143. löggjafarþing — 28. fundur.
störf þingsins.

[10:32]
Páll Valur Björnsson (Bf):

Hæstv. forseti. Ég kveð mér hljóðs í dag, undir liðnum störf þingsins, til að minna á hina lægstlaunuðu í þjóðfélaginu. Ég hef alltaf verið láglaunamaður sjálfur, alla mína tíð, og á undanförnum dögum og vikum hefur kjarabarátta hinna lægst launuðu birst okkur í ljósvakamiðlum og á netinu. Auglýsing frá SA, Samtökum atvinnulífsins, hefur valdið miklu róti á meðal verkalýðsforustunnar sem svaraði svo til baka með myndbandi og vel má orða það svo að í því líki hún Samtökum atvinnulífsins við Hitler og hans hyski. Í þeirri auglýsingu kemur fram að lægstu launin megi alls ekki hækka um meira en 2%. Nú hef ég verið meðal hinna lægst launuðu æði lengi og stóran part af lífi mínu og ég á ofboðslega erfitt með að sætta mig við eða átta mig á því hvernig það getur sett þjóðfélagið á hliðina að hækka lægstu launin á sama tíma og verið er að tala um að sjávarútvegur og fiskvinnsla hafi aldrei gengið jafn vel, methagnaður sé í verslun, ferðaþjónusta hafi aldrei staðið jafn vel og nú — samt er alveg vonlaust að hækka launin hjá þessu fólki.

Í raun er verið að gefa í skyn að frekjulegar — ef ég má segja það orð, hæstv. forseti — kröfur hinna lægst launuðu kosti alltaf verðbólgu og launaskrið. Mér finnst þetta ótrúlega fornlegur málflutningur og enn á ný ætlum við að skilja þennan hóp eftir. Það er ekkert sem kemur fram í fjárlagafrumvarpinu sem á að mæta þessum hóp, skattalækkanir eða aukinn persónuafsláttur eða neitt, og síðan koma Samtök atvinnulífsins og segja að laun megi ekki hækka um meira en 2%.

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar stóð að hún ætlaði að mynda sátt og auka samlyndi í þjóðfélaginu. Eitt af því væri til dæmis að koma verulega til móts við þennan hóp sem alltaf situr eftir, og ég vona að það verði gert.[10:34]
Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Ég var að koma af fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar þar sem ríkislögreglustjóri var fyrir svörum. Við spurðum hann um njósnir, sem sagt samstarf íslenska ríkisins og yfirvalda, lögreglunnar, ríkislögreglustjóra, greiningardeildar lögreglunnar við NSA eða Þjóðaröryggisstofnun Bandaríkjanna og leyniþjónustur Bandaríkjanna almennt. Ég bað ríkislögreglustjóra um að gefa okkur upplýsingar og sýndi honum mynd sem við þingmenn Pírata fengum um þann tæknibúnað sem er staðsettur á Íslandi og notaður til að safna upplýsingum á Íslandi, að okkur er sagt. Það var bókað í fundargerð. Við biðjum um svar frá ríkislögreglustjóra varðandi hvaða búnaður þetta sé, hvernig hann sé notaður og hvernig hann tengist samstarfi íslenskra lögregluyfirvalda við leyniþjónustur Bandaríkjanna. Við munum upplýsa betur um það þegar fram í sækir.

Það ánægjulega á þessum fundi var að ríkislögreglustjóri sagði óaðspurður að það væri mikilvægt að þingið hefði víðtækara eftirlit með lögreglunni til að auka traust á þeirri stofnun. Því fögnum við að sjálfsögðu og munum þegar fram í sækir vinna betur, vonandi með öllum flokkum, að slíku eftirliti því að það eru gríðarlega alvarlegar upplýsingar sem við höfum fengið um að íslensk lögregluyfirvöld séu mögulega að safna upplýsingum hér á Íslandi og deila þeim með erlendum yfirvöldum. Ég spurði um hvaða eftirlit væri haft með því að greiningardeildin fari ekki umfram heimildir sínar en það virðist vera tiltölulega takmarkað og það er nokkuð sem þarf að bæta.[10:36]
Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. þm. Páli Val Björnssyni um það málefni sem hann ræddi. Ég tel að við þurfum að standa mun betur að því að hækka laun þeirra lægst launuðu og fordæma þá auglýsingu sem í loftið hefur farið af hálfu þeirra sem þar um ræðir, þ.e. SA.

