. Mér finnst þetta vera skylda okkar sem byggjum landið, að opinberir aðilar nýti fjölmiðla sem eru líka úti á landi því að við vitum að dagblöð í dag fara ekki endilega inn í hvert hús á landsbyggðinni og ná ekki til allra, hitt sé miklu eðlilegra að staðbundnir fjölmiðlar úti á landi séu nýttir.

Síðan má segja að sú hætta sé fyrir hendi að ef þessir fjölmiðlar fari að gefa upp öndina verði enn þá meiri samþjöppun í fjölmiðlageiranum. Ég tala bara út frá mínu hjarta, mér finnst að samþjöppunin sé nú næg fyrir og umhugsunarvert í hvaða átt hún þróast. Þess vegna skiptir miklu máli að standa líka vörð um þessi litlu héraðsfréttablöð og miðla, hvort sem eru á stafrænu formi eða í blaðaformi, því að það stuðlar að lýðræðislegri umræðu, stuðlar að bættri sjálfsmynd og upplýsingum innan viðkomandi landsvæða og er eitthvað sem getur líka verið til þess að tengja betur umræðuna á milli höfuðborgarsvæðisins og landsbyggðarinnar, að hafa aðgengi að þessum fjölmiðlum til að sjá hvað er í gangi á landsbyggðinni og öfugt.

Svo ég styð heils hugar að þingsályktunartillagan fái jákvæðar undirtektir og verði vonandi samþykkt í þetta skipti og fái afgreiðslu og þessi starfshópur verði settur af stað.



[18:29]
Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Virðulegur forseti. Fjölmiðlaflóran er blómleg á Íslandi. Hún er blómlegri en við þekktum fyrir 20 árum og fleiri möguleikar eru fyrir okkur til að tengjast hvert öðru, en engu að síður hafa fjölmiðlar í dreifbýli mikilvægu hlutverki að gegna, bæði staðbundnu og á landsvísu. Þeir eru gjarnan eins konar gátt inn í samfélag sem annars er mörgum fleiri hulin. Þrátt fyrir umrót og nýja tækni gegna þeir enn mikilvægum verkefnum sem frétta- og menningarmiðlar og eru kynningarvettvangur á sínu svæði. Þeir draga fram sérstöðu í byggðunum og halda á stundum uppi vörnum fyrir mikilvæg, svæðisbundin hagsmunamál. Þessir fjölmiðlar eiga hins vegar á brattann að sækja í umróti tímanna. Æ fleiri miðlar eru nú í beinu eða óbeinu eignarhaldi fjármálaafla, fjárfesta eða stórra fyrirtækja á sínu svæði eða á landsvísu. Héraðsfréttablöðin, sem flest ef ekki öll halda líka úti vefútgáfum, eru ekki öll áskriftarblöð. Með því eru þau eðli málsins samkvæmt háð dreifingaraðila, sem er yfirleitt Íslandspóstur. Þetta er einn af hinum veigamiklu útgjaldaþáttum, eins og fram hefur komið í máli fyrri ræðumanna.

Einkareknir, hlutlausir og gagnlegir fjölmiðlar á landsbyggðinni eru í hreinni útrýmingarhættu að mati útgefenda og hættan er sú að þeim muni snarfækka á næstu misserum og mánuðum verði þeim ekki hjálpað til lífs með einum eða öðrum hætti. Þetta er að mínu mati varhugaverð þróun og ljóður á ráði þeirra sem unna hinu frjálsa orði. Þarna er um hagsmuni og sérstöðu landsbyggðar og íbúanna þar að ræða. Um leið er það hagur allra landsmanna að þessir miðlar hverfi ekki af markaði heldur fái að dafna í sínu hlutverki og á sínum forsendum. Til þess þarf að líta til ívilnunar og skilnings á sérstöðu þeirra og mikilvægi.

Það eru nokkur atriði sem upp úr standa eftir samtöl við útgefendur í mínu kjördæmi. Að áliti útgefenda ætti ríkið að styrkja þá fjölmiðla sem stunda þau verkefni sín af fullri alvöru, þ.e. með útgáfu með skýr og gegnsæ viðmið, með starfsmenn sem vinna að fréttaöflun og gefa miðil sinn út og hafa hann virkan á ársgrundvelli. Nefnt hefur verið hvernig Norðmenn haga sínum málum og fleira mætti nefna. Í starfi nefndarinnar verður spennandi að sjá hvernig því verkefni vindur fram, hvort litið verður á þetta sem mikilvægt byggðamál og tryggt að eignarhald slíkra fjölmiðla verði á heimaslóðum eða alla vega girt fyrir samþjöppun.

