148. löggjafarþing — 19. fundur
 31. janúar 2018.
störf þingsins.

[15:02]
Silja Dögg Gunnarsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Nýlega hafa verið kynntar tvær skýrslur um stöðu og framtíðarsýn á húsnæðismarkaði. Staðan sem þar birtist er ekkert sérstaklega góð. Við stjórnvöld þurfum að bregðast við þeim ábendingum sem þar birtast með markvissum aðgerðum.

Í skýrslu hagdeildar Íbúðalánasjóðs kemur m.a. fram að íbúðum þyrfti að fjölga um 17.000 á árunum 2017–2019 til að mæta uppsöfnuðum skorti og undirliggjandi þörf. Ólíklegt þykir að uppsafnaður skortur á íbúðum frá árinu 2012 hverfi alveg á næstu tveimur árum. Til samanburðar voru 1.500 íbúðir byggðar árið 2016. Von er á tölum um nýbyggingar og fólksfjölgun fyrir nýliðið ár sem munu varpa frekara ljósi á stöðuna.

Ný skýrsla greiningardeildar Arion banka var kynnt í morgun. Samkvæmt þeirri greiningu mun húsnæðisverð á landinu hækka um 6,6% á árinu 2018 og árið 2019 er gert ráð fyrir 4,1% hækkun og 2,3% hækkun árið 2020. Í greiningunni kemur jafnframt fram að útlit sé fyrir að framboðshliðin verði áfram sein að bregðast við en á tímabilinu 2018–2020 metur greiningardeildin að byggja þurfi 9.000 íbúðir.

Verði eftirspurn meiri en gert er ráð fyrir er spáð að húsnæðisverð geti hækkað um u.þ.b. 9% að meðaltali yfir árið 2018.

Framsóknarflokkurinn hefur ávallt lagt mikla áherslu á húsnæðismál. Á kjörtímabilinu 2013–2016 afgreiddi þingið fjögur afar mikilvæg húsnæðisfrumvörp þáverandi hæstv. húsnæðismálaráðherra, Eyglóar Harðardóttur, m.a. um byggingu almennra íbúða og húsnæðisbætur. Í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar er kveðið á um að ríkisstjórnin beiti sér fyrir umbótum í húsnæðismálum. Ríkisstjórnin ætlar að fara í aðgerðir sem lækka þröskuld ungs fólks og tekjulágra inn á húsnæðismarkaðinn. Meðal annars verða skoðaðir möguleikar á að hægt verði að nýta lífeyrissparnað til þessa og ríkisstjórnin ætlar líka að hefja skoðun á því hvernig fjarlægja megi fasteignaverð úr mælingu neysluvísitölunnar. Ég hvet ríkisstjórnina til dáða og markvissra aðgerða.



[15:04]
Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Það er ánægjulegt þegar þingmannamál komast að í jafn ríkum mæli og raunin er. Það er alltaf jákvætt þegar þingflokkum gefst tækifæri til að heimsækja hina ýmsu aðila og hagsmunasamtök og við nýtum gjarnan þingflokksfundadaga í það. Okkur Framsóknarmönnum gafst færi á að þiggja heimboð til Öryrkjabandalagsins. Var það, verð ég að segja, afar ánægjuleg og lærdómsrík heimsókn á margan hátt. Fulltrúar bandalagsins fóru með afar vönduðum hætti yfir málefni sín og þá baráttu sem þau standa fyrir.

Ég get tekið undir með mörgum hv. þingmönnum sem hafa sagt í þessum ræðustól að tími sé kominn á að við gerum betur. Ég vitna þá m.a. til orða hv. þm. Óla Björns Kárasonar sem ræddi þau mál undir þessum lið fyrir viku. Ég get jafnframt vísað í framsögu hv. þm. Guðmundar Inga Kristinssonar í þingmannamáli í gær til bættra kjara þessa hóps.

Virðulegi forseti. Það er ekki aðeins víðtæk sátt um þetta mál meðal hv. þingmanna í salnum heldur birtist sá vilji hæstv. ríkisstjórnar í stjórnarsáttmála að nú verði ráðist í verulegar umbætur. Þar kemur m.a. fram að hæstv. ríkisstjórn muni efna til samráðs við forsvarsmenn örorkulífeyrisþega um breytingar á bótakerfinu sem er auðvitað afar nauðsynlegt. Það hefur hæstv. félagsmálaráðherra þegar boðað með það að markmiði að einfalda kerfið og tryggja framfærslu.