Það sem mig langar að gera að umtalsefni, virðulegi forseti, er að í dag er fimmtudagur og við erum að fara að ræða fjáraukalög vegna ársins 2013. Það verður enginn fundur í fjárlaganefnd á morgun, föstudag, og gert er ráð fyrir, enn sem komið er að minnsta kosti, að 2. umr. fjárlaga fari fram á þriðjudag. Breytingartillögur frá ríkisstjórn um frumvarpið, sem sagðar eru umtalsverðar, hafa ekki litið dagsins ljós þannig að okkur í minni hlutanum hefur ekki gefist tækifæri til að líta yfir þær. Því veltir maður fyrir sér hvort til standi að breyta starfsáætlun þingsins og hvenær það yrði ljóst ef svo væri, af því að ég tel algjörlega óásættanlegt að við fáum ekki tíma til að kalla fyrir gesti og útbúa nefndarálit með góðum fyrirvara. Ég tel að ekki sé tækifæri til þess.

Síðan langar mig að inna forseta eftir því hvort hann geti látið kanna það — af því að í gær var það nefnt að hafa fundi fjárlaganefndar meðan á þingfundi stendur — hversu oft það hefur komið fyrir, við getum sagt undanfarin sex ár eða eitthvað slíkt, hvort mögulegt sé að fá það fram vegna þess að því var haldið fram að það væri venja.[10:38]
Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Ég las grein eftir Söru Lind Guðbjartsdóttur í Morgunblaðinu í gær um bótasvindl og tjón okkar allra varðandi þau mál. Hún minnist þar á eftirlitsdeild Vinnumálastofnunar sem tók til starfa árið 2009 þegar mikið var að gera. Talið er að það ár hafi deildin náð árangri við að endurinnheimta óréttmætar bætur upp á um það bil 700 millj. kr. og á árinu 2012 um það bil 573 millj. kr. þrátt fyrir mikið álag í deildinni og fáa starfsmenn. Þrátt fyrir allt þarf auðvitað að gæta þess hvað skorið er niður í stofnunum og ganga ekki það nærri að deildir sem fylgjast með bótasvindli séu skornar nánast alveg við trog.

Hún segir líka í greininni að við heildarendurskoðun á lögum um atvinnutryggingar og almannatryggingar ætti að skoða hvort það fari ekki saman að endurskoða lögin saman. Tryggingastofnun hefur á undanförnum árum líka náð verulega góðum árangri í að koma í veg fyrir að greiða út bætur sem ekki eiga rétt á sér. Stofnunin sjálf telur að það séu jafnvel 1–4 milljarðar.

Mig langar líka að ræða þessi mál varðandi lyfseðla, þar finnst mér að við séum með opna gátt fyrir neytendur og þá sem vísvitandi nota sér eymd fólks. Við þurfum að geta fengið upplýsingar úr kerfinu til að koma í veg fyrir að óvandað fólk fari til margra lækna á dag, sæki lyf og selji það svo á götunni sem fíkniefni fyrir neytendur.[10:41]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs vegna þess að ég er sérstakur áhugamaður um að hinar gagnmerku tillögur eða efnistillögur hagræðingarhóps ríkisstjórnarinnar falli ekki í gleymsku og dá. Mér finnst fullmikið hafa dofnað yfir umfjöllun um það mál. Nú hefur fjáraukalagafrumvarp bæst við áður fram komið fjárlagafrumvarp þannig að ekki er úr vegi að spyrja hvernig ýmislegt þar rímar við vinnu og tillögur hagræðingarhópsins.