Fjallað hefur verið um, eins og ég gat um áðan, gjaldskrá Íslandspósts og hvernig áskriftarblöð verða undir í samkeppninni við fjölpóstinn. Útgefendur líta á þetta sem hreina aðför að sínu erfiða útgáfustarfi. Gjaldskráin fyrir fjölpóstinn er svo lág að auglýsendur sjá jafnvel fremur hag sinn í að prenta auglýsingar og senda þannig inn á heimili, en auglýsingar eru þessum aðilum gríðarlega mikilvægar.

Fríblöð á Íslandi eru öll með tölu fremur veikburða og þau þurfa allar mögulegar leiðir til tekjustofna og velta auglýsingarnar miklu þar. Eins og fram kom í máli hv. þm. Lilju Rafneyjar Magnúsdóttur er ein hugmyndin sú að opinberir aðilar snúi sér til dreifbýlisfjölmiðlanna í ríkari mæli en þeir gera, en þetta er ekki einfalt því að auglýsingastarfsemi stórra fyrirtækja er komin til þjónustuaðila sem horfa á upplagstölur og telja að litlir dreifbýlisfjölmiðlar séu ekki samkeppnisfærir við stóru blöðin.

Ef stjórnvöld vilja leggja sitt af mörkum til að tryggja áfram lýðræðisþróun og samfélagsumræðu í gegnum einkarekna landsbyggðarfjölmiðla eru til þess leiðir sem drepið hefur verið á, þ.e. að við beinum stuðningi í formi auglýsinga með einhverjum hætti til þeirra. Það er, eins og ég nefndi, allt of mikið um að opinberar stofnanir sem staðsettar eru í Reykjavík bindi sig við Reykjavíkurfjölmiðlana eða þéttbýlisfjölmiðlana og telji að það þjóni helst tilganginum að auglýsa á því svæði. En dagblöð berast nefnilega ekki alltaf út um landið, stundum seint og stundum ekki, og hafa á þeim svæðum ekki jafn mikla útbreiðslu og landsbyggðarfjölmiðlarnir.

Útgefendur á landsbyggðinni vilja orða þetta þannig að dagblöðin séu í dag eins og héraðsfréttablöð höfuðborgarsvæðisins og útbreiðsla þeirra á landsbyggðinni sé takmörkuð að þeirra mati.

Á það hefur verið bent og um það fjallað í ræðu og riti, m.a. á hina háa Alþingi, að auka þurfi gagnsæi eignarhalds á fjölmiðlum og koma í veg fyrir samþjöppun, eins og átt hefur sér stað á undanförnum árum. Á bak við fyrirtæki eru jafnvel ósýnileg peningaöfl sem sækja fram með ofurafli. Skilja má af samtölum við útgefendur á landsbyggðinni að fjölmiðlanefnd, Samkeppniseftirlitið og hugsanlega fleiri eftirlitsstofnanir hafi einskis mátt sín í skilgreindu hlutverki sínu og að leita þurfi allt til Rússlands til að finna jafn litla virðingu borna fyrir nauðsyn þess að verja hlutleysi og heilbrigði fjölmiðla.

Virðulegur forseti. Stoðir dreifbýlisfjölmiðla eru veikar. Einkareknir, hlutlausir og gagnlegir fjölmiðlar á landsbyggðinni eru í hreinni útrýmingarhættu og mun snarfækka á næstu misserum og mánuðum verði þeim ekki hjálpað til þess að bjarga sér áfram. Það er að mínu áliti hagur íbúa á landsbyggðinni og þar með hagur allra landsmanna að þeir hverfi ekki af markaði. Ef stjórnvöld vilja leggja sitt af mörkum til að tryggja áfram lýðræðisþróun og gott samtal á landsbyggðinni styð ég eindregið að hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra skipi þennan umrædda starfshóp sem vinni hratt og markvisst að því að tryggja áfram blómlega og metnaðarfulla fjölmiðlun úr öllum kimum samfélagsins.



