141. löggjafarþing — 47. fundur
 5. desember 2012.
fjárlög 2013, frh. 2. umræðu.
stjfrv., 1. mál. — Þskj. 1, nál. 567, 589 og 590, brtt. 568, 569, 570, 571, 580 og 581.

[15:28]
Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Það endurspeglaðist kannski ágætlega í umræðunni áðan í óundirbúnum fyrirspurnum til ráðherra, hvert vandamál okkar er þegar við ræðum fjárlagafrumvarp fyrir næsta ár. Vandamálið er auðvitað í grunninn sú leið sem ríkisstjórnin hefur valið á sínum starfsferli. Það að gæta ekki að eðlilegri tekjuöflun ríkissjóðs sem byggðist á auknum umsvifum í atvinnulífinu, auknum gjöldum sem mundu skila sér í gegnum aukin umsvif, minna atvinnuleysi og meiri tekjuöflunartækifærum fyrir heimilin í landinu. Það eru í raun þau grundvallarmistök sem hafa verið gerð. Hér hefur verið farin sú leið að hækka gjöld, hækka skatta á atvinnulíf og á heimili til að ná saman í rekstri ríkissjóðs. Þá hefur látið á sér standa sú nauðsyn aukinna fjárfestinga sem allir kalla eftir með þeirri framleiðsluaukningu, m.a. á verðmætum útflutningsafurðum, sem slíkt mundi hafa í för með sér.

Við horfum á það núna að fyrir fjárlög á næsta ári eiga að koma mörg gjöld til hækkunar. Það hafa verið nefnd bensíngjöld, útvarpsgjald, tóbaksgjald, vörugjöld á bílaleigubíla og á ferðaþjónustuna, hækkaður virðisaukaskattur á ferðaþjónustuna og tryggingagjöld. Það á að framlengja raforkuskattinn á stóriðjuna, kolefnisgjaldið á að koma til og gjald á sölu á heitu vatni, svo einhver dæmi séu tekin. Allt mun það með einum eða öðrum hætti hafa mjög letjandi áhrif á þær atvinnugreinar sem í því lenda og það mun hafa bein áhrif á skuldasöfnun heimilanna í landinu, sem er ærin fyrir.

Það var komið inn á áðan að bara hækkun á tóbaksgjaldi mun hækka skuldir heimila í landinu um 3 milljarða. Hæstv. forsætisráðherra gat engan veginn svarað því hver heildaráhrifin af frumvarpi fyrir næsta ár væru á heimilin í landinu. (Forsrh.: Það eru nú ekki nema 2% …) Hún nefndi að hér kæmi til aukning í fæðingarorlofi, barnabótum og vaxtabótum. Það er það sem þetta snýst um hjá þessari ríkisstjórn. Það er sú hugsanaskekkja sem er í gegnum alla þá mynd og í gegnum þeirra ferli. Það á að hækka bætur og reyna að lyfta þeim í stað þess að búa til tekjur og gera fyrirtækjunum kleift að auka tekjumöguleika sína.

Við getum horft á hvaða afleiðingar það hefur til dæmis í ferðaþjónustunni, sú stórkostlega hækkun á virðisaukaskatti á gistiþjónustu sem er að kollvarpa öllum þeim áætlunum sem þar voru í myndinni fyrir næsta ár. Við höfum heyrt af því að menn dragi við sig að fara í fjárfestingar sem voru fyrirhugaðar og voru jafnvel komnar af stað eða höfðu verið settar á stofn. Viðskipti við erlend ferðaþjónustufyrirtæki voru sett í uppnám og að öllu leyti er verið að gera greininni mjög erfitt að standa við og undir þeim fjárfestingum sem var lagt af stað með. Óvissan er algjör. Það kemur í kjölfar markaðsátaks sem stjórnvöld hafa staðið ágætlega að með ferðaþjónustunni og á þeim tíma þegar greinin er í vexti og miklar væntingar bundnar við að hér gæti orðið að minnsta kosti einhver frekari vöxtur. Í það minnsta gætum við haldið fengnum hlut. Það hefur verið mikilvægt innlegg í okkar verðmætasköpun á erfiðum tímum en þá er farið í að gera þar alvarlega atlögu, eins og raunar að öðrum atvinnugreinum í landinu.

Við sjáum líka þær álögur sem fyrirhugaðar eru á fjármálafyrirtækin í landinu. Hvar mun það koma fram? Það mun auðvitað lenda beint á neytendum. Það er alveg ljóst að það verða að lokum viðskiptavinir bankanna sem munu greiða þær álögur. Á einn eða annan hátt lendir það á þeim sem veikastir standa, kannski þeim sem skulda mest.

Það sama á við um vörugjaldahækkanir sem menn áttu alls ekki von á. Vörugjöld á matvæli sem nema hundruðum milljóna, eins og gert er ráð fyrir í frumvarpinu, munu auðvitað bara lenda á heimilunum í landinu. Það eru ekki fyrirtæki sem borga það. Það eru neytendur sem borga. Það eru neytendur sem borga og það hefur áhrif á kaupgetu heimilanna. Það verður dýrara að fara út í búð og kaupa í matinn og það hefur áhrif á skuldir heimilanna.

Það sama má segja ef tekin eru atriði eins og framlenging á raforkuskattinum. Árið 2009 var undirritað samkomulag milli stjórnvalda og Samtaka atvinnulífsins og stórnotenda raforku um fyrirframgreiðslu tekjuskatts og tímabundna álagningu orkuskatts sem félli niður að þremur árum liðnum. Nú er það einhliða framlengt. Hvaða áhrif hefur það að menn setjast ekki í það minnsta niður með þeim fyrirtækjum og reyna að semja um það til einhvers lengri tíma? Var það útilokað? Það var ekki reynt. Þetta er bara einhliða ákvörðun. Hvar mun það hitta? Þetta mun hitta fyrir hvatann í fjárfestingu sem er kallað svo mikið eftir og þeim fyrirtækjum sem hafa verið að skoða Ísland sem mögulega fjárfestingarkosti er sköpuð óvissa, sem veldur því enn frekar að sú fjárfesting sem er okkur svo nauðsynleg láti á sér standa.

Af því tilefni er áhugavert að rifja upp yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar sem gefin var út og tengd kjarasamningum á vordögum 2011. Þar segir meðal annars að horfa verði til þess við ákvörðun atvinnutryggingagjalds að veruleg óvissa ríki um þróun atvinnuleysis á næstu árum. Gangi fyrirliggjandi spár um lækkun atvinnuleysis á samningstímanum eftir myndist svigrúm til að lækka tryggingagjaldið. Það lækkar ekki. Þarna eru enn ein svik ríkisstjórnarinnar við atvinnulífið þrátt fyrir að dregið hafi úr atvinnuleysi og menn geta svo sem deilt um hverjar ástæður þess eru. Ekki liggur það í fjölgun starfa í landinu vegna þess að ef þær tölur eru skoðaðar, sem er hinn eðlilegi mælikvarði, hefur störfum ekki fjölgað heldur hefur dregið úr atvinnuleysi út af öðrum atriðum, eins og til dæmis brottflutningi af landinu, fólk hefur farið í nám og fólki á vinnumarkaði hefur fækkað. Það hefur auðvitað mikil áhrif á þá kjarasamninga sem eru í landinu. Með þessu er verið að ráðast að forsendum þeirra og möguleikum fyrirtækjanna til að standa við þá án þess að hækka verðlag með einum eða öðrum hætti.

Það segir einnig í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 5. maí 2011 að markmiðum um auknar fjárfestingar á næstu árum verði ekki náð nema með verulegu átaki í fjárfestingu fyrirtækja. Það segir að stjórnvöld vilji greiða fyrir aukinni fjárfestingu á sem flestum sviðum, einkanlega þeim sem stuðla að auknum útflutningstekjum. Það sjá allir að hrópandi ósamræmi er í þeirri yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar og þeirri leið sem hún hefur valið til að takast á við efnahagsvanda þjóðarinnar. Vandræðin sem ríkisstjórnin er komin í endurspeglast núna í þeim fjárlögum sem við erum að ræða fyrir næsta ár þar sem skorturinn á aukinni tekjuöflun, aukinni fjárfestingu og verðmætasköpun er í raun grunnforsenda fyrir því að svo illa er komið fyrir okkur.

Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er líka komið inn á að lögð er áhersla á að fjárfestingar í virkjunum og gerð raforkusamninga verði á viðskiptalegum grundvelli og taki tillit til umhverfisgæða. Þar segir líka að rammaáætlun verði lögð fram á næstu vikum, við erum að tala um vorið 2011, og hún verði afgreidd á haustþingi 2011. Nú erum við komin að árslokum 2012 og rammaáætlun í skötulíki er enn óafgreidd af þinginu. Hún getur engan veginn uppfyllt þær væntingar sem settar voru í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um að hvetja til aukinnar fjárfestingar, m.a. á orkusviðum. Það segir í þeirri yfirlýsingu að ljóst sé að áhugi erlendra aðila á nýfjárfestingum sem byggja á nýtingu innlendrar orku sé mikill. Landsvirkjun muni halda áfram umfangsmiklum rannsóknum í Þingeyjarsýslu og eigi þegar í viðræðum við nokkra aðila um fjárfestingar og orkukaup. Gangi þau áform öll eftir gæti verið um að ræða fjárfestingu upp á 70–80 milljarða kr., auk fjárfestingu orkukaupendanna.

Í yfirlýsingunni frá 5. maí 2011 segir að þess sé fastlega vænst að samningar takist fyrir lok þessa árs um í það minnsta tvö umtalsverð fjárfestingarverkefni sem ráðist verði í, m.a. á Norðausturlandi, og framkvæmdir geti hafist þar strax á næsta ári, sem er árið 2012. Nú er árið 2012 að verða liðið og hver er ástæðan fyrir því að þær hugmyndir ríkisstjórnarinnar hafa að engu orðið?

Það segir í yfirlýsingu frá 5. maí 2011 að mikilvægt sé að kynna erlendum fjárfestum Ísland sem fjárfestingarkost með markvissum aðgerðum og stefnt sé að því að veita aukna fjármuni til markaðssóknar. Stjórnvöld telja nauðsynlegt að auka beina erlenda fjárfestingu hér á landi og ryðja burt hindrunum sem helst standa í vegi hennar og taka mið af niðurstöðum nefndar iðnaðarráðherra um stefnumótun fyrir beinar erlendar fjárfestingar. Það er alveg eins og hægri höndin viti alls ekki hvað sú vinstri er að gera í ríkisstjórninni vegna þess að aðgerðum er ekkert stýrt í samræmi við þessar yfirlýsingar. Við sjáum það koma fram — í því óstöðuga umhverfi sem ríkisstjórnin hefur skapað fyrirtækjunum í landinu á sama tíma og sagt er ítrekað í yfirlýsingum og borið á borð fyrir þjóðina að hér eigi að efla fjárfestingu, auka svigrúm fyrirtækja og hvetja til aukinna fjárfestinga — að markmiðum um auknar fjárfestingar verði ekki náð nema með verulegu átaki í fjárfestingum fyrirtækja. Á sama tíma erum við að gera fyrirtækjunum enn erfiðara fyrir með sína starfsemi. Við erum að hækka gjöld, við lækkum ekki tryggingagjaldið, leggjum á aukna skatta og svo má telja áfram. Svona er sú hörmungarsaga.

Virðulegi forseti. Þarna liggur hundurinn grafinn þegar farið er yfir fjárlög ríkisins fyrir næsta ár, þ.e. hversu illa hefur tekist til við að standa við stöðugleikasáttmálann sem ríkisstjórnin gerði við atvinnulífið á sínum tíma. Hversu illa hefur tekist til við að fylgja eftir þeim yfirlýsingum sem hafa verið gefnar út og að sá hagvöxtur sem þær leiðir, ef þær hefðu verið farnar, hefðu skapað, þær hefðu gengið eftir. Sá hagvöxtur er grunnforsenda þess að við getum náð vopnum okkar.

Ég ætla að staldra aðeins lengur við yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 5. maí 2011. Það er nauðsynlegt að rifja hana upp þegar rætt er um fjárlög fyrir næsta ár og verið er að gera sér grein fyrir því hversu lítið hefur gengið eftir af markmiðum ríkisstjórnarinnar, fögrum fyrirheitum, sem hefðu getað breytt mjög miklu í forsendum við gerð fjárlaga.

Í yfirlýsingunni frá 5. maí 2011 er talað um að miklir sóknarmöguleikar séu í ferðaþjónustunni. Það sé verið að reyna að fara í sérstakt átak til að fjölga ferðamönnum yfir vetrartímann. Það verði sameiginlegt átak sveitarfélaga, ríkisins og ferðaþjónustunnar og fjölga megi ferðamönnum um allt að 50 þúsund yfir vetrartímann og skapa þannig um eitt þúsund störf. Það hefur farið ágætlega af stað en þá koma menn með gjaldtöku á greinina sem þeir sérfræðingar sem um það fjalla telja að muni hafa mjög neikvæð áhrif á þann vöxt. Til hvers erum við þá að henda hundruðum milljóna úr ríkissjóði í sameiginlegt átak með ferðaþjónustunni til að fara síðan í skattlagningu aftur? Af hverju létum við þá ekki bara ferðaþjónustuna eina um þetta? Létum hana í friði, leyfðum henni að vaxa í friði og reyndum að hvetja atvinnugreina áfram og láta hana þannig skila þjóðarbúinu miklu meiri tekjum heldur en nú blasir við að hún muni gera?