Það vakti athygli mína á sínum tíma að hagræðingarhópurinn fjallaði lítið um hagræðingu hjá ríkisstjórn eða æðstu embættum í landinu en þeim mun meira um ýmislegt annað og var reyndar fátt mannlegt óviðkomandi ef út í það er farið. Í fjáraukalagafrumvarpi eru lagðar til auknar fjárveitingar, t.d. til embættis forseta Íslands, og mikið svigrúm í fjárveitingum til forsætisráðuneytisins á sama tíma og í fjáraukalagafrumvarpinu eru skorin harkalega niður á þessu ári framlög til rannsóknarstarfsemi, nýsköpunar og fjárfestingar í innviðum. Þess vegna væri mjög fróðlegt að fá yfirferð á því frá talsmönnum hagræðingarhópsins og það staðfest eða eftir atvikum því mótmælt að þetta væri stefnan. Hún virðist vera að birtast smátt og smátt, bæði í því sem hagræðingarhópurinn sleppti að tala um og síðan í tillögum í fjárlagafrumvarpi og núna fjáraukalagafrumvarpi. Áherslan er á niðurskurð, ekki síst þarna, niðurskurð á rannsóknarstarfsemi, nýsköpunarstarfsemi og uppbyggingu og fjárfestingu innviða landsins.

Hins vegar er laus taumurinn þegar kemur að því að gefa á jötuna hjá embætti forseta Íslands og í forsætisráðuneytinu.[10:43]
Elín Hirst (S):

Virðulegur forseti. Það sem veldur mér miklum áhyggjum þessa dagana er ástandið í Kolgrafafirði og það mikla náttúruslys sem gæti verið að endurtaka sig þar. Ég hef fylgst nokkuð vel með því máli og ég verð að segja að hæstv. sjávarútvegs- og umhverfisráðherra hefur virkilega staðið vaktina og er greinilegt að reynt er að gera allt sem hægt er til þess að koma í veg fyrir síldardauðann. Ég er þeirrar skoðunar að ef brúin yfir fjörðinn veldur því á einhvern hátt að síldin safnast þarna saman, þar sem hún fær ekki nægt súrefni og drepst, verði að taka á því máli varanlega. Svona náttúruslys mega ekki endurtaka sig ár eftir ár.

Ég er ánægð með að þarna séu komnir rauntímamælar til að mæla súrefnismagn í sjónum og í gær kom fram í fréttum að varpa ætti einhvers konar neðansjávarsprengjum til að fæla síldina út úr firðinum. Fulltrúar Landhelgisgæslunnar sögðust þess fullvissir að sprengingarnar mundu ekki skemma lífríkið í sjónum meira en orðið er, en nýjustu fregnir herma að þeir ætli að nota svokallað „thunder flash“, með leyfi forseta, ég kann ekki að segja það á íslensku. Mér skilst að það séu litlir kínverjar, (Gripið fram í.)þ.e. sprengjurnar, þannig að það sé alveg á hreinu.

Ég sé líka að það er að störfum þverfaglegt gjörgæsluteymi sem vaktar stöðina í Kolgrafafirði og ég vona svo sannarlega að okkur takist að bægja frá slysi í þetta sinn, en síðan verður að leysa málið varanlega. Ég sendi öllum þeim sem að þessu flókna verki standa baráttukveðjur.[10:45]
Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég spyr: Er ekki mannréttindabrot að sprengja litla kínverja? Ég bara spyr. En það sem ég er hugsi yfir eru orð hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Ég hlustaði á hann í Kastljósi í gær og ef einhverjar breytingar eiga að verða á kvótakerfinu þá eru þær ekki sýnilegar á næstu árum ef þessi harðsvíraða kvótastjórn situr við völd. Það kom fram í máli hæstv. ráðherra að miða eigi við veiðireynslu síðustu þriggja ára í makríl og það sé eðlilegt. En á móti er ekki hægt að miða við veiðireynslu þriggja ára í rækju, það sé allt annar handleggur. Mér finnst að hæstv. ráðherra skuldi okkur svör um hvernig hann fær þetta nákvæmlega út og hvernig þetta eigi að standast.