[18:38]
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegi forseti. Mig langar að byrja á því að fagna tillögunni sem hér liggur fyrir og þakka framsögumanni hennar fyrir að leggja hana fram. Mér láðist að skrá mig á þingsályktunartillöguna og kýs því að nota þetta tækifæri til að lýsa yfir eindregnum stuðningi mínum við hana. Mér finnst það skipta miklu máli fyrir tjáningarfrelsið að fólk á landsbyggðinni hafi aðstöðu til að tjá hug sinn um málefni sinnar heimabyggðar. Eins finnst mér það skipta miklu máli fyrir upplýsingafrelsið að íbúar á landsbyggðinni fái gagnvirkar og áreiðanlegar upplýsingar um það sem þar gengur á.

Ég vil líka taka undir með þeim hv. þingmönnum sem hafa rætt um mikilvægi þess að eignarhald og rekstrargrundvöllur fjölmiðla á landsbyggðinni sé bæði skýr og öruggur, þ.e. valdi því ekki að ritstjórnarlegu sjálfstæði þessara miðla sé stefnt í voða vegna þess að þeir þurfi of mikið að reiða sig á ákveðinn fjármögnunaraðila eða auglýsanda. Vil ég í þessu samhengi vísa í svokölluð kælingaráhrif sem Mannréttindadómstóll Evrópu hefur ítrekað vísað til að geti haft mjög neikvæð og jafnvel ólögmæt áhrif á tjáningarfrelsi, þ.e. þegar aðstæður eru á þann veg að almenningur og einstaklingar eru fældir frá því að tjá sig af ótta við afleiðingar. Það getur meðal annars verið á þann veg að einstaklingar óttist að tjá sig gegn aðalstyrktaraðila sínum eða að einstaklingar óttist að tjá sig um vinnuveitendur sína. Svo er mjög mikilvægt fyrir hið svokallaða upplýsingafrelsi að almenningur, þ.e. íbúar í landi, geti verið öruggir um að þær upplýsingar sem miðlarnir sem þeir sækja í veita séu veittar af heilum hug og ekki á leyndum forsendum sem mögulega geta verið til staðar þegar um leynt eignarhald á fjölmiðlum er að ræða.

Eins vil ég ræða aðeins um að það er, eins og kemur fram í greinargerð með þingsályktunartillögunni, algengt í löndunum í kringum okkur að ákveðnir landshlutar hafi sína eigin fjölmiðla. Ég man vel eftir því úr námi mínu erlendis, bæði í Hollandi og Þýskalandi, að þar voru landsbyggðarsjónvarpsstöðvar og landsbyggðarútvarpsstöðvar og héraðsmiðlar einnig. Það er einstaklega mikilvægt að við rennum tryggum stoðum undir slíkt, enda er oft mikill munur á því sem þykir fréttnæmt á landsvísu og síðan því sem þykir fréttnæmt á hverju svæði fyrir sig.

Að lokum vil ég nefna að mér finnst líka full ástæða til að gera úttekt sem þessa á stöðu fjölmiðla á landsvísu. Ég tel frjálsa fjölmiðlun á Íslandi yfir höfuð eiga undir högg að sækja og að eignarhald á þeim sé ógagnsætt og að oft sé ekki hægt að reiða sig almennilega á þær upplýsingar sem fram koma í fjölmiðlum af því að maður veit ekki hver á þá og hverra hagsmuna þeir gæta með fréttaflutningi sínum. Af greinargerðinni fæ ég skilið að slík úttekt hafi ekki verið gerð frá 2005 og verður að segjast að mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan þá og ýmsar breytingar átt sér stað í íslensku þjóðfélagi. Ég tel því fulla ástæðu til að gera heildræna úttekt. Þó að vissulega sé ástæða til að leggja sérstaka áherslu á stöðu fjölmiðlunar á landsbyggðinni og leiðir til að efla hana megum við ekki gleyma því að staða fjölmiðla á Íslandi þarfnast nánari skoðunar og það hvernig við getum tryggt betur upplýsinga- og tjáningarfrelsi borgaranna þegar kemur að fjölmiðlafrelsi.