Sjávarútvegurinn er í alvarlegri stöðu eins og raun ber vitni. Það var farið yfir í ræðum áðan hvernig sú alvarlega staða sem þar er uppi birtist okkur. Við sjáum þær viðvaranir ganga algjörlega eftir sem margir af okkar helstu sérfræðingum og hagsmunaaðilum í greininni komu með þegar var verið að ræða um frumvarp til veiðigjalda og veiðiskatts og breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu. Þegar kom að því máli í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá því 2011 sagði að þegar mundi liggja fyrir sú hagfræðilega greining sem unnin yrði vegna áhrifa fyrirhugaðra breytinga á rekstrarskilyrði og starfsumhverfi sjávarútvegsins. ASÍ og Samtök atvinnulífsins mundu tilnefna einn fulltrúa hvort ásamt fulltrúum stjórnarflokkanna til að fara yfir niðurstöðu greiningarinnar. Það yrði gert til að ná frekari sátt um þá útfærslu sem mætti tryggja sjávarútveginum góð rekstrarskilyrði, samanber yfirlýsingu forsætisráðherra og fjármálaráðherra frá því 28. október 2009.

Allt þetta kjörtímabil hefur sjávarútvegurinn verið í algerri óvissu. Mjög mismunandi hugmyndir hafa verið uppi innan stjórnarflokkanna um hversu langt ætti að ganga í breytingum á fiskveiðistjórnarkerfinu og í álagningu veiðigjalds. Við í stjórnarandstöðunni höfum talað um það nánast einum rómi, alla vega fulltrúar og þingmenn Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins, að fara verði varlega og vanda hvert skref vegna þess að í húfi eru miklir hagsmunir fyrir þjóðarbúið. Fylgdi hæstv. ríkisstjórn þeirri leið sem hún varðaði með yfirlýsingum sínum og því sem vitnað var til og kom fram hjá hæstv. forsætisráðherra? Nei, svo var ekki. Óvissan hélt áfram og þegar málin voru til umfjöllunar á síðasta vetri var ítrekað varað við þeim afleiðingum sem birtast okkur núna: Að það mundi verða samþjöppun í sjávarútvegi. Veiðiskatturinn sem lagður væri á útgerðirnar væri of hár og tæki ekki tillit til mismunandi rekstrarskilyrða fyrirtækja. Hann væri í raun ekki sniðinn eftir hverju fyrirtæki heldur tekinn þvert á alla greinina. Það gengur ekki upp. Við höfum sem betur fer átt mikilli velgengni að fagna í sjávarútvegi á undanförnum árum. Það má segja að við höfum frá hruni nánast unnið lottóvinning í því hversu vel okkur hefur gengið í sjávarútvegi. Þar ber auðvitað hæst uppsjávarveiðar okkar. Makríllinn hefur komið sem lottóvinningur til okkar og skapað miklar tekjur. Síldveiði hefur braggast ágætlega, við fengum fína loðnuvertíð í fyrra og það hafa verið góð verð á mörkuðum í bolfiski líka. Það allt saman hefur gert það að verkum að afkoman hefur verið góð og fjárfestingarþörfin er til staðar. Fjárfestingarnar hafa reyndar látið á sér standa. Það var talið að uppsöfnuð fjárfestingarþörf í sjávarútvegi á síðasta ári væri kannski í kringum 55 milljarðar kr., fjármagn sem var frekar notað í uppgræðslu skulda. Það er út af fyrir sig ágætt en miklu minna var farið í fjárfestingar en tilefni voru til með tilheyrandi afleiðingum sem mælast í atvinnuleysi. Við hefðum getað skapað fjölda starfa til viðbótar ef ramminn hefði verið ákveðinn og ef greinin hefði haft öryggi og staðið tiltölulega föstum fótum gagnvart framtíðinni.

Núna horfum við aftur á móti upp á kannski einhverja alvarlegustu stöðu í íslenskum sjávarútvegi sem við höfum séð lengi. Það eru ákveðnar greinar sem ganga þokkalega, kannski fyrst og fremst uppsjávargreinarnar. Sú óvissa sem enn þjakar greinina, veiðigjöldin sem eru ekkert annað en landsbyggðarskattur, og hefur verið rætt um, og sú alvarlega staða sem er að þróast á helstu mörkuðum okkar fyrir afurðirnar gera það að verkum að sjávarútvegurinn stendur frammi fyrir mjög alvarlegri mynd.

Til að ræða þau mál óskaði ég eftir því að allir aðilar í sjávarútvegi yrðu boðaðir á fund atvinnuveganefndar til að fara yfir stöðuna sem við horfum núna fram á. Það var merkilegt að hlusta á viðbrögð stjórnarliða sem furðuðu sig á því að verið væri að óska eftir því að fá þá aðila á vettvang, á fund nefndarinnar, til að fara yfir stöðuna í sjávarútvegi. Staðan þar væri svo góð. Við fengum þá alla á okkar fund, alla hagsmunaaðila í sjávarútvegi, fulltrúa Landssambands smábátaeigenda, fiskvinnslustöðva, útgerða, sjómanna og Landssambands íslenskra útvegsmanna. Það má segja að samdómaálit allra hafi verið að staðan sé mjög alvarleg og fyrirtækin búi við mikla óvissu. Mjög aukin samþjöppun í þeirri mikilvægu grein sé örugglega í pípunum. Við sjáum það vera gerast núna. Það var farið yfir uppsagnir í Þorlákshöfn áðan, við sáum uppsagnir á Siglufirði í síðustu viku og hjá fyrirtækinu Ögurvík fyrir stuttu síðan og það er nákvæmlega í samræmi við það sem varað var við.

Fulltrúi Landssambands smábátaeigenda sagði á fundinum að á væri að bresta flótti úr greininni af hálfu þeirra sem hann er umbjóðandi fyrir. Það eru litlu útgerðirnar úti um allt land sem víðast hvar eru hryggjarstykkið í uppbyggingu og afkomu sveitarfélaga. Menn væru mjög uggandi um sinn hag og sæju í raun og veru ekki framtíðarmöguleika.

Það er líka mat manna að sú þróun sem hefur orðið í greininni geti haft veruleg áhrif á framboð á fiskmörkuðum sem getur komið sér illa fyrir þær fiskvinnslur sem ekki eru með sambönd við útgerðir eða byggja afkomu sína á því að kaupa fisk á markaði. Þarna verðum við að brjóta blað. Menn verða að horfa til þeirra alvarlegu aðstæðna sem eru komnar upp, standa við bakið á greininni og breyta forsendum í rekstrinum. Veiðigjaldið er auðvitað mjög stór þáttur í því og það er hægt að fara aðrar leiðir í því að innheimta veiðigjald, eða aukin gjöld af sjávarútvegi, þegar vel gengur. Ég held að allir séu sammála um að þegar vel gengur í sjávarútvegi sé eðlilegt að greinin og þau fyrirtæki sem best ganga borgi hærra gjald. Það þarf að leitast við að fara þá leið en ekki þá skelfilegu leið sem við erum að horfa á.

Það er allt saman hluti af því þegar við ræðum fjárlagafrumvarp næsta árs, að sá stórkostlegi vandi sem blasir við okkur er fyrst og fremst vegna þess að höfuðatvinnugreinum okkar hafa ekki verið skapaðar aðstæður til að eflast og dafna og auka fjárfestingu og verðmætasköpun sem mundi skila sér í auknum útflutningsverðmætum. Um það snýst það í grunninn, að skapa hér hagvöxt og eyða atvinnuleysi. Meðan við förum ekki þá leið verðum við í þeim miklu vandræðum sem við erum í með fjárlagagerðina eins og hún er. Minni fjárfesting, sú minnsta sennilega í áratugi á lýðveldistímanum, og einkaneysla dregst saman.

Annað stórt atriði í því er sú rammaáætlun sem liggur fyrir þinginu. Rammaáætlun sem var farið af stað með til að reyna að búa til sáttaleið, málamiðlun, á milli þjóðfélagshópa og festa inn til lengri tíma virkjunaráætlun, áætlun um það í hvaða skrefum og á hvaða stöðum við ætluðum að nýta orkuna í landinu til eflingar atvinnulífi og aukinna fjárfestinga og verðmætasköpunar. Þarna hefur ríkisstjórnin gengið algerlega í berhögg við fyrri yfirlýsingar sínar um að búa til umhverfi til að laða að aukna beina, erlenda fjárfestingu. Það eru allir sammála um að stóru tækifærin okkar liggja fyrst og fremst í orkufrekum iðnaði. Samkvæmt þeirri rammaáætlun sem nú liggur fyrir þinginu, og er einhvers konar málamiðlun og afsprengi pólitískra samninga á milli stjórnarflokkanna og jafnvel innan þeirra, liggur það alveg fyrir að við stígum ekki nein skref í virkjunargerð á næstu árum. Þeir virkjunarkostir sem eru tilbúnir til að halda áfram með eru settir í biðflokk, eins og t.d. virkjunarkostir í neðri hluta Þjórsár. Það verður ekki farið af stað með neitt nýtt á þeim vettvangi umfram það sem þegar er komið af stað, Búðarhálsvirkjun sem er komin langt á veg og þær framkvæmdir sem við sjáum að eru í undirbúningi norður í Þingeyjarsýslu.

Rammaáætlun gæti gefið okkur gríðarlegt tækifæri til sóknar og einmitt til að vinna bug á því vandamáli sem fjárlagagerðin er við þessar erfiðu aðstæður. Tækifæri til að auka og efla fjárfestingu í landinu. Það eru allir sammála um, eins og kom fram í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar sem ég vitnaði til áðan, að tækifærin eru til staðar. Þeir sem fjalla um þau mál fyrir hönd ríkisins, t.d. á fjárfestingarsviði Íslandsstofu, hafa sagt okkur að á þessu kjörtímabili hafa sjaldan eða aldrei verið eins mörg fyrirtæki með fjölbreyttan rekstur sem hafa verið að leita hófanna hér og lýst áhuga á því að byggja upp atvinnustarfsemi á Íslandi. En menn hafa ekki getað gefið svör af því að rammaáætlun er ófrágengin og óvissan svona mikil. Síðan koma aðrir óvissuþættir inn í eins og hin pólitíska óvissa sem endurspeglast í því rekstrarumhverfi sem við sköpum fyrirtækjum í landinu. Nú eru aðstæður breyttar. Efnahagsumhverfið er erfitt í kringum okkur og við þyrftum að vanda okkur enn meira. Við þyrftum að vinna enn betur í því að laða fyrirtæki hingað svo þau fari ekki eitthvert annað. Það hefur ekki gengið eftir og er í raun ekkert annað en stórslys að svo skuli vera.

Við getum litið á fjárfestingaráætlun Landsvirkjunar sem lögð var fram á vordögum 2011, eða á svipuðum tíma og yfirlýsing ríkisstjórnarinnar var gefin út í maí 2011. Samkvæmt þeirri fjárfestingaráætlun var í raun bara verið að taka tillit til virkjunarkosta og setja inn í framkvæmdaáætlun virkjunarkosti sem væru samkvæmt eðlilegri niðurstöðu í rammaáætlun til framkvæmda núna á næstu missirum. Sú áætlun tekur til ársins 2025 í virkjunarframkvæmdum og til ársins 2030 þegar metnar eru efnahagslegar afleiðingar slíkrar fjárfestingaráætlunar. Það er skemmst frá því að segja að ef ákvarðanir hefðu verið teknar fyrr á þessu kjörtímabili værum við núna með uppbyggingu í atvinnulífi og virkjunarframkvæmdir af fullum þunga inni í hagkerfinu, sem sköpuðu mikil verðmæti og fjölda starfa. Það væri komið af fullum þunga inn í íslenskt efnahagslíf á þessu ári og næsta samkvæmt fjárfestingaráætluninni. Það eru milljarðar í tekjur fyrir ríkissjóð, milljarðar í tekjur fyrir heimilin í landinu og er á endanum lykillinn að því að skapa meiri og verðmætari útflutning en við höfum í dag.

Í stað þess er fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar sett fram við þau ömurlegu skilyrði sem við búum við þar sem við erum í raun bundin í báða skó og getum lítið gert. Við þær aðstæður verður auðvitað að vanda verulega þær leiðir sem eru farnar, hvernig við eyðum þeim litlu fjármunum sem við höfum úr að spila. Þá kemur ríkisstjórnin fram með fjárfestingaráætlun sína fyrir næstu þrjú ár, 2013, 2014 og 2015. Það er algerlega óskiljanlegt hverjum sem skoðar stöðu mála hvernig mönnum getur dottið í hug að setja fram tillögur á borð við þær sem birtast þar, og slíka forgangsröðun. Á sama tíma og við getum ekki fjárfest í grunnþáttum velferðarþjónustunnar, heilbrigðismálum, og löggæslumálum, það er búið að fara vel yfir þá alvarlegu stöðu sem er í þeim málaflokkum, setur ríkisstjórnin fram fjárfestingaráætlun sem meðal annars tekur til þess að setja á 1.000 milljónir í fangelsi á Hólmsheiði á næsta ári. Hefði nú ekki verið skynsamlegra að byggja bara við fangelsið austur á Litla-Hrauni þar sem allir innviðir eru til staðar og hægt væri að byggja við með miklu minni tilkostnaði? Það hefur verið gagnrýnt hversu mikill kostnaðurinn er við að flytja gæsluvarðhaldsfanga austur að Litla-Hrauni. Ég átti fund með fulltrúum úr lögreglunni þar sem við fórum yfir þær hugmyndir að aðstaða til að geyma gæsluvarðhaldsfanga yrði gerð á lögreglustöðinni á Hverfisgötu. Það er hægt að búa þannig um hnútana með tiltölulega litlum tilkostnaði. Þá eru gæsluvarðhaldsfangarnir allir á staðnum, þarf ekkert að vera að flytja þá og er náttúrlega mikil sparnaður fyrir rekstur lögreglunnar. Nei, þá er þetta skref stigið.