Á Ísafirði er fyrirtæki sem nú hefur sagt upp fjölda manns út af þessari ákvörðun. Ég hélt að það væri verk þessarar ríkisstjórnar að reyna að koma svokölluðum hjólum atvinnulífsins í gang en ekki að stöðva þau hjól sem fyrir eru og eru komin í gang, en það virðist vera. Í máli hæstv. ráðherra kom líka fram að útgerðin á Vestfjörðum og Vesturlandi hefði lagst á hliðina hefði veiðigjaldið gengið eftir. Mér þætti gaman að heyra það rökstutt með tölum hvernig ráðherra fær það út. Ætli þær útgerðir sem þar eru séu ekki eitthvað laskaðar eftir það hvernig kvótakerfið hefur verið að þróast undanfarin tíu, fimmtán, 20 ár. Ætli flokkur hans beri nú ekki einhverja ábyrgð á því að hafa komið því kerfi á. En nú ætla framsóknarmenn að berja í brestina og að gera þetta kvótakerfi, eins ömurlegt og það er, að eilífðarvél hér í landinu. En ég segi nei. (Gripið fram í.)[10:47]
Elsa Lára Arnardóttir (F):

Virðulegur forseti. Eins og fram hefur komið í umræðum í þinginu eru ýmis málefni er tengjast umferðarmálum og forvörnum er snúa að þeim mér hugleikin. Eitt þeirra mála er snýr að málaflokknum er þingsályktunartillaga mín um hert viðurlög við ölvunar- og vímuefnaakstri en ég mun tala fyrir henni hér í þingsal seinna í dag.

Annað mál sem mér finnst mikilvægt varðandi öryggi vegfarenda í umferðinni er hjálmanotkun. Mikil vitundarvakning hefur orðið um hjálmanotkun á undanförnum árum og sem betur fer hefur notkun hjálma aukist, meðal annars hjá börnum og unglingum. Ég efast ekki um að gjafmildi ýmissa félagasamtaka hafi mikið um það að segja og aukin fræðsla um öryggi hjálma. Þess vegna finnst mér miður að heyra að ákveðin félagasamtök sem gefið hafa hjálma í 1. bekk grunnskólanna séu nú í vandræðum, sitji uppi með stóran lager af hjálmum sem ekki er hægt að afhenda þar sem stórt sveitarfélag hér á landi hefur neitað að taka við hjálmunum að gjöf frá félagasamtökunum. Ástæðan er meðal annars sú að hjálmarnir eru merktir flutningafyrirtæki sem flytur hjálmana frítt til landsins og verður það til þess að félagasamtökin fá ekki að fara með þessa góðu gjöf inn í 1. bekk grunnskóla í sveitarfélaginu sem hér um ræðir.

Ég verð að lýsa undrun minni með þetta mál því að við vitum að reiðhjólahjálmar kosta mikla peninga og það geta ekki allir klofið þann kostnað sem þarf til að kaupa þá. Mér persónulega finnst rangt að umrætt sveitarfélag taki það val af fjölskyldum hvort þær kjósi að fá þessa hjálma afhenta eða ekki. Mér finnst það óþarfaforræðishyggja.