Það eru fleiri mál sem við þurfum að klára samhliða. Ég nefni frumvörpin sem eru í hv. velferðarnefnd, lögfestingu NPA, aukið framboð starfa hjá hinu opinbera fyrir fólk með skerta starfsgetu, innleiðingu sáttmálans og valkvæðan viðauka.



[15:07]
Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég trúi ekki öðru en að mörgum hafi verið brugðið fimmtudaginn 25. janúar eftir að hafa lesið og hlustað á sögur kvenna af erlendum uppruna sem birtust í fjölmiðlum þennan dag í tengslum við átakið Í skugga valdsins. Ég var alla vega með æluna í hálsinum allt kvöldið.

Þó held ég að innst inni höfum við mörg haft grun um að ýmislegt af því sem þar kom fram viðgengist í okkar samfélagi. Það er bara svo miklu þægilegra að vita ekki af því. Þá losnar maður við ógleðina. Þennan dag fengum við sögurnar framan í okkur og þær voru hræðilegar. Þvílíkur kjarkur og hugrekki sem þær konur sýndu sem þarna stigu fram. Eins og fram kom þegar við ræddum samfélagsbyltinguna Í skugga valdsins í þingsal þann 19. desember sl. þarf fjölbreyttar leiðir til að vinna gegn kynbundnu ofbeldi og kynferðislegri áreitni. Það er mikilvægt að einstaklingar breyti hegðun. Þannig breytist menning. Það er líka mikilvægt að tryggja verkferla innan stjórnsýslunnar og að löggjafinn tryggi skilvirka löggjöf í kynferðisbrotamálum.

Oft er samt ekki nóg að tryggja lagalegan rétt. Vandinn er að þótt lagalegur réttur sé tryggður eru réttindin sem hann tryggir ekki alltaf sótt. Það á ekki síst við um konur af erlendum uppruna. Við sem samfélag verðum að finna leiðir sem virka til að vinna gegn kynbundnu ofbeldi gagnvart konum af erlendum uppruna, ekki síður en öðrum konum. Til þess þurfum við upplýsingar. Þær getum við sótt með rannsóknum og samstarfi við aðrar þjóðir. Ég skora á ráðherranefnd um jafnréttismál að taka stöðu þessa hóps til sérstakrar athugunar.

Hvernig náum við jafnrétti fyrir alla í landinu sem skorar hvað hæst á alþjóðlegum mælikvörðum um jafnrétti?



[15:09]
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Herra forseti. Ég vil byrja ræðu mína á varúðarorðum. Hér á eftir mun ég flytja frásagnir af alvarlegu kynferðisofbeldi. Við þingkonur vorum hvattar til þess að mæta svartklæddar í dag til stuðnings #metoo-byltingunni og er það vel. Af því tilefni vil ég lýsa yfir sérstökum stuðningi mínum við konur af erlendum uppruna sem deildu með okkur fyrir ekki svo löngu upplifun sinni af alvarlegu kynferðisofbeldi sem aftur á móti byggir oft á alvarlegu kynþáttahatri — hér á Íslandi. Ég vil því vekja athygli á tveimur af þeim 34 sögum sem birtust frá erlendum konum á dögunum, með leyfi forseta, fyrst frá einni sem á vinkonu sem flutti hingað með dóttur sína:

„Hún bjó með manni sem misnotaði 11 ára dóttur hennar kynferðislega og beitti hana ofbeldi, bæði andlegu og líkamlegu. Hún tilkynnti það til lögreglu en þau gerðu ekki neitt og buðu henni ekki einu sinni upp á túlkaþjónustu eða töluðu við dóttur hennar. Maðurinn hennar beitti hana mjög grófu ofbeldi, nauðgaði henni og hótaði að drepa bæði hana og dóttur hennar ef hún tilkynnti hann aftur. Eftir eitt ár var maðurinn ákærður fyrir annan glæp og fór inn á Litla-Hraun. Vinkona mín flúði út á land með dóttur sinni.“

Með leyfi forseta:

„Ein nótt var versta nótt lífs míns. Ég man að ég var að vinna en ég man ekkert meira þar til daginn eftir. Ég vaknaði líkt og einhver hefði keyrt vöruflutningabíl yfir allan líkama minn. Ég var ekki í neinum fötum og ég þekkti ekki þennan stað sem ég var á. Ég fer að panikka og maður sem ég þekki ekki einu sinni kemur og segir mér að vera ekki móðursjúk, allt sé í lagi, yfirmaður minn sé að koma og sækja mig. Hann kemur og sækir mig og tekur mig grátandi frá þessu húsi helvítis. Hann keyrir mig um í langan tíma og segir mér að slaka á, hann muni borga mér aukalega vegna þess að þetta kom fyrir mig en ég megi ekki segja frá þessu því að þá muni ég ekki getað klárað háskólann, þeir muni taka það af mér af því að ég vinn fyrir þá svart.“

Herra forseti. Hver er ábyrgð okkar á þessum sögum og öðrum þeim líkum? Jú, við getum brugðist tafarlaust við tilmælum ECRI-nefndarinnar um að setja á fót sérhæfða stofnun til þess að berjast gegn kynþáttafordómum og kynþáttamisrétti. Við getum stofnað miðstöð í Reykjavík í ætt við Fjölmenningarsetrið á Ísafirði svo innflytjendur hafi aðgang að þjónustu í Reykjavík og við getum samþykkt alhliða aðlögunarstefnu fyrir innflytjendur. (Forseti hringir.) En fyrst og fremst, herra forseti, getum við hlustað á raddir þessara kvenna, gert þær að okkar og léð máls á þeirra málstað hér sem og annars staðar. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)



[15:11]
Hanna Katrín Friðriksson (V):

Virðulegi forseti. Á þingfundi í síðustu viku urðu þau tíðindi að meiri hlutinn, ráðherrar jafnt sem óbreyttir þingmenn, fylkti liði í þingsal til að fella í atkvæðagreiðslu beiðni hv. þm. Björns Levís Gunnarssonar um skýrslubeiðni varðandi það hvernig ábendingum í rannsóknarskýrslum Alþingis hefði verið framfylgt.

Hv. þingmaður kynnti þingmönnum þessa skýrslubeiðni fyrst í maí sl. Eftir kosningar sl. haust lagði hv. þingmaður, skýrslubeiðandi, aftur fram beiðni um meðflutning fyrir nýtt Alþingi. Hann kynnti þá fyrir þingmönnum breytingar sem gerðar höfðu verið samkvæmt ráðleggingum sérfræðinga, að skýrslubeiðnin yrði nákvæmari, þ.e. henni yrði skipt upp á milli ráðherra og forseta Alþingis.

Skýrslubeiðnirnar urðu þar með þrjár, tvær til tiltekinna ráðuneyta varðandi ábendingar sem vörðuðu stjórnsýsluna þar og viðbrögð við þeim og sú þriðja til forseta Alþingis um viðbrögð við ábendingum í rannsóknarskýrslunum sem eiga við þingið.

Mér vitanlega komu ekki fram á þessum tíma, frá því í maí, ábendingar frá fimm þingmönnum sem í síðustu viku hlýddu kallinu og fundu þessu allt til foráttu, að verkefnið væri vissulega mjög þarft en það þyrfti bara að gera það einhvern veginn allt öðruvísi. Staðreyndin er sú að samantekt af þessu tagi er alla jafna unnin þannig að viðkomandi ráðuneyti svari spurningum sem þingið leggur fyrir. Það er það sem var verið að reyna að ná í gegn, ekki meira og ekki minna.

Ríkisstjórn Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknar hefur á hveitibrauðsdögum sínum orðið mjög tíðrætt um stórsókn á ýmsum sviðum, ekki síst á sviði bættra vinnubragða. Það var enginn slíkur bragur á framgöngu stjórnarliða varðandi þetta mál. Svo ég haldi herlíkingunni áfram var það ekki einu sinni að þau héldu ekki virkinu, þau stunduðu skipulagt undanhald.

Þetta er grafalvarlegt mál og það er vont að þurfa að spyrja, virðulegi forseti: Eru þetta hin nýju vinnubrögð ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur?