Við sjáum líka að setja á 800 milljónir á næsta ári í hús íslenskra fræða. Verkefni sem er okkur öllum hugleikið, það þarf auðvitað að búa vel um menningararf okkar sem liggur í fornbókmenntum og sögu þjóðarinnar. En höfum við efni á því núna við þessar erfiðu aðstæður að fara að setja 800 milljónir í þann verkþátt?

Náttúruminjasafn eða sýning. Það virðist vera hluti af einhverju samkomulagi milli Reykjavíkurborgar og ríkisstjórnarinnar þar sem á að setja í það 500 milljónir á næsta ári. Í raun og veru er Reykjavíkurborg að kaupa Perluna af sjálfri sér og grundvöllurinn er langtímaleigusamningur við ríkið. Það á að setja 500 milljónir í það á næsta ári. Með fullri virðingu fyrir þeim verkefnum get ég líka nefnt þekkingarsetur á Kirkjubæjarklaustri sem á að setja í 290 milljónir. Staðan austur á Kirkjubæjarklaustri er mjög alvarleg í atvinnulegu tilliti. Það hefur verið fækkun í sveitarfélaginu og þeir kalla mjög eftir því að fá aukin verkefni og fjárfestingu á svæðið. Við í atvinnuveganefnd áttum fund með því fólki um daginn og samúð manns er öll með því í þeim efnum en það er líka verið að setja mjög vænlega virkjunarkosti á það svæði sem mundi hafa í för með sér mikla atvinnusköpun, verðmætasköpun fyrir þjóðfélagið og tekjupósta fyrir sveitarfélagið. Það er verið að setja það á ís, verkefni sem væri hæglegast að halda áfram með og öll rök benda til þess.

Það á að setja 200 milljónir í friðuð og friðlýst hús og mannvirki og þá komum við að uppáhaldinu hjá hæstv. ríkisstjórn sem er græna hagkerfið. Þar á að stofna grænan fjárfestingarsjóð sem á að setja í 500 milljónir. Ég hef í sjálfu sér ekki séð neitt um til hvaða verkefna sá sjóður á að horfa en setja á 500 milljónir í hann á næsta ári. Það á að setja 280 milljónir í grænkun fyrirtækja. Ég hef heldur ekki séð neitt um hvað felst í því að grænka fyrirtæki. 150 milljónir eiga að fara í græn skref og vistvæn innkaup. Samtals eiga að fara á annan milljarð í græna hagkerfið á næsta ári, samkvæmt fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar. Síðan á að auka framlög til Kvikmyndasjóðs um 470 milljónir á sama tíma og kannski væri tilefni til að draga úr framlögum til hans einfaldlega vegna þess að gróska í kvikmyndagerð hér á landi hefur aldrei verið meiri, eins og ítrekað hefur komið fram í fréttum. Með þeirri skattahagræðingu sem við höfum innleitt varðandi framleiðslu erlendra kvikmynda á landinu er sú atvinnugrein á mikilli ferð sem betur fer. Hún skapar mörg hundruð störf og miklar tekjur. Væri ekki ástæða til að draga aðeins úr annarri framleiðslu á móti? Nei, þá á að fara að auka framlög til Kvikmyndasjóðs á sama tíma og greinin er á blússandi ferð. Sennilega þýðir það aukin tækjainnkaup og aukna fjárfestingu í greininni sem síðan á einhverjum tímum getur orðið offjárfesting.

Netríkið Ísland á að fá 200 milljónir og verkefnasjóðir skapandi greina 250 milljónir. Þetta eru allt saman þættir sem eru taldir upp í þessari fjárhagsáætlun og eru upp á 10.300 milljónir sem maður hefði sagt að mætti bíða, með fullri virðingu fyrir þessum verkefnum. Á sama tíma og við búum við þessar erfiðu aðstæður og grunnþættir í samfélagi okkar eru við það að bresta, svo aftur sé nefnt heilbrigðiskerfið okkar, löggæsla og fleira má telja upp, getum við ekki leyft okkur að halda áfram á sömu nótum og ríkisstjórnin hefur verið að gera. Ríkisstjórnin verður að átta sig á því að það verður að horfa til þess að auka hér fjárfestingu, skapa störf og verðmæti þannig að við getum farið að búa sæmilega að því að gera mannsæmandi fjárlög fyrir landið.



[16:09]
Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Við ræðum frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2013. Mig langar að gera að umtalsefni erindi Alþingis, löggjafarvaldsins, sem sent var fjárlaganefnd, beiðni um aukið fé á milli 1. og 2. umr. Meiri hluti fjárlaganefndar, hv. stjórnarliðar, ákvað að vísa þeirri beiðni til 3. umr., hafnaði því að taka tillögur Alþingis til skoðunar og umræðu á sama hátt og tillögur framkvæmdarvaldsins sem meiri hluti fjárlaganefndar gerði að sínum og bætti um betur með eigin tillögum sem liggja nú fyrir við 2. umr.

Virðulegur forseti. Ég hef leyft mér að kalla þetta þjónkun við framkvæmdarvaldið og virðingarleysi við Alþingi. Þegar þær tillögur sem Alþingi leggur fram eru skoðaðar má sjá að sumar þeirra eru óhjákvæmilegar. Forseti Alþingis fer meðal annars fram á fjármuni vegna kosninganna sem fyrirhugaðar eru 27. apríl 2013. Ljóst er að æðimargir þingmenn hafa ákveðið að láta af þingstörfum. Þeir eiga rétt á biðlaunum og öðrum greiðslum en ekki er gert ráð fyrir því í fjárlagafrumvarpinu. Forseti þingsins fer fram á að það verði gert en meiri hluta fjárlaganefndar þykir ekki ástæða til að taka afstöðu til þess.

Forseti Alþingis hefur óskað eftir því að fá aukna fjármuni til alþjóðastarfs og til öryggismála í þinginu. Forseti Alþingis hefur líka óskað eftir því að fá aukafjármagn til rannsóknarnefnda Alþingis sem Alþingi sjálft hefur ákveðið að setja á laggirnar til að skoða hin ýmsu mál. Við því gat meiri hluti fjárlaganefndar ekki orðið eða gert að sínu við 2. umr. Samt er það Alþingi sjálft sem hefur lagt til að þessar rannsóknarnefndir verði settar á laggirnar til að rannsaka einstök mál sem mörg hver eru þörf í sjálfu sér.

Hann hlýtur að vekja undrun, virðulegur forseti, þessi háttur hv. þingmanna í meiri hluta fjárlaganefndar, hvers vegna þeir ákveða að ganga fram með þessum hætti. Hvergi hefur komið fram, hvorki í fjárlaganefnd, hvað þá heldur hér í umræðunni, sem þeir hafa svo sem ekki tekið mikinn þátt í, hvers vegna þetta verklag er viðhaft.

Mig langar líka að gera tvær stofnanir sem heyra undir Alþingi að umtalsefni hér, þ.e. annars vegar umboðsmaður Alþingis og hins vegar Ríkisendurskoðun. Það er alveg ljóst að Alþingi þarf að velta fyrir sér og skoða hver framtíðarsýn embættis umboðsmanns Alþingis á að vera. Embættið verður 25 ára á næsta ári. Umfang þess hefur aukist gífurlega en embættið hefur, eins og aðrar stofnanir, ef við getum orðað það svo, þurft að sæta skerðingu. Á sama tíma og við aukum gífurlega fjármagn til umboðsmanns skuldara, sem er í sjálfu sér allt í lagi ef menn horfa þannig á verkefnið, er dregið úr en ekki aukið við til umboðsmanns Alþingis, sem er þó sá aðili sem á að verja borgarana gegn ofríki stjórnvalda. Þangað eiga almennir borgarar að geta leitað þegar þeir telja að stjórnvöld hafi brotið á sér. Ef við ætlum að veita borgurunum þá vernd að geta leitað til umboðsmanns Alþingis þegar þeir telja að á þeim sé brotið af hálfu stjórnvalda hljótum við að þurfa að gefa embætti umboðsmanns Alþingis þann sess í fjárlögum sem því ber. Ef það er minna virði fyrir borgarann að geta leitað til umboðsmanns Alþingis þegar hann telur að stjórnvöld hafi brotið á sér en að leita til umboðsmanns skuldara ef hann skuldar — ef það telst eðlilegra að veita fjármagn vegna skulda einstaklingsins en þegar brotið er á honum af hálfu stjórnvalda — held ég að forgangsröðunin í verkefnum sé orðin hálfsérkennileg.

Farið er fram á, virðulegur forseti, að embætti umboðsmanns Alþingis fái í það minnsta 20 milljóna hækkun á framlagi. Samhliða er lagt til að 30 milljónum verði varið í Þórshamar þangað sem fyrirhugað er að flytja embætti umboðsmanns Alþingis. Ég tel það afar mikilvægt að embætti umboðsmanns Alþingis sé hér í nágrenni Alþingis og fagna því að sú ákvörðun hefur verið tekin að embættið muni flytja í Þórshamar. En til þess að svo megi verða þarf að gera umbætur á því húsi.

Ég tel, virðulegur forseti, að Alþingi þurfi að sýna þeim stofnunum sem það ber ábyrgð á, umboðsmanni Alþingis og Ríkisendurskoðun, þá tilhlýðilegu virðingu sem stofnununum ber, algjörlega óháð því hvað einstaka þingmönnum þykir um þá sem þar gegna embætti eða þar vinna. Það er algjörlega óháð því hvernig Alþingi á að líta til þessara stofnana. Ég mun því á milli 2. og 3. umr. leggja til að umboðsmanni Alþingis verði veitt ívið meira fjármagn en hér er lagt til. Ég mun ýta á eftir því að erindi forseta Alþingis verði afgreitt úr fjárlaganefnd. Mér telst til að beiðni hæstv. forseta Alþingis til fjárlaganefndar, um fjárveitingu á milli 1. og 2. umr., nemi um 500 milljónum. Til að engin útgjöld verði af þeirri beiðni má skera niður 500 milljónir til sýningar í Perlunni, sem einhverjir hér inni hafa stofnað til í samningum við einhverja aðra úti í bæ án þess að nokkuð liggi á blaði um hvað fyrirhugað er að gera. Enn hefur ekki verið ráðinn forstöðumaður Náttúruminjasafnsins til að hann geti í það minnsta verið með í ráðum um hvort þessi staður, eða það sem fyrirhugað er að gera í kerfinu, sé hentugur.

Sömu sögu er að segja um Ríkisendurskoðun. Hún er sú stofnun sem þarf að fylgja eftir æðimörgu og sýna jafnt frumkvæði sem og umboðsmaður Alþingis að sýna frumkvæðisskyldu sína hvenær sem er, taka af skarið og skoða ákveðin verkefni. Við þurfum að gera vel við Ríkisendurskoðun. Og þá ítreka ég aftur, virðulegur forseti, það er slétt sama hvað einstaka þingmönnum finnst um þá sem þar starfa.

Í breytingartillögum meiri hluta fjárlaganefndar er lagt til í forsætisráðuneytinu að 12 milljónum verði varið til umboðsmanns Alþingis til að semja fræðsluefni um stjórnsýsluna, eftir því sem maður best getur skilið. Kemur það einkanlega til af því að umboðsmaður Alþingis hefur verið gagnrýninn á stjórnsýsluna, þá sem þar starfa og hvernig stjórnsýslan vinnur. Það virðist nú stundum vera þannig, með fullri virðingu fyrir þeim sem þar vinna, að menn átta sig ekki alltaf á því að stjórnsýslan er til fyrir fólkið í landinu en ekki fyrir fólkið sem vinnur í stjórnsýslunni. Við hér á Alþingi þurfum því að horfa til þessarar stofnunar, umboðsmanns Alþingis, og ræða það heiðarlega okkar á milli hvort við óskum þess að það embætti veiti borgurunum það skjól sem þeir eiga rétt á. Við þurfum líka að ræða hvort við viljum að Ríkisendurskoðunar geti veitt stofnunum ríkisins aðhald og gætt að því að fjárlögum sé fylgt. En þá þarf að fylgja því fjármagn til að hægt sé að sinna þessum verkefnum.

Virðulegi forseti. Það er mjög merkilegt að hér inni eru óskir frá forseta Alþingis, um tækjakaup vegna komandi kosninga og nýrra þingmanna, sem meiri hluti fjárlaganefndar hefur ekki enn séð sér fært að afgreiða. Meiri hluti fjárlaganefndar hefur ekki enn séð sér fært að afgreiða erindi frá forseta þingsins á sama hátt og gert var með tillögur framkvæmdarvaldsins, sem meiri hlutinn ákvað að gera að sínum. Ég segi enn og aftur: Þetta er þjónkun við framkvæmdarvaldið og virðingarleysi við Alþingi.