Af hverju er ekki sú leið farin að afhenda hjálmana og leyfa fjölskyldum að hafa valið?[10:49]
Páll Jóhann Pálsson (F):

Virðulegi forseti. Mig langar að gera að umtalsefni 17. haustrall Hafrannsóknastofnunar Íslands, rall sem hefur verið farið í síðan 1996. Helstu markmið haustrallsins eru að styrkja mat á stofnstærð helstu nytjastofna á Íslandsmiðum. Auk þess er markmið verkefnisins að fá annað mat óháð aflagögnum úr vorrallinu á stofnstærð þeirra nytjastofna sem mældir eru þar. Þeir eru oftast talsvert umdeildir.

Ánægjulegt er að heildarvísitala þorsks hefur farið vaxandi síðustu sex árin og mældist nú sú hæsta síðan mælingar hófust. Er það í góðu samræmi við stofnmatið í vor. Lengdardreifing þorsks samanborið við mælingar síðan 1996 sýnir að meira er af þorski sem er 80 sentímetrar og stærri og kemur það einnig fram í aldursskiptum vísitölum sem sýna að 8–12 ára þorskur fer vaxandi. Þetta er árangur skilvirks aflamarkskerfis hjá okkur og aðgerða sem Hafrannsóknastofnun hefur beitt, t.d. með banni á netaveiðum með stórum riðli. Við sjáum strax að árangurinn lætur ekki á sér standa. Meðalþyngd þorsks eftir aldri hefur einnig aukist undanfarin ár í flestum aldurshópum.

Lélegir árgangar hafa verið undanfarið í ýsunni en þrátt fyrir það mælist meira af 25–35 sentímetra langri ýsu þannig að það eru aðeins bjartari horfur (Forseti hringir.) í henni.[10:52]
Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég tel rétt að óska eftir því að hæstv. forseti kanni sérstaklega hvort þingsköp hafi verið brotin í umræðunni fyrr í dag þegar hv. þm. Jón Þór Ólafsson vitnaði beint til ummæla sem féllu á lokuðum fundi í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd í morgun.

Ég ætlaði samt ekki að tala um það, ég ætlaði að tala um fjárstjórn ríkisins. Að mínu mati er alveg ljóst að við þurfum að innleiða aukinn aga í okkar vinnubrögð hér varðandi fjárlagagerðina. Við höfum til umræðu í dag fjáraukalög og við sjáum hversu mikil frávik eru frá þeim fjárlögum sem samþykkt voru á þinginu fyrir ári. Þetta er auðvitað ekki ný umræða, við höfum tekið hana öll undanfarin ár. Ég tel rétt að við setjumst yfir það í sameiningu hvernig hægt er að innleiða aukinn aga.

Hér var beint fyrirspurn til hagræðingarhópsins sérstaklega af hálfu hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar. Auðvitað má gera betur varðandi aðhald í Stjórnarráðinu. Það er skoðun mín og ég stend við hana. En af því að hv. þingmaður vitnaði sérstaklega til þess stóraukna kostnaðar sem embætti forseta Íslands fer fram á, gert er ráð fyrir 14 millj. kr. til viðbótar í fjáraukalagafrumvarpinu, þá er það þannig að þótt 14 milljónir séu talsvert fé er gerð grein fyrir því að verið er að endurnýja tækjabúnað og tölvubúnað sem hefur setið á hakanum á undanförnum árum. Aðrar tölur vekja meiri athygli í þessum kafla um æðstu stjórn ríkisins og ber þar helst að nefna kaflann um rannsóknarnefndir Alþingis þar sem gert er ráð fyrir að 321,2 millj. kr. fari þar inn. Ekki var gert ráð fyrir að slík nefndarvinna mundi kosta þá stórfenglegu fjármuni sem hún hefur gert. Við þurfum að taka okkur tak í þessu. Við getum ekki farið endalaust fram með auknar rannsóknarbeiðnir, nýjar skýrslubeiðnir, án þess að gera ráð fyrir því að það kosti fjármuni. (Forseti hringir.) Á því berum við ábyrgð, við sem sátum hér á síðasta kjörtímabili.[10:54]
Jóhanna María Sigmundsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég kem hér upp til þess að vekja máls á nýsköpun sem hefur svo sannarlega sett mark sitt á atvinnulíf og þróun hérlendis. Hér er ég að tala um Mjólkurvinnslustöðina Örnu í Bolungarvík sem fengið hefur frábærar móttökur um allt land. Þrátt fyrir að fyrirtækið sérhæfi sig helst í framleiðslu og vinnslu á vörum fyrir einstaklinga sem eiga erfitt með neyslu á venjulegum mjólkurvörum af einhverjum ástæðum, eins og til dæmis óþoli fyrir laktósa, hafa þessar vörur ekki hlotið minna hól frá hinum almenna neytanda.