[15:14]
Bjarni Jónsson (Vg):

Virðulegi forseti. Víða um land liggja vegir undir skemmdum vegna vanrækslu undanfarinna ára í viðhaldi og frekari uppbyggingu; Vatnsnesvegur, Reykjaströnd, Hegranes, Skógarströnd, vegir í Árneshreppi, uppsveitir Borgarfjarðar og svo mætti áfram telja. Styrking stofnleiða og lagning bundins slitlags á tengivegi hefur setið á hakanum. Brýnar stórframkvæmdir, eins og breikkun Vesturlandsvegar frá Kjalarnesi í Borgarnes, hafa vart komist á dagskrá og undirbúningsvinnu er ábótavant. Þetta hefur gerst þrátt fyrir loforð fulltrúa flestra stjórnmálaflokka í aðdraganda undanfarinna alþingiskosninga. Alþingi hefur samþykkt metnaðarlitlar samgönguáætlanir sem svo hefur ekki einu sinni verið staðið við með því að fjármagna framkvæmd þeirra.

Herra forseti. Alþingi og samgönguráðherra verða að taka sig á. Góðar samgöngur eru lífæð byggðanna. Það er ekki tæk flóttaleið eftir áralanga vanrækslu í samgöngubótum að ætla að fjármagna þær með vegtollum á íbúa einstakra svæða, svo sem íbúa á Akranesi og í Borgarfirði. Samgönguráðherrar sem tala fyrir slíku sýna uppgjöf gagnvart því verkefni að tala fyrir og tryggja fjármuni í nauðsynlegar samgöngubætur af þeim tekjustofnum sem þó eru til þeirra markaðir með margvíslegri gjaldtöku, svo sem af eldsneyti, umferð, bílum og fleiri þáttum.

Vakin er athygli á því í nýjasta tölublaði Bændablaðsins í vandaðri og ítarlegri umfjöllun að um 258 milljarða tekjur af umferð undanfarinna fimm ára hafi ekki verið nýttar til vegagerðar. Tekjustofnar og fjármunir eru greinilega fyrir hendi. Alþingi verður því að taka sér tak, og samgönguráðherra, leggjast á árar og fylgja þeim verkefnum eftir sem honum eru falin og ætlað að tala fyrir. Við þurfum aðgerðir strax í vegamálum. Það er alveg augljóst að tekjustofnarnir eru fyrir hendi, fjármunirnir eru fyrir hendi, (Forseti hringir.) fjármunir sem eru innheimtir með ýmsum hætti en skila sér ekki í samgöngubætur, sem þó standa svona illilega upp á okkur.



[15:16]
Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Mig langar að gera að umtalsefni þungan róður íslenskra fyrirtækja. Við sáum eina birtingarmynd þess í fréttum í gær frá fyrirtækinu Odda sem sagði upp 86 manns. Þetta er birtingarmynd þess að samkeppnishæfni íslenskra framleiðslufyrirtækja á undir högg að sækja. Ástæðan blasir við öllum, sterkt gengi íslensku krónunnar. Þeir sem standa í fyrirtækjarekstri þurfa að standa sig vel í sínum rekstri, vera með góða vöru og geta selt. Það er einn óvissuþáttur sem veldur þó miklu meira um gengi mjög margra fyrirtækja en rekstrarsnilli þeirra sem með fyrirtækin fara, það eru sveiflur í gengi krónunnar. Í einu vetfangi er hægt að þurrka út árangur í rekstri og markaðsstarf. Það er löngu tímabært fyrir okkur að við horfumst í augu við þetta stóra vandamál sem við búum við. Við erum að hrekja í burtu framleiðslufyrirtæki, nýsköpunarfyrirtæki. Þetta eru fyrirtækin sem við ætlum að byggja framtíð okkar á.

Við verðum að horfast í augu við þetta vandamál. Það gengur ekki að halda áfram á þessari braut. Mig langar til að vitna í viðtal við Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins, sem orðaði það þannig í viðtali sem birt var í morgun að svikalogn ríkti í hagkerfinu vegna þess hve nærri hengifluginu íslenskir atvinnurekendur væru komnir. Þetta er mjög alvarlegt mál og mér finnst löngu tímabært að við horfumst í augu við það, tökum að ræða í alvöru um að skipta um gjaldmiðil á Íslandi.



[15:19]
Guðmundur Andri Thorsson (Sf):

Virðulegi forseti. Mig langar að gera að umtalsefni málefni hæstv. dómsmálaráðherra í framhaldi af opnum fundi hjá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd í morgun.