[16:19]
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Við höldum áfram umræðum við 2. umr. fjárlaga. Menn reyna nú að setja málin í línulegt samhengi og ég tek undir orð þingflokksformanns okkar sjálfstæðismanna að það skiptir í rauninni ekki máli hversu mikill tími settur er í umræðuna, það er innihaldið sem gildir. Ég fullyrði að við hefðum komist ansi langt með umræðuna í gær og jafnvel klárað hana ef ráðherrar í ríkisstjórn hefðu svarað einföldum spurningum sem tengjast fjárlagaumræðunni. Ég veit það núna að bæði hæstv. innanríkisráðherra og hæstv. velferðarráðherra, sem ég kallaði mjög eftir í nótt, eru í húsi. Ég fór yfir statistík síðustu 20 ára í þessum efnum og það heyrir til algerrar undantekningar að ráðherrar tjái sig ekki við 2. umr. fjárlaga. Meira að segja hefur hæstv. fjármálaráðherra ekki tjáð sig við 2. umr. fjárlaga. Ég held að það hafi bara aldrei gerst, alla vega ekki síðustu 20 árin.

Ég og aðrir sjálfstæðismenn höfum bent á þau miklu áhrif sem fjárlagafrumvarpið mun hafa á fyrirtækin í landinu með þeirri skattahækkunarstefnu sem ríkisstjórnin birtir í þar og líka í bandorminum sem við munum brátt ræða. Við höfum bent á hvaða áhrif þessi stefna mun hafa á hag heimilanna. Það var afar aumkunarvert að fylgjast með hæstv. forsætisráðherra í fyrirspurnatíma áðan, í orðaskiptum við hv. þm. Guðlaug Þór Þórðarson, þar sem rætt var um auknar álögur á heimilin. Hér er ekki um að ræða einhver hundruð milljóna, hér er um milljarða að ræða sem verið er að leggja á heimilin og meira að segja forsætisráðherra áttar sig ekki á samhengi hlutanna hvað það varðar. Hún áttar sig ekki á því að verið er að stórauka álögur á heimilin í formi bensíngjalda. Það er líka hægt að tala um sykurskattinn svokallaða o.fl., allt kemur það frá sömu ríkisstjórninni sem hefur algjörlega mistekist að koma til móts við heimilin og leysa skuldavanda þeirra þó að hún hafi um tíma sýnt viðleitni í þá átt.

Hvað gerir ríkisstjórnin með þessu fjárlagafrumvarpi? Hún eykur skuldavanda heimilanna og það var eiginlega sorglegt að upplifa að hæstv. forsætisráðherra áttaði sig ekki á því að allar þessar hækkanir fara beint út í verðlagið, þ.e. hækkanir á áfengi og bensíni og svo öll gjöldin, ég talaði um sykurskattinn og fleiri gjöld, sem eru svo mörg að ég hef ekki tölu á þeim. Hvað þýðir það? Það þýðir að lán heimilanna vaxa þannig að ríkisstjórnin leysir ekki þann skuldavanda sem svo brýnt er að leysa með fjárlögunum og bandorminum. Og svo er verið að skamma okkur fyrir að ræða fjárlögin og benda á augljósar staðreyndir, m.a. á það sem forustumenn ASÍ hafa sagt um frumvarpið, og þeir eru nú ekki innmúraðir og innvígðir í Sjálfstæðisflokkinn. Þeir hafa sagt að eins og fjárlagafrumvarpið sé núna muni það setja kjarasamninga í uppnám. Það er eins og hæstv. ráðherrar ríkisstjórnar, sem hafa ekki talað einu sinni við 2. umr. fjárlaga, þeir ekki komið hingað og svarað spurningum, veiti því ekki athygli hvaða áhrif fjárlagafrumvarpið getur haft á kjarasamninga.

Við sjálfstæðismenn settum strax skýra stefnu í kjölfar hrunsins, við höfðum forustu um að setja neyðarlögin, sem núverandi ráðherrar í ríkisstjórn studdu ekki á sínum tíma. Við höfðum forustu um að fara í samstarf við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, sem forustumenn í núverandi ríkisstjórn studdu ekki, og síðustu 15–18 árin vorum við oft og tíðum gagnrýnd fyrir að greiða niður skuldir ríkissjóðs þannig að ríkissjóður var hallalaus þegar hrunið skall á. Þau þrjú atriði höfðu algjöra lykilþýðingu fyrir okkur til að bregðast við því neyðarástandi sem upp kom 2008 og 2009. Ekki er hægt að segja að núverandi stjórnarflokkar hafi fókuserað á þá þætti.

Í framhaldi af því lögðum við sjálfstæðismenn til að hagvaxtarleiðin yrði farin, en það var sú leið sem við töldum réttast að reyna að fara til að takast á við það gríðarlega verkefni að auka hagvöxt með því að skapa vinnu, auka verðmætasköpun, þá sæjum við fram á aukinn hagvöxt til lengri og skemmri tíma. Við lögðum áherslu á það í atvinnustefnu okkar að landið er ríkt af auðlindum og okkur bæri að nota þær í þágu núverandi kynslóðar og kynslóða framtíðarinnar, en við lögðum líka áherslu á að fara í uppstokkun á menntakerfinu sem allir stjórnmálaflokkar hafa staðið að, til að vinna gegn brottfalli. Brottfall hefur gríðarlegan kostnað í för með sér fyrir samfélagið allt. Við vildum í öðru lagi stuðla að framgangi iðn- og starfsnáms og í þriðja lagi vildum við stytta námstíma til stúdentsprófs. Það markmið var alveg skýrt af okkar hálfu því að með því að gera það mundum við stuðla að auknum hagvexti samhliða því að byggja upp og hlúa vel að rannsóknarsjóðum okkar Íslendinga. Það að eykur hagvöxt til lengri tíma.

Hvað gerði ríkisstjórnin? Hún frestaði því öllu. Hún frestaði því að byggja upp hagvöxtinn, sem þýðir að vandamál okkar í dag eru mun meiri en ef við hefðum farið þessa leið. Af því að ríkisstjórnin fór ekki svokallaða hagvaxtarleið er íslenska hagkerfið að minnsta kosti 100 milljónum kr. minna en það ætti að vera og afleiðingarnar eru öllum ljósar. Lífskjör almennings eru verri, tekjur ríkissjóðs eru miklu lægri og atvinnuleysi meira og skuldir hærri. Þetta er spurningin um stefnuna hverju sinni og ég hefði kosið að stefna okkar hefði verið valin.

Ég vík nú að þeim spurningum sem ég tel enn þá vera ósvarað, og ég bind vonir við að hæstv. ráðherrar birtist við 3. umr. fjárlaga. Þær tengjast framlögum til löggæslunnar, heilbrigðismála og menntamála. Ég vil sérstaklega nefna þær tillögur sem ríkisstjórnin hefur sett fram og meiri hluti fjárlaganefndar gert að sínum. Vert er að vekja aftur athygli á því sem ég benti á í umræðum í nótt, að meiri hluti fjárlaganefndar tekur eingöngu tillögur ríkisstjórnarinnar, framkvæmdarvaldsins, eftir 1. umr. fjárlaga og forgangsraðar þeim í umræðunni á Alþingi en tillögur forsætisnefndar, með forseta Alþingis í broddi fylkingar, eru algjörlega látnar sitja á hakanum.

Ég spurði í nótt: Skyldi það vera vegna óvæginnar gagnrýni af hálfu umboðsmanns Alþingis en ekki síst af hálfu Ríkisendurskoðunar á ríkisstjórnina? Það verður forvitnilegt að fylgjast með því við 3. umr. fjárlaga hvernig meiri hluti fjárlaganefndar, með hv. þm. Björn Val Gíslason í broddi fylkingar, sem hefur verið mjög óvæginn og með mjög ósanngjarna gagnrýni á Ríkisendurskoðun, mun bregðast við tillögum forsætisnefndar varðandi framlög til Ríkisendurskoðunar og umboðsmanns Alþingis. Þeim hefur greinilega sviðið sú gagnrýni sem Ríkisendurskoðun setti fram á hæstv. atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra, þáverandi fjármálaráðherra. Hægt væri að nefna Árbótarmálið og ýmis önnur mál, stór sem smá, sem þau hafa verið gagnrýnd fyrir í gegnum tíðina af hálfu Ríkisendurskoðunar. Það verður forvitnilegt að fylgjast með því.

Ég kem alltaf aftur að því sem ég hef miklar áhyggjur af, það eru löggæslumálin. Ég hef ekki fengið viðbrögð frá hæstv. innanríkisráðherra. Þegar maður fer yfir þær tillögur sem liggja fyrir núna eftir umfjöllun fjárlaganefndar sést að þar er ekki brýnustu þörfunum sinnt þegar kemur að fjárveitingum til löggæslunnar. Telur hæstv. innanríkisráðherra að hann sem ábyrgðarmaður og framkvæmdarvaldshafi, yfirmaður löggæslunnar, geti með staðið undir þeirri lögbundnu þjónustu sem löggæslan á að sinna alla jafna? Fólkið í landinu krefst þess að lögreglan sé sýnileg, að hún sinni því hlutverki sem ætlast er til að hún sinni. Lögreglan vill gera allt til þess að svo verði en hún hefur ekki fjármagn í það og hefur ekki haft það fram til þessa. Hver gesturinn á fætur öðrum hefur bent á það, ekki síst ráðuneytið, og þess vegna hefði verið forvitnilegt ef hæstv. innanríkisráðherra hefði tekið þátt í þeirri umræðu, þótt það hefði ekki verið nema í fimm mínútur, og svarað spurningum okkar sjálfstæðismanna um hvort nægilega sé að gert með þessum tillögum til að koma til móts við brýnan og erfiðan vanda löggæslunnar. Ekki fáum við neitt svar við því frekar en öðru.



[16:30]
Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég vil í upphafi máls míns taka undir bæði spurningar og hvatningu hv. þm. Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur til hæstv. innanríkisráðherra um að hann taki þátt í þessari umræðu og láti meðal annars í ljós álit sitt á þeim sjónarmiðum sem hér hafa komið fram um löggæslumálin. Ég held að það væri mikilvægt fyrir umræðuna að hann greindi frá afstöðu sinni og tillögugerð í þessum efnum því að ég get ekki ímyndað mér annað en að hæstv. innanríkisráðherra hafi lagt gott til málanna að þessu leyti á vettvangi ríkisstjórnar þó að hann hafi ekki, a.m.k. ekki enn sem komið er, náð tillögum sínum í gegn. Í umræðum sem átt hafa sér stað um löggæslumálin á þinginu fyrr í haust og raunar fyrir þann tíma líka hefur hæstv. ráðherra innanríkismála sýnt skilning á þeirri fjárþörf lögreglu sem margir þingmenn hafa vakið athygli á við þessa umræðu. Hann hefur sýnt því skilning en einhvern veginn hafa tillögur í þá veru hvorki ratað í fjárlagafrumvarpið eins og það var lagt fram í haust né inn í breytingartillögur meiri hlutans enn sem komið er.

Eins og ég sagði hér í gærkvöldi hefur að vissu leyti komið fram, þó að ekki sé hægt að kalla það skýr fyrirheit, vilji hjá ákveðnum fulltrúum meiri hlutans í fjárlaganefnd til að bæta að nokkru úr þeim fjárskorti hjá lögreglunni sem við höfum vakið athygli á. Bæði hv. formaður fjárlaganefndar, Björn Valur Gíslason, og fjárlaganefndarmaðurinn og formaður allsherjarnefndar, hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson, hafa lýst vilja til þess að koma til móts við fjárþörf, a.m.k. hinna fámennari umdæma úti á landi sem í mörgum tilvikum búa við tiltölulega fámennt lið sem á að sinna stóru svæði, jafnvel stóru svæði þar sem ferðamannastraumur er mikill eins og fyrir austan fjall og síðan á Norðurlandi líka. Vonandi skila þessar tillögur sér inn í umræðuna milli 2. og 3. umr. og ná fram að ganga.

Eins og ég hef áður sagt við þessa umræðu hefur verið óskiljanlegt af hverju þessi brýnu mál hafa ekki fengið úrlausn fyrr þegar, eins og ég hef margoft bent á, ýmis önnur verkefni hafa greinilega hlotið náð fyrir augum meiri hlutans í fjárlaganefnd eða hæstv. ríkisstjórnar og talið hefur verið mögulegt að verja tiltölulega háum fjárhæðum, hundruðum milljóna, til tiltölulega óskilgreindra verkefna og það látið nægja að gefa þeim einhver græn heiti, grænt hagkerfi, græn skref, grænkun fyrirtækja og eitthvað þess háttar án þess að það sé útskýrt frekar. Ef verkefnin eru kölluð einhverjum svona nöfnum hafa þau hlotið náð og fjárveitingar upp á hundruð milljóna króna en brýn þörf í löggæslumálum og reyndar á sumum sviðum heilbrigðismála líka hafa ekki fengist afgreidd. Það hefur einhvern veginn reynst miklu erfiðara að afgreiða slík mál.

Ég læt þetta nægja um þetta en af því að hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir nefndi þessar spurningar, sérstaklega um löggæslumálin, vildi ég bæta öðru við þessa umræðu og ég vonast til þess að því verði með einhverjum hætti svarað, annaðhvort af hálfu hæstv. ráðherra innanríkismála eða hv. nefndarmanna í meiri hlutanum í fjárlaganefnd, hvort ætlunin sé að koma eitthvað til móts við þá fjárþörf og þau vandamál sem hefur verið vakin athygli á varðandi framlög til þjóðkirkjunnar og sóknargjöld. Það eru ekki nema tvær eða þrjár vikur síðan sérstök umræða var haldin hér þar sem svo til allir þingmenn sem tóku þátt í henni frá svo til öllum flokkum lýstu yfir miklum vilja til þess að bæta kirkjunni þær skerðingar sem hún hefur orðið fyrir, skerðingar sem hafa að því er virðist byggst á þeim misskilningi að um fjárframlög til kirkjunnar ætti að fara með sama hætti og fjárframlög til einstakra ríkisstofnana. Það er algjörlega horft fram hjá sérstökum lagaákvæðum og samningum sem gilda um fjármögnun kirkjunnar.