Það er alltaf gleðilegt að sjá nýjungar á markaðnum sem skapa ákveðna breidd í úrvali. Að fara út í slíkt verkefni, sem er bæði dýrt og flókið, sýnir hverju brennandi hugsjón og hugrekki geta skilað. Sem dæmi er vinnsla á laktósafríum vörum hátt í 50% dýrari en á hinum hefðbundnu mjólkurvörum. Þessi framleiðsla hefur aukið enn á bjartsýni Vestfirðinga. Uppgangur í vestfirskri framleiðslu, rekstri og þjónustu og fleiru er mikil og ugglaust er það meginástæða þeirrar bjartsýni sem ríkir vestra. Það er ástæða til þess að vera bjartsýn því að það drífur fólk áfram og örvar samfélagið. Að miklu leyti er um að ræða nýsköpun. Þar er alls kyns ferðaþjónusta sem tengist til dæmis skíðum, norðurljósum, sjóferðum og svo má nefna þörunga- og saltvinnslu, framleiðslu á nýjum vörum sem snerta til dæmis veiðar, netmiðla og fleira, auk nýframkvæmda svo einhver dæmi séu nefnd.

En það er ekki nóg að Vestfirðingar standi eingöngu saman heldur verðum við öll að sýna ábyrgð og hjálpa til við uppgang nýrra fyrirtækja og tækifæra, samfélagið sem og ríkisvaldið. Ég tek þessi dæmi til að koma inn á meginpunkt máls míns; það verður að einfalda kerfið svo aðilar þurfi ekki að sækja um leyfi fyrir sama hlutnum til margra stofnana. Reglu- og leyfaumgjörð er flókin og hefur fælingarmátt fyrir minni fyrirtæki og hugmyndir sem þurfa tíma til að byggja sig upp en munu skila sínu eftir það. Það á ekki leggja gildrur fyrir aðila er huga að nýsköpun heldur þarf að halda utan um þá svo þeir geti framkvæmt því að við vitum að góðar hugmyndir koma samfélaginu til góðs.[10:56]
Þorsteinn Sæmundsson (F):

Hæstv. forseti. Það er mikið alvörumál þegar skera þarf niður í ríkisrekstri og varðar miklu á hvern hátt það er framkvæmt. Þess vegna verð ég að viðurkenna að fréttir af málefnum Ríkisútvarpsins í gær valda mér nokkrum áhyggjum og einnig viðbrögð við þeim. Það er nú einu sinni þannig að þegar maður fær það verkefni að skera niður í einni stofnun tekur maður venjulega ígrundaða ákvörðun um hvernig það er hægt, en í tilfelli Ríkisútvarpsins í gær virðist það vera gert með nokkuð tilviljunarkenndum hætti og nokkuð snöggt.

Heildarkostnaðurinn við rekstur Ríkisútvarpsins er í kringum 3 milljarða kr. Þar af eru launagjöld í kringum 2,2 milljarða. Ríkisútvarpið telur sig þurfa að skera niður um 500 millj. kr. en hagræðingarkrafan er 300 millj. kr. Þetta eru allt saman tölur sem maður fær ekki alveg til að ganga upp. Ég hef satt að segja áhyggjur af því að menn hafi ekki lagt nógu ríka vinnu í að fara yfir rekstur Ríkisútvarpsins í heild áður en tilgreindar uppsagnir sem voru birtar í gær komu fram.