Í því sambandi er rétt að muna að ein af meginástæðum hrunsins sem hér varð árið 2008 er í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis talin vera slök stjórnsýsla sem einkennist af geðþótta, valdasýki og frænd- og vinahygli. Hér höfum við dæmi um ráðherra sem hunsar hæfnisnefnd, fer ekki að ráðum sérfræðinga sinna, sem hún kallar raunar starfsmenn hæfnisnefndar, eins og þar sé um að ræða óviðkomandi hagsmunaaðila úti í bæ en ekki embættismenn sem starfa í almannaþágu.

Það er alvarlegt mál þegar ráðherra fær athugasemd eftirlitsaðila um störf sín. Það er verra þegar ráðherra fær á sig dóm um að hafa brotið lög í starfi sínu. Það er enn verra þegar dómsmálaráðherra fær á sig dóm um að hafa brotið lög. Og þegar dómsmálaráðherra fær dóm á sig um að hafa brotið lög við val á dómara er það alveg skelfilegt. Og þegar dómsmálaráðherra fær á sig dóm um að brjóta lög við að velja dómara fyrir nýtt dómstig er fokið í flest skjól — líka skálkaskjólin.



[15:21]
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Herra forseti. Ég ætla að gera að umtalsefni atvinnuþátttöku fatlaðra. Ég tel fyllsta efni til að ræða hér m.a. fund sem haldinn var fyrr í dag varðandi embættisfærslur dómsmálaráðherra en ég bíð betri tíma til þess. Ég hvet stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd til þess að halda áfram sinni mikilvægu vinnu. Það er líka, talandi um ábyrgð þingsins, mikilvægt núna í ljósi nýjustu upplýsinga að þingið haldi áfram með málið og beini því m.a. síðan áfram til umboðsmanns Alþingis sem greinilega er byrjaður að taka málið upp. Ég tel þær upplýsingar sem hafa verið settar fram á fundinum fyrr í dag vera miklu meira en umhugsunarefni og vil hér í pontu lýsa yfir fyllsta stuðningi við stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd til að fylgja þessu máli eftir, að það verði upplýst, þannig að við fáum alveg á hreint hvernig málum var hagað. Ég tel brýnt og mikilvægt að sú vinna fái að halda áfram og kem hugsanlega á eftir upp um það.

Ég vildi vekja sérstaka athygli á atvinnuþátttöku fatlaðra og því sem stendur m.a. í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar en þar er sem betur fer rætt nokkuð mikið um að það eigi að vera samráð við Öryrkjabandalagið og Þroskahjálp til að efla samfélagsþátttöku fatlaðra, tryggja framfærslu örorkulífeyrisþega, og ég heyrði í síðustu viku að endurskoða ætti m.a. krónu á móti krónu regluna. Við erum öll sammála um að það beri að endurskoða hana og helst afnema. Mér heyrist ekki síst stjórnarþingmenn vera því hlynntir og vil hvetja þá til dáða.

Ég vil líka hvetja forseta þingsins sem er í sama flokki og forsætisráðherra til að beina því til forsætisráðherra að móta strax reglur um hvernig hægt er að byggja undir hlutastörf hjá hinu opinbera og að Stjórnarráðið og ekki síst ráðuneytin — ég reyndi á þeim skamma tíma sem ég var sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að taka á móti fötluðu fólki til að veita því innsýn í bæði störf ráðuneytisins og þeirra stofnana sem þar eru — verði (Forseti hringir.) í fararbroddi við að setja á laggirnar reglur sem umfaðma fólk (Forseti hringir.) sem er með fatlanir með því að fjölga hlutastörfum og auka þannig möguleika fatlaðs fólks til samfélagslegrar þátttöku.



[15:23]
Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Virðulegi forseti. Ég kvaddi mér hljóðs til að ræða aðeins um orkumál og jafnvel til að gerast svo djarfur að setja hér fram framtíðarsýn mína. Ég veit að það er mikil eftirspurn eftir henni í þessum sal.

Ég varð þess heiðurs og þeirrar ánægju aðnjótandi í síðustu viku að fá að hitta fólk bæði í Svíþjóð og Danmörku sem hefur þar komið að málum er varða orkustefnu fyrst og fremst, en orkumál almennt líka, og kynnast því hvernig vélað er um í þeim málum í þessum nágrannalöndum okkar. Ég held að við eigum að læra töluvert af þeim um hvernig við högum þessum málum hjá okkur.