Þriðja atriðið sem ég ætlaði að nefna, sem enn stendur út af, varðar hina svokölluðu IPA-styrki. Í mörgum ræðum hefur verið vakin athygli á því að það væri nokkuð óljóst hvaða peningar kæmu inn eftir þeim leiðum og hvers vegna ekki hefði verið gert ráð fyrir þeim í frumvarpinu upprunalega nema að litlu leyti. Eins hafa fréttir verið misvísandi um það hversu háar þær upphæðir væru þegar á heildina væri litið. Í breytingartillögum meiri hlutans höfum við tölur upp á 800 og eitthvað milljónir króna en á sama tíma heyrast fréttir í Ríkisútvarpinu hafðar eftir áreiðanlegum heimildum sem gefa til kynna mun hærri upphæðir. Í ljósi þess hvers konar feluleikur hefur átt sér stað í sambandi við þessa IPA-styrki eiginlega frá upphafi aðildarferlisins hlýtur maður að óska eftir nánari skýringum. Án þess að ég haldi því fram að beinlínis sé verið að fela eitthvað er þó reynslan sú að það hefur þurft að kalla fram sérstaklega og kreista út allar þær upplýsingar sem fram hafa komið opinberlega um þessi mál. Ég óttast að það eigi líka við að þessu sinni.

Hæstv. forseti. Ég og fleiri hv. þingmenn höfum í nokkrum ræðum vakið athygli á því að stórir liðir eru ekki komnir inn í fjárlagafrumvarpið. Frumvarpið eins og það lítur út núna er því trúlega, en því miður, miklu betur útlítandi en það sem við komum til með að fjalla um við 3. umr. Ef að líkum lætur munu ýmsir liðir sem fela í sér stóraukinn kostnað, stóraukna áhættu og fjárhagslegar skuldbindingar fyrir ríkissjóð bætast inn milli 2. og 3. umr. Það kemur fram í skjölum málsins að mörgum erfiðum ákvörðunum að því leyti hefur verið frestað milli umræðna, fyrst frestað að taka á þeim þegar fjárlagafrumvarpið var lagt fram og síðan frestað í nefndarstarfinu milli 1. og 2. umr. Því er ekki von á þeim tillögum fyrr en kemur að 3. umr. Þar erum við að tala um stóra liði eins og Íbúðalánasjóð, Landspítala – háskólasjúkrahús, Hörpu og fleiri einstök verkefni þar sem augljóst er að ganga þarf frá hlutum með öðrum hætti en þegar er komið fram. Allir þessir liðir virðast vera þess eðlis að þeir leiði annaðhvort til aukinna útgjalda fyrir ríkissjóð, aukinnar skuldsetningar eða að minnsta kosti aukinna ábyrgða og áhættu fyrir ríkissjóð þegar til lengri tíma er litið. Ef tekið verður eðlilegt tillit til þessara liða þegar þeir eru komnir inn er hætt við að sú glansmynd sem hæstv. ríkisstjórn hefur reynt að draga upp af þessu fjárlagafrumvarpi reynist leiktjöldin ein.

Eins og margoft hefur verið vakin athygli á í umræðunni hefur reynslan sýnt að í mörgum tilvikum koma hinar réttu upplýsingar um raunverulega stöðu ríkissjóðs ekki fram fyrr en jafnvel tveimur árum of seint, þegar gengið er frá lokafjárlögum og ríkisreikningi, vegna þess að þar eru færðir ýmsir kostnaðarliðir sem hefði með réttu átt að geta um í fjárlögum eða fjáraukalögum en hefur ekki verið gert þrátt fyrir athugasemdir þingmanna stjórnarandstöðu, Ríkisendurskoðunar og fleiri. Auðvitað óttast maður að hið sama verði uppi núna, ekki síst í ljósi þess að margt í framsetningu þessa máls af hálfu hæstv. ríkisstjórnar og meiri hlutans í fjárlaganefnd hefur á sér kosningablæ og þess vegna er hætt við að leitað verði leiða til þess að fegra myndina með því að fresta því eins og kostur er að færa réttilega til bókar ýmsan kostnað, (Forseti hringir.) ýmsar ábyrgðir og fjárhagslega áhættu sem ríkissjóður ber.



[16:40]
Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Í upphafi ræðu minnar kalla ég enn eftir því að þeir hv. þingmenn sem hafa talað um að þetta séu glæsileg fjárlög komi í andsvör og bregðist við þeim athugasemdum sem ég hef gert margítrekað við stöðuna á heilsugæslustöðinni í Snæfellsbæ sem á að loka núna aðra hverja helgi. Mjög lágar upphæðir sparast við þá aðgerð. Ég sé að þessir hv. þingmenn eru í húsi núna, m.a.s. hæstv. velferðarráðherra. Það væri mjög æskilegt að þetta fólk gæfi sér þótt væru ekki nema örfáar mínútur til að koma í andsvör.

Í ljósi þess að hv. þm. Guðmundur Steingrímsson er einn af höfundum svokallaðrar fjárfestingaráætlunar verð ég líka að segja fyrir mína parta að ég teldi mun skynsamlegra að sleppa sumu sem þar er inni, t.d. náttúruminjasýningu sem á að setja upp sem á að kosta 500 milljónir, bara uppsetningin á sýningunni, en lágmark er að þetta fólk ræði þessi mál hér við mig. Bara í lokin vil ég segja að þó að það sé bjart hjá mörgum er ekki björt framtíð yfir rekstri heilsugæslustöðvarinnar í Snæfellsbæ.

Mig langar í þessari ræðu minni að fara aðeins yfir einn af þeim stóru liðum sem ég tel mjög mikilvægt að gera sér grein fyrir og fjalla hér ítarlega um og hann snýr að skuldsetningu ríkissjóðs og vaxtagjöldum og vaxtagreiðslum hans. Við erum að fjármagna ríkissjóð í skjóli gjaldeyrishafta og þess að það eru mjög lágir markaðsvextir á erlendum fjármagnsmörkuðum. Miðað við skuldsetningu ríkissjóðs og skuldbindingar sem eru upp undir 2 þús. milljarðar kr. sjá allir að örlítil breyting, þó að það væri ekki nema bara brot úr prósenti eða svo, hefur gríðarleg áhrif á afkomu ríkissjóðs. Vaxtagjöldin og í raun vaxtajöfnuðurinn hefur aukist og af því hef ég verulegar áhyggjur. Bara til að árétta það er gert ráð fyrir því að á næsta ári muni ríkissjóður þurfa að greiða 84 milljarða í vexti. Það eru um 15% af heildarútgjöldum ríkissjóðs og eiginlega þriðji stærsti fjárlagaliðurinn í frumvarpinu. Ef maður skoðar það sem hefur verið að gerast og rýna það sést, og það kemur mjög vel fram í áliti okkar í 1. minni hluta, að vaxtajöfnuðurinn, þ.e. þegar tekið er tillit til vaxtagjalda og vaxtatekna ríkissjóðs, eykst verulega. Hann er búinn að fara núna á tveimur árum úr 46 milljörðum í rúma 63 milljarða, þetta er 17 milljarða breyting á tveimur árum. Það segir sig sjálft að það er gríðarlega mikilvægt að ná þessu niður.

Það sem hræðir mig í þessu og ég hef verulegar áhyggjur af er það sem hæstv. ríkisstjórn hefur verið að gera á undanförnum missirum sem snýr að vaxtagjöldum ríkissjóðs. Þá vil ég rifja upp að fyrir fjárlögin 2012, þ.e. fyrir um ári, var umræða um það hvort dregið yrði á svokallaðar lánalínur hjá Norðurlöndunum eða samstarfsþjóðunum og hvort þau vaxtagjöld yrðu að vera inni í fjárlögum fyrir árið 2012. Þá lá ekki fyrir ákvörðun um hvort það yrði gert.

Eftir að fjárlögin voru afgreidd var tekin ákvörðun um það í lok árs 2011 að draga á þær lánalínur sem voru þarna fyrir hendi og í framhaldi af því var tekin ákvörðun um það, í mars á þessu ári, að greiða sem svarar 40 milljörðum inn á lán Norðurlandanna. Það sem ég hef verulegar áhyggjur af er að í maímánuði á árinu 2012 er farið að gefa út skuldabréf á bandarískum fjármálamarkaði upp á 1 milljarð bandaríkjadala, á þeim tíma um 124 milljarða kr., og með 6% vöxtum. Í framhaldi af þessu bréfi eru greiddar niður skuldir samstarfsþjóðanna, Norðurlandanna, um 85 milljarða kr.

Það sem er merkilegt við þessa fléttu hjá hæstv. ríkisstjórn er að vaxtagjöldin aukast við þennan gjörning um 3 milljarða, bara vegna þessa gjörnings. Menn fara í útboð og gefa út skuldabréfið með óhagstæðari vöxtum er verið að greiða upp gjalddaga á Norðurlandalánunum sem eru á árunum 2016, 2017 og 2018.

Einhver gæti haldið því fram, og það með réttu, eins og ég hef líka gert í umræðunni að þetta væri ekki skynsamleg ráðstöfun. Í fyrsta lagi virðist sýnin ekki nægilega mikil um það hvert á að halda, að byrja á að draga á lánalínur í árslok 2011, byrja þremur mánuðum síðar að greiða inn á sambærileg lán, fara svo í framhaldi af því fimm mánuðum seinna, í maímánuði, að gefa út 1 milljarð bandaríkjadala í skuldabréfum sem eru með mun verri vaxtakjörum og svo í framhaldi af því að greiða upp gjalddaga með lægri vöxtum á árunum 2016, 2017 og 2018. Ég gagnrýni þetta mjög harkalega vegna þess að þetta er ákveðin tilraunastarfsemi, vil ég leyfa mér að segja.

Hérna er um að ræða aukavaxtagreiðslur upp á milljarða og það er umhugsunarvert þegar við ræðum stöðu einstakra stofnana og þá stöðu sem er í þjóðfélaginu, hvort heldur er ástandið á Landspítalanum, á heilsugæslustöðinni í Snæfellsbæ eða löggæslu. Fleira mætti telja upp. Ég hef verulegar áhyggjur af heildaryfirsýninni á þessum hlutum. Auðvitað hræðir það mig þegar svona ákvarðanir virðast vera teknar.

Því hefur verið haldið fram að það sé mikilvægt að sýna fram á það að ríkissjóður hafi aðgang að erlendu fjármagni, en tryggir þetta útboð til að mynda áframhaldandi aðgang íslenskra stjórnvalda eða ríkisins að erlendu fjármagni? Það hefur ekkert um það að segja, akkúrat ekki neitt. Þarna er verið að fórna gríðarlega háum upphæðum og að mínu mati þarf að taka þessa hluti mun fastari tökum þannig að við förum ekki í þá vegferð að auka vaxtaútgjöld ríkisins enda kemur það skýrt fram í fjárlagafrumvarpinu að vaxtajöfnuðurinn eykst, eins og ég kom inn á áðan, um tæpa 20 milljarða á aðeins tveimur fjárlagaárum. Það er mikið áhyggjuefni, sérstaklega í ljósi þess að skuldsetning ríkissjóðs er mjög mikil.

Ég vil líka nota síðustu mínúturnar mínar til að fara aðeins yfir stóru myndina að mínu mati. Það mikilvægasta sem þarf að gera fyrir utan að ná tökum á ríkisfjármálunum er að setja fjármálareglur. Það vill þannig til að hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson er 1. flutningsmaður að svoleiðis máli sem er gríðarlega mikilvægt til þess að ná eiginlega tökum, ef ég má nota það orð, á stjórnmálamönnunum á hverjum tíma. Núna sjáum við hvernig það endurspeglast í þessum fjárlögum að kosningar eru í nánd og þá fara menn að moka út peningum í ótímabærar framkvæmdir, að mínu mati, til að mynda hús íslenskra fræða fyrir 3,7 milljarða, að setja upp eina sýningu fyrir 500 milljónir og síðan á aðgangseyririnn að sjá um að borga bæði reksturinn og skuldbindingar af þessari sýningu. Það er að mínu mati hálfhlægilegt að slíkur texti skuli standa með þessum skýringum.

Úr Seðlabankanum heyrast áhyggjur af því að ekki sé búið að setja fjármálareglur fyrir ríkisvaldið. Það er umhugsunarvert að við settum sveitarfélögunum fjármálareglur fyrir stuttu. Það var ekki gert að ástæðulausu og það var þverpólitísk samstaða um það á þingi en þá er mjög óeðlilegt að við gerum ekki sömu kröfur til okkar sjálfra og til sveitarstjórnarmanna sem eru hitt stjórnsýslustigið og veita að sjálfsögðu svipaða þjónustu og við, svokallaða grunnþjónustu, þannig að það er eðlileg krafa að setja líka fjármálareglur á þinginu til að við náum tökum á gríðarlegum skuldum ríkissjóðs og hættum að líta þannig á að þetta reddist inn í framtíðina. Það verður að taka á skuldsetningu ríkissjóðs ekki seinna en strax og hefði þurft að vera búið að því fyrir löngu. Þess vegna tel ég mjög mikilvægt að það náist þverpólitísk samstaða um að setja fjármálareglur.