Ég verð líka að viðurkenna að viðbrögðin hér í þingsal komu mér nokkuð á óvart vegna þess að þetta er fjarri því eina stofnunin sem hefur verið skorið niður hjá undanfarandi ár. Ég man til dæmis ekki eftir því að hafa séð þingmenn hópast hér upp í ræðustól sérstaklega út af niðurskurði til lögreglunnar undanfarin ár. [Kliður í þingsal.] Ég man heldur ekki eftir því að sett hafi verið á stofn fésbókarsíða út af niðurskurði til lögreglunnar og ég man heldur ekki eftir því að menn hafi boðað til stuðningsfundar við lögreglustöðina. Ég man reyndar eftir áhlaupi á hana en ekki eftir stuðningsfundi. (Forseti hringir.) Ég held að menn ættu aðeins að ígrunda það hvernig ráðist er í niðurskurð (Forseti hringir.) þegar honum þarf að beita.[10:59]
Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Það er rétt sem hv. þingmaður sem talaði á undan mér sagði, það skiptir máli hvernig maður ræðst í niðurskurð. En það er með ólíkindum að saka forstöðumann um að grípa til niðurskurðar þegar ákvörðunin kemur frá ríkisstjórninni. Ég verð að segja að ég fékk mikið sjokk þegar við fréttum af því hvernig ætti að fara með fjárveitingar til Ríkisútvarpsins. Við vorum í rauninni búin að sjá það en sáum það svo birtast í uppsögnum í gær. Þetta er dapurlegt núna þegar við erum að halda upp á 30 ára afmæli Rásar 2. Við sjáum gríðarlega stefnubreytingu í málum Ríkisútvarpsins í gegnum fjárveitingar og það hefur verið gagnrýnt áður í þinginu að menn noti þær fjárveitingar til að boða stefnubreytingu.

Við erum með ný lög um hlutverk Ríkisútvarpsins en á sama tíma kemur ráðherra og tilkynnir í rauninni grundvallarstefnubreytingu í því sem Ríkisútvarpið á að standa fyrir. Ekkert „backup“ hér í þinginu fyrir einu eða neinu af því. Það er líka tilkynnt að til standi að breyta því hversu mikið má auglýsa og að frekari niðurskurður verði á næsta ári, samkvæmt tillögu ráðherra í fjölmiðlum. Þetta form á umræðu um fjárlög, um stofnun sem er með hundruð starfsmanna, að skilaboðin komi endalaust í gegnum einhvers konar valdboð, er fullkomlega óþolandi. Þetta verður að vinnast öðruvísi og það er ríkisstjórnin og þeir sem vinna þar sem í raun valda þessum usla.

Við höfum óskað eftir því, minnihlutafulltrúarnir í allsherjar- og menntamálanefnd, að annars vegar útvarpsstjóri og hins vegar stjórn útvarpsins komi til fundar við nefndina vegna þess að þau mál heyra þar undir og stjórnin hefur með fjármál stofnunarinnar að gera. Ég held að gríðarlega mikilvægt sé að við förum yfir hvernig er verið að breyta útvarpinu. Ég verð að segja alveg eins og er að mér sýnist við aftur vera komin með gömlu stefnuna: Við skulum ríkisvæða það sem stendur út af þegar einkageirinn hefur hirt allt sem hægt er að græða á á markaðnum. (Forseti hringir.) Þannig rekum við ekki útvarp á Íslandi. Við þurfum öflugt ríkisútvarp til að virkja breiddina og ég ætla að vona að okkur takist að halda útvarpinu sem útvarpi í almannaþjónustu.[11:01]
Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Það er sannarlega hægt að taka undir áhyggjur hv. þm. Guðbjarts Hannessonar af Ríkisútvarpinu og því sem þar er að gerast. Ég hef svolítið lagt hugann við það að hæstv. ráðherra leggur í máli sínu mikla áherslu á það að halda uppi menningarstarfseminni og þeirri starfsemi sem fram fer á Rás 1 og við kennum við Ríkisútvarpið.