[18:42]
Flm. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég ætlaði rétt að koma hingað til að ljúka þessari umræðu. Ég þakka fyrir hana. Ég heyri að þingmenn eru almennt spenntir fyrir henni. Hvað varðar störf nefndarinnar er ágætt að minna á að margs konar rannsóknir hafa farið fram og ýmislegt hefur verið gert. Þetta er ekki alveg nýtt af nálinni. Árið 2014 var haldinn í Háskóla Íslands hádegisfundur sem bar yfirskriftina „Fjölmiðlar, lýðræði og samfélagsumræða“. Þar fjölluðu nokkrir aðilar um þessi mál, þ.e. um lýðræðislegt hlutverk fjölmiðla — þessa boðmiðlun, hvernig hún hefði verið að breytast og annað slíkt. Þar á meðal var Hrafnkell Lárusson, doktorsnemi í sagnfræði, sem hefur skrifað töluvert og rannsakað svæðismiðla, sérstaklega fyrir austan. Sama má segja um Birgi Guðmundsson, dósent við hug- og félagsvísindasvið Háskólans á Akureyri. Hann er líklega sá íslenski fræðimaður sem hefur sinnt hvað mest rannsóknum á svæðisbundinni fjölmiðlun. Hann birti grein árið 2012 og tengir það einmitt við rannsóknarskýrslu Alþingis sem ég held að sé ágætt að rifja upp. Í 8. bindi er hlutverk fjölmiðla gert að umtalsefni, en þríþætt hlutverk þeirra „felur í senn í sér aðhaldshlutverk, upplýsingahlutverk og umræðuhlutverk“.

Um það segir:

„Aðhaldshlutverkið þýðir að fjölmiðlar leitist við að vernda borgarana fyrir misbeitingu valds, svo sem með því að veita stjórnvöldum og fjármálalífinu aðhald. Upplýsingahlutverkið felur í sér að fjölmiðlar láti borgurunum í té áreiðanlegar upplýsingar og vandaða greiningu á samfélagsmálum. Öflugir sjálfstæðir fjölmiðlar skapa þannig forsendur fyrir upplýsta almenna umræðu sem er grundvallaratriði í lýðræðisríki.“

Eins og við höfum verið að ræða hér í dag er mjög mikilvægt að raddir alls staðar að af landinu heyrist. Það hefur því miður ekki verið þannig. Umræðan hefur ekki endilega endurspeglað sjálfsmynd alls landsins heldur miklu frekar landsdekkandi miðla sem horfa í sitt nærumhverfi. Ég get líka nefnt sem dæmi að þingmaður utan af landi er kannski boðaður í kortersviðtal klukkan tvö á laugardegi eða eitthvað slíkt, er jafnvel kominn heim í hérað, þannig að það er ekki endilega einfalt fyrir okkur þingmenn að taka þátt í samfélagsumræðunni sem slíkri. Þetta á ekki bara við um þingmenn heldur marga aðra sem hafa lítil tök á að koma málefnum sinna svæða á framfæri. Úr þessu hefur því miður verið dregið, eins og ég sagði áðan, hvað varðar hlutverk RÚV, sem er þó aðeins að reyna að klóra í bakkann, vegna þess að það fær ekki nægilegan fjárstyrk héðan frá þingi. Við þurfum auðvitað að reyna að breyta og bæta til þess að efla það hlutverk RÚV en líka sjálfstæðu fjölmiðlana sem dreifa sér um allt land. Ég nefndi sem dæmi N4 og við þekkjum fleiri stöðvar, Hringbraut, ÍNN o.fl. En ég held að fyrir utan blöðin sé mikilvægt að þessir aðilar þurfi ekki að búa við að vera í samkeppni, þ.e. kaupa sér dreifingu hjá samkeppnisaðila.

Frú forseti. Ég þakka fyrir umræðuna og vona svo sannarlega að allsherjar- og menntamálanefndarfulltrúar verði nú kraftmiklir í ljósi þess að það er ekki mjög mikið starf í nefndinni, þ.e. að fá inn gesti og reyna að drífa þessi mál í gegn. Það er eiginlega óþolandi að verið sé að leggja hér fram mál frá 2005 eða þar um bil, að ég held, með einhverri uppfærslu að sjálfsögðu.



Till. gengur til síðari umr. 

Till. gengur til allsh.- og menntmn.