[16:50]
Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla að ræða um forsendur þessa fjárlagafrumvarps og gera að umtalsefni áhyggjur sem bæði formaður ASÍ hefur lýst og Seðlabankinn. Seðlabankinn hefur varað mjög eindregið við því að hér verði samþykkt það sem kallað er kosningafrumvarp núna á kosningavetri en það er þekkt úr stjórnmálasögunni að á síðasta ári fyrir kosningar vilja stjórnvöld dreifa pökkum, þ.e. fara út í alls konar gæluverkefni og lúxusverkefni sem leiða til þess að kjósendum líkar kannski betur við ríkjandi stjórnvöld en ella og með því gera menn sér vonir um að hala inn atkvæði. Þessi ráðstöfun verður oft til þess að verðlag fer úr böndunum og verðbólga fer af stað sem leiðir til þess að það þarf að hækka vexti, verðbólga hækkar, lán fólks og allt vöruverð. Niðurstaðan verður á endanum sú að kaupmáttur rýrnar.

Í þessari áætlun er kosningapakki upp á 5,6 milljarða kr. þar sem farið er út í ýmsa hluti sem líklegt er að kjósendum muni líka vel, undir því yfirskini að um sé að ræða fjárfestingaráætlun til næstu ára. Ýmislegt er þar sem ég hef gert að umtalsefni í öðrum ræðum en það er ljóst að með þessu er raunverulega verið að hafa varnaðarorð Seðlabankans að engu og ekki er ólíklegt að þetta muni leiða til þenslu, verðbólgu, hækkandi vaxta og hækkandi lánabyrði hjá heimilunum.

Í efnahags- og viðskiptanefnd í morgun voru kynntir útreikningar sem taka aðeins á tekjuhlið frumvarpsins. Þar kemur fram að ein af tekjuráðstöfununum sem gerðar verða er að hækka gjald á tóbak. Það verður væntanlega rætt ítarlega og ég mun ræða það betur þegar við ræðum ráðstafanir í ríkisfjármálum sem mér skilst að sé næsta mál á dagskrá. Í þeim útreikningum sem kynntir voru nefndinni í morgun kemur fram að breytingar á gjaldi af tóbaki leiða til þess að lán heimilanna hækka um 3 milljarða vegna verðlagsáhrifa. Þetta eru ein áhrif af gjaldskrárhækkunum ríkissjóðs, getum við sagt. Í þessu eru fleiri hækkanir, t.d. verður olíugjald hækkað, það mun fara beint út í verðlag, kílómetragjald mun hækka o.s.frv. Ég ætla ekki að gera frumvarp til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum að umtalsefni heldur ætla ég fremur að benda á að þetta frumvarp er verðbólguhvetjandi nákvæmlega eins og formaður ASÍ hefur bent á. Íslendingar þekkja mæta vel hvaða áhrif verðbólga hefur. Hún rýrir raunlaun í landinu og ráðstöfunartekjur og leiðir til þess að húsnæðislán hækka, eða verðtryggðu lánin hækka. Bara þessi litla sakleysislega breyting sem á að skila ríkissjóði 1 milljarði í tekjum leiðir til þess að lán heimilanna hækka um 3 milljarða.

Það er ljóst að ekki hafa verið valdar þær aðgerðir til tekjuöflunar sem leiða til óverulegra eða engra verðlagshækkana. Það er miður vegna þess að íslensk þjóð er hvað viðkvæmust fyrir hækkun á höfuðstól verðtryggðra lána um þessar mundir eins og allir sem fylgjast með fréttum þekkja. Þetta um tekjuhliðina.

Gjaldahliðin er þensluhvetjandi. Svona kosningapakkar þar sem á að fara um landið í gullvagni og dreifa gjöfum leiða líka til hækkunar á verðlagi. Nú vildi ég óska þess að ég hefði rangt fyrir mér í þessu efni en því miður virðist vera sem mætir aðilar á markaði, eins og Seðlabankinn og hagdeild ASÍ, hafi komist að sömu niðurstöðu þannig að þau varnaðarorð hefði ríkisstjórnin átt að taka til sín í þessu frumvarpi til fjárlaga.

Ég hef í fyrri ræðum mínum farið yfir hagvaxtarforsendurnar og í morgun var Danske bank með kynningu á hagvaxtarspá sinni fyrir næsta ár. Bankinn metur að hagvöxtur geti legið á bilinu 2,2–2,9% þannig að spár Seðlabanka, ASÍ og Hagstofu rúmast innan þess ramma. En eins og ég hef rakið þá tel ég að horfur á alþjóðamarkaði, bæði hvað varðar verð á fiskafurðum og útflutning á fiskafurðum, hvað varðar versnandi efnahagsástand í Evrópu og Bandaríkjunum sem þýðir að ferðamennska verður sennilega ekki jafnmikil á næsta ári og hún var á þessu, leiði til minni vaxtar ferðamennsku á Íslandi og þar af leiðandi minni gjaldeyristekna af ferðamönnum auk þess sem ríkisstjórnin virðist ekki vera tilbúin til þess að leggja í þær fjárfestingar sem þarf í Þingeyjarsýslum vegna Bakka til að uppbygging geti hafist þar af fullum krafti. Ekki eru heldur blikur á lofti um að uppbygging í Helguvík muni hefjast af krafti á næsta ári eins og gert er ráð fyrir í spám. Sennilega er raunhæfara að byggja hagvaxtarspá fyrir næsta ár á mati hagdeildar ASÍ, en hagdeild ASÍ spáir því að hagvöxtur gæti orðið um 1,5% á næsta ári þegar talað er um hagvöxt án álvers í Helguvík sem engar líkur eru á að verði og þegar Landspítalinn er tekinn frá. Ríkisstjórn hefur nýverið lýst því yfir að sú framkvæmd verði ekki einkaframkvæmd heldur fari inn á langtímafjárlög og þar af leiðandi seinkar henni eitthvað.

Það virðist vera rétt ályktað hjá Seðlabankanum og ASÍ að þetta frumvarp verði verðbólguhvetjandi og hagvaxtarforsendur leiði til þess að tekjur verði lægri en menn hafa gert ráð fyrir.



[17:01]
Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Mig langar á þeim stutta tíma sem ég hef hér við 2. umr. fjárlaga til að gera veiðileyfagjaldið að umtalsefni, ekki síst í ljósi þeirrar ömurlegu fréttar frá Þorlákshöfn, sem var til umræðu á milli mín og hæstv. forsætisráðherra í fyrirspurnatíma fyrr í dag, þess efnis að 27 manns hafi verið sagt upp í morgun í sjávarútvegsfyrirtækinu Auðbjörgu ehf. Þetta eru ömurlegar fréttir og skýringarnar eru nokkrar en þó helst auknar álögur og sú aðför stjórnvalda að grundvallaratvinnugrein þjóðarinnar sem við höfum orðið vitni að á undanförnum árum.

Ástandið í sjávarútveginum er erfitt um þessar mundir. Ástand á mörkuðum er þungt, mikil birgðasöfnun og verð lágt vegna efnahagsástands á þeim mörkuðum sem við eigum mest í viðskiptum við, allt eru það áföll sem sjávarútvegurinn er vanur að takast á við. Útgerðarfyrirtækin vita að verð getur farið upp og niður, útgerðarfyrirtækin, og stjórnendur þeirra, vita að aflabrestur getur orðið. Þetta eru áföll sem menn búa sig undir og hagræða fyrir í rekstri.

Það er hins vegar afar erfitt fyrir stjórnendur þessara umræddu fyrirtækja að búa sig undir það ástand sem hefur varað á síðastliðnum árum. Það er því ekki skrýtið að mönnum ofbjóði. Veiðileyfagjaldið hefur hækkað á þessu ári úr rúmum 2 milljörðum upp í 12 milljarða í áætluðum tekjum fyrir ríkissjóð. Það er gríðarleg hækkun, 10 milljarða kr. hækkun á veiðileyfagjaldi sem átti að taka inn á þessu ári með auknum álögum á þessi fyrirtæki.

Í tilfelli þess fyrirtækis sem fjallað hefur verið um í fjölmiðlum í dag þá fer veiðileyfagjaldið á það fyrirtæki, Auðbjörgu, úr um það bil 15 millj. kr. í 52 millj. kr. á ári. Það breytist sem sagt úr því að vera um það bil 1 millj. kr. á mánuði, sem fyrirtækið greiðir í veiðileyfagjald, í það að verða 1 milljón kr. á viku. Það sér hver heilvita maður að þetta gengur ekki upp. Fyrirtækið getur ekki fjárfest, fyrirtækið getur ekki borgað fólki laun eins og kom fram í fréttum í dag og það er ömurlegt. En þá sagði hæstv. forsætisráðherra: Þetta er sanngjörn og eðlileg gjaldtaka og skýringanna hlýtur að vera að leita annars staðar.

Ég fór yfir það. Það eru erfiðir tímar á mörkuðum, það eru erfiðir tímar í sjávarútvegi en það er tímabundið og því geta menn gert ráð fyrir í áætlunum sínum. Ef við værum að horfa upp á að verið væri að taka þetta fjármagn af þessum fyrirtækjum til að efla löggæslu, til að efla heilbrigðiskerfið, til að efla grunnþjónustuna í landinu þá væri það nú sök sér. En það er ekki þannig. Það er verið að taka veiðileyfagjaldið til að setja peninga í grænkun íslenskra fyrirtækja, hvað sem það nú er. Það er verið að taka peninga í græn skref og vistvæn innkaup ríkisstofnana. Það er verið að taka peninga af þessum fyrirtækjum, leggja á þau auknar álögur sem sliga þau, í atvinnuleikhópa, útflutningssjóði og handverkssjóði. Allt rosalega fín mál. En ég get ekki séð réttlætið í því og ég get ekki séð að það sé hagkvæmt fyrir þjóðarbúið í heild að fyrirtæki í verðmætasköpun fari á hausinn, þráðbeint á hausinn, til að við getum verið með gæluverkefni eins og þau sem ég var að lýsa. Það er algjörlega fáránlegt að hlusta á hæstv. forsætisráðherra sem telur enn þá að þetta sé sanngjörn og eðlileg gjaldtaka. Það ömurlegasta við þetta allt saman er að við þessu öllu var varað. Allir sérfræðingar, hagsmunaaðilar, umsagnaraðilar úr öllum greinum sjávarútvegsins vöruðu við þessu. Og það sem meira er: Þetta átti allt að gerast til að auka nýliðun og aðgengi að auðlindinni; fallegra, líf í höfnunum og allt þetta.

Þetta verður hins vegar til þess að samþjöppun verður í greininni. Litlu krúttlegu og meðalstóru fyrirtækjunum, fjölskyldufyrirtækjunum úti um allt land, mun blæða. Það eru þau sem veiðileyfagjaldið er farið að bíta á nú þegar. Við sjáum dæmin frá Siglufirði í síðasta mánuði, Ögurvík og nú síðast í dag frá Þorlákshöfn. Fyrirtæki sem hefur í yfir 30 ár verið í rekstri, alltaf á sömu kennitölunni, stöndugt fyrirtæki, burðarás í sínu byggðarlagi — og það að 27 manns sé sagt upp í Þorlákshöfn jafngildir því að 1.700 manns missi vinnuna í Reykjavík. Það held ég að hæstv. forsætisráðherra, þingmaður Reykvíkinga, mundi kvarta yfir því ef 1.700 manns misstu vinnuna á einum degi í sama fyrirtækinu í Reykjavík.

Ég hef rætt þetta áður við þessa umræðu en ég ætla að gera það aftur vegna þess að þetta er svo rangt, þetta er svo röng forgangsröðun og þetta eru svo röng skilaboð. Ég spurði hæstv. forsætisráðherra: Hvaða skilaboð eru þetta til þessara 27 einstaklinga og fjölskyldna þeirra sem búa nú við það að vera búin að missa vinnuna? Og það er ekkert í sjónmáli að fá aðra vinnu, ekki í Þorlákshöfn. Ég leyfi mér að fullyrða að fleiri fyrirtæki þar þurfa að horfa í hverja einustu krónu og hvern einasta starfsmann. Spurningin er: Hvort á að borga skattinn eða borga fólkinu laun? Menn losna ekki við skattinn, því miður, ekki fyrr en við losnum við þessa ríkisstjórn, sem ég vona að gerist sem allra fyrst. En þetta getur ekki gengið svona.

Ef þetta væri nú til þess að bæta heilbrigðisþjónustuna — nei, þetta er í gæluverkefni. Og það sem meira er, það fólk sem stjórnar landinu hefur ekki einu sinni trú á eigin jólapökkum. Í öllum liðum er verið að henda út — og þetta eru engar smáupphæðir. Það er milljarður hér, 800 millj. kr. í byggingu húss íslenskra fræða, sem er frábær hugmynd, ég held meira að segja að hún hafi orðið til í tíð okkar sjálfstæðismanna og nota átti símapeningana í það. Nú eru þeir peningar bara ekki til lengur og þá held ég að við getum öll orðið sammála um það, eins miklir stuðningsmenn og við erum fyrir þessa framkvæmd, að leggja hana aðeins til hliðar og borga frekar lögreglumönnunum okkar. Að leggja hana aðeins til hliðar og byggja upp góða heilbrigðisþjónustu og tryggja að hún verði áfram á heimsmælikvarða.