Ég vil ekki síður segja að við þurfum að hafa áhyggjur af fréttaflutningi í landinu. Við þurfum að hafa áhyggjur af því að Ríkisútvarpið geti ekki haldið uppi öflugri fréttaþjónustu vegna þess að það skiptir máli. Vissulega geta menn farið í þann leik að segja að hinir frjálsu fjölmiðlar, sem svo eru kallaðir, þ.e. þeir sem ekki eru reknir af ríkinu, geti haldið uppi fréttaþjónustu — en það er ekki það sama. Við megum ekki rugla því saman, að bara menningarstarfsemin sem Rás 1 heldur uppi þurfi að vera áfram, heldur hef ég miklu meiri áhyggjur af fréttaþjónustunni. Henni þarf að halda áfram.

Ég ætlaði reyndar ekki að tala um þetta, virðulegi forseti. Ég ætlaði að tala um frétt sem ég las um daginn um að forsætisnefnd hefði kært ákvörðun Reykjavíkur um nýtt deiliskipulag. Ég ætlaði að fá þetta bréf áðan og fékk þá þær upplýsingar að ég þyrfti að senda skriflega beiðni til forseta til að fá bréf sem gefið er út í mínu nafni þar sem mitt kjördæmi í Reykjavíkurborg er kært.

Hvernig í ósköpunum stendur á þessu, virðulegi forseti? Ég held að það þurfi að endurskoða það hvaða aðgang þingmenn hafa að skjölum sem gefin eru út í þeirra nafni.[11:03]
Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Fjáraukalögin eru næturlesning þingmanna þessi dægrin. Mig langar til að fjalla um þær auknu 100 milljónir sem þarf vegna fjölgunar aðstoðarmanna hjá ríkisstjórninni, vegna þess að það er fimmtungur þess sem verið er að gera hjá Ríkisútvarpinu. Ekki það að mér finnist Ríkisútvarpið eigi að vera undanskilið niðurskurði en það þarf að gera með skynsamlegum hætti þannig að menn séu búnir að ákveða hvernig stofnun menn ætla að fá og miði síðan fjárframlögin til hennar við það.

Þetta er jafnhá upphæð, þ.e. þessar 100 milljónir, og hæstv. umhverfisráðherra finnst vera of miklir peningar og of mikill kostnaður við framkvæmd nýrra náttúruverndarlaga, svo að sá samanburður sé líka tekinn. Það eru náttúruverndarlög sem hefur tekið mörg ár að vinna, gríðarlegur kostnaður og margar stundir hafa farið í þá vinnu, en henni er allri kastað á glæ. Sama má segja um vinnu um græna hagkerfið, sem var þverpólitísk. Haldnir voru 50 fundir á fjórum árum og gríðarlega umfangsmiklar tillögur komu fram, en þegar maður skoðar fjáraukalögin sést að græna hagkerfið er orðið að einhvers konar húsafriðunarnefnd undir skrifstofu forsætisráðherra þar sem búinn er til liður sem heitir: Græna hagkerfið og verkefni tengd vernd sögulegra og menningartengdra byggða og fornleifa o.fl. Settar eru, svo dæmi sé tekið, 15,5 millj. kr. greinilega til forsætisráðuneytisins sem manni virðist að hæstv. ráðherra eigi að hafa til ráðstöfunar til að láta gera við hús sem honum finnst þurfa að gera við.

Ég verð að segja að sú forgangsröðun sem birtist í ríkisfjármálum með þessum hætti, svo ekki sé haft í huga það heimsmet í skuldaleiðréttingum sem menn ætla að ráðast í á morgun, er að verða sífellt furðulegri, virðulegur forseti.