Við þurfum að horfa á orkumálin frá nýjum sjónarhóli. Sú framtíðarsýn sem ég sé er að það ferli sem við eigum að fara í sé að leggja fyrst niður fyrir okkur hvernig samfélag við viljum fyrir framtíð okkar. Ætlum við að stefna að grænu samfélagi árið 2030, 2040? Það á að vera fyrsta skrefið. Annað skrefið er í hvað við ætlum að nýta orkuna til að koma á fót þessari framtíðarsýn sem við höfum náð saman um. Þriðja skrefið á að vera að skilgreina hve mikla orku við þurfum til að ná að framkalla þessa framtíðarsýn okkar. Fjórða skrefið er hvar og hvernig við ætlum að afla þessarar orku og svo að lokum hvernig við eigum að flytja hana frá A til B.

Með öðrum orðum tel ég mikilvægt að byrja á þeim enda sem er hvernig samfélag við viljum sjá á Íslandi, hvert við ætlum að stefna með auðlindir okkar.

Ég bind mikla vonir við það að ekki bara náist þverpólitísk samstaða heldur samstaða úti um allt í samfélaginu um þetta. Ég ætla að geta þess hér að síðasta ríkisstjórn opnaði mjög á að rætt yrði um þessi mál á þverfaglegum grunni. Núverandi ríkisstjórn hugsar sér það svo sannarlega, þ.e. stjórnarmeirihlutinn, að halda áfram og auka enn (Forseti hringir.) frekar samstöðu um þetta því að þetta snýst um það hvernig samfélag við viljum sjá Ísland verða.



[15:26]
Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Veiðigjöldin á yfirstandandi fiskveiðiári hækkuðu um 100%. Hækkunin er þó mest í ýsu, um 127%, og í þorski, 106%. Þessi hækkun sem kom sl. haust er vegna afkomu greinarinnar árið 2015 og hefur verið gagnrýnt að sú aðferð sé notuð að reikna gjaldið út á þennan hátt því að afkomumunurinn á milli ára getur verið mikill og enn meiri ef farið er tvö ár aftur í tímann. Auðlindagjaldið er reiknað út frá gögnum Hagstofu Íslands, en afkomumunurinn á milli fiskvinnslu og útgerðar hefur verið 20%. Samt er það jafnað út, hvort sem viðkomandi útgerð er með fiskvinnslu eða ekki.

Reiknireglan sem notuð hefur verið rennur út næsta haust og er vinna hafin við endurskoðun. Vaxtaafsláttur sem veittur var af lánum sem tekin voru vegna kvótakaupa rann út síðasta haust, en hann var settur á á sínum tíma til að sporna við þungri greiðslubyrði eða gjaldþrotum sem blöstu við mörgum útgerðum.

Staðan í dag er sú að margar útgerðir glíma við bráðavanda í rekstri vegna þessa og hafa einhverjar brugðið á það ráð að selja. Varla getur það verið ásættanleg afleiðing veiðigjaldanna að samþjöppunin í útgerðinni hafi stóraukist síðan þessi gjaldaflokkur var settur á, en staðreyndin er sú samt sem áður að litlum og meðalstórum útgerðum hefur fækkað og margir eru að hugsa sinn gang. Róðurinn er þungur og hafa aðilar komið með hugmyndir um hvort hægt sé að taka upp vaxtaafslátt á ný af lánum sem tekin hafa verið til kvótakaupa, a.m.k. þangað til ný og endurbætt reikniregla lítur dagsins ljós.

Eins hefur Landssamband smábátaeigenda reiknað út að ofgreiðsla hjá smábátaútgerðum upp á 170 milljónir vegna fiskvinnsluþáttar fáist endurgreidd. Hugmyndin um þrepaskiptingu sem er hugsuð til handa þeim sem minnstan kvóta hafa er í umræðunni. Ég hef ekki enn hitt þann útgerðarmann sem ekki vill greiða auðlindagjald.