Stærsta vandamálið í dag í íslensku samfélagi er það að ekki er leitast við að ná samstöðu um það sem máli skiptir. Ríkisstjórn Íslands er of upptekin við að vinna hugmyndafræðilega sigra, berja á íhaldinu og gegn öllu því sem við sjálfstæðismenn höfum komið til leiðar á undanförnum árum. Skiptir þá engu máli hvort það er gott eða slæmt og það er það sem er svo sorglegt. Þess vegna á þetta fjárlagafrumvarp ekkert annað skilið en falleinkunn.



[17:11]
Erla Ósk Ásgeirsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér frumvarp til fjárlaga 2013. Mig langar í fyrsta lagi að koma inn á breytingartillögu sem hv. allsherjar- og menntamálanefnd gerði við fjárlagafrumvarpið. Það er áhugavert í því samhengi, kemur inn á það sem hv. þm. Ragnheiður Elín Árnadóttir kom inn á hér áðan, hún nefndi töluna 27, verið var að segja upp 27 einstaklingum í kjölfar aukinna álaga á sjávarútveginn. Það eru einmitt 27 einstaklingar sem fá 126% launahækkun um áramótin í boði ríkisstjórnarinnar, það eru alls 81 millj. kr., heiðurslistamannalaun sem skiptast á 27 einstaklinga sem munu nú fá greidd 2,9–3,6 millj. kr. í laun. Ég er viss um að það eru ansi margir sem væru til í að sjá þessari tillögu frestað. Þetta hefur verið bundið í lög en við sjálfstæðismenn viljum sjá þessari launahækkun frestað. Við teljum ekki tímabært að veita fé núna í þessa hækkun sem á að koma til framkvæmda við áramót. Og í rauninni ætti að fresta henni ótímabundið. Á meðan við höfum ekki tök á að rækja grunnþjónustu samfélagsins og þurfum að auka álögur og hækka skatta á sjávarútvegsfyrirtæki og einstaklinga þá getum við ekki leyft okkur að hækka laun heiðurslistamanna um 126% á milli ára, 81 millj. kr.

Þetta telur allt saman þegar saman kemur og sérstaklega á erfiðum tímum. Við vitum að íslenska ríkið eyðir síst minni hluta tekna sinna í menningu og listir en aðrar þjóðir sem við berum okkur saman við. Það er mín skoðun að við getum ekki leyft okkur þessa forgangsröðun á fjárlögum á meðan meginþorri fólks í landinu hefur mátt þola mikla kaupmáttarskerðingu vegna launalækkana, verðhækkana og skattahækkana.

Við blasir vandamál sem farið er að vinda mjög upp á sig á Landspítalanum þar sem hjúkrunarfræðingar hafa hver á eftir öðrum sagt starfi sínu lausu. Þeir treysta sér ekki til að vinna við þær aðstæður sem nú eru og þeir treysta ekki ríkisstjórninni til að klára að semja við þá. Samningar þeirra hafa nú verið lausir í eitt ár, að ég tel, þannig að þetta er algjörlega óviðunandi. En á meðan erum við hér á Alþingi að ræða launahækkun upp á 126% fyrir heiðurslistamenn. Ég vil ekki gera lítið úr starfi þeirra listamanna en þetta á engan rétt á sér þessum tímapunkti.

Í öðru lagi fannst mér áhugavert það sem ég heyrði að upplýst hefði verið á fundi efnahags- og viðskiptanefndar í morgun og snertir fjárlagafrumvarpið. Það voru upplýsingar um að hækkun tóbaksskattanna ein og sér leiði til þess að lán heimilanna hækki alls um 3 milljarða kr. Verði frumvarpið samþykkt óbreytt mun sú upphæð renna inn á lán heimilanna. Eru heimilin í stakk búin til að taka þær auknu byrðar á sig? Ég segi nei. En við verðum líka að gera okkur grein fyrir að hér er einvörðungu verið að ræða um tóbaksgjaldið en ekki áhrif annarra skattbreytinga á neysluvísitöluna og þar með á lán heimilanna. Þetta er bara eitt af svo mörgu.

Fyrir liggur að bensíngjald verður hækkað, áfengisgjöld verða hækkuð, vörugjöld verða hækkuð svo að ekki sé minnst á sykurskattinn. Allt hefur það áhrif á vísitöluna og lánin hjá fjölskyldunum í landinu. Hæstv. forsætisráðherra var fyrr í dag spurður út í áhrif annarra hækkana á lán heimilanna. Fátt var um svör. Að mínu mati er það algjörlega ótækt að ekki hafi verið búið að reikna út þau áhrif sem koma fram hér í fjárlögum. Það er bara dæmi um léleg vinnubrögð sem þarf svo sannarlega að bæta úr hér. Menn verða að vanda sig við fjárlagagerðina og menn verða að gera sér grein fyrir áhrifum hækkana, breytinga í fjárlögum, á fjölskyldurnar og heimilin í landinu og á efnahaginn. Það verður að liggja fyrir.

Svo eru önnur jaðaráhrif ef svo má kalla sem koma með þessu frumvarpi sem mér finnst mjög mikilvægt að koma inn á. Það snertir kannski meira yngri kynslóðina en þá eldri, ég veit það ekki, alla vega virðist það snerta meira þá sem hafa minna á milli handanna.

Með leyfi hæstv. forseta, þá var fyrirsögn Fréttablaðsins nú í vikunni: „Bruggið hellist yfir landann.“

Ekki að ástæðulausu. Helmingur námsmanna á Íslandi verður meira var við heimabrugg og smygl nú en fyrir hrun. Hlutfallið hefur hækkað frá því í fyrra. Þetta kemur fram í nýrri könnun sem gerð var á vegum MMR fyrir Félag atvinnurekenda um miðjan nóvember. Samkvæmt könnuninni hefur 31% svarenda orðið vart við mikla eða nokkra aukningu á heimabruggi eða smygli á áfengi frá hruni. Hlutfallið var áður 22%. Tæp 48% svarenda á aldrinum 18–29 ára sögðust hafa orðið vör við mikla eða nokkra aukningu. Sjálf er ég nú örlítið eldri en 29, ég er 35 ára, en ég þekki dæmi þess að fólk er farið að sjá þetta mun frekar og menn eru að leita í þessa átt, þetta er að færast frá ríkinu. Ég las mér til um það að sala á sterku áfengi hefur dregist saman um 40% frá því 2008 og að mér skilst bara á þessu ári um 6%. Jú, það hefur dregið úr sölunni en þessar fréttir og þessi könnun sýnir okkur að það hefur ekki endilega dregið úr drykkjunni eða neyslunni eins og menn voru kannski að vonast til. Heldur hefur þetta færst út fyrir og á svarta markaðinn.

Þetta er skýr afleiðing af stefnu vinstri stjórnarinnar og þeirri stefnu hennar sem kemur fram í fjárlagafrumvarpinu sem við erum að fjalla um hér. Framleiðslan og neyslan færist út fyrir markaðinn. Við vitum að þessi hækkun á áfengisgjöldunum fer beint inn í vísitöluna og hefur þau slæmu áhrif sem ég kom inn á hér áðan. Ég hef tekið dæmi til að sýna fram á hvernig þessar hækkanir, sem virðast ekki svo miklar, hafa bein áhrif á lánin. Ég tók dæmi hér áðan um tóbaksgjaldið, það færir lánin upp um 3 milljarða kr. Ég er með annað dæmi sem er mjög einfalt að skilja og það er afborgun af leiguhúsnæði sem var 160 þús. kr. árið 2010, vísitölutengt lán, en er nú 175 þús. kr. Leigjendurnir þurfa sem sagt að takast á við 15 þús. kr. hækkun í hverjum mánuði.

Við vitum að launaþróunin hefur ekki verið sú sama, launin hafa ekki verið að hækka eins hratt og vísitalan. Þannig að þetta er mjög miður og þetta er með þeim verri fréttum sem við getum fært fólki nú í desember. Það er mjög slæmt að vera að þyngja byrðarnar enn frekar. Maður finnur að fólk er að breytast, fólk er að verða aðeins bjartsýnna en þetta er ekki til að hjálpa upp á það. Því miður er ástæðuna fyrir því hvernig byrðarnar þyngjast á fjölskyldurnar í landinu að finna í þessu fjárlagafrumvarpi. Ég vona svo sannarlega að frumvarpið taki breytingum í næstu umræðu. Nú líður að því að þessari umræðu ljúki og ég vona svo sannarlega að ríkisstjórnin sjái sóma sinn í því að lækka þessar fyrirhuguðu álögur á fjölskyldurnar í landinu.



[17:21]
Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Í þessari ræðu minni ætla ég að tala um veiðigjald. Veiðigjald býr til hluta tekjuhliðarinnar í fjárlagafrumvarpinu. Ég vil halda því fram að veiðigjaldið sé óréttlátur skattur, það sé landsbyggðarskattur, það sé vanhugsaður skattur og að það geti, eins og það er útfært, leitt okkur Íslendinga í miklar ógöngur í framtíðinni. Ég ætla að taka einföld dæmi til að útskýra þetta betur.

Í Fjallabyggð er fyrirtæki sem heitir Rammi. Veiðigjaldið sem Rammi á að borga á þessu ári er rúmar 500 millj. kr. Þetta veiðigjald leiðir til þess að fyrirtækið mun geta staðið undir vöxtum á lánum sem hvíla á því en það mun ekki geta staðið undir afborgunum. Á næsta fiskveiðiári mun þetta gjald hjá Ramma hækka í 700 milljónir. Þá mun Rammi ekki geta borgað nema hluta af vöxtum af lánum en engar afborganir. Þarnæsta ár, þegar veiðigjaldið er komið að fullu inn, mun Rammi borga 900 millj. kr. og fyrirtækið mun ekki geta staðið undir vöxtum og ekki afborgunum og er mat forráðamanna fyrirtækisins að það muni fara á hausinn á fimm árum.

Rammi myndar grunnatvinnuveginn í Fjallabyggð, á Siglufirði. Hjá fyrirtækinu vinnur fjöldi fólks bæði í landi og á sjó og með veiðigjaldinu verður fótunum kippt undan fyrirtækinu. Fólkið mun missa vinnuna og Fjallabyggð verður næsta Raufarhöfn. Þetta eru afleiðingar gjörða stjórnmálamanna sem hafa ekki yfirsýn yfir hvað þeir eru að gera, en sumir stjórnmálamenn sem tilheyra stjórnarflokkunum vita nákvæmlega hvað þeir eru að gera en þeim er sama, jafnvel þingmönnum kjördæmisins, vegna þess að það eru völdin sem skipta máli, ekki afkoma fólksins í byggðunum.

Ég ætla að taka annað dæmi. Í Grímsey búa 60 manns, hafa þar vetrarsetu. Í Grímsey er stundaður sjávarútvegur eins og í strandbyggðunum í kringum landið. Veiðigjaldið sem lagt var á Grímseyinga er rúmar 60 milljónir. Maður þarf ekki að vera góður í reikningi til að sjá að 60 deilt með 60 er 1 milljón á mann. Hver kona, hvert barn og hver maður þarf því að borga að meðaltali 1 milljón í veiðigjald þar.

Ég get tekið fleiri dæmi. Auðbjörg í Þorlákshöfn. Þar var veiðigjald hækkað. Áður en hækkunin varð borgaði það fyrirtæki 1 milljón á mánuði í veiðigjald en með breytingunum sem núverandi ríkisstjórn innleiddi greiðir það 1 milljón á mánuði. Í dag var tilkynnt að 27 manns hefði verið sagt upp til að fyrirtækið færi ekki lóðrétt á höfuðið.

Ég get tekið fleiri dæmi. Á Siglufirði gera menn út og eru með þó nokkuð af fólki í vinnu. Hjá Siglunesi hefur veiðigjaldið og reyndar samdráttur í afla leitt til þess að þar er búið að segja upp 35 manns.

Þetta er saga sjávarbyggðanna. Þetta eru afleiðingar veiðigjaldsins sem var lagt á og á að fjármagna fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar, sem er kynnt í fjárlagafrumvarpinu, verkefni eins og grænkun íslenskra fyrirtækja, græn skref og græn innkaup hjá ríkisstofnunum. Það á að byggja hús íslenskra fræða fyrir þessa fjármuni. Með því er ég ekki að gera lítið úr húsi íslenskra fræða vegna þess að við sjálfstæðismenn höfum verið algjörir stuðningsmenn þess húss, en það er ekki tímabært að fara í þá framkvæmd þegar ekki eru til peningar. Við viljum bíða með hana þar til fjárhagur ríkissjóðs leyfir. Við viljum ekki að fólki hjá Auðbjörgu, Siglunesi, Ramma, Grímsey og á sjávarstöðunum hringinn í kringum landið verði sagt upp til þess að hægt verði að byggja það hús — það viljum við ekki.

Tekjuhlið þessa frumvarps er vanhugsuð. Hún dregur máttinn úr fyrirtækjunum og leiðir til þess að minni fjárfesting verður í landinu en ella. Hún leiðir til þess að fyrirtæki segja upp fólki í þeirri von að þau geti einhvern veginn náð í gegnum brimskaflinn. Þetta er grafalvarlegt mál.

Það er brýnt að hér komist til valda stjórnmálamenn sem skilja á hverju lífið í landinu grundvallast, á hverju efnahagsleg velmegun okkar Íslendinga er byggð og að hér er ekki, eins og hæstv. forsætisráðherra hélt fram fyrr í dag, svo gríðarleg framlegð í sjávarútvegi að hægt sé að skattleggja greinina úr öllu hófi og það hafi engar afleiðingar.