[15:28]
Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég vil fyrst geta þess í tilefni af ummælum í framhaldi af fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar í morgun að mér finnst þær umræður sem þar áttu sér stað alls ekki gefa tilefni til þeirrar dramatísku yfirlýsingar sem hv. þm. Guðmundur Andri Thorsson var með hér áðan. Um starfið í nefndinni vil ég að öðru leyti segja að núna eiga sér stað samtöl innan nefndarinnar um með hvaða hætti hún eigi og geti nálgast þetta mál. Eins og fram hefur komið er hér mál sem hefur farið fyrir dómstóla og verið reifað þar og komist að ákveðinni niðurstöðu. Jafnframt liggur fyrir að ákveðnir vinklar á því eru þess eðlis að umboðsmaður Alþingis hefur áhuga á að skoða þá og þá þarf að skoða afmörkun starfs nefndarinnar út frá því. Og bara svo það komi fram hafa átt sér stað samtöl innan nefndarinnar og munu á næstu dögum eiga sér stað samtöl um það hvernig nefndin geti nálgast málið. Annars vegar hefur nefndin ekki það hlutverk að endurskoða það sem dómstólar hafa fjallað um eða hins vegar fara yfir á svið umboðsmanns Alþingis. Menn þurfa að hafa það í huga.

Varðandi annað mál sem var reifað í þessari umræðu fyrr af hv. þm. Hönnu Katrínu Friðriksson vil ég geta þess, vegna þess að ég er alveg örugglega einn af sökudólgunum í þessu máli, að ég gerði ítrekað og á ýmsum stigum athugasemdir við form skýrslubeiðni hv. þm. Björns Levís Gunnarssonar og kom þeim athugasemdum á framfæri við forseta að ég átti satt að segja ekki von á að málið kæmi á dagskrá þingsins aftur fyrr en það væri búið að bregðast betur og frekar við þeim ágöllum sem ég taldi vera á málinu. Ég verð að játa að ég sá ekki dagskrá þingsins og þetta mál fyrr en örskömmu fyrir þingfund. (Forseti hringir.) Að einhverju leyti get ég tekið á mig sök fyrir að hafa ekki fylgst nægilega vel með eða átt samtöl við hv. þm. Björn Leví Gunnarsson fyrr en ella. (Forseti hringir.) En efnislegu athugasemdirnar við fyrirkomulag skýrslubeiðninnar standa hins vegar 100% af minni hálfu.



[15:31]
Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég held að ég geti fullyrt að kynferðisafbrot gegn börnum séu viðbjóðslegustu glæpir sem framdir eru. Því koma fréttir af því þegar starfsmaður barnaverndaryfirvalda hefur verið kærður fyrir gróft kynferðisofbeldi gegn börnum í krafti starfa sinna eins og þruma úr heiðskíru lofti.

Nú virðist sem starfsmaðurinn sem kærður hafi verið fyrir kynferðisbrot gegn börnum árið 2010 hafi fengið að starfa hjá barnaverndaryfirvöldum eftir það og að þegar sami aðili var kærður aftur í ágúst sl. fyrir kynferðisbrot hafi hann starfað áfram hjá barnaverndaryfirvöldum í um hálft ár.

Lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins hefur harmað mistök lögreglu. Við getum öll gert mistök en í málum er varða börn og ofbeldi gegn þeim verða þau mistök því miður oft óafsakanleg. Svo virðist sem í báðum tilvikum hafi lögreglunni láðst að tilkynna Barnavernd Reykjavíkur að starfsmaður hjá henni hafi verið kærður fyrir svo alvarlegt brot og að kærurnar hafi ekki með neinu móti komið fram í ráðningarferli mannsins innan Barnaverndar.

Ég ætla ekki að nýta liðinn um störf þingsins til að hnýta í starfslag og verkferla ríkisstofnana en ég vek athygli á þeim atriðum í þeim hörmulegu málum er snúa að þinginu. Því miður er þetta mál enn ein birtingarmynd þess að við sem samfélag tryggjum ekki að berskjölduðustu þegnar íslensks samfélags, börnin okkar, séu tryggðir og varðir fyrir kynferðisafbrotamönnum sem nýta sér ekki bara aldurs- og valdayfirburði heldur sækjast eftir því að vera innan um börn sem eru í veikri félagslegri stöðu. #höfumhátt-hreyfingin sl. sumar snerist akkúrat um það og #metoo-bylgjan líka. Þetta þarf að laga strax, ekki með neinum starfshópum heldur aðgerðum. Ef það er eitthvað sem þarf að laga í lagabókstafnum sem lýtur að því að útvíkka enn frekar heimildir til að opna sakaskrár þegar fólk er ráðið til starfa með börnum þarf að laga það. Ef það er eitthvað sem þarf að laga í að minnka álag á lögreglufólk með því að auka loks fjármuni til lögreglunnar skulum við gera það.