Þetta kerfi er byggt upp þannig að miðað er við framlegð ársins á undan og það er skattstofninn sem er lagður á. Skattstofninn fyrir þetta ár er sem sagt árið í fyrra og á þessu ári eru gríðarlegar verðlækkanir á mörkuðum. Það eru að safnast upp birgðir og það er að verða slæmt ástand í sjávarútvegi, sérstaklega í bolfiskveiðum, sem mun leiða til þess að fæst fyrirtæki munu hafa afkomu eða framlegð sem er í nokkru samræmi við það sem hún var í fyrra. Þetta virðist hæstv. forsætisráðherra ekki taka með í reikninginn enda sjáum við afleiðingarnar af þessu háttalagi. Það er verið að segja upp fólki í sjávarbyggðunum í kringum landið. Fólk er að verða atvinnulaust vegna skattstefnu ríkisstjórnarinnar þar sem er sagt berum orðum að veiðigjöldin séu lögð á til þess að standa undir gæluverkefnum sem mun verða dreift af gullvagni ríkisstjórnarinnar þegar hann fer hringinn í kringum landið í þeirri von að hægt sé að glepja kjósendur til að kjósa aftur það fólk sem er búið að koma okkur í þær ógöngur sem við stöndum frammi fyrir núna. Þetta er hneyksli. (Gripið fram í: Hárrétt.)



[17:31]
Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Það líður að lokum 2. umr. fjárlaga og málið fer þá áfram til hinnar þriðju.

Við höfum í þeirri umræðu, sem staðið hefur þó nokkuð lengi, farið yfir nokkra lykilþætti sem við teljum að hafi verið mjög gagnrýnisverðir. Fyrst vil ég nefna málsmeðferðina alla, að málið skuli hafa verið tekið út úr fjárlaganefnd áður en tekjuhlið frumvarpsins var kynnt fyrir nefndinni er í raun og veru alveg ótrúlegt. Að tekjuhlið frumvarpsins skuli ekki liggja til grundvallar 2. umr. og afgreiðslu nefndarinnar er með ólíkindum. Við höfum farið yfir það.

Það hefur verið sagt í umræðunni undanfarna daga að af því að hún hafi staðið lengi væru jafnvel launagreiðslur opinberra starfsmanna í upphafi næsta árs í uppnámi. Auðvitað er það ekkert annað en ómerkilegur hræðsluáróður enda hefur 2. umr. á undanförnum árum oft á tíðum staðið yfir þegar lengra er liðið á desembermánuð. Það vildi ég segja um lengd umræðunnar og þá afgreiðslu sem málið hlaut í nefndinni. Auðvitað skiptir hin efnislega gagnrýni sem við höfum fengið tækifæri til að koma á framfæri í 2. umr. langmestu máli.

Þar ber að sjálfsögðu hæst að við teljum að gjöld ríkissjóðs séu vantalin eins og þau munu birtast á næsta ári og við höfum tiltekið nokkra stóra liði í því samhengi. Í fyrsta lagi er það staða Íbúðalánasjóðs. Það hefur síðan komið á daginn undanfarið að ríkisstjórnin hyggst leggja aukna fjármuni til Íbúðalánasjóðs til að byggja betur undir lágmarkseiginfjárgrunn sjóðsins. Vandi hans hefur hins vegar verið til umræðu meira eða minna allt þetta ár og hann hefur legið fyrir í allt haust. Þess vegna er með ólíkindum og mjög gagnrýnisvert að sá liður skyldi ekki hafa fylgt með í frumvarpinu frá upphafi.

Annað dæmi um vanreiknuð útgjöld ríkissjóðs eru ábendingar ríkisendurskoðanda sem komu fram fyrir örfáum dögum þar sem bent er á að áfallnar lífeyrisskuldbindingar vegna LSR séu að minnsta kosti 10 milljarðar og þeirra sé ekki heldur getið í fjárlagafrumvarpinu. Það er annar liður sem er gagnrýnisvert að ekki sé tekinn með. Ég gæti haldið áfram að telja upp liði og nefnt Landspítalann þar sem boðað er að ríkisstjórnin hyggist fara í einhverjar útgjaldafrekar framkvæmdir en það liggur ekki nákvæmlega fyrir á þessari stundu. Ég gæti nefnt löggæslumálin þar sem öllum ætti að vera ljóst að þurfi að koma til auknir fjármunir. Allt eru það dæmi um liði sem við höfum bent á í umræðunni að séu vantaldir. Þess vegna er heildarniðurstaðan í frumvarpinu að okkar áliti í besta falli óskhyggja. Hún er óraunsæ að okkar mati og engar líkur eru til þess að ríkissjóður verði rekinn með heildarjöfnuði sem verður einhvers staðar nálægt núllinu á næsta ári. Við teljum að líkurnar standi til að hið sama gerist á næsta ári og hefur gerst undanfarin ár, að stjórnvöld ofmeti stöðuna stórkostlega. Undanfarin ár hefur það ítrekað gerst að niðurstaðan hefur verið tugum milljarða verri en lagt var upp með í fjárlögum. Það mun endurtaka sig að okkar áliti.

Síðan höfum við tekið nokkra lykilþætti til sérstakrar umfjöllunar í umræðunni sem tilheyra henni ávallt þegar lögð eru fram fjárlög á Alþingi. Þar má nefna sem dæmi ábendingar sem hafa komið fram í umræðunni, eða í vinnu nefndarinnar, um að fjárlagafrumvarpið sé verðbólguhvetjandi og setji stöðuna á vinnumarkaði í visst uppnám. Ábendingar um það hafa til dæmis komið frá Samtökum atvinnulífsins. Nýleg vaxtahækkun Seðlabankans verður líka að koma inn í umræðuna. Menn verða að velta því fyrir sér hvort það sem er yfir höfuð verið að gera í opinberum fjármálum sé í einhverjum takti við það sem Seðlabankinn er að reyna að gera, að halda verðbólgunni niðri. Ákvörðun um vaxtahækkun hjá Seðlabankanum er til merkis um að menn nái ekki tökum á vandanum.

Frá því að þetta fjárlagafrumvarp var lagt fram hafa aðilar eins og ASÍ og Samtök atvinnulífsins bent á fjölmarga veikleika. Ég nefni sem dæmi þann samanburð sem gerður hefur verið af hálfu Samtaka atvinnulífsins á fjárlögum ársins 2009 og því sem hér er til umræðu, hvernig útgjaldaliðirnir og tekjuliðirnir hafa verið að breytast. Í mjög grófum dráttum má segja að sóttir hafa verið tæpir 90 milljarðar með nýjum sköttum, nýrri skattlagningu, ekki þeirri skattlagningu sem birtist bara í þessu frumvarpi heldur sem hefur komið fram ár eftir ár. Aðhaldshliðinni megi skipta í tvennt, annars vegar í samdrátt í opinberum fjárfestingum og hins vegar í aðhaldsaðgerðir sem hafa skilað sparnaði. Aðhaldsaðgerðirnar eru í mjög grófum dráttum: Samdráttur í opinberri fjárfestingu, u.þ.b. 30 milljarðar, og aðhaldsaðgerðir sem skila varanlegum sparnaði, aðrir 30 milljarðar. Það er allt aðhaldið, öll hagræðingin sem náðst hefur yfir allt það árabil samkvæmt því sem hefur komið fram í þeim umsögnum.

Við höfum vakið athygli á því í umræðunni að vöruskiptaafgangur eins og hann hefur verið að þróast á þessu ári er okkur mikið áhyggjuefni. 40% samdráttur í vöruskiptaafgangi fyrstu níu mánuði ársins er verulegt áhyggjuefni, ekki síst í því ljósi að við þurfum á komandi árum að stórauka útflutningstekjurnar til að geta afnumið höftin og hafið niðurgreiðslu skulda. Talandi um skuldir þá hafa vaxtagjöld ríkissjóðs farið vaxandi ár frá ári. Á árinu 2009 voru þau 84 milljarðar, þ.e. árið eftir fall bankanna. Þau lækkuðu niður í 68 árið 2010, svo voru þau 65 og byrjuðu síðan aftur að stíga upp í 76 milljarða í fyrra. Í þessu frumvarpi erum við aftur komin með vaxtagjöldin upp í 84 milljarða. Þannig hefur vaxtajöfnuðurinn, þ.e. vaxtagreiðslur okkar þar sem tekið hefur verið tillit til vaxtatekna, mismunur á vaxtatekjum og vaxtagjöldum verið að vaxa á undanförnum árum úr 46 milljörðum 2011, í 55 milljarða 2012 og í þessu frumvarpi greiðum við 63 milljarðar á ári í vexti umfram það sem við höfum í vaxtatekjur.

Það er tala sem verður einfaldlega að lækka á komandi árum. Það er bara ein leið til að lækka hana og það er með því að greiða niður skuldir. Liður í því er að sjálfsögðu að finna lausn á gjaldeyrishöftunum þannig að við séum ekki með óþarflega stóra sjóði að baki gjaldeyrisvaraforðanum sem við þurfum að greiða vexti af. Grundvallaratriðið er aðhald í ríkisfjármálunum og auknar útflutningstekjur.

Það tengist efnahagsstefnu stjórnarinnar. Það sem hefur mistekist, eins og við höfum svo margoft bent á á þessu kjörtímabili og ítrekað í umræðunni, er vegna getuleysis ríkisstjórnarinnar til að skapa hvetjandi umhverfi fyrir nýjar fjárfestingar og hagvöxt sem drifinn er áfram af nýrri fjárfestingu í gjaldeyrisskapandi greinum. Þar er auðvitað nærtækt að benda á orkugeirann, á það ástand sem hefur verið viðvarandi í sjávarútvegi og það er að sjálfsögðu eðlilegt að taka líka með þær árásir sem birtast þetta haust gagnvart ferðaþjónustunni í landinu. Að lokum verðum við að gera miklu betur gagnvart skapandi greinum og alls kyns verk- og iðngreinum sem fela í sér gríðarlega mikil vaxtartækifæri en hefur alls ekki verið sinnt af núverandi ríkisstjórn. Allt eru það atriði sem hefur verið nauðsynlegt að taka með í umræðuna þegar fjárlagafrumvarpið er til 2. umr.

Við í Sjálfstæðisflokknum höfum í þeirri umræðu lagt til grundvallar nefndarálit 1. minni hluta fjárlaganefndar sem er ítarlegt. Þar er tekin saman heilmikil greinargerð þar sem öllum þeim sjónarmiðum sem ég hef rakið er komið á framfæri og mörgum fleiri. Þar er til dæmis færð fram gagnrýni á fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar og ég hef í fyrri ræðu minni vakið athygli á því hversu miklar umbúðir eru þar utan um lítið innihald. Fjárfestingar stjórnarinnar á komandi árum stefna í að vera hinar minnstu í 70 ár en engu að síður er blásið til blaðamannafunda og tilkynningar sendar út eins og menn séu að ná einhverjum tímamótaárangri.

Það er mikið áhyggjuefni hversu mjög hefur dregið úr getu ríkisins til að fjárfesta í nauðsynlegum innviðum samfélagsins. Eins og ég kom inn á rétt áðan er það að stórum hluta til vegna þess að mistekist hefur að koma af stað nýju hagvaxtarskeiði og menn hafa ekki gert nægilega mikið í því að draga úr varanlegum rekstrargjöldum og öðrum tilfærslum. Það er einfaldlega nauðsynlegt að ná betri árangri á því sviði þótt það geti verið erfitt viðfangsefni og flókið. Ég nefni í því samhengi þær hörmungar sem hafa í raun og veru dunið yfir einkageirann á Íslandi á undanförnum fjórum árum. Það hafa um það bil 15 þúsund störf tapast í einkageiranum á meðan tiltölulega fá hafa tapast í opinbera geiranum. Þegar ég segi tiltölulega fá er ég í raun og veru að tala um að nánast engin störf hafa tapast í opinbera geiranum í samanburði við það sem hefur gerst í einkageiranum. Það hlýtur að vera okkur mikið umhugsunarefni og mönnum tilefni til að velta því fyrir sér hvernig hægt er að fá meiri þjónustu fyrir minna framlag. Við hljótum að gera okkur grein fyrir því að við getum ekki haldið áfram á þeirri braut að sífellt færri einstaklingar vinni í einkageiranum á móti hverju opinberu starfi. Það séu sífellt færri Íslendingar að vinna í verðmætaskapandi greinum á móti þeim sem starfa við að veita opinbera þjónustu. Það er þróun sem verður einfaldlega að vinda ofan af.

Við höfum líka tekið ýmis önnur atriði eins og einstaka liði fjárfestingaráætlunarinnar til umræðu. Ég leyfi mér í því sambandi að vísa til þess sem áður hefur verð sagt og fram kemur í nefndarálitinu sem er ítarlegt að því leytinu til. Ég vil að öðru leyti þakka fyrir ágætlega málefnalega umræðu. Hún hefur á köflum farið aðeins út af sporinu vegna gagnrýni á lengd umræðunnar en það hafa ekki verið nokkrar einustu innstæður fyrir því að mínu áliti. Hér hefur einfaldlega átt sér stað umræða um fjárlög sem samkvæmt þingsköpum er ávallt með tvöföldum ræðutíma og þess vegna er ástæða til að gera ráð fyrir því að umræðan taki sinn tíma.