Félags- og jafnréttismálaráðherra fer með yfirstjórn barnaverndarmála á Íslandi og ég kalla eftir því að hann stígi ákveðið niður fæti í samráði við barnaverndaryfirvöld til að tryggja að börn sem eru í umsjón barnaverndaryfirvalda séu ekki innan um kærða kynferðisbrotamenn. Dómsmálaráðherra er yfirmaður lögreglu í landinu. Ég kalla (Forseti hringir.) eftir því að hann berjist í eitt skipti fyrir öll fyrir bættum fjárhag og auknum mannafla hjá lögreglunni. Lögreglan á ekki að vera svo fjárþurfi og mannaflsþurfi (Forseti hringir.) að kærur um kynferðisofbeldi gegn börnum endi í þykkum málastafla (Forseti hringir.) á skrifborðinu. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Við getum gert betur.



[15:33]
Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Herra forseti. Félag kvenna í atvinnulífinu hvetur konur til að klæðast svörtu í dag til stuðnings #metoo-byltingunni og ég sé að við höfum margar, og reyndar karlar líka, í þingsal tekið það til okkar. Við höfum fylgst með hópum kvenna sem hafa stigið fram og sagt frá sögum af áreitni og ofbeldi, nú síðast félagi kvenna af erlendum uppruna sem söfnuðu saman sögum.

En það er einn hópur kvenna sem hefur hingað til ekki treyst sér til að gera sögur sínar opinberar og það eru fatlaðar konur. Þær búa líkt og konur af erlendum uppruna við margþætta mismunun og sumar eru hreinlega í þeirri stöðu að þurfa að reiða sig á þann sem beitir þær ofbeldi um aðstoð í daglegu lífi.

Ég vil brýna stjórnvöld til að muna eftir fötluðum konum í vinnu sinni að breyttu samfélagi og í því sem við sem samfélag getum gert til að bregðast við #metoo-byltingunni. Mér finnst ekki síður mikilvægt að brýna okkur á Alþingi í störfum okkar til að styðja við fatlaðar konur. Lög sem eru samþykkt á Alþingi geta nefnilega haft áhrif á öryggi fatlaðra kvenna.

Mig langar sérstaklega að nefna í því ljósi lög um félagsþjónustu sveitarfélaga sem eru nú til umfjöllunar í hv. velferðarnefnd. Sjáum til þess að fræ #metoo-byltingarinnar nái að spíra alls staðar í samfélaginu og nái til allra kvenna, líka til þeirra kvenna sem hingað til hafa ekki treyst sér til þess að stíga fram og segja sögu sína. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)



[15:36]
Óli Björn Kárason (S):

Herra forseti. Flestir þeirra sem sitja í þessum sal hafa kannski gert sér grein fyrir að samkeppnisstaða íslenskra fyrirtækja er ekki eins og við hefðum viljað að hún væri. Hún hefur orðið lakari á undanförnum missirum. Við voru áminnt hressilega í gær þegar þær leiðu fréttir bárust að prentsmiðjan Oddi hefði sagt upp 86 starfsmönnum. Um er að ræða starfsemi gamalla og gróinna fyrirtækja, Kassagerðarinnar og Plastprents. Forráðamenn Odda skýra það m.a. með sterku gengi íslensku krónunnar og launahækkunum á Íslandi umfram það sem gerist í samkeppnislöndunum.

Það er vert að hafa það í huga. En auðvitað spila fleiri þættir inn í samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja en launakostnaður. Það er t.d. það umhverfi sem íslensk fyrirtæki og í raun íslensk heimili búa við þegar kemur að vöxtum. Ég hef ítrekað haldið því fram að nauðsynlegt sé við endurskoðun laga um Seðlabanka Íslands að sett verði alveg sérstakt ákvæði um að peningastefnunefnd skuli taka mið af því við vaxtaákvarðanir að vaxtamunur milli Íslands og helstu samkeppnislanda sé ekki óeðlilega hár. Hann er óeðlilega hár núna og dregur úr samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja vegna þessa. Seðlabankinn er með beinum hætti að gera samkeppnishæfnina lakari.

Og við megum ekki gleyma umhverfinu sem við búum (Forseti hringir.) íslenskum fyrirtækjum þegar kemur að skattumhverfinu, því að við höfum dálítið um það að segja. Samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja ræðst ekki síst af þeim ákvörðunum sem teknar eru um skatta og gjöld í þessum sal.